Hæstiréttur íslands

Mál nr. 459/2003


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Verkkaup
  • Galli
  • Skuldajöfnuður


Miðvikudaginn 19

 

Miðvikudaginn 19. maí 2004.

Nr. 459/2003.

Hygea ehf.

(Ingvar Sveinbjörnsson hrl.)

gegn

Hit innréttingum ehf.

(Hanna Lára Helgadóttir hrl.)

og gagnsök

 

Verksamningur. Verkkaup. Galli. Skuldajöfnuður.

Með hliðsjón af samskiptum verktakans HI og verkkaupans H þótti rétt að fella niður tiltekin atriði í reikningum HI. Gagnkrafa H um skuldajöfnuð á grundvelli galla á verkinu kom til lækkunar kröfum HI, en mismuninn var H dæmdur til að greiða.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. desember 2003. Krefst hann aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð, dráttarvextir eingöngu dæmdir frá dómsuppsögu og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.  

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 28. janúar 2004. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 6.384.648 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 5.341.386 krónum frá 22. nóvember 2001 til 18. desember sama árs, en af allri fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist hærri málskostnaðar úr hendi aðaláfrýjanda en dæmdur var í héraði, auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Í árslok 2000 gerðu málsaðilar munnlegan samning um að gagnáfrýjandi skyldi hanna, smíða og setja upp innréttingar í verslun, sem aðaláfrýjandi hafði ákveðið að opna í nýbyggingu verslunarmiðstöðvarinnar Smáralindar í Kópavogi. Er óumdeilt að verkið fólst meðal annars í því að gera alla milliveggi, loft, milliloft og flísalögn auk innréttinganna sjálfra. Endurgjald gagnáfrýjanda skyldi vera 3.000 krónur á klukkustund og verkinu lokið fyrir 10. október 2001 er verslunarmiðstöðin yrði opnuð.

Við samningsgerðina var aðilum ókunnugt um þá afstöðu forráðamanna verslunarmiðstöðvarinnar að arkitektar skyldu hanna allar innréttingar í Smáralind. Fól aðaláfrýjandi AT4 arkitektum ehf. af þessum sökum hönnun verksins á miðju ári 2001. Telur gagnáfrýjandi teikningar að innréttingum hafa borist sér seint og tími þá verið orðinn mjög knappur til að vinna verkið fyrir umsamin verklok. Hafi verið óhjákvæmilegt að vinna mikla yfirvinnu til að standa við samninginn. Honum tókst þó ekki að ljúka verkinu að fullu og varð að hverfa af verkstað 9. október 2001 svo aðaláfrýjandi fengi ráðrúm til að þrífa verslunina og undirbúa hana fyrir opnun degi síðar. Hefur gagnáfrýjandi ekki unnið við verkið eftir það.

Gagnáfrýjandi höfðaði málið í héraði til heimtu tveggja reikninga á hendur aðaláfrýjanda, sem eru dagsettir 20. nóvember 2001 og 18. desember sama árs. Eru þeir í nokkrum liðum fyrir unna dagvinnu og eftirvinnu, vélavinnu, efni til verksins, eftirstöðvar vegna blikksmíða og útlagðan kostnað fyrir tækjaleigu. Eru reikningarnir samtals að fjárhæð 7.384.648 krónur, en til lækkunar komu 1.000.000 krónur, sem aðaláfrýjandi hafði áður greitt. Var stefnukrafan því 6.384.648 krónur, sem er einnig krafan fyrir Hæstarétti. Af framangreindum liðum vefengir aðaláfrýjandi í fyrsta lagi skyldu sína til að greiða sérstaklega fyrir vélavinnu, sem hann telur vera innifalda í umsömdu tímagjaldi. Hins vegar mótmælir hann kröfu um yfirvinnu fyrir 349 klukkustundir, sem gagnáfrýjandi krefst greiðslu á með 5.400 krónum fyrir hverja. Hafi málsaðilar samið um það að greiddar yrðu 3.000 krónur fyrir hverja klukkustund og þá miðað við jafnaðarkaup í dagvinnu. Krafa um greiðslu yfirvinnu eigi því enga stoð í samningi þeirra. Snýst annar þáttur ágreinings aðilanna um þessi tvö atriði í reikningum gagnáfrýjanda.

Aðaláfrýjandi telur ýmsa galla vera á verki gagnáfrýjanda. Því mótmælir sá síðarnefndi og lýtur hinn þáttur ágreinings málsaðila að þessu. Fékk aðaláfrýjandi mat dómkvadds manns um það hvað kosti að bæta úr göllunum. Fékk hann jafnframt metið ætlað tjón vegna rekstrarstöðvunar, sem hlytist af því að gera við innréttingarnar. Reisir hann gagnkröfu til skuldajöfnuðar á þessum matsgerðum, auk þess sem hann telur sig eiga aðrar kröfur á gagnáfrýjanda, sem tengjast göllum á verkinu eins og nánar greinir í héraðsdómi. Telur hann sig þannig eiga gagnkröfu að fjárhæð 6.315.962 krónur og þar með mun hærri kröfu en sem nemur þeirri fjárhæð, sem hann viðurkennir að gagnáfrýjandi eigi rétt á samkvæmt áðurnefndum tveimur reikningum. Er sýknukrafa hans á þessu reist. Málsatvik og málsástæður aðilanna eru að öðru leyti nánar raktar í hinum áfrýjaða dómi.

II.

Gagnáfrýjandi hófst handa við hönnun verksins þegar eftir að hinn munnlegi samningur aðilanna var gerður. Reikningur hans 31. janúar 2001 að fjárhæð 200.000 krónur er meðal málsskjala og óumdeilt að hann er fyrir hönnunarvinnu. Kveðst gagnáfrýjandi hafa metið það svo í upphafi að hann hafi haft góðan tíma til að vinna verkið, enda umsamin verklok ekki fyrr en mörgum mánuðum eftir samningsgerð. Með það í huga hafi ekki verið vandkvæðum bundið að vinna allt verkið í dagvinnu.

Aðilum ber ekki saman um þau atvik, sem leiddu til þess að hönnun verksins var tekin úr höndum gagnáfrýjanda vegna þeirrar afstöðu stjórnar verslunarmiðstöðvarinnar, sem áður var getið. Kveður gagnáfrýjandi aðaláfrýjanda hafa tilkynnt sér þessa breytingu í mars 2001. Forráðamaður aðaláfrýjanda bar hins vegar fyrir dómi að hann teldi sig hafa fengið vitneskju um þetta í maí sama árs og þá frá gagnáfrýjanda. Kveðst hann ekki hafa haft hugmynd um að gagnáfrýjandi „væri að gefa sig í verk sem hann hafði ekki réttindi til eða þyrfti arkitekt á.“ Í júní sama árs mun aðaláfrýjandi hafa leitað til áðurnefndrar arkitektastofu um að taka að sér hönnunarvinnu og í júlí voru fulltrúar gagnáfrýjanda kvaddir á fund með arkitektunum. Segir gagnáfrýjandi teikningar hafa farið að berast sér fljótlega eftir það, meðal annars af milliveggjum og lofti. Hafi hann þegar hafist handa við smíði og uppsetningu. Sýnist sá hluti verksins hafa gengið vandræðalaust og veldur ekki ágreiningi í málinu. Gagnáfrýjandi kveður öðru máli gegna um teikningar af innréttingum fyrir verslunina. Þær hafi ekki borist fyrr en í síðari hluta ágúst 2001 og fram í september og hafi ekki allar verið komnar fyrr en þann 13. þess mánaðar. Til stuðnings þessu vísar hann til teikninganna, þar sem meðal annars koma fyrir dagsetningar í lok ágúst og fyrri hluta september. Þá hafi hönnun innréttinga enn verið breytt eftir 13. september, en meðal hönnunarteikninga er ein af afgreiðsluborði í versluninni, sem dagsett er 17. september 2001. Telur gagnáfrýjandi þetta hafa leitt til að óhjákvæmilegt varð að vinna yfirvinnu eins og áður er komið fram.

Óumdeilt er að samkvæmt samningi málsaðila skyldi gagnáfrýjandi fá greiddar 3.000 krónur fyrir hverja klukkustund, sem unnið yrði að verkinu. Hafði gagnáfrýjandi þá að minnsta kosti níu mánuði til að hanna og vinna verkið og þar með svigrúm til að laga verkefnið að öðrum verkum, sem hann ynni á sama tíma. Vinna við hönnun fór strax af stað, eins og áður var getið, en var stöðvuð af ástæðum, sem gagnáfrýjandi bar ekki ábyrgð á. Aðaláfrýjandi var í samningssambandi við verslunarmiðstöðina og var á hans ábyrgð að kynna sér þær kröfur, sem þessi viðsemjandi hans gerði. Engu að síður samdi hann við gagnáfrýjanda um að hanna verkið og rifti síðan þeim þætti í samningi þeirra. Af þessari ástæðu var gagnáfrýjanda ókleift að halda áfram með verkið fyrr en í júlí 2001 þegar einungis voru tveir til þrír mánuðir eftir af umsömdum verktíma. Teikningar að innréttingum bárust honum auk þess mjög seint, svo sem áður er fram komið. Var hann þannig settur í mikla tímaþröng og brustu um leið forsendur fyrir því að hann gæti unnið allt verkið í dagvinnu eins og lagt var upp með. Á þessu ber aðaláfrýjandi ábyrgð. Verður liður í kröfu gagnáfrýjanda um greiðslu fyrir yfirvinnu tekinn til greina, en aðaláfrýjandi hefur engum stoðum skotið undir að hann teljist ósanngjarn.

Í reikningi gagnáfrýjanda 20. nóvember 2001 eru þrír liðir fyrir vinnu með tilteknum vélum. Er í málatilbúnaði hans vísað til þess að vélarnar, sem notaðar voru við smíði innréttinganna, séu vandaðar og dýrt að reka þær. Hafi aðaláfrýjanda verið gerð grein fyrir því við samningsgerð að vélavinna væri ekki innifalin í tímagjaldinu. Því mótmælir sá síðastnefndi, sem heldur fram að ekki hafi verið samið um neitt annað endurgjald til gagnáfrýjanda en tímagjald. Hafi hann því átt að fá þennan sem annan kostnað sinn bættan af því. Staðhæfing gagnáfrýjanda, sem að þessu lýtur, er ósönnuð og verður hann að bera hallann af skorti á sönnun um það. Fær engu um það breytt þótt aðaláfrýjandi hafi greitt reikning gagnáfrýjanda 16. október 2001 þar sem liðurinn „vél“ kom fyrir með 18.000 krónum. Kveðst sá fyrrnefndi allt eins hafa mátt skilja þetta svo að um kostnað af tækjaleigu frá öðrum væri að ræða, en slíka liði í reikningi gagnáfrýjanda 20. nóvember 2001 hafi hann samþykkt.

Samkvæmt öllu framanröktu verður krafa gagnáfrýjanda samkvæmt reikningum hans 20. nóvember 2001 og 18. desember sama árs tekin til greina um annað en „vélavinnu“ í þremur liðum, sem samtals er 1.585.246 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Nemur krafa gagnáfrýjanda samkvæmt því alls 4.799.402 krónum að teknu tilliti til innborgunar aðaláfrýjanda.

III.

Aðaláfrýjandi heldur fram að gallar séu á verki gagnáfrýjanda eins og áður er komið fram. Fékk sá fyrrnefndi dómkvaddan mann til þess meðal annars að meta hvort verkið sé gallað, hverjir þeir gallar séu og hvað kosti að bæta úr þeim. Matið er dagsett 3. desember 2002 og var niðurstaða matsmannsins sú að verkið væri gallað í nokkrum liðum. Taldi hann að almennt væri lakkvinna ófullnægjandi auk þess sem ýmsir gallar væru á smíðavinnu, sem nánar var lýst. Þeir hlutir, sem sagðir voru gallaðir, voru afgreiðsluborð, hurð að starfsmannaðstöðu, skápar undir litastöndum, skápar fyrir skart, töskuhillur, glerhilluveggur og snyrtiborð. Kostnað við að bæta úr göllunum, sem hann sundurliðaði nánar, taldi hann nema samtals 1.799.000 krónum. Hæfilegt endurgjald til aðaláfrýjanda fyrir að taka niður og endurraða vörum í versluninni vegna lagfæringanna taldi hann 250.000 krónur.

Gagnáfrýjandi fór þess á leit við Héraðsdóm Reykjaness 7. janúar 2003 að sami matsmaður yrði dómkvaddur á ný til að gefa viðbótarmat við fyrra mat sitt. Var matsbeiðnin í sautján liðum, en í nokkrum þeirra var óskað mats um atriði sem vörðuðu galla, sem matsmaðurinn hafði í fyrra mati sínu komist að niðurstöðu um. Var meðal annars óskað mats á smíði svokallaðs hornstands með hliðjón af teikningu arkitekta. Í viðbótarmati 6. apríl 2003 taldi matsmaðurinn teikninguna, sem dagsett er 17. september 2001, vart geta talist fullnægjandi smíðateikningu og hefði hún þurft skýringa við eða nánari útfærslu með sérteikningu. Kostnað við að smíða þessa einingu upp á nýtt hafði matsmaðurinn áður metið 90.000 krónur. Önnur spurning í matsbeiðni laut að því hverjar líkur séu á því að rispur á innréttingum, sem tilgreindar voru í fyrra matinu, séu vegna notkunar í versluninni í um það bil eitt ár frá því hún var opnuð. Var niðurstaða matsmannsins sú að yfirgnæfandi líkur væru á því að „mest af rispum sé tilkomið vegna umgengni, umferðar og meðhöndlunar skápa, skúffa og annarra innréttinga vegna starfseminnar.“ Kostnað við að bæta úr þessum hluta lakkskemmda mat hann ekki sérstaklega. Þá var óskað mats um það hvort gagnáfrýjandi, undirverktaki hans eða arkitektastofan bæri ábyrgð á þeim verkþáttum, sem gallar hefðu fundist í, og hvort rekja mætti þá til „galla í lakki“. Taldi matsmaðurinn falla utan verksviðs síns að svara spurningu um ábyrgð hvers þeirra, sem komið hefðu að verkinu. Varðandi lakkið gat hann þess sérstaklega að hann hefði fengið efnaverkfræðing, sérfróðan um málningu, til að skoða það og benti ekkert til galla í því. Ekki væri þó loku fyrir það skotið að um misblöndun gæti verið að ræða.

Gagnáfrýjandi hefur ekki hnekkt matsgerð 3. desember 2002 með yfirmati. Verður hún lögð til grundvallar niðurstöðu um galla á verkinu og kostnað við að bæta úr þeim að frátöldum kostnaði við að smíða svokallaðan hornstand, sem að framan er getið. Gagnáfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að aðrir en hann sjálfur beri ábyrgð á því að almennt er lakkvinna ófullnægjandi, en eins og málið liggur fyrir er ekki unnt að lækka þennan lið í kröfu aðaláfrýjanda að álitum vegna þess að rispur á lakkinu séu ekki á ábyrgð gagnáfrýjanda. Verður gagnkrafa aðaláfrýjanda samkvæmt því tekin til greina með 1.709.000 krónum og kemur sú fjárhæð til lækkunar kröfu gagnáfrýjanda. Var matsgerð miðuð við verðlag í nóvember 2002 og var matið lagt fram í þinghaldi 17. desember sama árs. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður öðrum gagnkröfum aðaláfrýjanda í málinu hafnað.

Samkvæmt öllu framanröktu verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda 3.090.402 krónur með dráttarvöxtum, eins og nánar segir í dómsorði. Skal aðaláfrýjandi jafnframt greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.

 

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Hygea ehf., greiði gagnáfrýjanda, Hit innréttingum ehf.,  3.090.402 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 3.756.590 krónum frá 20. nóvember 2001 til 18. desember sama árs, af 4.799.402 krónum frá þeim degi til 17. desember 2002, en af 3.090.402 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. október 2003.

             Mál þetta, sem dómtekið var 11. september sl., er höfðað með stefnu þingfestri 13. febrúar 2002.  Stefnandi er Hit innréttingar ehf., kt. 551097-2859, Askalind 7, Kópavogi en stefndi er Hygea ehf., kt. 620169-5449, Kringlunni 4-12, Reykjavík.  Til réttargæslu er stefnt Jóni Inga Lárussyni, kt. 200765-4199, Drápuhlíð 8, Reykjavík og AT4 arkitektum ehf., kt. 670696-2199, Ingólfsstræti 5, Reykjavík.

             Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 6.384.648 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001, af 5.341.836 krónum frá 22. nóvember 2001 til 18. desember 2001 en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar.

             Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður.  Til vara krefst hann þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar og dráttarvextir þá einungis dæmdir frá dómsuppsögudegi.  Í varakröfu krefst stefndi einnig málskostnaðar.

             Stefnandi gerir engar kröfur á hendur réttargæslustefndu en réttargæslustefndu hafa mætt í málinu og lagt fram greinargerðir.  Þeir krefjast málskostnaðar. 

 

I.

             Stefnandi kveður málavexti þá að í lok ársins 2000 hafi forsvarsmenn stefnda komið að máli við forsvarsmann stefnanda og falast eftir vinnu hans við hönnun og innréttingasmíði í verslun stefnda sem stefndi hafi ákveðið að setja upp í nýbyggingu verslunarmiðstöðvarinnar Smáralindar.  Aðilar hafi gert með sér munnlegan samning um að stefnandi annaðist teikningar innréttinga í samvinnu við stefnda.  Í janúarmánuði 2001 hafi stefnandi hafist handa við að teikna frumdrætti að versluninni og hafi aðilar þá samið um að greitt yrði fast tímagjald fyrir vinnu stefnanda, 3.000 krónur á klukkustund miðað við dagvinnutíma.  Stefnandi hafi átt að annast alla smíði í versluninni þ.e. smíði á milliveggjum, taka niður loft, smíða milliloft, blikksmíði, flísalögn auk smíði á innréttingunum sjálfum.  Miðað hafi verið við að stefnandi ynni verkið smám saman þannig að því yrði lokið fyrir 10. október 2001 en þá skyldi Smáralind opnuð.

             Stefnandi kveður það hafa komið í ljós í marsmánuði 2001 að forsvarsmenn Smáralindar hafi gert kröfu um að allar teikningar í verslununum yrðu gerðar af fagmenntuðum arkitektum.  Stefndi hafi því ráðið AT4 arkitekta ehf. til að fara yfir teikningar stefnanda og annast hönnun verslunarinnar. 

             Stefnandi kveðst hafa hafist handa við að ráða til sín undirverktaka, m.a. réttargæslustefnda Jón Inga Lárusson smið, sem hafi átt að annast alla smíði í versluninni ásamt sínum starfsmönnum, þ.e. uppsetningu lofts, allra milliveggja, milligólfs, uppsetningu innihurða og innréttinga.  Stefnandi kveðst hafa samið við Jón Inga um að hann fengi greitt fast tímagjald, 2200 krónur á klukkustund.

             Stefnandi segir að hann hafi fengið grunnteikningar afhentar af húsnæðinu í júní 2001 og þá byrjað að setja upp milliveggi og vinna við loft. Teikningar af lausum innréttingum hafi hins vegar ekki verið tilbúnar á þessum tíma. Fyrsti fundur með arkitektum hafi verið 15. ágúst en teikningar af lausum innréttingum hafi ekki borist honum fyrr en 13. september 2001. Hann hafi byrjað á því verki strax daginn eftir. Í ljós hafi komið að vinna við innréttingar var flóknari en hann hafði reiknað með og endursmíða hafi þurft nokkra hluti vegna breytinga af hálfu arkitekta. Þess vegna hafi þurft að vinna eftirvinnu við verkið á lokasprettinum.

             Síðdegis þann 9. október 2001 hafi forsvarsmenn stefnda óskað þess að allri vinnu yrði hætt svo að hreingerningafólk kæmist að til að þrífa og að starfsmenn verslunarinnar gætu komið varningi fyrir í versluninni.  Vinnu stefnanda hafi þá alls ekki verið lokið.

             Stefnandi kveðst hafa sent stefnda reikning sinn 22. nóvember 2001 fyrir vinnu, vinnu undirverktaka, vélavinnu svo og efniskostnað.  Tímagjald hafi verið 3.000 krónur fyrir dagvinnu en 5.400 krónur fyrir eftirvinnu.  Forsvarsmaður stefnda hafi þegar gert athugasemd við eftirvinnutaxtann.  Forsvarsmaður stefnanda hafi talið að svo hafi um samist með aðilum að hann sendi nýjan reikning þar sem eingöngu yrði miðað við dagvinnutaxta gegn því að stefndi greiddi reikninginn þá þegar.  Stefnandi hafi þá verið bundinn af því að greiða undirverktökum fyrir vinnu þeirra og efniskostnað auk þess sem hann hafi þurft að standa skil á launagreiðslum til starfsmanna sinna og greiðslu virðisaukaskatts af reikningi.  Á þessum tíma hafi stefndi ekki gert neinar athugasemdir við vinnu stefnanda eða undirverktaka hans.

             Stefndi hafi hins vegar ekki greitt þennan reikning.  Þann 26. nóvember 2001 hafi stefnanda borist innheimtubréf frá réttargæslustefnda Jóni Inga vegna reiknings hans að fjárhæð 746.660 krónur.  Þann 27. nóvember 2001 hafi stefnandi fengið bréf frá lögmanni stefnda þar sem óskað hafi verið eftir sunduliðun á reikningi stefnanda og látið að því liggja að verðlagning væri of há og að verulegir gallar væru á verkinu.  Stefnandi mótmældi daginn eftir að tímagjald væri hátt eða að verkið væri gallað. Í lok nóvember sendi stefnandi stefnda sundurliðun reiknings og sundurliðun á efniskostnaði.  Í byrjun desember 2001 fékk stefnandi afrit af álitsgerð Kristjáns Snorrasonar sem hafði að beiðni stefnda skoðað innréttingar í versluninni í Smáralind með tilliti til galla og verðlagningar.  Í álitsgerð Kristjáns kemur fram að verkið sé töluvert gallað og hefði með réttu átt að kosta samtals 5.032.500 krónur.

             Þann 13. desember 2001 sendi lögmaður stefnanda áskorun um greiðslu.  Þann 17. desember 2001 mótmælti stefndi kostnaði vegna vélavinnu og telur að sá kostnaður hafi átt að vera innifalinn í tímagjaldi.  Þann 18. desember 2001 mótmælti stefnandi álitsgerð Kristjáns Snorrasonar og ítrekaði áskorun um greiðslu.  Í bréfinu féllst stefnandi á að lagfæra lakkskemmdir og einnig skekkju í uppsetningu innréttinga.

             Kröfur sínar skv. tveimur reikningum  sundurliðar stefnandi þannig:

Reikningur dagsettur 20. nóvember 2001:

,,Nr.                  Vöruheiti                                  Magn               Ein.verð           Samtals

200                   Vinna við uppsetningar                      218,0                  3.000              654.000

900                   Leiga á vinnupalli                       1,0                50.310                50.310

200                   Vinna við innréttingasmíði                 645,5                  3.000               1.936.500

260                   Vélavinna yfirfræsari                70,0                18.000               1.260.000

250                   Vélavinna þykktarpússun                  0,1                    10.500                  1.050

250                   Vélavinna spónapressa                      1,2                    10.200                12.240

250                   Sprautuklefi                             265,5                    300                 79.650

900                   Efni í innréttingar                                 1,0                      814.679                        814.679

900                   Efni í útt. í byko í sept                             1,0                61.838             61.838

900                   Efni í útt. í byko í okt                  1,0                 35.225              35.225

900                   Eftirstöðvar v blikkvinnu                   1,0                    188.351                         188.351

900                   Innborgað (reikn nr. 159                     - 1,0                 803.212             -803.212

            

                                                                            Samtals            :                              4.290.631

            

                                                                            VSK 24,5%      :                 1.051.205

                                                                            Upphæð nótu kr.                         5.341.836

 

 

             Reikningur dagsettur 18. desember 2001:

 

 

,,Nr.                  Vöruheiti                                  Magn               Ein.verð           Samtals

200                   Yfirvinna V/innréttigna                       349,0                5.400             1.884.600

200                   Áður reikningsfært                 349,0                3.000           - 1.047.000

 

 

 

                                                                                         Samtals :                                   837.600

                                                                                         VSK 24.5%                  205.212

                                                                                         Upphæð nótu kr.                     1.042.812“

 

             Samtala þessara tveggja reikninga nemur stefnufjárhæð.

 

II.

             Stefndi kveður málavexti þá að á árinu 2000 hafi stefndi ákveðið að opna nýja verslun í Smáralind haustið 2001.  Stefnda hafi verið bent á forsvarsmann stefnanda, Hörð Inga Torfason, og hafi verið teknar upp viðræður á milli aðila.  Þær viðræður hafi leitt til þess að aðilar hafi farið í kynnisferð til Hollands og Frakklands á kostnað stefnda til þess að skoða innréttingar í verslunum.  Hafi þetta verið gert með það að leiðarljósi að innréttingarnar yrðu vandaðar og glæsilegar. 

             Aðilar hafi gert með sér munnlegan samning sem að vísu hafi tekið miklum breytingum þegar á leið.  Samið hafi verið við stefnanda um að hann sæi um velflesta verkþætti við innréttingar í hinu nýja verslunarrými auk hönnunar.  Í framkvæmd hafi það hins vegar farið svo að stefndi hafi ráðið málara, pípulagningamenn, rafvirkja og glerísetningamenn.  Samið hafi verið um að stefnandi fengi 3.000 krónur á tímann fyrir vinnu sína auk virðisaukaskatts og hafi allt álag vegna hugsanlegrar yfir- og næturvinnu átt að vera innifalið í tímavinnugjaldinu.  Ekki hafi átt að greiða sérstaklega fyrir vélavinnu og jafnframt hafi verið ljóst að sumir verkþættir yrðu unnir skv. tilboði.

             Ljóst hafi verið í upphafi að húsnæðið fengist ekki afhent tilbúið til innréttingar fyrr en í júlí 2001.  Ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að stefnandi kláraði verkið fyrir 1. október 2001.  Um þennan afhendingartíma hafi verið samið munnlega á sama hátt og um annað er að verkþáttum stefnanda laut. 

             Stefndi kveðst hafa komist að því fyrri hluta ársins að eigendur Smáralindar hafi gert þá kröfu að hönnun yrði á hendi löggiltra aðila.   Stefnandi hafi ekki löggildingu til slíkra starfa.  Í júní 2001 hafi stefndi greitt stefnanda 200.000 krónur fyrir hönnun. Stefndi hafi samið við réttargæslustefnda AT4 arkitekta ehf. í júní 2001 um hönnun innréttinga.  Framkvæmdir hafi farið vel af stað og 11. september 2001 hafi nánast öllum framkvæmdum verið lokið nema að eftir hafi verið að smíða afgreiðsluborð, hillur, skápa og fleira.  Á þessum tíma hafi stefndi því verið bjartsýnn á að verkinu yrði lokið fyrir 1. október 2001.

             Stefndi kveður engan ágreining um þau verk er lokið hafi verið við 11. september 2001.  Þeir verkþættir séu uppgerðir af hálfu stefnanda nema hugsanlega vinna við loft.  Greiðslur til stefnanda fram að þessum tíma hafi alfarið verið á tímagrundvelli.  Stefnandi hafi ekki komið á framfæri við stefnda neinum kvörtunum vegna vinnu arkitekta að öðru leyti en því að teikningar af hilluuppistöðum hafi reynst rangar og því hafi þurft að endursmíða einhverja hluti.  Engin skrifleg greinargerð hafi borist stefnanda vegna þessa og arkitektarnir kannist ekki við að vinna þeirra hafi valdið töfum.  Aldrei hafi því verið borið við af hálfu stefnanda að vinna arkitekta hafi tafið vinnu stefnanda. 

             Að kvöldi 9. október 2001 hafi stefnandi verið beðinn um að hætta störfum enda þá ljóst að honum tækist ekki að ljúka störfum fyrir opnun og starfsfólk hafi þurft að fá einhvern tíma til þrifa og uppsetningu á vörum.  Stefnandi ber því við að tími til smíða hafi verið of skammur þar sem teikningar hafi borist of seint.  Þessu sé alfarið mótmælt af hálfu stefnda. 

             Í lok október 2002 hafi stefnda borist reikningur vegna yfirvinnu og hafi forsvarsmaður stefnda þá strax haft samband við forsvarsmann stefnanda og mótmælt því að greiða ætti fyrir yfirvinnu.  Stefnandi hafi þá dregið reikninginn til baka og hafi stefndi litið svo á að allt tal um greiðslur fyrir yfirvinnu væri nú úr sögunni.  Reikningsuppkast hafi borist 13. nóvember 2001 og hafi stefndi þá leitað til lögmanns til þess að gæta hagsmuna sinna.  Kristján Snorrason hafi verið fenginn til þess að gera álitsgerð um verk stefnanda. Hafi hann talið verkið alltof dýrt og nokkrir gallar á því.  Þessari greinargerð hafi stefnandi aldrei svarað efnislega en AT4 arkitektar ehf. hafi staðfest þessa úttekt Kristjáns Snorrasonar. 

             Arkitektarnir Ragnar Ólafsson og Gísli Sæmundsson, arkitektar hjá réttargæslustefnda AT4 arkitektum ehf., komu fyrir dóm. Í máli þeirra kom fram að forsvarsmenn stefnda hafi haft samband við þá 14. júní 2001. Þann 5. júlí hafi stefnanda verið sendar fyrstu teikningarnar af innra rými verslunarinnar. Þann 27. ágúst hafi flest allar teikningar af lausum innréttingum verið afhentar en þeir hafi teiknað nokkrar teikningar fram í byrjun september. Loks hafi heildarsafn teikninganna verið afhent stefnanda 11. september 2001. Arkitektarnir héldu því fram að stefnandi hefð fljótlega getað hafið smíði innréttinga á verkstæði sínu enda þótt allar teikningar væru ekki tilbúnar. Það hafi hann hins vegar ekki gert  og hafi þeir haft nokkrar áhyggjur af því að stefnanda tækist ekki að skila verkinu á umsömdum tíma.

 

             Í þinghaldi 12. júní 2002 óskaði stefndi eftir dómkvaðningu matsmanns til þess að meta innréttingasmíði stefnanda.  Matsgerð Atla Ólafssonar húsasmíðameistara  og byggingaiðnfræðings er dagsett í desember 2002 og segir þar meðal annars:

,,1            Hvert er hæfilegt endurgjald fyrir smíði, málun og uppsetningu á afgreiðsluborði, hillum, skápum stöndum, dregara í loft og hurð og hurðarramma í starfsmannaaðstöðu í verslun Hygea ehf. í Smáralind, Kópavogi.

                                                                                                                               Fullt

                         Heiti                             eining              magn   einingarv.       verðmæti

Afgreiðsluborð                                                 mtr                    9,6        140.000                      1.344.000,00

Skápar sem standa                              stk                    6,0          90.000                         540.000,00

Skápar fyrir standa á hjólum              stk                    2,0          97.000                         194.000,00

Skápar og skúffur fyrir skart              stk                    2,0        130.000                         260.000,00

Hillur fyrir töskur                                              eining              3,0          90.000                          270.000,00

Hillu veggur fyrir glerhillur

(án glers og hillub.)                             eining              17,0        95.000                        1.615.000,00

Kassa standur við inngang                            stk                    1,0          45.000                             45.000,00

Snyrtiborð                                            stk                    1,0        220.000                        220.000,00

Hurð fyrir starfsmannaaðstöðu(án glers)     stk                    1,0        200.000                        200.000,00

Dregarar, ljósaský yfir inngangi og búð       heild                             194.000                        194.000,00

*Hillubök f. Glerhilluvegg

(voru smíðuð en ekki notuð)             stk.                   11,0        19.000                         209.000,00

 

                                                                                                                  ________________

                                                                                                                             5.091.000,00

 

2       Lagt verði mat á hvort verkið sé gallað og tiltekið hverjir þeir gallar séu.

                Matsmaður telur verkið gallað í nokkrum liðum og vill þar nefna;

Almennt telur matsmaður að lakkvinna sé ófullnægjandi.  Lakk er mislitt, þekur illa og fyllir raunar sumstsaðar ekki.  Áferð er mött og skýjuð og yfirborð mjög viðkvæmt.

Efni hefur verið grunnað með ljósum grunn undir dökkbláan lit.  Grunnur á köntum kemur víða í gegn.

Afgreiðsluborð, er það svæði sem mest mæðir á í versluninni.  Lakkvinna er illa unnin.  Víða sést í bert efni eða hvítan grunn undir dökkbláum litnum og í samskeitum.  Lakkhúð virðist vera mjög þunn og gljái lítill.  Lita munur er víða.  Lakkið virðist þola mjög illa viðkomu.  Horn eyjunar mynda kassa eða borð m.e.a fyrir útstillingar á vörum og er verulegt misræmi í smíði þeirra.  Matsmaður telur að smíða verði annað hornið upp og færa til samræmis við fremra hornið.  Lakka þarf allt verkið.

Skúffur þola ekki álagið og þá umferð sem um þær fer, eru óþjálar og falla illa og rispast.  Eru skúffuskipti víðast laus frá skúffum.  Hurðir á skápum mislanda og vantar stoppara, hönnun á stoppara gölluð.  Skrúfur á framstykki of langar og fara í gegnum plötu.

Hurð að starfsmanna aðstöðu, er skemmd eftir ísetningarvinnu, falslisti og karmur hefur verið skemmdur við að þröngva listanum í án þess að hann passaði.  Póstur of stuttur, listar falla illa.

Karm þarf að taka úr, spartla og endursprauta og setja í að nýju.  Hurðarstaf þarf að festa og ganga frá fellilistum.

             Skápar fyrir skart, ólokið er við að smíða skápana, skúffur pössuðu ekki og eru ekki allar fullgerðar.  Lakkvinna ekki fullnægjandi.  Glerhurð reyndist ekki rétt hönnuð og smiðir töldu ekki gerlegt að láta svo stóra glerplötu hanga á MDF tréramma m.v. forsendur hönnuða skv. teikningum.

             Matsmaður telur að styrkja þurfi hurðaramma þannig að fyrirhuguð hönnun geti gengið upp.

             Töskuhillur, hönnun var breytt frá teikningum að ósk verkkaupa þannig að hillur væru færanlegar, í stað þess að vera fastar.  Breytingin sem unnin var af uppsetningarsmið er ekki nægjanlega sterk, þannig að hillur svigna undan þunga þeirra vara sem þær bera og slúta þ.a.l. niður.  Stoppara þarf að endurhanna og styrkja þannig að hillur haldist beinar.  Lakkvinna slök, lakk fyllir ekki á köntum.

             Glerhilluveggur. Ónákvæmni í uppsetningu.  Matsmaður snúraði vegginn og munar 2mm á línu hillubera að þeir séu í láréttri línu.  Hilluberar eru ekki nægjanlega stífir og burðamiklir m.v. þann þunga sem þeim er ætlað að bera.  Kappi fyrir ofan hillur flúttar illa og er mislitur.  Taka þarf niður kappa og hillubök, slípa brúnir á kappa og setja upp að nýju og setja í lárétta línu.

*Þétta þarf og fjölga hilluberum þannig að álag dreifist.  Þar sem verkkaupi lagði sjálfur til glerhillur og hillubera er ekki lagt kostnaðarmat á þann lið.

             Snyrtiborð. Smíði og málun á snyrtiborði ófullnægjandi.  Kantar og brúnir eru óslípaðir, rákir eftir sagarblað má greina, vantar rúning á brúnir(mýkja brúnir) lakk dekkar ekki.  Lakk er mislitt.  Skápahurð er ekki fullunnin er ólökkuð á baki, skápahlið er ekki full unnin, hefur verið rist, brúnin er óslípuð og lökkuð, með sagarförum. Þarf að taka í sundur, slípa, grunna kanta m. fylligrunn, mýkja brúnir og lakka að nýju.

             Ljósaský í lofti og útstillingarkassi.  Ekki er deilt um eða fundið að þessum liðum.

 

             3          Lagt verði mat á hvað kosti að bæta úr göllum á verkinu.

                                                                                                                               Fullt

                         Heiti                             eining              magn   einingarv.       verðmæti

Afgreiðsluborð

Endursmíða horneiningu                                             heild    90.000 90.000,00

Lagfæra skúffur                                                stk.                   6             2.500              15.000,00

Endurmálun afgreiðsluborðs                                                   heild                             350.000,00

Skápar fyrir standa                              stk.                   6           35.000             210.000,00

Skápar fyrir standa á hjólum              stk                    2           35.000               70.000,00

Skápar og skúffur fyrir skart              stk.                   2           40.000              80.000,00

Hillur fyrir töskur                                              eining              3           59.000             177.000,00

Hilluveggur fyrir glerhillur (án glers og hillub.)

Rífa kappa, bök og sprauta, setja upp            eining                         17         34.000             578.000,00

Snyrtiborð, rífa, laga, lakka, setja upp   stk.                           1           120.000                         120.000,00

Hurð fyrir starfsmannaaðstöðu            stk.                             1           109.000                         109.000,00

 

                                                                                                                  ______________

                                                                                                                          1.799.000,00

4       Að lagt verði mat á hvað langan tíma taki að bæta úr göllum.

             Má ætla að það getið tekið 6-8 vikur, allt eftir hvernig ákveðið yrði að standa að verki.  Matsmaður reiknar með að endurbætur yrðu að vinnast í áföngum, þar sem hluti innréttingar yrði tekinn og endurunninn.

5       Lagt verði mat á hvað langan tíma taki að taka niður og endurraða vörum í afgreiðsluborð, hillur, skápa og standa vegna lagfæringa.

Matsmaður áætlar að það taki um 100 vinnustundir að taka niður og endurraða vörum.

             6          Hvert sé hæfilegt endurgjald fyrir niðurtekt og endurröðun samkvæmt lið 5 í matsbeiðni að teknu tilliti til þess að verslunin er opin 7 daga í viku.

Taka niður vörur pakka lauslega og setja upp að nýju.                                                                                                                     

Fullt

                         Heiti                             eining              magn   kr/klst.                 verðmæti

Afgreiðsluborð tæma, og raða vörum          

að nýju                                                  fj tíma               10,0      2.500            25.000,00

Skápar fyrir standa                              fj tíma               5           2.500            12.500,00

Skápar fyrir standa á hjólum              fj tíma               1           2.500              2.500,00

Skápar fyrir skart                                              fj tíma               4           2.500            10.000,00

Hillur fyrir töskur                                              fj tíma               6           2.500            15.000,00

Hillu veggur fyrir glerhillur                fj tíma               72         2.500          180.000,00

Kassa standur við inngang                            fj tíma               1           2.500              2.500,00

Snyrtiborð                                            fj tíma               1           2.500              2.500,00

                                                                                                                        250.000,00“

 

             Í þinghaldi 8. janúar 2003 óskaði stefnandi eftir því að áður dómkvaddur matsmaður skilaði viðbótarmati um nokkur atriði.  Sú matsgerð er dagsett í apríl 2003 og segir þar meðal annars: 

,,1.    Hvert telst hæfilegt endurgjald sbr. mat dskj. 33 sé miðað við verðlag í           september 2001 en þá var vinnan unnin.

 

 

 

 

Fullt

verðlag

Heiti

eining

magn

einingarv.

verðmæti

sep.01

Afgreiðsluborð

mtr

9,6

140.000

1.344.000

1.309.376

Skápar fyrir standa

Stk

6,0

90.000

540.000

526.088

Skápar fyrir standa á  hjólum

Stk

2,0

97.000

194.000

189.002

Skápar og skúffur fyrir skart

Stk

2,0

130.000

260.000

253.302

Hillur fyrir töskur

eining

3,0

90.000

270.000

263.044

Hilluveggur með glerhillu(án glers og hillubera)

eining

17,0

95.000

1.615.000

1.573.394

Kassastandur við inngang

Stk

1,0

45.000

45.000

43.841

Snyrtiborð

Stk

1,0

220.000

220.000

214.332

Hurð fyrir starfsmannaaðstöðu (án glers)

Stk

1,0

200.000

200.000

194.848

Dregarar,ljósaský yfir inngangi og búð

heild

 

194.000

194.000

189.002

*Hillubök f. glerhilluvegg (voru smíðuð

en ekki notuð)

Stk

11,0

19.000

209.000

203.616

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

5.091.000

4.959.845

 

...

 

3       Hvað telst vera hæfilegt endurgjald fyrir smíði og lökkun á sýningarborði sem smíðað var fyrir Hygea en ekk sett upp, miðað við verðlag í september/október 2001

 

Um er að ræða útstillingarkassa samskonar og er í andyri, nema minni,  60x60 x 70 á hæð. Kassarnir voru  smíðaðir og grunnmálaðir, en ekki sprautulakkaðir né samsettir.

 

verð

 

 

 

 

fjöldi

pr eining

 

verðmæti

Sýningaborð   (kassi 60x60x 75 sm á hæð

 

3

25.000

 

75.000

 

                4      Hvað telst vera hæfilegt endurgjald fyrir smíði og lökkun á 15 hillubökum fyrir glerhilluvegg (en ekki 11 eins og fram kemur í mati, dskj.33), miðað við verðlag í september/október 2001

 

 

 

 

 

verðlag

 

 

 

 

verðmæti

sep.01

*Hillubök f. glerhilluvegg (voru smíðuð

en ekki notuð)

Stk

15,0

19.000

285.000

277.658

 

 

 

 

 

 

 

...

 

8              Óskað er eftir mati á hvort umsamið gjald fyrir vinnustund sé óeðlilega hátt miðað við dagvinnu og því hvort ekki sé  eðlilegt að hækka gjald miðað við eftirvinnu.

Matsmaður telur að tímagjald uppá 3000 kr/klst auk virðisaukaskatts  sem jafnaðargjald fyrir alla starfsmenn verkstæðisins, með  vélum og tækjum  inniföldum í verði pr  vinnustund starfsmanns, sé mjög sanngjarnt.

Ef innheimta ætti yfirvinnu sérstaklega og tímagjald  fyrir vélar einnig þá væri  tímagjald fyrir smið og aðstoðarmenn á verkstæði eðlilega eitthvað  lægra .

             Engin verðská frá Hit ehf liggur frammi, en þekktar tölur gætu verið

             Gjald fyrir meistara 2300-2500 kr/klst   auk  virðisaukaskatts

             Gjald fyrir smið m/ sveinspróf 2000-2200 kr/klst auk virðisaukaskatts

             Gjald fyrir verkamann/aðstoðarm. 1500-2000 kr auk virðisaukaskatts.

                9      Óskað er eftir mati á því hvort 4 vikur sé nægjanlegur tími til að klára grunnvinnu í verslun ,smíða, lakka og setja upp  innréttingar sem um ræðir í máli þessu.

                        Matsmaður telur að 3 vanir menn séu þrjár og hálfa viku, í samfeldri vinnu ,að smíða og lakka og 2 vanir smiðir séu um 2og hálfa viku að setja saman og setja upp. Fræðilega er hægt að vinna svona verkefni á 4 vikum en það er ljóst að slíkt yrði mjög strembið og krefðist góðrar skipulagningar.                

                                      2 smiðir           2,4 vikur  uppsetning                  4,8 vikur

                                      3 smiðir           3,5 vikur  smíði, lökkun       10,4 vikur

                                                                                         samtals                15,2 vikur

                                      15,2 x 45 tímar pr viku  677 vinnustundir

            10       Mat á því hvort matt lakk á innréttingum, svo sem arkitektar gerðu kröfu um sé viðkvæmara og líklegra að það sjái meira á því og sé viðkvæmara í þrifum en það sem meiri gljái er í.

Til sprautunar á húsgögnum og innréttingum er notast við sýruhert 2ja þátta lakk, þar sem herði er blandað í lakkið fyrir notkun. Gljástig hefur ekkert með styrk lakksins að gera.

Almennt er það skoðun að meira sjáist á hærra gljástigi og erfiðara sé að halda slíkum flötum hreinum. Gljástig innréttinga Hygea er 35-40 % með silkimattri áferð sem ætti að vera auðveld í umgengni m.t.t. fingrafara og ryks.

            11       Sé innrétting tvílökkuð er líklegra að litamunur sjáist eða að það brotni upp úr málningu.

Almennt er gert ráð fyrir að allt sé  tvílakkað og jafnvel þrílakkað vilji menn fá sterkara yfirborð. Ef það er ekki gert og málað er með dökkum lit ofan á hvítan grunn er hætta á að hvíti liturinn komi upp í gegn.

Verkefnið það sem hér er fjallað um einkennist af misgljáa, misfyllingu lakks og mislit .

Mislitur getur stafað af  misblöndun málningarverksmiðju, ónógri fyllingu dökkalitsins á hvítan grunn. Misfylling er eingöngu vegna ójafnrar yfirferðar með lakk í sprautun. Misgljái getur stafað af  misblöndun í málningarverksmiðju eða mismunandi margra yfirferða að einhverju leiti. Æskilegra hefði verið að nota dökkan grunn.“   

 

Í þinghaldi 23. apríl 2003 óskaði stefndi eftir því að dómkvaddur yrði hæfur og óvilhallur maður til að leggja mat á rekstrarstöðvunartjón og tapaða viðskiptavild vegna lokunar verslunar stefnda í Smáralind í Kópavogi.  Í matsgerð Einars Hálfdánarsonar hrl. og löggilts endurskoðanda segir meðal annars að áætlaður framlegðarmissir sé 390.000 krónur standi lokun yfir í einn mánuð og 865.000 krónur standi lokun yfir í tvo mánuði.

 

III.

             Stefnandi byggir á munnlegu samkomulagi aðila um að stefndi greiddi stefnanda fast gjald fyrir þá tíma sem unnir væru í þágu stefnda auk greiðslu fyrir efniskostnað og vélavinnu.  Upphaflega hafi verið miðað við að tímagjald væri 3.000 krónur á klukkustund.  Síðar hafi komið í ljós að verkið yrði ekki einungis unnið í dagvinnu.  Breytingar hafi orðið á upphaflegu samkomulagi aðila og einnig hafi orðið tafir á því að teikningar bærust frá arkitektum.  Stefnda hafi verið gerð grein fyrir þessu en hann hafi óskað eftir því að allt yrði gert til þess að ljúka verkinu fyrir opnunartíma verslunarinnar.  Af þeirri ástæðu hafi stefnandi og starfsmenn hans unnið um kvöld og helgar við að klára verkið.  Eftirvinnuálag hjá stefnanda sé 80% hærra en dagvinnugjald eða 5.400 krónur á klukkustund.

             Stefnandi mótmælir þeim skilningi stefnda að tímagjald sé of hátt og að ekki hafi verið samið um greiðslu fyrir vélavinnu.  Samið hafi verið um fasta dagvinnu og ekki gerð krafa um að gjaldið hækkaði í samræmi við hækkanir á byggingavísitölu svo sem venja sé.  Þá megi og benda á að mikill skortur hafi verið á iðnaðarmönnum á þessum tíma.  Stefnda hafi strax í upphafi verið gerð grein fyrir því að vélavinna væri ekki innifalin í tímagjaldi. 

             Stefnandi mótmælir mati hinna dómkvöddu matsmanna.

            

             Krafa stefnda um sýknu er á því byggð að honum sé óskylt að greiða reikning stefnanda þar sem vinna stefnanda hafi verið verulega gölluð og ljóst sé að stefndi eigi gagnkröfu til skuldajafnaðar á hendur stefnanda vegna þessar galla sem sannreyndir hafi verið í matsgerð.  Krafa um sýknu er einnig á því byggð að ástæða sé til að ætla að reikningurinn sé bersýnilega ósanngjarn.  Stefndi hafi gert bindandi samkomulag við stefnanda um fast tímavinnugjald með öllu inniföldu þar með gjaldi fyrir vélavinnu og aukavinnu.  Það hafi staðið stefnanda nær að tryggja sér sönnun fyrir því að samið hafi verið um annað.

             Krafa um sýknu á dráttarvöxtum frá fyrri tíma en fyrir dómsuppsögu sé á því byggð að stefndi hafi neyðst til að halda uppi vörnum í málinu með ærnum kostnaði.  Stefndi hafi þurft að fá dómkvaddan matsmann sem auðveldlega hafi mátt koma fyrir ef stefnandi hefði verið til viðræðna um lausn á málinu.

             Gagnkrafa stefnda til skuldajafnaðar er eftirfarandi:

Gallar á verki skv. matsgerð.........................................................1.799.000,00

Niðurtekt og endurröðun á vörum.....................................................250.000,00

Ófyrirséður kostnaður vegna viðgerða...............................................300.000,00

Rekstrarstöðvunartjón skv. matsgerð.................................................865.000,00

Kostnaður vegna lokunnar................................................................ 200.000,00

             Aukavinna starfsmanna vegna tafa á afhendingu.................................75.000,00

                                                                                          Samtals...................3.489.000,00

 

 

 

IV.

             Í lok árs 2000 fóru forsvarsmenn stefnda þess á leit við forsvarsmann stefnanda að stefnandi tæki að sér hönnun og framkvæmdir í verslunarrými stefnda í nýrri verslun hans í verslunarmiðstöðinn Smáralind.  Aðilar gerðu með sér munnlegt samkomulag og tók stefnandi að sér nokkra verkþætti, m.a. hönnun, uppsetningu á milliveggjum og lofti svo og smíði lausra innréttinga.

             Húsnæðið fékkst afhent í júlí 2001 og skyldi verki stefnanda vera lokið 1. október 2001 en opna átti verslunarmiðstöðina 10. s.m.    Verk stefnanda gekk vel framan af og 11. september var nánast öllu lokið fyrir utan að smíða og setja upp lausar innréttingar.  Ekki er ágreiningur um það verk er lokið var 11. september og þeir verkþættir uppgerðir milli aðila fyrir utan vinnu við loft og blikksmíði.  Ágreiningslaust er að stefndi skuldar stefnanda 188.351 krónu fyrir utan virðisaukaskatt vegna blikksmíði og gerir stefnandi kröfu um þá fjárhæð í reikningi sínum.  Vinna við loft er einnig í reikningi stefnanda en ósundurliðuð.  Matsmaður hefur metið þá vinnu á 189.002 krónur.  Að öðru leyti er einungis deilt um lausar innréttingar.  Heldur stefndi því fram að reikningur stefnanda sé alltof hár og eins að verkið sé gallað.  Því er við að bæta að stefnanda tókst ekki að ljúka verkinu að öllu leyti og er reikningur hans við það miðaður.

             Í upphafi stóð til að forsvarsmaður stefnanda hannaði allar innréttingar í verslunina og fóru forsvarsmenn aðila til útlanda til þess að skoða innréttingar í verslunum.  Forsvarsmaður stefnanda hóf þá vinnu og hefur fengið greitt fyrir hana.  Í ljós kom síðar, líklega í mars 2001, að eigendur Smáralindar gerðu þá kröfu að löggiltir arkitektar hönnuðu allar innréttingar í verslunarmiðstöðinni.  Stefndi réði þá réttargæslustefnda AT4 arkitekta ehf. í það verk og er ágreiningslaust að réttargæslustefndu AT4 arkitektar ehf. unnu á ábyrgð stefnda og að stefndi greiddi reikning þeirra.

             Ágreiningur er með aðilum um hvort teikningar arkitektanna hafi borist stefnanda nógu snemma þannig að stefnanda hafi gefist nægilegur tími til þess að smíða innréttingarnar og setja þær upp fyrir opnun verslunarmiðstöðvarinnar 10. október 2001.  Það er málsástæða af hálfu stefnanda að svo hafi ekki verið og það hafi leitt til þess að starfsmenn hans hafi þurft að vinna mikla yfirvinnu.  Fyrir liggur þó í málinu að stefnandi kvartaði aldrei við stefnda vegna þessa á meðan á verkinu stóð.  Algengt er í þessari starfsgrein við sambærilegar aðstæður að hönnunarteikningar berist smám saman á meðan á verkinu stendur. Leiðir það til þess að smiður þarf að vera í tíðum samskiptum við hönnuð.  Nokkuð óhagræði er af því fyrir smiðinn og telur dómurinn að taka beri tillit til þess enda það óhagræði ekki metið sérstaklega í matsgerð hins dómkvadda matsmanns.  Hins vegar telur dómurinn að með hliðsjón af umfangi verksins hafi stefnandi haft nægilegan tíma til þess að ljúka verkinu enda öðrum verkþáttum lokið 11. september 2001 og stefnanda farið að berast teikningar af innréttingum seinnihlutar ágústmánaðar. 

             Aðilar deila um hvort umsamið tímakaup að fjárhæð 3000 krónur hafi verið jafnaðarkaup eða einungis dagvinnukaup sem álag legðist á í yfirvinnu og vélarvinnu.  Stefnandi gerir kröfu um 5400 í yfirvinnu og 10.200 til 18.000 krónur á tímann fyrir vélarvinnu, allt eftir því hvaða vél var notuð.  Í matsgerð kemur fram að á þessum tíma hafi gjald fyrir meistara verið 2300 til 2500 krónur á klukkustund, gjald fyrir smið 2000-2200 krónur á klukkustund og gjald fyrir verkamann eða aðstoðarmann 1500-2000 krónur á klukkustund.  Með hliðsjón af þessu telur dómurinn að túlka beri munnlegan samning aðila um 3000 króna tímakaup sem jafnaðarkaup fyrir dagvinnu, yfirvinnu og vélarvinnu

             Matsmaður hefur komist að þeirri niðurstöðu að hið umdeilda verk hefði átt að kosta 4.959.845 krónur miðað við verðlag í september 2001 en ekki 6.384.648 krónur eins og reikningur stefnanda hljóðar á um.  Þessari niðurstöðu matsmanns hefur ekki verið hnekkt með yfirmatsgerð eða með öðrum hætti og verður hún því lögð til grundvallar. Reikningur stefnanda telst því ekki viðhlítandi grundvöllur kröfugerðar hans samkvæmt grunnrökum að baki 5. gr. laga nr. 39/1922 sem þá giltu um samningssamband aðila. Í þetta mat vantar þó kostnað við smíði sýningarborðs sem ekki var sett upp í versluninni en stefnandi smíðaði að ósk stefnda.  Í viðbótarmatsgerð er sú smíði talin kosta 75.000 krónur.  Á sama hátt metur matsmaður til viðbótar smíði á 4 hillubökum, samtals að fjárhæð 76.000 krónur.  Sem áður sagði er ágreiningslaust að reikningur stefnanda sé réttur varðandi blikkvinnu að fjárhæð 234.497 krónur með virðisaukaskatti.  Loks ber, eins og áður er rakið, að taka tillit til þess óhagræðis sem hlaust af því að allar teikningar af innréttingum lágu ekki fyrir strax í upphafi verks.  Þykir það atriði hæfilega metið 100.000 krónur.

             Samkvæmt þessu verður krafa stefnanda talin þannig réttilega fundin, samtals að fjárhæð 5.445.342 krónur (4.959.845+75.000+76.000+234.497+100.000), með virðisaukaskatti og á verðlagi í september 2001. 

             Dómurinn er ósammála matsmanni að verulegu leyti varðandi galla á hinu umdeilda verki.  Dómurinn telur verk stefnanda ekki eins mikið ábótavant eins og fram kemur í matsgerð.  Þá telur dómurinn einnig að beita megi ódýrari aðferðum en matsmaður leggur til við að laga það sem betur má fara.  Verk stefnanda er þó ekki gallalaust og þegar málið er metið í heild þykir stefndi eiga rétt á 500.000 króna afslætti af tildæmdum fjárhæðum.

             Stefndi hefur aflað mats á því hvert sé rekstrarstöðvunartjón stefnda og töpuð viðskiptavild vegna lokunar búðarinnar  meðan á viðgerð stendur.  Það er álit dómsins að óþarfi sé að loka versluninni meðan viðgerð fer fram.  Viðgerð má auðveldlega vinna á staðnum að hluta meðan verslunin er opin og eins er unnt að flytja innréttingar í burtu í einingum smám saman, lagfæra og setja upp á ný eftir nokkra daga.  Þykja því ekki efni til þess að taka þessa gagnkröfu stefnda til greina. Á sama hátt og með sömu rökum þykja ekki efni til þess að taka gagnkröfu stefnda til greina vegna niðurtektar og endurröðunar á vörum.          

Niðurstaða málsins í heild verður því sú að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 4.945.342 krónur (5.445.342-500.000) með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 22. nóvember 2001 til greiðsludags.  Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað að fjárhæð 400.000 krónur.  Við ákvörðun málskostnaðar til handa stefnanda hefur verið tekið tillit til þess að stefnda var nauðsyn á að afla mats til þess að sannreyna galla og á því rétt á að fá þann kostnað bættan.  Réttargæslustefndu hafa gert kröfu um málskostnað í málinu skv. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 91/1991.  Þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 50.000 krónur til hvors.

             Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari, Bergmundur Elli Sigurðsson húsasmíðameistari og Hallur Kristvinsson húsasmíðameistari og innanhússarkitekt kveða upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ

             Stefndi, Hygea ehf., greiði stefnanda, Hit innréttingum ehf., 4.945.342 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 22. nóvember 2001 til greiðsludags og 400.000 krónur í málskostnað.

             Stefnandi greiði réttargæslustefndum, Jóni Inga Lárussyni, 50.000 krónur í málskostnað og réttargæslustefnda AT4 arkitektum ehf., 50.000 krónur í málskostnað.