Hæstiréttur íslands
Mál nr. 244/2002
Lykilorð
- Vátryggingarsamningur
- Líftrygging
- Meðalganga
- Dráttarvextir
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 12. desember 2002. |
|
Nr. 244/2002. |
X(Klemenz Eggertsson hdl.) gegn A B C og (Dögg Pálsdóttir hrl.) Sameinaða líftryggingarfélaginu hf. (Einar Baldvin Axelsson hrl.) og gagnsök |
Vátryggingarsamningur. Líftrygging. Meðalganga. Dráttarvextir. Gjafsókn.
Í nóvember 1993 leitaði H eftir líftryggingu hjá S með því að fylla út eyðublað fyrir beiðni um trygginguna. Í sérstökum lið í beiðninni fyrir tilnefningu rétthafa merkti hann með krossi við orðin „nánustu vandamenn“. H lést í nóvember árið 2000 og var líftryggingin þá í gildi. Í málinu deildu X, eftirlifandi maki H, annars vegar og börn H hins vegar um hver eða hverjir skyldu teljast rétthafar að líftryggingarfjárhæðinni. H og X gengu í hjónaband í júlí 1994 og áttu saman eitt barn, sem fætt var á árinu 1998. Óumdeilt var að X og H þekktust ekki þegar hann tók líftrygginguna og ekki voru bornar brigður á að börn H voru nánustu vandamenn hans þegar hann tók trygginguna. Af skýringum í fyrrnefndu eyðublaði gat ekki orkað tvímælis að með vali á nánustu vandamönnum sem rétthafa mundi maki, ef um hann yrði að ræða við andlát H, rýma út tilkalli niðja hans til líftryggingarfjárins, svo sem einnig leiddi af 5. mgr. 105. gr. laga um vátryggingarsamninga. Hefði ætlun H verið önnur en að fella sig við þessa skipan hefði honum verið í lófa lagið að tilnefna lögerfingja sem rétthafa og veita þannig börnunum hlutdeild í líftryggingarfénu ef hann gengi síðar í hjúskap eða nafngreina þau sem rétthafa til að féð rynni allt til þeirra, en báðir þessir kostir voru til staðar á fyrrnefndu eyðublaði. Var fallist á með X að hún ætti ein rétt til líftryggingarfjárins samkvæmt tilnefningu H á rétthafa að því. Lagt var til grundvallar að líftryggingarfjárhæðin réðist af þeirri stund sem tryggingaratburðurinn gerðist. Þá var S gert að greiða X dráttarvexti af tildæmdri fjárhæð frá uppsögu dómsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. maí 2002. Hún krefst þess aðallega að gagnáfrýjandinn Sameinaða líftryggingarfélagið hf. verði dæmdur til að greiða sér 7.575.112 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. september 2001 til greiðsludags, en til vara 7.211.678 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. febrúar 2001 til 1. júlí sama árs og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem hún naut fyrir héraðsdómi.
Gagnáfrýjendur, A, B og C, áfrýjuðu héraðsdómi fyrir sitt leyti 31. júlí 2002. Þau krefjast þess aðallega að gagnáfrýjandinn Sameinaða líftryggingarfélagið hf. verði dæmdur til að greiða hverju þeirra 2.389.294 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 1. desember 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefjast þau staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Gagnáfrýjandi, Sameinaða líftryggingarfélagið hf., áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 29. júlí 2002. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda verði dæmdar úr hans hendi 7.167.882 krónur, en tildæmd fjárhæð beri þó ekki dráttarvexti fyrr en að 14 dögum liðnum frá uppsögu dóms og til vara frá uppsögu dómsins. Þá krefst gagnáfrýjandinn málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins leitaði H eftir líftryggingu hjá gagnáfrýjanda, Sameinaða líftryggingarfélaginu hf., með því að fylla út eyðublað fyrir beiðni um hana 4. nóvember 1993. Í sérstökum lið í beiðninni fyrir tilnefningu rétthafa merkti hann með krossi við orðin „nánustu vandamenn“. H lést [...] 2000 og var líftryggingin þá í gildi. Fyrir liggur að þann dag nam fjárhæð hennar 7.167.882 krónum.
Í málinu deila aðaláfrýjandi annars vegar og gagnáfrýjendurnir A, B og C hins vegar um hver eða hverjir skuli teljast rétthafar að líftryggingarfjárhæðinni. Aðaláfrýjandi er eftirlifandi maki H, en þau gengu í hjúskap 4. júlí 1994. Eiga þau saman eitt barn, sem fætt er á árinu 1998. Óumdeilt er að aðaláfrýjandi og H þekktust ekki þegar hann tók líftrygginguna, svo og að hann hafi þá hvorki verið í hjúskap né sambúð. Gagnáfrýjendurnir A, B og C eru börn H, fædd [...]. Ekki eru bornar brigður á að þau voru nánustu vandamenn hans þegar hann tók líftrygginguna.
II.
Í áðurnefndu eyðublaði fyrir beiðni um líftryggingu, sem H fyllti út og beindi til gagnáfrýjandans Sameinaða líftryggingarfélagsins hf. 4. nóvember 1993, var sem fyrr segir sérstakur liður fyrir tilnefningu rétthafa. Í upphafi textans í þeim lið sagði eftirfarandi: „Sem rétthafa líftryggingarfjárhæðarinnar við andlát tilnefni ég“, en þar fyrir neðan voru greindir þrír kostir fyrir vátryggingartaka til að velja úr. Í fyrsta lagi var unnt að velja „nánustu vandamenn“, en svofelld skýring var á þessu orðalagi í eyðublaðinu: „Þessi tilnefning þýðir að maki líftryggðs er rétthafi, en sé hann ekki á lífi þá börn hins líftryggða og séu þau heldur ekki á lífi, þá erfingjar skv. lögum.“ Í öðru lagi stóð til boða að merkja við reitinn „lögerfingjar“, en til skýringar á því sagði eftirfarandi: „Þessi tilnefning þýðir t.d., ef líftryggði lætur eftir sig maka og börn gengur 1/3 fjárhæðarinnar til maka en 2/3 til barna.“ Loks gafst kostur á að færa inn einn eða fleiri nafngreinda rétthafa. Svo sem áður greinir merkti H með krossi við reitinn „nánustu vandamenn“. Rétthafar voru tilgreindir í samræmi við þetta í skírteini fyrir líftryggingunni, svo og í framlagðri tilkynningu gagnáfrýjandans um endurnýjun hennar í eitt ár frá 1. nóvember 2000. Ekki hefur verið dregið í efa að eins hafi verið greint frá þessu í fyrri tilkynningum sama efnis allt frá því að líftryggingin var tekin.
Samkvæmt 5. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga skal við skýringu á tilnefningu rétthafa að líftryggingarfjárhæð litið svo á, ef atvik máls leiða ekki til annars, að orðalagið „nánustu vandamenn“ merki maka vátryggingartaka, en sé maki ekki á lífi þá börn vátryggingartaka og séu þau heldur ekki lífs þá erfingja hans. Eðli máls samkvæmt verður að beita þessum skýringarreglum með tilliti til fjölskylduhaga þess líftryggða þegar andlát hans ber að höndum. Skilja verður málflutning gagnáfrýjendanna A, B og C svo að þau telji sig allt að einu eiga rétt til alls líftryggingarfjárins með tilliti til aðstæðna föður þeirra þegar hann tók líftrygginguna og tilgangsins, sem af þeim aðstæðum megi ráða, með vali hans á rétthöfum. Um þetta verður að líta sérstaklega til þess að af áðurröktum skýringum í eyðublaði fyrir beiðni um líftrygginguna gat ekki orkað tvímælis að með vali á nánustu vandamönnum sem rétthafa mundi maki, ef um hann yrði að ræða við andlát H, rýma út tilkalli niðja hans til líftryggingarfjárins, svo sem einnig leiðir af fyrrgreindu ákvæði laga nr. 20/1954. Hefði ætlun H verið önnur en að fella sig við þessa skipan hefði honum verið í lófa lagið að tilnefna lögerfingja sem rétthafa og veita þannig gagnáfrýjendunum hlutdeild í líftryggingarfénu ef hann gengi síðar í hjúskap eða nafngreina þau sem rétthafa til að það rynni allt til þeirra. Ekkert liggur fyrir í málinu til stuðnings því að H hafi þrátt fyrir þetta ætlað gagnáfrýjendunum allt líftryggingarféð eða eftir atvikum hluta þess þegar hann hafði stofnað til hjúskapar við aðaláfrýjanda, en í þeim tilgangi hefði hann hæglega getað breytt fyrri tilnefningu sinni á rétthafa. Að þessu öllu gættu verður að fallast á með aðaláfrýjanda að hún eigi ein rétt til líftryggingarfjárins samkvæmt tilnefningu H á rétthafa að því.
Eins og áður er getið liggur fyrir að fjárhæð líftryggingarinnar var 7.167.882 krónur við andlát H. Fyrrgreindar dómkröfur aðaláfrýjanda taka mið af líftryggingarfjárhæðinni með breytingum, sem síðar urðu vegna vísitölubindingar hennar samkvæmt skilmálum fyrir tryggingunni. Eru í aðalkröfu reiknaðar verðbætur fram að þingfestingu málsins í héraði 27. september 2001, en í varakröfu til 1. febrúar sama árs, sem aðaláfrýjandi telur gjalddaga kröfu sinnar vegna ákvæðis 1. mgr. 24. gr. laga nr. 20/1954. Í skilmálum fyrir líftryggingunni er ekki mælt fyrir um hvaða tímamark eigi að miða útreikning fjárhæðar hennar við. Að því athuguðu verður að leggja til grundvallar að fjárhæðin ráðist af þeirri stund, sem tryggingaratburðurinn gerðist. Samkvæmt því á aðaláfrýjandi rétt á að fá greiddar 7.167.882 krónur.
Svo sem gagnáfrýjandinn Sameinaða líftryggingarfélagið hf. hefur borið fyrir sig var honum vegna deilu annarra málsaðila óheimilt samkvæmt fyrri málslið 3. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1954 að losna undan skyldum sínum með því að greiða einhverju þeirra eða þeim öllum út líftryggingarféð, sem málið varðar, fyrr en leyst yrði úr henni með dómi eða sátt. Verður að fallast á með gagnáfrýjandanum að þessi atvik séu slík, sem um ræðir í fyrri málslið 7. gr. laga nr. 38/2001, sbr. áður 13. gr. vaxtalaga. Þótt gagnáfrýjandinn hafi ekki lagt féð á geymslureikning handa þeim, sem síðar sýndi fram á rétt sinn til þess, og látið þannig eftir öðrum að njóta vaxta af því, hefur aðaláfrýjandi ekki leitað dóms um annars konar vexti úr hendi hans en dráttarvexti. Að þessu öllu athuguðu verður gagnáfrýjandanum gert að greiða aðaláfrýjanda dráttarvexti af tildæmdri fjárhæð frá uppsögu þessa dóms.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.
Dæma verður gagnáfrýjendurna A, B og C til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði, en að öðru leyti skal málskostnaður falla niður. Um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjendanna fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, Sameinaða líftryggingarfélagið hf., greiði aðaláfrýjanda, X, 7.167.882 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. desember 2002 til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.
Gagnáfrýjendur, A, B og C, greiði í sameiningu aðaláfrýjanda 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Að öðru leyti fellur málskostnaður fyrir Hæstarétti niður.
Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjendanna A, B og C fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2002.
Mál þetta, sem dómtekið var 18. apríl s.l., var upphaflega höfðað með stefnu birtri 27. júní s.l. Voru stefnendur þau A, B, og C.
Stefndi var Sameinaða líftryggingafélagið hf., kt. 680568-2789, Sigtúni 42, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda voru þær aðallega að stefndi yrði dæmdur til að greiða stefnendum andvirði líftryggingar sem faðir þeirra, H, tók 4. nóvember 1993. Til vara að stefndi yrði dæmdur til að greiða skylduerfingjum H andvirði líftryggingar er hann tók 4. nóvember 1993. Þá var krafist málskostnaðar.
Stefndi krafðist upphaflega frávísunar málsins, en féll frá þeirri kröfu undir rekstri málsins. Stefndi krafðist sýknu af kröfum stefnenda og málskostnaðar úr hendi þeirra.
Með stefnu þingfestri 27. september s.l. höfðaði X meðalgöngusök á hendur ofangreindum. Gerði hún þær dómkröfur aðallega að hið meðalgöngustefnda félag, Sameinaða líftryggingafélagið hf., yrði dæmt til þess að greiða meðalgöngustefnanda kr. 7.575.112 með dráttarvöxtum samkvæmt III. og V. kafla laga nr. 38/2001 frá 27. september 2001 til greiðsludags. Á hendur meðalgöngustefndu A, B og C voru þær kröfur gerðar að viðurkennt yrði með dómi að þau ættu engan rétt til ofangreindrar líftryggingarfjárhæðar. Til vara var þess krafist að hið meðalgöngustefnda félag yrði dæmt til að greiða meðalgöngustefnanda kr. 7.211.678 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. febrúar 2001 til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. og V. kafla laga nr. 38/2001 til greiðsludags. Á hendur meðalgöngustefndu A, B og C voru þær kröfur gerðar að viðurkennt yrði með dómi að þau ættu engan rétt til ofangreindrar líftryggingarfjárhæðar. Í báðum tilvikum var krafist málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en meðalgöngustefnanda var veitt gjafsókn með leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis dagsettu 5. nóvember s.l.
Meðalgöngustefndi Sameinaða líftryggingafélagið hf. gerði þær kröfur að hann yrði einungis dæmdur til að greiða meðalgöngustefnanda kr. 7.167.882 og hann yrði sýknaður af málskostnaðarkröfu meðalgöngustefnanda. Þá krafðist meðalgöngustefndi málskostnaðar úr hendi meðalgöngustefnanda.
Meðalgöngustefndu A, B og Y f.h. C kröfðust sýknu og að hinu meðalgöngustefnda félagi yrði gert að greiða þeim í jöfnum hlutföllum kr. 7.167.882, þannig að kr. 2.389.294 kæmu í hlut hvers þeirra, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. desember 2000 til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. og V. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara voru þær kröfur gerðar að hið meðalgöngustefnda félag yrði dæmt til að greiða meðalgöngustefndu hverju um sig kr. 1.194.647 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. desember 2000 til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. og V. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá var krafist málskostnaðar úr hendi meðalgöngustefnanda.
Með úrskurði dómsins upp kveðnum 29. janúar s.l. var aðalsök í málinu vísað frá dómi. Málskostnaður úrskurðaðist ekki, enda varð meðalgöngusök aðalsök í málinu.
Með stefnu birtri 30. janúar s.l. höfðuðu ofangreindir upphaflegir aðalstefnendur í máli þessu mál nr. [...] á hendur hinu stefnda líftryggingafélagi og gerðu sömu kröfur og þau gerðu í meðalgöngusök og lýst er hér að ofan. Þá var krafist málskostnaðar úr hendi hins stefnda félags að viðbættum virðisaukaskatti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnendum var veitt gjafsókn í málinu með leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins dagsettu 5. mars s.l.
Hið stefnda félag krafðist sýknu af kröfum þessara stefnenda, sem hér eftir verða nefnd meðstefnendur og málskostnaðar úr hendi þeirra.
Þetta mál var sameinað máli því sem hér er til meðferðar og verður upphaflegur meðalgöngustefnandi því nefnd aðalstefnandi hér eftir.
Málavextir.
Málavextir eru þeir að 4. nóvember 1993 undirritaði H beiðni um töku líftryggingar hjá hinu stefnda félagi. Á eyðublaðinu eru gefnir þrír kostir við ánöfnun rétthafa líftryggingarfjárhæðarinnar. Í fyrsta lagi nánustu vandamenn og á eyðublaðinu er þessi tilnefning sögð þýða að maki líftryggðs sé rétthafi, en sé hann ekki á lífi þá börn hins líftryggða og séu þau heldur ekki á lífi, þá erfingjar skv. lögum. Í öðru lagi lögerfingjar og er þessi tilnefning sögð þýða t.d. að láti líftryggði eftir sig maka og börn gangi 1/3 fjárhæðarinnar til maka en 2/3 til barna. Í þriðja lagi er gefinn kostur á skráningu rétthafa á nafn, t.d. sambúðaraðila. Á þessum tíma var H ógiftur og ekki í sambúð og er upplýst að hann kynntist ekki eftirlifandi eiginkonu sinni, aðalstefnanda máls þessa, fyrr en eftir að hann tók líftrygginguna. Þau munu hafa gengið í hjónaband 4. júlí 1994. H tilnefndi nánustu vandamenn sem rétthafa líftryggingarfjárhæðarinnar. Upphafleg líftryggingarfjárhæð var kr. 6.000.000 og er óumdeilt að H gerði engar breytingar á tilnefningu rétthafa á gildistíma tryggingarinnar og á árlegum tilkynningum hins stefnda félags til hans voru nánustu vandamenn sagðir rétthafar. H fórst með voveiflegum hætti 14. nóvember 2000 og samkvæmt upplýsingum hins stefnda félags stóð líftryggingin þann dag í kr. 7.167.882. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness [...] var því slegið föstu að H hefði látist [...].
H mun hafa látið eftir sig fjögur börn, meðstefnendur máls þessa og með aðalstefnanda átti hann V. Stefnendur máls þessa hafa reynt að komast að samkomulagi um að skipta líftryggingarfénu á milli sín, en án árangurs.
Málsástæður og lagarök aðalstefnanda.
Aðalstefnandi byggir á því að í 5. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1954 sé skýringarregla sem kveði á um það hvernig túlka beri hugtakið nánustu vandamenn en samkvæmt því sé maki eini rétthafinn. Hafi H viðhaldið tryggingunni eingöngu til hagsbóta eiginkonu sinni. Hafi ekkert komið fram um að vilji hans hafi staðið til annars en að aðalstefnandi væri einn rétthafi og beri meðstefnendur sönnunarbyrðina um annað.
Aðalstefnandi gerir aðallega kröfu um greiðslu líftryggingarfjárhæðarinnar eins og hún var í janúarmánuði 2001, kr. 7.211.678, uppreiknaðri samkvæmt framfærsluvísitölu í þeim mánuði og sömu vísitölu í júní 2001 og segist þá fá fjárhæðina kr. 7.575.112. Varakrafa aðalstefnanda er byggð á upplýsingum hins stefnda félags um líftryggingarfjárhæðina eins og hún var í janúar 2001.
Aðalstefnandi vísar til vaxtalaga um dráttarvexti og 24. gr. laga nr. 20/1954 um upphafstíma dráttarvaxta. Málskostnaðarkrafa er reist á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök meðstefnenda.
Meðstefnendur byggja á því að við túlkun fyrirmæla líftryggðs um það hverjir séu rétthafar gildi sömu meginreglur og um túlkun erfðaskráa. Beri að finna út hver hafi verið vilji líftryggðs og liggi þetta í orðalagi 1. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1954. Þar komi fram að skýringarreglum ákvæðisins skuli beitt ef atvik málsins leiði eigi til annarrar niðurstöðu. Með sama hætti sé litið svo á að ákvæðum 5. mgr. 105. gr. laganna, sem geymi skýringarreglu um það hverjir skulu teljast nánustu vandamenn, skuli einungis beita ef annað leiði ekki af kringumstæðum.
Meðstefnendur byggja á því að augljóst sé að H hafi ætlað þeim að njóta líftryggingarinnar. Þegar hann tók trygginguna hafi hann ekki verið í sambúð og ekki þekkt aðalstefnanda. Nánustu vandamenn á þeim tíma sem hann tók trygginguna hafi verið meðstefnendur og sé ljóst að hann hafi tekið trygginguna og haldið henni við þeim til hagsbóta. Skipti í þessu sambandi ekki máli fréttabréf sem hið stefnda félag hafi sent líftryggingartökum árið 1998, en þar sé fjallað um hugtakið nánustu vandamenn. Þá skipti skráning á innheimtuseðli um að nánustu vandamenn séu rétthafar ekki máli að mati meðstefnenda. Telja þau skýrt hver vilji H hafi verið og bendi allar kringumstæður er hann tók trygginguna til þess að vilji hans hafi verið sá að meðstefnendur væru rétthafar og eigi því lögvarða kröfu til líftryggingarfjárins. Ákvæði lokamálsliðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1954 leiði til þess að fallast beri á aðalkröfu meðstefnenda, því samkvæmt henni eigi skýringarreglur 105. gr. laganna ekki við ef atvik máls leiði til annars. Í þessu máli leiði atvik máls til annarrar niðurstöðu því vilji H hafi verið augljós er hann tók trygginguna.
Varakrafa meðstefnenda er byggð á því að af lokamálslið 1. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1954 svo og sanngirnisrök leiði til þess að skylduerfingjar H, þ.e. börn hans og eiginkona skipti andvirði líftryggingarfjárins milli sín í samræmi við erfðareglur. Verði litið svo á að eftirfarandi hjúskapur H skapi aðalstefnanda einhvern rétt til líftryggingarfjárins, telja meðstefnendur að skipta beri fénu samkvæmt erfðareglum milli skylduerfingja. Væri sú niðurstaða nær því að vera í samræmi við vilja H en að aðalstefnandi, sem hann hafði ekki kynnst er hann tók trygginguna, ryðji meðstefnendum út sem rétthöfum. Slík niðurstaða sé í anda þeirrar túlkunarreglu að líftryggingarfé skuli ætíð skiptast í samræmi við vilja líftryggingartaka og jafnframt í samræmi við lokamálslið 1. mgr. 105. gr. laganna. Hafi ekkert komið fram sem bendi til þess að H hafi viljað svipta börn sín líftryggingarfénu þrátt fyrir hjúskapinn og sé líklegra að vilji hans hafi staðið til þess að bæði börn og maki nytu góðs af.
Málskostnaðarkrafan er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Hið stefnda félag telur að því beri að greiða aðalstefnanda kr. 7.167.882, en það sé fjárhæð líftryggingarinnar eins og hún var á dánardegi H [...], sbr. 10. gr. skilmála líftryggingarinnar.
Stefndi mótmælir því að lagaskilyrði séu til að dæma dráttarvexti samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/2001. Samkvæmt 24. gr. laga nr. 20/1954 megi krefja um greiðslu bóta 14 dögum eftir að félagið átti þess kost að afla þeirra upplýsinga er þörf var á til þess að meta vátryggingaratburðinn og ákveða upphæð bóta. Telur stefndi þessa reglu leiða til þess að greiðsluskylda hans verði ekki virk fyrr en fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir svo félaginu sé unnt að greiða kröfu. Í þessu tilviki sé deilt um það hverjir séu rétthafar tryggingarinnar og sé þetta skilyrði því ekki uppfyllt fyrr en skorið hefur verið úr ágreiningi aðila með dómi. Stefndi bendir á að megintilgangur dráttarvaxta sé að þvinga skuldara til greiðslu. Í þessu máli viðurkenni stefndi greiðsluskyldu sína gagnvart aðalstefnanda, hann sé ekki í vanskilum og bíði dómsúrlausnar um það hverjum beri að greiða líftryggingarfjárhæðina.
Krafa stefnda um sýknu af málskostnaðarkröfu byggir á því að engin þörf hafi verið fyrir aðalstefnanda að stefna honum í málinu, þar sem ljóst hafi verið að stefndi myndi greiða kröfuna til aðalstefnanda yrði niðurstaða dómsmáls sem meðstefnendur höfðuðu á þá leið að aðalstefnanda bæri líftryggingarféð.
Krafa stefnda um sýknu af kröfum meðstefnenda er á því byggð að samkvæmt 5. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1954 teljist maki vátryggingartaka vera rétthafi hafi hann tilnefnt nánustu vandamenn sem rétthafa. Beri samkvæmt þessu að greiða líftryggingarfjárhæðina til aðalstefnanda. Samkvæmt 1.mgr. sömu lagagreinar megi víkja frá þessari reglu leiði atvik máls til annars og sé viðurkennt af dómstólum og fræðimönnum að ótvírætt þurfi að sýna fram á að atvik máls eigi að leiða til þess að vikið sé frá þeim reglum sem greini í 2.-5. mgr. 105. gr. laganna. Stefndi byggir á því að ekkert hafi komið fram í málinu sem réttlætt geti frávik frá þessari meginreglu.
Stefndi byggir á því að sú staðreynd að H var ekki kvæntur þegar hann tók líftrygginguna sé ekki sönnun þess að hann hafi hugsað trygginguna eingöngu til hagsbóta fyrir meðstefnendur. Sé tekið fram í líftryggingarbeiðni að hugtakið nánustu vandamenn þýði að maki sé rétthafi sé hann á lífi og börn þá fyrst að honum látnum. Hafi H því hlotið að reikna með því að maki yrði rétthafi þar sem hann tilgreindi börnin ekki sérstaklega. Hefði honum verið í lófa lagið að tilgreina meðstefnendur sem rétthafa og hefði þá ekki farið á milli mála að tryggingin væri þeim ætluð. Fullyrðingar meðstefnenda um að H hefði ekki haft nein áform um að taka upp sambúð eða ganga í hjúskap séu með öllu ósannaðar og þá bendir stefndi á að H hafi gengið að eiga eftirlifandi eiginkonu sína rösku hálfu ári eftir að hann tók líftrygginguna.
Stefndi ítrekar að engin gögn hafi verið lögð fram þess efnis að vilji H hafi staðið til þess að meðstefnendur ættu umfram aðra að njóta góðs af líftryggingunni. Hvíli sönnunarbyrðin um að atvik máls eigi að leiða til þess að vikið sé frá meginreglu 5. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1954 alfarið á meðstefnendum og verði þau að bera allan halla af sönnunarskorti í þessum efnum.
Stefndi rökstyður sýknukröfu sína af varakröfu meðstefnenda með þeim hætti að ekkert hafi komið fram í málinu sem leiða eigi til þess að víkja beri frá reglu 5. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1954. Sé enginn lagagrundvöllur fyrir varakröfunni og sanngirnisrök geti aldrei leitt til þess að skipta beri fénu samkvæmt lögerfðareglum og verði ekki séð að slíkri skiptingu verði fundin stoð í ákvæðum laga nr. 20/1954.
Stefndi mótmælir dráttarvöxtum frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi og vísast til rökstuðnings hans hér að framan um það efni.
Stefndi reisir málskostnaðarkröfu sína á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða.
Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um það hver sé rétthafi líftryggingar sem H tók 4. nóvember 1993. Aðalstefnandi telur sig eina rétthafa tryggingarinnar og byggir það á þeirri tilgreiningu H í líftryggingarbeiðni að nánustu vandamenn séu rétthafar. Leiði af 5. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1954 að í slíku tilviki teljist maki eini rétthafinn. Meðstefnendur telja atvik málsins eiga að leiða til þeirrar niðurstöðu að þau séu rétthafar og byggja á því að augljóst hafi verið að faðir þeirra hafi ætlað þeim að njóta andvirðis líftryggingarinnar. Hann hafi ekki þekkt aðalstefnanda þegar hann tók trygginguna og bendi atvik málsins til þess að það hafi verið eindreginn vilji hans að meðstefnendur nytu fjárins. Varakrafa meðstefnenda lýtur að því að skipta beri líftryggingarfénu milli skylduerfingja H. Stefndi hafnar því að meðstefnendur eigi rétt til líftryggingarfjárins og byggir á því að aðalstefnandi sé rétthafi en ágreiningur sé um fjárhæð tryggingarinnar. Þá er ágreiningur um það frá hvaða tíma beri að reikna dráttarvexti.
Samkvæmt 1. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga skal, þegar greiða skal vátryggingarfjárhæðina við lát vátryggingartaka og skýra þarf ákvæði hans, er hann hefur tilnefnt annan mann sem rétthafa í sinn stað, fylgja reglum 2.-5. mgr. sömu lagagreinar, ef atvik málsins leiða eigi til annars. Í 5. mgr. er sú skýringarregla að hafi vátryggingartaki tilnefnt nánustu vandamenn sína, teljist maki hans vera rétthafi, en sé maki eigi á lífi, þá börn hans og séu þau heldur eigi á lífi, þá erfingjar hans. Kemur þá til skoðunar hvort atvik máls þessa séu með þeim hætti að ekki komi til þess að ofangreindum skýringarreglum verði beitt, heldur beri að leitast við að finna út hver vilji H heitins hafi verið.
Eins og að framan er rakið tilnefndi H heitinn nánustu vandamenn sem rétthafa líftryggingarfjárhæðarinnar er hann undirritaði líftryggingarbeiðni 4. nóvember 1993. Er óumdeilt að á þeim tíma voru meðstefnendur rétthafar tryggingarinnar, enda var H á þeim tíma hvorki kvæntur né í sambúð. Fjölskylduaðstæður H breyttust hins vegar nokkrum mánuðum síðar, en hann gekk í hjónaband með aðalstefnanda 4. júlí 1994 og eignaðist með henni barn [...] 1998. Hafði hjónaband H og aðalstefnanda því staðið í rúmlega sex ár er hann lést [...] árið 2000. H gerði engar breytingar á tilnefningu rétthafa, en í málinu hefur ekkert komið fram um að hugur hans hafi staðið til að einn lögerfingja hans nyti líftryggingarfjárins framar öðrum. Yrði fallist á kröfu aðalstefnanda leiddi það til þess að upphaflegir rétthafar tryggingarinnar, börn H, nytu fjárins að engu leyti. Ef á hinn bóginn yrði fallist á aðalkröfu meðstefnenda yrði aðalstefnandi, eiginkona H í rúm sex ár, útilokuð að öllu leyti frá líftryggingarfénu. Verður því að telja að atvik máls þessa séu með þeim hætti að ekki beri að beita skýringarreglu 5. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1954 og verður því fallist á varakröfu meðstefnenda þess efnis að vilji H heitins hafi staðið til þess að líftryggingarfjárhæðin skiptist á milli þeirra og aðalstefnanda.
Samkvæmt gögnum málsins stóð líftryggingarfjárhæðin í kr. 7.167.882 á dánardægri H og eru engin rök til annars en að miða við þá fjárhæð. Verður niðurstaða málsins því sú að stefndi verður dæmdur til að greiða meðstefnendum hverju um sig kr. 1.194.647. Þessi niðurstaða leiðir til þess að stefndi verður dæmdur til að greiða aðalstefnanda kr. 3.583.941. Fallast ber á þá kröfu stefnda að ofangreindar fjárhæðir beri ekki dráttarvexti fyrr en frá dómsuppsögudegi, en fyrr var stefnda ekki unnt að greiða fjárhæðina sökum ágreinings aðila um rétthafa tryggingarinnar.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður. Allur gjafsóknarkostnaður aðalstefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Klemenz Eggertssonar, hdl., kr. 500.000, greiðist úr ríkissjóði. Þá skal allur gjafsóknarkostnaður meðstefnenda greiðast úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Daggar Pálsdóttur, hrl., kr. 500.000.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Sameinaða líftryggingarfélagið hf. greiði aðalstefnanda, X, kr. 3.583.941 ásamt dráttarvöxtum frá dómsuppsögudegi til greiðsludags og meðstefnendum, A, B og Y vegna ólögráða sonar C, hverju um sig kr. 1.194.647 ásamt dráttarvöxtum frá dómsuppsögudegi til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður aðalstefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Klemenz Eggertssonar, hdl., kr. 500.000, greiðist úr ríkissjóði. Allur gjafsóknarkostnaður meðstefnenda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Daggar Pálsdóttur, hrl., kr. 500.000.