Hæstiréttur íslands
Mál nr. 77/2009
Lykilorð
- Umferðarlagabrot
- Brot gegn valdstjórninni
|
|
Fimmtudaginn 19. nóvember 2009. |
|
Nr. 77/2009. |
Ákæruvaldið(Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari) gegn Ólafi Kristjánssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Umferðalagabrot. Brot gegn valdstjórninni.
Ó var ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni og umferðarlagabrot með því að hafa slegið lögreglumann í andlitið og ekið bifreið sviptur ökurétti í tvö skipti. Í málinu var talið sannað að Ó hefði veitt harkalegt viðnám og barist um er lögreglumenn reyndu að handtaka hann í kjölfar umferðaróhapps sem hann var valdur að. Hefði Ó mátt vera ljóst að slys gat hlotist af mótþróa hans við handtökuna en hann barist um engu að síður. Var skilyrði um ásetning því fullnægt og talið sannað að Ó hefði slegið lögreglumanninn í andlitið í átökunum. Var Ó dæmdur í 90 daga skilorðsbundið fangelsi auk greiðslu sektar að fjárhæð 150.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. febrúar 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða en refsing hans þyngd.
Ákærði krefst sýknu af 1. lið ákæru og að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa fyrir brot samkvæmt 2. og 3. lið ákæru.
Ákærði, sem valdið hafði umferðarslysi, sinnti ekki beiðni lögreglumanns, sem komið hafði á vettvang, um að koma út úr bifreiðinni sem hann ók. Skömmu síðar komu tveir aðrir lögreglumenn til aðstoðar. Þegar ákærði sinnti ekki boði lögreglumannanna um að koma sjálfur út úr bifreiðinni freistuðu þeir þess að ná honum þaðan. Ákærði veitti harkalegt viðnám og barðist um er lögreglumennirnir reyndu að handtaka hann. Ákærða mátti vera ljóst að slys gat hlotist af mótþróa hans við handtökuna, en barðist um engu að síður. Er fallist á með héraðsdómi að sannað sé að ákærði hafi slegið lögreglumann í andlitið í átökunum. Er skilyrði um ásetning fullnægt. Brotið er rétt fært til refsiákvæðis í 1. ákærulið.
Sakaferli ákærða er lýst í héraðsdómi. Í niðurstöðukafla dómsins kemur fram að ákærði hafi verið dæmdur 9. september 2007 í sekt fyrir nytjastuld. Sakavottorð ákærða er rangt um þetta. Rétt er að ákærði var í Héraðsdómi Suðurlands 7. september 2007 sýknaður af ákæru um slíkt brot.
Með þessum athugasemdum verður héraðsdómur staðfestur.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 166.707 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 149.400 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2008.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 24. júlí sl. á hendur ákærða, Ólafi Kristjánssyni, kt. 090369-4909, Kleppsvegi 120, Reykjavík, “fyrir neðangreind hegningar- og umferðalagabrot:
1. Brot gegn valdstjórninni með því að hafa mánudaginn 3. september 2007, á Bústaðavegi til móts við Kringlumýrarbraut í Reykjavík slegið lögreglumanninn A, sem þar var við skyldustörf, í andlitið með þeim afleiðingum að A hlaut mar á hægra kinnbeini.
Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 101/1976, lög nr. 82/1998 og lög nr. 25/2007.
2. Umferðarlagabrot með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 26. janúar 2008, ekið biðreiðinni SZ-266 sviptur ökurétti um gatnamót Njarðargötu og Hringbrautar í Reykjavík.
3. Umferðalagabrot með því að hafa föstudaginn 7. mars 2008, ekið bifreiðinni KF-393 óskráðri, án lögboðinnar ábyrgðartryggingar og sviptur ökurétti um Bústaðaveg og Kringlumýrarbraut í Reykjavík og að Ásbraut í Kópavogi.
Telst brot ákærða samkvæmt 2. ákærulið varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðalaga nr. 50/1987 með síðari breytingum. Teljast brot ákærða samkvæmt 3. ákærulið varða við 1. mgr. 63. gr., sbr. 1. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 751/2003, 1. mgr. 91. gr., sbr. 1. mgr. 93. gr. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar”.
Málavextir
- ákæruliður:
Fyrir liggur að mánudaginn 3. september 2007 varð árekstur með bíl ákærða og á Bústaðavegi á móts við Kringlumýrarbraut. Lögreglumenn komu fljótlega á vettvang, einn á bifhjóli og svo skömmu seinna tveir í lögreglubíl. Urðu þar átök milli lögreglumannanna og ákærða. Í framglugga lögreglubílsins var vídeótökuvél sem vísaði fram og mátti þannig fylgjast með því sem gerðist fyrir framan hann. Upptaka úr vélinni fylgir máli þessu og má sjá að bíllinn nemur staðar fyrir aftan lögreglubifhjól sem er fyrir aftan bíl ákærða. Bifhjólamaðurinn stendur við hliðina á bíl ákærða, ökumannsmegin. Lögreglumenn þeir sem í bílnum voru sjást ganga að bíl ákærða og til hans. Ekki er að sjá að þeir beygi sig eða teygi inn í bíl ákærða en skyndilega sést mannvera skjótast eða stökkva aftur á bak út úr bíl ákærða og í fang lögreglumannanna sem virðast reyna að skorða mann þennan fram á við og beygja hann fram á við inn á bílþakið. Sést ákærði brjótast þar hart um og tekst honum að losa sig úr þessum skorðum. Verða við það hörð átök svo að lögreglumennirnir hrökklast aftur á bak og berst leikurinn út á akreinina við hliðina. Þar virðist maðurinn og einn lögreglumannanna lenda í götunni en hinir tveir sjást veita félaga sínum liðsinni. Að lokum drífur að fleiri lögreglumenn og maðurinn úr bílnum sést leiddur á brott.
Einn þeirra lögreglumanna sem í hlut áttu, A, fór á slysadeild Fossvogsspítala og samkvæmt vottorði Ólafs Ragnars Ingimarssonar læknis þar var hann með mar yfir hægra kinnbeini. Kvaðst hann vera aumur þar undir og einnig kvartaði hann um eymsli á vinstra framhandlegg.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins.
Ákærði neitar sök. Hann segist hafa lent í smávægilegum árekstri í umrætt sinn. Kveðst hann hafa farið úr bílnum og svo farið inn í hann aftur til þess að drepa á vélinni. Hafi þá lögreglumaður, sem hafði komið þarna að, sagt við hann og spurt hvað hann væri að gera en hann sagt sem var, að hann væri að fara til þess að “svissa af” bílnum og maðurinn skyldi “slappa af”. Hafi heill hópur af lögreglumönnum komið að og honum verið kippt út úr bílnum og hann laminn í köku. Hefði þetta ekki verið í fyrsta skipti sem hann fengi slíka meðferð. Neitar hann því að hafa slegið lögreglumann þarna og neitar því að hann hafi reynt að losa sig úr tökum lögreglumannanna.
Hlynur Gíslason lögreglumaður hefur skýrt frá því að tilkynnt hefði verið um ölvaðan ökumann á bílnum sem um ræðir og væri hann á leið vestur Bústaðaveg. Kveðst hann hafa farið að svipast um eftir bílnum og hafa fundið hann fljótlega þar sem hann var kyrrstæður eftir árekstur. Ökumaðurinn, ákærði, hafi greinilega verið í annarlegu ástandi og talað mikið við sjálfan sig. Hafi ekki verið hægt að tala við hann og hann virst vera í öðrum heimi. Kveðst hann hafa álitið manninn vera í einhvers konar vímu. Maðurinn hafi sest aftur í bílinn og farið að gramsa eitthvað og verið á hnjánum að gramsa í hanskahólfinu í bílnum. Kveðst vitnið svo hafa beðið eftir liðsauka og þegar hann barst hafi maðurinn verið beðinn um að koma úr bílnum. Þegar því var ekki sinnt og náðist neitt samband við manninn hafi verið ákveðið að handtaka hann. Minnir vitnið að manninum hafi verið sagt að hann væri handtekinn. Hafi hann streist mjög á móti og hrakyrt þau, lögreglumennina. Hafi hann barist á móti og í þeim átökum hafi gleraugun fokið af A, félaga vitnisins, og hann sagst hafa verið kýldur eða eitthvað í þá veru. Vitnið kveðst ekki hafa séð það högg en séð hafi á andliti A eftir þetta. Að lokum hafi svo tekist að setja manninn í handjárn.
A lögreglumaður hefur skýrt frá því að þegar þau Steinunn Sigmundsdóttir, starfssystir hans, komu að bílnum hafi ákærði verið í bílnum og annað hvort setið þar eða verið eitthvað að “bardúsa” þar eða róta til. Hafi hann verið beðinn um að koma út en þegar hann varð ekki við því hafi verið ákveðið að handtaka manninn og honum tilkynnt það. Hafi þeir tekið undir handleggina á honum og reynt að setja hann í járn. Hafi hann þá staðið í hurðarfalsinu og spyrnt sér frá og reynt að snúa sér við með því að hreyfa handleggina og þeir við það misst á honum tökin. Kveðst hann hafa misst af sér gleraugun og fengið smáhögg frá ákærða við þetta sem hafi valdið grunnu mari í andlitinu. Hafi þeir ákærði snúið hvor að öðrum og ákærði verið með frjálsa handleggina. Kveðst hann hafa náð að taka utan um manninn og setja hann í jörðina og þar hafi hann verið settur í járn með hjálp hinna tveggja. Hafi leikurinn borist við þetta yfir á næstu akrein.
Steinunn Sigurmundsdóttir lögreglumaður hefur skýrt frá því að ákærði hafi verið á hnjánum í bílstjórasætinu að gramsa eitthvað á milli sætanna, þegar hún kom að bíl hans. Hafi hann sagst vera að leita að ökuskírteini sínu. Hafi þeir A og Hlynur sagt manninum að koma út úr bílnum en hann ekki sinnt því. Skyndilega hafi hann stigið í hurðarfalsið og spyrnt sér frá bílnum og í fangið á þeim hinum svo að hann hafði nærri hrint þeim öllum um koll og yfir á akreinina við hliðina. Hafi þá orðið nokkur átök þar sem ákærði náði að slá gleraugun og húfuna af A og hafi einnig komið höggi á andlit hans. Kveðst hún hafa séð roða í andliti A eftir höggið. Segir vitnið að ákærði hafi komið þessu höggi á A eftir að þeir voru fallnir í jörðina eða í fallinu, enda hafi hann baðað út höndum og fótum. Hafi að lokum tekist að setja manninn í járn og hafi þurft mikil átök til þess, enda maðurinn algerlega trylltur.
B, ökumaður bílsins sem ákærði ók aftan á, hefur skýrt frá því að hún hafi farið að bíl ákærða og þá séð að hann var á fjórum fótum inni í bílnum. Hafi hún yrt á hann og hann sagst vera að leita að einhverjum lyklum. Hafi hún þá sest inn í bíl sinn aftur en lögreglumaður á bifhjóli komið þarna fljótlega að. Hafi hann farið að bíl ákærða og spurt tvisvar eða þrisvar hvort hann vildi ekki stíga út en þá hafi verið komnir fleiri lögreglumenn á vettvang. Maðurinn hafi ekki ansað þessum tilmælum og þetta hafi endað í miklum handalögmálum. Hafi maðurinn spyrnt á móti og fætur hans farið upp á bílinn og sýnt svo mikinn mótþróa að lögreglumennirnir virtust vera í vandræðum með hann.
Niðurstaða
Með framburðum vitnanna í málinu og myndskeiðinu sem liggur frammi í málinu telst sannað að ákærði veitti mikið viðnám þegar lögreglumennirnir reyndu að taka hann úr bílnum. Ber upptökunni og vitnisburði þeirra A, Steinunnar og B saman um það að hann hafi spyrnt sér frá bílnum og jafnframt ber lögreglumönnunum saman um það að hann hafi baðað frá sér útlimunum. Telst vera sannað með framburði A og Steinunnar að A fékk við það högg í andlitið frá ákærða. Af framburði vitnanna og myndskeiðinu verður ráðið með vissu að ákærði beitti ýtrustu kröftum þegar hann spyrnti sér frá bílnum og flaugst á við A. Er það til marks um heiftina í atlögu ákærða, sem er lítill vexti, að hann hrakti lögreglumennina út á næstu göturein og hafði nærri fellt A um koll, þótt hann sé afarmenni að burðum. Er ákærði sannur að broti gegn valdstjórninni, eins og því er lýst í 1. tl. ákærunnar og þeim refsiákvæðum sem tilfærð eru þar.
- og 3. ákæruliður:
Ákærði hefur skýlaust játað þau brot sem hann er saksóttur fyrir í 2. og 3. tl. ákærunnar. Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem þar er lýst og réttilega eru þar færð til refsiákvæða.
Refsing og sakarkostnaður
Ákærði á að baki talsverðan sakaferil. Frá árinu 1985 hefur hann hlotið átta fangelsisdóma fyrir ýmis konar brot, aðallega gegn almennum hegningarlögum, þar af einu sinni fyrir rán, árið 1997, en einnig fyrir umferðarlaga og fíkniefnabrot. Þá hefur hann verið sektaður þrisvar sinnum fyrir önnur brot, síðast 9. september í fyrra að hann var dæmdur í sekt fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot. Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 90 daga. Þar sem hegningarlagabrot ákærða nú er ekki ítrekun við síðasta dóminn, full 10 ár voru liðin frá síðasta dómi ákærða fyrir hegningarlagabrot og loks að lítill áverki hlaust af árás hans þykir mega ákveða að fangelsisrefsing ákærða verði skilorðsbundin og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Auk þessa ber að gera ákærða fésekt, 150.000 krónur og komi 12 daga fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.
Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Kristjáni Stefánssyni hrl., 150.000 krónur í málsvarnarlaun, sem dæmast með virðisaukaskatti.
Annan sakarkostnað, 23.200 krónur, ber að dæma ákærða til að greiða einnig.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Ólafur Kristjánsson, sæti fangelsi í 90 daga. Frestað er því að framkvæma refsinguna og fellur hún niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð. Ákærði greiði 150.000 krónur í sekt og komi 12 daga fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.
Ákærði greiði verjanda sínum, Kristjáni Stefánssyni hrl. 150.000 krónur í málsvarnarlaun og greiði jafnframt 23.200 krónur í annan sakarkostnað.