Hæstiréttur íslands

Mál nr. 238/2002


Lykilorð

  • Skuldabréf
  • Framsal


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. nóvember 2002.

Nr. 238/2002.

Margrét Rósa Einarsdóttir

(Jón Magnússon hrl.)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

 

Skuldabréf. Framsal.

Í keypti handhafaskuldabréf af þeim SÓ og SS, sem M, þáverandi sambúðarkona SÓ, hafði framselt eyðuframsali. M hélt því fram að útibússtjóri Í hafi lofað SÓ að leggja andvirði bréfsins inn á reikning M, en ekki verið heimilt að ráðstafa því sem greiðslu inn á annað skuldabréf, svo sem Í gerði. Skuldabréfið bar hvorki með sér að framsalinu fylgdu skilmálar né önnur fyrirmæli framseljanda. Þeir SÓ og SS báru fyrir dómi að þeir hafi selt Í bréfið fyrir hönd M. Engin gögn studdu þá staðhæfingu að þeir hafi gert þetta í umboði M, en ósannað var gegn andmælum Í að ódagsett umboð M, sem hún lagði sjálf fram í málinu og var í skjalaskrá sagt vera afrit af umboði hennar til umboðsmanns, hafi fylgt skuldabréfinu þegar Í keypti það. Með vísan til þessa varð að telja að útibússtjóri Í hafi verið í góðri trú um að þeir SÓ og SS væru lögformlegir handhafar skuldabréfsins sem um ræddi. Fyrirmæli M um ráðstöfun á andvirði skuldabréfsins, sem samkvæmt framansögðu var ósannað að útibússtjóri Í hafi haft vitneskju um, höfðu því enga þýðingu við úrlausn málsins. Var Í sýknað af kröfu M um endurgreiðslu á andvirði bréfsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. maí 2002. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 937.426 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 21. apríl 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Margrét Rósa Einarsdóttir, greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 2002.

Mál þetta, sem dóm­te­kið var 12. febrúar sl., er höfðað 31. maí 2001 af Margréti Rósu Einars­dóttur, Undra­landi, Mosfells­bæ, á hendur Ís­lands­banka-FBA hf., Kirkju­sandi 2, Reykja­vík.

   Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 937.426 krónur auk dráttar­vaxta samkvæmt III. kafla vax­ta­l­aga nr. 25/1987 frá 21. apríl 1999 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðslu­dags. Stefnandi krefst máls­kostnaðar að skað­lausu auk 24.5% virðis­auka­skatts á máls­kostnaðar­fjár­hæð þar sem stefnandi sé ekki virðis­auka­skatt­skyld.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða stefnda máls­kostnað að mati dómsins.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Atvik málsins eru þau að Sigurður Hilmar Ólason og Sigurður Örn Sigurðsson óskuðu eftir því við útibússtjóra stefnda í Garðabæ 21. apríl 1999 að stefndi keypti handhafa­skuldabréf sem stefnandi hafði framselt eyðuframsali. Andvirðið var notað til að greiða niður skuld samkvæmt veðskuldabréfi, útgefnu 22. september 1997, með veði í Njálsgötu 5, en bréfið hafði félagið Hitt og þetta ehf. framselt stefnda með sjálfskuldarábyrgð hinn 23. september sama ár. Með afsali dagsettu 23. mars 1999 varð Þingholtsstræti 1 ehf. eigandi Njálsgötu 5. Í afsalinu kemur fram að kaupandi taki að sér að greiða áhvílandi skuldir, m.a. skuldina samkvæmt framan­greindu veð­skulda­bréfi sem stefndi hafði fengið framselt. Fram hefur kom að þeir Sigurður Hilmar og Sigurður Örn voru fyrirsvarsmenn Þingholtsstrætis 1 ehf. þegar þeir óskuðu eftir því að stefndi keypti handhafaskuldabréfið sem stefnandi hafði framselt.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefndi hafi ekki haft heimild til að ráðstafa andvirði handhafaskuldabréfsins, sem hún hafði framselt, með framan­greindum hætti. Þessu er mótmælt af hálfu stefnda en því er haldið fram af hans hálfu að tilgangurinn með sölu handhafabréfsins hafi verið sá að unnt væri að greiða niður veðskuldina sem Þingholtsstræti 1 ehf. hafi tekið að sér að greiða við kaupin á Njálsgötu 5. Stefnandi krefst þess að stefndi greiði henni andvirði handhafa­skulda­bréfsins þar sem hún hafi verið eigandi þess þegar stefndi keypti það og eigi hún því réttmætt tilkall til andvirðisins.   

Máls­á­st­æður og lagarök stefnanda

Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að hún hafi átti skulda­bréf að fjár­hæð 900.000 krónur á hendur félaginu Hitt og þetta ehf. Sam­býlis­maður hennar, Sigurður H. Óla­son, hafi farið ás­amt Sigurði Erni Sigurðs­syni með um­boð frá stefnanda í úti­bú stefnda í Garða­bæ og óskað eftir að stefndi keypti skulda­bréfið. Úti­bús­stjóri stefnda þar hafi sam­þykkti fyrir hönd stefnda að kaupa bréfið og hafi hann lofað sam­býlis­manni stefnanda að greiða henni and­virði þess ásamt keyptum vöxtum og verð­bótum inn á reikning stefnanda. Í stað þess að greiða inn á reikning hennar hafi and­virði bréfsins verið ráð­stafað sem greiðslu inn á annað skulda­bréf, þar sem skuldari hafi verið sá sami og á skuldabréfinu sem stefnandi hafi átt. Þessi ráð­stöfun hafi farið fram án nokkurrar vit­neskju eða heimildar stefnanda. Stefnandi hafi enga hags­muni haft af þeirri ráð­stöfun fjárins. Í fram­haldinu hafi ítrekað verið óskað eftir því að greitt yrði fyrir bréfið en ekki hafi orðið af því og einu svör stefnda hafi verið á þá leið að heimilt hafi verið að ráð­s­tafa and­virði bréfsins þannig.

Úti­bús­stjóri stefnda hafi vís­vit­andi ráð­stafað greiðslu fyrir skulda­bréfið inn á skuld annars aðila en stefnanda, án nokkurrar skýringar og án þess að stefnandi hefði af því nokkra hags­muni. Stefnda sé því skylt að greiða til baka með dráttar­vöxtum það fé sem hann hafi með þessum hætti haft af stefnanda.

Kröfuna byggir stefnandi á almennum reglum kröfuréttar. Fjár­hæð kröfunnar sé þannig fundin að sam­kvæmt kaup­nótu stefnda hafi stefndi keypt vexti að fjárhæð 28.097.80 krónur og verð­bætur, 9.328.40 krónur, auk höfuð­s­tóls, 900.000 krónur, eða sam­tals 937.426 krónur.

Máls­á­st­æður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er málsat­vikum lýst þannig að úti­bú stefnda í Garða­bæ hafi hinn 23. september 1997 keypt veð­s­kulda­bréf nr. 6268, útgefið af Sig­tryggi Magnús­syni hinn 22. september sama ár til Hins og þessa ehf., sem hafi fram­selt stefnda veðskulda­bréfið og tekist á hendur sjálf­s­kulda­r­á­byrgð á því. Veð­and­lag skulda­bréfsins hafi verið Njáls­gata 5 í Reykja­vík. Fast­eignin hafi hinn 23. mars 1999 verið seld til fyrir­tækisins Þing­holts­strætis 1 ehf. Í tengslum við söluna hafi verið óskað eftir skuldara­skiptum þannig að nýr skuldari bréfsins yrði Þing­holts­stræti 1 ehf. Þessi beiðni hafi verið sett fram þar sem félagið hafi yfir­tekið skuld­bindingu Sig­tryggs Magnús­sonar sam­kvæmt skulda­bréfinu við kaupin á fast­eigninni en þeirri breytingu hafi stefndi hins vegar hafnað. Bréfið hafi síðan fallið í van­skil.

Í apríl 1999 þegar skulda­bréfið hafi verið komið í lög­fræði­inn­heimtu hafi Sigurður H. Óla­son, þáverandi sam­býlis­maður stefnanda, og Sigurður Örn Sigurðs­son, stjórnar­for­maður og framkvæmda­stjóri Þing­holts­strætis 1 ehf., haft sam­band við úti­bús­stjóra stefnda og boðið hand­hafa­skulda­bréf nr. 6302, út­gefið 1. desember 1998 að fjár­hæð 900.000 krónur með veði í Víg­hóla­stíg 15, sem greiðslu upp í van­skil fyrr­greinds veð­s­kulda­bréfs nr. 6268. Þing­holts­stræti 1 ehf. hafi þá verið búið að yfir­taka síðast­nefnt skulda­bréf í tengslum við kaupin á Njáls­götu 5 og hafi fyrir­tækið og eigendur þess því augljósa hags­muni haft af því að ­g­reiða skuldina. Úti­búið hafi sam­þykkt að kaupa þetta skulda­bréf með þeim skil­málum að and­virði þess yrði ráð­stafað til greiðslu á van­skilum á fyrr­greindu veð­s­kulda­bréfi nr. 6268 ás­amt lög­fræði­kostnaði en aldrei hafi komið til um­ræðu að greiða peninga fyrir bréfið. Sigurður Hilmar og Sigurður Örn hafi fallist á þessa ráð­stöfun, enda hafi fyrir­tækið Þing­holts­stræti 1 ehf., sem þeir hafi verið í for­svari fyrir, verið eigandi fast­eignarinnar, sem verið hafi veð­and­lag þeirrar skuldar sem bréfið hafi gengið til nið­ur­g­reiðslu á, og skuldari bréfsins sam­kvæmt kaup­samningi.

Veð­and­lag skulda­bréfsins sem stefndi hafi keypt í apríl 1999 hafi verið Víg­hóla­stígur 15 í Kópa­vogi. Sú fast­eign hafi fyrst verið seld til Þing­holts­strætis 1 ehf., síðan til Sig­urðar H. Óla­sonar og svo loks til Hins og þessa ehf. Tvö síðast­nefnd fram­söl hafi farið fram á sama degi, þ.e. 1. desember 1998. Eins og sjá megi af gögnum málsins hafi skulda­bréfið sem mál þetta snúist um verið gefið út af Hinu og þessu ehf. þennan saman dag til hand­hafa og megi því gera ráð fyrir að bréfið hafi verið hluti af greiðslu kaupverðs fast­eignarinnar.

Stefnandi hefði framselt veðskuldabréfið eyðuframsali þegar úti­bús­stjóri stefnda tók við því. Fram­sal sé vot­tað af Sigurði Erni en aftan við orðið "fram­selt" hafi úti­bús­stjórinn bætt við textanum "Ís­lands­banka, Garða­bæ". Af hálfu stefnda er því mótmælt að um­boð hafi verið lagt fram við sölu veðskulda­bréfsins, enda hafi það verið al­ger­lega ástæðu­laust því Sigurður Heimir og Sigurður Örn hafi haft lög­form­legan rétt yfir bréfinu sem hand­hafar þess. Bréfið hafi verið hand­hafa­bréf og hafi eignar­réttur því verið bundinn við hand­höfn frum­rits þess.

Gengið hafi verið frá kaupunum á bréfinu hinn 21. apríl 1999 og hafi and­virðið sam­kvæmt kaup­nótu verið ráð­stafað til nið­ur­g­reiðslu á fyrr­greindu skulda­bréfi nr. 6268 sem bankinn hafi átt á hendur Hinu og þessu ehf. sem sjálf­s­kulda­r­á­byrgðar­aðila og Sig­tryggi Magnús­syni. Þann 27. mars 2000 hafi fast­eignin að Víg­hóla­stíg 15 verið seld á upp­boði og hafi ekkert fengist greitt upp í veðskuldabréfið á upp­boðinu. Ár­angurs­laust fjár­nám hafi verið gert hjá fyrir­tækinu í ok­tó­ber 20­00. Ekkert hafi greiðst af þessari kröfu enn í dag.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi eigi enga aðild að máli þessu þar sem hún hafi fram­selt skulda­bréfið eyðu­fram­sali og af­hent bréfið þeim Sig­urði H. Óla­syni og Sig­urði Erni. Þeir hafi síðan samið við úti­bús­stjóra stefnda í Garða­bæ um að bréfi þessu yrði ráð­stafað til nið­ur­greiðslu á fyrr­nefndri kröfu bankans. Allar mót­bárur sem stefnandi kunni að hafa átt um fram­salið og tak­markanir á ráð­stöfunar­rétti hafi glatast við fram­sal bréfsins til stefnda í apríl 1999. Öllum full­yrðingum í mál­a­t­il­búnaði stefnanda um að úti­bús­stjóri stefnda í Garða­bæ hafi lofað að greiða and­virði um­rædds skulda­bréfs til stefnanda er harð­lega mót­mælt sem röngum og ósönnuðum sem og þeirri full­yrðingu að stefnandi hafi ekki haft vit­neskju um eðli við­skip­tanna. Telji stefnandi að Sigurður H. Óla­son og fé­lagi hans hafi ráð­stafað bréfinu gegn hennar vilja beri henni að beina kröfum að þeim. Stefndi hafi tekið við skulda­bréfinu í góðri trú um að Sigurður H. Óla­son og Sigurður Örn hefðu ótak­mark­aðan ráð­stöfunar­rétt yfir bréfinu, enda hafi bréfið ekki borið annað með sér. Stefndi hafi aldrei fengið í hendur hið svokallaða "af­rit af um­boði stefnanda til um­boðs­manns", enda hafi stefndi séð þetta skjal fyrst þegar það hafi verið lagt fram sem sönnunar­gagn í málinu. Sönnunar­gildi skjalsins, sem sé ódag­sett og óvot­tað, sé auk þess harð­lega mót­mælt. Um laga­rök fyrir þessari máls­á­stæðu er annars vísað til almennra reglna kröfu­réttar um fram­sal við­skipta­bréfa, sbr. og til­skipun um áritun af­borgana á skulda­bréf frá 9. febrúar 1798. Um rétta­r­á­hrif aðildar­skorts vísar stefndi til 2. mgr. 16. gr. laga um með­ferð einka­mála nr. 91/1991.

Stefndi byggir jafnframt á því að stefnandi máls þessa hefði þurft að bregðast skjótar við en raun beri vitni og því hafi hún glatað öllum meintum rétti vegna eigin tóm­lætis. Eins og gögn málsins beri með sér hafi liðið meira en ár frá því að um­rætt skulda­bréf hafi verið keypt af stefnda þar til stefnandi hafi sent kröfu­bréf til stefnda.

Upp­haf­s­tíma dráttar­vaxta­kröfu stefnanda er harð­lega mót­mælt sem röngum og er í því sam­hengi vísað til III. og IV. kafla vax­ta­l­aga nr. 38/2001. Vísað er til almennra reglna kröfu­réttar um fram­sal við­skipta­bréfa, sbr. og til­skipunar um áritun af­borgana á skulda­bréf frá 9. febrúar 1798, til almennra reglna fjár­muna­réttar um rétta­r­á­hrif tóm­lætis og til laga um með­ferð einka­mála nr. 91/1991, sbr. einkum 2. mgr. 16. gr. og XXI. kafla laganna.

Niður­staða

Sakarefni málsins varðar handhafaskuldabréf sem óumdeilt er að stefnandi átti áður en hún framseldi það eyðuframsali í apríl 1999. Kröfur hennar í málinu eru byggðar á rétti sem hún telur að rakinn verði til þessa og meðferðar stefnda á skuldabréfinu. Verður með vísan til þess ekki fallist á þær varnir stefnda að stefnandi sé ekki réttur aðili að málinu. 

Skuldabréfið sem um ræðir er handhafaskuldabréf og hafði verið framselt eyðu­framsali þegar stefndi keypti það 21. apríl 1999. Skuldabréfið ber hvorki með sér að framsalinu fylgdu skilmálar né önnur fyrirmæli framseljanda. Þeir Sigurður H. Ólason og Sigurður Örn Sigurðsson hafa borið fyrir dóminum að þeir hafi selt stefnda bréfið fyrir hönd stefnanda. Engin gögn styðja þá staðhæfingu að þeir hafi gert þetta í umboði stefnanda, en ósannað er gegn andmælum stefnda að ódagsett umboð stefnanda, sem hún lagði sjálf fram í málinu og er í skjalaskrá sagt vera afrit af umboði hennar til umboðsmanns, hafi fylgt skuldabréfinu þegar stefndi keypti það. Með vísan til þessa verður að telja að útibússtjóri stefnda hafi verið í góðri trú um að þeir Sigurður H. Ólason og Sigurður Örn væru lögformlegir handhafar skulda­bréfsins sem um ræðir. Fyrirmæli stefnanda um ráðstöfun á andvirði skuldabréfsins, sem samkvæmt framansögðu er ósannað að útibússtjóri stefnda hafi haft vitneskju um, hafa því enga þýðingu við úrlausn málsins. Með vísan til þessa verður ekki fallist á að kröfur stefnanda hafi lagastoð. Ber því að sýkna stefnda af kröfum hennar í málinu.

Rétt þykir með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að stefnandi greiði stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.

Sig­ríður Ingvars­dóttir héraðs­dómari kvað upp dóminn.

DÓMS­ORÐ:

Stefndi, Íslandsbanki-FBA hf., skal sýkn vera af kröfum stefnanda, Margrétar Rósu Einarsdóttur, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað.