Hæstiréttur íslands
Mál nr. 614/2013
Lykilorð
- Börn
- Skóli
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 13. febrúar 2014. |
|
Nr. 614/2013. |
Jakub Musial (Grímur Sigurðarson hrl.) gegn Vátryggingafélagi
Íslands hf. (Heiðar Örn Stefánsson hrl.) |
Börn. Skóli.
Skaðabætur.
J varð fyrir líkamstjóni er hann féll niður
við steinvegg í frímínútum fyrir utan leiksvæði Árbæjarskóla í Reykjavík.
Krafðist J þess að viðurkennd yrði bótaskylda V hf. vegna atviksins. Var krafa
J annars vegar reist á því að saknæmur vanbúnaður hefði verið á útivistarsvæði
nemenda við skólanna þar sem lóð hans hefði ekki verið afmörkuð eða för nemenda
yfir á lóð Árbæjarkirkju, þar sem atvikið átti sér stað, hindruð. Hins vegar
var krafa J byggð á því að starfsmenn skólans hefðu sýnt af sér saknæma vanrækslu
við eftirlit með nemendum í frímínútum umrætt sinn. Hæstiréttur taldi J hvorki
hafa fært fram haldbær rök fyrir því að aðstæður á lóð skólans hefðu ekki
samrýmst fyrirmælum í reglum sem giltu um þær né að þær hefðu af öðrum ástæðum
talist saknæmar. Þá hefði J heldur ekki sýnt fram á að gæslu nemenda hefði
verið áfátt svo að saknæmt og ólögmætt gæti talist. Var V hf. því sýknað af
kröfu J.
Dómur
Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar með stefnu, sem barst réttinum 3. september 2013 og var útgefin 18. sama mánaðar. Hann krefst þess að viðurkennd verði bótaskylda stefnda vegna líkamstjóns, sem hann varð fyrir 7. desember 2009 þegar hann hafi fallið niður við steinvegg í frímínútum fyrir utan leiksvæði Árbæjarskóla í Reykjavík. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að bótaskylda hans við áfrýjanda verði aðeins viðurkennd að hluta. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og greinir í héraðsdómi reisir áfrýjandi fyrrgreinda dómkröfu um viðurkenningu á rétti sínum til skaðabóta á tveimur málsástæðum. Annars vegar að saknæmur vanbúnaður hafi verið á útivistarsvæði nemenda við Árbæjarskóla með því að lóð hans hafi ekki verið afmörkuð eða á nokkurn hátt hindruð för þeirra yfir á lóð Árbæjarkirkju, þar sem áfrýjandi varð fyrir slysinu. Hins vegar að það verði rakið til saknæmrar vanrækslu starfsmanna skólans við eftirlit með nemendum í frímínútum að áfrýjandi hafi óáreittur getað farið af skólalóðinni á staðinn við kirkjuna, þar sem slysið varð.
Áfrýjandi hefur ekki fært haldbær rök fyrir því að aðstæður á lóð Árbæjarskóla hafi ekki á þeim tíma, sem slysið varð, samrýmst fyrirmælum í reglum, sem giltu um þær og raktar eru í héraðsdómi, eða hafi af öðrum ástæðum getað talist saknæmar. Áfrýjandi hefur heldur ekki sýnt fram á að gæslu með nemendum í frímínútum hafi verið áfátt svo að saknæmt og ólögmætt gæti talist, en ekki liggur fyrir að áfrýjandi hafi vegna þroska þarfnast frekara eftirlits en jafnaldrar hans í skólanum. Þegar af þessum sökum verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti verður látinn falla niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Jakub Musial, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 17. maí
síðastliðinn, var höfðað 6. júní 2012 af Katarzyna Joanna Slezak-Musial
og Krysztof Musial, f.h.
ólögráða sonar þeirra, Jakup Musial,
Hraunbæ 178, Reykjavík, gegn Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3,
Reykjavík, til viðurkenningar á bótaskyldu.
Dómkröfur stefnanda eru að viðurkennt
verði með dómi að stefndi sé bótaskyldur vegna líkamstjóns sem stefnandi hafi
orðið fyrir þann 7. desember 2009, þegar hann féll niður af steinvegg í
frímínútum fyrir utan leiksvæði Árbæjarskóla í Reykjavík. Krafist er
málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu eins og málið væri eigi
gjafsóknarmál og virðisaukaskatts á málskostnað þar sem stefnandi er ekki
virðisaukaskattskyldur.
Af hálfu stefnda er aðallega krafist
sýknu af kröfu stefnanda og jafnframt málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt
mati dómsins. Komi til þess að stefndi verði dæmdur til viðurkenningar á
skaðabótaskyldu er gerð varakrafa um að sök verði skipt þannig að
skaðabótaskylda stefnda verði aðeins viðurkennd að hluta til en að stefnandi
beri að öðru leyti tjón sitt sjálfur vegna eigin sakar.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi var
tæplega átta og hálfs árs gamall nemandi í Árbæjarskóla 7. desember 2009 þegar
hann fór í frímínútum í hádegi út af lóð skólans og að Árbæjarkirkju. Lóðir
skólans og kirkjunnar liggja saman en ekki er girt á milli lóðanna. Samkvæmt gögnum málsins fór stefnandi
upp á eða hoppaði yfir steinvegg sem
markar inngang kirkjunnar. Hann hafi þá fallið niður um það bil tvo metra og
lent á vinstri síðu og rekið vinstri hlið höfuðs í gangstétt. Í umsögn
skólastjóra Árbæjarskóla 11. mars 2011 kemur fram að eftir hádegishlé nemenda
slysdaginn hafi stefnandi komið inn í skólann í fylgd félaga síns sem hafi tjáð
umsjónarkennara að stefnandi hefði skollið harkalega með höfuðið í stéttina við
Árbæjarkirkju. Félaginn hafi sagt að þeir hefðu verið að hoppa yfir vegg við
inngang kirkjunnar og stefnandi hefði fallið niður með höfuðið í stéttina fyrir
neðan. Strax hafi verið hringt á sjúkrabíl.
Stefnandi viðbeinsbrotnaði við fallið og hlaut beinleiðniheyrnartap á vinstra eyra
sem í matsgerð 13. október 2011 er metið til átta prósenta varanlegrar
læknisfræðilegrar örorku. Krafa um greiðslu bóta úr ábyrgðartryggingu
Fræðslusviðs Reykjavíkurborgar vegna slyssins var send Vátryggingafélagi
Íslands hf., 20. janúar 2011. Stefndi hafnaði bótaskyldu 10. maí 2011 og
úrskurðarnefnd í vátryggingamálum staðfesti í úrskurði sínum 9. ágúst 2011 að
bótaskylda væri ekki fyrir hendi.
Málsaðila greinir á um það hvort
bótaábyrgð vegna slyssins verði lögð á Árbæjarskóla þannig að bætur séu kræfar
úr fyrrnefndri ábyrgðartryggingu Fræðslusviðs Reykjavíkurborgar hjá stefnda.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Krafa stefnanda um
viðurkenningu á bótaskyldu byggir á sakarreglunni og óskráðri meginreglu
íslensks skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð.
Að mati stefnanda
hafi aðstæður á leiksvæði skólans þegar slysið varð verið þannig að brotið hafi
verið gegn ákvæði 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 657/2009, um gerð og búnað
grunnskólahúsnæðis og skólalóða. Þar segi að húsnæði, lóð, aðstaða, búnaður og
öll starfsemi sem börn taka þátt í á vegum grunnskóla skuli miðast við að
öryggi nemenda sé tryggt. Vísar stefnandi til 20. gr. laga nr. 91/2008 um
grunnskóla, þar sem segi að húsnæði og allur aðbúnaður skuli taka mið af því að tryggja
öryggi nemenda.
Þegar slysið varð
hafi stefnandi farið lengra en sem nemi skólalóð Árbæjarskóla, eða um 60 metra
frá enda lóðarinnar að Árbæjarkirkju. Í 2. mgr. 7. gr. reglugerðar um öryggi og
slysavarnir segi m.a. að nemandi sé á ábyrgð skólans meðan á daglegum
starfstíma skólans standi. Beri því að tryggja að nemendur skólans séu öruggir
í leik sínum þegar frímínútur standi yfir og að þeim sé ekki gert kleift að
ráfa svo langt út af lóð skólans, eins og raunin hafi verið við slysið, í
aðstæður sem geti verið hættulegar. Aðeins sé tæplega hálfs metra hátt skilrúm
sem standi milli gangstéttar og brúnar og því sé ljóst að aðstæður við
Árbæjarkirkju verði að teljast hættulegar átta ára börnum. Slyssvæðið sé ekki í
sjónlínu frá skólalóð Árbæjarskóla og því ljóst að ekki hafi verið mögulegt
fyrir starfsmenn skólans að fylgjast með leik nemenda sinna þar. Beri
starfsmönnum skólans að fylgjast með nemendum sínum, enda séu þeir á þeirra
ábyrgð á skólatíma.
Öryggis hafi ekki
verið gætt á skólastað stefnanda enda hafi hvorki verið gengið þannig frá
skólalóð að ómögulegt væri fyrir nemendur þar að komast að því hættulega svæði
þar sem slysið hafi átt sér stað, né hafi fullnægjandi eftirlit verið haft með
stefnanda og skólasystkinum hans við leik þeirra í umræddum frímínútum. Telja
verði að koma hefði mátt í veg fyrir slysið með betra eftirliti á slysstað og
einnig hefði verið auðframkvæmanlegt að koma fyrir girðingu eða skilrúmi sem
hefði afmarkað skólalóðina þannig að ekki væri eins auðvelt og raun hafi borið
vitni að komast að slysstað.
Telji stefnandi að
fyrir liggi að aðstæður á skólalóð Árbæjarskóla hafi ekki verið í samræmi við
þær kröfur sem lög og reglur geri. Þá hafi öryggisreglur verið brotnar og
ráðstafanir ekki gerðar til að tryggja öryggi nemenda. Hægt hefði verið, með
lágmarks fyrirhöfn og tilkostnaði, að tryggja öryggi stefnanda og þannig koma í
veg fyrir slys. Því hafi ekki verið sinnt og telji stefnandi því að
Reykjavíkurborg beri ábyrgð á tjóni stefnanda vegna slyssins og honum beri
bætur úr ábyrgðartryggingu Reykjavíkurborgar hjá stefnda, Vátryggingafélagi
Íslands hf.
Stefnandi hafni því að hann verði
látinn bera ábyrgð á því að fylgja ekki skólareglum Árbæjarskóla með því að
hafa farið út af lóðinni. Ekki sé óalgengt að börn séu að leik á umræddu svæði
við Árbæjarkirkju. Nemendur séu einnig ítrekað fyrir utan lóð skólans í námunda
við það svæði sem um ræðir eða vestan megin við skólann. Þar við hliðina á
húsnæði skólans, að Rofabæ 30, sé til húsa félags- og frístundamiðstöð og milli
skólalóðarinnar og þess húsnæðis sé leikvöllur þar sem nemendur skólans séu
iðulega að leik í frímínútum. Frá því leiksvæði sé kirkjusvæðið í aðeins
nokkurra metra fjarlægð og ekkert þessara svæða sé aðskilið sérstaklega hvert
frá öðru. Það hljóti þess vegna að teljast erfitt fyrir nemendur á aldur við
stefnanda, sem var átta ára á slysdegi, að gera sér grein fyrir hvaða svæði sem
ekki tilheyri skólanum séu bannsvæði fyrir nemendur og hvaða svæði séu heimil
sem leiksvæði í frímínútum.
Stefndi segi starfsmenn skólans leggja mikla
áherslu á að upplýsa nemendur um það mikilvægi að fara aldrei út fyrir
skólalóðina á skólatíma, og taki fram að það sé m.a. gert í ljósi þess
umhverfis sem er í kringum skólann og taki sérstaklega fram sem dæmi
Elliðaárnar. Stefnandi telji ólíku saman að jafna, Elliðaánum, sem séu í
töluvert meiri fjarlægð frá skólalóðinni en kirkjulóð Árbæjarkirkju. Auk þess
sem augljóst ætti að vera fyrir nemendur skólans, á hvaða aldri sem væru, að
gera sér grein fyrir að þeir væru komnir langt út fyrir lóð skólans þegar komið
sé í námunda við Elliðaárnar. Telji stefnandi að í ljósi þeirrar venju
starfsmanna Árbæjarskóla að leyfa nemendum að leika sér fyrir utan skólalóðina,
á leiksvæði Rofabæjar 30 og nálægð þeirrar lóðar við lóð Árbæjarkirkju, að á
þeim hafi hvílt sérstök eftirlitsskylda við þá nemendur sem leiki sér á því
svæði og kunni að ráfa út af þeirri lóð að kirkjunni. Ljóst sé að veggur sá er
stefnandi hafi fallið niður af sé sérlega hættulegur ungum börnum og því hafi
starfsmönnum skólans borið að tryggja sérstaklega að nemendur væru ekki
eftirlitslausir þar.
Telji stefnandi að krafa stefnda um
að átta ára drengur sýni sérstaka aðgæslu við leik sé ekki raunhæf. Ljóst sé að
kröfur um aðgæsluskyldu barna séu mun vægari en fullorðinna. Það sé á ábyrgð
skólans að sjá til þess að lögum og reglum sé sinnt og telji stefnandi ljóst að
aðbúnaður sá sem í kringum Árbæjarskóla sé taki ekki mið af því að tryggja
öryggi nemenda.
Stefnandi telji því ljóst að brot
gegn reglum um öryggi og slysavarnir á skólastað hafi valdið slysinu 7.
desember 2009. Á því beri Reykjavíkurborg ábyrgð og stefnda beri því að greiða
stefnanda bætur úr ábyrgðartryggingu sem Reykjavíkurborg hafi á slysdegi haft
hjá stefnda. Það leiði af meginreglu íslensks
skaðabótaréttar, sakarreglunni, að Reykjavíkurborg beri skaðabótaábyrgð í
málinu.
Um lagarök vísi stefnandi til
meginreglna íslensks skaðabótaréttar, til skaðabótalaga nr. 50/1993 og til laga
nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Varðandi viðurkenningarkröfu vísi
stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og kröfu um
málskostnað styðji stefnandi við 129. og 130. gr. sömu laga. Kröfu um
virðisaukaskatt styðji stefnandi við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er á því byggt að
ekki hafi verið sýnt fram á skaðabótaábyrgð Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkurborgar
vegna meints vanbúnaðar á skólalóðinni eða vegna þess að eftirliti starfsmanna
Árbæjarskóla hafi verið ábótavant. Enn fremur sé ekki sýnt fram á að
orsakatengsl séu á milli meintrar sakar starfsmanna skólans og umrædds slyss né
sýnt fram á að umrætt slys hafi verið sennileg afleiðing meintrar vanrækslu eða
sakar starfsmanna skólans.
Stefnandi byggi á því að brotið hafi
verið gegn ákvæði 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 657/2009, um gerð og búnað
grunnskólahúsnæðis og skólalóða. Vísað sé til 3. mgr. 20. gr. laga nr. 91/2008
um grunnskóla, þar sem segi að húsnæði og allur aðbúnaður skuli taka mið af því
að tryggja öryggi nemenda. Stefnandi vísi svo til þess að ekki hafi verið
gengið þannig frá skólalóð að ómögulegt væri fyrir nemendur að komast að því
svæði þar sem slysið átti sér stað, og að ekki hafi verið haft fullnægjandi
eftirlit með stefnanda og skólasystkinum hans við leik í umræddum frímínútum.
Af hálfu stefnda sé því mótmælt að
ekki hafi verið fylgt ákvæðum reglugerðar nr. 657/2009 eða ákvæðum laga nr.
91/2008 um grunnskóla. Í 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 657/2009 segi: Húsnæði, lóð, aðstaða, búnaður og öll
starfsemi sem börn taka þátt í á vegum grunnskóla skal miðast við að öryggi
nemenda sé tryggt. Hér sé um mjög almennt orðað reglugerðarákvæði að ræða.
Í 3. mgr. 20. gr. laga um grunnskóla segi: Grunnskólahúsnæði
og skólalóðir skulu uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í lögum þessum, lögum um
vinnuvernd og aðalnámskrá grunnskóla. Húsnæði og allur aðbúnaður skal taka mið
af því að tryggja öryggi og vellíðan nemenda og starfsfólks, svo sem hvað
varðar hentugan húsbúnað, hljóðvist, lýsingu og loftræstingu.
Ekki hafi verið sýnt fram á að
aðstæður á skólalóðinni uppfylli ekki kröfur fyrrnefndra laga eða reglugerðar.
Ekki hafi heldur verið sýnt fram á, og stefnda sé ekki kunnugt um, að gerðar
hafi verið athugasemdir við gerð og búnað skólalóðarinnar af hálfu yfirvalda.
Slys það sem stefnandi hafi orðið fyrir hafi orðið vel utan skólalóðar, líklega
um 60 metra utan lóðarinnar. Af því leiði að aðstæður á sjálfri lóðinni komi í
raun ekki til skoðunar og skipti ekki máli varðandi mat á orsökum slyssins eða
mat á hugsanlegri sök starfsmanna skólans, þar sem engin orsakatengsl geti
verið á milli meints vanbúnaðar og slyssins þar sem slysið hafi ekki orðið á
lóðinni. Megi segja að þetta sé skýrt orðað í úrskurði úrskurðarnefndar í
vátryggingamálum en þar komi orðrétt fram í niðurstöðu nefndarinnar: Í umrætt sinn var pilturinn sem hér um ræðir
að leik utan skólalóðar og var ekki ábyrgð Árbæjarskóla eða starfsfólks hans
þegar slysið varð. Ekki er því um bótaskyldu að ræða hjá starfsfólki R.
Úrskurðarnefndin komi hér að kjarna málsins og þyki nefndinni augljóslega ekki
þörf á frekari rökstuðningi fyrir niðurstöðu í málinu þar sem atvikið átti sér
einfaldlega ekki stað á skólalóð og stefnandi því ekki á ábyrgð skólans með
nokkrum hætti.
Stefnandi hafi vísað til laga nr.
91/2008 um grunnskóla og reglugerðar nr. 657/2007, en hafi hins vegar ekki sýnt
fram á að Árbæjarskóli hafi ekki uppfyllt ákvæði þessara laga og reglugerðar.
Stefnandi telji að öryggis hafi ekki verið gætt á skólastað hans þar sem ekki
hafi verið gengið þannig frá skólalóð að ómögulegt væri fyrir nemendur að
komast að „því hættulega svæði þar sem slysið átti sér stað“ eins og það sé
orðað, né hafi fullnægjandi eftirlit verið haft með stefnanda í frímínútum.
Stefnandi telji „öryggisreglur“ hafa verið brotnar án þess að vísa nánar til
þess hvaða reglur átt sé við, að hvaða leyti þær hafi verið brotnar eða hvernig
það hafi leitt til hins umrædda óhapps. Stefnandi telji að auðframkvæmanlegt
hefði verið að koma fyrir girðingu eða skilrúmi sem afmarkaði skólalóðina
þannig að ekki hefði verið eins auðvelt fyrir stefnanda að komast að slysstað,
en vísi ekki til neinnar skyldu til að koma fyrir girðingu. Stefndi vísi þessu
á bug og bendi á að engar skyldur liggi fyrir í lögum eða reglugerðum til þess
að girða skólalóðir af, og ekki sé heldur venja fyrir því að gera slíkt.
Nemendum sé samkvæmt skólareglum óheimilt að fara út af skólalóðinni á skólatíma.
Engin skýring hafi fengist á því að stefnandi hafi farið út af skólalóðinni í
umrætt sinn, en ljóst sé að hann hafi þar með brotið reglur skólans.
Skólalóð Árbæjarskóla sé stór og vel
búin leiktækjum, en vegna stærðar lóðarinnar sé henni skipt í þrjú svæði og
ávallt séu tveir starfsmenn á hverju svæði í þeim tilgangi að tryggja öryggi
nemenda sem best. Gæslunni hafi kennarar sinnt á þeim tíma sem óhappið hafi
orðið, en svæðin séu stór og ljóst sé að ætli nemendur sér að fara út af lóð
skólans í frímínútum eða hádegishléi sé erfitt að koma í veg fyrir það. Stefndi
mótmæli því, og telji í raun fráleitt, að gera þá kröfu að starfsmenn skólans
geti með útbúnaði eða eftirliti í öllum tilvikum komið í veg fyrir að nemendur
ráfi út fyrir skólalóð. Slíkur útbúnaður, eða eftirlit, sé ómögulegur án þess
að útbúa skólalóðina líkt og um eins konar öryggisgæslu væri að ræða, sem
vitaskuld væri fráleitt og skaðlegt fyrir nemendur.
Stefnandi hafi borið því við að vegna
ungs aldurs hafi hann ekki getað gert sér grein fyrir því að hann væri kominn
út fyrir skólalóðina og að ekki sé raunhæft að gera þá kröfu til átta ára
drengs að hann sýni sérstaka aðgæslu við leik. Stefndi telji að börn á þessum
aldri hafi almennt þroska og séu almennt fær um að fylgja skólareglum og gera
sér grein fyrir hættu á borð við þá að standa upp á eða hoppa yfir vegg líkt og
þann sem sé að finna við inngang Árbæjarkirkju. Stefndi telji fyrst og fremst
að um óhappatilvik sé að ræða. Ef hins vegar leitað sé orsaka fyrir tjóninu og
sakar þá sé ljóst að orsaka sé eingöngu að leita í hegðun stefnanda sjálfs,
þ.e. þeirri ákvörðun hans að fara út fyrir skólalóð og leika sér við vegg þann
sem sé við inngang Árbæjarkirkju. Hafi hann tekið ákvörðun um að hoppa yfir
vegginn, líkt og fram komi í bréfi skólastjóra Árbæjarskóla, sé um að ræða
ákvörðun og áhættu sem engum verði um kennt nema stefnanda sjálfum.
Stefndi telji þetta leiða til þess að
stefnandi beri sjálfur ábyrgð og sök á slysi sínu, samkvæmt meginreglum
skaðabótaréttar. Varakrafa um skiptingu sakar sé byggð á því að eigin sök
stefnanda skuli leiða til þess að skaðabótaskylda stefnda verði aðeins staðfest
að hluta til en að stefnandi beri sjálfur tjón sitt að öðru leyti vegna eigin
sakar.
Stefndi krefjist aðallega greiðslu
málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins á grundvelli ákvæðis 1. mgr.
130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Til vara geri stefndi þá kröfu
að málskostnaður verði látinn niður falla samkvæmt heimild í ákvæði 3. mgr.
130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um lagarök að öðru leyti vísi
stefndi til meginreglna skaðabóta- og vátryggingaréttar og skaðabótalaga nr.
50/1993.
Niðurstaða
Stefnandi byggir kröfu sína um
viðurkenningu bótaábyrgðar stefnda vegna slyss stefnanda á því að nemandi sé á
ábyrgð skóla meðan á daglegum starfstíma standi. Stefnandi byggir kröfur sínar
á sakarreglunni og meginreglu skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð.
Starfsmönnum sé skylt að fylgjast með nemendum á skólatíma með fullnægjandi
hætti og skólastjórnendur beri ábyrgð á því að tryggja að aðstæður á skólalóð
miðist við að öryggi nemenda sé tryggt, en vanræksla á þessu varði bótaábyrgð.
Hvorki er í málinu deilt um skyldur stefnda sem vátryggjanda né um rétt
stefnanda til að fá úr því skorið með dómi hvort bótaskylda sé fyrir hendi.
Ágreiningslaust er að slysið varð á lóð Árbæjarkirkju utan lóðar Árbæjarskóla.
Málsaðilar deila annars vegar um það
hvort það skuli telja vanbúnað á lóð skólans að hún hafi ekki verið afgirt til
þess að hindra að nemendur kæmust yfir á lóð kirkjunnar og hvort slysið megi þá
rekja til þess vanbúnaðar. Hins vegar snýst ágreiningur aðila um það hvort
starfsmenn skólans hafi með saknæmum hætti vanrækt skyldur sínar til eftirlits
með stefnanda á skólatíma og að slysið hafi þá orðið vegna þeirrar vanrækslu.
Samkvæmt 3. mgr. 20. gr. laga um
grunnskóla nr. 91/2008 skulu grunnskólahúsnæði og skólalóðir uppfylla þær
kröfur sem gerðar eru í lögunum, lögum um vinnuvernd og aðalnámskrá grunnskóla.
Húsnæði og allur aðbúnaður skal taka mið af því að tryggja öryggi og vellíðan
nemenda og starfsfólks, svo sem hvað varðar hentugan húsbúnað, hljóðvist,
lýsingu og loftræstingu. Ráðherra setur samkvæmt 5. mgr. 20. gr. laganna
reglugerð um húsnæði og búnað grunnskóla í samráði við Samband íslenskra
sveitarfélaga þar sem nánar er kveðið á um aðstöðu, búnað, slysavarnir og
öryggismál í grunnskólahúsnæði og á skólalóðum. Í 1. mgr. 7. gr. reglugerðar um
gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða nr. 657/2009 segir að húsnæði,
lóð, aðstaða, búnaður og öll starfsemi sem börn taki þátt í á vegum grunnskóla
skuli miðast við að öryggi nemenda sé tryggt. Í h-lið 1. mgr. 5. gr.
reglugerðarinnar segir að til nauðsynlegrar lágmarksaðstöðu í grunnskólum
teljist afmörkuð og skipulögð skólalóð sem gefi fjölbreytt tækifæri til leikja
og annarrar útvistar.
Samkvæmt framansögðu eru gerðar
kröfur um að lóðir grunnskóla séu afmarkaðar og að búnaður skuli miðast við að
öryggi sé tryggt. Nánari fyrirmæli er þar ekki að finna um það hvernig lóð
skuli afmörkuð eða hvernig öryggi skuli tryggt. Hlýtur mat á aðstæðum að ráða
því hvaða viðbúnaður sé við hæfi á hverjum stað. Af hálfu stefnda hefur komið
fram að ekki sé venja að girða af mennta- og uppeldisstofnanir eins og um
öryggisgæslu sé að ræða, nema á skólalóðum sem liggi að hættulegum svæðum, til
dæmis að umferðargötum.
Stefnandi hefur haldið því fram að
koma hefði mátt í veg fyrir slysið með því að setja upp girðingu milli lóða
skólans og kirkjunnar. Þótt það verði að teljast ríkur þáttur í að tryggja
öryggi á skólalóðum sem liggja að hættulegum svæðum að girða skólalóð af telja
skólayfirvöld, samkvæmt gögnum málsins, ekki að það eitt tryggi öryggi nemenda
eða að þau haldi sig þá innan lóðar. Í yfirlýsingu 30. mars 2011 frá
deildarstjóra byggingardeildar skrifstofu gatna- og eignaumsýslu framkvæmda- og
eignasviðs Reykjavíkurborgar, kemur fram að þar sem grunnskólalóðir séu
afgirtar komist börnin eftir sem áður út af lóðunum. Samkvæmt því er ekki unnt
að slá því föstu að stefnandi og félagi hans hefðu ekki farið að kirkjunni til
að leika sér í greint sinn þótt girt hefði verið milli lóðanna með einhverjum
hætti.
Málsaðila greinir á um það hvort
svæðið við Árbæjarkirkju sé svo hættulegt börnum að nauðsynlegt hafi verið, til
að fullnægja lögbundnum skyldum um viðbúnað til að tryggja öryggi nemenda
Árbæjarskóla, að setja upp girðingu til að ekki væri eins auðvelt og raun ber
vitni að komast að slysstað.
Stefnandi hefur ekki lagt nein gögn
fyrir dóminn frá sérfræðingum eða öðrum því til stuðnings að öryggi sé áfátt
við aðkomu að Árbæjarkirkju, en þangað sækja bæði börn og fullorðnir athafnir
og þjónustu. Af myndum af vettvangi sem lagðar hafa verið fyrir dóminn og
lýsingum málsaðila verður ekki greint að veggur sá sem markar inngang
kirkjunnar feli í sér leynda hættu eða slysagildru. Gangstéttin fyrir framan
kirkjuna er afmörkuð af lághlið veggjarins sem stefnandi fór yfir, en samkvæmt
því sem greinir í stefnu er lághliðin tæplega hálfur metri. Augljóst má þeim
vera sem stendur á stéttinni innan við þennan lága vegg í dagsbirtu, hvort sem
það er átta ára barn eða fullorðinn maður, að hærra er niður handan veggjarins
en innan hans, eða einn og hálfur til tveir metrar að utanverðu.
Að þessu virtu þykir ekki unnt að
fallast á það með stefnanda að umrætt svæði við Árbæjarkirkju sem liggur að lóð
Árbæjarskóla sé hættulegt. Því verður ekki talið að nauðsynlegt hafi verið að
setja upp girðingu milli skólalóðarinnar og svæðisins til að fullnægja þeim
almennu kröfum sem gerðar eru í 3. mgr. 20. gr. laga um grunnskóla og 7. gr.
reglugerðar um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða um að öryggi
nemenda sé tryggt. Þegar af þeirri ástæðu að svæðið við kirkjuna verður að mati
dómsins ekki talið hættulegt verður það ekki með réttu talið til vanbúnaðar á
skólalóð Árbæjarskóla þó girðing hafi ekki verið sett upp milli lóða skólans og
kirkjunnar.
Samkvæmt upplýsingum skólastjóra
Árbæjarskóla, sem stefnandi hefur ekki andmælt, sinntu kennarar skólans gæslu á
skólalóðinni þegar slysið varð. Lóðinni sé skipt upp í þrjú svæði og gæsla hafi
verið á öllum svæðum. Ljóst sé að svæðin séu stór og ef nemendur ætli sér að
fara út af skólalóð í frímínútum sé erfitt að koma í veg fyrir það. Nemendum sé
ekki heimilt að fara út af skólalóðinni á skólatíma og engin skýring hafi
fengist á því af hverju stefnandi gerði það. Stefndi hefur upplýst að tveir
starfsmenn hafi verið við gæslu á hverju svæði þegar slysið varð. Stefnandi
hefur ekki mótmælt því eða fært fram nein sönnunargögn um það að skort hafi á
fjölda hæfra starfsmanna við gæslu á skólalóðinni þegar slysið varð.
Stefnandi byggir á því almennt að
starfsmönnum hafi borið að fylgjast með stefnanda, sem sökum ungs aldurs hafi
átt erfitt með að gera sér grein fyrir því hvaða svæði væru heimil sem
leiksvæði í frímínútum. Stefnandi eigi ekki að bera ábyrgð á því að fylgja ekki
skólareglum Árbæjarskóla með því að fara út af lóðinni meðal annars vegna þess
að ekki sé óalgengt að nemendur skólans séu að leik á umræddu svæði við
kirkjuna. Af hálfu stefnanda er því þó hvorki haldið fram né leiddar sönnur að
því að það hafi almennt viðgengist eða verið látið óátalið á skólatíma að börn
lékju sér við kirkjuna.
Eftir því sem börn eldast og þroskast
minnkar þörfin á því að þau séu undir stöðugu eftirliti, enda þykir rétt að
ætla börnum að taka aukna ábyrgð athöfnum sínum í samræmi við aldur sinn og
þroska og leyfa þeim það. Mat á því hvenær réttmætt sé að treysta barni til að
virða mörk og gæta sín við tilteknar aðstæður ræðst ekki einvörðungu af aldri
þess, heldur verður að líta til þroska barns og aðstæðna þess að öðru leyti.
Móðir stefnanda kom fyrir dóminn og upplýsti að á þeim tíma þegar slysið varð
hafi hún venjulega ekið honum í skólann að morgni þar sem hann hafi farið úr
bifreiðinni fyrir utan, en hún hafi ekki fylgt honum inn eða starfsmenn skólans
tekið á móti honum. Stefnandi hafi ekki verið sóttur í skólann heldur gengið
einn heim eftir að skóla lauk klukkan rúmlega tvö og að öðru jöfnu þá verið
einn heima þar til móðir hans hafi komið úr vinnu sinni sem lokið hafi um
klukkan þrjú.
Við mat á því hvort það verði talið
starfsmönnum skólans til sakar að hafa ekki haft sérstakar gætur á stefnanda
til að koma í veg fyrir að stefnandi og félagi hans færu að kirkjunni í
frímínútum verður ekki litið fram hjá því sem fram kom fyrir dóminum af hálfu
móður stefnanda um mat hennar á hæfi hans og þroska til að gæta sín sjálfur án
eftirlits á þeim slóðum þar sem slysið varð. Engin sérfræðigögn liggja fyrir um
hæfileika stefnanda að þessu leyti. Stefnandi var í þriðja bekk grunnskóla og
eftir því sem fram er komið treystu foreldrar hans honum til að ganga sjálfur
heim úr skóla án eftirlits á hverjum degi og gat stefnandi farið um lóð
Árbæjarkirkju á þeirri leið ef honum sýndist svo.
Ógjörningur er fyrir kennara að
fylgjast stöðugt með hverjum einasta nemanda sem er að leik á skólalóð eins og hér
um ræðir, hvort sem lóðin er afgirt eða ekki. Engum líkum hefur verið að því
leitt að kennarar skólans, sem voru við gæslu á skólalóðinni, hafi haft eða
mátt hafa ástæður til að ætla að þörf væri á að hafa sérstakar gætur á
stefnanda eða til að vantreysta getu hans umfram annarra barna á hans aldri til
að fylgja reglum og gæta sín. Það verður eins og hér stóð á ekki talið
starfsmönnum skólans til saknæmrar vanrækslu við eftirlit þótt þeir hefðu ekki
veitt ferðum stefnanda og félaga hans athygli þegar þeir fóru út af
skólalóðinni yfir lóðarmörkin að Árbæjarkirkju.
Að framangreindu virtu er það
niðurstaða dómsins að stefnanda hafi ekki tekist að sanna að slysið hafi orðið
vegna vanbúnaðar húsnæðis, lóðar, aðstöðu eða búnaðar Árbæjarskóla. Þá hefur
stefnanda ekki heldur tekist að sanna að öryggisreglum hafi ekki verið fylgt
eða að slysið verði rakið til saknæmrar háttsemi starfsmanna skólans eða
annarra atvika sem skólinn beri ábyrgð á. Af því sem upplýst er um slysið
verður að telja að það verði rakið til aðgæsluleysis stefnanda og óhappatilviks
sem stefnandi verði sjálfur að bera skaðann af. Ber því að sýkna stefnda af
kröfum stefnanda í málinu.
Eftir atvikum þykir þó rétt að
málskostnaður falli niður.
Stefnandi hefur gjafsókn til reksturs
máls þessa fyrir héraðsdómi sem takmörkuð er við réttargjöld og ágreining um
bótaskyldu. Málflutningsþóknun lögmanns stefnanda greiðist úr ríkissjóði
samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga um meðferð einkamála og þykir hæfilega ákveðin
600.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dóminn kvað upp Kristrún
Kristinsdóttir héraðsdómari. Dómarinn tók við meðferð málsins 2. apríl 2013.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi,
Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Jakup
Musial, í máli þessu. Málskostnaður fellur niður.
Málflutningsþóknun lögmanns stefnanda 600.000 krónur að meðtöldum
virðisaukaskatti greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga um
meðferð einkamála.