Hæstiréttur íslands

Mál nr. 379/1999


Lykilorð

  • Félagsdómur
  • Frávísunarkröfu hafnað


                                                                                                                 

Þriðjudaginn 5. október 1999.

Nr. 379/1999.

Félag íslenskra leikskólakennara

(Gestur Jónsson hrl.)

gegn

launanefnd sveitarfélaga

f.h. Árborgar

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

Félagsdómur. Frávísunarkröfu hafnað.

Launanefnd sveitarfélaga höfðaði mál fyrir Félagsdómi gegn FL og krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að uppsagnir tólf leikskólakennara, félagsmanna í FL, úr störfum hjá sveitarfélaginu Á yrðu dæmdar brot á friðarskyldu á gildistíma kjarasamnings og því ólögmæt vinnustöðvun. Krafðist FL frávísunar málsins. Talið var að málið ætti undir Félagsdóm og var staðfestur úrskurður dómsins þar sem frávísun var hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. september 1999 samkvæmt heimild í 67. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Krefst hann þess að málinu verði vísað frá Félagsdómi og varnaraðili dæmdur til greiðslu málskostnaðar fyrir Félagsdómi og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar á úrskurði Félagsdóms og kærumálskostnaðar.

Málsatvik eru rakin í hinum kærða úrskurði. Milli aðila máls þessa er í gildi kjarasamningur frá september 1997, sem falla á úr gildi 31. desember 2000. Kom sóknaraðili fram fyrir hönd félagsmanna sinna við samningsgerðina samkvæmt 4. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Er það krafa varnaraðila í málinu að viðurkennt verði með dómi Félagsdóms að uppsagnir tólf leikskólakennara, sem eru félagsmenn sóknaraðila, úr störfum hjá Árborg verði dæmdar brot á friðarskyldu á gildistíma kjarasamningsins og því ólögmæt vinnustöðvun. Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 á Félagsdómur að dæma um lögmæti boðaðra eða þegar hafinna vinnustöðvana. Málsókn sína gegn sóknaraðila byggir varnaraðili og á 4. mgr. 27. gr. laganna, þar sem segir að stéttarfélög reki mál sín og félagsmanna sinna fyrir Félagsdómi.

Við efnisúrlausn máls þessa yrði úr því skorið hvort uppsagnir fyrrgreindra félagsmanna sóknaraðila feli í sér ólögmæta vinnustöðvun og þá jafnframt tekin afstaða til ábyrgðar og aðildar sóknaraðila, en hann krefst til vara sýknu vegna aðildarskorts. Að þessu athuguðu og með vísan til ofangreindra lagaákvæða þykir mál þetta heyra undir Félagsdóm. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður á að vera óraskaður.

Kærumálskostnaður fellur niður.