Hæstiréttur íslands
Mál nr. 222/2009
Lykilorð
- Veðréttindi
- Tilboð
- Samningur
|
|
Fimmtudaginn 28. janúar 2010. |
|
Nr. 222/2009. |
Jón F. Hjartarson (Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn Arion banka hf. (Skúli J. Pálmason hrl.) |
Veðréttindi. Tilboð. Samningur.
J höfðaði mál og krafði A um endurgreiðslu fjár sem hann hafði greitt til A. Um var að ræða greiðslu vegna skulda sem tryggðar voru með veði í fasteign foreldra J. Í málinu hélt J því fram að hann hefði innt greiðsluna af hendi með fyrirvara um endurheimtu hluta hennar. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að slíkur fyrirvari hefði falið í sér nýtt tilboð af hálfu J til A um uppgjör á veðskuldum sem hvíldu á eigninni, sem A hefði þurft að samþykkja, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1936. Ekkert í gögnum málsins benti til þess að J hefði kallað eftir sérstöku samþykki A, við þeim fyrirvara sem hann kvaðst hafa gert, þegar hann greiddi, svo sem nauðsynlegt hefði verið ef hann vildi binda A við hann. Var A því sýknað af kröfum J í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. maí 2009. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 6.527.430 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. september 2005 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Staðfest er með vísan til forsendna sú niðurstaða í hinum áfrýjaða dómi að hafna málsástæðu stefnda um aðildarskort áfrýjanda.
Svo sem í héraðsdómi greinir gaf stefndi 15. júlí 2005 skriflega yfirlýsingu þar sem hann lofaði að aflétta öllum veðum sínum af eigninni Fornistekkur 11, Reykjavík, gegn greiðslu á 19.500.000 krónum fyrir 1. september 2005. Voru í yfirlýsingunni talin upp tvö veðskuldabréf og tryggingabréfið nr. 301-63-7145 sem aðilar deila um í þessu máli. Í þessari yfirlýsingu stefnda fólst í reynd tilboð til áfrýjanda um lyktir á þeim kröfum stefnda sem nutu veðréttar í fasteign foreldra áfrýjanda að Fornastekk 11. Talið verður að með greiðslu sinni 1. september 2005, sem var í samræmi við yfirlýsinguna, hafi áfrýjandi fallist á efni hennar. Að greiðslu lokinni aflétti stefndi veðrétti sínum.
Áfrýjandi hefur haldið því fram að hann hafi við greiðsluna 1. september 2005 gert fyrirvara um endurheimtu hluta hennar. Slíkur fyrirvari hefði falið í sér nýtt tilboð af hálfu áfrýjanda, sem stefndi hefði þurft að samþykkja, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að áfrýjandi hafi kallað eftir sérstöku samþykki stefnda við þeim fyrirvara sem hann kveðst hafa gert, þegar hann greiddi, svo sem nauðsynlegt hefði verið ef hann vildi binda stefnda við hann. Þegar af þessari ástæðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu stefnda staðfest.
Samkvæmt þessum málsúrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.
Áfrýjandi, Jón F. Hjartarson, greiði stefnda, Arion banka hf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2009.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 20. janúar sl., er höfðað með birtingu stefnu 9. apríl 2008. Málið var endurupptekið í dag, 10. febrúar og dómtekið á ný.
Stefnandi er Jón F. Hjartarson, Jöklatúni 10, Sauðárkróki.
Stefndi er Nýi Kaupþing banki hf., áður Kaupþing banki hf., áður Búnaðarbanki Íslands.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 6.527.430 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. september 2005 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Málsatvik
Faðir stefnanda, Hjörtur F. Jónsson, sem nú er látinn, samþykkti að sonur hans og bróðir stefnanda, Stefán Hjartarson, veðsetti eign sína að Fornastekk 11, Reykjavík með veðskuldabréfi útgefnu í Reykjavík að fjárhæð 4.000.000 króna 13. mars 1995 og með tryggingarbréfi, útgefnu í Reykjavík 22. maí 1995, nr. 301-63-7145, að fjárhæð 4.000.000 króna, sem ætlað var, samkvæmt efni bréfsins að tryggja allar skuldbindingar GMÞ bílaverkstæðisins hf., síðar Hummer umboðsins ehf., en Stefán, bróðir stefnanda, rak fyrirtækið GMÞ bílaverkstæðið hf.
Þann 9. apríl 1997 gaf GMÞ Hummer umboðið ehf. út skuldabréf nr. 18631 með sjálfskuldarábyrgð eða handveði að fjárhæð 4.000.000 króna. Skuldabréfið var til eins árs, gjalddagi fyrstu afborgunar 5. maí 1997. Í skuldabréfinu kemur fram að körfuhafa sé sett að handveði tryggingarbréf nr. 301-63-7145. Á skuldabréfið ritaði stefnandi samkvæmt umboði foreldra sinna, til staðfestingar samþykki þinglýstra eigenda. Skuldabréfinu var skilmálabreytt í október 1999. Það skyldi sem fyrr greiðast á einu ári með mánaðarlegum afborgunum, hið fyrsta sinn 5. nóvember 1999. Á skilmálabreytingunni er veð fyrir skuldinni tilgreint sem tryggingarbréfið nr. 7145.
GMÞ Hummer umboðið ehf. lenti í greiðsluerfiðleikum á árinu 2000 og leitaði ofangreindur Stefán, bróðir stefnanda, til stefnda á því ári og freistaði þess að leysa úr greiðsluerfiðleikum fyrirtækisins, m.a. með sölu á fasteign Stefáns að Logafold 162. Meðal áhvílandi skulda á þeirri eign voru tvö lífeyrissjóðslán. Samkvæmt beiðni Stefáns og eiginkonu hans, Áslaugar, frá 6. júlí 2000 var farið fram á við stefnda að greitt yrði upp lán á 4. veðrétti í Fornastekk 11, þ.e. tryggingabréf nr. 301-63-7145 ,,með veðflutningi á tveimur lánum hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, B-deild, hvort að upphæð 1.650.000 krónur af Logafold 162.“
Með skilyrtu veðleyfi frá 26. júlí 2000 samþykkti stefndi veðflutning ofangreindra veðskuldabréfa á fasteignina Fornastekk 11, bæði að höfuðstólsfjárhæð 1.650.000 krónur og að áhvílandi veðskuldir stefnda vikju fyrir þeim, allt gegn greiðslu til stefnda að fjárhæð 4.000.000 króna. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefndi hafi samþykkt að aflýsa fyrrgreindu tryggingarbréfi nr. 7145, en því mótmælir stefndi og bendir á að uppreiknuð staða tryggingabréfsins hafi í ágúst 2000 verið 5.566.115 krónur. Af hálfu Stefáns voru greiddar 11. ágúst 2000, 4.000.000 króna til stefnda.
Bú GMÞ Hummer umboðsins ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 23. ágúst 2001 og var óskað eftir nauðungarsölu á fasteign foreldra stefnanda. Þrívegis á árunum 2002 til ársins 2005 krafðist stefndi nauðungarsölu eignarinnar. Samkvæmt yfirlýsingu stefnda frá 15. júlí 2005 lofaði stefndi að aflétta öllum veðum bankans af eigninni Fornastekk 11, Reykjavík yrðu 19.500.000 krónur greiddar til stefnda fyrir 1. september 2005. Í yfirlýsingunni kemur fram að um sé að ræða veðskuldabréf á 3. veðrétti að fjárhæð 4.000.000 króna og tryggingarbréf á 7. veðrétti að höfuðstólsfjárhæð 4.000.000 króna. Þá kemur fram í yfirlýsingunni að verði tryggingarbréfið nr. 7145 greitt fyrir 1. september 2005, verði það afhent greiðanda. Fjárhæðir þeirra skuldabréfa, sem stefndi lofaði að aflétta, námu samtals 31.899.811 krónum. Stefnandi leysti eignina til sín, 7. júní 2005 og greiddi ofangreindar kröfur til stefnda 1. september 2005.
Stefnandi leitaði til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki með bréfi 27. febrúar 2006. Var þá upplýst af hálfu stefnda að 3.258.700 krónur af 4.000.000 króna greiðslu Stefáns, bróður stefnanda, frá 11. ágúst 2000 hefðu runnið til greiðslu yfirdráttar á tékkareikningi GMÞ Hummer umboðsins ehf.
Stefnandi vísaði málinu til úrskurðarnefndarinnar með kvörtun 9. júní 2006. Málinu var vísað frá nefndinni. Aftur kvartaði stefnandi til nefndarinnar með bréfi í byrjun árs 2007 en nefndin hafnaði kröfum stefnanda með úrskurði 5. júní 2007.
Í málinu hefur verið lagt fram tölvuskeyti frá 2. júní 2005, frá Ómari K. Jóhannessyni, sem þá var lögfræðingur stefnda. Þar segir m.a.: ,,Eftir að hafa rætt við Ársæl minnir okkur að atvik málsins hafi verið eftirfarandi í stórum dráttum: Stefán gerði samkomulag við BÍ á samþykkisfrestinum og greiddi til bankans nægilega háa fjárhæð til að bæði 4m tryggingarbréf og veðskuldabréf að sömu fjárhæð yrðu greidd upp og gegn því samþykkti bankinn að aflýsa skjölunum af eigninni. Að þessu frágengnu afturkallaði bankinn uppboðið en hann var uppboðsbeiðandi ásamt Lífeyrissjóðnum Framsýn ... “
Í framburði stefnanda fyrir dómi kom fram að hann hefði innt af hendi til stefnda 19.500.000 krónur til þess að forða eign foreldra sinna frá nauðungaruppboði. Spurður nánar um ástæður þess hvað hann að sér hefði runnið blóðið til skyldunnar og því innt af hendi þessa greiðslu.
Hrafnkell Ásgeirsson hæstaréttarlögmaður kom fyrir dóm. Hann kvaðst ekki geta gert sér grein fyrir því hvenær honum varð ljóst að margnefndu tryggingarbréfi, nr. 7145, hefði ekki verið aflýst, þrátt fyrir fjögurra milljón króna greiðslu frá bróður stefnanda til stefnda. Þá var hann spurður um hvort hann gæti staðfest það sem fram kæmi í stefnu, að sameiginlegur skilningur hans og lögfræðinga stefnda hafi verið sá að gegn greiðslunni yrði tryggingarbréfinu aflétt af Fornastekk 11. Svaraði hann því ekki beint, en benti á að langt væri um liðið og kvaðst hafa trúað því að ,,þeir hefðu verið á réttri leið með að fá bréfinu aflýst“.
Ómar Karl Jóhannesson, fyrrverandi lögfræðingur hjá Búnaðarbanka kvaðst hafa sent tölvuskeyti það sem liggur frammi í málinu frá 2. júní 2005. Vitnið kvað að hann myndi ekki betur en að þær fjórar milljónir sem greiddust í ágúst 2000 til bankans ættu að greiðast til þess að hægt væri að afmá a.m.k. eitt af þessum bréfum, sem nefnd eru í tölvuskeytinu. Hann kvaðst þó ekki hafa komið að málinu fyrr en eftir að þessar fjórar milljónir greiddust af fasteign Stefáns, bróður stefnanda.
Vitnið, Ársæll Hafsteinsson, kvaðst ekki minnast þess að svo hafi um samist að afmá ætti tryggingarbréf að fjárhæð 4.000.000 króna gegn þeirri fjögurra milljóna króna greiðslu sem kom frá Stefáni Hjartarsyni. Skuldin að baki tryggingarbréfinu hafi verið töluvert hærri og hann kvað töluverða ,,tapshættu“ hafa verið í málinu og þótti í ljósi þess ólíklegt að aflétta ætti tryggingum, eins og fyrrnefndu tryggingarbréfi.
Gunnhildur Sveinsdóttir lögfræðingur hjá Búnaðarbanka kom fyrir dóm. Hún kvað að sér hefði ekki verið kunnugt um á því tímabili er Fornistekkur 11 var í nauðungarsölumeðferð, þ.e. á árunum 2002-2005, að Stefán, Hrafnkell Ásgeirsson, eða faðir stefnanda hafi nokkru sinni gert athugasemdir við að margumræddu tryggingarbréfi hefði ekki verið aflýst. Þá kvað hún að stefnandi hefði ekki gert neinn fyrirvara varðandi greiðslu þá sem hann innti af hendi til bankans, 19.500.000 krónur, til að ljúka ábyrgðarskuldbindingum föður síns. Hún kvaðst tvisvar hafa hitt Hrafnkel Ásgeirsson og þá hafi hann verið að semja um frestun á nauðungarsölu, en hann hafi ekki minnst á aflýsingu umrædds tryggingarbréfs.
Vitnið, Birgir Rafnsson, hjá útibúi stefnda á Sauðárkróki, kvaðst muna eftir því að stefnandi hafi haft uppi orð um það að hann ætlaði að fara lengra með þetta mál, er hann innti greiðsluna af hendi til stefnda, jafnvel þótt vitnið hafi sagt við stefnanda að hann væri að gera ,,góðan díl“ gagnvart bankanum. Hann kvað að sig minnti að hann hefði komið þessum skilaboðum áleiðis til Gunnhildar Sveinsdóttur lögfræðings.
Við endurupptöku málsins í dag lagði stefndi fram svohljóðandi yfirlýsingu:
,,Yfirlýsing þessi gerð vegna dómsmáls Jóns F. Hjartarsonar gegn Kaupþingi banka hf. nr. E-2568/2008. Með ákvörðun FME frá 21. október 2008 var tekin ákvörðun um ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings banka hf. kt. 560882-0419 til Nýja Kaupþings, kt. 581008-0150. Nýi Kaupþing banki hf. lýsir því yfir að með fyrrnefndri ákvörðun FME hafi hann tekið yfir þar til tekin réttindi og skyldur Kaupþings banka hf. þ.m.t. aðild að ofangreindu dómsmáli“.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir kröfu sína á því að stefndi hafi knúið fram greiðslu á 6.527.430 krónum með ólögmætum hætti.
Hann kveður að stefnda hafi verið óheimilt að taka 3.258.700 krónur af greiðslunni frá 11. ágúst 2000 til þess að greiða ótryggða yfirdráttarskuld GMÞ Hummer ehf. Með því hafi stefndi látið fjármuni, sem umsamið hafi verið að rynnu til annars, renna til greiðslu krafna sem hann hafði engar tryggingar fyrir og sem hann hefði tapað í eftirfarandi gjaldþroti GMÞ Hummer ehf. Sú háttsemi hafi heldur ekki verið í neinu samræmi við beiðni foreldra stefnanda og Stefáns og eiginkonu hans frá 6. júlí 2000. Þar komi skýrt fram að óskað sé eftir veðflutningi yfir á Fornastekk 11 gegn uppgreiðslu og aflýsingu tryggingarbréfsins að fjárhæð 4.000.000 króna. Í skilyrta veðleyfinu frá 26. júlí 2000 hafi stefndi fallist á veðflutninginn gegn því ófrávíkjanlega skilyrði að til stefnda greiddust 4.000.000 króna af söluandvirði fasteignar Stefáns. Hér sé órjúfanlegt samhengi á milli og því hafi stefnda verið óheimilt að láta stærsta hluta greiðslunnar renna til greiðslu ótryggðra skulda GMÞ Hummer ehf. Tryggingarbréfið sé veðbréf en ekki skuldabréf og því hafi stefnda verið óheimilt að nota það til greiðslu vangoldins yfirdráttar að ógengnum dómi um skyldu GMÞ Hummer ehf. til að greiða stefnda vangoldinn yfirdrátt. Þá hafi stefndi með engum hætti skýrt af hverju stærstur hluti innborgunar frá 11. ágúst 2000 hafi legið vaxtalaus hjá stefnda frá 11. ágúst til 11. september 2000. Sömuleiðis hafi engin skýring komið fram á því af hvers vegna það hafi tekið stefnda svo langan tíma að upplýsa hvernig hann hafi kosið að verja innborguninni.
Stefnandi kveður að bróðir hans, Stefán, hafi gert samkomulag við stefnda um það með hvaða hætti skyldi ganga frá skuldbindingum vegna GMÞ Hummer ehf. við stefnda. Hluti af því samkomulagi hafi verið að skuldabréfið sem tryggt var með margnefndu tryggingarbréfi skyldi greiða með fullnaðargreiðslu samtals fjórar milljónir króna, þótt uppreiknað virði tryggingarbréfsins hafi hugsanlega verið eitthvað hærri en heildarskuldin samkvæmt skuldabréfinu. Ástæða þess hafi m.a. verið sú að ljóst hafi verið að stefndi hafði ekki nægilegar tryggingar fyrir öllum kröfum sínum á hendur GMÞ Hummer ehf. Stefndi hafi virt þetta samkomulag að vettugi og knúið fram nauðungarsölu á fasteign foreldra stefnanda þannig að stefnanda hafi verið nauðugur einn kost að borga hverja þá fjárhæð sem stefndi krafði hann um. Með þessari háttsemi hafi stefndi tryggt sér með ólögmætum hætti greiðslur vegna GMÞ Hummer ehf. langt umfram það sem hann hafði tryggingar fyrir. Krafan sé því ofkrafin af hálfu stefnda.
Stefnandi telur augljóst að með útgáfu skuldabréfs 9. apríl 1997 hafi tryggingarbréfi nr. 7145 verið breytt úr því að vera tryggingarbréf fyrir öllum skuldbindingum GMÞ Hummer ehf. í það að vera eingöngu handveð fyrir því skuldabréfi. Í skuldabréfinu komi skýrt fram að stefnda sé sett að handveði þetta tryggingarbréf fyrir skuldabréfinu og þegar skuldabréfinu hafi verið skilmálabreytt sé veð skuldabréfsins tilgreint sem umrætt tryggingarbréf og foreldrar stefnanda, sem eigendur veðsins sem tryggingarbréfið hvíldi á, undirrituðu skilmálabreytinguna. Ýmislegt bendi þó til þess að skilmálabreytingin hafi aldrei öðlast gildi.
Stefnandi bendir á að fyrrverandi starfsmenn stefnda, þeir Ársæll Hafsteinsson og Ómar Karl Jóhannesson hafi staðfest að samkomulag í þá veru sem Stefán, bróðir stefnanda, hefur haldið fram, hafi verið gert og að sameiginlegur skilningur á fundum hafi verið að gegn fjögurra milljóna króna greiðslu yrði tryggingarbréfinu aflétt af Fornastekk 11. Þá hafi lögmaður Stefáns, Hrafnkell Ásgeirsson hrl., staðfest sama skilning á því samkomulagi sem gert hafi verið. Stefnandi telji sig því hafa fært fram nægar sönnur þess um hvað hafi verið samið milli Stefáns og stefnda á árinu 2000. Stefndi hafi ekki staðið við sinn hluta þess samkomulags.
Stefnandi hafi ekki átt annarra kosta völ en að semja við stefnda um hverja þá fjárhæð sem hann krafði hann um sumarið 2005, því ef stefnandi hefði ekki gengið að afarkostum stefnda hefði stefndi knúið fram nauðungarsölu á eign foreldra stefnanda. Öll andmæli stefnanda um að tryggingarbréfið ætti ekki lengur að vera áhvílandi á Fornastekk 11 hafi verið virt að vettugi þannig að stefnandi neyddist til að ganga að skilmálum stefnda. Það hafi hann gert með fyrirvara um að láta reyna á lögmæti kröfu stefnda að því er varðaði greiðslu stefnufjárhæðarinnar. Stefnandi hafi látið það koma skýrt fram í öllum samskiptum sínum við stefnda að heildargreiðsluna 19,5 milljónir króna hafi hann greitt með fyrirvara. Ástæða þess að stefnandi telji að stefnda beri að endurgreiða þessa fjárhæð sé sú að fjögurra milljóna króna greiðslan 11. ágúst 2000 hafi verið fullnaðargreiðsla skuldabréfsins sem tryggingarbréfið tryggði og gegn þeirri greiðslu hafi stefndi átt að aflétta tryggingarbréfinu. Með því að krefja stefnanda um stefnufjárhæðina til að gera upp skuldabréfið sem tryggingarbréfið var handveð fyrir, hafi stefndi verið að innheimta skuld sem búið var að greiða. Því beri honum að endurgreiða fjárhæðina.
Stefnandi telji að krafan sem tryggingarbréfið tryggði hafi verið löngu fyrnd gagnvart ábyrgðarmönnunum, foreldrum hans, þegar stefndi krafðist þess að hann greiddi hana með greiðslu á 6.527.430 krónum og vísar í því sambandi til 4. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905. Þetta hafi stefnda átt að vera fullljóst, en efndir hinnar fyrndu kröfu hafi hann knúið fram í skjóli nauðungarsöluhótunar. Eins og nánar hafi verið rakið hér að framan hafi tryggingarbréfinu verið breytt úr því að tryggja allar skuldbindingar GMÞ Hummer ehf. yfir í það að tryggja einvörðungu skuldabréf dagsett 9. apríl 1997. Skuldabréfinu hafi síðan verið skilmálabreytt í október 1999. Síðasta afborgun skuldabréfsins samkvæmt skilmálabreytingu hafi þannig átt að vera 5. október 2000. Skuldabréfinu hafi aldrei verið skilmálabreytt á ný. Kröfur samkvæmt skuldabréfinu gagnvart foreldrunum sem eigendum veðsins hafi fyrnst að fullu 5. október 2004, sbr. 4. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905. Þá telji stefnandi augljóst að stór hluti vaxtakröfunnar sem stefndi hafi reiknað sér sé vegna skuldabréfsins hafi sömuleiðis verið fyrndur, enda fyrnist vaxtakröfur á 4 árum sbr. 2. tl., 3. gr. laga nr. 14/1905. Hafi skilmálabreytingin ekki öðlast gildi þar sem síðari veðhafar hafi ekki staðfest hana, sé enn skýrara að ábyrgð foreldra hafi verið fyrnd. Síðasti gjalddagi á upphaflega skuldabréfinu hafi verið 5. apríl 1998.
Verði litið svo á að stefndi hafi með tryggingarbréfinu bæði haft tryggingu fyrir öllum skuldbindingum GMÞ Hummer ehf. og margnefndu skuldabréfi, telji stefnandi ljóst að með greiðslu fjögurra milljóna króna sem stefnda hafi þá sjálfum verið heimilt að ráðstafa, hafi stefnda borið að aflýsa tryggingarbréfinu, því að það hafi verið kjarni samkomulagsins sem gert hafi verið, þ.e. að tryggingarbréfið yrði afmáð af eigninni.
Með framkvæmd sinni hafi stefndi með ólögmætum hætti tryggt sér greiðslu langt umfram það sem hann hafði tryggingar fyrir, vegna krafna sinna á hendur GMÞ Hummer ehf. Afleiðingar alls þessa sem að framan er rakið séu þær að stefnandi hafi verið krafinn um greiðslu fjárhæðar til stefnda, sem stefndi átti ekki kröfu á að fá. Krafan hafi því verið ólögmæt og því beri stefnda að endurgreiða stefnanda fjárhæðina.
Stefnandi byggir aðild sína að málinu á því að hann hafi verið sá sem greiddi fjárhæð þá sem stefndi krafði um til að stefndi fengist til að aflétta margumræddu tryggingarbréfi.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína aðallega á aðildarskorti. Fyrir liggi í málinu að ekkert samningssamband sé milli stefnanda og stefnda. Stefndi byggi þannig á því að slík tengsl séu ekki til staðar að þau geti skapað stefnanda rétt til þess að hafa uppi endurgreiðslukröfu á hendur stefnda. Fyrir liggi í málinu að Stefán bróðir stefnanda hafi greitt 4.000.000 króna árið 2000 inn á skuldir sínar við stefnda til þess að fá skuldabréf sem hvíldu á fasteign hans að Logafold 162 flutt á fasteignina Fornastekk 11. Enn fremur liggi fyrir að stefnandi hafi greitt 19.500.000 krónur vegna ábyrgðarskuldbindinga föður síns hjá stefnda. Engra gagna njóti við um það hvort og þá hvaða samningssamband sé milli stefnanda og föður hans, en ljóst sé að stefndi eigi enga aðild að því samningssambandi. Þegar af þeirri ástæðu byggi stefndi á því að sé lögmæt krafa um endurgreiðslu til staðar, eins og stefnandi haldi fram, sé það faðir stefnanda sem ætti slíka kröfu en ekki stefnandi. Af þeim sökum sé rangur aðili til sóknar í málinu og beri því að sýkna stefnda með vísan til 16. gr. laga nr. 91/1991.
Verði ekki fallist á sýknu á grundvelli framangreinds, byggir stefndi á eftirfarandi málsástæðum.
Stefnandi virðist byggja kröfur sínar á sjónarmiðum um endurgreiðslu oftekins fjár. Bendir stefndi á að stefnandi afmarki ekki málsgrundvöll málsins fyrr en í lok stefnunnar, þar sem segi að krafan hafi verið ólögmæt og því beri stefnda að endurgreiða fjárhæðina.
Stefndi byggir á því að meginregla sé í íslenskum rétti að almennt séð eigi aðili sem greiðir kröfu ekki rétt á endurgreiðslu. Undantekningar frá þeirri meginreglu séu ef krafa um endurgreiðslu byggi á lögum, samningi eða fyrirvara. Fyrir liggi í málinu að krafa stefnanda byggi ekki á lögum eða samningi. Þá mótmælir stefndi því að stefnandi hafi greitt kröfuna með fyrirvara, en stefnandi hafi ekkert lagt fram þeirri fullyrðingu sinni til staðfestingar. Í því samhengi byggi stefndi á því að ætli stefnandi að bera fyrir sig fyrirvara, beri hann sönnunarbyrði bæði fyrir tilurð og efni fyrirvarans.
Byggir stefndi þannig á því að jafnvel þótt talið væri að stefnandi hafi greitt meira en sem næmi uppreiknuðu tryggingarbréfi fyrir mistök/rangan réttarskilning, liggi alveg fyrir að hann ætti aldrei rétt á endurgreiðslu þar sem óumdeilt er í málinu að GMÞ Hummer umboðið ehf. skuldaði stefnda meira en sem nam andvirði tryggingarbréfsins og því sé um lögmæta kröfu að ræða.
Bendir stefndi á að ekkert samningssamband sé milli stefnanda og stefnda. Hvaða sjónarmið hafi búið því að baki að stefnandi kaus að greiða umrædda fjárhæð sé stefnda ekki ljóst, en alveg sé ljóst að sú greiðslan byggi ekki á samningssambandi milli stefnanda og stefnda. Telji stefndi afar líklegt að ástæða greiðslunnar sé sú að stefnandi hafi kosið að aðstoða föður sinn og koma í veg fyrir að húseign hans yrði boðin upp. Kröfu vegna slíks ætti stefnandi að beina að föður sínum eða dánarbúi hans. Engin gögn hafi verið lögð fram um að slíkri kröfu hafi verið lýst í dánarbú föður stefnanda.
Stefndi byggir á því að fyrrgreint tryggingarbréf hafi veitt honum heimild til þess að leita fullnustu í veðinu. Stefndi mótmælir því að honum hafi verið óheimilt að ráðstafa 3.258.700 krónum til greiðslu á yfirdráttarskuld GMÞ Hummer ehf. Fyrir það fyrsta sé það röng fullyrðing hjá stefnanda að krafan hafi ekki verið tryggð. Krafan sé tryggð með hinu umdeildu tryggingarbréfi, en í tryggingarbréfinu komi fram að það sé til tryggingar skaðlausri og skilvísri greiðslu allra skuldbindinga GMÞ bílaverkstæðis hf. Þegar af þeirri ástæðu sé alveg ljóst að stefnda hafi verið heimilt að ráðstafa greiðslunni til að greiða umrædda yfirdráttarskuld. Beiðni Stefáns, bróður stefnanda, um afléttingu á tryggingarbréfinu veiti enga sönnun fyrir því að stefndi hafi samþykkt beiðnina um afléttingu á tryggingarbréfinu. Í því sambandi verði að hafa í huga að þegar Stefán innti greiðsluna af hendi voru kröfur að baki bréfinu samtals 7.134.23 krónur og því verði ekki séð hvers vegna stefndi hefði átt að samþykkja að gefa eftir kröfu upp á rúmar 7 milljónir með greiðslu á 4.000.000 króna. Í því samhengi sé enn fremur bent á að uppreiknuð staða bréfsins 1. ágúst 2000 hafi verið 5.566.115 krónur. Þannig hafi greiðsla að fjárhæð 4.000.000 króna ekki nægt til þess að greiða upp bréfið. Stefndi mótmælir því að hann hafi samþykkt beiðni foreldra stefnanda og gögn málsins veiti ekki sönnun fyrir þessari fullyrðingu stefnanda.
Stefndi byggir á skilyrtu veðleyfi frá 26. júlí 2000. Samkvæmt nefndu veðleyfi samþykkti stefndi að skuldabréf LSR mætti fara fram fyrir hann í veðröð á fasteigninni Fornastekk 11. Ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir þeirri ráðstöfun var að greiddar væru inn á reikning lögfræðideildar stefnda 4.000.000 krónur. Ekki komi fram í veðleyfinu að stefndi hafi samþykkt að aflétta nefndu tryggingarbréfi og svo virðist sem eina gagnið sem styðji fullyrðingu stefnanda sé beiðni foreldra hans, sem þau riti undir án alls atbeina stefnda. Stefndi mótmælir því að skjal þetta hafi eitthvert sönnunargildi og mótmælir því að hann hafi samþykkt að aflétta umræddu tryggingarbréfi gegn fyrrgreindri greiðslu.
Stefndi kveður fullyrðingar stefnanda um að tryggingarbréf nr. 7145 og skuldabréf nr. 18631 séu tengd með órjúfanlegum hætti, ekki standast. Þá mótmælir hann því sem röngu að ekki hafi verið heimilt að greiða hluta af yfirdrætti með fyrrnefndri greiðslu. Það sé rangt að skuldir að baki tryggingarbréfi þurfi að vera aðfararhæfar til þess að hægt sé að fullnusta þær undir tryggingarbréf. Í því samhengi sé sérstaklega bent á að GMÞ Hummer umboðið ehf., hafi ekki mótmælt skuld samkvæmt yfirdrættinum, hvorki að tilurð né fjárhæð. Enn fremur er bent á að samkvæmt nefndu tryggingarbréfi hafi það verið til tryggingar öllum skuldum félagsins, en ekki aðeins til tryggingar skuld samkvæmt umræddu skuldabréfi. Því sé það rangt sem haldið er fram í stefnu að 3.258.700 krónum hafi verið ráðstafað til skuldar sem ekki hafi verið tryggð með veði. Það þýði að greiða hafi mátt upp hvaða skuld GMÞ Hummer umboðsins ehf. við stefnda, sem var.
Stefndi mótmælir því að með útgáfu skuldabréfs frá 9. apríl 1997 hafi tryggingarbréfi nr. 7145 verið breytt úr því að vera tryggingarbréf fyrir öllum skuldbindingum GMÞ Hummer umboðsins ehf., í það að vera eingöngu handveð fyrir því skuldabréfi. Ekkert sé komið fram í málinu sem styðji þessa fullyrðingu stefnanda og þvert á móti beri tryggingarbréfið með sér hið gagnstæða. Þannig komi ekkert fram í sjálfu tryggingarbréfinu um að því hafi verið skilmálabreytt.
Þá er mótmælt skilningi stefnanda á tölvubréfi fyrrverandi lögmanns stefnda. Í tilvitnuðu tölvubréfi komi fram að ef Stefán ,,greiddi til bankans nægilega háa fjárhæð til að bæði 4m tryggingarbréf og veðskuldabréf að sömu fjárhæð yrðu greidd upp“ myndi bankinn samþykkja að aflýsa skjölunum af eigninni. Fyrir liggi í málinu að einungis hafi verið greiddar 4 milljónir króna sem komist ekki nærri því að greiða upp veðskuldabréf dagsett 13. mars 1995 og tryggingarbréf nr. 7145, en fyrir liggi að uppgreiðslustaða tryggingarbréfsins hafi verið 1. ágúst 2000 5.566.115 krónur. Því sé mótmælt að bankinn hafi samþykkt að aflýsa tryggingarbréfinu gegn nefndri greiðslu.
Stefndi bendir á að þegar hann samþykkti uppgreiðslu á lánum sem hvíldu á Fornastekk 11 með 19.500.000 krónum, hafi áhvílandi heildarskuldir verið 31.989.981 króna. Forsenda stefnda fyrir þessari lækkun hafi verið sú að uppgjöri málsins væri þar með lokið.
Stefndi mótmælir sérstaklega sjónarmiðum stefnanda um fyrningu. Foreldrar stefnanda hafi ritað á nefnt tryggingarbréf sem veðsalar. Veðréttur teljist til óbeinna eignarréttinda og fyrnist ekki samkvæmt íslenskum rétti. Tilvísanir stefnanda til fyrningarlaga eigi því ekki við.
Niðurstaða
Mál þetta hefur stefnandi höfðað til endurgreiðslu fjár sem hann greiddi til stefnda vegna skuldar sem tryggð var með veði í eign föður stefnanda að Fornastekk 11, samkvæmt tryggingarbréfi nr. 301-63-7145. Óumdeilt er að stefnandi er sá sem innti greiðsluna af hendi og telur að hann hafi greitt umfram skyldu. Hann er réttur aðili til að fara með slíka kröfu á hendur stefnda og verður stefndi ekki sýknaður á grundvelli aðildarskorts stefnanda.
Ágreiningur málsins lýtur einkum að tvennu, annars vegar því hvað teljist fram komið í málinu um skilyrt veðleyfi frá 26. júlí 2000 og forsendur að baki því og hins vegar að því hvort stefnandi hafi innt af hendi greiðslu að fjárhæð 19.500.000 krónur með fyrirvara um réttmæti greiðslunnar.
Í beiðni til stefnda frá 6. júlí 2000, sem undirrituð er af Stefáni F. Hjartarsyni, Áslaugu Guðmundsdóttur, Hirti F. Jónssyni og Vigdísi Einarsdóttur, óskuðu Stefán og eiginkona hans að ,,greiða upp lán á 4. veðrétti (tryggingarbréf 301-63-7145) í Fornastekk 11 með veðflutningi á tveimur lánum frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, hvort að upphæð 1.650.000 af Logafold 162.“ Beiðni þessi er ekki undirrituð af stefnda og ekki liggur fyrir samþykki stefnda fyrir henni.
Í skilyrtu veðleyfi frá 26. júlí 2000, sem stefndi undirritar, segir hins vegar að stefndi heimili þinglýstum eiganda Fornastekks 11 að veðsetja eignina til tryggingar tveimur nánar tilgreindum lánum sem áður hvíldu á Logafold 162. Þá segir að veðleyfið sé bundið því ófrávíkjanlega skilyrði að til bankans greiðist 4.000.000 kr. vegna sölu á fasteigninni Logafold 162 og að Fasteignamiðlunin Síðumúla 11, Reykjavík samþykki með áritun sinni að sjá til þess að fjárhæðin greiðist inn á reikning lögfræðideildar Búnaðarbanka Íslands.
Þannig er þess ekki getið í framangreindu veðleyfi að aflétta beri tryggingarbréfi að fjárhæð 4.000.000 króna, nr. 7145, sem hvíldi á Fornastekk 11. Fyrir liggur í málinu að greiddar voru 4.000.000 króna til stefnda 11. ágúst 2000, en meginhluti fjárins var ekki notaður til að greiða upp fyrrgreint tryggingarbréf að fjárhæð 4.000.000, heldur voru 3.258.700 krónur af framangreindri fjárhæð notaðar til að greiða yfirdráttarskuld GM. Hummer umboðsins ehf.
Í margnefndu tryggingarbréfi kemur fram að ,,til tryggingar skaðlausri og skilvísri greiðslu allra skuldbindinga GMÞ bílaverkstæðisins hf. Fornastekk 11, Reykjavík við Búnaðarbanka Íslands, hverju nafni sem nefnast og hvernig sem til þeirra hefur verið stofnað, allt að höfuðstólsfjárhæð 4.000.000, auk vaxta, verðbóta, dráttarvaxta og alls kostnaðar er af vanskilum kann að leiða, þ.á.m. lögmanns- og innheimtukostnaðar og réttargjalda allra“ sé Búnaðarbanka Íslands veðsett eignin Fornistekkur 11 með 6. veðrétti.
Tryggingarbréfið var samkvæmt framangreindu til tryggingar öllum skuldbindingum GMÞ bílaverkstæðisins hf., síðar GMÞ Hummer umboðsins ehf.
Stefnandi hefur sönnunarbyrði fyrir því að samkomulag hafi verið gert um að greiðslu bróður stefnanda, 4.000.000 króna til stefnda yrði ráðstafað til uppgreiðslu fyrrgreinds tryggingarbréf og það afmáð úr þinglýsingabókum.
Framburður vitnisins Ársæls Hafsteinssonar sem starfaði sem lögfræðingur hjá stefnda, rennir ekki stoðum undir þá staðhæfingu stefnanda að slíkt samkomulag hafi verið gert og kvað vitnið skuld að baki tryggingarbréfinu hafa verið töluvert hærri og þótti vitninu ólíklegt að aflétta ætti tryggingum, eins og fyrrnefndu tryggingarbréfi. Vitnið Ómar Karl Jóhannesson, fyrrverandi lögfræðingur hjá Búnaðarbanka, kvað hins vegar að hann myndi ekki betur en að þær fjórar milljónir sem greiddust í ágúst 2000 til bankans ættu að greiðast til þess að hægt væri að afmá a.m.k. eitt af þessum bréfum, sem nefnd eru í tölvuskeyti sem sent var Helga Sigurðssyni og Ársæli Hafsteinssyni. Við mat á framburði hans verður að hafa í huga að vitnið kvaðst ekki hafa komið að málinu fyrr en eftir að umræddar fjórar milljónir greiddust af fasteign Stefáns, bróður stefnanda, og að efni tölvuskeytisins er ekki í fullkomnu samræmi við það samkomulag sem stefnandi heldur fram að gert hafi verið.
Þá rennir framburður Gunnhildar Sveinsdóttur, lögfræðings hjá Búnaðarbanka ekki heldur stoðum undir þá staðhæfingu stefnanda að gert hafi verið samkomulag við stefnanda um að afmá skyldi framangreint tryggingarbréf gegn greiðslu á fjórum milljónum króna.
Þegar framangreint er virt hefur stefnanda ekki tekist sönnun þess að gert hafi verið samkomulag þess efnis að afmá skyldi ofangreint tryggingarbréf gegn greiðslu á þeim fjórum milljónum sem bróðir stefnanda greiddi til stefnda.
Þá er ekkert fram komið í málinu er styður þá fullyrðingu stefnanda að með útgáfu skuldabréfs 9. apríl 1997 hafi tryggingarbréfinu verið breytt úr því að vera tryggingarbréf fyrir öllum skuldbindingum GMÞ Hummer umboðsins ehf. í að vera eingöngu handveð fyrir því skuldabréfi. Stóð tryggingarbréfið því til tryggingar öllum skuldum félagsins við stefnda.
Stefnandi hefur haldið því fram að hann hafi ekki átt annan kost en að semja við stefnda um hverja þá fjárhæð sem stefndi krafði hann um.
Foreldrar stefnanda eru veðsalar samkvæmt tryggingarbréfi því sem mál þetta snýst um, og er fram komið í málinu að stefnandi kaus sjálfur að greiða ákveðna fjárhæð til stefnda til að afstýra nauðungarsölu á eign foreldra sinna. Gerði stefnandi það af fúsum og frjálsum vilja, þar sem honum rann blóðið til skyldunnar, eins og fram kom í framburði hans fyrir dómi. Verður því ekki fallist á fyrrgreinda málsástæðu stefnanda.
Kveðst stefnandi hafa innt greiðsluna af hendi með ákveðnum fyrirvara, þar sem hann hafi talið að sú fjögurra milljón króna greiðsla sem bróðir hans greiddi 11. águst 2000 hafi verið fullnaðargreiðsla skuldabréfs sem fyrrgreint tryggingarbréf átti að tryggja greiðslu á.
Vitnið Birgir, kvaðst muna eftir þeim orðum stefnanda er hann innti greiðsluna af hendi, að hann ,,ætlaði lengra með þetta mál“.
Ekki er ljóst hvað falist hefur í fyrrgreindum orðum stefnanda og langt frá því sannað að í þeim hafi falist fyrirvari um réttmæti greiðslunnar, sem gæti hafa gefið stefnda ástæðu til að draga í efa að um endanlegt uppgjör væri að ræða.
Jafnframt er alveg ósannað að lögfræðingum stefnda hafi verið gerðir ljósir þeir fyrirvarar sem stefnandi kveðst hafa gert við greiðsluna og vitnið Gunnhildur Sveinsdóttir bar fyrir dómi að stefnandi hefði ekki gert neinn fyrirvara er hann innti greiðslu af hendi til að ljúka ábyrgðarskuldbindingum foreldra sinna.
Verður í ljósi alls framangreinds ekki fallist á að fram sé komin sönnun þess að stefnandi hafi gert þá fyrirvara við greiðsluna að stefndi hafi ekki mátt treysta því að um endanlegt uppgjör væri að ræða.
Stefnandi hefur haldið því fram að krafan sem tryggingarbréfið tryggði hafi löngu verið fyrnd gagnvart foreldrum stefnanda, er stefndi tók við greiðslu úr hendi stefnanda. Eins og að framan greinir greiddi stefnandi kröfu að baki fyrrgreindu tryggingarbréfi og er að mati dómsins ekki sannað að stefnandi hafi gert nokkurn fyrirvara við greiðsluna. Foreldrar stefnanda rituðu undir tryggingarbréfið sem veðþolar. Veðréttur telst til óbeinna eignarréttinda sem fyrnast ekki samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga nr. 14/1905, sem í gildi voru er stefnandi greiddi skuld þá sem mál þetta er sprottið af. Verður því ekki fallist á þessa málsástæðu stefnanda.
Þegar allt framangreint er virt er stefndi sýknaður af kröfu stefnanda.
Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 greiði stefnandi stefnda 500.000 krónur í málskostnað,
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Nýi Kaupþing banki hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Jóns F. Hjartarsonar.
Stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.