Hæstiréttur íslands
Mál nr. 4/2008
Lykilorð
- Útlendingur
- Endurkomubann
- Fíkniefnalagabrot
- Skilorðsrof
|
|
Þriðjudaginn 18. mars 2008. |
|
Nr. 4/2008. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir, vararíkissaksóknari) gegn Tomas Arlauskas (Björgvin Jónsson hrl.) |
Útlendingar. Endurkomubann. Fíkniefnalagabrot. Skilorðsrof.
T var sakfelldur fyrir brot gegn lögum um útlendinga nr. 96/2002, með því að hafa í byrjun september 2007 komið til landsins og dvalið hér á landi fram til 20. nóvember er lögreglan stöðvaði för hans, og með því brotið gegn ákvörðun Útlendingastofnunar 19. september 2006, sem staðfest var með úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytis 16. apríl 2007, um brottvísun T af Íslandi og endurkomubann til landsins næstu 10 ár. Þá var hann einnig sakfelldur fyrir að hafa haft í vörslum sínum 25,62 g af amfetamíni. Með broti sínu rauf T skilorð reynslulausnar sem honum hafði verið veitt 12. október 2006 í 2 ár á 419 dögum óafplánaðrar refsingar. Með vísan til 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsingar var refsing T gerð í einu lagi samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 77. gr. sömu laga. Var hún ákveðin fangelsi í 16 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 3. janúar 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði krefst aðallega sýknu af 1. tölulið ákæru, refsing hans verði milduð og reynslulausn er honum var veitt af eftirstöðvum refsingar samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 510/2004, sem birtur er í dómasafni 2005, bls. 1644, verði leyft að haldast. Til vara krefst ákærði að refsing verði milduð og gæsluvarðhald er hann sætti komi til frádráttar dæmdri refsivist verði hún óskilorðsbundin.
Ljóst er af því sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi að ákærða hlaut að vera fullkunnugt um efni ákvörðunar Útlendingastofnunar 19. september 2006, sem staðfest var með úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytis 16. apríl 2007 um brottvísun ákærða af Íslandi og endurkomubann til landsins næstu 10 ár. Hefur hann því með ásetningi brotið gegn þeim ákvæðum laga um útlendinga nr. 96/2002, sem vísað er til í ákæru, og tekur verknaðarlýsing hennar til þess brots. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Tomas Arlauskas, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 327.373 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. desember 2007.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 30. nóvember sl., er höfðað af Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 26. nóvember 2007 gegn Tomas Arlauskas, litháskum ríkisborgara, kt. 290980-2599, með dvalarstað að Álfaskeiði 53, Hafnarfirði, ,,fyrir eftirtalin brot framin á árinu 2007:
1. Brot gegn lögum um útlendinga, með því að hafa í byrjun september komið til Íslands með óþekktu farþegaflugi og dvalið hér á landi fram til þriðjudagskvöldsins 20. nóvember er lögreglan stöðvaði för ákærða í bifreiðinni IZ-872 við Hringbraut 21 í Hafnarfirði og með því brotið gegn ákvörðun Útlendingastofnunar frá 19. september 2006, sem staðfest var með úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytis 16. apríl 2007, um brottvísun ákærða af Íslandi og endurkomubann til landsins næstu 10 ár.
2. Brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, með því að hafa fyrrgreint skipti er lögregla hafði afskipti af ákærða haft í vörslum sínum 25,62 g af amfetamíni, sem fundust við leit á ákærða á lögreglustöðinni við Flatahraun 11 í Hafnarfirði eftir handtöku.
Telst brot samkvæmt 1. tölulið varða við a lið 1. mgr. 57. gr., sbr. 43. gr., laga um útlendinga nr. 96/2002 og brot samkvæmt 2. tölulið telst varða við 2. gr. sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og gerð verði upptæk 25,62 g af amfetamíni, sem lagt var hald á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.”
Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður af ákæruatriðum í 1. tölulið ákæru og einvörðungu gerð vægasta refsing fyrir brot samkvæmt 2. tölulið ákæru. Til vara krefst ákærði vægustu refsingar er lög heimila. Ákærði krefst þess að gæsluvarðhald hans komi til frádráttar refsingu. Málsvarnarlauna er krafist.
I.
Málavextir eru þeir að með dómi Hæstaréttar Íslands 28. apríl 2005 var ákærði dæmdur í fangelsi í 2 ár og 6 mánuði fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöfinni og fyrir brot gegn 1. mgr. 221. gr. og 1. mgr. 124. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærða var veitt reynslulausn 12. október 2006 í 2 ár á 419 dögum óafplánaðrar refsingar. Með ákvörðun Útlendingastofu 19. september 2006 var ákærða vísað á brott af Íslandi og bannað að koma aftur til landsins næstu 10 ár. Þessi ákvörðun var birt ákærða á Litla Hrauni 27. september 2006 og þann 12. október 2006 var ákærði fluttur úr landi í fylgd þriggja lögreglumanna til Vilnius í Litháen. Ákærði kærði úrskurð Útlendingastofu til dómsmálaráðuneytis sem staðfesti ákvörðunina með úrskurði sínum 16. apríl 2007.
Þann 20. nóvember 2007 handtók lögreglan ákærða í bifreið í Hafnarfirði og var hann færður á lögreglustöð. Við leit á honum fundust 25,62 g af amfetamíni. Var ákærði úrskurðaður í gæsluvarðhald daginn eftir.
Við þingfestingu málsins játaði ákærði sök varðandi vörslur á 25,62 g af amfetamíni en neitaði sök varðandi meint brot á útlendingalögum um að koma aftur til landsins þrátt fyrir bann þar að lútandi. Upplýst var við þingfestingu að vörn ákærða byggðist á því að honum hafi ekki verið birt ákvörðun Útlendingastofu um brottvísun með lögformlegum hætti og ekki gerð grein fyrir að hann mætti ekki koma til Íslands næstu 10 ár.
Í skýrslu sinni fyrir dómi skýrði ákærði svo frá að hann hafi síðast komið til landsins fyrir þremur mánuðum síðan og unnið við byggingarvinnu. Hann ætti eiginkonu hér á landi og ættu þau von á barni í febrúar. Hann hafi tekið upp eftirnafn eiginkonu sinnar, Arlauskas, og fengið skilríki útgefin með því nafni í Litháen. Ástæðan hafi verið sú að nafn hans hafi verið orðið þekkt bæði á Íslandi og í Litháen vegna hins svokallaða líkfundarmáls. Hann kvað þrjá lögreglumenn hafa komið á sinn fund á Litla-Hrauni og sagt honum að til stæði að vísa honum úr landi. Hafi þeir komið með skjal til hans sem hafi verið ritað á íslensku. Hann hafi óskað eftir túlki og verjanda en því verið synjað. Hann hafi því neitað að skrifa undir skjalið og alls ekki gert sér grein fyrir að honum væri bönnuð för til landsins næstu 10 ár.
Eiginkona ákærða sagði að ákærði hafi nú síðast komið til landsins í september en áður hafi hann dvalið á Íslandi frá janúar 2007 og fram í ágúst sl.
Þrír lögreglumenn fóru á Litla-Hraun 27. september 2006, m.a. til þess að birta ákærða ákvörðun Útlendingastofu. Tveir þeirra komu fyrir dóm og sögðu að ákærða hafi verið boðin aðstoð túlks því það væri starfsvenja þegar útlendingar ættu í hlut. Ákærði hafi hins vegar afþakkað það enda tali hann ágæta ensku og þokkalega íslensku. Hann hafi hins vegar óskað eftir að A, samfangi hans, yrði viðstaddur en því hafi verið hafnað. Ákvörðun Útlendingastofu hafi verið skýrð út fyrir honum m.a. að hann mætti ekki koma til Íslands næstu 10 ár. Þetta hafi verið þýtt nákvæmlega fyrir ákærða og hann virst skilja það fullkomlega. Hann hafi hins vegar verið mjög ósáttur við þessa ákvörðun.
II.
Ákærða er gefið að sök að hafa haft í vörslum sínum 25,62 g af amfetamíni þann 20. nóvember 2007. Með játningu ákærða telst sök hans sönnuð varðandi þennan ákærulið og er brot hans rétt fært til refsiákvæða í ákæru.
Þá er ákærða gefið að sök brot gegn lögum um útlendinga með því að virða ekki bann Útlendingastofu samkvæmt ákvörðun 19. september 2006 um að koma aftur til landsins eftir að hafa verið fluttur í lögreglufylgd frá Íslandi til Litháen 12. október 2006.
Í skýrslu sinni fyrir dómi viðurkenndi ákærði að hann hafi á fundi sínum með lögreglumönnunum þremur á Litla-Hrauni 27. september 2006 gert sér grein fyrir að verið væri að vísa honum úr landi. Hann hafi hins vegar ekki gert sér grein fyrir að hann mætti ekki koma til baka.
Tveir lögreglumenn hafa borið fyrir dómi að þeir hafi boðið ákærða túlk er þeir birtu honum ákvörðun Útlendingastofu. Hann hafi hins vegar afþakkað það enda tali ákærði ágætis ensku og þokkalega íslensku. Ákvörðunarorð hafi verið þýtt nákvæmlega fyrir ákærða og hafi hann skilið þau fullkomlega, m.a. að honum væri bönnuð för til Íslands næstu 10 ár. Þessi framburður lögreglumannanna verður lagður til grundvallar dómi. Þá er einnig til þess að líta að ákærði naut aðstoðar verjanda síns er hann kærði úrskurð Útlendingastofu til dómsmálaráðuneytis. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga felur brottvísun í sér bann við komu til landsins á ný. Liggur það reyndar að mati dómsins í hlutarins eðli að brottvísun úr landi væri næsta tilgangslaus ef heimilt væri að koma til baka stuttu síðar. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði getur endurkomubannið gilt fyrir fullt og allt eða um tiltekinn tíma en að jafnaði ekki skemur en í 2 ár. Fella má endurkomubannið úr gildi ef nýjar aðstæður mæla með því. Ákærði hefur ekki sótt um að bannið verði fellt úr gildi. Samkvæmt öllu framansögðu telst sök ákærða samkvæmt þessum ákærulið sönnuð og er brot hans rétt fært til refsiákvæðis í ákæru.
Ákærði er fæddur 1980 og eins og áður sagði hlaut hann 28. apríl 2005 fangelsisdóm í 2 ár og 6 mánuði.
Með broti sínu rauf ákærði skilorð reynslulausnar sem honum hafði verið veitt 12. október 2006 í 2 ár á 419 dögum óafplánaðrar refsingar, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsingar. Með vísan til 1. mgr. 65. gr. laganna ber því nú að gera ákærða refsingu í einu lagi samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. einnig 77. gr. laganna. Við ákvörðun refsinga verður litið til sakarferils ákærða, sbr. 5. tölulið 1. mgr. 70. gr. síðarnefndra laga og einnig til 6. töluliðar 1. mgr. sömu greinar. Samkvæmt framangreindu verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í 16 mánuði. Gæsluvarðhaldsvist hans frá 21. nóvember sl. til 4. desember sl. kemur til frádráttar refsingunni, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga.
Upptæk skulu 26,62 g af amfetamíni sem hald var lagt á við rannsókn málsins.
Ákærði greiði allan málskostnað sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Björgvins Jónssonar hrl., 260.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Ákærði, Tomas Arlauskas, sæti fangelsi í 16 mánuði.
Gæsluvarðhald hans í 14 daga komi til frádráttar refsingu.
Upptæk eru 25,62 g af amfetamíni.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Björgvins Jónssonar hrl., 260.000 krónur.