Hæstiréttur íslands

Mál nr. 431/2011


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Slitameðferð
  • Skuldajöfnuður


                                     

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012.

Nr. 431/2011.

Mardrangar ehf.

(Sigmundur Hannesson hrl.)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Ívar Pálsson hrl.)

Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Skuldajöfnuður.

Í hf. krafði M ehf. um greiðslu skuldar vegna innistæðulausra færslna á bankareikningi M ehf. í G hf. M ehf. krafðist þess að kröfu Í hf. yrði skuldajafnað við kröfu sem hann átti á hendur G hf. Með hliðsjón af því að M ehf. hefði lýst því yfir að hann hefði daginn fyrir frestdag eignast kröfuna á hendur G taldi Hæstiréttur að skilyrðum 1.mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti til skuldajafnaðar hefði ekki verið fullnægt. Staðfesti Hæstiréttur því niðurstöðu héraðsdóms um greiðsluskyldu M ehf. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. júlí 2011. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og greinir í héraðsdómi andmælir áfrýjandi því ekki að skulda stefnda fjárhæð þá sem stefndi krefst og á rót sína að rekja til yfirdráttar á tékkareikningi í útibúi stefnda að Suðurlandsbraut 30 í Reykjavík. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var því lýst yfir af hálfu stefnda að ekki væri vefengt að áfrýjandi ætti kröfu á hendur honum á grundvelli skuldabréfs þess sem áfrýjandi byggir rétt sinn til skuldajafnaðar á, en því hins vegar mótmælt að fullnægt sé skilyrðum skuldajafnaðar.

Með lögum nr. 129/2008 voru gerðar breytingar á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í breytingarlögunum  miðast frestdagur í þeim fjármálafyrirtækjum sem Fjármálaeftirlitið hafði þegar skipað skilanefndir yfir við gildistöku laganna. Lögin skyldu samkvæmt 5. gr. öðlast þegar gildi. Þau voru birt 14. nóvember 2008 og tóku því gildi daginn eftir, það er 15. nóvember 2008, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað. Sá dagur telst því frestdagur við slit Glitnis-banka hf.

Samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. getur hver sá sem skuldar þrotabúi dregið það frá sem hann á hjá því hvernig sem skuld og gagnkröfu er varið ef hann hefur eignast kröfuna áður en þrír mánuðir voru til frestdags. Þetta skilyrði, sem gildir við slit Glitnis-banka hf., er óundanþægt. Áfrýjandi hefur ítrekað lýst yfir því undir rekstri málsins að hann hafi daginn fyrir frestdag, það er 14. nóvember 2008, eignast skuldabréf það sem hann styður skuldajafnaðarrétt sinn við. Er því ekki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 til skuldajafnaðar og ber þegar af þeirri ástæðu að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms.

Eftir þessum málsúrslitum ber að dæma áfrýjanda til greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Mardrangar ehf., greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. 

                                                                           

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2011.

I

Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 6. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Íslandsbanka hf., lögfræðiinnheimtu, kt. 491008-0160, Kirkjusandi 2, Reykjavík, vegna Íslandsbanka hf., útibús 526, Suðurlandsbraut 30, Reykjavík, með stefnu, birtri 4. maí 2010, á hendur Mardröngum ehf., kt. 480206-0610, Naustabryggju 36, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld, að fjárhæð kr. 3.462.292, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, 1. mgr. 6. gr., af þeirri fjárhæð frá 12.10. 2009 til greiðsludags, auk málskostnaðar að mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts. 

Dómkröfur stefnda eru svohljóðandi:

„Stefndi krefst greiðslu samkvæmt skuldabréfi Glitnis banka hf., 144A SR UNS FRN, útgefið 20.04.07, upphaflega á gjalddaga 20.04.10, nú gjaldfallið, upphaflega að fjárhæð USD 260.000/tvöhundruðogsextíuþúsund bandaríkjadollarar, auk vaxta skv. hljóðan bréfsins til 13. febrúar 2009, en dráttarvaxta samkvæmt reglum Seðlabanka Íslands frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi krefst þess, að dómkröfur stefnda samkvæmt ofangreindu og dómkröfur stefnanda verði látnar mætast með skuldajöfnuði að því marki sem nemur dómkröfum stefnanda samkvæmt yfirdráttarskuld stefnda við bankann á bankareikningi nr. 0526-26-4860 og bankareikningi nr. 0526-26-404057.

Stefndi krefst þess, að dómkröfur stefnanda er lúta að innheimtuþóknun, greiðsluáskorun, vanskilaskrá, eignakönnun og vottorðum, fjárnámsbeiðni og vöxtum af kostnaði ásamt virðisaukakostnaði verði alfarið felldar niður með vísan til framkominnar kröfu stefnda um skuldajafnaðaruppgjör skuldabréfa og yfirdráttarlána stefnda við bankann við kröfu stefnda samkvæmt nefndu s

Þá krefst stefndi þess, að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati réttarins.“

II

Málavextir

Málavextir snúast um skuld stefnda við stefnanda samkvæmt yfirdráttarreikningi stefnda við útibú stefnanda að Suðurlandsbraut 30 í Reykjavík og skuldajafnaðarkröfu stefnda á hendur stefnanda vegna skuldabréfs, sem stefndi kveðst eiga á Glitni banka hf. 

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir kröfur sínar á úttekt stefnda af tékkareikningi nr. 404057, sem stefndi stofnaði þann 14.12. 2005 við útibú stefnanda að Suðurlandsbraut 30, í Reykjavík.  Þann 12.10. 2009 hafi innistæðulausar færslur á reikningnum numið kr. 3.462.292.  Hafi reikningnum þá verið lokað.

Skuld þessi hafi ekki fengizt greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir.

Stefnandi kveðst styðja kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum.  Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála.  Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum númer 50/1988.  Stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. 

Varðandi varnarþing vísist til 32. gr. laga nr. 91/1991.  Stefnandi byggi kröfur sínar á meginreglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga.

Málsástæður stefnda

Stefndi lýsir málavöxtum og málsástæðum svo:  „Glitnir banki hf. veitti stefnda yfirdráttarlán á tveimur tékkareikningum stefnda við Glitni banka hf., útibúi bankans að Suðurlandsbraut 30, Reykjavík 108, ntt. tékkareikningur nr. 0526-26-4860 og 0526-26-404057.  Stefndi er eigandi skuldbréfs Glitnis banka hf.   Stefndi lýsti innan tilskilins frests, dags. 25.11.09, kröfu samkvæmt umræddu skuldabréfi stefnda á Glitni banka hf., 144A SR UNS FRN, útgefið 20.04.07, upphaflega á gjalddaga 20.04.10, nú gjaldfallið, upphaflega að fjárhæð USD 260.000 / tvöhundruðogsextíuþúsund bandaríkjadollarar, auk vaxta skv. hljóðan bréfsins til 13. febrúar 2009, en dráttarvaxta samkvæmt reglum Seðlabanka íslands frá þeim degi til greiðsludags.  Stefndi krafðist skuldajafnaðaruppgjörs skuldabréfa og yfirdráttarlána stefnda við bankann.  Ennfremur lýsti stefndi forgangskröfu vegna höfuðstóls bréfsins auk vaxta, þar á meðal varðandi það sem umfram stendur eftir skuldajöfnuð.

Slitastjórn bankans móttók kröfulýsingu stefnda og fékk hún tilvísunarnúmerið CL20091126-4851.  Vegna mikils fjölda krafa hefur slitastjórn bankans ekki reynst unnt að taka afstöðu til kröfunnar og hefur slitastjórn frestað að taka afstöðu til kröfunnar til 2. desember næstkomandi, samanber lista kröfuhafa dags. 12.05.10.“

Stefndi vísar til meginreglna samninga- og kröfuréttar, m.a. um skuldajöfnun, þar sem kröfur séu gagnkvæmar, milli sömu aðila og gjaldkræfar.  Málskostnaðarkröfu sína kveðst stefndi byggja á 130. gr., sbr. 129. gr. l. nr. 91/1991.

IV

Forsendur og niðurstaða

Eins og kröfugerð stefnda er orðuð ber að skýra hana svo, að hann krefjist sýknu af dómkröfum stefnanda, sem byggist á skuldajöfnun við kröfur stefnanda, en fyrirsvarsmaður stefnda, sem er ólöglærður, hefur farið með málið fyrir hönd stefnda.

Af hálfu stefnda hefur kröfum stefnanda ekki verið mótmælt efnislega og er því fallizt á þær, eins og þær eru fram settar, enda eru þær í samræmi við framlögð gögn stefnanda.

Stefndi byggir skuldajafnaðarkröfu sína á skuldabréfi, sem hann lýsir að einhverju leyti í greinargerð sinni.  Þeirri lýsingu er þó að ýmsu leyti áfátt og er t.d. ekki lýst hver sé útgefandi bréfsins.  Um samningsvexti er einungis vísað til hljóðan bréfsins, en engin grein gerð fyrir þeim að öðru leyti.  Þá  liggur bréfið ekki frammi í málinu, hvorki í frumriti né afriti.  Eru því þegar af framangreindum sökum engin efni til að líta til þessarar kröfu stefnda.

Með því að stefndi hefur ekki haft uppi aðrar varnir í málinu ber að taka kröfur stefnanda til greina að öllu leyti.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 350.000, þar með talinn virðisaukaskattur, en við ákvörðun málskostnaðar hefur verið litið til hagsmuna málsins, en jafnframt horft til þess, að málið er lítið að umfangi.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Mardrangar ehf., greiði stefnanda, Íslandsbanka hf., kr. 3.462.292, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 12.10. 2009 til greiðsludags og kr. 350.000 í málskostnað.