Hæstiréttur íslands

Mál nr. 84/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Skipulag
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


                                     

Miðvikudaginn 4. mars 2009.

Nr. 84/2009.

Þór Ingólfsson og

Þórdís Tómasdóttir

(Ívar Pálsson hdl.)

gegn

Grímsnes- og Grafningshreppi

(Óskar Sigurðsson hrl.)

 

Kærumál. Skipulag. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.

 

ÞI og ÞT kærðu úrskurð héraðsdóms að því leyti sem kröfu þeirra á hendur G, um ógildingu á breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Kiðjabergs í G, var vísað frá dómi. Héraðsdómur taldi, að þar sem ÞI og ÞT hefðu ekki gert athugsemdir við tillögur í auglýsingu um þessar breytingar, hefðu þau ekki lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfu sinni. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að ætlaður skortur á athugasemdum ÞI og ÞT við skipulagstillöguna skipti ekki máli við mat á því hvort þau hefðu lögvarða hagsmuni af kröfu sinni. Um væri að ræða málsástæðu sem snerti efnislega úrlausn ágreinings málsaðila. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfu ÞI og ÞT til efnislegrar meðferðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 16. febrúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 2. febrúar 2009, þar sem öllum kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi að því er snertir kröfu þeirra um að felld verði úr gildi samþykkt sveitarstjórnar varnaraðila 7. desember 2005 um breytingu á deiliskipulagi Kiðjabergs sem auglýst var í B-deild Stjórnatíðinda 23. ágúst 2006, nr. 721/2006, og að varnaraðila verði gert að birta auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda um að breytingin hafi verið felld úr gildi. Sóknaraðilar krefjast þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka þessa kröfu til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Mál þetta snýst um gildi breytingar á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi, sem tók gildi 23. ágúst 2006. Í héraði kröfðust sóknaraðilar ógildingar á umræddri breytingu og gerðu að auki kröfur um niðurrif tveggja fasteigna á tilteknum lóðum í landinu. Beindu þeir síðarnefndu kröfunum sameiginlega að varnaraðila og eigendum fasteignanna. Í hinum kærða úrskurði var öllum kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila vísað frá dómi og sóknaraðilum gert að greiða honum málskostnað. Með kæru þessari hyggjast sóknaraðilar einungis hnekkja niðurstöðu hins kærða úrskurðar um frávísun á kröfu þeirra um ógildingu á deiliskipulagsbreytingunni en kæra ekki þá niðurstöðu héraðsdóms að vísa frá dómi kröfum þeirra á hendur varnaraðila um niðurrif á tveimur fasteignum.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði var kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila um ógildingu á breytingu á skipulagi vísað frá dómi á þeirri forsendu að sóknaraðilar hefðu ekki gert athugasemdir við tillögur í auglýsingu um þessar breytingar og að þeir hefðu því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfu sinni. Ætlaður skortur á athugasemdum sóknaraðila við skipulagstillöguna sem auglýst var skiptir ekki máli við mat á því hvort þau hafi lögvarða hagsmuni af kröfu sinni. Um er að ræða málsatriði sem snertir efnislega úrlausn ágreinings málsaðila. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka fyrrgreinda kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila til efnislegrar meðferðar.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi að því er snertir kröfu sóknaraðila, Þórs Ingólfssonar og Þórdísar Tómasdóttur, á hendur varnaraðila, Grímsnes- og Grafningshreppi, um að felld verði úr gildi samþykkt sveitarstjórnar varnaraðila 7. desember 2005 um breytingu á deiliskipulagi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi, sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 23. ágúst 2006 með auglýsingu nr. 721/2006, og varnaraðila verði gert að birta auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda um að breytingin hafi verði felld úr gildi.

Varnaraðili greiði sóknaraðilum 100.000 krónur hvoru um sig í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 2. febrúar 2009.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um kröfu stefnda Grímsnes- og Grafningshrepps um frávísun 8. desember sl., er höfðað með stefnu birtri 4. júní 2008.    

Stefnendur eru Þór Ingólfsson, kt. 060555-5249 og Þórdís Tómasdóttir, kt. 290457-2469, bæði til heimilis að Glaðheimum 14, Reykjavík.

Stefndu eru Grímsnes- og Grafningshreppur, kt. 590698-2109, Borg, 801 Selfossi, Pétur Þórarinsson, kt. 100268-3379, Mosabarði 9, Hafnarfirði og Þorsteinn Gunnarsson kt. 271178-3959, Kristnibraut 77, Reykjavík.

Dómkröfur stefnenda á hendur stefnda Grímsnes- og Grafningshreppi eru þær að felld verði úr gildi samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 7. desember 2005, um breytingu á deiliskipulagi Kiðjabergs, sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda þann 23. ágúst 2006, nr. 721/2006, og sveitarfélaginu gert að birta auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda um að breytingin hafi verið felld úr gildi.

Á hendur stefndu Grímsnes- og Grafningshreppi og Pétri Þórarinssyni gera stefnendur þær kröfur að þeim verði gert að fjarlægja sumarhús það sem nú stendur á lóðinni nr. 109 í Kiðjabergi í Grímsnes- og Grafningshreppi, af lóðinni og afmá allt jarðrask og framkvæmdir vegna hússins innan mánaðar frá dómsuppsögu að viðlögðum dagsektum að fjárhæð kr. 50.000 á dag eftir þann tíma.

Á hendur stefndu Grímsnes- og Grafningshreppi og Þorsteini Gunnarssyni gera stefnendur þær kröfur að þeim verði gert að fjarlægja sumarhús það sem nú stefndur á lóðinni nr. 112 í Kiðjabergi í Grímsnes- og Grafningshreppi, af lóðinni og afmá allt jarðrask og framkvæmdir  vegna hússins innan mánaðar frá dómsuppsögu að viðlögðum dagsektum að fjárhæð kr. 50.000 á dag eftir þann tíma.

Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu.

Dómkröfur stefndu Grímsnes- og Grafningshrepps er þær aðallega að kröfum á hendur þessum stefnda verði vísað frá dómi en til vara er krafist sýknu af kröfum stefnenda.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnenda.

Dómkröfur stefndu Þorsteins og Péturs eru þær að þeir verði sýknaðir af dómkröfum stefnenda og þau verði dæmd til greiðslu málskostnaðar.

Í þessum þætti málsins er einungis til úrlausnar frávísunarkrafa stefnda Grímsnes- og Grafningshrepps. Stefnendur krefjast þess að frávísun verði hafnað og þeim verði dæmdur málskostnaður úr hendi þessa stefnda.

Stefnendur lýsa málsatvikum svo að tillaga um breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi hafi verið auglýst í október 2002. Hafi stefnendur gert athugasemdir við tillöguna ásamt fleirum 3. desember sama ár þar sem talið var að verulega hefði verið gengið á rétt þeirra með breytingunni. Ekki hafi verið gert ráð fyrir stækkun á lóð stefnenda þrátt fyrir að hún væri ein sú minnsta á svæðinu á meðan aðrar lóðir hafi verið stækkaðar á kostnað sameiginlegs útivistarsvæðis. Hin auglýsta tillaga var tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 18. desember sama ár og var afgreiðslu málsins frestað. Þar sem umrædd deiliskipulagstillaga hafi ekki verið í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins og auglýsingin ólögmæt að mati Skipulagsstofnunar hafi tillagan verið auglýst á ný ásamt tillögu að breytingu á aðalskipulagi 23. apríl 2004.  Hafi þeim sem gert hefðu athugasemdir við tillöguna á fyrri stigum, þ.m.t. stefnendum, hvorki verið tilkynnt um það né athygli þeirra vakin á auglýsingunni eða eldri athugasemdir látnar gilda áfram. Hafi stefnendur ekki komist að því fyrr en um mitt ár 2005  að tillaga að breyttu skipulagi hefði verið auglýst en þeim hafi ekki verið ljóst hvort tillagan hefði hlotið afgreiðslu. Þau hafi haldið áfram að óska eftir lóðarstækkun til Meistarafélags húsasmiða sumarið 2005 en beiðnum þeirra hafi verið hafnað. Stefnendur hafi leitað lögmannsaðstoðar í kjölfarið og hafi verið sent bréf til byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Meistarafélags húsasmiða sem er eigandi umrædds lands. Hafi engin svör borist. Hafi stefnendur komist að því nokkru síðar að á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 7. desember 2005 hafi sveitarstjórnin samþykkt umrætt deiliskipulag. Hafi stefnendur ætlað sér að kæra deiliskipulagsbreytinguna en ekki getað það þar sem málsmeðferð hennar hafi ekki verið lokið og ákvörðunin ekki kæranleg þar sem auglýsing um gildistöku breytingarinnar hefði ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Í byrjun sumars árið 2006 hafi því enn verið í gildi óbreytt deiliskipulag af svæðinu sem samþykkt hafi verið á fundi skipulagsstjóra ríkisins 9. maí 1990. Stefnendur segjast hafa orðið vör við það í byrjun júní 2006 að framkvæmdir hafi verið hafnar við byggingu sumarbústaða á lóðunum norðan við þeirra lóð að því er virtist samkvæmt hinu breytta skipulagi sem ekki hefði öðlast gildi. Stefnendur kærðu byggingarleyfin 7. júní sama ár og kröfðust stöðvunar framkvæmda. Með bréfi 13. júní sama ár hafi þau ritað Grímsnes- og Grafningshreppi og óskað eftir að rúmlega ársgömlum erindum þeirra yrði svarað, allar framkvæmdir í ósamræmi við skipulagið frá 1990 yrðu stöðvaðar, byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi sem ekki væru í samræmi við skipulagið afturkölluð. Hafi byggingafulltrúi sent handhöfum lóða nr. 112 og 113 beiðni um að stöðva framkvæmdir þar sem skipulagsbreytingin sem leyfin hefðu byggst á hefðu ekki öðlast gildi. Þrátt fyrir þetta hafi verið flutt hús á lóðina nr. 113 í skjóli aðfaranætur 26. júní 2006 og daginn eftir kröfðust stefnendur þess að húsið yrði þegar flutt burt af lóðinni. Ekki hafi orðið við þeirri kröfu. Í byrjun júlí sama ár hafi stefnendur orðið vör við að hafnar væru framkvæmdir á lóð nr. 109. Þrátt fyrir kæru þeirra hafi framkvæmdir haldið áfram að einhverju marki.

Með tveimur úrskurðum uppkveðnum 2. ágúst 2006 hafi úrskurðarnefndin stöðvað framkvæmdir á lóðum nr. 109, 112 og 113 til bráðabirgða og hafi sveitarstjórnin í kjölfarið fellt byggingarleyfin úr gildi þar sem ljóst hefði verið að þau væru ekki í samræmi við deiliskipulag svæðisins frá 1990. Þrátt fyrir þetta hafi framkvæmdir við hús nr. 109 og 113 haldið áfram og þrátt fyrir tilmæli Skipulagsstofnunar til byggingafulltrúa um að stöðva framkvæmdir  hafi allt komið fyrir ekki. Lögmaður stefnenda kom því á framfæri við Skipulagsstofnun að málsmeðferð skipulagstillögu svæðisins hefði verið ólögmæt og fór þess á leit að stofnunin legðist gegn gildistöku breytingarinnar. Í bréfi stofnunarinnar dags. 24. júlí 2006 hafi komið fram að skipulagið hefði borist stofnuninni og verið gerðar athugasemdir við það og jafnframt að tekin yrði afstaða til skipulagsins þegar ný gögn lægju fyrir. Þar sem stefnendur hafi haft í hyggju að kæra deiliskipulagið þegar gildistaka þess yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hafi lögmaður þeirra fylgst vel með auglýsinginum frá Grímsnes- og Grafningshreppi en ekkert hafi bólað á auglýsingu um gildistöku skipulagsins. Í október sama ár hafi lögmaður stefnenda óskað eftir upplýsingum frá Skipulagsstofnun um stöðu málsins en í svarbréfi dags. 1. nóvember sama ár hafi komið fram að auglýsingin hefði verið birt 23. ágúst sama ár undir nafni skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu en ekki sveitarfélagsins eins og venja sé. Hafi stefnendur kært deiliskipulagsbreytinguna samdægurs til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Þau hafi samtímis kært breytingu á skilmálum sama deiliskipulags sem samþykkt hafi verið í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps 21. september 2006 en með þeirri breytingu hafi verið ætlað að veita eftir á heimild til byggingar stærri húsa á lóðum á svæðinu, þ.e. eins og þeirra sem stefnendur hefðu kært, leyfi hefði verið veitt fyrir og byggingaframkvæmdir hafnar. Hafi tillaga að þeirri breytingu verið auglýst til kynningar frá 13. júlí 2006 til 24. ágúst sama ár. Hafi athugasemdum þeirra verið svarað með bréfi skipulagsfulltrúa dags. 22. september sama ár. Eftir auglýsinguna hafi verið bætt við ákvæði um að nýtingarhlutfall mætti ekki vera nema 3% lóðar, hámarkshæð frá gólfi  hækkuð úr 5 m í 6 m, leyft að byggja geymslukjallara undir húsi og fellt úr ákvæði sem hafi kveðið á um að húsin skyldu bara vera á einni hæð.

Með kæru 9. nóvember 2006 kærðu stefnendur á ný byggingaleyfi sem þá höfðu verið veitt á ný fyrir húsum í kringum lóð þeirra og kröfðust enn stöðvunar framkvæmda. Úrskurðarnefndin hafi ekki tekið afstöðu til þeirrar kröfu og hafi framkvæmdir við húsin haldið áfram. Nefndin hafi kveðið upp úrskurði í málunum 4. júlí 2007, mál nr. 87/2006 og 89/2006 og hafi síðari deiliskipulagsbreytingin sem samþykkt hefði verið 21. desember 2006 verið felld úr gildi. Taldi nefndin breytingarnar á deiliskipulaginu sem gerðar hefðu verið eftir auglýsingu þess svo verulegar  að borið hefði að auglýsa tillöguna aftur. Nefndin hafi vísað frá þeim hluta kærunnar sem laut að fyrri breytingunni, þ.e. þeirrar breytingar sem nú sé krafist ógildingar á, þar sem kærufrestur hefði verið liðinn þegar kæra barst. Þá hafi nefndin fellt úr gildi byggingarleyfi húsanna á lóðum nr. 109 og 112 þar sem forsenda þeirra byggingarleyfa hafi verið deiliskipulagsbreyting sem felld hefði verið úr gildi í máli nr. 87/2006. Byggingarleyfi hússins á lóð nr. 113 hafi hins vegar verið talið samræmast að mestu skilmálum skipulagsins fyrir deiliskipulagsbreytinguna og því ekki verið fellt úr gildi.

Þrátt fyrir þessa úrskurði hafi framkvæmdir við húsin verið látnar viðgangast af hálfu stefnda Grímsnes- og Grafningshrepps og hafi ítrekaðar kröfu stefnenda um stöðvun framkvæmda ekki borið árangur. Á fundi 12. júlí 2007 hafi skipulagsnefnd uppsveita Árnesssýslu samþykkt að auglýsa tillögu að breyttum skilmálum sumarhúsasvæðisins en samþykktin hafi ekki hlotið afgreiðslu hreppsnefndar. Þrátt fyrir þetta hafi breytingin verið auglýst til kynningar í Lögbirtingablaðinu 19. júlí sama ár. Hafi nú verið gert ráð fyrir að hámarksstærð húsa gæti orðið allt að 350 m², hámarksmænishæð yrði 6 m og heimilt að byggja 40 m² gestahús o.fl. Vegna grenndarhagsmuna, væntinga og forsögu málsins hafi stefnendur gert ítarlegar athugasemdir við skipulagstillöguna með bréfi 27. ágúst sama ár. Tillagan hafi verið samþykkt á fundi hreppsnefndar stefnda Grímsnes- og Grafningshrepps 6. september sama ár og með bréfi daginn eftir hafi þeim verið tilkynnt um afgreiðslu málsins. Hafi Skipulagsstofnun verið send breytingin til skoðunar og þrátt fyrir að stofnunin legðist gegn því að auglýsing um gildistöku breytingarinnar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda með vísan til 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og einnig sökum þess að efnisinnihald hinna breyttu skilmála væri óskýrt hafi auglýsing birst í Stjórnartíðindum 24. september sama ár. Hafi stefnendur með kæru sama dag krafist stöðvunar réttaráhrifa og ógildingar skipulagsákvörðunarinnar.

Þrátt fyrir að enn hefðu ekki verið samþykkt ný byggingarleyfi fyrir húsin á lóðunum nr. 109 og 112 hafi framkvæmdir við þau haldið áfram og hafi hið stefnda sveitarfélag látið það óátalið þrátt fyrir athugasemdir stefnenda. Með bréfi til sýslumanns 19. september 2007 hafi stefnendur krafist þess að ekki yrði frekar unnið í húsi nr. 112 þar sem hið stefnda sveitarfélag hefði ekki stöðvað framkvæmdir á lóðinni. Þann 25. september sama ár hafi byggingarnefnd uppsveita Árnessýslu og Flóa samþykkt í þriðja sinn byggingarleyfi fyrir sumarhúsum að lóðunum nr. 109 og 112 og hafi sveitarstjórn staðfest þá afgreiðslu nefndarinnar á fundi 4. október sama ár.  Stefnendur kærðu samdægurs þessa samþykkt og kröfðust stöðvunar framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá nefndinni og ógildingar leyfanna. Úrskurðarnefndin hafi kveðið upp bráðabirgðaúrskurð 11. október sama ár þar sem hafnað hafi verið kröfu stefnenda um stöðvun byggingarframkvæmda á þeim forsendum að þær væru langt komnar og hætta væri á skemmdum yrðu þær stöðvaðar. Í kjölfarið kröfðust stefnendur lögbanns á framkvæmdir við framangreind hús en með úrskurði uppkveðnum 15. nóvember 2007 hafnaði sýslumaðurinn á Selfossi þeirri kröfu.  Hafi framkvæmdir við húsin því enn haldið áfram.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi fellt tvo úrskurði í málum nr. 122/2007 og 131/2007 og vörðuðu kærur stefnenda. Með úrskurði í síðara málinu hafi nefndin enn einu sinni fellt úr gildi breytingu á deiliskipulagsskilmálum. Nefndin miðaði við að á umræddu svæði hefði einungis verið heimilt að reisa sumarhús sem að hámarki mættu vera 60 m². Liggi fyrir í málinu að veitt hafi verið leyfi til byggingar sumarhúsa á svæðinu áður en hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi tekið gildi sem m.a. hafi verið langt umfram þær stærðarheimildir samkvæmt eldri skipulagsskilmálum. Nefndin vísaði til 2. og 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og taldi að ekki yrði séð að tekin hefði verið með skýrum hætti afstaða til þessara lagaákvæða þegar ákvörðun hafi verið tekin um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu þrátt fyrir ábendingu Skipulagsstofnunar þar að lútandi. Var hin kærða deiliskipulagsbreyting því felld úr gildi. Með hinum síðari úrskurði komst nefndin að þeirri niðurstöðu að leyfi fyrir byggingum á lóðum nr. 109 og 112 hafi ekki verið í samræmi við gildandi ákvæði skipulags- og byggingarlaga og útgáfa leyfanna því í andstöðu við ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga þar sem áskilið sé að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag. Voru leyfin því felld úr gildi. Kröfu kærenda um að byggingarleyfishöfum verði gert að afmá framkvæmdir af lóðum sínum var vísað frá nefndinni þar sem krafan hefði ekki komið til úrlausnar á lægra stjórnsýslustigi.

Með bréfi til stefnda Grímsnes- og Grafningshrepps dags. 21. janúar 2008 kröfðust stefnendur þess að umrædd hús yrðu fjarlægð en engin viðbrögð hafi borist frá stefnda.

Stefnendur byggja á því að málsmeðferð vegna breytingar á skipulagi sem samþykkt hafi verið 7. desember 2005 hafi ekki verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Hafi deiliskipulagsbreytingin verið auglýst á ný án þess að tilkynna stefnendum sem gert hefðu athugasemdir við tillöguna við fyrri auglýsingu. Hafi stefnda Grímsnes- og Grafningshreppi mátt vera ljóst að sömu sjónarmið hafi verið uppi af hálfu þeirra sem gert hefðu athugasemdir enda hafi tillagan verið óbreytt. Þessi stefndi hafi í bréfi 2. janúar 2003 tekið fram að afgreiðslu málsins væri frestað og hafi stefnendur því mátt treysta því að verða tilkynnt um framhald málsins. Hafi stefnendur verið algjörlega grunlausir um að málið hefði verið sett í þann farveg að auglýsa tillöguna á ný og hafi ekki komið að andmælum við henni þegar hún hafi verið auglýst aftur. Þeim hefði ekki verið tilkynnt um að sveitarstjórnin hefði lokið afgreiðslu fyrri tillögunnar, hvað þá að Skipulagsstofnun hefði gert athugasemd við að tillagan væri ekki í samræmi við ákvæði aðalskipulags og þyrfti að auglýsa hana að nýju. Brjóti þessi málsmeðferð gegn 3. mgr. 25. gr. laga nr. 73/1997. Þá brjóti málsmeðferðin gegn þeirri meginreglu að við gerð skipulagsáætlana skuli tryggja samráð við þá sem hagsmuna eigi að gæta, sbr. 4. mgr. 9. gr. laganna og sé þetta áréttað í grein 3.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Stefnendur minna á að málsmeðferðarreglur laganna eigi að tryggja andmælarétt þeirra sem hagsmuna eigi að gæta með sama hætti og andmælaregla 13. gr. stjórnsýslulaga. Leiði brot á andmælarétti undantekningalítið til ógildingar ákvörðunar og þá feli brot á andmælarétti einnig í sér brot á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Hefði stefndu borið að tilkynna stefnendum um meðferð málsins eða láta fyrri athugasemdir gilda áfram.

Stefnendur byggja á því að með hliðsjón af þeim langa tíma sem liðið hafi frá auglýsingu tillögunnar þar til hún öðlaðist gildi, eða rúm tvö ár, hefði átt að auglýsa tillöguna að nýju til að tryggja andmælarétt hagsmunaaðila, enda ljóst að margir nýir  lóðarhafar gætu hafa bæst við á svo löngum tíma. Þá telja stefnendur að málsmeðferðin hafi brotið gegn þeirri meginreglu að tryggja réttaröryggi einstaklinga við meðferð skipulagsmála, sbr. 1. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Stefnendur telja að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og sé deiliskipulagsbreytingin þar með andstæð lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Auk almennra mótmæla við breytingu á skipulaginu sem auglýst hafi verið árið 2002 hafi stefnendur gert sérstaka athugasemd við að ekki væri gert ráð fyrir stækkun á þeirra lóð, en hún sé ein sú minnsta á svæðinu. Hafi tillagan hins vegar gert ráð fyrir að lóðir allt í kringum stefnendur væru stækkaðar á kostnað lóðafjölda og sameiginlegra útisvæða. Til að tryggja grenndarrétt og útivist hafi hagsmunir þeirra af því að fá lóðina stækkaða verið enn ríkari en áður. Í umsögn um athugasemdir stefnenda um lóðarstækkun vegna fyrri auglýsingar skipulagsins hafi komið fram að sveitarstjórnin taki ekki afstöðu til stærða lóða sem séu um 0,5 ha. Verði að ganga út frá því að það sjónarmið hafi m.a. legið að baki því að tillagan hafi verið auglýst og samþykkt á ný án þess að gert væri ráð fyrir stækkun á lóð stefnenda þrátt fyrir athugasemd þeirra.  Telja stefnendur þá afstöðu stefnda ólögmæta með hliðsjón af jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Hafi stefnda borið að gæta hagsmuna stefnenda og annarra lóðarhafa á svæðinu í samræmi við ákvæði 1. gr. laga nr. 37/1997. Hafi engin lögmæt og málefnaleg sjónarmið verið færð fram fyrir slíkri mismunun og megi færa að því rök að með stækkun annarra lóða og minnkun aðliggjandi útivistarsvæða sé eðlilegt að stækka lóð stefnenda til að tryggja grenndarhagsmuni þeirra. Hafi hin ólögmæta mismunun haft í för með sér að verðmæti lóðar og sumarhúss stefndu verði til framtíðar minna en stærri lóðanna.

Stefnendur telja umrædda breytingu skerða grenndarrétt og réttmætar væntingar þeirra með þeim hætti að skerðingin sé ólögmæt og þar með ógildanleg. Hafi stefnendur mátt treysta því að grundvallarbreytingar yrðu ekki gerðar á skipulaginu nema veigamikil málefnaleg rök og lögmæt sjónarmið lægju þar að baki.  Verði almenningur að geta treyst því að ekki verði gerðar breytingar á slíkum áætlunum nema til að þjóna almannahagsmunum. Hafi breytingin leitt til verulegrar skerðingar á opnum útivistarsvæðum við lóð stefnenda á kostnað stærri lóða og skerði þannig möguleika þeirra til útivistar. Stækkun byggingarreita og stærri lóðir en stefnendur hafi mátt gera ráð fyrir við kaup á lóðarréttindum veiti möguleika á byggingu stærri húsa og þar með enn meiri grenndaráhrifum. Verði breytingin ekki felld úr gildi sé forsenda fyrir veru stefnenda á svæðinu brostin og ljóst sé að áhrif breytinganna hefðu orðið minni ef lóð þeirra hefði verið stækkuð sambærilega við aðrar lóðir.

Stefnendur vísa til 4. mgr. 56. gr. laga nr. 37/1997 og segja óumdeilt að engin þeirra bygginga, byggingarhluta eða jarðrask sem ráðist hefði verið í á lóðum nr. 109, 112 og 113, eða öðrum lóðum á svæðinu, hafi verið fjarlægðar áður en deiliskipulagsbreytingin öðlaðist gildi í ágúst 2006. Ljóst sé að allar þessar framkvæmdir hafi verið í ósamræmi við þágildandi skipulag og því óheimilt að breyta skipulaginu fyrr en mannvirki hefðu verið fjarlægð eða afmáð.  Það hafi ekki verið gert og sé breytingin því ólögmæt og ógildanleg.

Stefnendur rökstyðja kröfu um niðurrif húsa og mannvirkja á lóðum nr. 109 og 112 með því að samkvæmt 9. gr. laga nr. 37/1997 skuli bygging húsa og annarra mannvirkja ofan jarðar og neðan og aðrar framkvæmdir og aðgerðir sem áhrif hafi á umhverfið og breyta ásýnd þess vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. ákvæði 43. gr. laganna um veitingu byggingarleyfis og ákvæði 27. gr. um veitingu framkvæmdaleyfis. Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laganna beri byggingarfulltrúa að stöðva byggingarframkvæmd tafarlaust sé hún hafin án þess að leyfi hafi fengist fyrir henni og hún brýtur í bága við skipulag eða framkvæmd er hafin með byggingarleyfi sem brýtur í bága við skipulag. Skuli hin ólöglega bygging eða byggingarhluti fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Samkvæmt 4. gr. 56. gr. laganna sé jafnframt óheimilt að breyta deiliskipulagi þar sem byggt hefur verið í andstöðu við skipulag fyrr en hin ólögmæta bygginga hafi verið fjarlægð. Hafi byggingarleyfi fyrir hús nr. 109 og 112 upphaflega verið veitt og framkvæmdir hafnar áður en hin umdeilda skipulagsbreyting frá 7. desember 2005, sem krafist er ógildingar á, hafi öðlast gildi 23. ágúst 2006. Hafi byggingarleyfin verið samþykkt og framkvæmdir hafnar meðan skipulagsskilmálar þágildandi deiliskipulags frá árinu 1990, sbr. gr. 6.10.4.6. í byggingarreglugerð nr. 292/1979 voru í gildi.  Samkvæmt þeim skilmálum hafi verið óheimilt að reisa stærri hús á svæðinu er 60 m², en bæði húsin séu langt yfir þeirri stærð og að ýmsu öðru leyti í ósamræmi við skilmálana hvað varði hæð, útlit o.fl. Hafi hið stefnda sveitarfélag viðurkennt að leyfin hafi ekki verið í samræmi við skipulagið á þeim tíma sem þau hafi verið gefin út og framkvæmdir hófust, enda hafi stefndi fellt leyfin úr gildi. Sé þegar af þeirri ástæðu ljóst að stefnda Grímsnes- og Grafningshreppi beri að hlutast til um að eigendur hinna ólögmætu húsa og framkvæmda á lóðunum nr. 109 og 112 fjarlægi mannvirkin. Stefnendur minna á að engin byggingarleyfi séu í gildi fyrir húsunum í dag með vísan til niðurstöðu úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 8. janúar 2008. Hafi hið stefnda sveitarfélag í tvígang reynt að breyta skipulagsskilmálum svæðisins til samræmis við þær framkvæmdir sem hafnar hafi verið á lóðunum. Stefnendur hafi í bæði skiptin gert ítarlegar athugasemdir við breytingarnar en stefndi hafi hundsað athugasemdir stefnenda og veitt byggingarleyfi á ný. Úrskurðarnefndin hafi fellt breytingarnar úr gildi með úrskurðum 4. júlí 2007 og 8. janúar 2008.

Stefnendur telja ljóst að byggingarframkvæmdir húsanna hafi aldrei verið í samræmi við deiliskipulag og allar framkvæmdir við húsin og lóðirnar því ólögmætar. Þrátt fyrir að stefnendur hafi reynt með öllum ráðum að koma í veg fyrir framkvæmdirnar hafi ný leyfi ávallt verið veitt og framkvæmdir látnar halda áfram, jafnvel eftir að byggingarleyfi hefðu verið felld úr gildi. Hafi öllum stefndu verið þetta ljóst eða mátt vera ljóst en þrátt fyrir það hafi framkvæmdum verið  haldið áfram eða þær verið látnar viðgangast. Hafi allir stefndu vitað eða mátt vita um þá áhættu sem þeir hafi tekið með því að hefja framkvæmdir við byggingu húsanna og halda þeim áfram þrátt fyrir athugasemdir stefnenda og vísan þeirra til 56. gr. laga nr. 37/1997.  Hafi stefndu og ráðgjafar þeirra verið grandsamir um ólögmæti framkvæmdanna og hafi þær verið látnar viðgangast í trausti þess að stefnendur gæfust upp og dómstólar hefðu ekki kjark til að láta fjarlægja svo dýr mannvirki þegar þau hefðu verið byggð.

Stefnendur byggja kröfu um dagsektir á 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 og málskostnaðarkrafa er reist á 1. mgr. 129. gr.og 1. og 3. mgr. 130. gr. sömu laga.

Stefndi Grímsnes- og Grafningshreppur byggir á því að umrædd deiliskipulagsbreyting, sem tekið hafi gildi 23. ágúst 2006, hafi verið auglýst samhliða breytingu á aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2002-2014 frá 28. apríl til 26. maí 2004 með frest til athugasemda til 9. júní 2004. Í auglýsingunni sé tekið fram að hver sá, sem ekki geri athugasemdir við tillöguna innan tilskilins frests, teljist vera samþykkur henni. Engar athugasemdir hafi verið gerðar, hvorki af hálfu stefnenda né annarra og hafi sveitarstjórn hreppsins samþykkt deiliskipulagsbreytingu 7. desember 2005. Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemdir við að sveitarstjórnin birti auglýsingu í B-deild stjórnartíðinda með bréfi dags. 19. ágúst 2006 og hafi auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar birst 23. ágúst sama ár.

Stefndi byggir á því að í 25. gr. laga nr. 73/1997 segi að þegar sveitarstjórn hafi samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skuli hún auglýst og kynnt á sama hátt og kveðið sé á um varðandi auglýsingu aðalskipulags í 1. og 2. mgr. 18. gr. laganna. Þar segi m.a. að í auglýsingu skuli hverjum þeim aðila sem telji sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests sem eigi skuli vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingar. Skuli taka fram hvert skila skuli athugasemdum og að hver sá sem eigi geri athugasemdir við auglýsta tillögu innan tilskilins frests teljist samþykkur henni. Stefnandi Þór hafi gert athugasemdir með bréfi dags. 16. nóvember 2002 þegar auglýst hafi verið breyting á deiliskipulagi Kiðjabergs það ár. Hafi fleiri athugasemdir verið gerðar og málið því tekið sérstaklega fyrir hjá skipulagsnefnd sveitarfélagsins. Hafi stefnendum verið tilkynnt um það sérstaklega. Breytingar hafi verið gerðar á skipulaginu þar sem tekið hafi verið tillit til framkominna athugasemda, eins og tekið hafi verið fram í auglýsingunni, m.a. hafi legu golfvallar verið breytt, breyting verið gerð á vegstæði o.fl. Því hafi það verið auglýst að nýju og þá hafi engar athugasemdir borist. Það hafi ekki verið fyrr en með kæru til úrskurðarnefndar 1. nóvember 2006 að stefnendur hafi gert athugasemdir við umrædda deiliskipulagsbreytingu, þó að þeim, líkt og öðrum íbúum og fasteignareigendum í sveitarfélaginu hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um tillöguna á kynningartíma hennar.

Stefndi byggir á því að af framangreindu ákvæði laga nr. 73/1997 leiði að þeir sem ekki komi á framfæri athugasemdum sínum vegna auglýsingar á tillögu að deiliskipulagi, teljist samþykkir henni. Geti stefnendur, sem að lögum teljist hafa verið samþykkir umræddri deiliskipulagstillögu, ekki síðar í dómsmáli haft uppi kröfu um ógildingu skipulagsákvörðunar sem samþykkt hafi verið á grundvelli tillögunnar án breytinga er varðað geti hagsmuni þeirra. Geti stefnendur ekki átt aðild að slíkri kröfugerð og geta ekki átt lögvarinna hagsmuna að gæta í skilningi 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

Þá hafi stefnendur að mati stefnda ekki skýrt hagsmuni sína af kröfu um ógildingu á þessari deiliskipulagsbreytingu, sem lotið hafi að stækkun á golfvelli og breytingu á 32 lóðum á skipulagssvæðinu, tveimur árum eftir að skipulagið hafi tekið gildi. Hafi verið unnið eftir þessu skipulagi undanfarin tvö ár og hafi það verið forsenda fyrir stofnun lóða á svæðinu, þ.e. myndun eigna í fasteignamati. Stefnendur, sem séu eigendur lóðar nr. 111, hafi notið lögfræðiaðstoðar frá því áður en skipulagið hafi tekið gildi og hefði verið eðlilegt að beina ógildingarkröfu fyrir dómstóla fljótlega eftir að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála vísaði kröfu þeirra frá. Geti stefnendur ekki átt beina, einstaklega og lögvarða hagsmuni að fá umrætt deiliskipulag í  heild sinni fellt úr gildi svo löngu eftir gildistöku þess. Þá geti hagsmunir þeirra af umræddu deiliskipulagi ekki talist meiri en annarra íbúa sveitarfélagsins eða annarra fasteignareigenda á svæðinu. Beri því að vísa þessum kröfulið frá dómi.

Stefndu telja ekki ljóst hvað átt sé við með þeirri kröfugerð stefnenda að sveitarfélaginu og eigendum frístundahúsa á lóðum nr. 109 og 112 verði gert in solidum að fjarlægja húsin af lóðinni að viðlögðum dagsektum. Þessi kröfugerð sé ekki nægjanlega skýrð í stefnu og samaðild stefndu ekki útskýrð eða með hvaða hætti þessir aðilar eigi í sameiningu að fjarlægja húsin. Stefnendur vísi til 2. og 4. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1997 en skýri ekki hvernig þeir geti borið óskipta ábyrgð til þeirra athafna sem lýst sé í kröfugerð stefnenda. Þá sé því haldið fram í stefnu að sveitarfélagið eigi að hlutast til um að fjarlægja húsin. Sé ekki skýrt nánar við hvað sé átt eða með hvaða hætti þessir aðilar eigi í sameiningu að hlutast til um þessa tilteknu framkvæmd. Sé slík kröfugerð ekki dómtæk og uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um glögga kröfugerð.  Beri því að vísa þessum kröfulið frá dómi.

Eins og hér hefur verið rakið samþykkti sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps breytingu á deiliskipulagi Kiðjabergs 7. desember 2005 og hafa stefnendur gert þá kröfu að samþykktin verði felld úr gildi. Breytingin var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 23. ágúst 2006 samhliða breytingu á aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2002-2014 frá 28. apríl til 26. maí 2004 með frest til athugasemda til 9. júní 2004. Stefnandi Þór mun hafa gert athugasemdir 16. nóvember 2002 þegar auglýst hafi verið breyting á deiliskipulagi Kiðjabergs það ár. Hið stefnda sveitarfélag segir breytingar hafa verið gerðar á skipulaginu þar sem tekið hafi verið tillit til framkominna athugasemda og það hafi því verið auglýst að nýju. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 18. gr. laga nr. 73/1997, sbr. 25. gr. laganna, skal í auglýsingu um tillögu að aðalskipulagi og deiliskipulagi tilgreina hvar tillagan er til sýnis og hve lengi og skal sá tími ekki vera skemmri en fjórar vikur. Í auglýsingu skal hverjum þeim aðila sem telur sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests sem eigi skal vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingar. Tekið skal fram hvert skila skuli athugasemdum og að hver sá sem eigi geri athugasemdir við auglýsta tillögu innan tilskilins frests teljist samþykkur henni. Óumdeilt er að engar athugasemdir bárust frá stefnendum við tillöguna innan tilskilins frests. Leiðir þetta til þess að stefnendur hafa ekki lögvarða hagsmuni af því að leyst verði úr þessari kröfu þeirra, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Verður þessum kröfulið stefnenda því vísað frá dómi.

Stefnendur gera kröfu á hendur stefndu þess efnis að þeim verði in solidum gert að fjarlægja sumarhús á lóðum nr. 109 og 112 í Kiðjabergi sem stefnendur telja að hafi risið þar á grundvelli ólögmætra byggingarleyfa. Hið stefnda sveitarfélag veitti byggingarleyfin  í skjóli valdheimilda sinna sem stjórnvald en stefndu Pétur og Þorsteinn reistu húsin og eru eigendur þeirra. Stefnendur reisa þessar kröfur sínar á 2. og 4. mgr. 56. gr. laga nr. 73/1997 og verður að telja að þeim sé heimilt með vísan til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 að sækja stefndu saman í einu máli, en stefnendur hafa að mati dómsins ekki skýrt hvernig slík krafa verði höfð uppi á hendur þeim sameiginlega á grundvelli tilvitnaðra ákvæða skipulags- og byggingarlaga.  Verður þessum kröfulið stefnenda því einnig vísað frá dómi.

Eftir þessum úrslitum ber að úrskurða stefnendur til að greiða stefnda Grímsnes- og Grafningshreppi 350.000 krónur í málskostnað.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan. Uppkvaðning hans hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.

Úrskurðarorð:

Öllum kröfum stefnenda, Þórs Ingólfssonar og Þórdísar Tómasdóttur, á hendur stefnda, Grímsnes- og Grafningshreppi, er vísað frá dómi.

Stefnendur greiði stefnda Grímsnes- og Grafningshreppi 350.000 krónur í málskostnað.