Hæstiréttur íslands
Mál nr. 17/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Ákæra
- Lögreglurannsókn
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Þriðjudaginn 22. janúar 2002. |
|
Nr. 17/2002. |
Ákæruvaldið(Jón H. Snorrason saksóknari) gegn X (Magnús Guðlaugsson hrl.) |
Kærumál. Ákæra. Lögreglurannsókn. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Máli ákæruvaldsins á hendur X var vísað frá héraðsdómi þar sem bresta þótti á glögga skilgreiningu sakarefnis í ákæru, sbr. c-lið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, og rannsókn málsins var talin ófullnægjandi og í andstöðu við 67. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. janúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 9. janúar 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður úr ríkissjóði.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um sakarkostnað er staðfest.
Allur kostnaður af kærumáli þessu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda varnaraðila, Magnúsar Guðlaugssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 9. janúar 2002.
Mál þetta höfðaði ríkislögreglustjóri með ákæru 31. október 2001 á hendur X. Málið var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfur ákærða 4. janúar 2002.
Í ákæruskjali segir að ákærða séu gefin að sök „umboðssvik framin á árunum 1990 til 1993, með því að hafa í starfi sem framkvæmdarstjóri [...] misnotað aðstöðu sína og stefnt fé sjóðsins í stórfellda hættu með lánveitingum til sjálfs sín og ónafngreindra aðila án trygginga samtals að fjárhæð kr. 10.252.251 sem hér greinir:
Árið 1990 kr. 3.259.016
Árið 1991 kr. 2.228.870
Árið 1992 kr. 3.520.530
Árið 1993 kr. 1.243.835
Teljast þessi brot varða við 249. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir framangreind brot.“
Af hálfu ákærða er gerð sú krafa að ákæru verði vísað frá dómi, auk þess sem krafist er málsvarnarlauna og að þau verði felld á ríkissjóð.
Ákæruvaldið krefst þess að frávísunarkröfu ákærða verði hrundið.
I.
Málavextir eru þeir að 26. janúar 1980 stofnuðu [...] hjálpar- og lánasjóð. Samkvæmt 2. gr. laga sjóðsins, sem samþykkt voru á stofnfundi, er tilgangur sjóðsins að gefa fé til almennrar líknarstarfsemi og til hjálpar einstaklingum, auk þess að veita sjóðsfélögum eða [...] lán úr sjóðnum til skamms tíma.
Ákærði, sem starfaði til margra ára [...], var einn af stofnfélögum sjóðsins og var hann kjörinn gjaldkeri í fyrstu stjórn sjóðsins. Ákærði varð síðan framkvæmdarstjóri sjóðsins í árslok 1981 og gegndi því starfi til 19. febrúar 1998 þegar hann var formlega leystur frá störfum.
Samkvæmt fundargerðarbók stjórnar sjóðsins voru lán sjóðsins færð til bókar fyrstu starfsárin eða allt til ársloka 1987, en gert er ráð fyrir því í 5. gr. laga sjóðsins að stjórnin taki ákvarðanir um lánveitingar. Um starfsemi sjóðsins giltu einnig útlánareglur um hámark lána og lánstíma. Eftir árið 1987 var ekkert bókað í fundargerðarbók sjóðsins utan árlegra aðalfunda og frá árinu 1991 er ekkert ritað í fundargerðarbók þar til núverandi stjórn sjóðsins tók við á aðalfundi í apríl 1996.
Með bréfi 25. júlí 1999 krafðist lögmaður sjóðsins þess að ríkislögreglustjóri rannsakaði meðferð ákærða á fjármunum sjóðsins. Í erindinu kemur meðal annars fram að miðað við tiltæk gögn virðist sem ákærði hafi frá ársbyrjun 1988 þar til í apríl 1996 sýslað með eignir sjóðsins án nokkurs eftirlits, aðhalds eða skýrslugjafar um málefni sjóðsins. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir stjórnar sjóðsins hafi ákærði ekki séð ástæðu til að afhenda bókhaldsgögn eða önnur gögn um starfsemi og rekstur sjóðsins vegna áranna 1980 til 1996. Einu gögnin sem stjórnin hafi aðgang að utan fundargerðarbókar séu gögn frá og með árinu 1997. Þá segir í bréfi lögmannsins að grunsemdir um að ekki væri allt með felldu varðandi starfsemi sjóðsins hafi líklega vaknað á árinu 1994. Eftir viðræður við ákærða þar sem leitað hafi verið svara um málefni sjóðsins hafi verið boðað til aðalfundar 19. apríl 1996 og þá hafi núverandi stjórn sjóðsins verið kjörin. Á fundinum hafi komið fram upplýsingar um að ákærði hafi um nokkurra ára skeið, að því er virtist, nýtt sér stærstan hluta af fjármunum sjóðsins í eigin þágu, einkum til að fjármagna kaup og hugsanlega rekstur á Y, sem ákærði átti og rak á þessum tíma.
Með bréfi Rannsóknarlögreglu ríkisins 3. október 1996 var þess farið á leit við stjórn sjóðsins að veittar yrðu upplýsingar varðandi lán sjóðsins til ákærða og Y sf. Þessu erindi svaraði stjórn sjóðsins með bréfi 17. október 1996, en þar kemur fram að skuld ákærða við sjóðinn í árslok 1995 hafi með áföllnum vöxtum numið 13.426.283 krónum. Í bréfinu kemur einnig fram að lánveitingar til ákærða hafi á árunum 1990 til 1993 numið 10.252.251 krónu og skipst milli ára á sama veg og greinir í ákæruskjali. Í fyrrgreindu bréfi lögmanns sjóðsins til ríkislögreglustjóra 25. júlí 1999 kemur fram að þessi samantekt hafi meðal annars verið byggð á upplýsingum frá ákærða.
Um mitt ár 1998 endurgreiddi ákærði sjóðnum 1.133.000 krónur. Jafnframt afsalaði ákærði og eiginkona hans fasteigninni að [...] til sjóðsins 19. nóvember 1998. Í tengslum við útgáfu afsals fyrir eigninni gaf ákærði og stjórn sjóðsins út yfirlýsingu 14. sama mánaðar þar sem fram kemur að ákærði hafi greitt sjóðnum 12.936.458 krónur með sölu eignarinnar. Þar segir einnig að ákærði telji sér óskylt að greiða nema hluta af kröfu sjóðsins, enda hafi meginhluti fjárins runnið til annars aðila en hans sjálfs. Þrátt fyrir það lýsi ákærði því yfir að hann persónulega gangist í ábyrgð fyrir greiðslu kröfunnar gagnvart sjóðnum.
Með bréfi ríkislögreglustjóra 11. febrúar 2000 var þess farið á leit við ákærða að hann léti efnahagsbrotadeild embættisins í té öll bókhaldsgögn, sem og önnur gögn er vörðuðu meðferð hans fjármunum sjóðsins þann tíma sem sjóðurinn var í hans vörslu á árunum 1981 til 1997. Tilefni þessarar beiðni sé kæra lögmanns sjóðsins á hendur ákærða vegna meintra auðgunarbrota hans við meðferð á fjármunum sjóðsins. Þessu erindi svaraði ákærði með bréfi 20. sama mánaðar, en þar segir ákærði að hann starfræki ekki bókhaldsgeymslu fyrir [...] og er ríkislögreglustjóra bent á að snúa sér til föðurhúsa kærunnar ef embættinu vanhagi um einhver gögn.
Hinn 13. mars 2001 var ákærði yfirheyrður hjá ríkislögreglustjóra og neitaði hann með öllu að tjá sig um skargiftir. Einnig kvaðst ákærði ekki hafa áhuga á að hlýða á þær spurningar sem lögregla vildi leggja fyrir hann.
II.
Í ákæruskjali er ákærða gefin að sök umboðssvik með því að hafa í starfi sem framkvæmdarstjóri [...] misnotað aðstöðu sína og stefnt fé sjóðsins í stórfellda hættu með lánveitingum án trygginga samtals að fjárhæð 10.252.251 krónur. Í ákæru eru þessar lánveitingar ekki skilgreindar á nokkurn hátt ef frá er talin skipting fjárhæðar eftir árum. Einnig eru tilgreining lántaka ekki nákvæmari en að í hlut hafi átt ákærði og ónafngreindir aðilar. Í ákæru brestur því mjög á glögga skilgreiningu sakarefnis og fullnægir ákæran ekki skilyrðum c-liðar 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.
Af hálfu ákæruvaldsins hefur ekki verið aflað bókhaldsgagna sjóðsins vegna áranna 1981 til 1997 þegar sjóðurinn var í vörslu og umsjá ákærða og er alls óvíst hvar þau gögn eru niður komin. Þannig hefur ekki farið fram rannsókn lögreglu eða eftir atvikum endurskoðanda á fjármálum sjóðsins á þessu tímabili. Virðist málatilbúnaður ákæruvaldsins einvörðungu reistur á svarbréfi stjórnar sjóðsins 17. október 1996 til Rannsóknarlögreglu ríkisins um skuld ákærða við sjóðinn. Af hálfu sjóðsins hefur því verið haldið fram að bréf þetta hafi verið samið á grundvelli upplýsinga frá ákærða sjálfum. Þetta hefur ekki verið staðfest og þvert á móti heldur ákærði því fram í sameiginlegri yfirlýsingu sinni og stjórnar sjóðsins 14. nóvember 1998 að honum sé óskylt að greiða nema hluta skuldarinnar við sjóðinn, enda hafi meginhluti fjárins runnið til annars aðila en hans sjálfs. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er rannsókn málsins ófullnægjandi og í andstöðu við fyrirmæli 67. gr. laga nr. 19/1991.
Ákæra og málatilbúnaður ákæruvaldsins er samkvæmt þessu með verulegum annmörkum og verður að gera verður ráð fyrir að málsvörn ákærða geti orðið áfátt af þeim sökum. Ber því að vísa ákæru málsins frá dómi.
Allur kostnaður af rekstri málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Magnúsar Guðlaugssonar, hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 80.000 krónur auk virðisaukaskatts.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Ákæru málsins er vísað frá dómi.
Allur kostnaður af rekstri málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Magnúsar Guðlaugssonar, hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur auk virðisaukaskatts.