Hæstiréttur íslands
Mál nr. 129/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Mánudaginn 24. febrúar 2014. |
|
Nr. 129/2014. |
Lögreglustjórinn
á Suðurnesjum (Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi) gegn X (Snorri Sturluson hdl.) |
Kærumál.
Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður
héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95.
gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. febrúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. febrúar 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 3. mars 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir þeim málum varnaraðila sem nú eru til rannsóknar og sóknaraðili telur líklegt að muni sæta ákærumeðferð á næstunni. Meðal þeirra eru líkamsárásir 11. ágúst 2013, 10. janúar 2014 og 15. febrúar og 16. febrúar 2014. Er varnaraðili samkvæmt því sem fram kemur í hinum kærða úrskurði undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Varnaraðili hefur frá árinu 2007 fimm sinnum verið dæmdur fyrir líkamsárásir og á árinu 2010 hlaut hann tólf mánaða fangelsisdóm fyrir ránsbrot. Samkvæmt þessu er fullnægt því skilyrði c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 að ætla megi að varnaraðili muni halda brotum áfram meðan málum hans er ekki lokið. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. febrúar 2014.
Lögreglustjórinn
á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness í dag að úrskurðað verði
að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 14.
mars 2014 kl. 16:00.
Í
greinargerð lögreglustjóra kemur fram að kærði
hafi verið handtekinn í gær við [...] í [...] grunaður um líkamsárás,
húsbrot, eignaspjöll og vopnalagabrot þá snemma um morguninn. Kærði hafi
margsinnis komið við sögu lögreglu og sé nú undir sterkum grun um þrjár
líkamsárásir, tvö eignaspjöll, húsbrot, vopnalagabrot og fíkniefnalagabrot á
rúmlega 2 dögum eða frá 15. febrúar sl. Jafnframt sé kærði með til rannsóknar
fleiri mál þar sem kærði sé undir sterkum grun um að hafa framið rán,
sérstaklega hættulega líkamsárás og hótunarbrot á síðustu mánuðum. Kærði hafi
hlotið marga fangelsisdóma fyrir samskonar brot og nú séu til rannsóknar. Kærði
hafi frá árinu 2007, fimm sinnum verið dæmdur fyrir líkamsárásir. Þann 11.
apríl 2011 hafi kærði lokið afplánun tólf mánaða fangelsisdóms vegna ráns. Þann
[...] nóvember 2011 hafi kærði verið dæmdur fyrir frelsissviptingu. Auk þessa
hafi kærði verið dæmdur fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna, akstur sviptur
ökuréttindum, þjófnaði, og margsinnis fyrir vörslu fíkniefna.
Þyki að mati lögreglu
ljóst að kærði hafi einbeittan brotavilja og virðist ekkert lát vera á
brotastarfsemi hans. Eftirfarandi mál séu nú til rannsóknar hjá embættinu og
embætti lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu og munu líklega sæta ákærumeðferð
á næstunni:
„Mál 008-2013-[...]:
Þann 11.08.2013 var tilkynnt um líkamsárás
aftan við skemmtistaðinn [...] í [...]. Á vettvangi fékkst upptaka úr síma hjá
einu vitna þar sem sást til X sparka af miklu afli í höfuð liggjandi manns.
Upphaflega hafði X reynt að fá manninn með sér aftan við skemmtistaðinn en
maðurinn ekki fylgt honum eftir. Sást þá á upptökunni hvar X gekk að manninum,
tók utan um háls hans með vinstri hönd, og kýldi hann með hægri með þeim
afleiðingum að maðurinn féll fram fyrir sig í götuna. Eftir að hann féll,
sparkaði X í höfuð hans af miklum krafti eins og kemur fram hér að ofan.
Afleiðingar árásarinnar voru miklar en m.a. voru tennur 11 og 21 alveg slegnar
úr, tennur 32, 31, 41, 42, 22 voru lausar, tönn 12 verulega laus og snúin,
krónubrot var á einni tönn, ásamt miklum bólgum í andliti. X játaði brotið í
lok yfirheyrslu, eftir að hafa verið sýnd myndbandsupptaka af atvikinu, segir
að um stundarbrjálæði hafi verið að ræða. Mál þetta er fullrannsakað og verður
málið sent ríkissaksóknara á næstunni.
Mál 007-2014-[...]
Þann 10.01.2014 var haft
samband frá slysadeild vegna manns sem hafði komið með skotsár á höfði eftir
loftbyssuskot. Við rannsókn virðist sem umræddur maður hafði farið að [...],
[...]til þess að selja fíkniefni en þar hafi X, við annan mann, tekið á móti
honum, félagi X skotið á hann, þeir lagst ofan á hann þar sem aðilinn lá á
gólfinu, beint byssunni að höfði hans og hótað því að þeir myndu skjóta hann í
höfuðið ef hann léti þá ekki fá peninga og fíkniefni.
Mál 008-2014-[...]
Þann 15.02.2014 var haft
samband við lögreglu vegna líkamsárásar og eignaspjalla við [...], [...] í [...].
Sagði brotaþoli tvo menn hafa verið að slást aftan við bifreið hans þegar hann
stöðvaði á planinu við [...]. Sagðist hann þá hafa reynt að stöðva slagsmálin
og ýta aðilunum frá bifreiðinni en X hafi þá kýlt hann einu hnefahöggi í
andlitið. Einnig hafi X kastað síma í bifreiðina með þeim afleiðingum að
minniháttar skemmd myndaðist á afturstuðara. Brotaþoli var með áverka undir
vinstra auga. Árásarþoli kvaðst ætla að kæra árásina.
Mál 008-2014-[...]
Þann 16.02.2014 var tilkynnt
um slagsmál í [...] við [...] í [...]. Þegar lögregla kom á vettvang voru
slagsmálin yfirstaðin en fengust þær upplýsingar frá X að hann hefði, ásamt
félaga hans, hitt par í [...]. Þar hefði sagt við stúlkuna ,,hvort hún væri
ekki til í að sjúga liminn á sér“, við það hafi stúlkan reiðst, en þá ýtti við
henni svo hún féll í gólfið og fékk áverka í andlit. Var árásarþola ekið að
hennar beiðni á [...] þar sem læknir tók á móti henni. Árásarþoli kvaðst ætla
að kæra árásina.
Mál 008-2014-[...]
Þann 16.02.2014 var tilkynnt
um hótanir að [...], [...]. Þegar lögreglu bar að garði fengust þær upplýsingar
að X hafi um morguninn, ásamt félaga hans, rutt sér leið inn á heimilið, verið
með hótanir, neitað að yfirgefa svæðið og ógnað fólki með hníf. Á leið hans út
hafi hann svo kastað hnífnum í dyrakarm innandyra og fyrir utan heimilið tekið
upp múrstein og kastað í gegnum rúðu íbúðarinnar. X mun hafa veist að stúlku
sem er húsráðandi að [...] með einu hnefahöggi í andlitið eftir að hún reyndi
að koma honum út úr íbúðinni. X mun hafa farið út úr íbúðinni ásamt félaga
hans, byrjað að berja húsið að utan. X, ásamt félaga hans, kom aftur hálftíma
síðar og ruddust þeir þá aftur inn í íbúðina. X var þá sveiflandi hníf samkvæmt
vitnisburði, var ógnandi, augljóslega undir áhrifum fíkniefna að sögn vitna. X mun
hafa sest við eldhúsborð og skorið í það tvisvar sinnum með hnífnum. Á leiðinni
út úr íbúðinni henti X svo hnífnum í hurðargerett, og sagði í leiðinni við
húsráðanda að ,,þetta væri ekki búið“.
Mál 008-2014-[...]/[...]
Þann 16.02.2014 var X
stöðvaður við akstur bifreiðar sem hann var ekki skráður eigandi af. X gaf þær
skýringar að hann væri með bifreiðina að láni. Við leit í bifreiðinni fundust
tvær,,kúlur“ af meintu amfetamíni sem X sagðist eiga. Einnig fannst
einhverskonar DJ hljómborð og PlayStation 3 tölva, sem hvorki X né félagi hans
gátu gert grein fyrir. Í þvagprufu X kom jákvæð svörun á AMP-COC-MET og THC, þá
var X að aka sviptur ökuréttindum.
Segir í greinargerðinni
að þessi brot séu þess eðlis að telja verði nauðsynlegt að stöðva brotastarfsemi
kærða, þá sérstaklega þar sem brotahrina kærða ógni hagsmunum annarra. Með
vísan til framangreinds og ferils kærða telji lögregla yfirgnæfandi líkur á því
að kærði muni halda brotastarfsemi áfram fari hann frjáls ferða sinna og því
nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi.
Segir í greinargerðinni
að sakarefni málanna séu talin varða við 217., 218., 231., 233., gr., 252.,
257. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 45. gr. a og 48. gr.
umferðarlaga nr. 50/1987. 2. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og
brot á vopnalögum nr. 16/1998, en brot gegn ákvæðunum geta varðað fangelsi allt
að 10 árum ef sök sannast. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til c-liðar
1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Samkvæmt gögnum málsins, sætti kærði gæsluvarðhaldi frá 11.
til 17. janúar sl., vegna gruns um aðild eða hlutdeild í ráni og eftir atvikum
ránstilraun og sérstaklega hættulegri líkamsárás þar sem loftbyssu hafi verið
beitt og skotið hafi verið í höfuð manns. Ekki liggur fyrir nú, á hvaða stigi
rannsókn þess máls er en kærði kvaðst ekki hafa átt aðild að því máli. Ákæra
hefur ekki enn verið gefin út í því máli.
Í kjölfar líkamsárásarinnar 11. ágúst 2013, hóf kærði
afplánun á þriggja mánaða fangelsisdómi [...] 2011 og lauk afplánun 10. nóvember
2013. Kærði sat í gæsluvarðhaldi vegna þess brots frá 10. janúar 2014 til 17.
janúar s.á. Mánuði eftir að kærði var laus úr gæsluvarðhaldi, hóf hann nýja
brotahrinu eins og talið er upp í greinargerð lögreglustjóra og hafa þar þrjár líkamsárásir
verið kærðar til lögreglu, eignaspjöll, vörslur fíkniefna, vopnaburður og
akstur, sviptur ökurétti og undir áhrifum fíkniefna.
Samkvæmt sakavottorði kærða hefur honum ellefu sinnum verið
gerð refsing frá 6. september 2006 fyrir ýmis brot og þar af fimm sinnum
fangelsisrefsing og fimm sinnum sektarrefsing og í eitt sinn ekki gerð sérstök
refsing en þar var um hegningarauka að ræða. Af ofangreindum brotum hefur kærða
fimm sinnum verði gerð refsing fyrir ofbeldisbrot. Ofangreind brot hafa ekki áhrif
við mat á því hvort c-liður 1. mgr. 95. gr. sé uppfylltur en koma til skoðunar
þegar málið er metið heildstætt.
Kærði mótmælti kröfunni.
Með vísan til þess, sem að ofan er
rakið, telur dómarinn líkur standa til þess að kærði muni
halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna. Eru brotin þess eðlis
að telja verður nauðsynlegt að stöðva brotastarfsemi hans. Er það mat dómara að
skilyrði c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála séu uppfyllt.
Dómari telur þó, með vísan til alvarleika þeirra brota sem krafa þessi byggir
á, að hraða verði rannsókn mála kærða. Að þessu virtu og með vísan til c-liðar
1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála er fallist á kröfu
lögreglustjóra, þó þannig að kærði sæti gæsluvarðhaldi til mánudagsins 3. mars
nk. kl. 16.00.
Úrskurð
þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi, allt til mánudagsins 3. mars
2014, kl. 16:00.