Hæstiréttur íslands
Mál nr. 141/2014
Lykilorð
- Ráðningarsamningur
- Námssamningur
- Jafnræðisregla
|
|
Fimmtudaginn 23. október 2014. |
|
Nr. 141/2014.
|
Landspítalinn (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) gegn Súsönnu Kristínu Knútsdóttur (Jón Sigurðsson hrl.) og gagnsök |
Ráðningarsamningur. Námssamningur. Jafnræðisregla.
S, sem var hjúkrunarfræðingur og nemandi í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands, réð sig sem hjúkrunarfræðing í starfsnámi hjá L vorið 2011. Í ráðningarsamningi hennar kom fram starfsheitið hjúkrunarfræðingur og að starfshlutfall væri 80%. Skyldu laun greiðast samkvæmt nánar tilgreindum launaflokki og ráðning S vera tímabundin til 31. mars 2012. S krafði L um greiðslu fullra launa til samræmis við 80% starfshlutfall fyrir það tímabil sem hún hafði verið í starfsnámi hjá L og hélt fram að laun hennar hefðu verið skert frá því, sem samið hefði verið um. Í dómi héraðsdóms var krafa S tekin til greina með vísan til orðalags ráðningarsamnings aðilanna og tekið fram að L hefði verið í lófa lagið að útfæra efni samningsins með öðrum hætti en gert var, ef ætlunin hefði verið að semja um önnur kjör en þar væru ákvörðuð. Í dómi Hæstaréttar var á hinn bóginn talið, meðal annars með vísan til bréfasamskipta forstöðumanns fræðasviðs í ljósmóðurfræðum við Háskóla Íslands og framkvæmdastjóra kvenna- og barnasviðs aðaláfrýjanda, svo og fyrirvara sem S hafði gert við ráðningarsamninginn, að S hafi verið ljóst að laun hennar yrðu ekki í samræmi við þau ákvæði samningsins að greitt yrði fyrir 80% starfshlutfall samkvæmt nánar tilgreindum launaflokki í kjarasamningi hjúkrunarfræðinga. Hún hafi þannig mátt vita að hluti starfstíma hennar yrði launalaus. Þá var ekki fallist á að L hefði, með því að greiða ljósmæðranemum í starfsnámi einungis fyrir hluta námstímans en nemum í skurð- og svæfingahjúkrun fyrir allan námstímann, mismunað þessum tveimur hópum með ólögmætum hætti, enda væri starfsnám þessara starfsstétta ósambærilegt. Var L því sýknaður af kröfu S.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. febrúar 2014. Hann krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að krafa gagnáfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður látinn falla niður.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 2. maí 2014. Hún krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 1.575.696 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. apríl 2012 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I
Mál þetta snýst um rétt gagnáfrýjanda til launa úr hendi aðaláfrýjanda í starfsnámi sem ljósmæðranemi. Ljósmæðranám var kennt á vegum aðaláfrýjanda til ársins 1999, en þá tók Háskóli Íslands við umsjón með náminu og mun allt skipulag námsins, þar á meðal val á nemum til að stunda ljósmóðurfræði, hafa verið í höndum háskólans. Í málinu liggur fyrir tölvubréf Jóns Hilmars Friðrikssonar framkvæmdastjóra kvenna- og barnasviðs aðaláfrýjanda 13. janúar 2011, sem var meðal annars sent forstöðumanni fræðasviðs í ljósmóðurfræðum í Háskóla Íslands. Í bréfinu tilkynnti Jón Hilmar að við gerð fjárhagsáætlunar 2011 hefði verið ákveðið að laun fyrir námsstöður ljósmæðranema námsárið 2011 til 2012 skyldu vera níu vikur á fæðingardeild, fjórar vikur á meðgöngu- og sængurkvennadeild og sex vikur í Hreiðri, samtals 19 vikur.
Gagnáfrýjandi útskrifaðist árið 2005 með BS-gráðu í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands. Þegar hún undirritaði ráðningarsamning við aðaláfrýjanda 27. maí 2011 hafði hún lokið einu ári í ljósmóðurfræði og var þá að ,,hefja starfsnám á Landspítalanum sem ljósmóðurnemi“ eins og hún bar fyrir dómi. Hún kvað starfsnámið vera metið til eininga og væri það hluti af ljósmóðurnáminu. Í ráðningarsamningi hennar kom fram starfsheitið hjúkrunarfræðingur og starfshlutfall 80%. Jafnframt var þar kveðið á um að vinnutímaskipulag væri reynslutími og að um tímabundna ráðningu væri að ræða, með upphafsdag 31. maí 2011 en lokadag 31. mars 2012. Gagnáfrýjandi undirritaði samninginn með fyrirvara ,,við undirritun og efni ráðningarsamnings“, þar sem hún hefði gert athugasemdir og sett fram kröfur á hendur aðaláfrýjanda um að sér yrði greitt samkvæmt hærri launaflokksröðun í verknámi og fengi greitt fyrir þær vikur af verknámi sem aðaláfrýjandi hefði gert ráð fyrir að yrðu launalausar, en það greiðslufyrirkomulag samræmdist ekki því greiðslufyrirkomulagi sem viðhaft væri í verknámi hjúkrunarfræðinga í skurð- og svæfingarnámi. Fyrir dómi bar gagnáfrýjandi að þegar hún hefði sótt um verknámið hefði henni og öðrum ljósmæðranemum verið tilkynnt um að óvissa væri um hvernig launagreiðslum yrði háttað.
Ágreiningslaust er að gagnáfrýjandi var launalaus hluta þess tíma sem hún var í starfsnámi hjá aðaláfrýjanda og var sá tími skýrður sem ,,launalaust leyfi“ á launaseðlum hennar. Af vaktaáætlun sem liggur frammi í málinu verður og ráðið að gagnáfrýjandi starfaði utan Landspítalans á ráðningartíma, meðal annars á Akranesi og á heilsugæslu og var í sumarfríi hluta ráðningartíma.
Með bréfi fyrrgreinds Jóns Hilmars 17. janúar 2013 til Háskóla Íslands, var tilkynnt að aðaláfrýjandi hefði að öllu óbreyttu ákveðið að fella greiðslur til ljósmæðranema í starfsnámi niður frá og með árinu 2014 fyrir þá nema sem hæfu ljósmæðranám á árinu.
II
Eins og að framan er rakið er gagnáfrýjandi hjúkrunarfræðingur að mennt og hafði lokið einu ári í ljósmóðurfræðum er hún hóf starfsnám hjá aðaláfrýjanda sem ljósmóðurnemi. Starfsnámið var hluti af ljósmóðurnáminu og metið til eininga. Af framburði hennar fyrir dómi mátti ráða að henni var ljóst þegar hún sótti um verknámið að óvissa væri um hvernig launagreiðslum vegna starfsnámsins yrði háttað, enda gerði hún þann fyrirvara við ráðningarsamninginn sem áður er rakinn og vísaði þar til starfs síns sem ,,ljósmæðranemi í verknámi“. Hún bar fyrir dómi að hún hefði ekki unnið sér inn réttindi til að njóta launaðs sumarleyfis og kvaðst hafa vitað að sumarfrí yrði ólaunað. Var henni samkvæmt framangreindu fullljóst að kjör hennar væru ekki í samræmi við þau ákvæði ráðningarsamningsins að greitt yrði fyrir 80% starfshlutfall samkvæmt launaflokki 661.021 í kjarasamningi hjúkrunarfræðinga og að hluti námstíma hennar yrði launalaus. Getur hún því ekki reist kröfu sína á því að aðaláfrýjandi hafi skuldbundið sig með ráðningarsamningnum til að greiða henni þau laun.
Gagnáfrýjandi reisir kröfur sínar á því að með því að greiða ljósmæðranemum í starfsnámi einungis fyrir hluta námstímans, en nemum í skurð- og svæfingarhjúkrun fyrir allan námstíma, sé ljósmæðranemum mismunað með ólögmætum hætti. Í 20. gr. laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu segir að aðaláfrýjandi sé aðalsjúkrahús landsins og háskólasjúkrahús. Í 1. tölulið 1. mgr. ákvæðisins segir að hlutverk hans sé að veita heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma samræmist skyldu slíks sjúkrahúss, meðal annars með sérfræðiþjónustu í nær öllum viðurkenndum greinum læknisfræði, hjúkrunarfræði og eftir atvikum öðrum greinum heilbrigðisvísinda sem stundaðar séu hér á landi með aðgengi að stoðdeildum og rannsóknadeildum. Samkvæmt framangreindu felst í lögbundnu hlutverki aðaláfrýjanda sem aðalsjúkrahúss landsins að veita þjónustu sem meðal annars krefst þekkingar á sviði skurð- og svæfingarhjúkrunar. Markmiðið sem að var stefnt með því að veita skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinemum önnur kjör en ljósmæðranemum var að stuðla að því að fyrir hendi væri nægilegur mannafli til að sinna störfum á því sviði, en aðaláfrýjanda er það skylt samkvæmt því sem hér hefur verið rakið.
Val á ljósmæðranemum var í höndum Háskóla Íslands, sem sá um allt skipulag námsins, en starfsnám í skurð- og svæfingarhjúkrun var á hinn bóginn á hendi Landspítala sem auglýsti eftir og valdi inn nemendur, skipulagði og sá um það nám. Það nám er 74 eininga diplómanám og þar af eru 20 einingar í starfsnámi, en nám í ljósmóðurfræðum er 120 eininga meistaranám, þar af 60 einingar í starfsnámi. Starfsnám þessara starfsstétta verður því ekki borið saman.
Að öllu framangreindu virtu er ekki fallist á að aðaláfrýjandi hafi mismunað gagnáfrýjanda með ólögmætum hætti og brotið gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar eða 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við þá ákvörðun um laun gagnáfrýjanda sem um er deilt í málinu. Verður aðaláfrýjandi því sýknaður af kröfu hennar, en rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Landspítalinn, er sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, Súsönnu Kristínar Knútsdóttur.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 6. nóvember sl., er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 25. febrúar 2013 og þingfestri 5. mars 2013.
Stefnandi er Súsanna Kristín Knútsdóttir, Laufrima 16, Reykjavík, en stefndi er Landspítali, Eiríksgötu 5, Reykjavík.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefnda verði gert að greiða stefnanda 1.575.696 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 1. apríl 2012 til greiðsludags.
Stefnandi krefst að auki málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.
Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.
I.
Stefnandi máls þessa er hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir en var, er atvik máls þessa urðu, hjúkrunarfræðingur í ljósmóðurnámi. Í tengslum við nám sitt réð stefnandi sig sem hjúkrunarfræðing til stefnda. Í málinu liggur fyrir ráðningarsamningur stefnanda við stefnda sem dagsettur er 27. maí 2011. Samkvæmt samningnum er starfsheiti stefnanda hjúkrunarfræðingur og er starfshlutfall sagt vera 80%. Við vinnutímaskipulag er ritað reynslutími. Laun skyldu greiðast samkvæmt launaflokki 661.021. Um tímabundna ráðningu var að ræða til 10 mánaða, með upphafsdegi 31. maí 2011 en lokadegi 31. mars 2012. Á ráðningarsamninginn er handritað: „Sjá meðfylgjandi bréf um fyrirvara við undirritun og efni ráðningasamnings.“ Stefnandi kveðst hafa afhent stefnda það bréf, sem vísað er til, sama dag og ritað var undir ráðningarsamning. Í umræddu bréfi, dagsettu 27. maí 2011, kemur fram að stefnandi geri eftirfarandi fyrirvara við undirritun sína á ráðningarsamninginn og ákvæði samningsins um kaup og kjör:
„Undirrituð hefur gert athugasemdir og sett fram kröfur á hendur LSH um að undirritaðri verði greitt samkvæmt hærri launaflokksröðun í verknámi og fái greitt fyrir allan námstímann og þ.m.t. þær vikur af verknámi sem að LSH hefur gert ráð fyrir að verði launalausar, en það greiðslufyrirkomulag samræmist ekki því greiðslufyrirkomulagi sem viðhaft er í verknámi hjúkrunarfræðinga í skurð- og svæfingarnámi. Eru kröfur þessar og launamál ljósmæðranema nú til skoðunar hjá LSH. Hvort sem síðar kann að koma til breytinga á verklagsreglum LSH hvað framangreindar launagreiðslur og greiðslufyrirkomuleg varðar eða ekki, áskilur undirrituð sér rétt til þess að krefja LSH um greiðslu bóta vegna þeirrar skerðingar sem hún mun þurfa að sæta vegna þeirrar skerðingar sem núverandi greiðslufyrirkomulag hefur í för með sér í samanburði við annað verknám, sbr. framangreint.“
Í stefnu er því lýst, að á samningstíma ráðningarsamningsins hafi laun stefnanda verið skert frá því, sem samið hefði verið um, með frádrætti vegna „launalauss leyfis“, sbr. efni launaseðla á tímabilinu. Misjöfn fjárhæð hafi verið dregin frá launum í hverjum og einum mánuði. Stefnandi hefði þó hvorki tekið launalaust leyfi né hefði verið samið um þennan frádrátt.
Stefndi bendir í greinargerð sinni á að starfsnám stefnanda hafi einungis að hluta til farið fram hjá stefnda á tímabilinu 31. maí 2011 til 31. mars 2012. Aldrei hafi staðið til að stefnandi yrði í starfi hjá stefnda allan ráðningartímann, enda hafi verið gert ráð fyrir að nemarnir tækju einnig vaktir á öðrum stofnunum. Megi sjá af fyrirliggjandi vaktaáætlun, sem útbúin hafi verið í Háskóla Íslands, að stefnanda hafi verið ætlað að starfa á Akranesi og á heilsugæslu hluta starfsnámstímans.
Í greinargerð kveður stefndi ástæðu þess að gerður var ráðningarsamningur með hefðbundnu formi eingöngu vera þá að með því hefði stefnandi öðlast aðgang að tölvukerfum innan spítalans. Séu slíkir samningar gerðir við starfsnema til þess að koma í veg fyrir að þau kerfi, sem nemar þurfi að hafa aðgang að vegna náms síns, lokist ekki í hvert skipti sem þeir fari á milli deilda og stofnana.
Því er lýst í greinargerð stefnda að ljósmæðranám hafi verið kennt á vegum stefnda til ársins 1999 en þá hafi Háskóli Íslands tekið við náminu. Frá þeim tíma hefði hver stofnun greitt laun fyrir þann hluta starfsnáms ljósmæðranema sem fór fram hjá þeim. Aðrar stofnanir hafi fyrir þó nokkru hætt að greiða ljósmæðranemum í starfsnámi laun og hjá stefnda hafi vikufjölda launaðs starfsnáms verið fækkað. Árið 2009 hafi verið hætt að greiða fyrir allt starfsnám á öðrum deildum en fæðingargangi, Hreiðri og meðgöngu- og sængurkvennadeild. Nú greiði stefndi laun fyrir 19 vikur af þeim 24 sem starfsnám standi á þeim deildum. Það fyrirkomulag hafi verið ákveðið við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2011 og fyrst komið til framkvæmda námsárið 2011 til 2012. Var forstöðumanni náms í ljósmóðurfræðum hjá Háskóla Íslands tilkynnt um breytinguna með tölvupósti 13. janúar 2011, sem liggur frammi í málinu.
Ljósmæðranemar fái nú eingöngu greitt fyrir starfsnám hjá stefnda en ekki á heilsugæslu, spítölum utan höfuðborgarsvæðisins eða öðrum þeim stöðum þar sem starfsnám er stundað. Stefndi kveðst nú hafa ákveðið að fella niður launagreiðslur til þeirra, sem hefja ljósmæðranám á árinu 2014 vegna óvissu um fjárveitingar til stefnda.
Allt skipulag námsins er í höndum Háskóla Íslands, hann sér um val á nemum sem fara í starfsnám, hvenær þeir eru á hverjum stað og útbýr vaktaáætlun þeirra.
Nemendur í starfsnámi í ljósmóðurfræðum eru starfandi á mismunandi deildum hjá stefnda og á fleiri stofnunum yfir tíu mánaða tímabil. Ekki er greitt fyrir tímann sem nemendur starfa utan stefnda. Stefndi greiðir fyrir 19 vikur af 24 vikum, sem nemarnir eru á þremur deildum innan stefnda, það er fæðingargangi, Hreiðri og meðgöngu- og sængurkvennadeild. Ekki er greitt fyrir veru á öðrum deildum. Sá tími sem er umfram 19 vikurnar, sem stefndi greiðir laun fyrir, er merktur á launaseðli sem „launalaust leyfi“. Er slík skráning eingöngu til hagræðis í launakerfi stefnda að sögn stefnda.
Stéttarfélag stefnanda, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, ritaði velferðarráðherra erindi, dagsett 20. júní 2011, f.h. ljósmæðranema sem allar höfðu ráðið sig á sama tíma til stefnda, þ.m.t. stefnandi, vegna þess, sem talið var mismunun á launagreiðslum. Var ráðherra upplýstur um að ljósmæðranemarnir fengju ekki greidd laun fyrir allan samningstímann, ólíkt hjúkrunarfræðinemum í skurð- og svæfingahjúkrunarnámi, og að stefndi teldi að mismununin ætti sér eðlilegar skýringar. Var óskað eftir að ráðuneytið kannaði málið og beitti sér fyrir því að nemum væri ekki mismunað með þessum hætti.
Velferðarráðuneytið óskaði eftir afstöðu stefnda til málsins og svar barst með bréfi, dagsettu 26. júlí 2011. Þar kemur fram sú afstaða stefnda að honum sé heimilt að greiða ljósmóðurnemum í diplómanámi laun samkvæmt launaflokki 021. Fram kom í bréfinu að sú rekstrarlega forsenda, sem ákvörðun um mismunun í greiðslum til annars vegar ljósmóðurnema og hins vegar nema í skurð- og svæfingahjúkrun byggði á, væri yfirvofandi skortur á skurð- og svæfingahjúkrunarfræðingum. Því yrði að bjóða nemum í skurð- og svæfingahjúkrun „ívið betri kjör en öðrum í þeirri viðleitni að auka nýliðun“, eins og segir í bréfinu. Með bréfi ráðuneytisins til Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, dagsettu 30. janúar 2012, kvaðst ráðuneytið ekki gera athugasemdir við skýringar stefnda og upplýsti að það myndi ekki aðhafast frekar í málinu.
Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dagsettu 29. maí 2012, var málshöfðun boðuð af hálfu stefnda, enda yrði ekki sýnt að deila aðila yrði leyst með öðrum hætti.
II.
Stefnandi reisir málatilbúnað sinn á því að hún eigi samningsbundna og lögvarða fjárkröfu á hendur stefnda sem vinnuveitanda um greiðslu þeirra launa sem stefndi hafi sannanlega vangreitt og dregið frá launum með því sem segir á launaseðlum að sé „launalaus leyfi“. Umræddar skerðingar á launum hafi verið misjafnar að fjárhæð milli mánaða á tímabilinu. Hvorki hafi verið samið um né hafi verið nokkurt réttmætt tilefni til þess að skerða laun þau, sem stefnanda hafi borið, með þeim hætti sem stefndi gerði. Stefnandi hafi meðal annars aldrei tekið launalaus leyfi í starfi sínu hjá stefnda og þegar af þeirri ástæðu megi ljóst vera að frádráttur byggður á slíkum grunni sé ólögmætur. Stefnanda hafi borið að fá 80% mánaðarlaun greidd í samræmi við ráðningarsamning og að öðru leyti hafi farið um starfskjör samkvæmt þeim samningi og kjarasamningi.
Þá bendir stefnandi á að um ólögmæta mismunun sé að ræða þegar beitt sé frádrætti á umsamdar launagreiðslur gagnvart ljósmæðranemum við störf hjá stefnda en full umsamin laun, án frádráttar vegna launalauss leyfis, séu greidd nemendum í öðru hjúkrunarfræðinámi, þ.e. skurð- og svæfingahjúkrunarnemum. Báðir umræddir hópar hjúkrunarfræðinema sinni störfum í verknámi og ættu því að öðru jöfnu að njóta sömu kjara að þessu leyti. Feli þessi mismunun í sér brot stefnda gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár, sbr. 65. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 33/1944, og gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stefnandi vekur athygli á því að stefndi hafi staðfest þessa mismunun en reynt að réttlæta beitingu hennar í bréfi sínu frá 26. júlí 2011. Röksemdafærsla stefnda í því bréfi standist enga skoðun, enda geti það ekki verið málefnaleg sjónarmið af hálfu stefnda að byggja réttlætingu á launamismun á því að skortur sé á starfsfólki í því fagi sem annar starfshópurinn sinnir, þegar sá skortur sé ekki fyrir hendi í því fagi, sem hinn hópurinn sinnir, þ.e. því fagi sem stefnandi hafi menntað sig til. Byggir stefnandi einnig á því að stefndi hafi með greiðslufyrirkomulaginu brotið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar, enda eigi launamismunun þessi sér enga lagastoð.
Stefnandi hafi frá upphafi gert fyrirvara við skerðingu stefnda á launum og krafið stefnda um greiðslu þeirra launa sem vangreidd voru og dómkrafan lúti að. Við undirritun ráðningarsamnings, áður en stefnandi hóf störf hjá stefnda, hafi stefnandi gert skýran fyrirvara í samningnum og með bréfi sem stefndi hafi móttekið. Þar hafi meðal annars verið vísað til þeirrar mismununar, sem stefnandi og ljósmæðranemar þyrftu að sæta gagnvart launakjörum nema í skurð- og svæfingarhjúkrunarnámi, en að kröfur þessar og launamál ljósmæðranema væru til skoðunar hjá stefnda. Þá hafi stefnandi áskilið sér rétt til að krefja stefnda um greiðslu bóta vegna þeirrar skerðingar. Í kjölfarið hafi komið til bréfaskrifta milli stéttarfélags stefnanda, stefnda og ráðuneytisins um kröfur stéttarfélagsins vegna stefnanda og annarra ljósmæðranema um full umsamin laun.
Þótt dómurinn liti svo á að stefnandi hefði við ráðningu með einhverju móti undirgengist það launagreiðslufyrirkomulag, sem stefndi hafi iðkað með þeim hætti sem gert var, sé á því byggt af hálfu stefnanda að það breyti engu um að greiðslufyrirkomulagið sé ólögmætt með vísan til þeirrar mismununar sem að framan er lýst.
Dómkröfur stefnanda sundurliðast með eftirfarandi hætti.
|
|
||||||||||
|
Mánaðarlaun |
Launalaust leyfi |
|||||||||
|
Júní 2011 |
217.126 |
74.012 |
||||||||
|
Júlí 2011 |
217.126 |
171.747 |
||||||||
|
Ágúst 2011 |
217.126 |
121.645 |
||||||||
|
Sept. 2011 |
217.126 |
217.126 |
||||||||
|
Okt. 2011 |
217.126 |
171.747 |
||||||||
|
Nóv. 2011 |
217.126 |
143.113 |
||||||||
|
Des. 2011 |
217.126 |
143.113 |
||||||||
|
Jan. 2012 |
222.420 |
7.165 |
||||||||
|
Feb. 2012 |
222.420 |
124.611 |
||||||||
|
Mars 2012 |
230.206 |
83.450 |
||||||||
|
|
|
|||||||||
|
1.257.729 |
|
|||||||||
|
|
||||||||||
Við þá kröfu bætist krafa um eftirtalin laun og launatengd gjöld:
|
Orlof |
55,4 st. x 1770 kr. |
98.058 |
|
Framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð |
11,5% |
155.916 |
|
Framlag vinnuveitanda v. viðbótarlífeyrissp. |
2% |
27.116 |
|
Vísindasjóður |
0,22% |
2.983 |
|
Starfsmenntunarsjóður |
1,50% |
20.337 |
|
Orlofssjóður |
0,25% |
3.389 |
|
Fjölskyldu og styrktarsjóður |
0,75% |
10.168 |
|
Samtals |
317.967 |
Stefnandi tekur fram að framlög til lífeyrissjóðs og annarra sjóða reiknist af samtölu launa, þ.e. samtölu launalauss leyfis og orlofs. Að öðru leyti er vísað til framlagðs ráðningarsamnings og launaseðla.
Samtals nemi höfuðstóll dómkröfu 1.575.696 krónum (1.257.729 krónur + 317.967 krónur) og sé krafist dráttarvaxta af þeirri fjárhæð frá 1. apríl 2012, sem sé síðasti gjalddagi umkrafinna launa, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Auk framangreindra lagaraka vísar stefnandi til almennra reglna samningaréttar, kröfuréttar, vinnuréttar og stjórnsýsluréttar. Stefnandi byggir einnig á 65. gr. stjórnarskrárinnar og á ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1997. Stefnandi krefst dráttarvaxta í samræmi við ákvæði III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. sérstaklega 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laganna.
Krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði byggist á l. nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur og til að tryggja skaðleysi sitt sé honum því nauðsynlegt að fá skattinn dæmdan úr hendi stefnda.
III.
Stefndi hafnar málatilbúnaði stefnanda og kröfum á honum reistum. Stefnandi hafi verið í starfsnámi á vegum Háskóla Íslands, sem hafi að hluta til farið fram hjá stefnda. Samband nema í starfsnámi hjá stefnda sé allt annars eðlis en samband starfsmanns og vinnuveitanda. Háskóli Íslands sjái alfarið um skipulagningu starfsnáms í ljósmóðurfræðum, þar með talið val á nemendum, og sé því ljóst að stefndi hafi ekkert val um þá nemendur sem í starfsnámið komi. Þegar um sé að ræða starfsmann, ráði stefndi á hinn boginn hverjir það séu sem veljist til starfans.
Stefndi byggir á því að starfsnám geti í eðli sínu aldrei falið í sér fullnaðarvinnuframlag þeirra sem starfið ræki. Þannig sé ekki gert ráð fyrir ljósmæðranemum í mönnunarmódelum og hafi viðvera nemendanna ekki áhrif á fjölda þeirra starfsmanna, sem þurfi að vera við störf á hverjum tíma. Þá sé endurgjald nemenda í starfsnámi ekki einungis launagreiðsla, heldur hinn faglegi ávinningur af verunni. Eigi nemendur að öðlast víðtæka þekkingu og starfshæfni á starfstímanum. Starfsnámið sé forsenda þess að nemandi geti klárað nám sitt og þar með fengið starfsleyfi til að starfa sem ljósmóðir.
Stefndi tekur fram að almennt sé nemum í starfsnámi, sem fram fer hjá stefnda, ekki greidd laun nema um það sé sérstaklega samið í kjarasamningum. Það eigi við 16 vikur af starfsnámi sjúkraliða, lækna á kandídatsári og lækna með lækningarleyfi sem stundi sérnám. Eina undantekningin frá þessari reglu hafi verið nemar í ljósmóðurfræðum og nemar í skurð- og svæfingahjúkrun.
Stefndi telur ljóst að öllum nemendum og öðrum, sem að starfsnámi ljósmæðranema komi, sé kunnugt um að ekki séu greidd laun fyrir allan tímann sem námið standi yfir. Þá eigi þeim enn fremur að vera ljóst að í samræmi við niðurskurð á fjárveitingum til stefnda á undanförnum árum, geti launagreiðslur tekið breytingum. Hafi verið sameiginlegur skilningur að þessu leyti. Þá fari hluti starfsnámsins fram annars staðar en hjá stefnda. Hafi stefndi aldrei staðið straum af launakostnaði fyrir námi á öðrum stofnunum, enda væri slíkt í hæsta máta óeðlilegt.
Stefndi leggur áherslu á að stefnandi hafi undirritað yfirlýsingu, sem fylgt hafi ráðningarsamningi, þar sem hún geri fyrirvara við framkvæmdina. Verði því ekki annað séð en að stefnandi hafi gert sér fullkomlega grein fyrir því hvert fyrirkomulagið væri um greiðslur launa fyrir starfsnám ljósmæðranema hjá stefnda. Sé yfirlýsingin sönnun þess að hún viti að efni réttarsambandsins sé annað en greini í því formi sem hún undirritaði. Stefndi hafnar þar af leiðandi málsástæðum þess efnis að stefnandi eigi rétt til umræddra greiðslna samkvæmt ráðningarsamningi.
Stefndi byggir enn fremur á því að ráðningarsamningurinn hafi fyrst og fremst verið gerður í þeim tilgangi að halda tölvukerfum opnum fyrir stefnanda. Verði því ekki byggt á honum um greiðslur til stefnanda, enda hafi stefnandi viðurkennt það í verki með því að gera fyrirvara við samninginn.
Stefndi byggir á því að hann hafi fullt frelsi til þess að semja við ólíka hópa á mismunandi hátt. Þar af leiðandi sé því mótmælt að um brot á jafnræði sé að ræða þótt launagreiðslur til starfsnema í skurð- og svæfingahjúkrun séu með öðrum hætti en greiðslur til ljósmæðranema. Ekki sé um ólögmæta mismunun að ræða, enda búi málefnaleg sjónarmið að baki.
Stefndi leggur áherslu á að um ósambærilegt starfsnám sé að ræða. Nám í skurð- og svæfingahjúkrun sé 74 eininga diplómanám, þar af séu 20 einingar í starfsnámi. Nám í ljósmóðurfræðum sé á hinn bóginn 120 eininga meistaranám, þar af séu 60 einingar í starfsnámi. Þá séu störfin ólík, nemarnir beri ólíka ábyrgð og nýtist með ólíkum hætti. Þannig geti starfsnemar í skurð- og svæfingahjúkrun fyrr starfað sjálfstætt en ljósmæðranemar.
Stefndi byggir jafnframt á því að hann hafi af málefnalegum ástæðum frelsi til að haga samningsgerð við nema með öðrum hætti þar sem brýn og tilfinnanleg þörf er á vinnuframlagi þeirra. Sé fyrirsjáanlegur skortur á skurð- og svæfingahjúkrunarfræðingum en á stefnda hvíli skylda að bjóða upp á tiltekna þjónustu fyrir sjúklinga. Til þess að geta rækt það hlutverk, verði stefndi að geta mannað tilheyrandi störf. Sé launuðu starfsnámi því ætlað að hvetja hjúkrunarfræðinga til að sækja sér menntun á sviði skurð- og svæfingahjúkrunar. Telur stefndi að þessi tilhögun sé fullkomlega málefnaleg og brjóti ekki í bága við jafnræðisreglur, hvort heldur stjórnarskrár eða stjórnsýsluréttar. Þá er því jafnframt mótmælt að brotið sé gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar.
Stefndi mótmælir fjárhæð og framsetningu dómkröfu stefnanda. Stefndi skilur framsetningu stefnanda svo að lagðar séu saman fjárhæðir, sem merktar hafi verið í hverjum mánuði sem „launalaust leyfi“, án tillits til þess hvort um eiginlegt vinnuframlag hafi verið að ræða af hálfu stefnanda hjá stefnda. Þannig sé ekki tekið tillit til þess, hvort stefnandi hafi verið í fríi, á hvaða deildum hún hafi unnið hjá stefnda eða hvort hún hafi yfirhöfuð unnið hjá stefnda á því tímabili sem um ræðir. Sé ljóst að stefnda beri ekki að greiða stefnanda laun umfram 19 vikur á fæðingargangi, Hreiðri og meðgöngu- og sængurkvennadeild. Hafi ákvörðun verið tekin um slíkt fyrirkomulag og tilkynnt Háskóla Íslands, sem umsjón hafi með náminu, í janúar 2011, nokkrum mánuðum áður en stefnandi hóf starfsnám sitt. Þá bendir stefndi á að viðveruskráning sé forsenda launagreiðslna hjá stefnda. Í ráðningarsamningi sé sérstaklega tekið fram að starfsmanni beri að skrá viðveru sína í viðverukerfi spítalans „VinnuStund“ með stimplun. Stefnandi hafi hins vegar aðeins skráð hluta starfsnámstímans í viðverukerfið.
Stefnandi vísi til þess að hún eigi samningsbundna og lögvarða fjárkröfu á hendur stefnda. Að framangreindu virtu áréttar stefndi mótmæli við kröfum stefnanda og telur engar forsendur til þess að fallast á kröfur hennar. Stefnandi hafi sýnt í verki að hún vissi að tilhögun launagreiðslna væri önnur en fram kæmi í ráðningarsamningnum, sem gerður hafi verið í því skyni að veita stefnanda aðgang að tölvukerfum innan spítalans. Þá hafi stefnandi heldur ekki sýnt fram á lögvarinn rétt til þessara umframgreiðslna á grundvelli ólögmætrar mismununar. Stefndi byggir á því að honum sé heimilt að semja um kaup og kjör við mismunandi hópa með ólíkum hætti og brjóti slíkt ekki í bága við jafnræðisreglu, enda sé um ólíkt starfsnám að ræða. Jafnræðisregla veiti ekki tilkall til réttinda sem ekki eigi sér stoð í lögum. Sé kröfum og málsástæðum stefnanda því mótmælt í heild sinni.
Af hálfu stefnda er kröfum um vexti og dráttarvexti af dómkröfum mótmælt, einkum upphafstíma þeirra.
Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV.
Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur fyrir dóminum stefnandi, Margrét Ingiríður Hallgrímsson, deildarstjóri mæðraverndar á LSH, dr. Helga Gottfreðsdóttir, dósent í ljósmóðurfræðum við Háskóla Íslands, Jón Hilmar Friðriksson, framkvæmdastjóri kvenna- og barnasviðs stefnda. Verður efni skýrslna þeirra rakið eins og þurfa þykir.
Mál þetta lýtur að vinnulaunakröfu stefnanda á hendur stefnda. Eins og rakið er hér að framan gerði stefndi ráðningarsamning við stefnanda hinn 27. maí 2011 og var ráðningartíminn tímabundinn frá 31. sama mánaðar til 31. mars 2012. Samkvæmt ráðningarsamningnum var stefnandi ráðin sem hjúkrunarfræðingur til stefnda í 80% starfshlutfalli og er launaflokkur tilgreindur 661.021.
Fyrir liggur að stefnandi var á umræddum tíma ljósmóðurnemi í starfsnámi og hafði þá lokið BS-námi í hjúkrunarfræðum. Af skýrslum Margrétar Ingiríðar Hallgrímsson, dr. Helgu Gottfreðsdóttur og Jóns Hilmars Friðrikssonar, sýnist ljóst að vegna aukinna sparnaðarkrafna til spítalans hafði starfstími ljósmæðranema í starfsnámi verið skorinn niður sem skapaði óvissu um launakjör ljósmæðranema í starfsnámi á spítalanum. Fram kom hjá vitninu Margréti I. Hallgrímsson að ljósmæðranemar í starfsnámi hefðu jafnan verið upplýstir um þessa stöðu. Í skýrslu Jóns Hilmars Friðrikssonar kom fram að ljósmæðranemum í starfsnámi hefðu verið greidd laun samkvæmt grunntaxta kjarasamnings hjúkrunarfræðinga og að á þessum tíma hefði verið greitt fyrir 19 vikna vinnu. Upplýsti hann jafnframt að nú væru ljósmæðranemar í starfsnámi ráðnir í tímavinnu. Þá kom fram í skýrslu Jóns Hilmars að tilgangur með gerð ráðningarsamnings við stefnanda hefði einkum verið sá að veita stefnanda aðgang að tölvukerfum spítalans og þá jafnframt að koma henni inn í launbókhaldið.
Þrátt fyrir framangreint, gerði stefndi ráðningarsamning við stefnanda meðal annars með þeim launakjörum að hún skyldi fá greitt fyrir 80% starfshlutfall samkvæmt launaflokki 661.021 í kjarasamningi hjúkrunarfræðinga. Verður að líta svo á að stefnda hefði verið í lófa lagið að útfæra efni ráðningarsamningsins með öðrum hætti en gert var, ef ætlunin var að semja um önnur kjör en þar eru ákvörðuð.
Þótt stefndi mótmæli í greinargerð sinni fjárhæð og framsetningu dómkröfu stefnanda, virðast athugasemdir hans lúta að því að krafist sé greiðslna vegna launalausra leyfa, án tillits til þess, hvort um eiginlegt vinnuframlag hefði verið að ræða af hálfu stefnanda á þeim tíma. Óumdeilt er að ekki var greitt samkvæmt útreikningi sem miðaðist við launaflokk samkvæmt ráðningarsamningnum og 80% starfshlutfall. Þegar litið er til framlagðs ráðningarsamnings milli aðila og þess, sem að framan er rakið, verður að fallast á það með stefnanda að hún eigi rétt á greiðslu launa samkvæmt ákvæðum hans. Í ljósi efnis ráðningarsamningsins verður ekki fallist á það með stefnda að samband nema í starfsnámi og stefnda sé svo eðlisólíkt að það breyti þeirri niðurstöðu. Getur vitneskja nema um aðstæður, fyrirkomulag starfsnámsins eða sjálfstæði og ábyrgð nema í starfi ekki varðað því að ekki sé staðið við gerðan ráðningarsamning né heldur fyrirvari stefnanda við efni hans. Verður enda ekki talið að þau atriði breyti nokkru um skyldu stefnda til að standa við ráðningarsamninginn samkvæmt efni sínu sem hann sannanlega gerði við stefnanda. Þá kom fram í skýrslu stefnanda að aldrei hefði komið til tals að breyta ráðningarkjörum hennar eða starfssamningi eftir gerð ráðningarsamningsins og hefur þeirri fullyrðingu ekki verið andmælt af hálfu stefnda. Samkvæmt vætti vitnisins Margrétar gerði spítalinn ekki þá kröfu til ljósmæðranema í starfsnámi að þeir stimpluðu sig inn þegar þeir mættu til starfa meðan á starfsnámi stóð. Hefur það því ekki áhrif á niðurstöðu máls þessa þótt af framlagðri útprentun úr viðverukerfi stefnda megi ráða að stefnandi hafi ekki alltaf stimplað sig inn til vinnu meðan á ráðningartíma hennar stóð.
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að stefnda beri að greiða stefnanda vangreidd laun í samræmi við framlagðan ráðningarsamning. Stefnandi kvaðst í skýrslu sinni fyrir dóminum hafa reiknað með því að vera launalaus þegar hún var í sumarleyfi í fjórar vikur frá 26. júní 2011 að telja, enda hefði hún á þeim tíma ekki áunnið sér rétt til launaðs leyfis. Af hálfu stefnanda hefur verið lögð fram sundurliðun á útreikningi dómkröfunnar. Að þessu virtu, gögnum málsins og með vísan til alls framanritaðs er það niðurstaða dómsins að stefnda beri að greiða stefnanda 1.345.976 krónur vegna vangreiddra launa, þ.e. stefnufjárhæðina 1.575.696 krónur að frádregnum 229.720 krónum vegna ólaunaðs sumarleyfis í fjórar vikur frá 26. júní 2011 að telja. Rétt þykir að hin dæmda fjárhæð beri dráttarvexti frá 15. apríl 2012 til greiðsludags. Í ljósi niðurstöðunnar eru ekki efni til að fjalla frekar um málsástæður stefnanda sem lúta að ólögmætri mismunun.
Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til meginreglu 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnda gert að greiða stefnanda 550.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Landspítali, greiði stefnanda, Súsönnu Kristínu Knútsdóttur, 1.345.976 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 15. apríl 2012 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 550.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.