Hæstiréttur íslands

Mál nr. 193/2007


Lykilorð

  • Akstur sviptur ökurétti
  • Skilorðsrof
  • Ökuréttur


         

Fimmtudaginn 22. nóvember 2007.

Nr. 193/2007.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson, ríkissaksóknari)

gegn

Brynjólfi Kristni Friðjónssyni

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

 

Akstur án ökuréttar. Skilorðsrof. Ökuréttur.

 

B var sakfelldur fyrir að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti. Með brotinu rauf hann skilorð reynslulausnar sem honum hafði verið veitt á 170 dögum óafplánaðrar refsingar. Með vísan til 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga var honum gerð refsing í einu lagi samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga og hún ákveðin fangelsi í sex mánuði. Að teknu tilliti til upplýsinga um betri hegðun hans að undanförnu þótti rétt að skilorðsbinda refsinguna að fullu.

    

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. mars 2007. Hann krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess að hann verði dæmdur til vægustu refsingar.

Ákærði áfrýjaði ekki héraðsdómi fyrir sitt leyti. Kemur krafa hans um vægari refsingu ekki til álita nema að því marki sem efni kunna að vera til samkvæmt 2. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Með héraðsdómi var ákærði sakfelldur fyrir að hafa ekið bifreið vestur Austurmörk við Reykjamörk í Hveragerði aðfaranótt sunnudagsins 12. nóvember 2006 sviptur ökurétti. Farið var með málið samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og ákærði sakfelldur fyrir brot á 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Ákærði er fæddur 12. október 1979. Hann hefur aldrei öðlast ökurétt en ítrekað gerst sekur um brot gegn umferðarlögum. Samkvæmt sakarvottorði 11. júlí 2007 var ákærði dæmdur fyrir akstur án ökuréttar 20. nóvember 2002. Með dómi 8. apríl 2003 var ákærði dæmdur fyrir akstur án ökuréttar og fyrir ölvunarakstur og var hann þá auk refsingar dæmdur í tveggja mánaða sviptingu á ökurétti. Þá var ákærði dæmdur fyrir akstur án ökuréttar 15. október 2003. Hann undirgekkst sátt 26. júlí 2004 fyrir akstur án ökuréttar og var þá sviptur ökurétti í þrjá mánuði. Með dómi 28. október 2004 var ákærði dæmdur enn á ný fyrir akstur án ökuréttar. Með viðurlagaákvörðun 22. mars 2005 var ákærða gerð refsing fyrir að hafa ekið sviptur ökurétti. Þá var ákærði dæmdur 18. júlí 2005 fyrir að hafa í þrjú skipti ekið sviptur ökurétti og fyrir ölvunarakstur. Auk refsingar var ákærði þá sviptur ökurétti í tvö ár.

Ákærði hefur ítrekað gerst sekur um brot gegn umferðar- og hegningarlögum. Þannig hefur hann með fjórum dómum og einni sátt verið fundinn sekur um að hafa í sjö skipti ekið bifreið án þess að hafa öðlast ökurétt. Þá hefur hann með einni sátt og einum dómi verið fundinn sekur um að hafa fjórum sinnum ekið sviptur ökurétti. Auk þessa hefur hann tvisvar gerst sekur um ölvunarakstur.

Með broti sínu rauf ákærði skilorð reynslulausnar sem honum hafði verið veitt 15. janúar 2006 í eitt ár á 170 dögum óafplánaðrar refsingar, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Með vísan til 1. mgr. 65. gr. laganna ber því nú að gera ákærða refsingu í einu lagi samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar verður litið til sakarferils ákærða, sbr. 5. tölulið 1. mgr. 70. gr. síðarnefndra laga og einnig til 6. töluliðar 1. mgr. sömu greinar. Samkvæmt framangreindu verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í sex mánuði.

Ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Í bréfi Fangelsismálastofnunar ríkisins 7. febrúar 2007 kemur fram að ákærði virðist hafa náð góðum tökum á lífi sínu og hafi stundað sömu vinnu allt frá því að hann dvaldi á áfangaheimili Verndar síðasta hluta afplánunartímans. Hafi hann náð að halda sig frá áfengi og vímuefnum. Jafnframt liggur fyrir jákvæð umsögn frá vinnuveitanda ákærða um störf hans síðast liðin tvö ár. Þá er fram komið að fjölskylduaðstæður hans muni hafa breyst til hins betra. Þegar til þessa er litið þykir mega skilorðsbinda refsingu hans að fullu.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Brynjólfur Kristinn Friðjónsson, sæti fangelsi í sex mánuði, en fullnustu refsingarinnar skal frestað og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað. 

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 199.578 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Guðmundar B. Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur. 

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 8. febrúar 2007.

Mál þetta, sem þingfest var þann 1. febrúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 16. nóvember 2006, á hendur Brynjólfi Kristni Friðjónssyni, kt. 121079-5189, Gullsmára 4, Kópavogi, til dvalar að Borgarholtsbraut 13a, Kópavogi,

,,fyrir umferðarlagabrot með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 12. nóvember 2006 ekið bifreiðinni MS-158 sviptur ökurétti, vestur Austurmörk við Reykjamörk í Hveragerði. 

Ákæruvaldið telur þessa háttsemi varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

Ákærði kom fyrir dóminn við þingfestingu málsins, ásamt verjanda sínum, og játaði brot sitt greiðlega. Málið var því tekið til dóms samkvæmt 1. mgr. 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði framdi brot það sem greinir í ákæru og þar er réttilega fært til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. 

Samkvæmt sakavottorði sem liggur frammi í málinu er ákærði með langan brotaferil eða allt frá árinu 1997. Ákærði hefur ítrekað brotið gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og verið sviptur ökurétti, auk þess að hafa brotið gegn lögum um ávana- og fíkniefni og hegningarlögum. Hafa brot ákærða gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga síðustu fimm ár ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu, sbr. 1. mgr. 77. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði hlaut síðast dóm þann 18. júlí 2005 en þá var hann dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 259. gr. og 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 44. gr., 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Ákærði fékk reynslulausn 15. janúar 2006 í eitt ár á eftirstöðvum refsingar, 170 daga. Samkvæmt gögnum frá fangelsismálayfirvöldum hefur ákærði stundað vinnu og staðið sig að öðru leyti vel  frá þeim tíma. Ákærði hefur ekki gerst brotlegur við lög frá því dómurinn var kveðinn upp í júlí 2005 utan hvað varðar það mál sem ákærði er nú sakfelldur fyrir.

Með brotum þeim sem ákærði er nú dæmdur fyrir rauf hann skilyrði reynslulausnarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 ber að ákvarða ákærða refsingu eftir reglum 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með heimild í 60. gr. hegningarlaganna þykir nú mega dæma ákærða refsingu sér í lagi en láta reynslulausnina haldast.     

Af öllu ofansögðu virtu, að ákærði játaði brot sitt greiðlega og er að bæta ráð sitt, þykir refsing hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að tveimur árum liðunum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði greiði allan sakarkostnað sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Guðmundar B. Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, og þykir hæfilega ákvörðuð 70.470 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts og aksturs, 8.220 krónur.

Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður sótti málið af hálfu ákæruvalds.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Brynjólfur Kristinn Friðjónsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að tveimur árum liðunum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði greiði allan sakarkostnað sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Guðmundar B. Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, 70.470 krónur.