Hæstiréttur íslands

Mál nr. 67/2007


Lykilorð

  • Útvarp
  • Friðhelgi einkalífs
  • Aðild


         

Fimmtudaginn 25. október 2007.

Nr. 67/2007.

Hrefna Kristmundsdóttir

Júlíus Jón Þorsteinsson og

Elí Sigursteinn Þorsteinsson

(Atli Gíslason hrl.

 Karl Ó. Karlsson hdl.)

gegn

Ríkisútvarpinu ohf.

(Kristján Þorbergsson hrl.

 Sigurbjörn Þorbergsson hdl.)

 

Útvarp. Friðhelgi einkalífs. Aðild.

 

Árið 2002 sýndi R kvikmynd í sjónvarpi úr þáttaröð er framleidd var af félaginu H. Efni myndarinnar var sótt í þann atburð þegar Þ eiginmanni áfrýjanda HK og föður annarra áfrýjenda, var ráðinn bani á vinnustað sínum í Reykjavík. Áfrýjendur byggðu á því að eins og fjallað hefði verið um efnið í myndinni hefði verið vegið harkalega að friðhelgi einkalífs þeirra og kröfðust þau því miskabóta úr hendi R. Áfrýjendur höfðuðu málið upphaflega gegn R og B, sem var þá nýtt heiti á félaginu H, en fyrir aðalmeðferð máls í héraði var B tekið til gjaldþrotaskipta. Óumdeilt var í málinu að félagið H, sem var framleiðandi myndarinnar, réði efnistökum og framsetningu hennar og að nafns H var getið í lok myndarinnar. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að a. liður 26. gr. útvarpslaga verði ekki skýrður á annan veg en þann að félagið hefði verið flytjandi í merkingu ákvæðisins og réði þar engum úrslitum að það hefði ekki jafnframt lagt til þá tækni, sem þyrfti til að dreifa efninu til áhorfenda. Með vísan til meginreglu 26. gr., um að sá sem flytur sjálfur efni í eigin nafni beri ábyrgð á því, bar félagið H ábyrgð á myndinni. Ábyrgð stefnda gat því aðeins komið til að enginn annar væri fyrir hendi skv. a. til c. lið 26. gr., en 26. gr. útvarpslaga yrði ekki skýrð svo að ógjaldfærni eða andlát þess, sem ber ábyrgð samkvæmt a. lið greinarinnar gæti leitt til þess að ábyrgð, sem ekki var fyrir hendi í upphafi, yrði síðar lögð á útvarpsstjóra sbr. d. lið 26. gr. Að öllu virtu var R sýknaður af kröfum áfrýjenda vegna aðildarskorts.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 5. febrúar 2007. Þau krefjast þess að stefndi verði dæmdur til að greiða hverju þeirra fyrir sig aðallega 1.000.000 krónur, en til vara lægri fjárhæð, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. júní 2004 til greiðsludags. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eftir uppkvaðningu héraðsdóms hefur stefndi tekið við réttindum og skyldum Ríkisútvarpsins, sem átti aðild að málinu í héraði, sbr. 4. mgr. ákvæðis I til bráðabirgða í lögum nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf.

I.

Þann 10. mars 2002 sýndi Ríkisútvarpið kvikmynd í sjónvarpi úr þáttaröð, sem nefndist Sönn íslensk sakamál. Kvikmyndafyrirtækið Hugsjón ehf. stóð að gerð þáttarins, en Ríkisútvarpið keypti sýningarrétt að honum. Efni myndarinnar var sótt í þann atburð þegar Þorsteini Guðnasyni, eiginmanni áfrýjandans Hrefnu Kristmundsdóttur og föður annarra áfrýjenda, var ráðinn bani á vinnustað sínum við Stóragerði í Reykjavík 25. apríl 1990. Tveir menn voru ákærðir fyrir verknaðinn og dæmdir til fangelsisrefsingar með dómi Hæstaréttar 19. júní 1991 í máli nr. 25/1991, sem birtur er á bls. 1199 í dómasafni réttarins það ár. Málsókn áfrýjenda er á því reist að með því að sýna þáttinn hafi Ríkisútvarpið brotið gegn friðhelgi einkalífs þeirra, en harkalega hafi verið vegið að henni eins og fjallað hafi verið um efnið í myndinni. Sú málsvörn stefnda að hann eigi rétt til tjáningar geti ekki réttlætt þessa gerð Ríkisútvarpsins. Málavöxtum og málsástæðum aðilanna er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi.

II.

Um ábyrgð stefnda vísa áfrýjendur einkum til d. liðar 26. gr. útvarpslaga nr. 53/2000. Í þeirri grein segir að ef útsending á útvarpsefni brýtur í bága við lög fari um refsi- og fébótaábyrgð samkvæmt því, sem segir í a. til e. liðum sömu greinar, en d. liður hljóðar svo: „Útvarpsstjóri ber ábyrgð á öðru efni.“ Sú ábyrgð, sem þar er lýst, er persónuleg ábyrgð útvarpsstjóra með sama hætti og ábyrgð ritstjóra á efni rits samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt. Ákvæði e. liðar 26. gr. útvarpslaga breytir engu um þetta, en samkvæmt honum ber útvarpsstöð ábyrgð á greiðslu fésekta og skaðabóta, sem starfsmanni hennar kann að vera gert að greiða samkvæmt þessari grein laganna. Engu að síður stefndu áfrýjendur Ríkisútvarpinu til varnar í málinu en ekki útvarpsstjóra. Stefndi hefur hins vegar ekki borið þetta sérstaklega fyrir sig til stuðnings sýknukröfu og kemur það því ekki frekar til álita.

Samkvæmt a. lið 26. gr. útvarpslaga ber sá, sem flytur sjálfur efni í eigin nafni, ábyrgð á því. Gildir það bæði um efni, sem útvarpað er samtímis því að það er flutt, og efni, sem útvarpað er samkvæmt áður gerðri upptöku. Ákvæðið tekur einnig til samtala í útvarpi þannig að hver sem tekur þátt í samtali í eigin nafni ber ábyrgð á sínu framlagi í því. Stefndi reisir sýknukröfu sína meðal annars á aðildarskorti með því að framleiðandi þáttarins, sem málið er sprottið af, hafi verið flytjandi eftir reglu a. liðar 26. gr. útvarpslaga. Geti ábyrgð stefnda samkvæmt d. lið sömu greinar því aðeins komið til að engum öðrum sé til að dreifa, sem geti borið ábyrgð eftir a., b. eða c. lið ákvæðisins. Áfrýjendur mótmæla því að framleiðandi þáttarins, Hugsjón ehf., hafi verið flytjandi í merkingu a. liðar 26. gr. laganna og því eigi við ábyrgð eftir d. lið. Að auki hafi bú félagsins verið tekið til gjaldþrotaskipta.

Samkvæmt meginreglu 26. gr. útvarpslaga ber sá, sem flytur sjálfur efni í eigin nafni, ábyrgð á því, en hún svarar til reglu 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956, þar sem ábyrgð er lögð á höfund ritaðs máls ef hann hefur nafngreint sig. Nafns framleiðanda sjónvarpsþáttarins, Hugsjónar ehf., var getið í lok hans, en óumdeilt er að framleiðandinn réði efnistökum og framsetningu í honum en ekki Ríkisútvarpið. Verður a. liður 26. gr. ekki skýrður á annan veg en þann að félagið hafi verið flytjandi í merkingu ákvæðisins og ræður engum úrslitum að það lagði ekki jafnframt til þá tækni, sem þurfti til að dreifa efninu til áhorfenda, enda má jafna þessari aðstöðu til þess er höfundur ritaðs máls fær birt verk sitt í blaði, sem annar gefur út. Bar Hugsjón ehf. samkvæmt því ábyrgð á þættinum samkvæmt útvarpslögum, en ábyrgð stefnda gat því aðeins komið til að enginn annar væri fyrir hendi samkvæmt a. til c. lið 26. gr. laganna, sem hún yrði lögð á.

Áfrýjendur vísa til þess að bú Hugsjónar ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta, en áður hafði nafni félagsins verið breytt í Brautarholt 8 ehf. Þrotabúið sé eignalaust og engar bætur þangað að sækja. Áfrýjendur höfðuðu málið upphaflega meira en tveimur árum eftir sýningu sjónvarpsþáttarins og beindu málsókninni þá að Ríkisútvarpinu og Brautarholti 8 ehf. Í þinghaldi 19. maí 2005 skýrði lögmaður félagsins frá því að bú þess hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta og að þrotabúið hefði tekið við aðild málsins, en því var síðar vísað frá dómi. Þessi atvik skipta ekki máli við úrlausn um aðild stefnda. Verður 26. gr. útvarpslaga ekki skýrð svo að ógjaldfærni eða andlát þess, sem ber ábyrgð samkvæmt a. lið greinarinnar, geti leitt til þess að ábyrgð, sem ekki var fyrir hendi í upphafi, verði síðar lögð á útvarpsstjóra.

Samkvæmt öllu framanröktu verður að sýkna stefnda af kröfum áfrýjenda vegna aðildarskorts. Rétt er að hver aðilanna beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

                          

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur  9. nóvember 2006.

I

Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 26. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Hrefnu Kristmundsdóttur, kt. 130742-4329, Skaftahlíð 26, Reykjavík, Júlíusi Jóni Þorsteinssyni, kt. 141069-3739, Engihjalla 1, Kópavogi, og Elí Sigursteini Þorsteinssyni, kt. 110972-2969, Sléttahrauni 32, Hafnarfirði, með stefnu birtri 28. nóvember 2005 á hendur Ríkisútvarpinu-sjónvarpi, kt. 540269-5729, Efstaleiti 1, Reykjavík.

 

  Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða hverjum stefnenda fyrir sig miskabætur að fjárhæð kr. 1.000.000, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 frá 08.06. 2004 og vaxtavöxtum samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags.  Til vara gera stefnendur þær kröfur, að stefndi verði dæmdur til greiðslu lægri fjárhæðar en í aðalkröfu að álitum samkvæmt mati dómsins með sömu dráttarvöxtum og vaxtavöxtum og í aðalkröfu.  Þá krefjast stefnendur málskostnaðar að mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts. 

 

  Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda og stefnendum verði gert, in solidum, að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að mati réttarins, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.  Til vara krefst stefndi lækkunar á kröfum stefnenda og að málskostnaður falli niður.

 

II

Málavextir

Málavextir eru þeir að þann 10. marz 2002 sýndi Ríkisútvarpið-sjónvarp þátt á dagskrá sjónvarpsins úr þáttaröðinni  „Sönn íslensk sakamál“.  Í þeim þætti var fjallað um morð á Þorsteini Guðnasyni, eiginmanni stefnandans Hrefnu og föður stefnendanna Júlíusar Jóns og Elís Sigursteins.  Morðið var framið þann 25. apríl 1990.  Fyrir sýningu þáttarins hafði eiginkonu hins látna, Hrefnu Kristmundsdóttur, verið sent bréf, dags. 1. október 1998, undirritað af Sigursteini Mássyni, þar sem henni var kynnt, að hafin væri vinna við gerð þáttarins.  Jafnframt hafði bréfritari áður haft samband símleiðis við Hrefnu, þar sem hann óskaði eftir viðtali við hana vegna  morðsins og gerð þáttarins, sem hún hafði hafnað.  Þann 6. október 1998 sendi lögmaður Hrefnu bréf til Sigursteins Mássonar, þar sem lagzt er gegn þessum fyrirætlunum vegna þess sársauka, sem atburðurinn hafi valdið fjölskyldu hins myrta og enn fremur var bent á, að gerð slíks þáttar teljist brot gegn friðhelgi einkalífs eftirlifandi ekkju og fjölskyldunnar allrar.  Þá hafði fyrirsvarsmaður kvikmyndafyrirtækisins Hugsjónar samband við stefnendurna, Elí og Júlíus, í febrúar 2002 og tilkynni þeim, að þátturinn yrði sýndur tiltekinn dag.  Með bréfi, dags. 27. febrúar 2002, mótmæltu stefnendur sýningu þáttarins en kröfðust þess til vara, að sýningu hans yrði frestað þar til niðurstaða Persónuverndar lægi fyrir. 

  Í kjölfarið leituðu stefnendur eftir áliti Persónuverndar, og er niðurstaða hennar dags. 8. marz 2002.  Segir þar m.a., að almennar heimildir stofnunarinnar til að stöðva vinnslu upplýsinga séu afmarkaðar í 40. gr. laga um persónuvernd.  Hins vegar sé í lögunum sérregla um það, þegar persónuupplýsingar séu einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi, og í 2. ml. 5. gr. laganna sé að finna ákvæði um, að slík vinnsla lúti aðeins ákvæðum 4. gr., 1. og 4. tl. 7. gr., 11.-13. gr. og 24., 28., 42. og 43. gr. laganna.  Það var álit Persónuverndar, að um væri að ræða slíka vinnslu, er greinir í 2. ml. 5. gr. laganna.  Slík vinnsla lúti ekki ákvæði 40. gr. laganna um heimild til að stöðva vinnslu upplýsinga, og af þeirri ástæðu teldi stjórn Persónuverndar ekki efni til, að stofnunin gæti fjallað um ósk stefnenda.

  Í kjölfar sýningar þáttarins sendi lögmaður stefnenda lögmanni Ríkissjónvarpsins bréf, dags. 11. marz 2002, þar sem átalin er sú afstaða Ríkissjónvarpsins að verða ekki við beiðni stefnenda um að fresta sýningu þáttarins og því jafnframt haldið fram, að með sýningunni hafi verið framin ólögmæt meingerð gegn ekkju og börnum hins myrta og áskilinn er réttur stefnenda, m.a. til skaðabóta. 

  Sama dag var þess farið á leit bréflega við Persónuvernd, að stofnunin tæki málið  til skoðunar á nýjan leik og tæki afstöðu til þess, hvort brotin hefðu verið ákvæði II. kafla laga nr. 77/2000 um meðferð og vinnslu þeirra persónuupplýsinga, sem þátturinn fjallaði um, sbr. einkum 7. gr.  Jafnframt var óskað eftir, að tekin yrði afstaða til þess, hvort frekari birting þáttarins væri heimiluð. 

  Niðurstaða Persónuverndar lá fyrir þann 16. september 2002 á þá leið, að ekki verði fullyrt, að brotið hafi verið gegn ákvæðum 1. og 4. tl. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000, þótt efnistök við gerð þáttarins kunni að orka tvímælis, einkum þegar litið sé til tilfinninga aðstandenda hins látna.

  Þann 26. september 2002 ritaði lögmaður stefnenda bréf til stefndu þar sem því er lýst að stefnendur „... hafi orðið fyrir miklu áfalli vegna sýningar þáttarins þann 10. marz 2002 og ekki síður vegna fyrirvaralausra auglýsinga fyrir sýningu hans...“  Þá er gerð krafa um greiðslu skaðabóta vegna sýningar þáttarins að fjárhæð kr. 4.000.000, einkum vegna miska og annars tjóns.  Í bréfi Ríkisútvarpsins – sjónvarps er kröfu stefnenda um greiðslu skaðabóta hafnað. 

 

III

Málsástæður stefnenda

Stefnendur byggja á því, að með sýningu sjónvarpsþáttarins hafi stefndi, með ólögmætum hætti, brotið gegn rétti stefnenda til friðhelgi einkalífs, sbr. ákvæði 71. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.  Heiti umrædds sjónvarpsþáttar „Sönn íslensk sakamál – Stóragerðismálið“ vísi til þess, að um sé að ræða frásögn af sakamáli í dómasafni Hæstaréttar 1991 bls. 1199 og áfram, svokölluðu Stóragerðismáli.  Morðinu á eiginmanni og föður stefnenda, Þorsteini Guðnasyni, sé þar lýst í dómasafninu, og hver, sem beri sig eftir því, geti lesið um það þar.  Það sé hins vegar sitthvað, hvort hægt sé að bera sig eftir dómum Hæstaréttar í útgefnum dómasöfnum réttarins, eða hvort hverju heimili landsins sé færð hrottafengin myndræn lýsing á morðinu heim í stofu með sýningu sjónvarpsþáttar um verknaðinn.  Með sýningu sjónvarpsþáttarins hafi landsmönnum ekki bara verið sagt frá morðinu á Þorsteini Guðnasyni, heldur hafi því verið lýst í smáatriðum með einkar blóðugum og ógeðfelldum hætti.  Morðið hafi auk þess verið sýnt á mismunandi vegu „eftir sýn leikstjórans á verkið“, eins og framleiðendur lýsi í bréfi sínu til Persónuverndar í aprílmánuði 2002.  Þar sé því lýst, að þeir hafi ekki bara verið að segja frá sakamálinu, heldur hafi þeir einnig nýtt sér skáldaleyfi sitt við gerð myndarinnar, þ.e. að hin leiknu atriði myndarinnar væru sýn leikstjórans á atburði, og að tilgangur með gerð og sýningu sjónvarpsþáttarins hafi verið að sýna skelfilegar afleiðingar eiturlyfjafíknar.  Vinnsla upplýsinga úr dómasafni Hæstaréttar um morðið hafi þannig verið óviðeigandi og algerlega úr tengslum við þann „tilgang“, sem framleiðendur þáttarins hafi sagt vera með sýningu sjónvarpsþáttarins.

  Þó að dómar Hæstaréttar geti verið aðgengilegir þeim, er beri sig eftir þeim, leyfi það ekki, að heimilt sé að gera hvað sem er við upplýsingar úr dómasafni réttarins og jafnvel að rangfæra þær, ásamt því að nýta sér skáldaleyfi við frásögn á dómunum.  Með sýningu sjónvarpsþáttarins „Sönn íslensk sakamál-Stóragerðismálið“, hafi ekkert tillit verið tekið til fjölskyldu Þorsteins Guðnasonar, þrátt fyrir að efni þáttarins gengi afar nærri fjölskyldunni.  Fjölskylda Þorsteins Guðnasonar hafi átt um sárt að binda frá atburðinum og hafi þau verið illilega minnt á morðið með sýningu myndarinnar og þar dregin upp sársaukafull mynd, sem hafi í alla staði verið í ósamræmi við minningu fjölskyldunnar af atburðinum.  Áður en þátturinn var sýndur í sjónvarpi, hafi hann verið auglýstur ítrekað og án fyrirfarandi vitneskju stefnenda í dagskrá sjónvarpsins.  Auglýsingar hafi verið mjög sláandi fyrir stefnendur og verið til þess fallnar að auka á sársauka þeirra.

  Með sýningu sjónvarpsþáttarins hafi fyrirmæla í 7. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga ekki verið gætt.  Þá hafi þess ekki verið gætt, að vinnsla upplýsinga úr dómi Hæstaréttar í dómasafni 1991, bls. 1199, hafi verið með sanngjörnum, málefnalegum eða lögmætum hætti, eða í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga.  Meðferð upplýsinganna úr dómasafni Hæstaréttar hafi verið óviðeigandi og langt umfram það, sem nauðsynlegt hafi verið miðað við meintan tilgang.

  Stefndi beri ábyrgð á því efni, sem sýnt sé í Ríkissjónvarpinu og beri því fébótaábyrgð gagnvart stefnendum á því, að brotið hafi verið gegn ákvæðum laganna, sbr. 43. gr. laga nr. 77/2000.

  Á grundvelli alls ofangreinds, framantaldra lagaákvæða og einnig 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 telji stefnendur, að stefndi hafi, með ólögmætum hætti, brotið gegn öllum framangreindum lagaákvæðum með sýningu sjónvarpsþáttarins og hafi með því bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnendum.  Kröfur sínar byggi stefnendur enn fremur á ákvæðum útvarpslaga nr. 53/2000, en  samkvæmt ákvæði 26. gr. laganna beri stefndi fébótaábyrgð á sjónvarpsefnis, sem fari í bága við lög.

  Stefnendur geri hver um sig kröfu um greiðslu miskabóta úr hendi stefnda að fjárhæð kr. 1.000.000, ásamt vöxtum eins og greini í stefnu.  Kröfur sínar rökstyðji stefnendur með því, að sýning sjónvarpsþáttarins hafi haft veruleg áhrif á fjölskylduna, þar sem morð eiginmanns og föður hafi verið margsýnt í smáatriðum og að tilefnislausu velt sér upp úr morðinu sjálfu með einkar ógeðfelldum, ýktum og blóðugum hætti.  

  Í upphafi máls þessa hafi verið ætlun stefnenda að standa öll saman að málshöfðun, þ.e. eftirlifandi eiginkona Þorsteins Guðnasonar, Hrefna Kristmunds­dóttir, og synir þeirra þrír, þeir Júlíus Jón, Elí Þorsteinn og Kristmundur.  Það hafi síðan verið ákvörðun þeirra Hrefnu, Júlíusar Jóns og Elís Þorsteins, að Kristmundur gæti ekki staðið að málsókn þessari, þar sem hann eigi við mikla erfiðleika að stríða; hann hafi ekki átt fastan samastað og sé í afar litlu sambandi við fjölskyldu sína.  Erfiðleika Kristmundar reki fjölskyldan til afleiðinga morðsins á föður hans og alls, sem því hafi fylgt. 

  Þann 8. júní 2004 hafi verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur mál stefnenda gegn Brautarholti 8 ehf. og stefnda, þar sem gerð hafi verið krafa um greiðslu kr. 3.000.000 í miskabætur.  Ástæða þess, að kröfum stefnenda hafi verið beint gegn Brautarholti 8 ehf., hafi verið sú, að í lok sjónvarpsþáttarins „Sönn íslensk sakamál – Stóragerðismálið“ sé „Hugsjón“ sögð vera framleiðandi, en fyrirtæki undir því nafni hafi hvergi verið skráð.  Því hafi verið óskað eftir upplýsingum Ríkisútvarpsins – sjónvarps um, hver framleiðandi myndarinnar væri, og hafi þá fengizt gefin upp kennitala framleiðandans, en samkvæmt hlutafélagaskrá heiti félagið í dag „Brautarholt 8 ehf.“  Þann 20. apríl 2004, þ.e. áður en aðalmeðferð málsins hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur, hafi félagið verið úrskurðað gjaldþrota og Eiríkur Elís Þorláksson hdl. skipaður skiptastjóri þrotabúsins.  Því hafi aðili verið sagður „þrotabú Brautarholts 8 ehf.“ í úrskurði dómsins.  Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 14. júní 2005 hafi málinu verið vísað frá dómi, þar sem miskabótakrafa stefnenda væri sett fram óskipt af hálfu stefnenda, án þess að nokkur tilraun væri gerð til að rökstyðja meintan miska hvers og eins.  Úrskurður héraðsdóms hafi verið staðfestur í Hæstarétti þann 6. september 2005 (mál nr. 294/2005), en með allt öðrum rökum.  Fallizt hafi verið á, að skilyrði væru til aðilasamlags samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991.  Samkvæmt upplýsingum skiptastjóra þrotabús Brautarholts 8 ehf. sé búið nær eignalaust og engar eignir til greiðslu annars en skiptakostnaðar.  Málshöfðun gegn þrotabúi Brautarholts ehf. þjóni því ekki tilgangi.   

  Kröfur um dráttarvexti styðji stefnendur við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum.  Gerð sé krafa um greiðslu dráttarvaxta frá þingfestingardegi fyrra dómsmáls vegna kröfunnar, sbr. hrd. 294/2005.  Krafa um vaxtavexti byggi á 12. gr. laga nr. 38/2001.  Krafan um málskostnað styðjist við XXl. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum númer 50/1988.  Stefnendur séu ekki virðisaukaskattskyldir.  Varðandi varnarþing vísist til 33. gr. laga númer 91/1991.

 

Málsástæður stefnda

Stefndi bendir á, að málatilbúnaður stefnenda lúti eingöngu að bótum fyrir ólögmæta meingerð gegn friðhelgi einkalífs þeirra sjálfra.  Eins og málið sé úr garði gert af stefnendum, lúti málatilbúnaður ekki að því, að stefndi hafi raskað æru eða minningu Þorsteins heitins Guðnasonar eða brotið gegn lögvörðum hagsmunum, er honum hafi tengzt eða tengist, eða að stefnendur eigi rétt á hendur stefnda af þeim sökum.

  Í kröfugerð stefnenda felist krafa um greiðslu miskabóta og virðist málið þannig vera byggt á því, að stefnendur hafi sjálfir orðið fyrir hinu meinta ófjárhagslega tjóni.

  Krafa stefndu um sýknu sé á því reist, að ekki séu fyrir hendi lagaskilyrði til að dæma stefnendum miskabætur í máli þessu.  Af lagaákvæðum, sem stefnendur styðji kröfur sínar við, geti aðeins 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 átt við um miskabætur fyrir ófjárhagslegt tjón.  Til að dæma miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga þurfi sá, sem ábyrgð beri á meintri, ólögmætri meingerð gegn friðhelgi tjónþola að hafa gerzt sekur um saknæma hegðun.  Stefndi telji lagaskilyrði 26. gr. skaðabótalaga ekki vera fyrir hendi, þar sem hann hafi ekki gerzt sekur um neina saknæma hegðun.

  Þá byggi stefndi sýknukröfu sína á því, að 26. gr. skaðabótalaga geti ekki átt við um stefnendur í máli þessu.  Lagaákvæðið veiti dómstólum heimild til að dæma miskabætur til handa þeim, sem misgert hafi verið við með athöfn eða athafnaleysi.  Stefndi haldi því fram, að sýning stefnda á þættinum í dagskrá sinni geti ekki falið í sér misgjörð gagnvart stefnendum.  Þær upplýsingar, er fram hafi komið í þættinum, hafi varðað persónuupplýsingar þriðja manns, en hann hafi verið látinn, þegar þátturinn var gerður.  Í sjónvarpsþættinum sé hvorki fjallað um stefnendur né sé í honum að finna ólögmæta meingerð gegn friðhelgi þeirra eða einkalífi.  Af upplýsingum, sem í þættinum komi fram, verði ekki á neinn hátt ráðið í einkalíf eða aðra persónulega hagsmuni stefnenda.  Einu hagsmunir, sem sýning þáttarins beinast að, varði Þorstein heitinn og meingjörðarmenn hans, en hvorki séu þeir aðilar að máli þessu né sé málið byggt á því, að hagsmunum Þorsteins heitins sjálfs hafi verið raskað.  Sjónvarps­þátturinn hafi verið sýndur 12 árum eftir að þeir atburðir, er þátturinn fjalli um, hafi átt sér stað, og geti sýning hans ekki falið í sér meingerð gegn persónulegri friðhelgi einkalífs stefnenda. Þó að fallast megi á, að það geti valdið stefnendum óþægindum og sársauka að sjá framangreinda atburði sviðsetta, feli það ekki í sér ólögmæta meingerð gegn friðhelgi einkalífs þeirra.  Af þessum sökum séu skilyrði fyrir beitingu 26. gr. skaðabótalaga ekki fyrir hendi.

  Þá byggi stefndi kröfu sína um sýknu á því, að samkvæmt 26. gr. útvarpslaga nr. 53/2000 beri stefndi ekki ábyrgð á efni þáttarins, heldur framleiðendur hans. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 26. gr. laganna beri sá, sem flytji sjálfur efni í eigin nafni, ábyrgð á því.  Stefnendur hafi átt að beina kröfum sínum að framleiðendum þáttanna en ekki stefnda.  Beri þegar af þeirri ástæðu einni að sýkna stefnda.

  Þá byggi stefndi á því, að samkvæmt meginreglum íslenzks réttar, falli persónuleg réttindi manns niður við andlát hans nema að því leyti, sem lög leiði til annars.  Réttur afkomenda eða aðstandenda látins manns til að höfða mál vegna umfjöllunar um hann sé háður því lagaskilyrði, að í þeirri umfjöllun felist ólögmæt meingerð í garð hins látna manns.

  Stefndi telji, að með sýningu þáttarins hafi hvorki stefnendum né hinum látna verið unnin ólögmæt meingerð né hafi stefndu, í þeirri frásögn, farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis.  Frásögn um þann atburð, sem átt hafi sér stað, og byggð sé á opinberum gögnum, verði ekki sögð, nema gerð sé grein fyrir aðkomu hins látna.  Í dómi Hæstaréttar komi fram, að frásögnum þeirra, sem stóðu að manndrápinu, hafi ekki borið saman, og hafi þáttagerðarmenn því valið að greina frá þeim mismunandi frásögnum með sviðsetningu.  Skýrt sé tekið fram í þættinum, að sá hluti myndarinnar, sem leikinn sé, sé ekki heimild um atburði, heldur túlkun leikstjórans á atburðum.

  Þá byggi stefndi á því, að hann hafi ekki brotið gegn 1. og 4. tölulið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga.  Í 5. gr. laganna segi, að þegar persónuupplýsingar séu einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi, gildi aðeins ákvæði 4. gr., 1. og 4. tölul. 7. gr., 11.-13. gr. og 24., 28., 42. og 43. gr. laganna.  Stefndi haldi því fram, að persónuupplýsingar, sem fram komi í þættinum, hafi verið unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti, og þær hafi verið byggðar á eins áreiðanlegum heimildum og frekast hafi verið kostur.  Þá hafi komið skýrt fram, að leiknir hlutar þáttarins væru ekki heimild um atburði, heldur skoðun og tjáning leikstjórans á atburðum.

  Þá byggi stefndi á því, að sér beri, samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 122/2000 um Ríkisútvarpið, að vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á þeim málum, sem efst séu á baugi hverju sinni, eða almenning varði. Þessu fylgi stefndi eftir í starfsemi sinni með því að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana.  Í framangreindri lagaskyldu stefnda felist skylda til að taka við efni frá framleiðendum efnis og sýna það í miðlum sínum.

  Stefnendur haldi því fram, að stefndi hafi farið langt umfram leyfileg mörk tjáningarfrelsis.  Þessari málsástæðu mótmæli stefndi og byggi á því, að sjónvarps­þáttur sá, sem sýndur hafi verið í Sjónvarpinu, sé mikilvægt framlag til opinberrar umræðu um eiturlyfjaneyslu og skaðlegar afleiðingar hennar fyrir eiturlyfjanotendur sjálfa og aðra borgara landsins.  Byggi stefndi á því, að atburður sá, sem hafi verið tilefni gerðar sjónvarpsþáttarins, sé skráður í opinbert dómasafn Hæstaréttar, og séu upplýsingar um atvikið og þá, sem þar hafi komið að, opinbert og aðgengilegt öllum.  Þótt sjónvarp sem miðill sé áhrifarík leið til að greina frá atburði í dómasafni æðsta dómstóls landsins, feli það ekki í sér takmörkun á tjáningarfrelsi, ef ákveðið sé að nota tækni eða aðferð, sem sé áhrifaríkari til að koma boðskap, frétt eða mikilsverðu málefni á framfæri við almenning.  Óumdeilt sé, að sjónvarp sé sá miðill, sem nái til flestra landsmanna og því eðlilegt, að hann verði fyrir valinu til að fjalla um það mikilvæga málefni, er þátturinn hafi tekið á.

  Stefndi byggi á því, að réttur stefndu til að segja frá framangreindum atburði og birta þáttinn í dagskrá sinni, sé lögvarinn af 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.  Réttur þessi til tjáningarfrelsis sé einnig varinn af 10. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.  Setja megi tjáningarfrelsi vissar skorður, sem skuli gert með stoð í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar.  Stefndi byggi á því, að engin slík skilyrði séu fyrir hendi í málinu. Hafi stefnendur ekki sýnt fram á, að lagaskilyrði séu til staðar, er réttlæti takmörkun á tjáningarfrelsi stefnda, eða að stefnendur eigi réttindi, er gangi framar tjáningarfrelsi stefnda.

  Stefndi telji, að í kröfugerð stefnenda felist í raun krafa um, að stefndi ritskoði efni í dagskrá sinni, en samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar komi fram fortakslaust bann við ritskoðun og annarri sambærilegri skerðingu á tjáningarfrelsi.  Stefndi hefur enga heimild að lögum til að banna, ritstýra eða koma í veg fyrir umræðu um mikilvæg þjóðfélagsleg málefni.  Í skyldu stefnda samkvæmt lögum nr. 122/2000 felist ekki eingöngu skylda til að miðla og hafa í dagskrá sinni efni, málefni eða upplýsingar, sem séu öllum að skapi eða taldar séu meinlausar eða litlu máli skipta, heldur einnig skylda til að miðla efni, upplýsingum og hugmyndum þáttargerðarmanna, sem kunni að móðga, hneyksla eða raska hugarró.  Að mati stefnda hafa fjölmiðlar mikilvægu hlutverki að gegna í nútímaþjóðfélagi, og verði að játa þeim frelsi til tjáningar.  Beri að skýra allar lagaheimildir og lagaákvæði, sem skerði tjáningarfrelsi fjölmiðla, þröngt.

  Stefndi byggi á því, að við ákvörðun á mörkum friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsis verði að líta til lýðræðishefða, sem eigi að tryggja, að fram geti farið þjóðfélagsleg umræða, en stefndi telji, að horfa beri til þessa við úrlausn um mörk tjáningarfrelsis fjölmiðla.  Í nútímasamfélagi sé sjónvarpið sá miðill, sem nái til flestra einstaklinga.  Í framangreindum sjónvarpsþætti sé fjallað um alvarlegt, þjóðfélagslegt vandamál, sem ali af sér afbrot, stórfellt heilbrigðisvandamál, aukin útgjöld samfélagsins vegna löggæzlu, dómgæzlu og heilbrigðismála og síðast en ekki sízt þeirrar bráðu hættu, sem almennum borgurum geti verið búin af eiturlyfjum og eiturlyfjaneytendum, sem í fíkn sinni geti átt það til að umgangast eignir og líf almennra borgara af fullkomnu virðingarleysi.  Stefndi byggi á því, að í lýðræðislegu þjóðfélagi hvíli sú grundvallar­skylda á fjölmiðlum, líkt og stefnda, að miðla upplýsingum og skoðanaskiptum um þjóðfélags­mál, stjórnmál og önnur mál, sem varði almenning og almannahagsmuni.  Í þeirri kvöð og skyldu felist að skýra verði allar undantekningar á tjáningarfrelsi til að hrinda af stað eða taka þátt í umræðu, þröngt.

  Þá byggi stefndi sýknukröfu sína á þeirri meginreglu skaðabótaréttar, að stefnendum, sem meintum tjónþolum, beri skylda til að takmarka tjón sitt eða koma í veg fyrir það, séu þeir í aðstöðu til þess.  Stefnendur byggi á því, að sýning þáttarins, einkum efnistök framleiðanda þáttarins, og framsetning atburða, einkum hvernig það ofbeldi, sem framið hafi verið, hafi valdið þeim sársauka og þjáningu, en óljóst sé, hvort vanlíðan stefnenda hafi komið til vegna þess að þeir hafi sjálfir horft á þáttinn, haft afspurn af efnistökum eða aðeins vitað af tilvist hans.  Stefndi haldi því fram, að stefnendur hafi getað látið sýningu þáttarins fram hjá sér fara og hafi þeir sérstaklega verið varaðir við sýningu þáttarins af lögmanni stefnda í bréfi þann 8. marz 2002 á dskj. nr. 8, þar sem atriði í þættinum gætu valdið þeim óþægindum og sársauka.  Stefndi telji, að friðhelgi stefnenda hafi ekki verið hægt að raska nema með því einu, að þeir hafi horft á efni þáttarins og alls ekki, ef þeir hafi einungis haft afspurn af honum.  Það, að þátturinn hafi verið sýndur í dagskrá stefndu, geti ekki falið í sér meingerð gegn friðhelgi einkalífs stefnenda.

  Þá telji stefndi, að stefnendur geti ekki stutt dómkröfu sína um miskabætur við 43. gr. laga nr. 77/2000, en samkvæmt greininni skuli ábyrgðaraðili bæta hinum skráða það fjárhagslega tjón, sem hann hafi orðið fyrir vegna vinnslu, sem brjóti gegn ákvæðum laganna, sbr. 5. gr. laganna.

  Verði ekki fallizt á kröfu stefnda um sýknu, sé þess krafizt til vara, að dómkrafa stefnenda verði lækkuð verulega.  Byggi stefndi þar á öllum sömu málsástæðum og að framan séu raktar.

  Þá byggi stefndi á því, að fjárhæð krafna stefnenda til hvers þeirra um sig, sé órökstudd með öllu, og engir útreikningar eða sönnunargögn liggi henni að baki.

  Fjárhæð krafnanna sé ekki í neinu samræmi við dómvenju um miskabætur hér á landi. Þá byggi stefndi á því, að hið meinta tjón stefnenda sé með öllu ósannað, enda hafi stefnendur ekki lagt fram nein gögn um, hvert hið meinta tjón þeirra sé eða hvers eðlis það sé. Þá hafi stefnendur ekki sýnt fram á, að orsakasamhengi sé milli hins meinta tjóns þeirra og sýningar þáttarins.

 

IV

Forsendur og niðurstaða

Ein af málsástæðum stefnda í máli þessu er sú, að sýkna beri hann vegna aðildarskorts með vísan til a- liðar, 1. mgr. 26. gr. útvarpslaga nr. 53/2000.  Þykir rétt að fjalla fyrst um þessa málsástæðu stefnda.

  Stefnendur kveða kröfum í máli þessu beint gegn stefnda, Ríkisútvarpinu-sjónvarpi, þar sem framleiðandi þáttarins, Brautarholt ehf., hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta, og sé búið eignalaust. 

  Á myndbandi með hinum umdeilda sjónvarpsþætti, sem fyrir liggur í dóminum, kemur fram í lok sýningarinnar, að framleiðandi þáttarins sé Björn Brynjólfur Björnsson og sé þátturinn framleiddur af Hugsjón.  Mun fyrirtæki með því nafni hvergi vera skráð.  Kemur fram í stefnu, að fyrirtækið hafi síðar skipt um nafn og tekið heitið Brautarholt 8 ehf., en fyrirtækið mun síðan hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta.

  Samkvæmt 26. gr. útvarpslaga nr. 53/2000 ber sá ábyrgð á útvarpsefni, sem flytur sjálfur efni í eigin nafni.  Þá ber flytjandi ábyrgð á efni, sem annar maður hefur samið.  Útvarpsstjóri ber ábyrgð á öðru efni og ber útvarpsstöð ábyrgð á greiðslu fésekta og skaðabóta, sem starfsmanni stöðvar kann a vera gert að greiða samkvæmt greininni.

  Stefndi byggir á því, að framleiðandi þáttarins beri ábyrgð á efni hans samkvæmt a- lið 26. gr. útvarpslaga.  Ekki liggur ljóst fyrir í máli þessu, að framleiðandi þáttarins, annar eða báðir,  hafi verið flytjandi hans í skilningi 26. gr. útvarpslaga.  Má því fallast á með stefnendum, að kröfum þeirra sé réttilega beint að stefnda í máli þessu, skv. e- lið, sbr. d- lið 26, greinar laganna.

  Stefnendur byggja á því, að með sýningu þáttarins hafi stefndi með ólögmætum hætti brotið gegn rétti stefnenda til friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. l. nr. 62/1994.  Byggja stefnendur á því, að með sýningu þáttarins hafi ekkert tillit verið tekið til fjölskyldu hins látna, sem hafi átt um sárt að binda frá atburðinum og hafi þau verið illilega minnt á atburðinn með sýningu myndarinnar og dregin hafi verið þar upp sársaukafull mynd, sem hafi í alla staði verið í ósamræmi við minningu fjölskyldunnar af atburðinum.  Þá hafi upplýsingar úr dómasafni Hæstaréttar verið rangfærðar, auk þess sem framleiðandi hafi nýtt sér skáldaleyfi við frásögnina.

  Í kröfugerð stefnenda er ekki á því byggt, að með sýningu þáttarins hafi verið vegið að æru eða mannorði Þorsteins heitins. 

  Þátturinn er byggður á frásögn í opinberum gögnum, og kemur fram í lok myndbandsins, að sviðsetningar séu byggðar á framburði vitna, en séu ekki heimildir um atburði.  Stefnendur hafa ekki gert grein fyrir því í stefnu eða öðrum gögnum málsins á hvern hátt brotið hafi verið gegn friðhelgi einkalífs þeirra með sýningu þáttarins, en hvergi í þættinum er fjallað um stefnendur þessa máls.  Stefnendur vissu af sýningu þáttarins með fyrirvara og hafa borið fyrir dómi, að þeir hafi ekki horft á þáttinn, þegar hann var sýndur í sjónvarpinu.  Þá hafa stefnendur ekki sýnt fram á, að brotið hafi verið á þeim með rangfærslum í þættinum, eða hverjar hinar meintu rangfærslur séu.  Verður ekki annað séð, en að stefnendur reisi kröfugerð sína á því, að sýning þáttarins hafi vakið hjá þeim sársaukafullar minningar um hinn hörmulega atburð, sem þátturinn fjallar um.  Ekki er hins vegar fallizt á, að slíku verði jafnað til ólögmætrar meingerðar gagnvart þeim, sem bótaskyld sé samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga eða öðrum lagaákvæðum, sem stefnendur vísa til í málatilbúnaði sínum.  Þá er því hafnað, að stefnendur geti byggt kröfugerð sína á því, að brotið hafi verið á þeim með því að ekki hafi verið gætt fyrirmæla í 7. gr. l. nr. 77/2000 um persónuvernd, en svo sem fyrr segir fjallar þátturinn á engan hátt um persónuupplýsingar, sem varða stefnendur. 

  Samkvæmt framansögðu er kröfum stefnenda hafnað.  Eftir atvikum þykir rétt, að hver aðila beri sinn kostnað af málinu.

  Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Ríkisútvarpið-sjónvarp, er sýkn af kröfum stefnenda, Hrefnu Kristmundsóttur, Júlíusar Jóns Þorsteinssonar og Elís Sigursteins Þorsteinssonar.

  Aðilar beri hver sinn kostnað af málinu.