Hæstiréttur íslands
Mál nr. 238/2002
Lykilorð
- Skuldabréf
- Framsal
|
|
Fimmtudaginn 21. nóvember 2002. |
|
Nr. 238/2002. |
Margrét Rósa Einarsdóttir (Jón Magnússon hrl.) gegn Íslandsbanka hf. (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.) |
Skuldabréf. Framsal.
Í keypti handhafaskuldabréf af þeim SÓ og SS, sem M, þáverandi sambúðarkona SÓ, hafði framselt eyðuframsali. M hélt því fram að útibússtjóri Í hafi lofað SÓ að leggja andvirði bréfsins inn á reikning M, en ekki verið heimilt að ráðstafa því sem greiðslu inn á annað skuldabréf, svo sem Í gerði. Skuldabréfið bar hvorki með sér að framsalinu fylgdu skilmálar né önnur fyrirmæli framseljanda. Þeir SÓ og SS báru fyrir dómi að þeir hafi selt Í bréfið fyrir hönd M. Engin gögn studdu þá staðhæfingu að þeir hafi gert þetta í umboði M, en ósannað var gegn andmælum Í að ódagsett umboð M, sem hún lagði sjálf fram í málinu og var í skjalaskrá sagt vera afrit af umboði hennar til umboðsmanns, hafi fylgt skuldabréfinu þegar Í keypti það. Með vísan til þessa varð að telja að útibússtjóri Í hafi verið í góðri trú um að þeir SÓ og SS væru lögformlegir handhafar skuldabréfsins sem um ræddi. Fyrirmæli M um ráðstöfun á andvirði skuldabréfsins, sem samkvæmt framansögðu var ósannað að útibússtjóri Í hafi haft vitneskju um, höfðu því enga þýðingu við úrlausn málsins. Var Í sýknað af kröfu M um endurgreiðslu á andvirði bréfsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. maí 2002. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 937.426 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 21. apríl 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Margrét Rósa Einarsdóttir, greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 2002.
Mál þetta, sem dómtekið var 12. febrúar sl., er höfðað 31. maí 2001 af Margréti Rósu Einarsdóttur, Undralandi, Mosfellsbæ, á hendur Íslandsbanka-FBA hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 937.426 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 21. apríl 1999 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar að skaðlausu auk 24.5% virðisaukaskatts á málskostnaðarfjárhæð þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyld.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Atvik málsins eru þau að Sigurður Hilmar Ólason og Sigurður Örn Sigurðsson óskuðu eftir því við útibússtjóra stefnda í Garðabæ 21. apríl 1999 að stefndi keypti handhafaskuldabréf sem stefnandi hafði framselt eyðuframsali. Andvirðið var notað til að greiða niður skuld samkvæmt veðskuldabréfi, útgefnu 22. september 1997, með veði í Njálsgötu 5, en bréfið hafði félagið Hitt og þetta ehf. framselt stefnda með sjálfskuldarábyrgð hinn 23. september sama ár. Með afsali dagsettu 23. mars 1999 varð Þingholtsstræti 1 ehf. eigandi Njálsgötu 5. Í afsalinu kemur fram að kaupandi taki að sér að greiða áhvílandi skuldir, m.a. skuldina samkvæmt framangreindu veðskuldabréfi sem stefndi hafði fengið framselt. Fram hefur kom að þeir Sigurður Hilmar og Sigurður Örn voru fyrirsvarsmenn Þingholtsstrætis 1 ehf. þegar þeir óskuðu eftir því að stefndi keypti handhafaskuldabréfið sem stefnandi hafði framselt.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefndi hafi ekki haft heimild til að ráðstafa andvirði handhafaskuldabréfsins, sem hún hafði framselt, með framangreindum hætti. Þessu er mótmælt af hálfu stefnda en því er haldið fram af hans hálfu að tilgangurinn með sölu handhafabréfsins hafi verið sá að unnt væri að greiða niður veðskuldina sem Þingholtsstræti 1 ehf. hafi tekið að sér að greiða við kaupin á Njálsgötu 5. Stefnandi krefst þess að stefndi greiði henni andvirði handhafaskuldabréfsins þar sem hún hafi verið eigandi þess þegar stefndi keypti það og eigi hún því réttmætt tilkall til andvirðisins.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að hún hafi átti skuldabréf að fjárhæð 900.000 krónur á hendur félaginu Hitt og þetta ehf. Sambýlismaður hennar, Sigurður H. Ólason, hafi farið ásamt Sigurði Erni Sigurðssyni með umboð frá stefnanda í útibú stefnda í Garðabæ og óskað eftir að stefndi keypti skuldabréfið. Útibússtjóri stefnda þar hafi samþykkti fyrir hönd stefnda að kaupa bréfið og hafi hann lofað sambýlismanni stefnanda að greiða henni andvirði þess ásamt keyptum vöxtum og verðbótum inn á reikning stefnanda. Í stað þess að greiða inn á reikning hennar hafi andvirði bréfsins verið ráðstafað sem greiðslu inn á annað skuldabréf, þar sem skuldari hafi verið sá sami og á skuldabréfinu sem stefnandi hafi átt. Þessi ráðstöfun hafi farið fram án nokkurrar vitneskju eða heimildar stefnanda. Stefnandi hafi enga hagsmuni haft af þeirri ráðstöfun fjárins. Í framhaldinu hafi ítrekað verið óskað eftir því að greitt yrði fyrir bréfið en ekki hafi orðið af því og einu svör stefnda hafi verið á þá leið að heimilt hafi verið að ráðstafa andvirði bréfsins þannig.
Útibússtjóri stefnda hafi vísvitandi ráðstafað greiðslu fyrir skuldabréfið inn á skuld annars aðila en stefnanda, án nokkurrar skýringar og án þess að stefnandi hefði af því nokkra hagsmuni. Stefnda sé því skylt að greiða til baka með dráttarvöxtum það fé sem hann hafi með þessum hætti haft af stefnanda.
Kröfuna byggir stefnandi á almennum reglum kröfuréttar. Fjárhæð kröfunnar sé þannig fundin að samkvæmt kaupnótu stefnda hafi stefndi keypt vexti að fjárhæð 28.097.80 krónur og verðbætur, 9.328.40 krónur, auk höfuðstóls, 900.000 krónur, eða samtals 937.426 krónur.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er málsatvikum lýst þannig að útibú stefnda í Garðabæ hafi hinn 23. september 1997 keypt veðskuldabréf nr. 6268, útgefið af Sigtryggi Magnússyni hinn 22. september sama ár til Hins og þessa ehf., sem hafi framselt stefnda veðskuldabréfið og tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á því. Veðandlag skuldabréfsins hafi verið Njálsgata 5 í Reykjavík. Fasteignin hafi hinn 23. mars 1999 verið seld til fyrirtækisins Þingholtsstrætis 1 ehf. Í tengslum við söluna hafi verið óskað eftir skuldaraskiptum þannig að nýr skuldari bréfsins yrði Þingholtsstræti 1 ehf. Þessi beiðni hafi verið sett fram þar sem félagið hafi yfirtekið skuldbindingu Sigtryggs Magnússonar samkvæmt skuldabréfinu við kaupin á fasteigninni en þeirri breytingu hafi stefndi hins vegar hafnað. Bréfið hafi síðan fallið í vanskil.
Í apríl 1999 þegar skuldabréfið hafi verið komið í lögfræðiinnheimtu hafi Sigurður H. Ólason, þáverandi sambýlismaður stefnanda, og Sigurður Örn Sigurðsson, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Þingholtsstrætis 1 ehf., haft samband við útibússtjóra stefnda og boðið handhafaskuldabréf nr. 6302, útgefið 1. desember 1998 að fjárhæð 900.000 krónur með veði í Víghólastíg 15, sem greiðslu upp í vanskil fyrrgreinds veðskuldabréfs nr. 6268. Þingholtsstræti 1 ehf. hafi þá verið búið að yfirtaka síðastnefnt skuldabréf í tengslum við kaupin á Njálsgötu 5 og hafi fyrirtækið og eigendur þess því augljósa hagsmuni haft af því að greiða skuldina. Útibúið hafi samþykkt að kaupa þetta skuldabréf með þeim skilmálum að andvirði þess yrði ráðstafað til greiðslu á vanskilum á fyrrgreindu veðskuldabréfi nr. 6268 ásamt lögfræðikostnaði en aldrei hafi komið til umræðu að greiða peninga fyrir bréfið. Sigurður Hilmar og Sigurður Örn hafi fallist á þessa ráðstöfun, enda hafi fyrirtækið Þingholtsstræti 1 ehf., sem þeir hafi verið í forsvari fyrir, verið eigandi fasteignarinnar, sem verið hafi veðandlag þeirrar skuldar sem bréfið hafi gengið til niðurgreiðslu á, og skuldari bréfsins samkvæmt kaupsamningi.
Veðandlag skuldabréfsins sem stefndi hafi keypt í apríl 1999 hafi verið Víghólastígur 15 í Kópavogi. Sú fasteign hafi fyrst verið seld til Þingholtsstrætis 1 ehf., síðan til Sigurðar H. Ólasonar og svo loks til Hins og þessa ehf. Tvö síðastnefnd framsöl hafi farið fram á sama degi, þ.e. 1. desember 1998. Eins og sjá megi af gögnum málsins hafi skuldabréfið sem mál þetta snúist um verið gefið út af Hinu og þessu ehf. þennan saman dag til handhafa og megi því gera ráð fyrir að bréfið hafi verið hluti af greiðslu kaupverðs fasteignarinnar.
Stefnandi hefði framselt veðskuldabréfið eyðuframsali þegar útibússtjóri stefnda tók við því. Framsal sé vottað af Sigurði Erni en aftan við orðið "framselt" hafi útibússtjórinn bætt við textanum "Íslandsbanka, Garðabæ". Af hálfu stefnda er því mótmælt að umboð hafi verið lagt fram við sölu veðskuldabréfsins, enda hafi það verið algerlega ástæðulaust því Sigurður Heimir og Sigurður Örn hafi haft lögformlegan rétt yfir bréfinu sem handhafar þess. Bréfið hafi verið handhafabréf og hafi eignarréttur því verið bundinn við handhöfn frumrits þess.
Gengið hafi verið frá kaupunum á bréfinu hinn 21. apríl 1999 og hafi andvirðið samkvæmt kaupnótu verið ráðstafað til niðurgreiðslu á fyrrgreindu skuldabréfi nr. 6268 sem bankinn hafi átt á hendur Hinu og þessu ehf. sem sjálfskuldarábyrgðaraðila og Sigtryggi Magnússyni. Þann 27. mars 2000 hafi fasteignin að Víghólastíg 15 verið seld á uppboði og hafi ekkert fengist greitt upp í veðskuldabréfið á uppboðinu. Árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá fyrirtækinu í október 2000. Ekkert hafi greiðst af þessari kröfu enn í dag.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi eigi enga aðild að máli þessu þar sem hún hafi framselt skuldabréfið eyðuframsali og afhent bréfið þeim Sigurði H. Ólasyni og Sigurði Erni. Þeir hafi síðan samið við útibússtjóra stefnda í Garðabæ um að bréfi þessu yrði ráðstafað til niðurgreiðslu á fyrrnefndri kröfu bankans. Allar mótbárur sem stefnandi kunni að hafa átt um framsalið og takmarkanir á ráðstöfunarrétti hafi glatast við framsal bréfsins til stefnda í apríl 1999. Öllum fullyrðingum í málatilbúnaði stefnanda um að útibússtjóri stefnda í Garðabæ hafi lofað að greiða andvirði umrædds skuldabréfs til stefnanda er harðlega mótmælt sem röngum og ósönnuðum sem og þeirri fullyrðingu að stefnandi hafi ekki haft vitneskju um eðli viðskiptanna. Telji stefnandi að Sigurður H. Ólason og félagi hans hafi ráðstafað bréfinu gegn hennar vilja beri henni að beina kröfum að þeim. Stefndi hafi tekið við skuldabréfinu í góðri trú um að Sigurður H. Ólason og Sigurður Örn hefðu ótakmarkaðan ráðstöfunarrétt yfir bréfinu, enda hafi bréfið ekki borið annað með sér. Stefndi hafi aldrei fengið í hendur hið svokallaða "afrit af umboði stefnanda til umboðsmanns", enda hafi stefndi séð þetta skjal fyrst þegar það hafi verið lagt fram sem sönnunargagn í málinu. Sönnunargildi skjalsins, sem sé ódagsett og óvottað, sé auk þess harðlega mótmælt. Um lagarök fyrir þessari málsástæðu er annars vísað til almennra reglna kröfuréttar um framsal viðskiptabréfa, sbr. og tilskipun um áritun afborgana á skuldabréf frá 9. febrúar 1798. Um réttaráhrif aðildarskorts vísar stefndi til 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Stefndi byggir jafnframt á því að stefnandi máls þessa hefði þurft að bregðast skjótar við en raun beri vitni og því hafi hún glatað öllum meintum rétti vegna eigin tómlætis. Eins og gögn málsins beri með sér hafi liðið meira en ár frá því að umrætt skuldabréf hafi verið keypt af stefnda þar til stefnandi hafi sent kröfubréf til stefnda.
Upphafstíma dráttarvaxtakröfu stefnanda er harðlega mótmælt sem röngum og er í því samhengi vísað til III. og IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Vísað er til almennra reglna kröfuréttar um framsal viðskiptabréfa, sbr. og tilskipunar um áritun afborgana á skuldabréf frá 9. febrúar 1798, til almennra reglna fjármunaréttar um réttaráhrif tómlætis og til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. einkum 2. mgr. 16. gr. og XXI. kafla laganna.
Niðurstaða
Sakarefni málsins varðar handhafaskuldabréf sem óumdeilt er að stefnandi átti áður en hún framseldi það eyðuframsali í apríl 1999. Kröfur hennar í málinu eru byggðar á rétti sem hún telur að rakinn verði til þessa og meðferðar stefnda á skuldabréfinu. Verður með vísan til þess ekki fallist á þær varnir stefnda að stefnandi sé ekki réttur aðili að málinu.
Skuldabréfið sem um ræðir er handhafaskuldabréf og hafði verið framselt eyðuframsali þegar stefndi keypti það 21. apríl 1999. Skuldabréfið ber hvorki með sér að framsalinu fylgdu skilmálar né önnur fyrirmæli framseljanda. Þeir Sigurður H. Ólason og Sigurður Örn Sigurðsson hafa borið fyrir dóminum að þeir hafi selt stefnda bréfið fyrir hönd stefnanda. Engin gögn styðja þá staðhæfingu að þeir hafi gert þetta í umboði stefnanda, en ósannað er gegn andmælum stefnda að ódagsett umboð stefnanda, sem hún lagði sjálf fram í málinu og er í skjalaskrá sagt vera afrit af umboði hennar til umboðsmanns, hafi fylgt skuldabréfinu þegar stefndi keypti það. Með vísan til þessa verður að telja að útibússtjóri stefnda hafi verið í góðri trú um að þeir Sigurður H. Ólason og Sigurður Örn væru lögformlegir handhafar skuldabréfsins sem um ræðir. Fyrirmæli stefnanda um ráðstöfun á andvirði skuldabréfsins, sem samkvæmt framansögðu er ósannað að útibússtjóri stefnda hafi haft vitneskju um, hafa því enga þýðingu við úrlausn málsins. Með vísan til þessa verður ekki fallist á að kröfur stefnanda hafi lagastoð. Ber því að sýkna stefnda af kröfum hennar í málinu.
Rétt þykir með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að stefnandi greiði stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.
Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Íslandsbanki-FBA hf., skal sýkn vera af kröfum stefnanda, Margrétar Rósu Einarsdóttur, í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað.