Hæstiréttur íslands

Mál nr. 491/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                                                                              

Mánudaginn 25. ágúst 2014.

Nr. 491/2014.

Skjólbelti ehf.

(Steinn S. Finnbogason hdl.)

gegn

Carli Jóhanni Gränz

(sjálfur)

Kærumál. Málskostnaður. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Kært var ákvæði í dómi héraðsdóms um málskostnað í máli S ehf. gegn C, sem lauk að öðru leyti með dómsátt. Málinu var vísað frá Hæstarétti með vísan til þess að ef dómur hefði gengið um kröfu S ehf., sem nam 114.588 krónum með nánar tilgreindum dráttarvöxtum, hefði skilyrðum til áfrýjunar málsins ekki verið fullnægt nema að fengnu áfrýjunarleyfi, sbr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ákvæðinu yrði eðli málsins samkvæmt einnig beitt um málskot þetta.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júlí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2014 þar sem leyst var úr ágreiningi um málskostnað í máli sóknaraðila gegn varnaraðila, en því var að öðru leyti lokið með dómsátt. Um kæruheimild er vísað til g. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili 19. febrúar 2014 mál á hendur varnaraðila til heimtu skuldar að fjárhæð 114.588 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Sátt sú sem gerð var í héraði 20. júní sama ár um dómkröfu sóknaraðila var þess efnis að varnaraðili skyldi greiða 114.000 krónur með 10 jöfnum afborgunum.

Ef dómur hefði gengið í héraði um kröfu þá sem sóknaraðili sótti í málinu væri skilyrðum ekki fullnægt til að áfrýja þeim dómi nema að fengnu leyfi Hæstaréttar, sbr. 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991. Eins og slegið var föstu með dómi Hæstaréttar 14. nóvember 1994 í máli nr. 436/1994, sem birtur er á bls. 2368 í dómasafni réttarins það ár, verður ákvæðinu eðli málsins samkvæmt jafnframt beitt um málskot þetta, sbr. og 4. mgr. 150. gr. laga nr. 91/1991. Ber því að vísa málinu frá Hæstarétti.

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, Skjólbelti ehf., greiði varnaraðila, Carli Jóhanni Gränz, 50.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní .

Mál þetta var höfðað þann 19. febrúar 2014 og þingfest þann 27. febrúar 2014.

                Stefnandi er Skjólbelti ehf., kt. 460112-2300, Kríunesi 6, 210 Garðabær.

                Stefndi er Carl Jóhann Granz, kt. 150878-5789, Bjallavaði 13, 110 Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess að stefndi greiði stefnanda skuld að fjárhæð 114.588 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 114.588 krónum frá 1. september 2013 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

                Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu. Til vara gerir stefndi kröfu um að dómkröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

                Í þinghaldi í dag var lögð fram dómsátt í málinu. Ákvörðun um málskostnað var lögð í úrskurð dómara, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 91/1991.

                Stefnandi gerði kröfu um málskostnað sér til handa úr hendi gagnaðila en stefndi krafðist þess að málskostnaður yrði felldur niður.

Í greinargerð stefnda, sem var lögð fram 3. apríl 2014, kemur fram og er óumdeilt að að stefndi flutti út úr fasteigninni Hestavaði 1-3, Reykjavík þann 10. nóvember 2013. Á þeim tíma var í gildi tímabundinn húsaleigusamningur hans við stefnanda þar sem kveðið er á um að samningurinn sé uppsegjanlegur af hálfu leigusala hyggist hann setja íbúðina á sölu og skal uppsagnafrestur vera þrír mánuðir. Umræddum húsaleigusamningi var sagt upp af hálfu fyrirsvarsmanns stefnanda þann 31. júlí 2013 „þar sem eignin hefur verið seld“ eins og það er orðað. Engar frekari upplýsingar um kaupandann er að finna í nefndri uppsögn.

                Í greinargerð stefnda byggir hann á því að stefndi geti ekki átt kröfu á hendur honum vegna vangreiddrar húsaleigu nema fyrir tímabilið 1.-10. september 2013 en síðargreinda daginn hafi stefndi yfirgefið fasteignina. Í fyrirtökum hér fyrir dómi kom fram hjá stefnda að hann væri reiðubúinn að greiða stefnanda húsaleigu fyrir ofangreint tímabil og vildi ganga til sátta á þeim grunni óháð atvikum máls að öðru leyti. Því var hafnað af hálfu stefnanda en af hans hálfu var lögð fram tillaga að dómsátt sem var tekin til skoðunar af hálfu stefnda utan réttar. Umrædd sáttatillaga fól í sér að stefndi greiddi 114.000 krónur með 10 jöfnum greiðslum á mánaðarfresti. Dráttarvextir skyldu felldir niður og yrðu aðeins reiknaðir ef kæmi til vanefnda stefnda samkvæmt sáttinni.

                Í þinghaldi í dag lýsti stefndi því yfir að hann væri reiðubúinn að gangast undir ofangreinda dómsátt.

                Með sátt þeirri sem nú hefur verið gerð á milli aðila er kveðið á um að stefndi greiði stefnanda stefnufjárhæð að fullu með afborgunum en dráttarvextir eru felldir niður. Ljóst er að stefnandi fær með sáttinni ekki framgengt kröfu sinni að fullu en á móti kemur að stefndi fær ekki framgengt aðalkröfu sinni um sýknu. Þykir því eins ástatt fyrir aðilum eins og um ræðir í 1. ml. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá ber að líta til þess hvernig atvikum er háttað að öðru leyti en eins og áður segir hefur stefndi frá því að greinargerð var lögð fram viðurkennt greiðsluskyldu sína gagnvart stefnanda frá 1.-10. nóvember 2013. Þykir því rétt að málskostnaður milli aðila falli niður og hvor aðili um sig beri sinn hluta kostnaðar af málinu.

                Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Málskostnaður fellur niður.