Hæstiréttur íslands

Mál nr. 353/2012


Lykilorð

  • Þinghald
  • Kærumál


                                     

Fimmtudaginn 24. maí 2012.

Nr. 353/2012.

 

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

X

(enginn)

 

Kærumál. Þinghald.

X var ákærður fyrir að hafa ráðið A bana. Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfu B, sonar A, og C og D, foreldra hennar, um að þinghöld í í máli ákæruvaldsins gegn X yrðu háð fyrir luktum dyrum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

B, C og D skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 22. maí 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. maí 2012, þar sem hafnað var kröfu þeirra um að þinghöld yrðu háð fyrir luktum dyrum. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Kærendur krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og áðurgreind krafa þeirra tekin til greina.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili verið ákærður fyrir að hafa ráðið A bana. Sonur hennar, B, hefur uppi bótakröfu í málinu, en C og D eru foreldrar hinnar látnu.

Meginregla 10. gr. laga nr. 88/2008 er sú að þinghöld skulu háð í heyranda hljóði. Samkvæmt a. lið 1. mgr. greinarinnar getur dómari ákveðið að þinghald skuli fara fram fyrir luktum dyrum telji hann það nauðsynlegt til hlífðar sakborningi, brotaþola, vandamanni þeirra, vitni eða öðrum sem málið varðar. Eftir 2. mgr. sömu lagagreinar getur sá, sem sættir sig ekki við ákvörðun dómara um hvort þinghöld skuli háð fyrir luktum dyrum, krafist úrskurðar um það. Af síðastgreindum ákvæðum leiðir að sonur hinnar látnu og foreldrar voru bær til þess að krefjast úrskurðar héraðsdómara um hvort þinghöld í málinu skyldu vera lokuð og jafnframt til að kæra þann úrskurð til Hæstaréttar.

Undantekningar frá fyrrgreindri meginreglu sakamálaréttarfars ber að skýra þröngt. Engar þær aðstæður eru uppi í málinu sem gera það að verkum að taka beri kröfu kærenda til greina. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Það athugast að í niðurlagi hins kærða úrskurðar segir ranglega að hafna verði „kröfu ákærða“, en fram er komið í málinu að hann hefur ekki haft uppi þá kröfu, sem mál þetta tekur til, þótt hann hafi tekið undir hana við rekstur málsins í héraði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. maí 2012.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar í dag, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 30. apríl 2012 á hendur X, kt. [...], [...], [...], fyrir manndráp, með því að hafa á tímabilinu frá síðdegi fimmtudaginn 2. febrúar til hádegis föstudaginn 3. febrúar 2012, í svefnherbergi á heimili ákærða að [...], [...], veist að A, fæddri 1. október 1976, með hníf og stungið hana ítrekað í andlit og líkama, en ein stungan gekk inn í vinstra lunga hennar, og skorið hana á háls, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut bana af.

Þetta er talið varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er aðallega krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar, en til vara að honum verði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga.

Þá er í ákæru málsins þess krafist af hálfu B, kt. [...], sonar látnu að ákærða verði gert að greiða honum miskabætur ásamt dráttarvöxtum og af hálfu C, kt. [...], föður látnu, að ákærða verði gert að greiða honum útfararkostnað og miskabætur ásamt dráttarvöxtum.  að ákærði verði dæmdur til að greiða þeim miskabætur og skaðabætur vegna útfararkostnaðar, auk lögmannsþóknunar.

Lögmaður bótakrefjanda krafðist þess fyrr í morgun að þinghöld í máli þessu verði lokuð til hlífðar syni og aðstandendum hinnar látnu og vísar til a-liðar 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008. Verjandi ákærða samþykkti kröfuna en sækjandi mótmælti henni.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er það meginregla að þinghöld séu háð í heyranda hljóði og er þessi meginregla varin í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Heimilt er að víkja frá þessari grundvallarreglu í undantekningartilvikum, m.a. ef það er nauðsynlegt til hlífðar sakborningi, brotaþola, vandamönnum þeirra, vitni eða öðrum sem málið varðar. Eins og áður segir er það meginregla að almenningur geti fylgst með réttarhöldum. Þó svo að erfitt sé fyrir aðstandendur hinnar látnu að fylgjast með réttarhöldunum, og þá í fjölmiðlum eftir atvikum þá verður að líta til þess að meginreglan er að þinghöld séu opin. Að mati dómsins eru aðstæður í þessu máli ekki það sérstakar að réttlætt geti að þinghöld eða aðalmeðferð verði háð fyrir luktum dyrum. Að þessu sögðu og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 179/2002 verður að hafna kröfu ákærða. 

Úrskurð þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu lögmanns bótakrefjenda, um að þinghöld í málinu verði háð fyrir luktum dyrum, er hafnað.