Hæstiréttur íslands

Mál nr. 190/2015

Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir fulltrúi)
gegn
X (Eva B. Helgadóttir hrl., Þórólfur Jónsson hrl. 2. prófmál)

Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Málshraði
  • Ómerkingu héraðsdóms hafnað
  • Sératkvæði

Reifun

X var ákærður fyrir kynferðisbrot samkvæmt 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haft samræði og endaþarmsmök við A sem ekki gat spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga auk þess að hafa beitt hana ofbeldi. Í héraði komst meiri hluti dómenda að þeirri niðurstöðu á grundvelli framburðar fyrir dómi með tilliti til annarra gagna að sök X væri ekki sönnuð. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála gæti Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði gæfu skýrslu þar fyrir dómi. Kom því aðalkrafa ákæruvaldsins um sakfellingu X ekki frekar til athugunar heldur einungis hvort önnur gögn málsins gætu leitt til ómerkingar héraðsdómsins, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Með hliðsjón af því að ekki nýtu við haldbærra sýnilegra sönnunargagna í málinu og að virtum öðrum gögnum var talið að ákæruvaldið hefði ekki fært líkur fyrir því að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kynni að vera röng svo að einhverju skipti um málsúrslit né að frekari sönnunarfærsla þar fyrir dómi fengi breytt þeirri niðurstöðu. Var X því sýknaður.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar af hálfu ákæruvaldsins 20. febrúar 2015 og krefst þess aðallega að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur.

Ákærði krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa.

I

Í málinu er ákærða gefið að sök að hafa brotið gegn 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 11. september 2011 á heimili sínu haft samræði og endaþarmsmök við brotaþola sem ekki hafi getað spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga auk þess að hafa beitt hana ofbeldi. Fyrir Hæstarétti reisir ákæruvaldið kröfu sína um sakfellingu ákærða einkum á því að héraðsdómur hafi ekki fellt dóm á málið með tilliti til allra fyrirliggjandi gagna og að auki hafi mat hans á sönnunargildi framburða ekki verið rétt. Eigi það að leiða til sakfellingar ákærða en ella að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur.

Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði gefi skýrslu hér fyrir dómi. Ákærði og brotaþoli eru ein til frásagnar um atvik á heimili ákærða umrætt sinn en hann hefur bæði hjá lögreglu og fyrir dómi staðfastlega neitað því að hafa haft kynmök við brotaþola. Í hinum áfrýjaða dómi komst meiri hluti dómenda að þeirri niðurstöðu á grundvelli framburðar fyrir dómi með tilliti til annarra gagna að sök ákærða væri ekki sönnuð. Þegar af þessum ástæðum getur aðalkrafa ákæruvaldsins ekki komið frekar til álita.

Ríkissaksóknara hefði samkvæmt c. lið 2. mgr. 201. gr. laga nr. 88/2008 verið rétt að tilgreina þegar í áfrýjunarstefnu varakröfu sína um ómerkingu héraðsdóms og heimvísun málsins. Þótt þess hafi ekki verið gætt stendur það ekki því í vegi að til athugunar komi hvort ómerkja eigi hinn áfrýjaða dóm, sbr. 1. mgr. 204. gr. og 3. mgr. 208. gr. sömu laga.

II

Fyrir liggur í málinu að brotaþoli hafði samskipti í tölvu við vini sína á svonefndri Facebook í framhaldi af ætluðum atvikum fyrrgreinda nótt, en brotaþoli bar fyrir dómi að hún hafi eytt öllum slíkum gögnum, líklega í lok árs 2012. Þá kvaðst hún hafa hent sokkabuxum og nærbuxum sem hún hafi klæðst þá nótt. Ekki er útilokað að framangreind gögn hefðu getað varpað skýrara ljósi á atvik málsins. Ekki verður heldur fram hjá því litið að sönnunargögn eru takmarkaðri en ella kynni að hafa verið vegna tafa á því að brotaþoli leitaði til Neyðarmóttöku Landspítalans fyrir þolendur kynferðisofbeldis, svo og að hún kærði ekki atvik til lögreglu fyrr en 16. janúar 2013. Þannig kom fram í niðurstöðum M læknis, sem skoðaði brotaþola á neyðarmóttöku að kvöldi 12. september 2011, að „þar sem málið er gamalt er ekki hægt að leita eftir byrlun eða sæðisfrumum.“

Í niðurstöðu dómkvadds matsmanns, B, sérfræðings í kvensjúkdómum, staðfesti hún að einhvers konar kynmök hafi átt sér stað um leggöng brotaþola innan 72 klukkustunda áður en hún sætti læknisskoðun á neyðarmóttöku. Byggði matsmaður þessa niðurstöðu á sári sem blæddi frá í meyjarhafti brotaþola við skoðun. Ekki væri unnt að sýna fram á hvort um hafi verið að ræða fullar samfarir með lim í leggögnum og sáðláti þar sem sýnum hafi verið fargað. Þá taldi matsmaðurinn hugsanlegt að annað hvort fingri eða aðskotahlut hafi verið stungið upp í leggöng brotaþola og áverki orðið þess vegna. Aðrir áverkar á brotaþola, svo sem mar, rispur og sár við endaþarm, gætu hafa orðið til við kynmök án samþykkis en ekki væri unnt að sanna það út frá útliti eða staðsetningu áverkanna. Þessi niðurstaða matsmannsins fær nokkra stoð í framburði M læknis en hann bar fyrir dómi að á kynfærum brotaþola hafi verið ferskir áverkar sem tákni að samræði hafi átt sér stað. Nánar aðspurður sagði hann þó að raunverulega gæti „maður ekki leyft sér að staðhæfa að endilega hafi verið samræði.“  Kvað hann áverkana á kynfærum og við endaþarm geta hafa verið innan við eins eða tveggja sólarhringa gamlir en hann héldi að aðrir áverkar á brotaþola hafi verið innan við þriggja daga gamlir.

Framangreind matsgerð og framburður M rennir stoðum undir að brotaþoli hafi haft einhvers konar kynmök um leggöng innan þriggja sólarhringa áður en hún kom til skoðunar á neyðarmóttöku að kvöldi 12. september 2011. Á hinn bóginn staðfesta gögn þessi ekki að ákærði hafi haft kynmök við hana.

Af því sem nú hefur verið rakið nýtur ekki við haldbærra sýnilegra sönnunargagna í málinu. Verður að þessu virtu að gæta að því hvort í málinu liggi fyrir önnur atriði sem áhrif geta haft við mat á því hvort niðurstaða héraðsdóms um sönnun kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008.

III

Vitnið F, sem var vinur ákærða og var með honum á veitingastaðnum [...] að kvöldi 10. september 2011, bar hjá lögreglu að ákærði hafi sagt sér daginn eftir að brotaþoli hafi farið með sér heim um nóttina og þau sofið saman. Fyrir dómi dró hann úr því að ákærði hafi sagt sér að hann og brotaþoli hafi sofið saman. Ákærði hafi ekki sagt þetta beinum orðum, heldur hafi vitnið dregið þá ályktun af því að brotaþoli hafi farið heim með honum.

Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að framburður ákærða væri eindreginn um að kynferðismök hafi ekki átt sér stað umrætt sinn. Þá væri framburður brotaþola um að ákærði hafi haft við hana kynferðismök í greint sinn „í sjálfu sér ekki ótrúverðugur, einkum þegar litið er til þeirra ummerkja sem í ákæru greinir og kunna að hafa komið til vegna kynmaka við ákærða“. Á hinn bóginn væri framburður brotaþola um ölvun sína misvísandi og ótrúverðugur að því leyti.

Gögn málsins bera ekki með sér að framburður brotaþola um ölvun sína hafi verið misvísandi, en henni og ákærða bar saman um að hún hafi ekki verið mikið drukkin á veitingastaðnum [...] og er það í samræmi við framburð vitna. Hún lýsti því á hinn bóginn að hún hafi fundið fyrir vanlíðan þegar hún var stödd í verslun þar sem hún og ákærði hafi komið við á leiðinni heim til hans. Þá bar henni og ákærða saman um að hún hafi þegar heim til ákærða var komið fallið í djúpan svefn. Taldi brotaþoli líklegt að sér hafi verið byrlað einhverju sem skýrt hafi svefndrungann þar sem hún hafi ekki drukkið það mikið af áfengi.

Ekki liggja fyrir óyggjandi gögn um hversu mikið áfengi brotaþoli drakk umrætt sinn og engin sönnun liggur fyrir um að henni hafi verið byrlað einhverju sem olli því að hún sofnaði svo þungum svefni heima hjá ákærða sem bæði hún og ákærði lýsa. Á hinn bóginn er ljóst að ölvun hennar gat haft áhrif á hvað hún mundi og hversu trúverðugur framburður hennar var í því ljósi en hegðun brotaþola í kjölfar þess að hún fór frá ákærða, svo sem samskipti hennar við vinkonur sínar daginn eftir, það sem haft var eftir henni á neyðarmóttöku, grein hennar á vefmiðli og framburður hennar hjá lögreglu og fyrir dómi bera þess glögg merki að hún var ekki alls kostar samkvæm sjálfri sér.

Vitnið H, kunningi brotaþola, kvaðst fyrir dómi hafa hitt hana á [...] umrætt sinn og strax morguninn eftir um klukkan 6 eða 7 hafi þær talað saman á Facebook. Hafi þá komið fram hjá brotaþola að hún hafi farið heim með ákærða en aðspurð um hvort þau hafi sofið saman hafi brotaþoli sagt eitthvað í þá áttina „nei, ha, ha, ég er ekki drusla“. Hins vegar hafi brotaþoli um tveimur vikum seinna sagt sér frá því að ákærði hafi nauðgað henni. Í skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun á brotaþola á neyðarmóttöku var haft eftir henni að hún hafi farið á Facebook eftir að hún kom heim til sín frá ákærða og sagt þar að hún hafi farið heim með honum en ekkert hafi gerst. Þá var í sömu skýrslu haft eftir brotaþola að hún myndi að þau ákærðu hafi verið að kyssast þótt hún myndi ekki hvar það hafi verið. Þá kom fram hjá brotaþola í Facebook samskiptum við vinkonu hennar, C, að brotaþoli hafi farið heim með „einhverjum gaur“ og hafi hún verið „fyrst að kyssa hann og svona en ég var bara dauð“. Fyrir dómi kvaðst brotaþoli á hinn bóginn halda að hún hafi ekki kysst ákærða.

Í málinu liggja fyrir útprentuð Facebook samskipti brotaþola við C, sem sú síðarnefnda mun hafa afhent lögreglu. Fyrri samskiptin munu hafa átt sér stað eftir hádegi 11. september 2011. Þar kom meðal annars fram hjá brotaþola að hún myndi eftir því að ákærði hafi sett á sig verju því hún hafi sagt við hann „þú ert ekki einu sinni með smokk, ég þarf að fara ég er að deita annan“. Fyrir dómi kannaðist brotaþoli ekki við þetta, enda hafi hún aldrei sagt „við hann neitt.“ Þegar vinkonan spurði hana í Facebook samskiptunum hvort hún væri „á pillunni“ kvaðst brotaþoli vera hætt en fyrir dómi bar hún á hinn bóginn að á þessum tíma hafi hún aldrei verið á pillunni. Þá kom fram hjá brotaþola í Facebook samskiptum  hennar og C, að því er virðist daginn eftir, að hún hafi farið til læknis og hafi fundist smjörsýra í blóði hennar. Aðspurð um það fyrir dómi kvaðst brotaþoli hafa sagt þetta til að komast hjá því að þurfa að ræða þennan atburð. Fyrir liggur sem fyrr segir að blóðsýni var ekki tekið úr brotaþola á neyðarmóttöku í þeim tilgangi að leita efnis sem þessa.

Brotaþoli skrifaði grein í október 2014 í veftímariti og lýsti þar ætlaðri nauðgun. Þar kom fram að þegar hún væri spurð út í atburðinn segðist hún ekkert muna þar sem henni hafi verið byrlað nauðgunarlyf. Sannleikurinn væri hins vegar sá að hún myndi miklu meira en hún hafi sagst gera. Í grein þessari lýsti hún þeirri nauðgun sem ákærði er sakaður um og að hann hafi byrlað henni smjörsýru.

Eins og að framan er rakið er ósannað að brotaþola hafi verið byrlað smjörsýru eða annarri ólyfjan umrætt skipti. Í fyrrgreindum Facebook samskiptum spurði vinkona hennar hvort hún héldi að ákærði hafi sett eitthvað í drykkinn hennar og því svaraði brotaþoli „ekki hann sko“. Fyrir dómi bar brotaþoli að hún vissi ekki hver hafi sett eitthvað í drykk hennar.

Þegar allt framangreint er virt hafa hvorki verið færðar líkur fyrir því af hálfu ákæruvaldsins að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng svo að einhverju skipti um málsúrslit né að frekari sönnunarfærsla þar fyrir dómi fái breytt þeirri niðurstöðu. Verður hinn áfrýjaði dómur því látinn standa óraskaður og áfrýjunarkostnaður málsins felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Það athugast að af gögnum málsins verður ráðið að rannsókn lögreglu hafi legið niðri frá því í lok júní 2013 þar til um miðjan maí 2014. Á því hefur engin skýring fengist.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Evu B. Helgadóttur hæstaréttarlögmanns, 1.736.000 krónur.

 

Sératkvæði

Benedikts Bogasonar hæstaréttardómara

Ég er sammála meirihluta dómenda um að ekki komi til álita aðalkrafa ákæruvaldsins um að ákærði verði sakfelldur fyrir það brot sem honum er gefið að sök. Að því er varðar varakröfuna um að héraðsdómur verði ómerktur og málinu heimvísað er ég ósammála meirihlutanum af eftirfarandi ástæðum:

Ákærða er gefin að sök nauðgun með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 11. september 2011 á heimili sínu að [...] í [...] haft samræði og endaþarmsmök við brotaþola. Er ákæran reist á því að hann hafi notfært sér að brotaþoli gat ekki spornað við kynferðismökunum sökum ölvunar og svefndrunga, en hann hafi einnig beitt hana ofbeldi með því meðal annars að ýta höfði hennar niður er hún reyndi að komast undan honum. Er þetta talið varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákæran er í samræmi við frásögn brotaþola við rannsókn málsins hjá lögreglu og fyrir dómi bar hún á sama veg. Ákærði hefur frá upphafi rannsóknar málsins neitað því að hafa haft kynmök við brotaþola, en kannast við að hún hafi dvalið á heimili hans um nóttina.

Brotaþoli gekkst undir réttarlæknisfræðilega skoðun á Landspítalanum 12. september 2011. Í skýrslu um þá skoðun kom fram að 1 cm sprunga hefði verið í meyjarhafti hennar sem blætt hefði úr við skoðun, auk þess sem svæðið hefði verið aumt við snertingu. Einnig hefði verið um 0,5 cm sprunga við endaþarmsop. Þá hefðu fundist áverkar víða á líkama brotaþola eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Undir rekstri málsins í héraði var aflað matsgerðar sérfræðings í kvensjúkdómum. Í niðurstöðum matsgerðarinnar kom fram að áverkar á handleggjum bentu til að brotaþola hefði verið haldið niðri og að hún hefði reynt að verja sig. Einnig geti marblettir á innanverðum fótleggjum verið af völdum þess að fótleggjum hefði verið ýtt í sundur eða brotaþoli reynt að setja fótleggi saman til að verja sig. Þá taldi matsmaður að sumir áverkar væru „á stöðum eða með merki þess“ að mögulega hefði verið beitt valdi en erfitt væri að segja um það með vissu. Sprungu í meyjarhafti taldi matsmaður án efa merki um að einhvers konar samræði hefði átt sér stað þar sem áverki á þessu svæði kæmi ekki nema einhverju væri stungið upp í leggöng. Jafnframt taldi matsmaður að áverkinn hefði komið til innan 72 klukkustunda fyrir læknisskoðun. Þessi niðurstaða matsmanns fær stoð í vætti M læknis, en hann taldi að ferskir áverkar hefðu verið á kynfærum brotaþola, sem táknaði að samræði hefði átt sér stað. Einnig sagði vitnið að áverki við endaþarm brotaþola benti til „að það hafi verið einhvers konar atferli við endaþarm sem hafi skapað áverka því hann var ferskur að sjá.“

Í niðurstöðu hins áfrýjaða dóms er ekki vikið að því hvernig afdráttarlaus neitun ákærða um kynmök við brotaþola umrætt sinn horfir við með hliðsjón af læknisfræðilegum gögnum sem benda eindregið til að kynmök hafi verið höfð við hana. Jafnframt er til þess að líta að brotaþoli ræddi við vinkonu um samskiptin við ákærða strax um morguninn og fór sama dag og daginn eftir á neyðarmóttöku Landspítalans. Hefur ekkert komið fram sem bendir til að öðrum en ákærða sé til að dreifa sem gæti hafa haft kynmök við brotaþola. Allt þetta rennir stoðum undir framburð hennar. Þótt héraðsdómur hafi metið framburð brotaþola trúverðugan um að ákærði hafi haft við hana kynferðismök var ekki á honum byggt af öðrum ástæðum. Í þeim efnum var vísað til þess að framburður brotaþola hafi verið ótrúverðugur um ölvunarástand sitt. Svo sem nánar er rakið í dómi meirihluta dómenda bera gögn málsins ekki með sér að framburður brotaþola um ölvun sína hafi verið misvísandi. Þá tel ég engu verulegu geta breytt um sönnunargildi framburðar brotaþola þótt hún hafi lýst þeirri grunsemd sinni að einhverju hafi verið byrlað í drykk hennar á skemmtistað fyrr um kvöldið. Ég tel heldur ekki að gögn málsins um hegðun brotaþola eftir að hún yfirgaf heimili ákærða geti haft afgerandi vægi við sönnunarmatið. Þau gögn bera aftur á móti greinilega með sér að hún hafi orðið fyrir áfalli, en að auki er þess að gæta að brotaþoli átti meðal annars í samskiptum við vini og jafnaldra sem getur haft áhrif á hvernig hún kaus að greina frá atvikum. Misræmi að því leyti og um annað en atburðinn sjálfan tel ég ekki geta skipt sköpum um niðurstöðuna. Loks verður ekki vísað á bug skýringu brotaþola á því af hverju hún dró að leggja fram kæru sína.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið tel ég líkur á að niðurstaða meirihluta héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá var því hreyft við vörn málsins að ekki hefði verið tekin skýrsla af tveimur nafngreindum vitnum sem brotaþoli hefði greint frá atvikum í kjölfar þeirra. Verði héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar væri unnt að leiða þessi vitni fyrir dóminn, eftir atvikum með ábendingu dómara, sbr. 2. mgr. 110. gr. laganna. Með því móti væri gætt að þeirri skyldu sem hvílir á dómurum að sjá til þess að sakamál sé upplýst svo sem kostur er áður en dómur verður á það lagður.

Samkvæmt niðurlagi 2. mgr. 209. gr. laga nr. 88/2008 ber mér að greiða atkvæði um efni málsins. Eins og áður greinir kemur ekki til álita að sakfella ákærða, enda getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði gefi skýrslu þar fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 208. gr. laganna. Samkvæmt því ber að staðfesta hinn áfrýjaða dóm.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2015.

                Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 16. janúar 2015, er höfðað með ákæru, útgefinni af ríkissaksóknara 30. maí 2014, á hendur X, kt. [...], [...], [...], fyrir nauðgun, með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 11. september 2011, á heimili ákærða að [...], [...], haft samræði og endaþarmsmök við A, en ákærði notfærði sér það að A gat ekki spornað við kynferðismökunum sökum ölvunar og svefndrunga, og beitti hana einnig ofbeldi, með því meðal annars að ýta höfði hennar niður er hún reyndi að komast undan ákærða. Af þessu hlaut A 1 cm sprungu í meyjarhafti sem blæddi úr, 0,5 cm sprungu við endaþarmsop, bitfar á hægri upphandlegg og mar- og hrufláverka á útlimi, bak og bringu.

Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu A er krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2.500.000 krónur, auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Verjandi krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Þá er aðallega krafist frávísunar bótakröfu, til vara sýknu, en til þrautavara að bætur verði stórlega lækkaðar. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins sem greiðist úr ríkissjóði.

Málsatvik

      Miðvikudaginn 16. janúar 2013 mætti brotaþoli í máli þessu, A, hjá lögreglu til að leggja fram kæru á hendur ákærða, X, fyrir kynferðisbrot. Brotaþoli kvaðst hafa farið út að skemmta sér með vinkonu sinni laugardagskvöldið 10. september 2011. Þær hefðu hitt fólk sem þær þekktu úr [...] á veitingastaðnum [...] og hefði ákærði verið í hópnum. Hún kvaðst hafa farið að spjalla við ákærða, en fundist hann skrýtinn, hann hefði verið þegjandalegur og horft í kringum sig. Brotaþoli kvaðst hafa farið frá í skamma stund og skilið drykkinn sinn eftir, en ekki vera viss um hvort henni hefði verið byrlað einhverri ólyfjan. Hún kvaðst næst muna eftir sér í íbúð ákærða, en ekki vita hvernig hún komst þangað. Hún myndi eftir því að ákærði hefði verið ofan á henni og hefði hún reynt að rísa upp, en hann hefði ýtt höfði hennar niður. Þetta hefði verið vont og sársaukafullt og hefði hún verið klístruð í andlitinu. Hún kvaðst ekki hafa gefið honum leyfi til þess að gera þetta. Ákærði hefði verið „rosalega röff“ og haldið henni niðri. Hún hefði vaknað stundum upp og hefði hann þá enn verið að. Síðast þegar hún vaknaði upp hefði hún verið í kjólnum sem þá hefði verið tekinn niður fyrir brjóst, hún hefði aðeins verið í öðrum skónum, sokkabuxurnar hennar hefðu verið rifnar og nærbuxurnar alblóðugar. Ákærði hefði þá sagt við hana að hún mætti fara núna og hefði hún hlaupið út. Hún hefði setið nokkurn tíma úti á götu, en síðan hringt á leigubifreið og farið heim. Brotaþoli lýsti nánar því sem hefði verið að gerast þegar hún rankaði við sér og sagðist hafa verið mjög þurr, þetta hefði verið sárt og hún hefði reynt að koma sér í burtu. Hún hefði beðið ákærða um að hætta og spurt hann af hverju hann væri að þessu. Hún hefði verið öll klístruð í andliti og taldi sig hafa verið grátandi. Hún kvaðst hafa verið með bitfar næsta dag og mar eftir fingur, en ákærði hefði haldið fast í hana. Hún kvaðst minnast þess að ákærði hefði verið að kyssa eða narta í brjóst hennar. Hún kvaðst hins vegar ekki minnast þess að hann hefði sett lim eða fingur í endaþarm hennar. Hún kvaðst hafa drukkið þrjá til fimm bjóra og tvö til þrjú skot um kvöldið og hefði hún fundið til mikilla ölvunaráhrifa. Brotaþoli kvaðst hafa hringt í vinkonu sína daginn eftir og sagt henni hvað hefði gerst. Hefði móðir vinkonunnar sagt henni að leita á Neyðarmóttöku, sem hún hefði í kjölfarið gert. Brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu að nýju 20. febrúar 2013 og var þá framburður ákærða borinn undir hana.

Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 11. febrúar 2013. Hann kvaðst hafa hitt brotaþola og tvær vinkonur hennar á reykingasvæði við [...] þetta kvöld. Hefði brotaþoli gengið með honum heim. Þegar þangað kom hefði hún farið á salerni, en síðan „algjörlega rotast“ og hefði hann ekki getað vakið hana. Hann hefði sofnað sjálfur og vaknað þegar hún var að yfirgefa íbúðina morguninn eftir. Ákærði kvað ekkert kynferðislegt hafa átt sér stað á milli þeirra brotaþola.

Meðal rannsóknargagna málsins er skýrsla Neyðarmóttöku frá 12. september 2011 um réttarlæknisfræðilega skoðun á brotaþola. Í skýrslunni er frásögn brotaþola skráð og kemur þar m.a. fram að hún hafi leitað á Neyðarmóttöku kvöldið áður og rætt við hjúkrunarfræðing, en hætt við að fara í læknisskoðun. Ástandi brotaþola er lýst svo að hún hafi verið leið, en verið róleg, yfirveguð og samvinnuþýð. Hún hafi beygt lítillega af er hún ræddi um atburðinn og hugsanir eftir á. Í skýrslunni kemur fram að brotaþoli telji að árásarmaðurinn hafi farið í leggöng og endaþarm. Við skoðun hafi hún verið með tvo nýlega marbletti á hægri framhandlegg, 4 x 3 og 2 x 2 cm, sem gætu verið eftir fingur. Þá hafi verið marblettir aftan á vinstri upphandlegg, vinstri öxl og innan á vinstri kálfa. Innanvert ofan við hægra hné og neðan við vinstra hné hafi verið sinn hvor marbletturinn, ½ til 1 cm, sem gætu verið eftir fingur, auk þess sem ferskt hrufl hafi verið ofan við hægra hné. Innan á hægri upphandlegg hafi verið marblettir, um 5 cm, sem hafi líkst tannfari. Á baki og vinstra megin á bringu hafi verið rispur, sem gætu verið eftir að brjóstahaldari hafi verið dreginn niður og hringfar ofan við brjóst, sem gæti verið eftir sog. Eins cm sprunga hafi verið í meyjarhafti, klukkan 18, sem blætt hafi úr við skoðun og hafi svæðið verið aumt við snertingu. Þá hafi verið u.þ.b. 0,5 cm sprunga, klukkan 18, við endaþarmsop. Í skýrslunni kemur fram að sýni hafi verið tekin úr leggöngum, en blóð- og þvagsýni hafi ekki verið tekin. Tekið er fram að ekki hafi verið unnt að leita að sæðisfrumum eða rannsaka hvort brotaþola hefði verið byrlað ólyfjan, vegna þess tíma sem liðinn væri frá atvikinu. Þá kemur fram að brotaþoli hafi ekki haft föt meðferðis, sem hún hefði klæðst í umrætt sinn, en hún hafi verið beðin um að geyma nærföt og sokkabuxur. Meðal gagna málsins eru ljósmyndir af brotaþola teknar á Neyðarmóttöku, sem sýna áverka hennar.

Í þinghaldi 20. júní 2014 óskaði verjandi ákærða eftir því að dómkvaddur yrði matsmaður til að yfirfara og meta gögn Neyðarmóttöku, einkum kafla í skýrslunni um „Áverka og önnur verksummerki“ og „Grindarbotnsskoðun/Kvenskoðun“, auk ljósmynda sem fylgdu skýrslunni. Var þess sérstaklega óskað að eftirfarandi yrði metið:

  1. Aldur áverka, þ.e. á marblettum, rispum og meintu tannfari, sem ljósmyndir liggja fyrir af og hvernig þeir geti verið til komnir. Í því sambandi var óskað eftir að sérstaklega yrði metið hvort umræddir áverkar gætu hafa orðið til við hefðbundin kynmök með samþykki beggja og einnig hvort umræddir áverkar væru í samræmi við framburð brotaþola um að hafa verið sofandi þegar kynmök hafi farið fram.
  2. Hvort líklegt væri að blæði úr sprungu í meyjarhafti einum og hálfum sólarhring eftir að sprungan hafi myndast.
  3. Hvort 1 cm sprunga í meyjarhafti bendi til þess að brotaþoli hafi haft samfarir um leggöng.
  4. Hvort hægt væri að segja til um hvort meintur brotaþoli hefði áður haft samfarir, miðað við það sem fram kemur í gögnum Neyðarmóttöku um 1 cm sprungu í meyjarhafti.
  5. Hvort 0,5 cm sprunga á endaþarmi gæti verið til komin af öðrum orsökum en að kynmök um endaþarm hafi átt sér stað.

Dómari kvaddi B kvensjúkdómalækni til að framkvæma umbeðið mat og liggur fyrir matsgerð hennar, dagsett 15. janúar 2015. Í matsgerðinni er framangreindum spurningum svarað með eftirfarandi hætti:

1. Áverkar eru sýnilegir á brotaþola víðs vegar um líkamann. Ekki er um alvarlega eða hættulega áverka að ræða. Mar á handleggjum s.s. upphandlegg getur bent til þess að brotaþola hafi verið haldið niðri. Marblettir á framhandlegg utanverðum og rispur á handarbaki geta einnig bent til þess að brotaþoli hafi verið að reyna að verja sig, ber handlegg fyrir sig, reynir að ýta frá. Marblettir á innanverðum fótleggjum geta verið orsakaðir af því að fótleggjum hafi verið ýtt í sundur eða að brotaþoli hafi reynt að leggja fótleggi saman til að verja sig. Rispur á baki og bringu geta verið vegna þess að eitthvað hvasst svo sem spöng eða krækja á brjóstahaldara hafi rifið eða jafnvel nögl, en þetta gæti líka komið við það að klæða sig úr og reka óvart um leið skarpa hluti fatnaðar í sig. Hringlaga áverki á bringu gæti mögulega verið lítið sogmerki en einnig merki eftir þrýsting af einhverjum hringlaga hlut s.s. hálsmeni. Sumir áverkanna eru því á stöðum eða með merki þess að mögulega hafi verið beitt valdi en erfitt er að segja það með vissu. Mismunandi litur er á marblettum og getur það verið merki um að marblettir séu misgamlir eða að um mismikinn þrýsting hafi verið að ræða þegar áverkinn myndaðist og er það háð því hvort blæðingin sem marblettinum valdi sé vegna rofs á yfirborðsæðum eða æðum sem liggja dýpra í vefnum og komi því seinna fram á yfirborði húðar og því litarmunur þ.a. allir marblettirnir gætu hafa orðið til á sama/svipuðum tímapunkti. Því er ekki hægt að segja til um nákvæman aldur marbletta […].

Hvort þessir áverkar sem nefndir eru hér að framan hafi getað komið við hefðbundin kynmök með samþykki beggja er ómögulegt að meta þar sem kynhegðun fólks er mjög misjöfn.

Hvort að áverkarnir geti verið tilkomnir vegna kynmaka sem hafi verið höfð á meðan meintur brotaþoli var sofandi er einnig erfitt að segja til um en í framburði meints brotaþola kemur fram að hún hafi verið með einhverri meðvitund inn á milli og reynt að verja sig og geta áverkar t.d. á framhandlegg og innanverðum fótleggjum mögulega samræmst því.

2. Blætt getur úr sprungu í meyjarhafti á sólarhringum eftir að áverki á sér stað. Þeim mun dýpri sem áverkinn er því lengur er hann að gróa og getur því auðveldar rifnað upp t.d. við skoðun. Meyjarhaft er mjög blóðríkur vefur og blæðir gjarnan þaðan ef áverki verður.

3. Sprunga í meyjarhafti er án efa merki um að einhvers konar samræði hafi átt sér stað þar sem áverki á þessu svæði kemur ekki nema að einhverju sé stungið upp í leggöng, s.s. lim, fingrum eða aðskotahlut. Rannsóknir sýna að allt að helmingur kvenna sem verða fyrir nauðgun eru með rifur á meyjarhafti eða í leggöngum. [...]  Sértaklega er algengt að sjá þetta hjá stúlkum/konum sem eru hreinar meyjar og/eða hafa ekki fætt barn um leggöng. Þessar rifur verða oftast vegna ónógs raka á svæðinu þegar kynmök eiga sér stað. Orsök ónógs raka er oft vegna lítils/einskis undirbúnings fyrir kynmökin, þ.e. forleiks, og því mun algengara að sjá hjá þeim sem þvingaðar eru til samræðis en hjá þeim sem eru hliðhollar því. Áverkar af þessu tagi sjást best ef að einstaklingur sem verður fyrir nauðgun kemur til skoðunar innan 72ja klst. frá því að nauðgunin átti sér stað, en rannsóknir sýna að eftir þann tíma getur verið erfitt að greina áverkana með berum augum.

4. Hvort að meintur brotaþoli hafi áður haft samfarir er ekki hægt að segja með vissu, þó er mun algengara að sjá áverka á leggöngum/meyjarhafti hjá konum sem ekki hafa haft samfarir áður en þeim sem stunda kynlíf reglulega og/eða hafa fætt barn um leggöng. Sérstaklega er áverki á meyjarhafti algengur hjá þeim sem ekki hafa haft samfarir áður. [...]

5. Áverki við endaþarm getur verið orsakaður vegna samfara um endaþarm eða að fingrum eða  aðskotahlut hafi verið stungið þar upp en einnig geta verið aðrar orsakir fyrir rifu á þessum stað s.s. við harðar hægðir sem geta rifið upp slímhúð í endaþarmi. Til að hægt sé að sanna samfarir um endaþarm þarf að hafa sýni þar sem sjást sæðisfrumur og til að hægt sé að taka slíkt sýni þarf meintur brotaþoli að koma til skoðunar innan við 24. klst. eftir að brotið á sér stað. Ef meintur brotaþoli er búin að hafa hægðir eftir brotið (sem kemur fram í skýrslu Neyðarmóttöku að meintur brotaþoli hafi haft) þá er mjög sjaldgæft að finnist sæðisfrumur i endaþarmi.“

Í matsgerðinni kemur m.a. fram að matsmaður hafi látið grennslast fyrir um það á Neyðarmóttöku hvað orðið hafi um sýni, sem tekin voru frá leggöngum brotaþola, en fengið þau svör að slík sýni væru eingöngu geymd í þrjá til sex mánuði frá skoðun.

Niðurstaða matsgerðarinnar er sú að staðfest sé með gögnum Neyðarmóttöku að einhvers konar kynmök hafi átt sér stað um leggöng innan 72 klukkustunda áður en brotaþoli kom til skoðunar á Neyðarmóttöku. Sú niðurstaða sé byggð á sári í meyjarhafti, sem blætt hafi frá við skoðun. Ekki verði sýnt fram á hvort um var að ræða fullar samfarir með lim í leggöngum og sáðláti, þar sem sýnum sem tekin voru við skoðun hafi verið fargað samkvæmt reglum Neyðarmóttöku um að þau verði ekki geymd lengur en í þrjá til sex mánuði. Einnig sé mögulegt að annaðhvort fingri/fingrum eða aðskotahlut hafi verið stungið upp í leggöng og áverki orðið þess vegna. Aðrir áverkar á líkama brotaþola, s.s. mar, rispur og sár við endaþarm, geti hafa orðið til við kynmök án samþykkis brotaþola, en ekki sé hægt að sanna það út frá útliti eða staðsetningu áverkanna.

Í málinu liggja fyrir útprentuð facebook-samskipti brotaþola og C frá 11. og 12. september, sem C afhenti lögreglu. Í samskiptunum, sem hefjast klukkan 14:51 11. september, kemur fram hjá brotaþola að hún sé hrædd um að einhverju hafi verið smyglað í drykkinn hennar kvöldið áður. Hún hafi farið heim með einhverjum gaur, X, og dáið þar. Síðan segir: „hann reið mér mér var fokking nauðgað“ og lýsir því nánar, m.a.: „hann ýtti hausnum mínum niður“ og „reið mér í rassinn líka“, „mér er illt alls staðar“. Þá kemur fram að C hvetur brotaþola til að leita til læknis og hringja í lögreglu, en hún færist undan og kemur ítrekað fram hjá henni að hún sé ekki viss hvort þetta teljist nauðgun.

Þá liggur fyrir skýrsla D sálfræðings, dagsett 27. mars 2013, um viðtöl við ákærða vegna rannsóknar málsins, sbr. 2. mgr. 54. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Jafnframt liggur fyrir vottorð E sálfræðings, dagsett 15. janúar 2015, um meðferðarviðtöl við ákærða.

      Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna við aðalmeðferð málsins.

      Ákærði kvaðst hafa verið á skemmtistaðnum [...] kvöldið sem um ræðir ásamt tveimur vinum sínum, F og G, og hefði hann hitt brotaþola úti í reykingaporti. Þau hefðu ákveðið að fara heim til hans og kvaðst ákærði hafa átt frumkvæði að því. Hefðu þau áreiðanlega ætlað að „gera eitthvað saman“, „sofa saman“. Þau hefðu gengið að heimili hans á [...], með viðkomu í verslun í [...], þar sem þau hefðu keypt sígarettur. Þegar heim til ákærða kom hefðu þau kysst aðeins inni í herbergi hans, en síðan hefði brotaþoli farið á salernið. Þegar hún kom aftur þaðan hefði hún varpað sér á rúmið og legið þar „alveg out“, þ.e. hún hefði bara sofnað. Hann hefði hrist hana og reynt þannig að vekja hana, en án árangurs. Hún hefði verið fullklædd þegar þetta var. Ákærði kvaðst hafa farið að sofa og vaknað um morguninn við að brotaþoli var á leiðinni út og hefði hún verið að loka dyrunum á eftir sér. Hann kvaðst hafa drukkið sex til sjö bjóra um kvöldið og fundist hann hafa drukkið of mikið, og því verið búinn að drekka vatn í einhvern tíma þegar hann hitti brotaþola. Honum hefði fundist hún vera í eðlilegu ástandi, allt þar til hún kom fram af salerninu heima hjá honum. Þá hefði ekkert verið athugavert við klæðnað hennar og hefði hann ekki tekið eftir því að sokkabuxur hennar væru rifnar.

A kvaðst hafa farið með C, vinkonu sinni, á [...] þetta kvöld og hefðu þær hitt þar stelpur sem þær þekktu úr [...] og síðan strákahóp úr sama skóla, en ákærði hefði verið þeirra á meðal. Þær H hefðu verið að ræða við þessa stráka og hefðu þau verið úti á reykingasvæði staðarins. Hún hefði verið að drekka flöskubjór og kvaðst minnast þess að hafa farið á salerni og komið aftur út, en ekki muna hvort hún skildi bjórinn eftir á meðan. Um klukkan tvö eða þrjú um nóttina hefði hana verið farið að langa heim og hefði hún ætlað að koma við í verslun [...] við [...] til að kaupa sér sígarettur. Ákærði hefði boðist til að fylgja henni. Brotaþoli kvað sér hafa farið að líða illa í versluninni. Hún kvaðst muna eftir sér þar sem hún var að ganga upp einhverja brekku. Það næsta sem hún myndi væri að ákærði lá ofan á henni og hún var að reyna að rísa upp, en hann hefði alltaf ýtt höfði hennar niður. Hann hefði verið að nauðga henni og hún hefði fundið að hann var með getnaðarliminn í leggöngum hennar. Þetta hefði verið vont og andlit hennar hefði verið klístrað af tárum. Þá kvaðst hún muna eftir því að hann hefði verið að kyssa eða narta í brjóstin á henni. Hún hefði síðan vaknað aftur upp og umlað: „Láttu mig í friði“ og „af hverju ég?“, en hann hefði ýtt höfðinu á henni niður. Hún kvaðst síðan hafa vaknað liggjandi á bakinu með fætur sundur og hefðu ljósin þá verið kveikt. Hún hefði séð að nærbuxur og sokkabuxur hennar hefðu verið alveg niður um hana og hefðu sokkabuxurnar verið í tætlum. Þá hefði hún aðeins verið í öðrum skónum. Ákærði hefði staðið þarna á nærbuxunum og hefði hann komið aftur upp í rúmið, en hún hefði risið á fætur og hefði hann þá sagt við hana að hún mætti fara núna. Hún hefði yfirgefið húsið og áttað sig á að hún var stödd á [...]. Hún hefði hringt eftir leigubifreið og farið heim. Eftir að heim kom hefði hún farið í sturtu. Hún hefði farið á salernið og þar hafi hún pissað blóði. Þá hefðu nærbuxurnar verið allar í blóði. Hún kvaðst ekki minnast þess að ákærði hefði haft við hana endaþarmsmök, en hún hefði verið með verk í rassinum á eftir og þar hefði fundist sprunga við læknisskoðun. 

Brotaþoli kvaðst ekki hafa áttað sig á því alveg strax hvað hefði gerst, en hún hefði ekki átt eiginleg kynmök áður og því ekki vitað hvort þetta væri kynlíf. Hún hefði átt í samskiptum við C á facebook þegar hún vaknaði daginn eftir og hefði hún sagt henni frá þessu. Hún hefði síðan hringt í I, vinkonu sína, og mælt sér mót við hana í [...]. Hún hefði sagt henni frá þessu og hefði I hvatt hana til að fara á bráðamóttöku og láta lögreglu vita, en hún hefði ekki viljað það. Hún kvaðst hafa sagt I að henni hefði verið byrlað einhverju og að hún myndi ekkert eftir því sem hefði gerst. Hún hefði síðan farið heim, en I hefði haldið áfram að leggja að henni að fara á bráðamóttökuna og einnig hefði móðir I rætt við hana í síma og hvatt hana til þess sama. Hún hefði síðan leitað á Neyðarmóttökuna um kvöldið og rætt við hjúkrunarfræðing, en ekki treyst sér í læknisskoðun og farið aftur heim. Hún hefði sofið til klukkan 14 daginn eftir og verið heima þann dag, að því frátöldu að hún skrapp í verslun til að kaupa sér sígarettur. Hún hefði svo farið aftur á Neyðarmóttökuna undir kvöldið og gengist þar undir læknisskoðun. Systir hennar hefði fylgt henni á Neyðarmóttökuna og kvaðst hún hafa sýnt henni sokkabuxurnar og nærbuxurnar. Þetta hefðu verið svartar nælonsokkabuxur með hvítum saumi og ljóssægrænar nærbuxur með hvítum doppum. Hún hefði geymt þessi föt í um tvær vikur, en síðan hent þeim.

Brotaþoli kvaðst ekki hafa lagt fram kæru á hendur ákærða hjá lögreglu eftir atvikið þar sem hún hefði viljað „loka á þetta“. Hún hefði verið hrædd við ákærða, sem hefði verið með henni í skóla og hefði þetta mál frést í skólanum. Síðan hefði H sagt henni að ákærði hefði nauðgað öðrum stúlkum en henni. Hún kvaðst þá hafa fengið samviskubit og ákveðið að kæra.

                Spurð um áfengisneyslu þetta kvöld kvaðst hún hafa fengið sér skot og hvítvín eða bjór á [...]. Hún kvaðst muna eftir flöskubjór og hvítvínsglasi. Þetta hefðu verið um þrír eða fjórir drykkir og hefði hún aðeins verið farin að finna á sér. Hins vegar myndi hún eftir því að hafa svimað þegar þau ákærði voru í verslun [...] eftir að hafa yfirgefið staðinn.

                C, sem var með brotaþola þetta kvöld, kvað hana hafa fengið sér hvítvín eða bjór á veitingastað áður en þær fóru á [...]. Þar hefði hún sennilega fengið sér bjór. Kvaðst hún telja að brotaþoli hefði drukkið þrjá til fjóra drykki áður en leiðir þeirra skildi. Vitnið kvaðst hafa farið heim um klukkan 2 um nóttina og hefði brotaþoli þá verið hress og ekki áberandi ölvuð. Daginn eftir hefði hún haft samband á facebook og sagt sér að henni hefði verið nauðgað um nóttina.

I kvað brotaþola hafa hringt til sín daginn eftir og hefðu þær mælt sér mót í [...]. Þar hefði brotaþoli reynt að segja henni hvað hefði gerst. Hún hefði verið niðurbrotin og útskýrt að hún væri ekki viss um að þetta hefði verið nauðgun. Þá hefði hún sýnt vitninu marbletti á sér. Vitnið kvaðst hafa sannfært hana um að þetta hefði verið nauðgun og hvatt hana til að fara á bráðamóttöku. Vitnið og móðir hennar hefðu rætt við brotaþola síðar um daginn og hefði móðir hennar sannfært hana um að hún yrði að fara á bráðamóttökuna.

H kvaðst hafa hitt brotaþola á [...] og hefðu þær komið auga á ákærða úti í svonefndu reykingaporti. Þær hefðu farið að spjalla við F, félaga ákærða, en ákærði hefði verið þögull. Vitnið kvaðst hafa brugðið sér inn til að kaupa bjór, en þegar hún kom út aftur hefði F sagt henni að brotaþoli hefði farið heim með ákærða. Vitnið kvað brotaþola hafa verið að drekka bjór þarna á staðnum og hefði hún verði „létt á því“, en alls ekki ofurölvi. Þær hefðu verið í samskiptum á facebook daginn eftir og hefði hún þá spurt brotaþola hvort hún hefði sofið hjá ákærða, en hún neitað því. Um tveimur vikum síðar hefði brotaþoli sagt henni hvað hefði gerst. Vitnið kvaðst hafa verið dálítið hrifin af þessum strák og hefði brotaþoli verið að vara hana við honum. Hún hefði sagt henni að ákærði hefði nauðgað sér og lýst því. Um ári síðar kvaðst vitnið hafa frétt að einhverjar stúlkur hefðu kært ákærða og hefði hún látið brotaþola vita af því.

F kvaðst hafa verið með ákærða á [...] þetta kvöld og hefðu þeir verið að ræða við einhverjar stúlkur úti í porti. Síðan hefði ákærði gengið burt með einni stúlkunni, án þess að segja neitt. Ákærði hefði sagt honum daginn eftir að þau hefðu farið heim saman. Kvaðst vitnið hafa dregið þá ályktun að ákærði hefði sofið hjá stúlkunni. Hann kvaðst minna að stúlkan hefði verið minna drukkin en ákærði þetta kvöld. G, sem var með ákærða og F í umrætt sinn, kvaðst hafa séð ákærða spjalla við stúlku og hefðu þau síðan horfið á brott saman. Þau hefðu virst vera ölvuð.

J, systir brotaþola, kvað hana hafa hringt til sín um kvöldmatarleytið sunnudaginn 11. september, og beðið sig um að aka sér á Neyðarmóttöku. Brotaþoli hafi rætt við hjúkrunarfræðing þar, en síðan farið heim. Hún hefði síðan hringt aftur á mánudeginum og hefði hún einnig fylgt henni á Neyðarmóttökuna í það skipti. Þann dag hefði brotaþoli sýnt henni fatnað sem hún hefði verið í, skærgrænar nærbuxur, sem hefðu verið blóðugar, og þunnar nælonsokkabuxur, sem hefðu verið rifnar hér og þar, m.a. í klofinu. Vitnið kvað brotaþola hafa breyst eftir þetta atvik og verið erfið í skapi. Þá hefði hún hætt að mæta í skólann þar sem hún hræddist ákærða sem einnig var nemandi þar.

K, faðir brotaþola, lýsti því að hún hefði verið gjörbreytt í háttum daginn eftir atvikið. Hún hefði verið taugaveikluð og hefði hann ekki náð neinu sambandi við hana. Systir hennar hefði greint honum frá því á mánudeginum hvað hefði gerst. Vitnið kvað brotaþola hafa gjörbreyst eftir þetta atvik. Hún hefði verið afburðanemandi fyrir þetta, en flosnað upp úr skóla tveimur árum síðar. Þá hefði áfengisneysla hennar aukist, hún hefði orðið mjög uppstökk og lokað sig af. Hefði hún þurft að leita aðstoðar sálfræðinga og geðlækna á göngudeild eftir þetta.

L hjúkrunarfræðingur og M, kvensjúkdómalæknir, starfsmenn Neyðarmóttöku, gerðu grein fyrir læknisskoðun sem brotaþoli gekkst undir þar. Kom fram hjá vitninu M að áverkar á kynfærum og við endaþarm hefðu verið ferskir og gætu samrýmst því að vera eins til tveggja sólarhringa gamlir. Eins cm sprunga hefði verið við meyjarhaft og tók vitnið fram að þetta væri viðkvæmt svæði og gæti slíkur áverki verið til kominn án þess að beitt hefði verið ofbeldi. Vitnið kvaðst ekki geta staðhæft að samræði hefði verið haft við brotaþola, þar sem ekki hefðu verið til staðar sýni því til staðfestingar, en einhver innþrenging hefði orðið í leggöng. Þá kvað hann sprungu við endaþarm geta hafa komið við mikið harðlífi, en ekkert hefði komið fram í sögu brotaþola sem benti til þess að orsökin væri önnur en kynmök. Vitnið kvað aðra áverka brotaþola hafa komið heim og saman við tímasetningar sem hún gaf upp. Magn þessara áverka benti til þess að einhvers konar átök hefðu átt sér stað. Þá benti staðsetning þeirra ekki til þess að þeir hefðu komið við fall, heldur hefðu þeir frekar verið eins og eftir tak. Vitnið kvað áverka á innanverðum hægri upphandlegg hafa litið út eins og hann gæti verið eftir tennur, hefði áverkinn líkst tannfari, en ekki bitfari. Marblettir á fótleggjum gætu hafa verið eftir tak og taldi hann þá hafa verið innan við þriggja daga gamla. Sérstaklega spurt svaraði vitnið því til að marblettir innanvert á hnjám báðum megin gætu hafa verið eftir fall. Hann kvað rispur á baki geta hafa verið eftir að brjóstahaldari hefði verið dreginn niður og far á bringu gæti hafa verið eftir sogblett. Vitnið kvað það hafa verið mistök að þvagsýni skyldi ekki hafa verið sent í eiturefnarannsókn, því að hugsanlega hefði verið hægt að greina hvort brotaþola hefði verið byrlað ólyfjan. 

B kvensjúkdómalæknir staðfesti matsgerð sína fyrir dóminum. Vitnið kvað sprungu við meyjarhaft tilkomna við að eitthvað hefði farið inn í leggöng brotaþola og væru kynmök oftast orsök slíkra áverka. Það að sprungan rifnaði upp við kvenskoðun benti til þess að kynmök hefðu átt sér stað tveimur til þremur sólarhringum áður en skoðun fór fram. Þá væru meiri líkur á því að rof yrði ef þurrkur væri í kynfærunum, þ.e. ef konan væri óundirbúin fyrir kynmök. Vitnið kvað erfiðara að meta orsök sprungu við endaþarm. Slíkur áverki gæti stafað af kynmökum eða einhvers konar innþrengingu, en einnig því að viðkomandi hefði haft harðar hægðir. Hún kvað það vera meginniðurstöðu mats síns að kynmök hefðu verið höfð við brotaþola, a.m.k. um leggöng. Marblettir á utanverðum handleggjum brotaþola hefðu getað komið við að hún hafi reynt að verjast. Marblettir á innanverðum hnjám eða lærum komi yfirleitt ekki nema fótum hafi verið ýtt í sundur eða við samfarir. Marblettir sem komi við það að viðkomandi reki sig á séu yfirleitt staðsettir á utanverðum fótleggjum. Vitnið kvaðst telja óvíst um orsök áverka sem í skýrslu Neyðarmóttöku var talið vera tannfar og kvaðst hún hafa talið það far vera eftir fingur. Loks kom fram hjá vitninu að hægt væri að finna leifar af lyfjum eins og rohipnol og ketamín í þvagi í allt að sjö daga eftir inntöku.

N sálfræðingur gerði grein fyrir viðtölum sínum við brotaþola, sem hefði leitað til hennar fyrir jól 2011 vegna vanlíðunar.

Þá kom faðir ákærða, O, fyrir dóminn sem vitni og lýsti líðan ákærða eftir að málið kom upp.

Niðurstaða

Ákærða er gefin að sök nauðgun með því að hafa haft samræði og endaþarmsmök við brotaþola sem ekki á að hafa getað spornað við kynferðismökunum sökum ölvunar og svefndrunga eins og nánar er rakið í ákærunni.  Eru ákæruatriðin í samræmi við frásögn brotaþola hjá lögreglu, en ákærði hefur frá upphafi neitað sök. Hann og brotaþoli hafi ekki haft kynmök heldur hafi brotaþoli, sem ekki hafi verið mikið undir áhrifum áfengis, sofnað á heimili hans og ekki vaknað fyrr en undir morgun og þá farið á brott.

                Eftir að brotaþoli fór frá ákærða hafði hún fyrst samskipti við aðra er hún ræddi við vinkonu sína á facebook klukkan 14:51 sama dag. Þau samskipti voru rakin hér að framan. Um kvöldmatarleytið hringdi hún í systur sína og fór með henni á Neyðarmóttökuna. Þar ræddi brotaþoli við hjúkrunarfræðing en vildi ekki láta skoða sig. Daginn eftir fór hún aftur með systur sinni á Neyðarmóttökuna og var þar skoðuð, eins og rakið var. Þann sama dag kveðst systir hennar einnig hafa séð sokkabuxur og nærbuxur brotaþola á heimili hennar, sem hafi verið blóðugar. Á Neyðarmóttökunni var brotaþoli beðin um að afhenda fötin, sem hún var í umrædda nótt. Það gerði hún á hinn bóginn ekki heldur fargaði þeim um tveimur vikum síðar, að eigin sögn.  Samkvæmt vottorði frá Neyðarmóttöku var brotaþoli við skoðun með tveggja cm rifu við meyjarhaft, 0,5 cm sár við endaþarm og þá áverka aðra sem í ákæru greinir. Samkvæmt framangreindri matsgerð kvensjúkdómalæknis er líklegt að áverkana hafi hún hlotið innan 72 klukkustunda. Þótt álykta megi að líklega hafi rifan komið til umrædda nótt verður af læknisfræðilegum gögnum ekkert frekar um það fullyrt hvenær rifan kom til. Síðan liðu 16 mánuðir þangað til brotaþoli kærði ákærða til lögreglu. Gaf hún þá skýringu að hún hefði viljað „loka á þetta“, en hún hefði síðan frétt að ákærði hefði nauðgað öðrum stúlkum og þá hefði hún fengið samviskubit og ákveðið að kæra.

                Það er niðurstaða dómsins að framburður brotaþola við aðalmeðferð málsins, um það að ákærði hafi haft við hana kynferðismök í greint sinn, sé í sjálfu sér ekki ótrúverðugur, einkum þegar litið er til þeirra ummerkja sem í ákæru greinir og kunna að hafa komið til vegna kynmaka við ákærða, auk þess sem brotaþoli hafði samband við Neyðarmóttöku og hún og systir hennar báru að blóð hefði verið í nærbuxum, sem brotaþoli hafi sýnt systur sinni.

                Á hinn bóginn verður að líta til þess að ákærði og brotaþoli eru ein til frásagnar um hvað gerðist á heimili ákærða umrætt sinn. Er framburður ákærða eindreginn um að kynferðismök hafi ekki átt sér stað. Fleira kemur þó til. Í fyrsta lagi var framburður brotaþola annars vegar hjá lögreglu og hins vegar fyrir dómi misvísandi um ölvunarástand sitt. Þannig bar hún hjá lögreglu 16. janúar 2013 að hún hefði neytt „3,4,5“ drykkja áður en hún fór heim með ákærða. Hún var þá spurð hvort hún ætti við bjór og jánkaði hún því en bætti við að hún hefði líklega tekið skot „um 3 eða 2-3“. Hún bætti svo við að hún myndi ekki mikið eftir þessu þar sem svo langt væri um liðið. Þá sagði lögreglumaðurinn: „En þú ert alla vega með það á hreinu að þú hafir verið mjög ölvuð.“ Brotaþoli svaraði játandi. Þá sagði lögreglumaðurinn: „Þú hefur fundið til mikilla svona ölvunaráhrifa.“ Brotaþoli svaraði þessu einnig játandi. Fyrir dómi bar brotaþoli á hinn bóginn að hún hefði einungis drukkið þrjá til fjóra drykki og hefði hún aðeins verið farin að finna á sér.

                Þá styður framburður vitna, sem rakinn hefur verið, ekki framburð brotaþola um mikla ölvun hennar heldur framburð ákærða um hið gagnstæða. Það gerir heldur ekki frásögn sem skráð er eftir henni á Neyðarmóttökunni, þar sem haft er eftir henni að kvöldi 12. september 2011 að hún hafi ekki verið búin að drekka mikið, ef til vill tvo og hálfan bjór. Loks er haft eftir brotaþola í vottorði læknis daginn eftir atvik að hún hafi allt í einu orðið drukknari en samsvaraði því áfengismagni sem hún hefði drukkið. Hafi hana grunað að einhverju hefði verið byrlað í drykk hennar á skemmtistaðnum umrætt kvöld. Hefur ekkert komið fram við rannsókn og meðferð málsins sem styður þessar fullyrðingar brotaþola. Eins og nú hefur verið rakið hefur framburður brotaþola um ölvun sína verið misvísandi og styðst ekki við framburð vitna. Dómurinn metur því framburð hennar ótrúverðugan að þessu leyti.

                Loks styður hegðun brotaþola eftir að hún fór frá ákærða ekki að henni hafi verið nauðgað. Þannig virtist brotaþoli í áðurnefndum facebook-samskiptum sínum ekki vera viss um hvort henni hefði verið nauðgað eða henni „riðið“, eins og rakið var. Þá fargaði brotaþoli ætluðum sönnunargögnum og dró það svo í 16 mánuði að kæra ákærða.

                Á ákæruvaldinu hvílir sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Af því sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að uppi sé slíkur vafi um sekt ákærða að ekki sé hafið yfir skynsamlegan vafa, eins og áskilnaður er gerður um í 1. mgr. 109. gr. laganna. Samkvæmt þessu verður að sýkna ákærða af kröfu um sakfellingu, vísa einkaréttarkröfu frá dómi og leggja sakarkostnað á ríkissjóð.

                Einn dómenda, Ragnheiður Harðardóttir, er ósammála niðurstöðu meirihluta dómsins. Telur hún framburð ákærða um að hann hafi ekki haft kynferðismök við brotaþola í umrætt sinn ótrúverðugan, enda fái frásögn hennar að þessu leyti stoð í læknisfræðilegum gögnum og vitnisburði kvensjúkdómalæknanna M og B, sem rakið hefur verið. Hafi það verið niðurstaða matsgerðar B að áverki á meyjarhafti brotaþola væri til marks um að einhvers konar kynmök hefðu átt sér stað um leggöng innan 72 klukkustunda áður en hún gekkst undir réttarlæknisfræðilega skoðun á Neyðarmóttöku. Þá hafi brotaþoli sýnt systur sinni blóðugar nærbuxur, sem hún hefur borið að hafa klæðst þegar þetta var. Með vísan til framangreinds telur dómarinn sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi haft kynferðismök við brotaþola. Ákærða og brotaþola beri saman um að hún hafi sofnað þungum svefni á heimili hans og telur dómarinn að leggja eigi til grundvallar frásögn þeirra um að svo hafi verið. Þá styðji læknisfræðileg gögn í málinu og vitnisburður kvensjúkdómalæknanna tveggja framburð brotaþola um að ákærði hafi beitt hana harðræði við kynmökin. Í facebook-samskiptum við C daginn eftir atvikið hafi brotaþoli lýst því að henni hafi verið „fokking nauðgað“ og komi fram í lýsingum hennar í þeim samskiptum að ákærði hafi beitt hana ofbeldi. Þá hafi brotaþoli lýst því að sokkabuxur hennar hefðu verið í tætlum eftir atvikið og fái sá framburður stuðning í framburði systur hennar, sem kvað þær hafa verið rifnar, m.a. í klofinu. Framburður vitna um líðan brotaþola eftir atvikið, einkum föður hennar, systur og vinkonunnar I, þyki vera til marks um að hún hafi orðið fyrir alvarlegu áfalli í umrætt sinn. Loks þyki brotaþoli hafa gefið trúverðugar skýringar á því fyrir dóminum hvers vegna hún dró að leggja fram kæru í málinu. Að mati dómarans er framburður brotaþola trúverðugur, auk þess að fá stoð í læknisfræðilegum gögnum og framburði vitna, sem rakið hafi verið. Að sama skapi þykir framburður ákærða ótrúverðugur og í andstöðu við gögn málsins um veigamikil atriði. Því eigi að leggja framburð brotaþola til grundvallar í málinu. Samkvæmt framansögðu telur dómarinn sannað að ákærði hafi haft kynferðismök við brotaþola og við það notfært sér að þannig var ástatt um hana að hún gat ekki spornað við þeim og jafnframt beitt hana ofbeldi, svo sem í ákæru greinir. Því beri að sakfella ákærða samkvæmt ákæru, gera honum refsingu og dæma hann til að greiða brotaþola miskabætur.

                Með vísan til 2. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 greiðist allur sakarkostnaður úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., 1.125.300 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Kolbrúnar Garðarsdóttur hdl., 306.900 krónur, og réttargæslumanns við lögreglurannsókn málsins, Helgu Völu Helgadóttur hdl., 286.440 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatt.

                Með vísan til 2. mgr. 176. gr. laga um meðferð sakamála ber að vísa einkaréttarkröfu A frá dómi.

                Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari.

                Málið dæmdu héraðsdómararnir Ragnheiður Harðardóttir, sem dómsformaður, Arngrímur Ísberg og Hervör Þorvaldsdóttir.

Dómsorð:

                Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður málsins, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., 1.125.300 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Kolbrúnar Garðarsdóttur hdl., 306.900  krónur, og réttargæslumanns á rannsóknarstigi málsins, Helgu Völu Helgadóttur hdl., 286.440 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Einkaréttarkröfu A er vísað frá dómi.