Hæstiréttur íslands
Mál nr. 121/2007
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skaðabætur
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 15. nóvember 2007. |
|
Nr. 121/2007. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari) gegn Jens Sigurðssyni og Pétri Jónssyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Líkamsárás. Skaðabætur. Skilorð.
J og P voru ákærðir fyrir líkamsárás gegn A. Þótti sannað að P hefði slegið A tvö högg í andlitið og að báðir ákærðu hefðu sparkað í hann liggjandi. Hlaut A við þetta brot á efri kjálka og augnbotni vinstra megin auk þess sem tvær tennur brotnuðu og hann hlaut sár og mar víða um líkamann. J og P voru samkvæmt þessu sakfelldir fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var litið til hinna alvarlegu afleiðinga árásarinnar og að allt benti til þess að megin hvati hennar hefði verið neikvæð afstaða til útlendinga svo og að brotið var framið í félagi. Þá var tekið tillit til þess að J hafði greitt A bætur samkvæmt héraðsdómi. Refsing P var ákveðin skilorðsbundið fangelsi í sex mánuði. Refsing J, sem hafði sig minna í frammi við árásina, þótti hæfilega ákveðin þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þá voru þeir dæmdir in solidum til greiðslu samtals 550.345 króna í skaðabætur og lögmannskostnað til A.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. janúar 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða, Jens Sigurðssonar, um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu beggja ákærðu og að þeim verði gert að greiða óskipt A 944.085 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum eins og í ákæru greinir allt að frádregnum 396.093 krónum, sem greiddar voru 12. janúar 2007.
Ákærði, Jens Sigurðsson, krefst aðallega sýknu og að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað.
Ákærði, Pétur Jónsson, krefst aðallega sýknu af öðrum sakargiftum en þeim sem hann hefur játað en til vara að viðurlög verði milduð, en ella staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði Pétur áfrýjaði ekki héraðsdómi fyrir sitt leyti. Koma kröfur hans um sýknu og mildun refsingar ekki til álita nema að því marki, sem efni kunna að vera til samkvæmt 2. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Krafa ákærða Jens um að héraðsdómur verði ómerktur kom fyrst fram í munnlegum málflutningi og er því of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991. Ekki eru efni til að ómerkja héraðsdóminn samkvæmt 1. mgr. 156. gr. sömu laga.
I.
Málið var höfðað með ákæru 3. október 2006, þar sem báðum ákærðu er gefið að sök að hafa á Laugavegi í Reykjavík að morgni sunnudagsins 19. mars 2006 ráðist saman á brotaþola, A, slegið hann margsinnis í andlitið og sparkað margsinnis í andlit hans og líkama eftir að hann féll í götuna. Við þetta hafi brotaþoli hlotið brot á efri kjálka og augnabotni vinstra megin, tvær tennur í neðri gómi hafi brotnað og hann hafi hlotið sár og mar víða um líkamann. Í héraðsdómi er gerð grein fyrir rannsókn málsins og meðferð fyrir dómi. Upplýst er að vitnið, B, kvaddi lögreglu á vettvang og ákærðu voru handteknir nokkrum mínútum síðar. Var brotaþoli þá með áverka í andliti.
Vitnið, B, kvaðst fyrir dómi hafa orðið var við stimpingar er hann var á leið framhjá vettvangi. Hafi hann stöðvað bifreið sína og fylgst með og séð að tveir menn létu höggin dynja á brotaþola, hann hafi fallið á gangstéttina og hafi mennirnir þá sparkað í hann. Nánar spurður kvaðst hann hafa séð annan árásarmanninn, ákærða Pétur, sem hafi haft sig meira í frammi, veita brotaþola tvö til þrjú „alvöru högg“ í andlit. Hinn, ákærði Jens, hafi verið meira í að „sparka og bakka“. Brotaþoli kvað stærri manninn, sem er ákærði Pétur, hafa slegið sig fyrsta höggið í andlitið, hann hefði fallið og þá fengið spörk í andlit og víða um líkamann. Hann kvaðst hafa fengið spark í andlitið og því reynt að verja það með höndunum. Hann kvaðst viss um að báðir mennirnir hefðu lamið hann og sparkað í hann, sá hávaxni hefði þó haft sig meira í frammi. Ákærði Pétur kvaðst sennilega hafa slegið brotaþola tvö högg í höfuðið og hent honum frá sér en neitaði því að hafa sparkað í hann. Hann bar að meðákærði Jens hefði ekki „komið nokkurn skapaðan hlut við“ brotaþola. Ákærði Jens kvað meðákærða Pétur hafa kýlt brotaþola tvisvar og taldi hann höggin hafa komið í andlit brotaþola. Sjálfur hefði hann hvorki slegið né sparkað. Báðir ákærðu báru að enga áverka hefði verið að sjá á brotaþola. Þegar framangreint er virt í ljósi mats héraðsdómara á sönnunargildi framburðar ákærðu, brotaþola og vitna er sannað að ákærði Pétur er sekur um að slá brotaþola tvö högg í andlit og báðir ákærðu eru sekir um að sparka í hann liggjandi. Hins vegar verður ekki aðgreint hvaða högg eða spörk ollu tilteknum meiðslum af þeim mörgu áverkum sem brotaþoli hlaut. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er háttsemi ákærðu réttilega heimfærð til refsiákvæðis og hafa þeir báðir unnið sér til refsingar.
II.
Ákærðu og brotaþola ber mjög á milli um upphaf árásarinnar og að því er ekkert vitni. Ljóst er að þeir gengu allir í sömu átt eftir Laugavegi. Ákærðu bera báðir að brotaþoli hafi rekist í ákærða Pétur, en brotaþoli ber að ákærðu hafi komið hvor að sinni hlið hans og síðan stöðvað beint fyrir framan hann. Öllum ber saman um að orðaskipti hafi átt sér stað um það að brotaþoli talaði ekki íslensku. Ákærðu fullyrða að þegar bifreið með löndum brotaþola hafi síðan komið að, þá hafi brotaþoli ráðist að ákærða Pétri og slegið hann, og Pétur þá slegið til baka. Bar ákærði Pétur að brotaþoli hefði slegið hann í viðbeinið, en ákærði Jens taldi að hann hefði slegið Pétur í andlitið, án þess þó að vilja fullyrða það. Brotaþoli bar að hann hefði ekki þekkt mennina í bifreiðinni og rannsókn lögreglu styður þá fullyrðingu. Vitnið B bar að ákærðu hefðu skýrt átökin með því að brotaþoli talaði ekki íslensku. Það sem hér hefur verið rakið bendir ekki til þess að brotaþoli hafi gefið ákærðu tilefni til þeirrar árásar sem hann varð fyrir.
Þá verður við ákvörðun refsingar að líta til þess að brotaþoli hlaut alvarlega áverka í andliti. Bendir allt til þess að megin hvati árásarinnar hafi verið neikvæð afstaða til útlendinga. Brotið frömdu ákærðu í félagi, en háttsemi hvors þeirra um sig verður ekki aðgreind fremur en að framan er rakið. Líta má til þess að ákærði Jens hefur greitt brotaþola bætur samkvæmt héraðsdómi. Í greinargerð ákærða Jens fyrir Hæstarétti segir að hann hafi greitt bæturnar fyrir meðákærða, en málsgögn sýna það þó ekki.
Refsing ákærða Péturs er ákveðin fangelsi í sex mánuði. Þegar til þess er litið að hann var tvítugur að aldri þegar brotið var framið og hefur ekki áður verið fundinn sekur um refsiverða háttsemi þykir mega staðfesta ákvörðun héraðsdóms um að skilorðsbinda refsinguna.
Ljóst er að ákærði Jens hafði sig minna í frammi við árásina en sannað þykir að hann tók þátt í henni með því að sparka í brotaþola. Refsing ákærða Jens er ákveðin fangelsi í þrjá mánuði. Þegar til þess er litið að hann var 21 árs þegar atvikið átti sér stað og sakarferill hans hefur ekki áhrif á refsingu, þykir mega staðfesta ákvörðun héraðsdóms um að skilorðsbinda refsinguna.
III.
Brotaþoli, A, krefst skaðabóta að fjárhæð 944.085 krónur, sem er nánar sundurliðuð í héraðsdómi. Var á það fallist í héraði að ákærðu bæri óskipt að greiða honum 274.095 krónur í skaðabætur með vöxtum og dráttarvöxtum auk þess sem fallist var á kröfu hans um greiðslu 87.150 króna í lögmannskostnað. Í samræmi við niðurstöðu dómsins sendi lögmaður brotaþola innheimtubréf til ákærðu 3. janúar 2007 með kröfu um greiðslu á 396.093 krónum, en innifalið í þeirri tölu voru reiknaðir vextir til 13. ágúst 2006 9.776 krónur og dráttarvextir frá þeim degi til 3. janúar 2007 25.072 krónur, vinnutap í þrjá daga, kostnaður vegna tannviðgerða og læknishjálpar og lögmannskostnaðar auk þjáningar- og miskabóta. Ákærði Jens greiddi hina umkröfðu fjárhæð 12. janúar 2007 án fyrirvara. Hann lýsti yfir áfrýjun málsins 24. sama mánaðar. Af þessu bréfum lögmanns brotaþola til ákærðu og ríkisaksóknara má ráða að fyrirvari var gerður um frekari kröfu fullra bóta samkvæmt ákæru.
Samkvæmt ákæru hlaut brotaþoli áverka á efri kjálka og augnbotni vinstra megin, brot á tönnum og sár og mar víða um líkamann. Á læknisvottorðum samkvæmt sjúkraskrá á slysa- og bráðadeild og sérfræðings á háls-, nef og eyrnadeild er talað um þríbrot í andliti, þ.e. í fram- og hliðarvegg vinstri kjálka og augntóftarvegg, auk tannbrota. Fram kemur að brotin hafi setið vel og því ekki þörf á aðgerð, en dofi hafi verið í andliti. Nefbrot er ekki nefnt í þessum samtímagögnum og ekki í upphaflegri kröfugerð brotaþola. Verður því ekki fullyrt að læknisvottorð sem lagt hefur verið fyrir Hæstarétt, þar sem getið er um nefbrot og aðgerð vegna þess, tengist árásinni að öðru leyti en því að þar er lýst viðvarandi doða í andliti.
Upplýst er að brotaþoli var frá vinnu næstu þrjá vinnudaga eftir árásina, sem átti sér stað snemma á sunnudagsmorgni. Fyrir liggur læknisvottorð sem gefur til kynna að hann hafi verið veikur í skilningi 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 í fjóra daga án þess að vera rúmliggjandi og verður því fallist á að honum beri þjáningabætur í þann tíma 4.360 krónur. Krafa um greiðslu þjáningabóta eftir að hann varð vinnufær er hins vegar ekki studd viðhlítandi gögnum og er því ekki unnt að fallast á hana. Þegar virt eru þau meiðsli sem brotaþoli hlaut og að leiða má af nýju læknisvottorði að hann finni enn fyrir doða í andliti, eru miskabætur ákveðnar 400.000 krónur. Að öðru leyti er með vísan til forsendna héraðsdóms staðfest niðurstaða hans um skaðabætur til brotaþola og lögmannskostnað. Samkvæmt þessu skulu ákærðu greiða A óskipt 550.345 krónur í skaðabætur og lögmannskostnað. Ákærðu hafa ekki gert efnislegar athugasemdir við grundvöll eða upphafstíma vaxta og dráttarvaxta samkvæmt ákæru. Verður niðurstaða héraðsdóms staðfest að þessu leyti og bera tildæmdar bætur því vexti eins og í dómsorði greinir. Að lokum ber að draga frá heildarfjárhæðinni 396.093 krónur sem greiddar voru brotaþola 12. janúar 2007.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærðu verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Jens Sigurðsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fullnustu refsingarinnar skal frestað og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði, Pétur Jónsson, sæti fangelsi í sex mánuði, en fullnustu refsingarinnar skal frestað og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærðu greiði brotaþola, A, óskipt 550.345 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 463.195 krónum frá 19. mars 2006 til 13. ágúst 2006 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 550.345 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 396.093 krónum sem greiddar voru 12. janúar 2007.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað í héraði skal vera óraskað.
Ákærðu greiði óskipt allan áfrýjunarkostnað málsins samtals 332.786 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2006.
Mál þetta var höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 3. október sl., á hendur, Jens Sigurðssyni, [kt.], Hellubæ, Andakílshreppi, Borgarfirði og Pétri Jónssyni, [kt.], Björk, Andakílshreppi, Borgarfirði, fyrir líkamsárás, með því að hafa að morgni sunnudagsins 19. mars 2006, á Laugavegi í Reykjavík, í félagi ráðist á A, [kt.], slegið hann margsinnis í andlitið og eftir að A féll í götuna sparkað margsinnis í andlit hans og líkama með þeim afleiðingum að A hlaut brot á efri kjálka og augnbotni vinstra megin, tvær tennur í neðri gómi brotnuðu, og hann hlaut sár og mar víða um líkamann.
Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar. Nefndur A krefst þess að ákærðu verði dæmdir til greiðslu bóta að fjárhæð 944.085 kr. ásamt vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 frá 19. mars 2006 til þess dags er mánuður var liðinn frá því krafan var kynnt ákærðu en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga. “
Ákærði, Pétur krefst vægustu refsingar er lög leyfa og ákærði, Jens, krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins. Verjandi ákærðu krefst málsvarnarlauna að mati dómsins.
Málavextir
Að morgni sunnudagsins 19. mars sl. barst lögreglunni tilkynning um að verið væri að ganga í skrokk á manni á Laugavegi. Voru bæði árásarmennirnir og árásarþolinn farnir af vettvangi þegar þangað var komið. Í frumskýrslu lögreglu segir að þar hafi verið staddur B sem kvaðst hafa séð tvo menn kýla mann margsinnis og hafi þeir sparkað í hann liggjandi. Lýsti hann öðrum árásarmanninum svo að hann væri stór, þrekinn, ljóshærður og með klipptar rendur í hárinu á hliðunum. Þá hafi hann verið í brúnum jakka. Kvað hann árásarþolann hafa farið blóðugan upp í bifreiðina X sem hafi ekið á brott. Hafði lögreglan uppi á bílnum við Njálsgötu. Árásarþolinn, A, gaf sig á tal við lögregluna og segir í frumskýrslu lögreglu að hann hafi verið bólginn í andliti og á nefi, auk þess sem vinstri augabrún hafi verið sprungin. Hann hafi jafnframt verið skrámaður á líkama. Var A æstur og greindi svo frá að tveir menn hefðu gefið sig á tal við hann. Þeir hafi kýlt hann og sparkað í hann þegar þeir gerðu sér grein fyrir því að hann talaði ekki íslensku.
Skömmu síðar voru tveir aðilar handteknir á mótum Barónsstígs og Eiríksgötu. Annar aðilinn kom heim og saman við þá lýsingu sem B hafði gefið á árásaraðilanum. Segir í skýrslu lögreglu að aðilarnir, sem reyndust heita Pétur og Jens, hafi báðir greinilega verið undir áhrifum áfengis.
Þriðjudaginn 21. mars sl. lagði A fram kæru á hendur ákærðu fyrir líkamsárás. Kvaðst hann hafa gengið einn frá miðbænum, austur Laugaveginn. Hafi hann verið undir áhrifum áfengis. Ákærðu hafi gengið samsíða honum og hafi þeir ávarpað hann á íslensku. Kvaðst A ekki hafa skilið það sem þeir sögðu og hafi talað við þá á ensku. Hafi annar mannanna þá farið að ýta við honum og öskrað á hann að tala íslensku. Hinn maðurinn, sem hafi verið stærri, hafi slegið til hans og hafi höggið komið á vinstra auga hans. Við höggið hafi hann vankast verulega og dottið. Mennirnir hafi þá sparkað í hann og hafi hann fundið höggin koma víðsvegar í líkama sinn, m.a. í axlir og brjóstkassa. Hafi tveir menn frá Marokkó stöðvað bifreið sína þegar þeir hafi séð árásina og tekið hann upp í bifreið sína.
Ákærði, Pétur Jónsson, var yfirheyrður vegna málsins 19. mars sl. Ákærði kvaðst hafa gengið upp Laugaveginn ásamt meðákærða þegar maður hafi gengið utan í hann. Sá hafi blótað honum á íslensku. Hafi ákærði þá spurt hann hvað hann meinti en þá hafi hann látið sem hann skildi ekki íslensku. Kvaðst ákærði hafa reynt að ræða við manninn án árangurs en hann hafi alltaf haldið því fram að hann skildi hann ekki. Kvaðst ákærði ekki muna nákvæmlega hvað maðurinn sagði við hann og hafi hann reynt að fá hann til að endurtaka það sem hann sagði. Silfurlituð Benz-bifreið hafi stöðvað hjá þeim og út úr henni hafi komið farþegi sem hafi talað við meintan brotaþola, á tungumáli sem hann þekkti ekki. Kvaðst ákærði hafa sagt honum að meintur brotaþoli vildi ekki svara sér, en á meðan þeir stóðu þarna hafi meintur brotaþoli slegið ákærða í brjóstkassann. Kvaðst ákærði þá strax hafa slegið frá sér og hent honum frá sér utan í húsvegg. Taldi hann högg sitt hafa komið í höfuð mannsins. Meðákærði, Jens, hafi þá strax komið upp á milli þeirra til að koma í veg fyrir frekari slagsmál. Ákærði kannaðist við að ungur maður, á milli tvítugs og þrítugs hafi komið og talað við þá eftir að slagsmálunum lauk.
Ákærði var yfirheyrður að nýju 13. júlí sl. og greindi hann frá atvikum á sama veg og áður. Kvað hann A hafa átt upptökin og hafa slegið sig að fyrra bragði.
Ákærði, Jens Sigurðsson, greindi svo frá við yfirheyrslu 19. mars sl. að meðákærði, Pétur, og maður nokkur hafi rekist saman. Maðurinn hafi sagt eitthvað á íslensku og Pétur hafi gefið sig á tal við hann. Hafi þeir kallast á um leið og þeir gengu upp Laugaveginn. Þá hafi komið Benz bifreið akandi og hafi maðurinn þá ,,hjólað“ í Pétur og slegið hann einu höggi. Pétur hafi svarað fyrir sig og hafi maðurinn dottið við það en síðan komið sér á brott í bifreiðinni sem þarna hafði stöðvað. Sjálfur kvaðst ákærði aðeins hafa togað manninn frá Pétri.
Í læknisvottorði Steinunnar G. H. Jónsdóttur, sérfræðings á slysa- og bráðasviði Landspítala-háskólasjúkrahúss, dagsettu 7. júní sl., er haft eftir A að tveir Íslendingar hafi ráðist á hann án tilefnis þegar hann var á heimleið að morgni 19. mars sl. Hafi hann hlotið hnefahögg í andlit og á búk en við að hafi hann fallið í götuna. Mennirnir hafi þá haldið áfram að veitast að honum og sparkað í andlit hans og líkama.
Við skoðun hafi komið í ljós sár yfir vinstri öxl utan- og framanvert og hafi sár verið um 3 cm að lengd. Neðan við hægra herðablað hafi verið roðablettur/marblettur u.þ.b. 5 cm í þvermál. Á miðju baki vinstra megin rétt neðan við herðablað hafi einnig verið roðablettur og rof í húð. Svæði þetta hafi verið um 5x8 cm að flatarmáli. Fimm cm neðan við það svæði hafi verið annar álíka blettur um 10 cm í þvermál. Hann hafi verið rauður og með rofi á húð. Á innanverðum vinstri upphandlegg hafi verið 5x5 cm mar. Ofan á vinstri framhandlegg hafi hann verið með sár sem hafi verið um cm að lengd. Þá hafi hann verið með sár á vinstri augabrún en þar undir hafi verið marbunga sem hafi verið u.þ.b. 2x2 cm að flatarmáli. Þá hafi hann verið með marbungu undir vinstri kinn sem hafi verið 3x4 cm að flatarmáli. Við skoðun á munnholi hafi 1. og 2. tönn í neðri góm og hægra megin frá miðju verið brotin. Brotnað hafi úr efsta hluta tannanna. Þá hafi hann verið með marbungu á hægri kinn sem hafi verið 3x3 cm að flatarmáli. Ljóst hafi verið að um alvarlega áverka væri að ræða og hafi verið tekin röntgen- og sneiðmynd af andlistbeinum sem hafi sýnt brot í fram- og hliðarvegg á vinstra kinnbeini. Brotið hafi verið ótilfært en einnig hafi verið brot í augntóftarveggnum hliðlægt og vinstra megin. Einnig hafi sést vökvi (blæðing) á vinstri kinnholu. Augu hafi verið blóðhlaupin en augnhreyfingar eðlilegar. Sjón hafi ekki verið metin nákvæmlega á slysadeild.
Greining á áverkum er sögð brot á andlitsbeinum, yfirborðsáverkar og mar á brjóstkassa, mar á mjóbaki, fjöldi yfirborðsáverka (mar á útlimum) og brot á tönnum.
Einnig liggur frammi í málinu læknisvottorð Einars Thoroddsens, sérfræðings á háls-, nef- og eyrnadeild Landspítalans, dagsett 18. apríl sl. Þar kemur fram að brot A á efri kjálka og augnbotni vinstra megin hafi setið vel á sínum stað og hafi því ekki þurft aðgerð. Blætt hafi inn í vinstri kjálkaholu, en það staðfesti brot á efri kjálka. Þá hafi A verið ráðlagt að leita til augnlæknis.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði, Jens, skýrði svo frá að umrædda nótt hafi hann og meðákærði Pétur verið að ganga heim eftir að hafa verið að skemmta sér niðri í bæ. Kvað hann meðákærða og A hafa rekist saman á Laugaveginum, en A hafi verið að ganga á móti þeim. Við það hafi A sagt eitthvað við meðákærða á íslensku sem ákærði hafi ekki alveg náð hvað hafi verið. Meðákærði hafi spurt hvað hann hafi sagt, en hann hafi sagst ekki tala íslensku. Þeir hafi eitthvað rökrætt um það, en ákærði hafi haldið áfram göngunni. Þetta hafi haldið svona áfram, þeir hafi gengið áfram og A hafi gengið samsíða þeim, ýmist á undan eða á eftir þeim. Ákærði kvaðst ekki hafa skipt sér af því, þar sem þetta hafi einungis verið bull og þvæla. Ákærði hafi séð silfurlitaða Benz-bifreið leggja hjá þeim á gatnamótum. Út úr bílnum hafi komið tveir menn frá Marokkó. Annar þeirra hafi talað íslensku og farið að ræða við meðákærða um hvað væri að gerast. Meðákærði hafi sagst vilja fá skýringu á því sem verið væri að segja. Ákærði kvað að sér hafi ekki litist á þetta og gengið til baka og sagt meðákærða að hætta þessu bulli. Hafi meðákærði verið búinn að samþykkja að koma með sér, en þá hafi A kýlt hann, einmitt þegar þeir hafi verið að snúa sér við og ganga í burtu. Kvaðst hann ekki vera viss um hvar höggið hafi komið á meðákærða, en sér hafi fundist það lenda á andliti hans. Ákærði hafi þó ekki séð áverka á honum. Kvaðst ákærði hafa haldið í meðákærða en sleppt honum þegar hann hafi verið kýldur. Hann kvað meðákærða þá hafa kýlt A tveimur höggum á móti. Hafi honum fundist höggin fara í andlit hans. A hafi þá dottið á jörðina. Mennirnir úr Benz-bifreiðinni hafi þá hjálpað honum inn í bifreiðina. Ákærði kvaðst ekki hafa séð blóð eða tekið eftir áverkum á A, en hann hafi staðið á fætur af sjálfsdáðum. Hann kvaðst ekki hafa séð meðákærða sparka í A. Öryggisvörður frá Securitas hafi komið að þeim og sagt eitthvað sem hann muni ekki. Hann kvaðst ekki hafa tekið eftir manninum fyrr, en hann hafi komið neðan frá Laugaveginum. Þeir meðákærði hafi gengið í burtu. Hafi Benz-bifreiðin þá keyrt áfram upp Laugaveginn, á móti umferð, og fylgt þeim eftir. Hafi þeir verið að ganga upp Barónsstíg þegar lögreglan hafi komið og handtekið þá. Ákærði kvaðst hvorki hafa slegið né sparkað í A. Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis þessa nótt, en það hafi ekki haft áhrif á minni hans. Hann kvað meðákærða einnig hafa verið undir áhrifum áfengis. Þá kvaðst hann einnig telja að A hafi verið undir áhrifum áfengis, en þegar þeir hafi mætt honum, hafi þeim fundist hann slaga.
Ákærði, Pétur, greindi frá því að hann hafi mætt A á Laugaveginum umrædda nótt. Hann hafi gengið á móti sér og hafi rekist utan í sig og blótað sér á íslensku. Hafi hann þá reynt að fá hann til að segja sér hvað hann hafi átt við með því. Þeir hafi rætt eitthvað saman, á meðan þeir gengu upp Laugaveginn, u.þ.b. 200-300 metra. A hafi gengið með sér og alltaf verið í talfæri. Kvaðst ákærði ekki muna hvað A hafi sagt. Kvað hann A hafa hringt eitthvert. Hafi þá Benz bifreið komið akandi að og numið staðar fyrir framan þá. Út úr honum hafi komið félagar A. Hann kvað mennina hafa komið alveg að þeim, en hann hafi ekki talað við þá. Hafi A þá orðið ,,mikill með sig“ og slegið sig fast í viðbeinið, vinstra megin. Kvaðst ákærði hafa verið marinn eftir höggið. Hann hafi þá svarað fyrir sig og hent A frá sér. Hafi meðákærði Jens þá komið, gripið í sig og stigið á milli þeirra og sagt að þetta væri ekkert til að gera veður út af. Upp úr því hafi þeir farið. Kvaðst ákærði ekki hafa gert A annað en að henda honum frá sér, og slá hann í höfuðið, vinstra megin á vanga, á kjálka og fyrir neðan gagnauga. Ákærði kvað höggin sennilega hafa verið tvö. Hafi hann svo ýtt honum frá sér, en A hafi dottið og lent utan í húsvegg. Kvaðst ákærði ekki hafa séð áverka á A. Hann kvaðst ekki hafa sparkað í A og ekki séð meðákærða slá hann né sparka í hann. Kvaðst hann ekki telja áverka þá sem lýst er í ákæru vera af sínum völdum eða af völdum meðákærða. Kvaðst hann hafa séð A fara inn í Benz-bifreiðina. Ákærði kvaðst hafa verið ölvaður þessa nótt og það hafi meðákærði einnig verið. Hann kvaðst ekki geta gert sér grein fyrir því hvort A hafi verið undir áhrifum áfengis, enda þekki hann manninn ekki og hafi aldrei séð hann áður. Ákærði kvað öryggisvörð hafa komið að þeim meðákærða. Hann kvaðst ekki hafa rætt við hann, en hann hafi sagt þeim að fara í burtu. Aðspurður kvaðst ákærði vera 196 cm á hæð.
Vitnið, A, kvaðst hafa verið í bænum þegar tveir menn hafi farið að ganga á eftir honum. Annar hafi verið hægra megin og hinn vinstra megin. Þegar hann hafi numið staðar hafi þeir einnig numið staðar fyrir framan hann. Hann kvaðst hafa spurt þá hvert vandamálið væri. Annar ákærðu hafi svarað honum á íslensku. Hann hafi þá sagt að hann talaði ekki íslensku og beðið hann um að tala á ensku. Ákærði hafi þá sagt honum að hann þyrfti að læra að tala íslensku þar sem hann byggi á Íslandi. Vitnið kvaðst hafa reynt að ganga burt frá ákærðu. Annar ákærðu, sá hærri, hafi þá slegið hann í andlitið þannig að hann hafi lent á jörðinni, á gangstéttarbrún, en kvaðst ekki hafa rekið höfuðið utan í neitt. Höggið hafi komið á andlit hans, á kinnina undir auganu. Hafi ákærðu lamið sig og sparkað í sig á meðan hann hafi legið í götunni, en hann kvaðst ekki vita hve oft. Höggin hafi komið á andlit, höfuð, fætur, bak, axlir, brjóstkassa og um allan líkamann. Vitnið kvaðst hafa sett hendurnar fyrir andlitið og því ekki hafa séð hver hafi sparkað, en kvaðst vera viss um að báðir ákærðu hafi sparkað í sig, þar sem hann hafi fundið að fleiri en einn hafi verið að sparka. Kvaðst hann hafa legið á vinstri hliðinni. Vitnið kvaðst hafa haldið um andlit sér, þar sem hann hefði verið að reyna að vernda nefið fyrir höggum, þar sem vitnið hefði verið nýkomið úr nefaðgerð, sem hann þurfti að fara í vegna gamalla meiðsla. Meiðslin kvaðst vitnið hafa fengið er hann æfði box í Marokkó. Vitnið kvað þann hávaxna hafa tekið meiri þátt í árásinni. Hafi spörkin verið föst og þeir haldið áfram þar til tveir menn frá Marokkó hafi komið og bjargað sér. Þessir menn hafi ekki þekkt hann, en vitað að hann væri frá Marokkó og því boðið sér að koma upp í bíl. Kvaðst vitnið ekki vita hverjir mennirnir hafi verið. Annar mannanna hafi komið út úr bílnum og tekið sig inn í bílinn. Hafi þeir sagst vera að hringja á lögregluna. Vitnið kvað einhvern íslenskan mann hafa einnig komið þarna að.
Vitnið kvaðst hafa farið beint á slysadeild, en lögreglan hafi ekið honum þangað um morguninn. Vitnið kvaðst hafa verið í sex klukkustundir á spítala eftir árásina, en svo legið eitthvað fyrir. Vitnið kvaðst ekki hafa áreitt ákærðu en reynt að forðast þá eins og hann gat. Hann hafi verið undir áhrifum áfengis, enda hafi hann verið að koma af skemmtistað þessa nótt. Kvaðst hann hafa verið marinn í framan í tvær vikur. Fyrsta vikan hafi verið verst en svo hafi hann farið að vinna vikuna eftir það. Vitnið kvaðst hafa jafnað sig af áverkum árásarinnar og vera í vinnu. Kvað hann að sér hafi staðið til boða að fara í aðgerð, en ekki hafa átt peninga fyrir því. Þurfi hann að fara í aðra nefaðgerð. Þá væri enn eitthvert vandamál með tennur hans og kinnar og fyndi hann enn þá til og gæti ekki snert gagnaugað vegna sársauka. Vitnið kvað árásina hafa haft andlegar afleiðingar fyrir sig. Hann héldi sig alltaf heima við. Hann kvaðst vera um 172 cm á hæð og hafa verið um 76 kíló þegar árásin hafi átt sér stað..
Vitnið, B, kvaðst hafa verið að aka um miðbæinn þessa nótt, eins og hann gerði alltaf þegar hann væri búinn í vinnu á morgnana, en hann kvaðst vera öryggisvörður hjá Securitas. Hafi hann séð stympingar, farið út í kant og fylgst með. Kvað hann að þetta hafi verið nálægt horni Laugavegar og Barónsstígs. Hafi hann þá séð að tveir menn hafi látið höggin dynja á einhverjum manni. Hafi höggin lent á andliti mannsins og maðurinn fallið í jörðina og legið á gangstéttinni. Taldi hann höggin hafa verið tvö til þrjú áður en hann féll í jörðina. Kvaðst hann minna að maðurinn hafi legið á hlið og sett hendurnar eitthvað upp. Hafi maðurinn virst veikburða og ekki varist mikið. Hafi hann fengið einhver högg og spörk eftir að hann hafði fallið. Kvað hann annan manninn hafa tekið lítinn þátt í árásinni, en benti á ákærða, Pétur, sem þann sem hafi haft sig meira í frammi. Hinn hafi mest horft á, en látið eitt og eitt högg dynja á árásarþola og farið síðan í burtu. Vitnið kvaðst hafa verið um 10 metra í burtu og hafa séð þetta skáhallt á hlið. Hann hafi ákveðið að fara út og skerast í leikinn. Hafi hann reynt að tala við ákærðu og róa þá niður. Kvað hann annan ákærðu hafa gefið þá skýringu á barsmíðunum, að maðurinn hafi ekki talað íslensku. Hafi hann augljóslega verið undir áhrifum áfengis en þó frekar rólegur. Kvaðst hann minna að um væri að ræða ákærða Pétur. Um leið og hann hafi verið búinn að koma ákærðu frá brotaþola hafi tveir félagar árásarþola komið að og dregið árásarþola inn í bíl. Hafi þeir sagst ætla að fara með hann á slysavarðstofuna. Kvaðst vitnið hafa hringt í lögreglu og beðið eftir að hún kæmi, en ákærðu hafi farið í burtu. Þegar borið var undir vitnið það sem haft var eftir honum í frumskýrslu lögreglu að hann hafi tekið annan ákærða ofan af árásarþola kvað vitnið það ekki rétt, hann hafi einungis gengið á milli aðila, en ekki notað hendurnar neitt.
Vitnið, Sigfús Rúnar Eiríksson lögreglumaður, greindi frá því að hann hafi farið niður á Laugaveg að morgni 19. mars 2006 eftir að tilkynning hafi borist um að verið væri að kýla mann. Þegar þeir hafi farið af stað hafi komið tilkynning um að árásarmennirnir gengju austur Laugaveg. Þeir hafi talað við árásarþolann sem hafi verið inni í bifreið. Hann hafi komið inn í lögreglubifreiðina og bent á gerendurna, ákærðu. Vitnið hafi farið út úr bílnum og þeir hafi handtekið ákærðu. Vitnið kvaðst ekki muna eftir áverkum á árásarþolanum. Vitnið kvað ákærðu hafa verið ölvaða. Þeir hafi verið staddir á Barónsstíg rétt við Iðnskólann.
Vitnið, Ólafur Stefnir Jónsson lögreglumaður, kvaðst hafa sinnt útkalli á Laugavegi að morgni 19. mars 2006. Kvaðst hann muna óljóst eftir þessu, en minna að borist hafi tilkynning um líkamsárás. Gerendur hafi verið sagðir ganga upp Barónsstíg. Þeir hafi hitt árásarþola og hann hafi bent á gerendur í málinu. Kvað hann greinilegt að árásarþoli hefði orðið fyrir árás. Hann hafi verið með sýnilega áverka í andliti, en hann kvaðst ekki geta skýrt nákvæmlega hverjir þeir hafi verið. Vitnið kvaðst ekki hafa rætt við mennina í Benz bifreiðinni, en þeir hafi talað við brotaþola í lögreglubifreiðinni. Vitnið kvaðst hafa tekið þátt í handtöku ákærðu og kvað vitnið að sig minnti að þeir hefðu verið rólegir.
Niðurstaða
Ákærði, Pétur, hefur játað að hafa slegið brotaþola í höfuðið, vinstra megin á vanga, á kjálka og fyrir neðan gagnauga og kvað hann höggin sennilega hafa verið tvö. Hafi hann svo ýtt honum frá sér, en brotaþoli hafi dottið og lent utan í húsvegg. Kvaðst ákærði ekki hafa séð áverka á brotaþola.
Ákærði, Jens, hefur alveg neitað að hafa tekið nokkurn þátt í að slá brotaþola og er sá framburður hans í samræmi við framburði ákærða Péturs, sem kvað meðákærða aðeins hafa reynt að ganga á milli þeirra. Báðir ákærðu kváðu öryggisvörð frá Securitas hafa komið á staðinn, en það var vitnið B. Bar vitnið fyrir dómi að hann hefði umrætt sinn séð tvo menn láta höggin dynja á brotaþola. Brotaþoli hefði lent í götunni og legið á gangstéttinni, er mennirnir hefðu bæði sparkað í hann og kýlt hann. Annar mannanna hefði tekið lítinn þátt í árásinni, en þó látið eitt og eitt högg dynja á þeim sem í götunni lá. Benti vitnið á ákærða Pétur, sem þann sem hefði haft sig meira í frammi. Kvað vitnið að annar ákærðu hefði gefið þá skýringu á barsmíðunum að brotaþoli talaði ekki íslensku. Er sá framburður vitnisins í samræmi við vitnisburð brotaþola sjálfs, sem kvað annan mannanna hafa sagt við sig að hann þyrfti að læra íslensku, úr því að hann byggi á Íslandi. Þá kvað brotaþoli þann mannanna, sem hærri er, þ.e. ákærða Pétur, hafa haft sig meira í frammi í árásinni og samrýmist sá framburður einnig framburði vitnisins B.
Samkvæmt framburði lögreglumannsins Ólafs Stefnis var brotaþoli með sýnilega áverka í andliti er lögregla kom á vettvang og ók lögregla honum á slysavarðstofu. Samkvæmt áverkavottorði brotaþola var hann með mikla áverka á andliti við komu á slysadeild, m.a. höfðu brotnað í honum tvær tennur og andlitsbein höfðu brotnað, auk fjölda annarra áverka á líkama og útlimum.
Þegar litið er til þeirra miklu áverka á brotaþola sem lýst er í áverkavottorði og framburðar hins óhlutdræga vitnis, B, sem samrýmist framburði brotaþola í öllum aðalatriðum, er ótrúverðugur sá framburður ákærðu að ákærði, Pétur, hefði aðeins slegið brotaþola tvö högg og ákærði, Jens, hefði ekki slegið hann, en framburður brotaþola að sama skapi trúverðugur, enda í samræmi við gögn málsins og framburð B.
Það er því að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi sem í ákæru greinir og að afleiðingar árásar ákærðu hafi verið þær sem í ákæru greinir. Háttsemi ákærðu er réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákvörðun refsingar
Ákærði, Pétur, hefur aldrei áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo vitað sé. Hann hefur verið sakfelldur í máli þessu fyrir grófa líkamsárás og horfir til refsiþyngingar að árásin var unnin í félagi með öðrum. Af framburði ákærða sjálfs, brotaþola og vitnisins B mátti ráða að ákærði, Pétur, hafði sig meira í frammi í árásinni en meðákærði, Jens. Árásin var hrottaleg og fólskuleg og afleiðingar árásarinnar miklar, m.a. miklir áverkar í andliti brotaþola. Ekkert er fram komið í málinu sem styður þá fullyrðingu ákærða, Péturs, að brotaþoli hafi átt upptökin að árásinni.
Þegar framangreint er virt er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 3 mánuði. Þar sem ákærði hefur aldrei áður gerst sekur um refsiverðan verknað verður frestað fullnustu refsingar ákærða og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði Jens, gekkst á árinu 2002 undir sátt vegna ölvunaraksturs, en það brot hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar í máli þessu. Ákærði hefur verið sakfelldur í máli þessu fyrir grófa líkamsárás og horfir til refsiþyngingar að árásin var unnin í félagi með öðrum. Þrátt fyrir að árás ákærðu væri hrottaleg og fólskuleg mátti ráða af framburði ákærða sjálfs, brotaþola og vitnisins B að ákærði, Jens, hefði haft sig mun minna í frammi í árásinni en meðákærði, Pétur. Þegar litið er til framangreinds er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 30 daga, en rétt er að fresta fullnustu refsingar ákærða og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Skaðabætur
Af hálfu A hefur verið lögð fram skaðabótakrafa gegn ákærðu og þess krafist að þeir verði dæmdir til að greiða honum in solidum 944.085 kr. ásamt vöxtum af þeirri fjárhæð skv. 8. sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. mars 2006 til þess dags er liðinn var mánuður frá því að krafa þessi var kynnt ákærðu en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags.
Krafan er sundurliðuð svo:
|
1. Miski skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 |
kr. 700.000,- |
|
2. Þjáningabætur |
kr. 98.100,- |
|
3. Útlagður kostnaður |
kr. 12.972,- |
|
4. Kostnaður vegna viðgerða á tönnum |
kr. 33.400,- |
|
5. Tímabundið atvinnutjón |
kr. 12.463,- |
|
6. Lögmannsþóknun |
kr. 70.000,- |
|
7. Virðisaukaskattur á lögmannsþóknun |
kr. 17.150,- |
|
Samtals: |
kr. 944.085,- |
Krafan er þannig rökstudd að ákærðu hafi af ásetningi valdið líkamstjóni tjónþola sem þeir beri óskipt bótaábyrgð á. Hafi líkamsárásin verið tilefnislaus og hrottafengin og hafi ákærðu báðir staðið að henni. Afleiðingar hennar hafi verið alvarlegar. Í líkamsárásinni hafi jafnframt falist ólögmæt meingerð gegn frelsi og persónu tjónþola. Árásin hafi verið honum andlega erfið, sérstaklega þegar höfð sé hliðsjón af því að hann sé útlendingur í ókunnu landi fjarri heimahögum sínum. Þá hafi sjálfstraust og sjálfsmat hans minnkað í kjölfar árásarinnar, andlegri líðan hrakað og hann þjáðst af þunglyndi.
Samkvæmt framangreinu hafa ákærðu verið sakfelldir fyrir grófa líkamsárás, sem þeir unnu í félagi. Með þeirri háttsemi hafa þeir gerst sekir um ólögmæta meingerð gegn persónu brotaþola og er fullnægt skilyrðum 26. gr. skaðabótalaga til að dæma ákærðu til að greiða brotaþola miskabætur sem með hliðsjón af dómvenju eru hæfilega ákveðnar 200.000 krónur. Brotaþoli hefur krafist þjáningabóta í 90 daga. Í málinu nýtur hins vegar ekki við læknisfræðilegra gagna um að brotaþoli geti hafa talist veikur í skilningi 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga í kjölfar árásar ákærðu. Hins vegar er nægilega fram komið að hann hafi mátt þola nokkrar þjáningar af meiðslum sínum, auk þess sem hann var á tímabilinu 19. mars til 22. mars 2006 óvinnufær vegna áverka sem hann hlaut. Þá bar brotaþoli fyrir dómi að hann hefði verið óvinnufær fyrstu viku eftir árásina, en blár og marinn vikuna eftir það, þótt hann hefði sótt vinnu. Verður því talið fullnægt skilyrðum 2. málsliðar 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga til að dæma brotaþola þjáningabætur vegna samtals 14 daga, svo sem hann hefði verið veikur án þess að vera rúmliggjandi, samtals 15.260 krónur.
Útlagður kostnaður er studdur gögnum og verður á hann fallist, að fjárhæð 12.972 krónur, auk kostnaðar vegna viðgerðar á tönnum að fjárhæð 33.400 krónur. Þá er krafa um tímabundið atvinnutjón einnig studd gögnum og verður á hana fallist að fjárhæð 12.463 krónur. Samtals greiði ákærðu in solidum 274.095 krónur með vöxtum af þeirri fjárhæð samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. mars 2006 til 13. ágúst 2006, en frá þeim degi með dráttarvöxtum af sömu fjárhæð samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags. Þá verða ákærðu dæmdir til að greiða kæranda in solidum kostnað sem hann hefur haft af því að halda fram kröfu sinni, sbr. 4. mgr. 172. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 og telst hann hæfilega ákveðinn 87.150 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Þá greiði ákærðu in solidum sakarkostnað málsins 158.916 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 120.516 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Katrín Hilmarsdóttir flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Pétur Jónsson sæti fangelsi í 3 mánuði.
Ákærði Jens Sigurðsson sæti fangelsi í 30 daga.
Frestað er fullnustu refsingar beggja ákærðu og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi þeir almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærðu greiði in solidum A 274.095 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. mars 2006 til 13. ágúst 2006, en frá þeim degi með dráttarvöxtum af sömu fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Ákærðu greiði in solidum 87.150 krónur í lögmannskostnað.
Ákærðu greiði in solidum sakarkostnað málsins 158.916 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 120.516 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.