Hæstiréttur íslands
Mál nr. 438/2004
Lykilorð
- Akstur sviptur ökurétti
- Ölvunarakstur
- Hraðakstur
|
|
Fimmtudaginn 17. mars 2005. |
|
Nr. 438/2004. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Hjálmari Vagni Hafsteinssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Akstur án ökuréttar. Ölvunarakstur. Hraðakstur.
H var sakfelldur fyrir ölvunarakstur og akstur án ökuréttar og gekkst hann við sakargiftum. Var H sviptur ökurétti ævilangt og gert að sæta fangelsi í 9 mánuði, en um var að ræða margítrekuð brot.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 25. október 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Hjálmar Vagn Hafsteinsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 27. september 2004.
Mál þetta er höfðað með ákæru útgefinni af sýslumanninum í Keflavík 16. ágúst 2004 gegn Hjálmari Vagni Hafsteinssyni, kt. [...], Grænási 3a, Njarðvík, „fyrir ölvunarakstur, sviptingarakstur og hraðakstur, með því að hafa, laugardaginn 5. júní 2004, ekið bifreiðinni KV-116, undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti, austur Reykjanesbraut vestan við Vogaveg, með allt að 113 km hraða á klst., þegar tillit hefur verið tekið til vikmarka, en þar er hámarkshraði 90 km á klst. (mál nr. 34-2004-2258). Niðurstaða alkóhólákvörðunar blóðsýnis var 2,22 0/00.
Telst þetta varða við 2. mgr. 37. gr., 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 sbr. lög nr. 48/1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar sbr. 100. gr. umferðarlaga, sbr. lög nr. 57/1997 og sviptingar ökuréttar sbr. 101. og 102. gr. umferðarlaga, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993.”
Ákærði hefur gegnum tíðina margbrotið ákvæði 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Eftir að ákærði náði 18 ára aldri hlaut hann eftirfarandi dóma fyrir brot gegn 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. umfl.: Þann 20. desember 1990, 25. febrúar 1992, 5. mars 1993, 7. febrúar 1997 og 6. desember 2000. Ennfremur hefur ákærði verið dæmdur sem hér segir fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umfl.: 25. febrúar 1992, 5. mars 1993, 6. desember 2000, 7. desember 2001 og 21. ágúst 2002.
Með broti sínu nú hefur ákærði í sjötta sinn frá árinu 1990 gerst brotlegur annars vegar við 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga og hins vegar við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Ennfremur hefur ákærði gerst sekur við brot gegn 2. mgr. 37. gr. umferðarlaga. Samkvæmt því og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða nú hæfilega ákveðin 9 mánaða fangelsi.
Þá ber samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 84/2004 að árétta hina ævilöngu sviptingu ökuréttar. Skal ákærði samkvæmt því sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.
Loks ber samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Ólöf Pétursdóttir dómstjóri kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Hjálmar Vagn Hafsteinsson, sæti 9 mánaða fangelsi.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá dómsbirtingu að telja.
Ákærði greiði allan sakarkostnað.