Hæstiréttur íslands

Mál nr. 681/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


                                     

Mánudaginn 22. desember 2008.

Nr. 681/2008.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fulltrúi)

gegn

X

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr.19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. desember 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 23. desember 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. 

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. desember 2008 í máli nr. R-585/2008:

  Með beiðni lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsettri í dag, er þess krafist að X verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 23. desember 2008, kl. 16.00.

       Segir í greinargerð lögreglustjóra að kærði hafi verið stöðvaður við tollhlið við komu með flugi nr. FI-503 frá Amsterdam, þann 16. desember sl. ásamt samferðamanni sínum A, kt. [...], vegna rökstudds gruns um að hann hefði fíkniefni í forum sínum. Við leit í farangri samferðamanns hans fann Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli um 1,5 kg af ætluðu kókaíni og um 1 kg af óþekktu efni. Var kærði og samferðamaður hans handteknir og færðir í röntgenrannsókn en enga aðskotahluti var að sjá í kviðarholi hans.

Sætti kærði sérstakri rannsókn og eftirliti lögreglu þar sem kærði hafði nokkrum dögum áður, þann 9. desember sl., flutt til landsins með fraktflugi 6 ferðatöskur en við skoðun tollgæslu kom í ljós að ein þeirra innihélt um 150 g af kókaíni, sem falið var inn í tölvuflakkara. Var kærða sleppt að lokinni röntgenrannsókn þann 16. desember sl. en handtekinn aftur í gær er hann vitjaði ferðatasknanna sem hann hafði verið skráður fyrir sem sendandi og móttakandi.

   Rannsókn máls þessa er á frumstigi. Hefur rannsókn lögreglu leitt í ljós að kærði greiddi fargjald og uppihald A á meðan dvöl hans erlendis stóð. Er það mat lögreglustjóra að rökstuddur grunur sé til að ætla að kærði og A hafi staðið sameiginlega að hinum ætlaða innflutningi fíkniefnanna hingað til lands og að fleiri aðilar kunni að tengjast þeim innflutningi. Þá telur lögreglan rökstuddan grun til að ætla að kærði kunni að hafa skipulagt og fjármagnað hinn ætlaða innflutning til landsins. Það magn fíkniefna, sem þegar hefur fundist í fórum A þykir benda til þess að efnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og háttsemi hans og kærða kunni því að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæði laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Lögregla telur að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus.

  Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, 173. gr.a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 23. desember 2008, kl. 16.00.

Kærði andmælti gæsluvarðhaldskröfunni er hann kom fyrir dóminn en upplýsti að hann hefði greitt með kreditkorti sínu farmiða A til Amsterdam og til baka.

Brot gegn 173 gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið, fyrirliggjandi rannsóknargagna rökstuðnings lögreglustjóra þykja dómara lög standa til þess að verða við kröfu hans eins og hún er fram sett. Bæði þykir hafa verið sýnt fram á rökstuddan grun um að kærði sé samverkamaður og tengist broti A sem áður er getið og að hætta sé á að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins í heild verði hann látinn laus. Telur dómari að lögreglustjóri hafi sýnt fram á að skilyrði a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé uppfyllt og verður kærða því gert að sæta gæsluvarðhaldi til kl. 16.00 þann 23. desember n.k. eins og krafist er.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan

Úrskurðarorð:

Kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 23. desember 2008 kl. 16:00.