Hæstiréttur íslands

Mál nr. 42/2010


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Skaðabætur
  • Sératkvæði


                                                        

Fimmtudaginn 27. maí 2010.

Nr. 42/2010.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

(Þórdís Bjarnadóttir hrl.

réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Skaðabætur. Sératkvæði.

X var ákærður fyrir kynferðisbrot, framin árið 2008, gagnvart dóttur sinni A og vinkonu hennar B, báðum fæddum árið 1996, með því að hafa í eitt skipti um sumarið lagst á milli stúlknanna, þar sem þær lágu saman í rúmi, strokið B um rassinn og síðan A um rass, maga og bak, í báðum tilvikum innanklæða. Þá var hann einnig ákærður fyrir kynferðisbrot gagnvart A með því að hafa síðar sama sumar eða um haustið lagst upp í rúm til hennar, þar sem hún lá sofandi og sett hönd hennar á beran lim sinn, en við það vaknaði stúlkan. Hafið þótti yfir skynsamlegan vafa að X hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefið að sök. Brot hans voru talin varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brot gegn dóttur hans jafnframt við 2. mgr. 200. gr. laganna. Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til þess að brot X beindust að dóttur hans og vinkonu hennar. Með brotum sínum hefði X brugðist trúnaðarskyldum sínum gagnvart dóttur sinni og fyrir lá að vanlíðan hennar væri mikil vegna brota hans. X ætti sér engar málsbætur. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í tíu mánuði. Þá var honum gert að greiða A 450.000 krónur og B 200.000 krónur í bætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. janúar 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist þyngingar á refsingu.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 900.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

B krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að skaðabótakröfum verði vísað frá héraðsdómi en til vara að bætur samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði lækkaðar.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur, þó þannig að brot ákærða gagnvart B, sem lýst er í 1. lið ákæru, verður heimfært undir 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/2003 og 11. gr. laga nr. 61/2007, en brot hans gagnvart dóttur sinni, sem fjallað er um í 1. og 2. lið ákæru, varða við sömu ákvæði svo og 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 9. gr. laga nr. 61/2007.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

        Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 465.060 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

Eins og rakið er í héraðsdómi eru ákærða gefin að sök kynferðisbrot gegn tveimur stúlkum, annars vegar dóttur sinni A og vinkonu hennar B, sumarið 2008, sbr. 1. lið ákæru, og hins vegar gegn dóttur sinni einnig sama sumar eða haust, sbr. 2. lið ákæru. Ákærði og dóttir hans eru ein til frásagnar um atvik það sem ákært er fyrir í 2. lið ákæru. Héraðsdómur telur framburð ákærða ótrúverðugan og reisir niðurstöðu sína á framburði stúlkunnar og lýsingu Ólafar Ástu Farestveit forstöðumanns Barnahúss fyrir dómi um líðan stúlkunnar og tekur jafnframt fram að ekki séu efni til að ætla að ákærði sé borinn röngum sökum af fjárhagsástæðum. Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi gaf Ólöf Ásta skýrslu sem vitni. Hún hafði þó hvorki gefið vottorð sem sérfræðingur né gat hún borið um málsatvik þar sem hún kom fyrst að málinu eftir að kæra hafði verið lögð fram. Fram er komið að móðir stúlkunnar mun vera formaður barnaverndarnefndar [...], sveitarfélagsins [...] og sveitarfélagsins [...]. Það var sú stjórnsýslunefnd sem leitaði til Barnahúss um aðstoð til handa ætluðum brotaþolum. Ákærði nefndi við skýrslugjöf hjá lögreglu að vandræði vegna fjármála hans og móður A gætu legið að baki kæru. Var um að ræða svar við spurningu lögreglu um þetta atriði. Sú lögregluskýrsla var hvorki borin undir ákærða við meðferð máls fyrir dómi né verður svar hans talið hafa þýðingu til sakfellingar frekar en sýknu. Frásögn dóttur ákærða er ágætlega skýr um málsatvik. Þó verður ekki fram hjá því litið að aðspurð í lok skýrslugjafar sinnar fyrir dómi sagði stúlkan „...það er mikið meira sem ég hefði getað sagt þér ef að ég hefði bara fest það inn í heilann, en ég gat það ekki. Samt var mamma að tína það upp úr sér áðan til að ég gæti sagt þér það.“ Þá sagði spyrjandinn: „Akkúrat, þannig að það er ekkert svona sem þú að manst neitt meira?“ Svar stúlkunnar var: „Nei, mamma er bara með þetta hjá sér.“ Þegar litið er til alls framanritaðs, einkum með tilliti til þess að ákærði og dóttir hans eru ein til frásagnar um það atvik sem ákært er fyrir í 2. lið ákæru, verður að sýkna ákærða af þessum sakargiftum, sbr. 108. gr. og 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Ég er sammála meirihluta dómenda um að sakfella ákærða fyrir háttsemi samkvæmt 1. lið ákærunnar enda eru tvö vitni að því atviki eins og greinir í héraðsdómi. Ég er sammála meirihlutanum um heimfærslu til lagaákvæða vegna þessa liðar ákærunnar, en tel að ákærða beri vægari refsing vegna sýknu af 2. lið ákærunnar, án þess að þörf sé á að ákveða hana sérstaklega í þessu sératkvæði.

Ég er einnig sammála meirihluta dómenda að vegna brots síns samkvæmt 1. lið ákæru beri ákærða að greiða stúlkunum báðum miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Við ákvörðun þeirra ber að líta til þess að ákærði gerðist sekur um kynferðisbrot gegn dóttur sinni og vinkonu hennar meðan þær dvöldu einar í umsjón ákærða í sumarbústað. Stúlkurnar voru einungis 11 og 12 ára er ákærði framdi brot sitt. Með því braut ákærði það traust sem þær báru til hans, hvor á sinn hátt. Brot sem þessi eru eðli málsins samkvæmt almennt til þess fallin að valda þeim sem fyrir þeim verða verulegum sálrænum erfiðleikum. Eftir atvikum tel ég að fallast beri að öllu leyti á kröfu B um miskabætur og dæma ákærða til að greiða A 600.000 krónur í miskabætur. 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 14. desember 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 1. desember 2009, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 29. maí 2009 á hendur X, kt. [...], [...], [...], fyrir eftirtalin kynferðisbrot, framin árið 2008 í sumarbústað í [...], [...]:

Gagnvart dóttur sinni, A, og vinkonu hennar, B, báðum fæddum árið 1996, með því að hafa í eitt skipti um sumarið, lagst á milli stúlknanna, þar sem þær lágu saman í rúmi, strokið B um rassinn og síðan A um rass, maga og bak, í báðum tilvikum innanklæða.

Gagnvart ofangreindri dóttur sinni, A, með því að hafa, síðar sama sumar eða um haustið, lagst upp í rúm til hennar þar sem hún lá sofandi og sett hönd hennar á beran lim sinn, en við það vaknaði stúlkan.

Þetta er talið varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 40/1992 og 11. gr. laga nr. 61/2007 og enn fremur við 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 9. gr. laga nr. 61/2007, hvað varðar brot gegn A.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu A er krafist skaðabóta að fjárhæð 900.000 krónur og af hálfu B skaðabóta að fjárhæð 500.000 krónur, í báðum tilvikum auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. september 2008 til 20. febrúar 2009, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laganna, frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara er krafist vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegrar þóknunar sér til handa.

I.

Með bréfum fjölskyldu- og velferðarnefndar [...], dags. 2. desember 2008, til lögreglu var þess farið á leit að rannsókn yrði hafin á því hvort ákærði hefði beitt dóttur sína, A, og vinkonu hennar, B, kynferðislegu ofbeldi. Um væri að ræða brot sem hefðu átt sér stað í sumarbústað, en ekki væri ljóst hvenær meint brot hefðu átt sér stað eða hversu oft.

Í bréfunum segir að stúlkurnar hefðu nokkrum dögum áður, að laugardags­kvöldi, greint móður A, C, frá því að ákærði hefði komið upp í rúm til þeirra þar sem þær sváfu í sumarbústað hans. Hann hefði lagst á milli þeirra og byrjað að strjúka bakið á B. Hún hefði sagt honum að hætta og hann hefði þá snúið sér að A. Stúlkurnar hefðu verið mjög órólegar og hræddar er þær hefðu sagt C frá þessu og grátið því þær hefðu lofað ákærða að segja ekki frá þessu. Síðar þetta kvöld hefði A sagt móður sinni frá því að hún hefði eitt sinn vaknað við að hönd hennar væri í klofinu á ákærða, en hann hafi verið nakinn. Hún hefði fundið fyrir því að hárin hafi verið svo skrýtin og ákærði lyktað illa og verið þvoglumæltur. Hún hefði farið að gráta og sagt honum að fara í nærbuxur. Ákærði hefði ekki farið og sofnað. Hún hefði setið uppi í rúminu alla nóttina og verið of hrædd til að sofna. Þá hefðu stúlkurnar sagt að ákærði hefði gert eitthvað svipað við B, en þá hafi hann verið í nærfötum.

II.

Hinn 4. desember 2008 lagði D fram kæru hjá lögreglu á hendur ákærða fyrir meint kynferðisbrot gegn dóttur hennar, B. Skýrði hún frá því að A og B hefðu verið vinkonur frá því þær voru í leikskóla. Foreldrar A væru skilin og B hefði oft farið með A um pabbahelgar í sumarbústað í [...] í [...]. Um liðna helgi, laugardaginn 29. nóvember, hefði B gist heima hjá A. A hefði beðið B um að koma með í sumarbústaðinn næstu helgi og B ekki viljað það. Stúlkurnar hefðu svo greint móður A frá því að ákærði hefði lagst upp í rúm til þeirra nokkrum sinnum og þá verið drukkinn, en þær hefðu greint það á lyktinni af honum og séð hann drekka bjór. Ákærði hefði klappað þeim á rassinn og bakið og þreifað á brjóstum A, allt innanklæða. Þá hefði B sagt að ákærði hefði eitt sinn tekið í hönd hennar og lagt hana á klof sér, en hann hefði verið í nærbuxum. B hefði fært höndina og sagt honum að hætta. Hann hefði þá hætt. Ákærði hefði við annað tilfelli tekið í hönd A og sett hana á bert typpið á sér. Hún hefði sagt honum að hætta, sem hann hafi gert og sofnað áfengissvefni við hlið A. Hún hefði setið í rúminu alla nóttina og ekki þorað að hreyfa sig. D sagði að atvikalýsing þessi væri samkvæmt því sem B hefði sagt sér og einnig samkvæmt því sem C hefði eftir stúlkunum.

D taldi að atvik þessi hefðu gerst um haustið, en B hefði þá gist í fjögur eða fimm skipti í bústaðnum. B hefði ekki alltaf farið með í bústaðinn þetta haust og A stundum farið ein með ákærða. Þá sagði D að daginn eftir að B gisti hjá A, 30. nóvember, hefði B verið grátandi og í miklu uppnámi. B hefði þá sagt sér frá brotum ákærða og átt mjög erfitt með að tala um þetta. D sagði að hún hefði alltaf haft miklar áhyggjur af því að leyfa B að fara í sumar­bústaðinn vegna drykkju ákærða. D taldi að síðasta skiptið sem B fór í sumarbústaðinn hefði verið um helgina 25.-26. október 2008.

Hinn 5. desember 2008 lagði C fram kæru á hendur ákærða vegna meints kynferðisbrots gagnvart dóttur sinni, A. Greindi C frá því að helgina áður, 29.-30. nóvember, hefði B gist hjá A. Á laugardagskvöldinu hefðu stúlkurnar verið í tölvunni og hún heyrt þær pískra eitthvað. Þær hefðu svo allt í einu komið til sín og sagt að þær þyrftu að segja henni dálítið og hún mætti ekki verða vond. A hefði sagt að hún vildi ekki fara til föður síns þar sem hún væri hrædd við hann. Hún hefði spurt A af hverju hún væri hrædd við hann og hún þá sagt að hún mætti ekki segja af hverju því þá yrði hann reiður. A hefði greint frá því að ákærði hefði oft verið fullur í sumarbústaðnum. Hann hefði lagst upp í rúm á milli hennar og B. Ákærði hefði sett höndina á sér inn undir föt B og strokið henni um magann og bakið og svo farið inn undir nærbuxur hennar og strokið henni um rassinn. B hefði þá farið að gráta og sagt honum að hætta. Hann hefði þá snúið sér að A og gert það sama við hana. A hefði byrjað að gráta og sagt ákærða að hætta sem hann hefði gert. Einnig kom fram hjá C að stúlkurnar hefðu talað um að það hefði verið vond brennivínslykt af ákærða og hann verið þvoglumæltur og sagt að þær mættu ekki segja frá. C sagði að stúlkurnar hefðu verið mjög hræddar við að segja frá þessu því þær væru að svíkja loforð og A hefði verið með mikið samviskubit yfir því að segja frá og yfir því að faðir hennar hefði gert þetta við vinkonu hennar, B. A hefði viljað fá fullvissu um að hún þyrfti ekki að fara upp í sumarbústað aftur með ákærða og C hefði því rætt við ákærða um þetta mál. Ákærði hefði orðið mjög reiður og greinilega verið ölvaður og að lokum skellt á. Hún hefði ekkert heyrt frekar frá honum. A hefði svo sagt frá því að hún hefði verið ein með ákærða í sumarbústaðnum eitt sinn. Hún hefði legið uppi í rúmi og ákærði lagst allsber upp í til sín. Hún hefði verið sofandi og vaknað við það að ákærði héldi í höndina á henni og væri með hana á typpinu og hefði nuddað hendi hennar við typpið. A hefði sagt að hárin á typpinu hefðu verið skrýtin viðkomu. Hún hefði farið að gráta og öskrað á ákærða að hætta og fara í nærbuxurnar. Ákærði hefði sagt: „Ekki vera hrædd við pabba og þú mátt ekki segja neinum frá.“ Ákærði hefði svo sofnað í rúminu hjá henni og hún sest upp og ekki þorað að sofna. Hún hefði ekki getað komist í burtu því rúmið hafi verið upp við vegg og hún verið fyrir innan. B hefði sagt að ákærði hefði gert þetta líka við sig, en þá hafi hann verið í nærbuxum.

C kvaðst hafa reynt að tímasetja meint brot. A hefði farið til útlanda 15. júlí í þrjár vikur. A hefði sagt að atvik samkvæmt 1. tl. ákæru hefði gerst fyrir sumarfríið en atvik samkvæmt 2. tl. ákæru eftir sumarfríið, á haustmánuðum. Þá sagði C að stúlkurnar hefðu ekki alltaf farið tvær saman með ákærða. A hefði viljað draga úr þessum sumarbústaðaferðum síðustu tvo mánuði og B alveg hætt að vilja fara í bústaðinn.

Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 8. desember 2008 vegna meintra brota gagnvart dóttur sinni, A. Hann neitaði sök og vildi ekki tjá sig um sakarefnið. Hann neitaði því að hafa sýnt dóttur sinni kynferðislega tilburði og neitaði því að hafa lagst upp í rúm til hennar og B í sumarbústaðnum. Aðspurður hvort hann ætti við áfengisvandamál að stríða kvað hann svo ekki vera. Hann sagðist fá sér rauðvín með mat og það hefði komið fyrir að hann yrði ölvaður á pabbahelgum, en aldrei svo að hann muni ekki eftir því sem hann geri. Ákærði gaf aftur skýrslu hjá lögreglu degi síðar, 9. desember, vegna kæru á hendur honum fyrir meint kynferðisbrot gegn B. Ákærði neitaði alfarið sakargiftum. Fram kom hjá ákærða að stúlkurnar hefðu síðast verið í sumarbústaðnum í september eða október. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 20. janúar 2009 neitaði ákærði sök sem fyrr. Var hann m.a. inntur eftir því af hverju stúlkurnar væru að bera hann sökum og sagði ákærði ástæðuna vera fjármálavandræði á milli sín og fyrrverandi konu sinnar, móður A.

E, hálfsystir A, gaf skýrslu hjá lögreglu 12. og 17. desember, en ekki er ástæða til að rekja framburð hennar sérstaklega hér.

II.

Hinn 12. desember 2008 voru teknar skýrslur fyrir dómi af B og A, með vísan til a-liðar 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 74. gr. a og 7. mgr. 59. gr. sömu laga, sbr. 18. og 23. gr. laga nr. 36/1999.

B skýrði frá því að ákærði hefði verið að gera „dónalega hluti“ og drekka. Hann hefði káfað á rassi hennar og alltaf verið að segja henni að leggjast hjá sér. Þá hefði hann alltaf verið að gyrða niður um hana og A. Nánar um það þegar hann hefði beðið hana um að leggjast hjá sér sagði hún að hann hefði virst fullur og sagt sér að koma og leggjast. Hann hefði sagt að hún ætti ekkert að vera hrædd, en hún hefði sagt nei. Einnig hefði ákærði strítt þeim og kitlað þær. Svo hefði hann gyrt náttbuxurnar niður um A og hana. Hún hefði sagt: „Hættu.“ Þetta hefði gerst í stofunni í sumarbústaðnum. Um það þegar ákærði hefði káfað á rassi hennar kvaðst hún hafa verið að fara að sofa. Ákærða hefði fundist kalt í herberginu og allt í einu byrjað að strjúka henni, fyrir innan nærbuxurnar. Hún hefði sagt „hættu“ og þá hefði hann snúið sér að A. Hún kvaðst ekki vita hvað hann hefði gert við A, en hún hefði eiginlega sofnað um leið og hann hefði snúið sér að A. Um líðan sína þegar þetta hafi gerst kvað hún sér hafa liðið „pínu“ illa. Þegar hún hafi vaknað um morguninn hafi ákærði verið búinn að færa sig. Hún sagði að það hefði verið í sitt hvort skiptið sem ákærði hefði gyrt niður um hana og þegar hann hefði káfað á rassi hennar, þ.e. ekki sömu helgi.

Innt eftir því hvenær þetta hefði gerst, hvort það hefði verið fyrir eða eftir sumarið, sagði hún að þetta hefði verið áður en sumarið byrjaði. Nánar aðspurð um tímasetningar kvaðst hún ekki muna hvenær þetta hefði verið, hvort það hafi verið fyrir sumarið eða eftir. Hún kvaðst hafa farið í nokkur skipti í sumarbústaðinn eftir að ákærði hefði káfað á rassi hennar.

Þá greindi hún frá því að ákærði hefði eiginlega alltaf verið að drekka í sumarbústaðnum. Hann hefði drukkið á kvöldin og um daginn og á morgnana. Eitt sinn hefði hann vakað alla nóttina og svo farið að sofa um daginn. Enn fremur sagði hún að ákærði hefði beðið þær um að segja ekki frá því að hann væri að drekka og „gera svona“. Þær hefðu fyrst ekki að þorað að segja neinum frá því sem hefði gerst, en svo hefðu þær gert það því A hefði liðið svo illa og ekki viljað fara aftur til föður síns. Þær hefðu talað við C, móður A. Um líðan sína eftir að hún greindi frá þessum atvikum sagði hún að sér liði bara vel. 

A greindi frá því við skýrslutöku fyrir dómi að ákærði hefði alltaf verið að biðja vinkonu hennar, B, um að setjast hjá sér og leggjast hjá sér upp í rúm. Hann hefði þá verið fullur, en hann hefði alltaf verið fullur þegar þau fóru í sumarbústaðinn. Þá hefði hann eitt sinn, þegar hún hefði verið ein með honum, komið upp í rúm til hennar og verið allsber. Hann hefði sett hönd hennar á typpið á sér. Daginn eftir hefði hún sagt við ákærða að gera þetta ekki aftur og hann hefði þá sagt að hún mætti ekki segja neinum frá, hann væri bara fullur.

Um atvikið þegar ákærði kom upp í til hennar og B sagði hún að hann hefði farið á milli þeirra og nuddað á þeim rassinn „og eitthvað“. Hún lýsti því nánar þannig að ákærði hefði strokið B um rassinn og hún sagt honum að hætta. Þá hefði hann snúið að sér að henni og nuddað rass hennar, bak og bringuna, innanklæða. Jafnframt sagði hún að ákærði hefði komið upp í til þeirra vegna þess að honum hefði verið kalt. Það hefði verið vínlykt af honum og þeim hefði fundist þetta hálf ógeðslegt.

Nánar um atvik þegar ákærði hefði sett hönd hennar á typpið á sér sagði hún að hún hefði sofnað og hann hefði sett puttana á henni þarna. Hún hefði fundið „svona skrýtið hár“, ekki venjulegt hár á höfði, heldur svona skegg og „svona öðruvísi“. Hún hefði vaknað, farið að gráta og sagt honum að fara í nærbuxurnar. Hún kvaðst ekki vita hvað hann hefði gert, en hann hefði sofnað. Hún hefði vakað alla nóttina og ekkert sofið. Daginn eftir hefði hún beðið hann um að fara heim, en hann hefði ekki viljað það og verið fullur næsta kvöld. Innt eftir því hvenær þetta hefði átt sér stað kvaðst hún ekki muna það alveg, þetta hefði verið einhverja helgina. Hún kvaðst hafa verið hrædd við að fara til ákærða og ekki þorað að segja móður sinni frá. Svo hafi verið að koma að því að hún ætti að fara til ákærða og þá hefðu hún og B sagt móður hennar frá þessu.

Jafnframt greindi hún frá „kitluleik“, en þá hefði ákærði tekið buxurnar niður um þær og kitlað þær. Hann hefði kitlað hana á maganum en B þar sem buxurnar voru. Hún sagði að þetta hefði gerst mörgum sinnum og byrjað áður en hún hefði farið til útlanda, 15. júlí að hún hélt, en verið miklu meira eftir það. Innt eftir því hvað hefði gerst áður en hún fór til útlanda sagði hún að ákærði hefði bara verið fullur og tekið niður um þær til að kitla þær og nuddað á þeim rassinn. Svo hefði hitt atvikið gerst. Hún kvaðst geta sagt „alveg fullt“ en hún muni bara ekki alveg. Mamma hennar muni það hins vegar af því hún væri búin að segja henni frá því. Þá sagði hún að ákærði hefði einu sinni einnig gert „þetta með typpið“ við B. 

Hún kvaðst hafa sagt móður sinni frá því sem hefði gerst eftir að hún hefði beðið B um að koma með í sumarbústaðinn næstu helgi en hún sagt nei vegna þess sem hefði gerst þar. Hún kvaðst hafa grátið er hún sagði frá vegna þess að ákærði hefði beðið hana um að segja ekki frá. Þegar hún var innt eftir því hvort hún myndi eftir fleiri tilvikum en þeim sem hún væri búin að greina frá kvaðst hún ekki gera það. Mamma hennar myndi helling en hún væri búin að rifja upp fyrir sér á leiðinni í skýrslutökuna. Um líðan sína sagði hún að sér liði bæði vel og illa. Vel yfir því að vera búin að segja móður sinni frá þessu og að þurfa ekki að fara til ákærða, en sér liði illa af því að ákærði hafi verið búinn að biðja hana um að segja ekki frá. Þegar hún var innt frekar eftir því hvenær ákærði hefði komið upp í til hennar og B sagði hún að skólinn hefði verið byrjaður. Nokkur tími hefði svo liðið þar til atvikið sem greinir í 2. tl. ákæru hefði gerst.

III.

                Ákærði neitaði sök við aðalmeðferð málsins. Hann kvaðst hafa heyrt fyrst af þessu máli þegar fyrrverandi eiginkona hans, C, hefði hringt í sig vegna þess að A hefði greint frá því að hann hefði verið að leita á sig. Borinn var undir ákærða framburður A og B um að hann hefði verið fullur í sumarbústaðnum og lagst á milli þeirra og strokið þeim. Ákærði sagði að þetta væri ekki rétt og hann hefði aldrei lagst á milli þeirra. Um áfengisneyslu sína í sumarbústaðnum kvaðst hann hafa fengið sér nokkrum sinnum rauðvínsglas þegar hann hefði grillað, en hann hefði aldrei verið undir verulegum áhrifum. Þá neitaði ákærði sakargiftum samkvæmt 2. tl. ákæru og sagði að hann hefði aldrei legið í sama rúmi og A í sumarbústaðnum. Ákærði kvaðst hafa farið með A í sumarbústaðinn um nær allar helgar og B komið með í nær öll skipti. Ákærði sagði að samskipti sín við A hefðu verið góð í gegnum tíðina og hann hefði aldrei fundið að hún hefði verið hrædd við sig eða ekki viljað koma til sín. Þá greindi ákærði frá því að þegar hann hefði skilið við móður A hefðu þau samið um að hann greiddi henni 250.000 krónur á mánuði, en hann hefði verið með góð laun. Í dag leyfðu aðstæður það hins vegar ekki og hann gæti ekki borgað henni. 

Vitnið C, móðir A, skýrði frá því fyrir dómi að A hefði farið til ákærða aðra hverja helgi um sumarið 2008, með einhverjum frávikum. Í lok nóvember hefði B verið í pössun hjá sér. A og B hefðu verið í eldhúsinu og verið að pískra eitthvað. A hefði svo komið til sín og sagt: „Mamma þú mátt ekki verða reið, við þurfum að segja þér soldið.“ Vitnið kvaðst hafa skynjað strax á raddblænum að þetta væri eitthvað alvarlegt. A hefði sagt að hún vildi ekki fara til ákærða næstu helgi og sagt að hann hefði komið upp í rúm til stúlknanna, lagst á milli þeirra og farið að strjúka þeim. Fyrst hefði hann strokið B og hún sagt honum að hætta. Þá hefði hann snúið sér að A og farið með höndina undir bolinn, inn á bakið og niður á rassinn. Ástæða þess að þær hefðu sagt vitninu frá þessu væri að A hefði miklar áhyggjur af því að það væri að koma pabbahelgi og reynt að fá B til að koma með sér, en hún ekki viljað fara með henni. Þær hefðu því ákveðið að það þyrfti að segja frá þessu. A hefði verið umhugað um að hún þyrfti ekki að fara til ákærða næstu helgi og viljað að vitnið hringdi í hann og hefði vitnið gert það. Þetta sama kvöld hefði A svo sagt frá því að hafa verið ein í sumarbústaðnum með ákærða og hann verið að drekka. Hún hefði verið farin inn að sofa og vaknað við það að ákærði væri kominn upp í rúm til hennar. Hann hefði verið allsber og hún hefði vaknað við að hann væri búinn að taka hönd hennar og setja á liminn á sér. Hún hefði verið mjög hrædd og öskrað á hann að hætta og fara í nærbuxurnar. Hún hefði grátið og sest upp í rúminu. Þá hefði hún sagt við vitnið að hárin hefðu verið svo skrýtin og hörð. Hún hefði setið uppi í rúminu, upp við vegginn, alla nóttina því hún hefði ekki þorað að fara fram úr. Vitnið sagði að áfengi hefði verið vandamál í hjónabandinu og að ákærði ætti við áfengisvandamál að stríða, en hann hefði ekki stjórn á drykkju sinni og hegðun. Jafnframt greindi vitnið frá því að A væri búin að vera reglulega í viðtölum í Barnahúsi. Hún væri lengi að sofna og vakni um nætur. Hún sýni einnig mikil líkamleg einkenni, en hún sé alltaf með höfuðverk, illt í maganum, fengi einhverja stingi og útbrot. Síðastliðið vor hefði hún verið í rannsóknum en ekkert komið út úr því. Vitnið taldi því að líðan hennar væri vegna þeirra atvika sem ákært er fyrir. Þá sagði vitnið að A væri reið. Henni hefði fundist gaman að fara í sumarbústað og hún væri reið yfir því að geta ekki haft samskipti við ákærða. Einnig sagði vitnið að A hefði engin samskipti lengur við ákærða. Borinn var undir vitnið framburður A þess efnis að vitnið hefði farið yfir málið með henni á leið í skýrslutöku 12. desember 2008. Vitnið kvaðst hafa bent A á að skýra frá eins og hún hefði gert fyrir vitninu og segja satt og rétt frá og öllu sem hún muni. A hefði rætt þessi atvik á leiðinni og spurt vitnið og talað almennt um málið.

Vitnið E, hálfsystir A, greindi frá því fyrir dómi að móðir sín, C, hefði hringt í sig 29. nóvember 2008 vegna þeirra atvika sem um ræðir í máli þessu. A hefði jafnframt sagt sér frá því að ákærði hefði komið upp í til hennar þegar hún hafi verið sofandi. Hann hefði verið allsber og hún beðið hann um að fara í nærbuxur. Hann hefði verið fullur og svo sofnað. Hún hefði grátið og setið uppi í rúminu alla nóttina. Þá hefði hún sagt vitninu að ákærði hefði verið drukkinn og hún hefði viljað fara heim daginn eftir, en hann ekki. Hún hefði tekið loforð af ákærða um að þetta myndi ekki gerast aftur.

                Vitnið D, móðir B, sagði fyrir dómi að dóttir sín hefði farið í sumarbústað með ákærða og A annað slagið. Á tímabili hefði þær verið aðra hverja helgi, en hún hefði ekki alltaf farið með. Vitnið sagði að um sumarið 2008 hefði B verið með vitninu í sumarbúðum fyrir börn þar sem vitnið starfar. B hefði því ekki farið í sumarbústaðinn um sumarið. Það hefði ekki verið fyrr en eftir að skólinn byrjaði 20. ágúst, eða september, sem hún hefði farið. Vitnið sagði að B hefði verið í pössun heima hjá A og þær hefðu þá skýrt frá því sem hefði gerst í sumarbústaðnum. Vitnið sagði að dóttir sín hefði greint sér frá því að hafa vaknað við að ákærði hefði strokið á sér rassinn. Hún hefði öskrað á hann sagt honum að hætta og fara fram. Þá hafi hann bara snúið sér að A. Vitnið sagði að dóttir sín hafi að öðru leyti ekki viljað ræða um þetta við sig.

Vitnið F, uppeldis- og afbrotafræðingur, greindi frá því að A hefði komið til sín í níu skipti frá því í janúar á þessu ári. Það hefði gengið vel með hana en það væri mikil vanlíðan væri hjá henni. Vitnið sagði að þegar um brot nákominna væri að ræða þá viðhéldist vanlíðanin miklu lengur og ákveðin togstreita væri milli þess að þykja vænt um viðkomandi og svo slæmu tilfinninganna. Öll meðferðarvinna tæki því miklu lengri tíma en ella. A segi frá því að sér líði illa og hún gráti oft í viðtölunum. Hún hafi haft mikið samviskubit yfir því að hafa sagt frá, því hún hafi lofað að gera það ekki. Henni hafi fundist hún vera að svíkja það og hún eigi erfitt með að takast á við það. Hún eigi í mikilli togstreitu með tilfinningar sínar. Henni þyki mjög vænt um ákærða en líði mjög illa yfir því sem hann hafi gert henni. Þá sé hún mjög hrædd um að aðrir í samfélaginu fái vitneskju um það sem hafi gerst. Jafnframt sé hún sorgmædd og hrædd um framtíðina. Hún hafi mjög miklar áhyggjur af ákærða og langi til að hafa samband við hann. Hún treysti sér síðan ekki til þess, en velti mikið fyrir sér möguleikunum á því. Í viðtali í september sl. hafi hún lýst því að sér líði ennþá frekar illa, hún fái martraðir og vakni upp á nóttinni. Vitnið sagði að hún væri bara rétt að byrja í meðferðinni og ætti eftir að vera lengi í meðferð, sérstaklega vegna þeirrar miklu togstreitu sem hún ætti í og samviskubits yfir því að hafa sagt frá. Vitnið sagði að A væri mjög dugleg að tjá sig og hún væri heiðarleg.

Vitnið kvaðst hafa hitt B fimm sinnum, en hlé hefði verið gert á viðtölunum því henni líði vel í dag. Vitnið sagði að togstreita hefði verið í B, en hún hefði unnið sig frá því. Hún hefði verið hrædd við að hitta ákærða en annars hefði hún ekki hugsað mikið um það sem gerðist. Vitnið sagði að B gæti hugsanlega þurft á einu eða tveimur viðtölum að halda í viðbót, en gott væri að láta fyrst nokkurn tíma líða.

IV.

                Ákærði hefur frá upphafi neitað sök samkvæmt 1. tl. ákæru, um að hafa lagst upp í rúm á milli dóttur sinnar, A, og vinkonu hennar, B, eitt sinn um sumarið 2008, í umræddum sumarbústað.

B hefur lýst því að ákærði hafi komið inn í herbergið þar sem stúlkurnar sváfu og lagst á milli þeirra, en ákærða hafi fundist kalt í herberginu sem hann var í. Hann hafi byrjað að strjúka á henni rassinn, innanklæða, en hún sagt honum að hætta og hann gert það. Hann hafi þá snúið sér að dóttur sinni, A. A lýsir því með sama hætti að ákærði hafi komið inn í herbergið til sín og B vegna þess að það hafi verið kalt í herberginu hjá honum. Hann hafi lagst á milli þeirra og fyrst snúið sér að B. B hafi beðið hann að hætta og þá hafi hann snúið sér að henni, strokið henni um rassinn, bakið og bringuna, innanklæða. Óljóst er hvenær atvik þetta á að hafa átt sér stað, en samkvæmt því sem fram hefur komið má telja líklegt að það hafi verið að hausti en ekki um sumar. Stúlkurnar ákváðu að greina móður A frá þessu í lok nóvember þegar til stóð að A færi til ákærða, en hún hafi ekki viljað það vegna þeirra atvika sem ákærða er gefið að sök í máli þessu.

Samkvæmt framansögðu hafa stúlkurnar báðar borið um með sama hætti að ákærði hafi lagst á milli þeirra og strokið þeim innanklæða. Að mati dómsins er framburður þeirra trúverðugur. Ekki þykir breyta neinu þar um þótt tímasetning þeirra á atvikinu sé óljós, enda eru þær ungar að árum og þær fóru í mörg skipti í sumarbústaðinn. Framburður ákærða þykir hins vegar tortryggilegur. Stúlkurnar hafa lýst mikilli áfengisdrykkju ákærða í sumarbústaðnum og vitnisburður C styður framburð þeirra. Ákærði kannast hins vegar ekkert við að hafa neytt áfengis í óhófi.

Að öllu þessu virtu og enn fremur þegar litið er til vitnisburðar F, uppeldis- og afbrotafræðings, um að stúlkurnar hafi þurft á meðferð að halda til að takast á við það atvik sem þær hafa lýst, þykir sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem greinir í 1. tl. ákæru, að því gættu að A lýsti því að hann hefði strokið sér um bringuna en ekki magann. Brot ákærða er rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

                Ákærði neitar jafnframt sök samkvæmt 2. tl. ákæru, um að hann hafi síðar sama sumar, eða um haustið, lagst upp í rúm til dóttur sinnar, A, þar sem hún lá sofandi og sett hönd hennar á beran lim sinn, en við það hafi hún vaknað. A hefur greint frá því að hafa vaknað við það að ákærði lá allsber við hlið hennar og að hann hefði sett hönd hennar á lim sér. Hún lýsti því að hárin hefðu verið skrýtin og ekki eins og venjuleg hár. Þá kvaðst hún hafa farið að gráta og sagt honum að fara í nærbuxurnar. Jafnframt lýsti hún því að ákærði hefði sofnað í rúminu og hún hefði vakað alla nóttina þar sem hún hefði ekki þorað að sofa eða fara fram úr. Vitnisburður F, um mikla vanlíðan stúlkunnar og tilfinningalega togstreitu, styður eindregið framburð stúlkunnar. Er ekkert fram komið í málinu sem getur skýrt þessa líðan hennar annað en það að ákærði hafi brotið gegn henni með þeim hætti sem hún hefur lýst. Ástæða er til að taka fram að engin efni eru til að ætla að ákærði sé borinn röngum sökum af fjárhagsástæðum, eins og ýjað hefur verið að. Þá verður að líta til þess, eins og áður segir, að framburður ákærða þykir tortryggilegur. Þegar allt þetta er virt er sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 2. tl. ákæru og er brot hans þar rétt heimfært til refsiákvæða.

                Ákærði er fæddur í desember 1958. Samkvæmt sakavottorði hans hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að brot hans beindust að dóttur hans og vinkonu hennar. Með brotum sínum brást ákærði trúnaðarskyldum sínum gagnvart dóttur sinni og liggur fyrir að vanlíðan hennar er mikil vegna brota hans. Ákærði á sér engar málsbætur. Að öllu þessu virtu og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tíu mánuði. Ekki eru efni til að binda refsingu ákærða skilorði að neinu leyti.

V.

Í málinu liggur fyrir skaðabótakrafa brotaþola, A, að fjárhæð 900.000 krónur. Þá gerir brotaþoli B kröfu um skaðabætur að fjárhæð 500.000 krónur. Báðar gera þær kröfu um vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. september 2008 til 20. febrúar 2009, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot og eiga brotaþolar rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Þykja bætur A hæfilega ákveðnar 450.000 krónur og bætur B 200.000 krónur. Þar sem óljóst er hvenær hin bótaskyldu atvik áttu sér stað skulu ekki reiknast almennir vextir á kröfuna. Dráttarvextir reiknast frá 20. febrúar 2009 þegar liðinn var mánuður frá birtingu bótakrafna fyrir ákærða hjá lögreglu, sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

VI.

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, alls 722.480 krónur. Um er að ræða þóknun verjanda sem þykir hæfilega ákveðin, með hliðsjón af umfangi málsins, 435.750 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti. Auk þess er um að ræða kostnað vegna aksturs, 37.730 krónur. Þóknun réttar­gæslu­manns þykir hæfilega ákveðin 249.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti. Í báðum tilvikum hefur verið tekið tillit til vinnu á rannsóknarstigi.

Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Sandra Baldvinsdóttir, Finnbogi H. Alexandersson og Gunnar Aðalsteinsson.

D ó m s o r ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í tíu mánuði.

Ákærði greiði A 450.000 krónur og B 200.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 9. gr. sömu laga, frá 20. febrúar 2009 til greiðsludags.

Ákærði greiði 722.480 krónur í sakarkostnað, þar með talin 435.750 króna þóknun skipaðs verjanda hans, Ásbjörns Jónssonar héraðsdómslögmanns, auk aksturskostnaðar, 37.730 krónur, og 249.000 króna þóknun réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdómslögmanns.