Hæstiréttur íslands

Mál nr. 7/2001


Lykilorð

  • Fjárnám
  • Endurupptaka
  • Frelsissvipting
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. júní 2001.

Nr. 7/2001.

Þórður Örn Arnarson

(Guðmundur Kristjánsson hrl.)

gegn

Fógetanum  ehf. og

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Fjárnám. Endurupptaka. Frelsissvipting. Miskabætur.

Að boði sýslumannsins í Hafnarfirði var Þ sviptur frelsi sínu í rúman sólarhring í tengslum við endurupptöku fjárnáms, sem gert hafði verið í eignum hans. Hafði F krafist endurupptöku gerðarinnar án þess að í beiðni hans kæmi fram í hvaða tilgangi endurupptakan skyldi fara fram. Talið var að brostið hefði skilyrði til að verða við beiðninni og að sýslumanni hefði borið að hafna henni þegar í stað af sjálfsdáðum. Því hefði gerðin verið endurupptekin án heimildar í lögum. Með því hefðu F og Í sýnt af sér gáleysi, sem meta yrði þeim til sakar. Þar sem lagastoð brast fyrir endurupptökunni var fallist á að frelsissvipting Þ hefði verið ólögmæt og að hann ætti rétt til bóta af þeim sökum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. janúar 2001. Hann krefst þess að stefndu verði gert í sameiningu að greiða sér 1.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. desember 1999 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi Fógetinn ehf. krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi íslenska ríkið krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður.

I.

Samkvæmt gögnum málsins gerði sýslumaðurinn í Reykjavík fjárnám hjá áfrýjanda 6. ágúst 1999 samkvæmt beiðni stefnda Fógetans ehf. fyrir kröfu að fjárhæð samtals 9.398.783 krónur samkvæmt níu skuldabréfum, útgefnum af áfrýjanda 26. júní 1998. Var fjárnámið gert í bifreiðinni KX 326, svo og nánar tilgreindum lausafjármunum, sem munu hafa tengst rekstri áfrýjanda á veitingahúsi að Aðalstræti 10 í Reykjavík. Þessar eignir voru ekki virtar við fjárnámsgerðina.

Stefndi Fógetinn ehf. beindi til sýslumannsins í Reykjavík 18. september 1999 erindi undir yfirskriftinni „Beiðni um endurupptöku aðfarar“. Þar var ekki getið sérstaklega um gerðina, sem óskað var eftir að tekin yrði upp. Var fyrri hluti þessa erindis settur fram eins og leitað væri í fyrsta sinn fjárnáms fyrir áðurgreindri skuld, en undir lok þess, í liðnum „málavextir, rök og heimildir“, sagði þó eftirfarandi: „Gerðarbeiðandi styður heimild sína til að krefjast endurupptöku aðfarargerðar hjá gerðarþola við framangreint heimildarskjal sbr. 66. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Gerðarbeiðandi hefur fengið áreiðanlegar munnlegar upplýsingar um að gerðarþoli hafi, án samráðs við sig og þrátt fyrir yfirlýsingar um hið gagnstæða, selt rekstur sinn á veitingahúsinu Fógetanum, þar sem allt hið fjárnumda er. Telur gerðarbeiðandi að sú sala sé eingöngu gerð til að spilla hagsmunum hans. Tilgangur sölunnar sé að leitast við að gera sem minnst úr verðmæti hins fjárnumda. Grunar gerðarbeiðanda að gerðarþoli hafi jafnvel gert málamyndasamning um hið fjárnumda til þess að geta selt reksturinn aftur án þess að taka eðlilegt tillit til hagsmuna gerðarbeiðanda. Mjög brýnt er að ný aðför fari fram strax til þess að gerðarþola gefist ekki ráðrúm til þess að spilla hagsmunum gerðarbeiðanda enn meira. Telur gerðarbeiðandi mjög líklegt að gerðarþoli sé með vítaverðum og refsiverðum hætti að reyna að skjóta undan eignum sínum með þessum hætti.“ Lögmaður, sem þá gætti hagsmuna stefnda, sendi 21. september 1999 símbréf til áfrýjanda, þar sem hann var kvaddur til að mæta hjá nafngreindum fulltrúa sýslumannsins í Reykjavík á nánar tilteknum tíma 24. sama mánaðar „vegna fjárnámskröfu undirritaðs f.h. Fógetans ehf. á hendur yður.“ Símbréfið var sent á veitingahús áfrýjandans og samrit til lögmanns hans. Í málinu staðhæfir áfrýjandi að hann hafi ekki fengið þessa boðun og lögmaður hans ekki náð til hans fyrr en eftir þann dag, sem hún hljóðaði á. Lögmaður áfrýjanda ritaði á hinn bóginn bréf til sýslumanns 29. september 1999, þar sem tekið var fram að áfrýjandi féllist ekki á að fjárnámsgerðin yrði tekin upp samkvæmt 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sæi lögmaðurinn heldur ekki að beiðnin um endurupptöku styddist við nein þau atvik, sem talin væru upp í 66. gr. sömu laga. Á þeim grunni væri þess krafist að beiðninni yrði vísað á bug.

Af gögnum málsins verður ráðið að á einhverju stigi eftir þetta hafi sýslumaðurinn í Reykjavík framsent beiðni stefnda Fógetans ehf. til sýslumannsins í Borgarnesi, en þá hafi áfrýjandi verið talinn dveljast í umdæmi hans. Síðastnefndi sýslumaðurinn endursendi stefnda beiðnina 11. nóvember 1999 samkvæmt ósk hans. Stefndi beindi erindi sínu á ný til sýslumannsins í Reykjavík með bréfi 19. sama mánaðar, þar sem fram kom að áfrýjandi væri talinn hafast við á nánar tilteknum stað í Hafnarfirði, en sýslumaðurinn í því umdæmi hafi talið rétt að sér bærist málið frá sýslumanninum í Reykjavík. Lét stefndi fylgja bréfinu kæru á hendur áfrýjanda, sem stefndi ritaði ríkislögreglustjóra sama dag, en í henni var í öllu ítarlegra máli greint frá ætluðu framferði áfrýjanda, sem um ræddi í áðurnefndri beiðni stefnda um endurupptöku fjárnámsgerðarinnar. Þessu til samræmis sendi sýslumaðurinn í Reykjavík fram komin gögn til sýslumannsins í Hafnarfirði 24. nóvember 1999.

Með bréfi 6. desember 1999 fór stefndi Fógetinn ehf. þess á leit við sýslumanninn í Hafnarfirði að áfrýjanda yrði ekki tilkynnt fyrir fram um fyrirhugaða aðfarargerð, svo og að hann yrði „handtekinn án fyrirvara og færður til fjárnámsgerðar, sjá 4. kafla aðfararlaga nr. 90.1989, m.a. 21. gr.“ Í bréfinu var greint frá því að áfrýjandi ætti lögheimili að Mánagötu 16 í Reykjavík, en væri talinn hafa aðsetur að Hjallabraut 7 í Hafnarfirði. Var áfrýjandi sagður fara huldu höfði og ekki hafa sinnt boðun til fjárnáms hjá sýslumanninum í Reykjavík, en stefndi teldi hann mundu gera hvað eina til að spilla fyrir aðför ef hann fengi vitneskju um að hún stæði fyrir dyrum, svo sem að mæta ekki til hennar. Gæti dráttur á gerðinni valdið stefnda réttarspjöllum.

Ljóst er af gögnum málsins að sýslumaðurinn í Hafnarfirði varð við framangreindri ósk stefnda Fógetans ehf. Samkvæmt boði sýslumanns leituðu lögreglumenn áfrýjanda og komu að honum, þar sem hann var staddur við Suðurlandsbraut 22 í Reykjavík kl. 8.20 að morgni 9. desember 1999. Í lögregluskýrslu um þetta segir að áfrýjanda hafi þá verið tjáð í hvaða erindagerðum lögreglumennirnir væru og hafi hann orðið við tilmælum um að aka frá umræddum stað að lögreglustöðinni í Hafnarfirði. Þar hafi hann verið færður í fangahús meðan beðið var eftir lögmanni hans og lögmanni stefnda, en síðan hafi verið farið með áfrýjanda á skrifstofu sýslumanns. Samkvæmt endurriti úr gerðabók sýslumanns var beiðni stefnda um fjárnám hjá áfrýjanda tekin fyrir kl. 9.09 nefndan dag. Mótmælti lögmaður áfrýjanda að gerðin færi fram, því beiðni um hana fullnægði ekki skilyrðum 66. gr. laga nr. 90/1989. Með vísan til 2. mgr. 27. gr. sömu laga ákvað fulltrúi sýslumanns að gerðin næði fram að ganga. Stefndi krafðist þess að áfrýjandi upplýsti hvernig hann hefði ráðstafað réttindum sínum vegna veitingahúss að Aðalstræti 10 í Reykjavík, en áfrýjandi neitaði að svara spurningum um það efni, þar sem hann taldi aðfarargerðina ólöglega. Af sömu ástæðu neitaði áfrýjandi að verða við áskorun um að benda á eignir til fjárnáms. Krafðist stefndi þess þá að áfrýjandi yrði sviptur frelsi og féllst fulltrúi sýslumanns á það með vísan til 1. mgr. 29. gr. laga nr. 90/1989. Stefndi krafðist þess einnig á grundvelli 30. gr. sömu laga að veittur yrði aðgangur að húsakynnum áfrýjanda og lokuðum hirslum, en „að svo stöddu“ tók fulltrúi sýslumanns ekki afstöðu til þeirrar kröfu. Í lok bókunar um gerðina var tekið fram að skerðing á frelsi áfrýjanda, sem skyldi standa í 24 klukkustundir, „hófst kl. 8.00 í morgun.“ Að þessu loknu var áfrýjandi færður aftur í fangahús, þar sem honum var haldið þar til kl. 8.00 að morgni 10. desember 1999, þegar farið var með hann á skrifstofu sýslumanns.

Fulltrúi sýslumanns tók fjárnámsgerðina aftur fyrir 10. desember 1999. Í endurriti úr gerðabók segir að þetta hafi gerst kl. 9.30 þann dag. Sömu spurningar og áður var getið voru lagðar á ný fyrir áfrýjanda, sem neitaði eins og fyrr að svara þeim. Borið var undir áfrýjanda hvort hann ætti þrjár nánar tilteknar bifreiðir, sem skráðar væru á nafn hans í bifreiðaskrá, og kvað hann tveimur þeirra hafa verið fargað, en kannaðist við að eiga þá þriðju. Var þar um sömu bifreið að ræða og fjárnám var gert í 6. ágúst 1999. Stefndi Fógetinn ehf. lagði þá fram gögn um veðskuld, sem hvíldi á bifreiðinni, og kvað skuldina vera hærri en gangverð bifreiðarinnar samkvæmt upplýsingum, sem hann hafi aflað. Var bókað að bifreiðin væri „því yfirveðsett og ekki hæf til fjárnáms í máli þessu.“ Þá var og bókað að áfrýjandi hefði daginn áður greint frá því að lausafjármunir í tengslum við veitingarekstur, sem fjárnám var áður gert í fyrir kröfu stefnda, væru í vörslum Geymslusvæðisins ehf. í Kaplahrauni. Fulltrúi sýslumanns hafi kannað það og fengið upplýst að þar væru engir lausafjármunir í eigu áfrýjanda. Áfrýjandi greindi þá frá því að nýir eigendur veitingahússins hefðu flutt munina þaðan og tjáð sér að þeir væru geymdir á nefndum stað. Samkvæmt ábendingu áfrýjanda var fjárnám gert í þessum munum, þótt ekki væri vitað hvar þeir væru. Mat fulltrúi sýslumanns andvirði þeirra 500.000 krónur. Áfrýjandi benti ekki á aðrar eignir til fjárnáms og var gerðinni þá lokið sem árangurslausri að hluta. Heimti áfrýjandi á ný frelsi sitt eftir þetta. Í yfirlýsingu, sem fulltrúi sýslumanns lét frá sér fara síðar um daginn 10. desember 1999, segir að fjárnámsgerðinni hafi verið fram haldið kl. 8.00 þá um morguninn, en ekki kl. 9.30 eins og fram kom í gerðabók. Á þeim tíma hafi gerðinni hins vegar lokið.

Á meðan áfrýjandi var sviptur frelsi samkvæmt framansögðu tilkynnti stefndi Fógetinn ehf. ríkislögreglustjóra að áfrýjandi væri í haldi vegna aðfarargerðar fram til kl. 8.00 að morgni 10. desember 1999. Í bréfi um þetta lét stefndi í ljós þá skoðun að brýnt væri að fyrrnefndri kæru hans yrði sinnt og lögregluskýrsla tekin af áfrýjanda. Hlyti að koma í þeim efnum til skoðunar hvort áfrýjandi yrði hnepptur í gæsluvarðhald í framhaldi af frelsissviptingu í tengslum við aðfarargerðina vegna hagsmuna af rannsókn málsins og til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot hans. Með bréfi 30. október 2000 staðfesti ríkislögreglustjóri að kæru stefnda á hendur áfrýjanda hafi verið vísað frá 10. desember 1999, þar sem ekki hafi þótt tilefni til að hefja rannsókn vegna hennar.

Áfrýjandi krafðist þess 16. desember 1999 fyrir Héraðsdómi Reykjaness að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði gerði hjá sér 10. sama mánaðar að kröfu stefnda Fógetans ehf. Í úrskurði 10. febrúar 2000 vísaði héraðsdómari til þess að samkvæmt 2. tölulið 66. gr. laga nr. 90/1989, sem stefndi hafi undir rekstri málsins vísað til sem stoð fyrir endurupptöku gerðarinnar, væri gerðarbeiðanda heimil endurupptaka til þess að leysa eign undan fjárnámi. Væri ekkert því til fyrirstöðu að nýtt fjárnám yrði gert í beinu framhaldi. Í þessu tilviki hafi þess á hinn bóginn ekki verið gætt, heldur fjárnám verið gert aftur í sömu munum og fyrr án þess að leysa þá fyrst undan fjárnámi. Hvergi væri gerðarbeiðanda heimiluð endurupptaka í þessu skyni og til að fá síðan fjárnámi lokið að hluta án árangurs. Var fjárnámsgerðin því felld úr gildi. Úrskurði þessum var ekki skotið til Hæstaréttar.

Með bréfi 1. mars 2000 krafði áfrýjandi stefndu um bætur „vegna ólögmætrar handtöku, frelsissviptingar og aðfarargerðar, sem fram fór 9. og 10. desember 1999“. Þessu hafnaði stefndi íslenska ríkið 11. apríl sama árs, en ekkert svar virðist hafa komið fram af hendi stefnda Fógetans ehf. Höfðaði áfrýjandi í framhaldi af þessu málið, sem var þingfest í héraði 9. maí 2000, en í því krefst hann eingöngu miskabóta úr hendi stefndu vegna þeirrar frelsissviptingar, sem hann sætti 9. og 10. desember 1999.

II.

Í 66. gr. laga nr. 90/1989 eru tæmandi talin þau tilvik, þar sem gerðarbeiðandi við fjárnámsgerð getur krafist þess upp á eindæmi sitt að hún verði endurupptekin. Áðurnefnd beiðni stefnda Fógetans ehf. 18. september 1999 laut eftir yfirskrift sinni að endurupptöku fjárnámsgerðar, sem hvergi var þó nánar getið þar. Með áður tilvitnuðum orðum voru í beiðninni rakin atvik, sem stefndi taldi gefa tilefni til endurupptöku. Í engu var þó greint í hvaða tilgangi taka ætti gerðina upp á ný, nema skilja hafi átt beiðnina svo að það skyldi gert til að koma í veg fyrir að áfrýjandi skyti undan eignum og spillti hagsmunum stefnda. Ekki var því hreyft að stefndi hygðist freista þess að fá áfrýjanda sviptan umráðum lausafjármuna, sem fjárnám var gert í 6. ágúst 1999, sbr. 1. tölulið 66. gr. laga nr. 90/1989, en eftir ákvæðum þeirrar greinar eru engin önnur bein úrræði en þetta við endurupptöku fjárnáms til að sporna við slíkri háttsemi, sem stefndi bar á áfrýjanda. Ekkert tilefni var til að skilja ummæli í beiðninni svo að stefndi hygðist við endurupptöku leysa muni, einhverja eða alla, undan fjárnámi eða gera þá aðrar ráðstafanir, sem um ræðir í ákvæðum 2. til 6. töluliðar 66. gr. laga nr. 90/1989. Eins og atvikum var hér háttað brast þannig með öllu skilyrði til að verða við beiðni stefnda um endurupptöku gerðarinnar. Hefði sýslumanni með réttu borið að hafna beiðninni þegar í stað af sjálfsdáðum. Það lét hann á hinn bóginn hjá líða og fékk stefndi því þannig framgengt gagnstætt lögum að fjárnámsgerðin var endurupptekin 9. desember 1999. Í því sambandi sýndu stefndu af sér gáleysi, sem meta verður þeim til sakar, en við það mat verður jafnframt að líta til þess að aftur gafst brýnt tilefni til að huga að því hvort ekki væri réttilega staðið að máli þegar atvik þróuðust svo að til álita kom að beita áfrýjanda þvingunarúrræðum samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 90/1989. Fjárnámið, sem var gert 10. desember 1999 hjá áfrýjanda eftir endurupptöku gerðarinnar, var með réttu fellt úr gildi með áðurnefndum úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 10. febrúar 2000. Fær engu breytt fyrir úrlausn þessa máls að sá úrskurður var reistur á forsendum, sem að nokkru lutu að öðrum atriðum varðandi endurupptöku gerðarinnar en að framan er getið. Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrðum 2. mgr. 96. gr. og 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/1989 til að fella á báða stefndu bótaábyrgð gagnvart áfrýjanda vegna endurupptöku fjárnámsgerðarinnar og þess, sem ákvörðun um það efni leiddi af sér.

Með því að lagastoð brast samkvæmt framansögðu fyrir þeirri ákvörðun sýslumannsins í Hafnarfirði að endurupptaka fjárnámsgerðina, sem um ræðir í málinu, brast jafnframt frá öndverðu lögmæt skilyrði til að svipta áfrýjanda frelsi í tengslum við framkvæmd gerðarinnar. Eins og áður greinir varð áfrýjandi við boði lögreglumanna kl. 8.20 að morgni 9. desember 1999 um að halda til lögreglustöðvarinnar í Hafnarfirði. Upp frá því réði áfrýjandi ekki sjálfur ferðum sínum. Honum var haldið í fangahúsi og að nokkru á skrifstofu sýslumanns á grundvelli ákvörðunar samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 90/1989 til að minnsta kosti kl. 9.30 næsta dag. Ekki getur komið sérstaklega til álita við úrlausn málsins að frelsissviptingin hafi samkvæmt þessu staðið lengur en heimilt var samkvæmt nefndu lagaákvæði, enda verður að fallast á með héraðsdómara að áfrýjandi hafi ekki í tæka tíð hreyft málsástæðu, sem að þessu lýtur. Hvað sem því líður var lengd frelsissviptingarinnar auk alls annars úr hófi, en af gögnum málsins verður ekki ráðið að tíminn hafi verið nýttur nema að litlu leyti til að afla upplýsinga um eignir áfrýjanda. Að öllu þessu athuguðu og með vísan til 3. mgr. 96. gr. laga nr. 90/1989 verða stefndu í sameiningu dæmdir til að greiða áfrýjanda 150.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum frá 1. apríl 2000, en þá var liðinn mánuður frá því að hann kynnti stefndu bótakröfu vegna atvika málsins.

Stefndu verða dæmdir til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndu, Fógetinn ehf. og íslenska ríkið, greiði í sameiningu áfrýjanda, Þórði Erni Arnarsyni, 150.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. apríl 2000 til greiðsludags.

Stefndu greiði í sameiningu áfrýjanda samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 31. október síðastliðinn að afloknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu, þingfestri 9. maí 2000.

Stefnandi er Þórður Örn Arnarson, kt. 191070­-4539, Mánagötu 14, Reykjavík.

Stefndu eru Fógetinn ehf., kt. 621188-2169, Aðalstræti 10, Reykjavík, og íslenska ríkið.

 Stefnandi krefst þess, að stefndu verði dæmdir til að greiða honum bætur að upphæð 1.500.000 krónur, óskipt, auk ársdráttarvaxta frá 10. desember 1999 til greiðsludags og málskostnaðar, að viðbættum virðisaukaskatti.

Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi að mati dómsins, en til vara, að bætur verði lækkaðar verulega og að málskostnaður falli þá niður.

I.

Málsatvik

Þann 6. ágúst 1999 gerði sýslumaðurinn í Reykjavík fjárnám í eigum stefnanda vegna skuldar hans við Fógetann ehf. til tryggingar kröfum gerðarbeiðanda, að fjárhæð 9.398.783 krónur. Fjárnámsandlag var bifreiðin KX-326 (ritað af misgáningi HX-326 í gerðabók) og nánar tilgreint lausafé. Með bréfi 18. september 1999 óskaði gerðarbeiðandi endurupptöku aðfarar­gerðarinnar, þar sem hann taldi, að stefnandi hefði reynt að spilla hagsmunum hans með ólögmætum ráðstöfunum á aðfararandlaginu. Stefnandi var boðaður til gerðarinnar af lögmanni gerðarbeiðanda með bréfi, dagsettu 21. september 1999. Í bréfinu var bent á, að ef stefnandi myndi ekki mæta, yrði gripið til þess að láta lögreglu færa hann á staðinn. Stefnandi varð ekki við þessum tilmælum og í kjölfarið kærði gerðarbeiðandi stefnanda til ríkislögreglu­stjóra með bréfi 19. nóvember 1999, þar sem farið var fram á opinbera rannsókn vegna gruns um, að stefnandi hefði með skipulegum hætti spillt og falið veðsetta muni og væri á flótta undan mönnum sýslumanns. Hinn 2l. nóvember 1999 var endurupptökubeiðnin framsend sýslumanninum í Hafnarfirði og með bréfi, dagsettu 6. næsta mánaðar, krafðist gerðarbeiðandi handtöku stefnanda. Stefnandi var handtekinn 9. sama mánaðar, en við fyrirtöku gerðarinnar hjá fulltrúa sýslumannsins í Hafnarfirði í framhaldi af handtökunni neitaði stefnandi að svara spurningum, sem fulltrúinn lagði fyrir hann og þá neitaði hann að verða við áskorun um að benda á eignir til tryggingar kröfunni eða að lýsa yfir eignaleysi. Bar stefnandi fyrir sig, að hann teldi gerðina ólöglega. Í kjölfarið krafðist gerðarbeiðandi þess, að stefnandi yrði sviptur frelsi sínu, þar eð hann taldi, að fjárhagslegir hagsmunir hans kynnu að vera í hættu með slíku áframhaldi. Varð fulltrúinn við þeirri ósk og gaf fyrirmæli um, að stefnandi skyldi vistaður í fangaklefa lögreglunnar í mesta lagi 24 klukkustundir. Gerðinni var fram haldið að morgni næsta dags og gert fjárnám í sömu lausafjármunum og gert var við fjárnámið 6. ágúst, að undanskilinni bifreiðinni KX-326, en gerðinni síðan lokið sem árangurslausri að hluta. Stefnandi kærði fjárnámið til Héraðsdóms Reykjaness, sem felldi það úr gildi með úrskurði 10. febrúar 2000 á þeirri forsendu, að skylt hefði verið að fella fjárnámið frá 6. ágúst úr gildi, áður en síðara fjárnámið færi fram.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því, fjárnámsgerð sú, er fram hófst 9. desember 1999 og lauk næsta dag, hafi verið ólögmæt. Hafi gerðinni verið mótmælt í upphafi og þau mótmæli áréttuð í símbréfi til fulltrúa sýslumannsins í Reykjavík,  dagsettu 29. september 1999. Í bréfinu komi fram sú skoðun stefnanda, að umrædd beiðni sé marklaus og geti ekki verið grundvöllur handtökuskipunar á honum. Við fyrirtöku málsins hjá fulltrúa sýslumannsins í Hafnarfirði hafi stefnandi mótmælt gerðarbeiðninni, þar sem hún væri andstæð skilyrðum 66. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 og ætti því ekki að fara fram. Í ljósi þess hafi stefnandi ákveðið að neita að svara öllum spurningum fulltrúans. Héraðsdómur hafi síðan fellt gerðina úr gildi með úrskurði 10. febrúar 2000. Stefnandi byggir á því, að aðfararbeiðni stefnda, Fógetans ehf., hafi verið  ólögmæt og athafnir fulltrúa sýslumanns vegna hennar gálausar. Þá hafi handtöku­fyrirmæli hans til lögreglu einnig verið löglaus, sem og frelsissviptingin. Enn fremur telur stefnandi, að brotinn hafi verið á honum réttur samkvæmt 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Hann styður bótakröfu sína við ákvæði 96. gr. og 1. mgr. 97. aðfararlaganna, sbr. og 176. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, nefnda stjórnarskrárgrein, 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennu skaðabótaregluna.

III.

Málsástæður og lagarök stefndu

Stefndi, Fógetinn ehf., reisir málsvörn sína á því, að stefnandi hafi sjálfur komið sér í þá stöðu að vera færður af lögreglu til sýslumannsins í Hafnarfirði og að þurfa að þola frelsissviptingu vegna þess að hann hafi ekki sinnt boðunum um að mæta til aðfarargerðar og neitað að svara spurningum um eignir sínar, sem honum hafi þó verið skylt að lögum. Hafi hann þar með sjálfur valdið tjóni sínu, hafi það verið eitthvað vegna þessa, en það hafi ekki verið sannað eða gert sennilegt. Ekki hafi verið sýnt fram á, að stefndi hafi sýnt af sér neitt saknæmt atferli við aðförina, sem gæti stofnað til bótaskyldu af hans hálfu og þá hafi verið farið að lögum við framkvæmd gerðarinnar.

Stefndi, íslenska ríkið, mótmælir því, að sýslumannsfulltrúinn hafi sýnt af sér gáleysi við umrædda gerð, sem leitt geti til gáleysisábyrgðar íslenska ríkisins. Það sé meginregla samkvæmt 26. og 27. gr. laga um aðför nr. 90/1989, að mótmæli gerðarþola fresti ekki aðför. Þvert á móti beri sýslumanni að leiða hjá sér mótmæli, telji hann gerðina lögmæta, sbr. 2. mgr. 27. gr. aðfararlaga. Krafa gerðarbeiðanda hafi fyrir fram löglíkindi til þess að vera rétt. Samkvæmt meginreglu 60. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 geti enginn komist hjá því að sinna boði yfirvalda.  Hins vegar kveði aðfararlögin á um leið til að bera réttmæti aðfarargerðar undir dómara, sbr. 15. kafla laganna. Stefnanda hafi því borið að hlíta fyrirmælum fulltrúans að sinni.

Sönnunarbyrði um, að sýslumannsfulltrúinn hafi ekki sinnt skyldum sínum í samræmi við þær faglegu kröfur, sem gerðar eru til hans, hvíli á stefnanda. Því sé mótmælt, að sú sönnun hafi tekist hjá stefnanda. Telji stefndi, að sýslumannsfulltrúinn hafi tekið á gerðinni með þeim hætti, sem krafist verði af honum, og hann hafi því ekki sýnt af sér bótaskylt gáleysi. Allar undantekningar frá meginreglunni, um að mótmæli stöðvi ekki framkvæmd aðfarar, verði að skýra þröngt. Óvissa hafi ríkt um túlkun 2. tl. 66. gr. aðfararlaga sem úrskurður héraðsdómara hafi leyst að nokkru leyti úr. Gefi úrskurðurinn ekki sjálfkrafa til kynna, að gerðin hafi verið framkvæmd af gáleysi og geti niðurstaða hans því ekki leitt til fortakslausrar bótaskyldu íslenska ríkisins. Skilyrði þess, að um bótaábyrgð skv. 97. gr. aðfararlaganna geti verið að ræða, sé að fulltrúi sýslumanns hafi sýnt af sér gáleysi við framkvæmd gerðar, sem verði metin honum til sakar. Mótmæli stefndi, að slíkt gáleysi hafi átt sér stað, þvert á móti hafi tilefni aðgerðarinnar verið eigin sök stefnanda.

Þá telji stefndi frelsissviptingu stefnanda lögmæta og í fullu samræmi við lög, sbr. 29. gr. aðfaralaga, sbr. 43. gr. 1aga nr. 90/1996. Vægari úrræði hafi ekki verið tæk á þessari stundu, kanna hafi þurft eignastöðu stefnanda og dagsektir ekki komið að haldi, því að rökstuddur grunur hafi leikið á, að stefnandi væri að skjóta eignum undan með ólögmætum hætti. Einnig hafi stefnandi ítrekað virt að vettugi boð sýslumanns um að mæta til gerðarinnar. XXI. kafli laga um meðferð opinberra mála taki einungis til þeirra, sem sætt hafa þvingunaraðgerðum í þágu rannsóknar opinbers máls á hendur þeim. Sé því ljóst, að 176. gr. laganna eigi ekki við í máli þessu. Verði XXI. kafli samkvæmt eðli sínu talinn eiga við, sé því mótmælt, að skilyrði 176. gr. hafi verið uppfyllt við framkvæmd frelsissviptingar stefnanda.

Stefnandi hafi verið fluttur á þann stað, sem fjárnám fór fram, með stoð í 3. mgr. 24. gr. aðfararlaga, að beiðni gerðarbeiðanda, og einnig hafi sýslumaðurinn í Reykjavík með bréfi, dagsettu 6. október 1999, farið fram á það við lögreglustjórann í Reykjavík, að stefnandi yrði boðaður með vísan til nefndrar lagagreinar. Hafi stefnandi enga tilburði sýnt í þá átt að koma að eigin frumkvæði til aðfarargerðar og þar af leiðandi hafi aðgerðir þessar verið nauðsynlegar, svo að gerðin næði fram að ganga.

IV.

Forsendur og niðurstaða

Gögn málsins bera með sér, að erfiðleikum hafi verið bundið að hafa upp á stefnanda vegna boðunar til hinnar umdeildu aðfarargerðar. Var beiðni þar að lútandi fyrst til meðferðar hjá sýslumanninum í Borgarnesi, þá hjá sýslumanninum í Reykjavík og síðast hjá sýslumanninum í Hafnarfirði. Kemur meðal annars fram í gerðarbeiðni, að stefnandi hefði selt rekstur sinn á veitingahúsinu Fógetanum, þar sem hið fjárnumda væri og sú sala væri eingöngu gerð til að spilla hagsmunum gerðarbeiðanda, stefnda Fógetans ehf. Endurupptökubeiðninni var frá upphafi mótmælt af lögmanni stefnanda sem löglausri.

Í skýrslu lögreglunnar í Hafnarfirði, dagsettri 9. desember 1999, kemur fram, að stefnandi hefði ekki sinnt ítrekuðum kvaðningum fulltrúa sýslumanns um að mæta hjá honum. Hins vegar segir í bréfi fulltrúans til ríkislögmanns, dagsettu 31. mars 2000, að þetta sé ekki rétt og hafi handtökubeiðni fulltrúans byggst á því, sem fram kom í ofangreindri gerðarbeiðni. Þá segir þar jafnframt, að litið hafi verið til þess, að sýslumaðurinn í Reykjavík hafi með bréfi, dagsettu 6. október 1999, farið fram á það við lögreglustjórann í Reykjavík, að stefnandi yrði boðaður með vísan til 3. mgr. 24. gr. aðfararlaga.

Með vísan til þess, sem að ofan greinir, er það mat dómsins, að í ljósi ofangreindra aðstæðna hafi fulltrúa sýslumanns verið heimilt að víkja frá skyldu til tilkynningar um aðfarargerð samkvæmt 1. og 2. mgr. 24. gr. aðfararlaga og neyta þeirra þess réttarfarsúrræðis, sem gert var, og kveðið er á um í 3. mgr. 24. gr. aðfararlaga.

Samkvæmt nefndri lögregluskýrslu hafði lögreglan tal af stefnanda að morgni 9. desember, þar sem hann var í bifreið sinni við hús nr. 22 við Suðurlandsbraut í Reykjavík, tilkynni honum ástæðu þess og bað hann að fylgja sér á lögreglustöðina í Hafnarfirði, sem hann og gerði. Var stefnandi færður í fangahús, meðan beðið var eftir lögmanni hans og lögmanni gerðarbeiðanda. Er bókað í gerðabók sýslumannsins í Hafnarfirði, að aðfararmálið hafi verið tekið fyrir í skrifstofu fulltrúa sýslumanns kl. 9.09 um morguninn. Í upphafi gerðar eru bókuð eftir lögmanni stefnanda mótmæli við gerðinni, en fulltrúi ákvað með vísan til 2. mgr. 27. gr. aðfararlaga nr. 90/1989, að gerðin skyldi ná fram að ganga. Stefnandi neitaði að svara spurningum um með hvaða hætti hann hefði ráðstafað réttindum sínum vegna umrædds veitingahúss eða benda á eignir til fjárnáms. Við svo búið var stefnandi sviptur frelsi sínu að kröfu gerðarbeiðanda með vísan til 1.mgr. 29. gr. aðfararlaga. Bókað er í gerðabók, að frelsisskerðing hafi byrjað kl. 8 um morguninn.

Fallist er á með stefnda, íslenska ríkinu, að XXI. kafli laga um meðferð opinberra mála taki einungis til þeirra, sem sætt hafa þvingunaraðgerðum í þágu rannsóknar opinbers máls á hendur þeim og eigi 176. gr. laganna því ekki við í máli þessu.

Í athugasemdum með 29. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 90/1989, kemur meðal annars fram, að gera verði strangar kröfu til þess, að upplýsinga verði ekki aflað með öðrum hætti en beitingu þeirra þvingunarúrræða, sem mælt er fyrir um í greininni. Að auki verði viðkomandi upplýsingar að hafa slíka þýðingu, að gerð geti ekki ná fram að ganga án þeirra með sama eða hliðstæðum árangri. Segir, að heimild sýslumanns til að skerða frelsi gerðarþola án dómsúrskurðar í allt að 24 klukkustundir sé meðal annars ætluð til að ráðrúm gefist til athugunar á, hvort háttsemi gerðarþola kunni að vera refsiverð og að fyrirbyggja, að hann eigi þess kost að spilla sakargögnum eða hagsmunum gerðarbeiðanda á annan hátt, meðan sú athugun stendur yfir.

Stefnandi neitaði að svara þeim spurningum, sem til hans var beint við gerðina, en samkvæmt gerðarbeiðni var talið mjög líklegt, að stefnandi væri ,,með vítaverðum og refsiverðum hætti” að reyna að skjóta eignum sínum undan. Hafði gerðarbeiðandi, stefndi Fógetinn ehf., kært ætlaða refsiverða háttsemi stefnanda í tengslum við ráðstöfun hinna fjárnumdu muna til ríkislögreglustjóra, svo sem áður greinir. Samkvæmt því og með því að stefnandi neitaði alfarið að tjá sig um málið, verður að telja, að fulltrúa sýslumanns hafi verið heimilt að skerða frelsi stefnanda til könnunar á, hvort umræddar staðhæfingar gerðarbeiðanda væru á rökum reistar og til þess að koma í veg fyrir, að stefnandi gæti spillt sakargögnum eða hagsmunum gerðar­beiðanda á annan hátt.

Gerðinni var fram haldið kl. 9.30 næsta morgun og er bókað í gerðabók, að stefnandi hefði þá verið sviptur frelsi í 24 klukkustundir. Neitaði stefnandi sem fyrr að svara spurningum, sem fyrir hann voru lagðar eða benda á eignir til fjárnáms. Í endurriti gerðarinnar kemur fram, að stefnandi hafi upplýst daginn áður, að lausafé það, sem fjárnám var gert í 6. ágúst 1999, væri í vörslum Geymslusvæðisins ehf. í Kaplahrauni. Hafi fulltrúi sýslumanns kannað það, en fengið þær upplýsingar, að ekkert lausafé í eigu stefnanda væri þar að finna. Tók gerðarþoli fram, að lausaféð hefði verið flutt úr veitingahúsinu að Aðalstræti 10 af nýjum leigutökum í umrætt húsnæði í Kaplahrauni.

Stefnandi skaut fjárnámsgerðinni til Héraðsdóms Reykjaness og byggði málsókn einvörðungu á því, að endurupptökubeiðni félli ekki undir 66. gr aðfararlaga og hefði sýslumaður átt á hafna henni þegar í stað, sbr. 2. mgr 68. gr. laganna. Með úrskurði dómsins 10. febrúar 2000 var gerðin felld úr gildi og segir svo í forsendum dómsins: ,,Samkvæmt 66. gr. aðfararlaga er gerðarbeiðanda heimiluð endurupptaka í sex tilvikum. Í 2. tl. 66. gr. segir að gerðarbeiðanda sé heimil endurupptaka til þess að leysa eign undan fjárnámi. Ekkert er því til fyrirstöðu að nýtt fjárnám sé gert í beinu framhaldi, en skilyrði er, að hið fyrra fjárnám hafi áður verið fellt úr gildi. Í máli þessu var ekki gætt að því heldur gert nýtt fjárnám án þess að lausafé það, sem áður  hafði verið fjárnumið, væri fyrst leyst undan fjárnámi. Hvergi er gerðarbeiðanda heimiluð endurupptaka í þessu skyni þ.e. til þess eins að gera fjárnám í sömu eign og að hluta án árangurs. Endurupptökuákvæði 2. tl. 66. gr. er bundið við það eitt að leysa eign undan fjárnámi.” Málskostnaður var felldur niður.

Fram kemur í 1. mgr. 96. gr. aðfararlaga, að hafi gerðarbeiðandi krafist fullnustu kröfu eða réttinda með aðfarargerð, sem síðar er leitt í ljós, að skilyrði skorti til, beri honum að bæta allt tjón, sem aðrir hafa orðið fyrir af þeim sökum. Samkvæmt 2. mgr. á sá, sem fyrir tjóni hefur orðið vegna ólögmætrar aðfarargerðar og hún verið felld úr gildi af þeim sökum með dómsúrlausn, rétt til bóta úr hendi gerðarbeiðanda eftir almennum skaðabótareglum. Þá segir í 3. mgr., að sá, sem sætt hefur frelsisskerðingu í tengslum við ólögmæta aðfarargerð, eigi rétt á miskabótum úr hendi gerðarbeiðanda. Samkvæmt 1. mgr. 97. gr laganna er þeim, sem tilkall á til bóta samkvæmt 96. gr., heimilt að beina málsókn til heimtu þeirra að ríkissjóði óskipt með gerðarbeiðanda, ef sýslumaður eða fulltrúi hans hefur sýnt af sér gáleysi við framkvæmd þeirrar athafnar, sem leitt hefur til tjóns.

Fram kemur í áðurnefndum úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, sem ekki sætti kæru til Hæstaréttar, að ekkert sé því til fyrirstöðu, að nýtt fjárnám sé gert í beinu framhaldi af áður gerðu fjárnámi, en skilyrði sé, að hið fyrra fjárnám hafi áður verið fellt úr gildi. Þessa hafi hins vegar ekki verið gætt, er umþrætt fjárnámsgerð fór fram. Að mati dómsins verður eigi talið, að framkvæmd fjárnámsgerðarinnar af hálfu fulltrúa sýslumannsins í Hafnarfirði hafi verið með þeim hætti, að til bótaskyldu leiði á grundvelli gáleysis, heldur hafi þar verið um að ræða ranga túlkun fulltrúans á ákvæðum aðfararlaga og beitingu endurupptökuákvæða laganna, í stað þess að fella fyrri gerð niður og gera nýtt fjárnám, svo sem lög stóðu til.

Í munnlegum málflutningi byggði stefnandi á því, að hann hefði sætt frelsisskerðingu lengur en heimilt væri samkvæmt 1. mgr. 29. gr. aðfararlaga og að greinin bryti í bága við mannréttindasáttmála Evrópu. Málsástæðum þessum var mótmælt af hálfu stefndu sem of seint fram komnum og komast þær því ekki að í málinu, sbr. 6. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Með vísan til framanskráðs ber að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í máli þessu, en rétt þykir, að málskostnaður milli aðila falli niður.

Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndu, Fógetinn ehf. og íslenska ríkið, eru sýknaðir af kröfum stefnanda, Þórðar Arnar Arnarsonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.