Hæstiréttur íslands

Mál nr. 687/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kæruheimild
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta


                                              

Mánudaginn 26. nóvember 2012.

Nr. 687/2012.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Jónsson hrl.)

Kærumál. Kæruheimild. Frávísun að hluta felld úr gildi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi hluta ákæru á hendur X á þeim grundvelli að ekki væri fullnægt skilyrðum c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í hinum umdeilda hluta ákærunnar var X gefið að sök brot gegn 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa stofnað lífi og heilsu sonar síns í hættu á ófyrirleitinn hátt með því að aka ofurölvi með hann sem farþega í tiltekinni bifreið og kom einnig fram í ákærunni hvenær og hvar brotið var talið framið. Í dómi Hæstaréttar kom fram að uppfylltar væru þær kröfur sem gerðar yrðu til efnis ákæru og var því lagt fyrir héraðsdóm að taka sakarefnið til efnisúrlausnar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. nóvember 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kært er ákvæði dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2012 um að vísa frá dómi hluta af ákæru á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í a. lið 2. mgr. 192. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Sóknaraðili krefst þess að frávísun þess atriðis í ákæru ríkissaksóknara 2. júlí 2012 á hendur varnaraðila, sem varðar brot hans gegn 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, verði felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka ákæruatriðið til efnismeðferðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hinnar kærðu úrlausnar og kærumálskostnaðar.

 Með fyrrgreindri ákæru var varnaraðili sakaður um „ölvunarakstur og hættubrot, með því að hafa þriðjudaginn 10. maí 2011 ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 3,00‰), frá leikskólanum [...], [...] að [...] í [...] þar sem hann stöðvaði bifreiðina, en með akstrinum stofnaði ákærði lífi og heilsu sonar síns, A sem þá var þriggja ára og var farþegi í bifreiðinni, í hættu á ófyrirleitinn hátt. Telst þetta varða við 1., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 ... og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“ Héraðsdómur vísaði frá dómi því ákæruatriði, sem lýtur að sakargiftum á hendur varnaraðila fyrir að hafa með akstrinum stofnað lífi og heilsu sonar síns í hættu á ófyrirleitinn hátt, með þeirri röksemd að því athæfi væri ekki nánar lýst í ákærunni en að ofan greinir.

Samkvæmt c. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 skal meðal annars greina í ákæru hver sú háttsemi er sem ákært er út af, hvar og hvenær brot er talið framið, heiti þess að lögum og heimfærslu þess til laga.  Af þessu leiðir að verknaðarlýsing í ákæru verður að vera það greinargóð og skýr að ákærði geti ráðið af henni hvaða refsiverð háttsemi honum er gefin að sök og hvaða lagaákvæði hann er talinn hafa brotið svo að honum sé fært að taka afstöðu til sakargifta og halda uppi vörnum gegn þeim, sbr. og a. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Verður ákæra að leggja fullnægjandi grundvöll að máli þannig að fella megi dóm á það samkvæmt því, sem í henni segir, enda verður ákærði ekki dæmdur fyrir aðra hegðun en þá, sem í ákæru greinir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008.

Skýrt kemur fram í ákærunni á hendur varnaraðila að honum sé meðal annars gefið að sök hættubrot samkvæmt 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga fyrir að hafa stofnað lífi og heilsu sonar síns í hættu á ófyrirleitinn hátt með því að aka ofurölvi með hann sem farþega í nefndri bifreið. Hafi brotið verið framið tiltekinn dag og með akstri frá einum stað til annars eins og nánar greinir í ákærunni. Af henni má varnaraðila vera ljóst, að því er þessar sakargiftir varðar, hvaða háttsemi það er sem ákært er út af, hvar og hvenær brotið er talið framið, hvert er heiti þess að lögum og við hvaða refsiákvæði það varðar. Þar með eru uppfylltar þær kröfur, sem gerðar eru til efnis ákæru í 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008, sbr. einkum c. lið hennar, þannig að dómur verði lagður á sakarefnið, sbr. 1. mgr. 180. gr. sömu laga.

Með vísan til þess, sem að framan greinir, verður úr gildi fellt ákvæði dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2012 um að vísa umræddum sakargiftum á hendur varnaraðila frá dómi. Jafnframt verður lagt fyrir héraðsdómara að taka þetta ákæruatriði til efnisúrlausnar.

Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Ákvæði dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2012 um að vísa frá héraðsdómi hluta af ákæru á hendur varnaraðila, X, er fellt úr gildi. Lagt er fyrir héraðsdómara að taka sakarefnið til efnisúrlausnar.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2012.

                Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 2. júlí sl. á hendur ákærða, X, [...], [...], [...], „fyrir ölvunarakstur og hættubrot, með því að hafa þriðjudaginn 10. maí 2011 ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 3,00‰), frá leikskólanum [...], [...] að [...] í [...] þar sem hann stöðvaði bifreiðina, en með akstrinum stofnað lífi og heilsu sonar síns, A sem þá var þriggja ára og var farþegi í bifreiðinni, í hættu á ófyrirleitinn hátt.

                Telst þetta varða við 1., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.“

Málavextir

                Fyrir liggur að þriðjudaginn 10. maí 2011 kom ákærði akandi að leikskólanum [...] í [...], [...]að sækja þangað ungan son sinn.  Þóttist starfsfólk þar sjá áfengisáhrif á ákærða og tilkynnti um það til lögreglu.  Ók ákærði þvínæst heim til sín í [...].  Skömmu síðar kom þangað B lögreglumaður akandi og stuttu á eftir honum C lögreglumaður.  Í staðfestri skýrslu B um atvikið segir að tilkynning til lögreglu um ákærða hafi borist kl. 16.16 og hann sjálfur komið í [...], kl. 16.25.  Segir þar jafnframt að ákærði hafi þá staðið þar við bílinn og haldið á bíllyklunum, en ungur drengur hafi setið sofandi og spenntur í barnastól.  Þá segir að bílvélin hafi verið mjög heit þegar það var athugað kl. 16.45 og hafði vélin þá ekki verið í gangi frá því að lögreglumaðurinn kom á vettvang.  Þá segir að áfengislykt hafi verið af ákærða og hafi hann kannast við að hafa drukkið áfengi.  Aftur á móti hafi hann neitað því að hafa ekið.  Ákærði var handtekinn og voru blóð- og þvagsýni tekin úr honum til alkóhólrannsóknar.  Samkvæmt vottorðum um þetta var þvagsýni tekið úr ákærða kl. 17.28 en tvö blóðsýni úr honum kl. 17.36 og 18.35.  Samkvæmt staðfestri álitsgerð tveggja sérfræðinga rannsóknastofu háskólans í lyfja- og eiturefnafræði, þeirra D deildarstjóra og E lyfjafræðings, sem unnin var að beiðni lögreglustjóra segir svo:

„Í bréfinu er beðið um mat á niðurstöðum úr etanólmælingu í blóð- og þvagsýnum nr. 59590, 59592 og 59591.  Sýnin voru rannsökuð á Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði þann 19. maí sl. (rannsóknanúmer RLE 110984).  Etanólstyrkur í blóðsýni 59590 mældist  3,15 ‰, í blóðsýni 59592 mældist 3,00 ‰  og  í þvagsýni 59591  mældist 3,97 ‰ (endanlegar niðurstöður 3,00 ‰, 2,85 ‰ og yfir 3,1 ‰).  Blóðsýni 59590 var tekið kl.17:28, þvagsýnið  kl. 17:36 og blóðsýni 59591 kl. 18:35.  Í bréfi embættisins er beðið um að lagt verði mat á ölvunarástand meints ökumann um kl: 16:16.  Í framburður ökumannsins kemur fram að hann hafi drukkið 5 stk. af 33 cl Faxe bjór (4,6 %) milli kl. 16:16 og 16:25.

Þegar áfengis er neytt fer hið virka efni þess, etanól, gegnum slímhúð meltingarvegarins yfir í blóðrásina.  Þetta er venjulega kallað frásog.  Meðan þessu fer fram fer styrkur etanóls hækkandi í blóðinu.  Þegar neyslu etanóls er hætt líður nokkur tími þar til allt það etanól, sem kann að vera í maga og þörmum hefur náð að frásogast.  Venjulega er gert ráð fyrir að því ljúki innan 1 – 2 klukkustunda (þættir sem hafa þar áhrif eru t.d. hvort drukkið er á fastandi maga, tegund og magn áfengis).  Þá fer styrkur etanóls í blóði að falla.  Hann fellur með nokkuð jöfnum hraða, sem er einstaklingsbundinn og getur verið 0,12 ‰-0,25 ‰ á klst..  U.þ.b. 2 % af neyttu etanóli skilst óumbreytt úr líkamanum og þá fyrst og fremst með þvagi.   Útskilnaður etanóls úr blóði í þvag hefst strax og frásog etanóls í blóð hefst úr meltingarvegi.  Þetta gerist hægt í byrjun en etanólstyrkur þvagsins eykst svo jafnt og þétt.  Hátt hlutfall milli etanólstyrks í þvagi og blóði bendir til að talsverður tími sé frá því að viðkomandi losaði þvag síðast og einnig er það sterk vísbending að etanól í blóði hafi verið fallandi á þeim tíma sem sýnin voru tekin.  Lágt hlutfall bendir hins vegar til, að drykkju hafi nýlega verið hætt og frásogi ekki lokið.  Þegar jafnvægi er milli þvags og blóðs er hlutfallið nálægt 1,2 - 1,3.

Á niðurstöðum  úr  etanólmælingunum sést að etanólstyrkur hefur u.þ.b. náð hámarki í blóði viðkomandi ökumanns um kl. 17:28.  Það styður niðurstaða úr seinna blóðsýni 59592 og einnig hlutfallið milli þvags og blóðs (1,3).  Drykkja á fimm 33 cl bjórum (4,6 % ) samsvarar 60 g af etanóli.  Í 80 kg karlmanni gæti etanólstykur eftir slíka drykkju mælst 0,7 til 1,5 ‰ að algjöru hámarki.  Samkvæmt því og þegar litið er á hinn geysiháa etanólstyrk í blóðinu og sér í lagi þvaginu (áfengiseitrun?) um kl. 17:30, er nær öruggt að viðkomandi ökumaður hefur neytt mun meira áfengis fyrr um daginn.  Samkvæmt framansögðu hefur viðkomandi ökumaður verið mjög ölvaður, þegar hann ók bifreiðinni kl 16:16.“

Fram er komið í málinu að ákærði taki nokkur lyf við hjartasjúkdómi og hafa verið lögð fram skjalleg gögn í málinu um það. 

Aðalmeðferð málsins

                Ákærði neitar sök.  Hann kveðst hafa drukkið áfengi kvöldið áður og hafa verið timbraður þennan dag.  Eftir að hafa lagt sig heima hjá sér hafi hann vaknað um kl. þrjú um daginn.  Hafi hann svo farið út í hesthús og gefið hestum sínum.  Jafnframt hafi hann fengið sér einn bjór að drekka við timburmönnunum.  Um fjögurleytið hafi hann farið að sækja son sinn í leikskólann og ekið með hann heim í [...].  Hafi hann ekið varlega.  Þegar þangað kom, 3 – 4 mínútum síðar, hafi hann fengið sér annan bjór.  Hann hafi svo orðið þess áskynja að barnið var sofnað og góð ráð því verið dýr.  Hann hafi þá tekið þann kost að drekka 3 eða 4 bjóra í viðbót enda hafi hann verið máttlaus og illa á sig kominn.  Þegar hann hafi stigið út úr bílnum hafi lögreglumaður komið þar að.  Hann segir um það sem haft er eftir honum í lögregluskýrslunni að hann hafi sagt að hann hefði ekki ekið undir áhrifum áfengis. 

Þær F og G, starfsmenn á leikskólanum [...], hafa komið fyrir dóm.  Ber þeim saman um það að áfengisþefur hafi verið af ákærða þegar hann kom að sækja barnið og að áfengisáhrif hafi verið greinanleg á honum.  Hafi hann verið breyttur í fasi og hreyfingum og skrafhreifnari en venjulega.  Þá segja þær að hann hafi fengið hjálp hjá einhverjum nærstöddum við að festa barnið í bílstólinn.

                Lögreglumennirnir B og C hafa komið fyrir dóm.  Ber þeim saman um það að ákærði hafi ekki neytt áfengis eftir að þeir hittu hann, að áfengisþefur hafi verið af honum og að vélin í bíl hans hafi verið heit.  Þá hafi fas hans bent til þess að hann væri undir áhrifum áfengis.  C segir auk þess að ákærði hafi verið áberandi ölvaður og slagað lítið eitt.  Hafi hann virst langdrukkinn.

                Þær D og E hafa komið fyrir dóm og gert grein fyrir etanólmælingunni sem gerð var á blóð- og þvagsýnunum í málinu.  Þær segja mælinguna vera afar nákvæma og örugga og jafnframt segja þær að lyfin, sem ákærði tekur við hjartasjúkdómi sínum, engin áhrif geta haft á hana.

Niðurstaða

                Tvö áreiðanleg vitni merktu áfengisþef- og áhrif á ákærða áður en hann hóf aksturinn sem ákært er fyrir og tvö önnur áreiðanleg vitni, sem hittu ákærða skömmu eftir að akstri lauk, hafa borið á sama veg.  Þá er sýnt fram á það í álitsgerð þeirra D og E að ákærði hafi verið mjög ölvaður þegar hann ók bílnum frá [...] í [...].  Samkvæmt þessu telst vera sannað að ákærði hafi ekið bíl sínum í umrætt sinn undir áhrifum áfengis og skiptir hér engu máli þótt hann hafi neytt einhvers af bjór eftir að akstrinum lauk.  Hefur hann með þessu athæfi brotið gegn 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. 

Ákærði er saksóttur fyrir það að hafa stefnt lífi og heilsu sonar síns í hættu á ófyrirleitinn hátt með þessum akstri sínum.  Þessu athæfi ákærða er hins vegar ekki lýst nánar í ákærunni.  Samkvæmt c-lið 1. mgr. 152. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008 skal í ákæru greina hverja þá háttsemi er sem ákært er út af, hvar og hvenær brotið er talið framið, heiti þess að lögum og aðra skilgreiningu.  Dómurinn álítur að ákæran uppfylli að þessu leyti ekki skilyrði þessa ákvæðis sakamálalaga og ber því að vísa þessu atriði hennar frá dómi.

Viðurlög og sakarkostnaður

                Refsing ákærða, sem var ofurölvi við aksturinn, þykir hæfilega ákveðin 250.000 króna sekt og komi fangelsi í 18 daga, greiðist sektin ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.

                Dæma ber ákærða til þess að vera sviptur ökurétti í 3 ár frá dómsbirtingu að telja.

Loks ber að dæma ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Björgvin Jónssyni  hrl. 150.000 krónur í málsvarnarlaun, sem dæmast með virðisaukaskatti.

Annan sakarkostnað, 67.590 krónur, ber að dæma ákærða til þess að greiða.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, X, greiði 250.000 krónur í sekt og komi fangelsi í 18 daga, greiðist sektin ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.

                Ákærði er sviptur ökurétti í 3 ár frá dómsbirtingu að telja.

Ákærði greiði verjanda sínum, Björgvin Jónssyni  hrl. 150.000 krónur í málsvarnarlaun.

Annan sakarkostnað, 67.590 krónur, greiði ákærði.