Hæstiréttur íslands
Mál nr. 143/2001
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Örorka
- Miskabætur
- Vátrygging
|
|
Fimmtudaginn 29. nóvember 2001. |
|
Nr. 143/2001. |
Sjóvá-Almennar tryggingar hf. (Ólafur Axelsson hrl.) gegn Óskari Mikaelssyni (Kristján Stefánsson hrl.) og gagnsök |
Bifreiðar. Líkamstjón. Skaðabætur. Örorka. Miskabætur. Vátrygging.
Ó, sem hlaut líkamstjón í umferðarslysi 3. júní 1989, deildi við S hf. um bætur vegna tímabundinnar örorku, grundvöll bóta vegna varanlegrar örorku og fjárhæð miskabóta. Á slysdegi var Ó sjálfstætt starfandi fasteignasali og studdi hann kröfu sína um bætur fyrir varanlega örorku við tekjur í skattframtölum sínum síðustu þrjú ár fyrir slysið. Á það var fallist með S hf. að tekjuviðmiðun sú sem Ó vildi leggja til grundvallar væri óraunhæf, þar sem um væri að ræða hagnað í atvinnurekstri sem háður væri markaðsaðstæðum á hverjum tíma og ekki væri eðlilegt við útreikning sem þennan að blanda saman tekjum af atvinnurekstri og launatekjum. Engin rök stæðu heldur til þess að umreikna slíkar tekjur miðað við almennar kaupbreytingar í landinu. Með vísan til þessa og þar sem Ó hafði ekki lagt fram frekari gögn til stuðnings kröfu sinni, var talið rétt að meta tjónið með hliðsjón af upplýsingum um meðaltekjur iðnaðarmanna. Hins vegar var á það fallist með Ó að S hf. hefði lækkað bætur fyrir varanlega örorku um of. Tjón Ó vegna tímabundinnar örorku þótti hins vegar ósannað. Miskabætur voru dæmdar með hliðsjón af meiðslum Ó og frambúðarörorku.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. apríl 2001 og krefst aðallega sýknu en til vara lækkunar af kröfu gagnáfrýjanda og að málskostnaður falli niður.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 5. júní 2001. Hann krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 25.000.000 krónur með almennum sparisjóðsvöxtum frá 2. júní 1995 til 10. júní 1999, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 7.220.905 krónur 28. febrúar 2001. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Gagnáfrýjandi hlaut líkamstjón í umferðarslysi 3. júní 1989. Í málinu er ekki ágreiningur um ábyrgð aðaláfrýjanda á tjóni gagnáfrýjanda vegna slyssins á grundvelli 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Að beiðni aðaláfrýjanda voru dómkvaddir tveir menn í því skyni að meta varanlega og tímabundna örorku gagnáfrýjanda. Matsmenn töldu að varanleg örorka gagnáfrýjanda væri 25% og tímabundin örorka 100% í þrjá mánuði og 50% í sex mánuði þar á eftir. Ágreiningur málsaðila lýtur að bótum vegna tímabundinnar örorku, grundvelli bóta vegna varanlegrar örorku, fjárhæð miskabóta og upphafstíma dráttarvaxta.
II.
Gagnáfrýjandi, sem var sjálfstætt starfandi fasteignasali á slysdegi, styður kröfu sína um bætur fyrir varanlega örorku við tekjur í skattframtölum sínum síðustu þrjú ár fyrir slysið, þar sem kemur fram að tekjur hans hafi numið 2.185.912 krónum árið 1986, 3.045.290 krónum árið 1987 og 1.136.309 krónum árið 1988. Voru tekjurnar lagðar saman af reiknuðu endurgjaldi gagnáfrýjanda annars vegar og hreinum tekjum hans af sjálfstæðri starfsemi hins vegar. Aðaláfrýjandi mótmælir því að þessi viðmiðun sé lögð til grundvallar við mat á tjóni gagnáfrýjanda þar sem um sé að ræða skammtaðar tekjur að viðbættum hagnaði. Aðaláfrýjandi bendir auk þess á, að gagnáfrýjandi hafi hætt fasteignasölu árið 1993 og ekki stundað hana síðan og séu því ekki forsendur fyrir því að miða framtíðartekjur hans við tekjutap í þeirri starfsgrein. Þess í stað telur hann eðlilegt að meta tjón gagnáfrýjanda á grundvelli upplýsinga um meðaltekjur iðnaðarmanna.
III.
Gagnáfrýjandi reisir bótakröfu sína á örorkutjónsútreikningi tryggingafræðings 19. janúar 2001, þar sem byggt er á vinnutekjum hans samkvæmt skattframtölum, sem voru umreiknaðar vegna kaupbreytinga. Tekjurnar voru reiknuð laun í eigin atvinnurekstri, fasteignasölu, og hreinar tekjur af atvinnurekstrinum.
Á það verður fallist með aðaláfrýjanda að þessi tekjuviðmiðun sé óraunhæf. Þar er um að ræða hagnað í atvinnurekstri við sölu fasteigna, sem aflað er af aðaláfrýjanda ásamt starfsmönnum hans og er háður markaðsaðstæðum á hverjum tíma. Við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku áfrýjanda er ekki eðlilegt að blanda saman tekjum af atvinnurekstri og launatekjum, enda ganga fyrrnefndu tekjurnar að jafnaði til áframhaldandi reksturs að stórum hluta. Hreinar tekjur af fasteignasölu áfrýjanda verða því ekki sjálfkrafa tekjur hans, sem leggja megi til grundvallar við útreikning vátryggingabóta. Engin rök standa heldur til þess að umreikna slíkar tekjur miðað við almennar kaupbreytingar í landinu. Með vísan til þessa og þar sem gagnáfrýjandi hefur ekki lagt fram frekari gögn til stuðnings kröfu sinni verður að fallast á það með aðaláfrýjanda að rétt sé að meta tjónið með hliðsjón af upplýsingum um meðaltekjur iðnaðarmanna.
Í málinu hefur verið lagður fram útreikningur tryggingafræðings á tjóni gagnáfrýjanda miðað við meðallaun iðnaðarmanna þar sem tjón gagnáfrýjanda fyrir varanlega örorku er metið 9.393.400 krónur. Í kjölfar uppkvaðningar héraðsdóms greiddi aðaláfrýjandi samtals 7.220.905 krónur til gagnáfrýjanda á grundvelli þess útreiknings, að teknu tilliti til 35% frádráttar vegna skattfrelsis bótanna og hagræðis af eingreiðslu og 350.000 króna í miskabætur, ásamt vöxtum og kostnaði. Telja verður að aðaláfrýjandi hafi lækkað bætur gagnáfrýjanda fyrir varanlega örorku um of. Að teknu tilliti til skattfrelsis og hagræðis af eingreiðslu bótanna þykja þær hæfilega ákveðnar 7.086.400 krónur. Bætur vegna tapaðra lífeyrisréttinda, 563.600 krónur, sæta ekki frádrætti.
IV.
Krafa gagnáfrýjanda um bætur fyrir tímabundna örorku er eingöngu byggð á niðurstöðu fyrrnefnds örorkutjónsútreiknings. Aðaláfrýjandi hefur mótmælt kröfunni með vísan til þess að þetta tjón gagnáfrýjanda sé ósannað, en í öðru lagi að krafan sé fyrnd, sbr. 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Í gögnum málsins kemur fram að gagnáfrýjandi lá á sjúkrahúsi í sex daga eftir slysið. Í matsgerð hinna dómkvöddu manna, sem áður er getið, kemur fram að gagnáfrýjandi hafi verið í sjúkraþjálfun og æfingum í um þrjá mánuði eftir slysið, og að hann hafi í raun verið að mestu leyti óvinnufær þann tíma þó að hann hafi „eitthvað getað sinnt stjórnunarstarfi varðandi fasteignasölu.“ Þá hafi starfsgeta hans verið skert til hálfs í sex mánuði til viðbótar. Þrátt fyrir mótmæli aðaláfrýjanda hefur gagnáfrýjandi engin gögn lagt fram, sem geta veitt vísbendingu um tjón hans vegna þessa. Er tjónið því ósannað. Verður aðaláfrýjandi af þeim sökum sýknaður af þessari kröfu og þarf þá ekki að taka afstöðu til þess hvort hún hafi verið fyrnd.
V.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um miskabætur og upphafstíma vaxta. Samkvæmt framansögðu verður aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjanda 7.086.400 krónur vegna varanlegrar örorku, 350.000 krónur í miskabætur og 563.600 krónur vegna tapaðra lífeyrisréttinda, eða samtals 8.000.000 krónur, með vöxtum eins og í dómsorði greinir, að frádregnum 7.220.905 krónum, sem greiddar voru 28. febrúar 2001.
Eftir þessum úrslitum verður aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði gagnáfrýjanda, Óskari Mikaelssyni, 8.000.000 krónur með almennum sparisjóðsvöxtum frá 2. júní 1995 til 2. febrúar 2001, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 7.220.905 krónum, sem greiddar voru 28. febrúar 2001.
Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 700.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2001.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 23. janúar sl., endurupptekið og dómtekið á ný föstudaginn 30. sama mánaðar, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Óskari Mikaelssyni verzlunarmanni, kt. 111243-4339, Markaflöt 53, Garðabæ, með stefnu birtri 2. júní 1999 á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 25.000.000 með almennum sparisjóðsvöxtum frá 2. júní 1995 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær, að stefnukröfur verði verulega lækkaðar, og málskostnaður verði felldur niður.
II.
Gangur málsins:
Málið var þingfest 10. júní 1999, og var greinargerð stefnda lögð fram 9. september s.á. Undirritaður dómari fékk málið til meðferðar 1. október s.á., og var það fyrst tekið fyrir til sáttaumleitunar þann 29. sama mánaðar og frestað til áframhaldandi sáttaumleitunar. Í næsta þinghaldi, þann 22. nóvember, lagði lögmaður stefnda fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna, og var matsbeiðnin tekin fyrir í sama þinghaldi. Var matsmönnum gefinn frestur til að ljúka gerðinni fyrir 15. janúar 2000. Málið var næst tekið fyrir 17. janúar 2000 og því næst frestað þrívegis til framlagningar matsgerðar, sem var síðan lögð fram í þinghaldi 6. apríl 2000. Var málinu að svo búnu frestað fjórum sinnum að ósk lögmanna. Í þinghaldi 6. júní 2000 féll lögmaður stefnda frá frávísunarkröfu, sem hann hafði upphaflega uppi í málinu. Í þinghaldi 30. júní 2000 lýstu lögmenn gagnaöflun lokið. Var málinu þá frestað um óákveðinn tíma til aðalmeðferðar. Vegna fjölda mála, sem biðu aðalmeðferðar þá, og mikils vinnuálags á dómara málsins fór aðalmeðferð ekki fram fyrr en þann 23. janúar 2001.
III.
Málavextir:
Stefnandi var ökumaður bifreiðarinnar G-12663, er hún lenti í árekstri við bifreiðina R-66697 laugardaginn 3. júní 1989. Bifreiðinni G-12663 var ekið suður Hafnarfjarðarveg og beygt til austurs inn á Vífilsstaðaveg. Stefnandi kveðst hafa ekið í kjölfar annarrar bifreiðar og ekki hafa orðið var við bifreiðina R-66697, er ekið var norður Hafnarfjarðarveg á um 60 km hraða, fyrr en um leið og bifreiðin lenti á bifreið hans, hægri hlið. Árekstur var mjög harður.
Ökumaður bifreiðarinnar R-66697 var Magnús Björgvin Sveinsson, en skráður eigandi bifreiðarinnar er Guðmundur Óskar Sigurðsson. Eigandi bifreiðarinnar R-12663 var Birgitta Ósk Óskarsdóttir.
Stefnandi hlaut mikinn fjöláverka við slysið og var fluttur á slysadeild til aðhlynningar og lá þar í um eina viku. Stefnandi kveður helztu áverka hafa verið samfall á lunga, brot á rifjum og herðablaði og hægri öxl, auk þess sem hann hafi hlotið þungt höfuðhögg og misst meðvitund. Stefnandi kveðst hafa verið samfellt undir læknishendi vegna heilsuáfalls þessa.
Stefnandi kveður, að í samráði við tjónadeild stefnda hafi verið óskað eftir örorkumati, og hafi verið samkomulag með aðilum um að fá til starfans Sigurjón Sigurðsson lækni. Beiðni var send 11. marz 1997. Læknirinn skilaði mati, dags. 31. maí sl., og er örorka stefnanda metin þannig:
í 3 vikur 100 %
í 3 mánuði 80%
í eitt ár 50%
varanleg örorka 35%
Stefnandi byggði stefnukröfur á matsgerð læknisins.
Að kröfu stefnda voru dómkvaddir tveir sérfróðir matsmenn, læknarnir Júlíus Valsson og Atli Þór Ólason, til að meta örorku stefnanda, og var matsgerð lögð fram í málinu þann 6. apríl 2000. Er niðurstaða þeirra sú, að varanleg, læknisfræðileg örorka stefnanda vegna slyssins sé hæfilega metin 25%. Ekki er fullljóst, hver niðurstaða er varðandi tímabundna örorku fyrstu 3 mánuði eftir slysið, en næstu 6 mánuði á eftir meta þeir hana 50%. Segir svo í niðurstöðu matsgerðar varðandi fyrstu 3 mánuðina:
“Matsþoli lá á Borgarspítalanum í Reykjavík eftir slysið í sex daga. Hann var síðan í sjúkraþjálfun og æfingum í um þrjá mánuði eftir slysið og telja matsmenn að hann hafi verið í raun að mestu leyti óvinnufær þann tíma þó að hann hafi eitthvað getað sinnt stjórnunarstarfi varðandi fasteignasölu.”
Í kjölfar matsgerðarinnar og á grundvelli hennar lét stefnandi reikna út fjárhagslegt örorkutjón sitt. Enn fremur lét lögmaður stefnda reikna út fjárhagslegt örorkutjón stefnanda á grundvelli matsgerðarinnar, miðað við meðaltekjur iðnaðarmanna.
Við aðalmeðferð málsins lagði lögmaður stefnanda fram nýjan örorkutjónsútreikning, dags. 19.01.2001. Er þar byggt á 25% varanlegri örorku og 100% tímabundinni örorku í 3 mánuði og 50% í 6 mánuði til viðbótar.
Stefndi hefur viðurkennt bótaskyldu, en ágreiningur er um bótafjárhæð og fyrningu tímabundins örorkutjóns.
IV.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi byggir á því, að hann sé, samkvæmt ákvæðum XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, sem ökumaður bifreiðarinnar, auk slysatryggingar ökumanns samkvæmt lögum um almannatryggingar, tryggður samkvæmt 92. gr. umfl. Séu kröfur stefnanda á hendur stefnda hafðar uppi á grundvelli þeirrar tryggingar.
Ekki hafi unnizt tími, við útgáfu stefnu, til að fá framkvæmdan örorkutjónsútreikning fyrir stefnanda, og sé því sett fram krafa, að fjárhæð kr. 25.000.000, auk þess sem krafizt sé almennra sparisjóðsvaxta 4 ár aftur í tímann. Kröfur stefnanda taki bæði til bóta vegna tímabundinnar og varanlegrar örorku, auk þess sem kröfur séu hafðar uppi til skaðabóta vegna þjáninga og miska, að fjárhæð kr. 750.000.
Málsástæður stefnda:
Kröfu um lækkun stefnufjárhæðar byggir stefndi á því, að krafa vegna vaxta og tímabundinnar örorku sé fyrnd með vísan til 99. gr. umfl. og 4. gr. fyrningarlaga. Þá er vaxtakröfum að öðru leyti mótmælt vegna tómlætis af hálfu stefnanda. Þá byggir stefndi á því, að krafa um miskabætur sé allt of há, og séu hæfilegar bætur miðað við þáverandi dómvenju, kr. 350.000. Þá byggir stefndi á því, að ekki verði byggt á árstekjum stefnanda síðustu þrjú ár fyrir slysið, þar sem um hlaupandi og skammtaðar tekjur að viðbættum hagnaði væri að ræða, en ekki laun í þeim skilningi. Einnig beri að lækka bætur með tilliti til eingreiðsluhagræðis og skattfrelsis, og sé hæfileg lækkum 35%.
V.
Forsendur og niðurstaða:
Lögmaður stefnanda mótmælti nýjum málsástæðum stefnda, sem ekki koma fram í greinargerð hans, sem of seint fram komnum.
Með hliðsjón af málatilbúnaði stefnanda í stefnu og þeim gögnum, sem þá lágu fyrir, taldi lögmaður stefnda sér ekki fært að taka til efnisvarna í greinargerð, og gerði kröfu um frávísun. Eftir að bætt hafði verið úr málatilbúnaði stefnanda, féll lögmaður stefnda frá frávísunarkröfu. Verður að telja, að í málatilbúnaði stefnda í greinargerð hafi falizt áskilnaður um að taka til efnisvarna, yrði bætt úr málatilbúnaði stefnanda. Þær málsástæður, sem fram komu af hálfu stefnda við munnlegan málflutning teljast innan þess áskilnaðar, og er ekki fallizt á, að þær séu of seint fram komnar, en þá er jafnframt horft til málatilbúnaðar stefnanda, eins og hann lá fyrir við þingfestingu málsins.
Aðilar eru sammála um, að stefnandi hafi hlotið 25% varanlega örorku við slysið. Þá er ekki ágreiningur um lengd tímabundinnar örorku eða örorkustig, eins og hún er talin vera í tjónsútreikningi þeim, sem stefnandi styður endanlega kröfugerð sína við.
Fyrningarkrafa stefnda beinist eingöngu að tímabundinni örorku. Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 2. júní 1999, en þá eru liðin nánast 10 ár frá slysdegi. Með hliðsjón af þeim gögnum, sem fyrir liggja í málinu, má telja ljóst, að stefnandi hefur haft vitneskju um kröfu sína og átti þess kost að leita fullnustu hennar fyrir 2. júní 1995, þegar fyrningarfrestur tók að líða í síðasta lagi. Er kröfu stefnanda vegna tímabundinnar örorku því hafnað, með vísan til 99. gr. umfl.
Stefndi hefur ekki hnekkt örorkutjónsútreikningi stefnanda eða gert tortryggilegar þær forsendur, sem hann byggir á. Verður hann því lagður til grundvallar. Samkvæmt útreikningnum, sem er dags. 19. janúar 2001, reiknast höfuðstólsverðmæti tekjutaps vegna varanlegrar 25% örorku nema á slysdegi kr. 22.613.000. Þá reiknast verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda vegna slyssins, miðað við 6% af höfuðstólsverðmæti taps af varanlegri örorku, kr. 1.356.800. Við útreikning höfuðstólsverðmætis eru, fram að útreikningsdegi, notaðir vextir og vaxtavextir af almennum sparisjóðsbókum í Landsbanka Íslands, en eftir útreikningsdag eru notaðir 4,5% vextir og vaxtavextir.
Þegar litið hefur verið til skattfrelsis bótanna og hagræðis af eingreiðslu, sem ber, samkvæmt dómvenju, að taka tillit til að kröfu stefnda, þykja bætur vegna varanlegrar örorku og tapaðra lífeyrisréttinda hæfilega ákveðnar kr. 15.600.000.
Í sóknargögnum er ekki gerð tilraun til að rökstyðja miskabótakröfuna sérstaklega. Með hliðsjón af meiðslum stefnanda og frambúðarörorku, sem fram koma í gögnum málsins, þykir mega fallast á miskabótakröfu stefnanda með kr. 350.000, sem er sú fjárhæð, sem samþykkt hefur verið af stefnda og er í samræmi við dómvenju fyrir gildistöku skaðabótalaga.
Aðilar eru sammála um, að vaxtakrafa stefnanda felur ekki í sér fyrnda vexti. Stefndi hefur mótmælt vaxtakröfum vegna tómlætis stefnanda. Með hliðsjón af málavöxtum öllum og málatilbúnaði stefnanda verða dæmdir almennir sparisjóðsvextir frá 2. júní 1995 til dómsuppsögudags, en dráttarvextir skv. III. kafla l. nr. 2571987 frá þeim degi til greiðsludags.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 1.200.000, og er þar með talinn útlagður kostnaður, sem ekki er ágreiningur um, auk þess sem tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði stefnanda, Óskari Mikaelssyni, kr. 15.950.000 með almennum sparisjóðsvöxtum frá 2. júní 1995 til dómsuppsögudags, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags og kr. 1.200.000 í málskostnað.