Hæstiréttur íslands

Mál nr. 413/2011


Lykilorð

  • Virðisaukaskattur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Skilorð
  • Sekt
  • Vararefsing
  • Einkahlutafélag


                                     

Fimmtudaginn 19. janúar 2012.

Nr. 413/2011.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)

gegn

Birni Einarssyni og

(Kristján Stefánsson hrl.)

Ásbjörgu Magnúsdóttur

(Jóhannes Ásgeirsson hrl.)

Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Skilorð. Sekt. Vararefsing. Einkahlutafélag.

B, stjórnarmaður og starfandi framkvæmdastjóri félagsins B ehf., og Á, skráður framkvæmdastjóri þess, voru ákærð fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, með því að hafa á árunum 2007 og 2008 hvorki afhent á lögmæltum tíma virðisaukaskattskýrslur og skilagreinar vegna staðgreiðslu opinberra gjalda B ehf., né innheimt og staðið skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda félagsins. Hæstiréttur vísaði til ábyrgðar stjórnarmanna og framkvæmdastjóra einkahlutafélaga að lögum varðandi reikningsskil og féllst á með héraðsdómi að ákærðu hefðu þannig borið sameiginlega ábyrgð á þeim brotum sem þau voru ákærð fyrir. Brot ákærðu Á voru á hinn bóginn ekki talin stórfelld í skilningi 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga þegar litið var til þáttar hennar í brotunum. Við ákvörðun fésektarrefsingar var tekið tillit til greiðslna sem ákærði B hafði innt af hendi til innheimtumanns ríkissjóðs og tapaðra krafna B ehf. Var refsing B ákveðin fangelsi í 5 mánuði og honum gert að greiða sekt að fjárhæð 6.300.000 krónur, en sæta ella fangelsi í 4 mánuði. Þá var Á gert að greiða sekt að fjárhæð 1.300.000 krónur, en sæta ella fangelsi í 44 daga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. júní 2011 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing þeirra verði þyngd.

Ákærði, Björn Einarsson, krefst aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Til vara krefst hann ómerkingar dómsins og þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til „löglegrar og nýrrar málsmeðferðar.“ Að þessu frágengnu krefst hann sýknu af öllum kröfum ákæruvalds.Verði ekki á það fallist krefst hann sýknu af háttsemi sem í ákæru er talin varða við 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og refsimildunar, á þann veg að refsing hans verði „ákveðin sem hæfileg sekt og bundin skilorði“.

Ákærða, Ásbjörg Magnúsdóttir, krefst aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Til vara krefst hún ómerkingar dómsins og þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til „löglegrar og nýrrar málsmeðferðar.“ Að þessu frágengnu krefst hún sýknu af öllum kröfum ákæruvalds. Verði ekki á það fallist krefst hún refsimildunar og að refsing hennar verði bundin skilorði.

I

Rannsókn á ætluðum skattalagabrotum ákærðu hófst af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins 14. júlí 2008 með tilkynningu sem send var á lögheimili B&G ehf. Sagði þar „að rannsókn væri hafin á skilum á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda vegna greiðslutímabilanna október rekstrarárið 2007 til og með mars rekstrarárið 2008 og innheimtum virðisaukaskatti vegna uppgjörstímabilanna mars - apríl, júlí - ágúst til og með nóvember - desember rekstrarárið 2007 og janúar - febrúar rekstrarárið 2008.“ Samkvæmt gögnum málsins greiddi ákærði Björn 10. júní 2008 innheimtumanni ríkissjóðs 10.000.000 krónur, og var greiðslunni ráðstafað með eftirfarandi hætti af hálfu innheimtumanns: Í fyrsta lagi runnu 6.727.534 krónur til greiðslu skuldar vegna afdreginnar staðgreiðslu fyrir greiðslutímabilin janúar til og með september 2007, en í málinu er ekki ákært vegna þeirra. Í öðru lagi var 1.352.862 krónum ráðstafað til greiðslu skuldar vegna afdreginnar staðgreiðslu fyrir október 2007. Í þriðja lagi var 1.919.604 krónum ráðstafað vegna staðgreiðslu tryggingargjalds fyrir tímabilin desember 2005 og janúar til og með september 2007.

Framangreindri rannsókn skattrannsóknarstjóra lauk með skýrslu dagsettri 10. september 2008 og var málinu í framhaldinu vísað til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra með bréfi 4. nóvember 2008. Ákærðu gáfu skýrslu við rannsókn málsins hjá ríkislögreglustjóra 6. febrúar 2009 þar sem þeim var kynnt sakarefnið. Ákæra á hendur þeim var gefin út 30. mars 2009 og var málið dæmt í héraði 28. janúar 2010. Þeim dómi var áfrýjað til Hæstaréttar sem með dómi 17. febrúar 2011 í máli nr. 134/2010 ómerkti héraðsdóm og vísaði málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2008 var bú B&G ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og lauk skiptum 13. ágúst 2010. Þá var bú Fiskislóðar 45 ehf. tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní sama ár. Meðal gagna málsins er skrá yfir lýstar kröfur í þrotabú síðarnefnda félagsins og kemur þar fram að ekki var lýst kröfum í búið af hálfu B&G ehf.

Áður en ákæra var gefin út og undir rekstri málsins í héraði fór fram athugun á fjárhæð krafna þrotabús B&G ehf. sem telja bæri tapaðar. Ríkislögreglustjóri sendi skiptastjóra þrotabúsins bréf 4. júní 2009 í tilefni þess að ákærði Björn hafi við yfirheyrslu hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra borið að hann teldi að einhverjar kröfur félagsins hefðu tapast á tímabilinu mars til apríl 2007, júlí til desember sama ár og janúar til febrúar 2008. Segir í bréfi ríkislögreglustjóra að ákærði hafi ekki greint frá tilteknum kröfum en áskilið sér rétt til að koma að gögnum vegna þessa. Undir meðferð málsins í héraði hafi ákærði í þinghöldum haldið því fram að um tapaðar kröfur væri að ræða í rekstri félagsins á greindu tímabili. Var þess beiðst að skiptastjóri gerði grein fyrir því hvort við störf hans hefðu komið í ljós sannanlega tapaðar kröfur og þá sérstaklega vegna uppgjörstímabila virðisaukaskatts á áðurgreindum tíma. 

Í svarbréfi 25. ágúst 2009 upplýsti skiptastjóri þrotabús B&G ehf. að bókhaldgögn félagsins hafi hvorki gefið vísbendingu um að kröfur hafi verið afskrifaðar eða tapaðar, né heldur hafi þar verið upplýsingar um útistandandi kröfur. Bókhald félagsins hafi þó verið í óreiðu og fyrir dómi bar hann að kröfuhafar hafi ekki sýnt því áhuga að rannsaka hag búsins ítarlega, enda hafi ákærði verið búinn að lýsa yfir eignaleysi þess. Í fyrrgreindu svarbréfi segir einnig: „Aftur á móti fara nokkuð háar fjárhæðir á milli B&G ehf. annars vegar og Fiskislóðar 45 ehf. hins vegar. Af bókhaldinu verður séð að talsverð tengsl hafa verið á milli þessara félaga. ... Samkvæmt bankakvittunum virðist einnig sem eitt félag greiði reikninga fyrir annað. Af bókhaldi verður séð að B&G ehf. hefur af þessum sökum getað fengið endurgreiddan virðisaukaskatt þar sem útskattur hefur oft verið hærri en innskattur.“ Í bréfinu er tafla yfir hreyfingar sölureikninga sem munu hafa fundist í bókhaldsgögnum þrotabúsins fyrir áðurgreind tímabil. 

Eins og áður greinir hefur ákærði Björn haldið því fram að B&G ehf. hafi átt kröfur á hendur Fiskislóð 45 ehf. sem væru óinnheimtanlegar og tapaðar og að taka bæri tillit til þeirra við meðferð málsins og úrlausn þess, ákærðu til hagsbóta. Af gögnum málsins má ráða að ákærði Björn taldi fjárhæð þessara krafna vera 84.173.056 krónur og virðisaukaskatt þar af 16.818.905 krónur. Um nánari tilgreiningu krafna og fjárhæð virðisaukaskatts vísaði ákærði til áðurgreinds svarbréfs skiptastjóra þrotabús B&G ehf. Þær fjárhæðir voru við meðferð hæstaréttarmáls nr. 134/2010 bornar undir ákæruvaldið sem lýsti því yfir í tölvubréfi 15. febrúar 2011 að það gerði ekki athugasemd við útreikning í töflu skiptastjóra en teldi fjárhæð krafnanna vera 80.560.643 krónur. Ákærði Björn hefur undir rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti haldið fram vörnum, byggðum á því að framangreindar kröfur séu tapaðar.

II

Krafa ákærðu um frávísun málsins frá héraðsdómi er annars vegar reist á því að eftir að Hæstiréttur ómerkti fyrri héraðsdóm í málinu og vísaði því heim í hérað til löglegrar meðferðar, hafi sama héraðsdómara borið að fara með málið og kveðið hafði upp áðurnefndan dóm. Þess í stað hafi nýr dómari tekið við málinu og byrjað nýja aðalmeðferð. Samkvæmt lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála er ekkert því til fyrirstöðu að annar dómari taki við meðferð máls við þessar aðstæður, en nauðsynlegt var að efna til aðalmeðferðar að nýju til að framfylgja dómi Hæstaréttar. Í samræmi við 166. gr. laganna gáfu ákærðu og vitni skýrslu á ný fyrir þeim dómara sem kvað upp hinn áfrýjaða dóm, og var málið síðan flutt fyrir honum. Með skírskotun til þessa og 1. mgr. 111. gr. laganna á fyrrgreind röksemd fyrir frávísunarkröfu ákærðu sér enga lagastoð.

Hins vegar byggja ákærðu kröfu sína um frávísun frá héraðsdómi á því að ákæra í málinu sé haldin slíkum annmörkum að ekki sé unnt að leggja dóm á málið. Því til stuðnings hafa þau einkum vísað til þess að sú háttsemi sem þeim er gefin að sök í 1. tölulið ákæru, að „hafa eigi staðið ríkissjóði ... skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins“, samrýmist ekki því sem upplýst sé í málinu að virðisaukaskattur hafi ekki verið innheimtur af félaginu meginhluta þess tíma sem ákæruliðurinn tekur til. Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, er sú háttsemi lýst jafn refsiverð þeirri sem í ákæruliðnum greinir, að skattskyldur aðili afhendi ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskatt sem „honum bar að innheimta“. Að því gættu verður ekki talið að 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 standi því í vegi að dómur verði lagður á sakargiftir samkvæmt þessum ákærulið, enda hefur vörn ákærðu tekið mið af því að þeim sé þar meðal annars gefið að sök að hafa ekki sem stjórnendur B&G ehf. séð til þess að félagið stæði skil á virðisaukaskatti sem því hafi borið að innheimta. Af þessum sökum og með vísan til þess sem að framan greinir er frávísunarkröfu ákærðu hafnað.

Ákærðu færa í fyrsta lagi þau rök fyrir kröfu sinni um ómerkingu hins áfrýjaða dóms að héraðsdómur hafi átt að vera fjölskipaður. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 er héraðsdómur í sakamáli skipaður einum dómara nema svo standi á sem í 3. til 5. mgr. segir. Ekki verður talið að neitt af þeim undantekningarákvæðum hafi átt við um mál þetta.

Í öðru lagi halda ákærðu því fram að ágallar á hinum áfrýjaða dómi eigi að leiða til ómerkingar hans. Meðal þess sem þau hafa bent á er að héraðsdómari hafi ekki tekið til úrlausnar í dóminum þá röksemd að innborgun ákærða Björns á skattkröfu ríkisins á hendur einkahlutafélaginu sem lýst er í kafla I eigi ásamt öðru að leiða til sýknu eða að minnsta kosti að hafa áhrif á ákvörðun refsingar þeirra. Þá sé ekki gerð grein fyrir því í dóminum hvernig þær sektarfjárhæðir sem þau voru dæmd til að greiða hafi verið ákveðnar. Þótt á það verði fallist með ákærðu að hér sé um að ræða annmarka á dóminum sem brjóta í bága við fyrirmæli  2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008, einkum g. liðar hennar, verður ekki talið að þeir séu svo stórvægilegir að til ómerkingar leiði.

Aðrar röksemdir sem ákærðu hafa fært fyrir kröfu sinni um ómerkingu hins áfrýjaða dóms eru haldlausar með öllu.

III

Ákærðu eru gefin að sök brot á lögum nr. 50/1988 og lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir að hafa ekki afhent á lögmæltum tíma virðisaukaskattskýrslur og skilagreinar vegna staðgreiðslu opinberra gjalda B&G ehf. Þá er þeim og gefið að sök að hafa ekki innheimt og staðið skil á virðisaukaskatti og ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna sama fyrirtækis á þeim tímabilum sem í ákæru greinir. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var ákærði Björn starfandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður félagsins á þeim tíma sem ákæra tekur til og ákærða Ásbjörg skráður framkvæmdastjóri þess fram til 1. febrúar 2008.

Stjórnarmenn einkahlutafélags bera almennt ábyrgð á því að skipulag þess og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi, sbr. 1. og 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Þar á meðal ber þeim að sjá til þess að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félags. Ráðinn framkvæmdastjóri félags ber einnig ábyrgð samkvæmt 44. gr. laganna, og skal hann meðal annars annast daglegan rekstur og sjá um að bókhald sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna félags sé með tryggilegum hætti.

Ekki er ástæða til að draga í efa framburð ákærðu Ásbjargar um aðdraganda og tilgang ráðningar hennar að B&G ehf. og á sá framburður sér stuðning í framburði ákærða Björns. Í tilviki hennar verður þó ekki fram hjá þeim skyldum litið sem að lögum hvíla á skráðum framkvæmdastjóra einkahlutafélags og áður er gerð grein fyrir. Samkvæmt því er fallist á með héraðsdómi að ákærðu hafi sameiginlega borið ábyrgð á þeim brotum í starfsemi B&G ehf. sem lýst er í ákæru. Af hálfu ákæruvalds hefur hins vegar ekki verið sýnt fram á að ákærðu Ásbjörgu hafi, eftir að hún hætti sem framkvæmdastjóri félagsins 1. febrúar 2008, verið skylt að lögum að annast skýrslugerð og skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda þess. Verður hún því sýknuð af 1. tölulið ákæru vegna tímabilsins janúar til febrúar 2008 og af 2. tölulið ákæru vegna tímabilsins febrúar og mars sama ár.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að ákærðu hafi gerst sek um háttsemi þá sem þeim er gefin að sök í ákæru, en um nánari heimfærslu háttseminnar til refsiákvæða verður fjallað í kafla V hér á eftir.

IV

Samkvæmt því sem áður er rakið greiddi ákærði Björn innheimtumanni ríkissjóðs 10.000.000 krónur 10. júní 2008. Þar er og rakið hvernig þeirri greiðslu var ráðstafað af hálfu innheimtumanns til greiðslu skattskulda B&G ehf. Fallist er á með ákærðu að meta verði þessar greiðslur þeim til hagsbóta og verður litið til þessa við ákvörðun viðurlaga á hendur þeim. Samkvæmt því kemur greiðsla 10. júní 2008 á 1.352.862 krónum vegna vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir greiðslutímabilið október 2007 til frádráttar við ákvörðun sektarrefsingar beggja ákærðu. Þá liggur og fyrir samkvæmt því sem áður er rakið að hluta innborgunarinnar, það er 1.919.604 krónum, var ráðstafað til greiðslu á staðgreiðslu tryggingargjalds. Er fallist á með ákærðu að þau verði við ákvörðun viðurlaga látin njóta þeirrar innborgunar á þann hátt sem þeim er hagfelldastur. Enn fremur liggur fyrir að 25. janúar 2008 voru greiddar 1.695.994 krónur inn á virðisaukaskattskuld félagsins.

Af því sem segir í niðurlagi kafla I hér að framan leiðir að leggja verður til grundvallar að tapaðar kröfur þrotabús B&G ehf. á hendur Fiskislóð 45 ehf. séu 18 talsins að samanlagðri fjárhæð 80.560.643 krónur, og að virðisaukaskattur af þeirri fjárhæð sé 16.108.028 krónur. Bú síðarnefnda félagsins var eins og áður segir tekið til gjaldþrotaskipta 29. júní 2010 og verður því tillit tekið til þess með þeim hætti sem lög leyfa að kröfur þær er hér um ræðir hafi tapast.

 Samkvæmt 2. tölulið 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 14. gr. laga nr. 130/2009, er seljanda heimilt að draga frá við uppgjör á skattskyldri veltu 79,68% af töpuðum útistandandi viðskiptaskuldum. Er þá skilyrði að hin tapaða fjárhæð hafi áður verið talin til skattskyldrar veltu. Þessarar heimildar má neyta á því uppgjörstímabili þegar í ljós er leitt að krafa er töpuð, en fyrrgreindar kröfur B&G ehf. á hendur Fiskislóð 45 ehf. teljast sannanlega hafa tapast við gjaldþrot síðarnefnda félagsins 29. júní 2010.

Heimild til að nýta slíkan frádrátt sem að framan greinir leysir á hinn bóginn félag ekki undan skyldu til að standa skil á virðisaukaskatti til samræmis við veltu sína og án tillits til innheimtu útgefinna reikninga, jafnharðan og skatturinn er réttilega kominn á gjalddaga hverju sinni. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á að efni séu til að lækka kröfur í ákæru þótt framangreindar kröfur séu sannanlega tapaðar, heldur er rétt að taka tillit til þessa við ákvörðun refsingar.

V

Framangreind brot ákærða Björns gegn lögum nr. 50/1988 og lögum nr. 45/1987 teljast stórfelld í skilningi 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Með hliðsjón af því er staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um fangelsisrefsingu hans og skilorðsbindingu þeirrar refsingar. Þegar litið er til þáttar ákærðu Ásbjargar í brotunum verða brot hennar á hinn bóginn ekki talin stórfelld í merkingu fyrrgreinds ákvæðis og af þeim sökum verður henni ekki gerð fangelsisrefsing.

Ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 kveða á um fésektarlágmark í tilvikum eins og þeim sem hér um ræðir, er nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin og vanrækt var að greiða. Verður fésekt ákveðin sem nemur tvöfaldri vangoldinni fjárhæð virðisaukaskatts þegar tekið hefur verið tillit til tapaðra krafna og sem nemur tvöfaldri afdreginni staðgreiðslu þegar litið hefur verið til fyrrgreindra innborgana. Samkvæmt því verður ákærðu ekki gerð fésekt vegna brota sem greind eru í 1. tölulið ákæru. Fésekt ákærða Björns vegna brota samkvæmt 2. tölulið ákæru verður ákveðin 6.300.000 krónur og komi 4 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan þess tíma sem í dómsorði greinir. Þá verður fésekt ákærðu Ásbjargar vegna brota sem greind eru í 2. tölulið ákæru ákveðin 1.300.000 krónur, og komi 44 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan þess tíma sem í dómsorði greinir.

Niðurstaða héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærðu verður, hvoru um sig, gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Björn Einarsson, sæti fangelsi í 5 mánuði, en fresta skal fullnustu þeirrar refsingar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði greiði 6.300.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi 4 mánuði.

Ákærða, Ásbjörg Magnúsdóttir, greiði 1.300.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 44 daga.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði Björn greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur. 

 Ákærða Ásbjörg greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jóhannesar Ásgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.

Ákærðu greiði óskipt annan sakarkostnað málsins fyrir Hæstarétti, 40.396 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2011.

I

Málið, sem dómtekið var 18. maí síðastliðinn, er höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra, útgefinni 30. mars 2009 á hendur „Birni Einarssyni, kennitala [...], [...], [...], og Ásbjörgu Magnúsdóttur, kennitala [...], [...] ,[...], fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, sem framin voru í rekstri einka­hluta­félagsins B & G, kennitala [...] sem ákærði Björn var starfandi framkvæmda­stjóri og stjórnarmaður fyrir og ákærða Ásbjörg var skráður framkvæmda­stjóri fyrir til 1. febrúar 2008, með því að hafa:

1. Eigi afhent á lögmæltum tíma virðisaukaskattskýrslu vegna uppgjörstímabilsins september-október 2007 og hafa eigi staðið ríkissjóði, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins vegna uppgjörstímabilanna mars-apríl og júlí til og með desember 2007 og janúar-febrúar 2008, samtals að fjárhæð kr. 14.141.861, sem sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Vangoldinn VSK

á eindaga:

Árið 2007

mars - apríl

kr.

1.415.632

júlí - ágúst

kr.

767.838

september - október

kr.

5.988.498

nóvember - desember

kr.

3.320.593

kr.

11.492.561

Árið 2008

janúar - febrúar

kr.

2.649.300

kr.

2.649.300

Samtals:

kr.

14.141.861

2. Eigi afhent á lögmæltum tíma skilagreinar vegna staðgreiðslu opinberra gjalda vegna tímabilanna október til og með desember 2007, og hafa eigi staðið ríkissjóði, í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins, vegna tímabilanna október til og með desember 2007 og janúar til og með mars 2008, samtals að fjárhæð kr. 7.053.282, sem sundurliðast sem hér greinir:

Greiðslutímabil:

Vangoldin staðgreiðsla:

Árið 2007

október

kr.

1.366.092

nóvember

kr.

1.452.014

desember

kr.

984.773

kr.

3.802.879

Árið 2008

janúar

kr.

763.151

febrúar

kr.

1.390.142

mars

kr.

1.097.110

kr.

3.250.403

Samtals:

kr.

7.053.282

Framangreind brot ákærðu Björns og Ásbjargar samkvæmt 1. og 2. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig:

a)       1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005 að því er varðar 1. tölulið ákæru.

b)       2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005 að því er varðar 2. tölulið ákæru.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærðu neita sök og krefjast sýknu.  Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. 

II

Með bréfi 4. nóvember 2008 sendi skattrannsóknarstjóri efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra rannsókn á staðgreiðslu- og virðisaukaskattskilum B&G ehf. og ákærða Björns.  Rannsóknin hafði hafist í júlí sama ár.  Í bréfinu segir um rannsóknina:  „Rannsókn skattrannsóknarstjóra leiddi í ljós að vanrækt hefði verið, fyrir hönd skattaðilans, að standa skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimtum virðisaukaskatti skattaðilans vegna greiðslu- og uppgjörstímabila á rekstrarárunum 2007 og 2008, að því er virðist af ásetningi eða a.m.k. stórkostlegu hirðuleysi.  Rannsóknin leiddi einnig í ljós að vanrækt hefði verið að standa skil á staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum á lögmæltum tíma.“ 

B&G ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 19. desember 2008.  Í skýrslu skiptastjóra sem ber yfirskriftina:  Símafundur með stjórnarmanni, segir að félagið eigi ekki aðrar eignir en tvær bifreiðar.  Þá segir og í skýrslunni að ekki sé um neina gagnkvæma samninga að ræða. 

Efnahagsbrotadeild hóf rannsókn málsins í febrúar 2009 og lauk henni með útgáfu ákærunnar.  Málið var dæmt í héraði 28. janúar 2010.  Því var áfrýjað til Hæstaréttar sem ómerkti héraðsdóminn 17. febrúar síðastliðinn vegna þess að sami lögmaður hafi ekki mátt verja bæði ákærðu.

III

Við aðalmeðferð bar ákærði Björn að hann hefði verið starfandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður B&G ehf. eins og rakið er í ákæru.  Hann kvað endurskoðunarfyrirtæki hafa átt að sjá um skýrsluskil sem ákært er fyrir í 1. lið ákærunnar, en hann væri ábyrgur fyrir skilunum.  Þá kvaðst hann reikna með að þeim hefði ekki verið skilað á réttum tíma þar eð hann væri ákærður fyrir það.  Ákærði kvaðst ekki hafa tölulegar athugasemdir við ákæruna og ekki heldur tímabilin sem þar eru nefnd.  Hann bar efnislega á sama hátt um 2. ákærulið og um lið 1.  Þá kvaðst ákærði einn hafa farið með fjármálastjórn félagsins á þeim tíma sem um er fjallað í ákæru.  Meðákærða hafi ekki komið nálægt rekstri félagsins.  Hann kvaðst hafa beðið meðákærðu að skrá sig framkvæmdastjóra til að fullnægja formskilyrðum en gat að öðru leyti ekki svarað því af hverju hann hefði beðið hana um það.  Ákærði kvaðst ekki hafa gert meðákærðu grein fyrir þeim skyldum sem fylgja því að vera framkvæmdastjóri einkahlutafélags.  Ákærði kvað sömu eigendur hafa verið að B&G ehf. og Fiskislóð 45 ehf. og hafi hann verið framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í báðum félögunum.  Hann kvað félagið hafa átt útistandandi reikninga á Fiskislóð 45 ehf. og enn fremur tvær bifreiðar.  Borin var undir ákærða framangreind skýrsla skiptastjóra og kannaðist hann ekki við að hafa gefið skýrsluna. 

Ákærða Ásbjörg kannaðist við að hafa verið skráður framkvæmdastjóri félagsins eins og segir í ákæru.  Hún hafi hins vegar aldrei komið nálægt rekstri þess og ekkert vita um hann.  Skráning hennar hafi verið formsatriði og hún hafi talið sig hafa verið lausa allra mála miklu fyrr en raun varð á.  Hún kvaðst ekkert hafa hugsað út í skyldur sínar sem framkvæmdastjóri.  Ákærða kvaðst telja meðákærða hafa annast framkvæmdastjórn félagsins, en þau hafi aldrei rætt um félagið og málefni þess.  Hún kvaðst engar athugasemdir hafa við ákæruna eða gögn málsins, enda vissi hún ekkert um reksturinn eða fjárhag félagsins. 

Bókari, sem færði bókhald félagsins, bar að hafa fært það frá 2005 og þar til það fór í þrot.  Hann hafi haft samband við ákærða Björn um málefni félagsins.  Þá kvað hann gögn málsins, sem voru til athugunar hjá skattyfirvöldum, vera úr bókhaldi félagsins og kvað þau vera rétt.  Einnig kvaðst hann hafa farið með ákærða til viðræðna við starfsmann tollstjóra vegna yfirvofandi fjárnáms.  Hann mundi eftir því að hafa haft í huga að benda ákærða á að tilteknar greiðslur frá félaginu yrðu látnar renna til greiðslu á tilteknum gjöldum. 

Skiptastjóri þrotabús B&G ehf. staðfesti framangreinda skýrslu sína og þar með að hafa tekið hana af ákærða í gegnum síma.  Þá staðfesti hann upplýsingar sem komu fram í bréfi hans 25. ágúst 2009 um að bókhaldsgögn félagsins hafi ekki gefið neina vísbendingu um að kröfur hafi verið afskrifaðar eða tapaðar.  Ekki hafi heldur verið upplýsingar um útistandandi kröfur.  Hann tók þó fram að bókhald félagsins hafi verið í verulegri óreiðu og kröfuhafar hafi ekki sýnt því áhuga að rannsaka hag búsins ítarlega, enda hafi ákærði verið búinn að lýsa því yfir að bú félagsins væri eignalaust. 

IV

Ákærði Björn hefur viðurkennt að hafa gegnt þeim störfum fyrir B&G ehf. sem nefnd eru í ákæru og á þeim tímabilum sem þar eru tilgreind.  Þá hefur hann engar tölulegar athugasemdir gert við ákæruna.  Því hefur verið haldið fram af hálfu ákærða að félagið hafi átt útistandandi kröfur og eins hafi kröfur tapast.  Þetta fær enga stoð í gögnum málsins, hvorki skýrslu skiptastjóra né gögnum frá skattyfirvöldum og er þarflaust að fjalla frekar um þessa málsástæðu.  Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir það sem honum er gefið að sök í ákærunni.  Brot hans eru þar rétt færð til refsiákvæða, enda er brot hans stórfellt þegar litið er til þeirra fjárhæða sem um er að ræða.

Ákærða Ásbjörg hefur viðurkennt að hafa verið framkvæmdastjóri félagsins eins og rakið er í ákæru.  Þá hefur hún engar tölulegar athugasemdir gert við ákæruna.  Þótt engin ástæða sé til að draga í efa að ráðning hennar sem framkvæmdastjóra hafi verið með þeim hætti sem ákærðu greindu frá og rakið var hér að framan, er ekki hægt að líta fram hjá því að lögum samkvæmt hvíla tilteknar skyldur á framkvæmdastjóra einkahlutafélags, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 138/2004.  Ákærðu hefði því mátt vera ljóst að með því að láta skrá sig sem framkvæmdastjóra tók hún á sig tilteknar skyldur, þar á meðal að annast daglegan rekstur félagsins.  Í því felst meðal annars að sjá til þess að staðin séu skil á þeim gjöldum sem í ákæru greinir og að skilagreinum sé skilað.  Það er því ekki hægt að fallast á það með ákærðu að sýkna beri hana vegna þess að staða hennar hjá félaginu hafi eingöngu verið formsatriði.  Samkvæmt þessu verður hún sakfelld á sama hátt og ákærði. 

Ákærði Björn var sektaður 1999 fyrir brot gegn skattalögum.  Ákærða Ásbjörg hefur ekki áður gerst brotleg.  Refsing ákærða Björns er hæfilega ákveðin 5 mánaða fangelsi og ákærðu Ásbjargar 3 mánaða fangelsi.  Refsingarnar skulu bundnar skilorði eins og segir í dómsorði.  Þá verður ákærða Birni gert að greiða 28.000.000 króna sekt og ákærðu Ásbjörgu 9.400.000 króna sekt með vararefsingum eins og greinir í dómsorði.

Loks verða ákærðu dæmd til að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Björn Einarsson, sæti fangelsi í 5 mánuði og ákærða, Ásbjörg Magnúsdóttir, sæti fangelsi í 3 mánuði, en fresta skal fullnustu refsinganna og skulu þær falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins fyrir ákærðu, haldi þau almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Björn greiði 28.000.000 króna í sekt og komi 5 mánaða fangelsi í stað sektar verði hún ekki greidd innan 4 vikna.

Ákærða Ásbjörg greiði 9.400.000 krónur í sekt og komi 3 mánaða fangelsi í stað sektar verði hún ekki greidd innan 4 vikna.

Ákærði Björn greiði málsvarnarlaun verjanda síns Kristjáns Stefánssonar hrl., 150.600 krónur og ákærða Ásbjörg greiði málsvarnarlaun verjanda síns Páls Kristjánssonar hdl. 150.600 krónur.