Hæstiréttur íslands

Mál nr. 406/2014


Lykilorð

  • Gengistrygging
  • Lánssamningur


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 12. febrúar 2015.

Nr. 406/2014.

Hraðfrystihúsið Gunnvör hf.

(Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Stefán A. Svensson hrl.)

Gengistrygging. Lánssamningur.

H hf. höfðaði mál á hendur Í hf. og krafðist viðurkenningar á því að lánssamningur hans og forvera Í hf. væri í íslenskum krónum bundinn gengi erlendra gjaldmiðla. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, kom fram að útborgun lánsins hefði að mestu leyti farið fram í erlendum gjaldmiðlum og gjaldeyrisreikningar H hf. verið skuldfærðir fyrir afborgunum og vöxtum. Var því talið að um hefði verið að ræða lán í erlendum gjaldmiðlum og Í hf. sýknaður af kröfu H hf.  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. júní 2014. Hann krefst þess að viðurkennt verði að lánssamningur 15. nóvember 2004 milli sín og Íslandsbanka hf. sé í íslenskum krónum bundinn gengi erlendra gjaldmiðla. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.   

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi lýtur ágreiningur aðila að því hvort lánssamningur áfrýjanda 15. nóvember 2004 sé um lán í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Við fyrirtöku málsins 29. október 2013 féllst héraðsdómari á að skipta sakarefni þess á grundvelli heimildar í 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þannig að fyrst yrði skorið úr um hvort lánssamningurinn væri í íslenskum krónum en gengistryggður. Því yrði beðið með að leysa úr þeim ágreiningi hvort lokamálsliður 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu gæti tekið til skuldbindingar samkvæmt samningnum. Tekur kröfugerð áfrýjanda hér fyrir dómi mið af þessu.

Í dómum sínum um hvort lán sé í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla hefur Hæstiréttur fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefur gengist undir. Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis skuldbindingin er að þessu leyti, eins og á við um þann lánssamning sem hér reynir á, hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hún hefur verið efnd og framkvæmd að öðru leyti. Þau atriði eru rakin í hinum áfrýjaða dómi og með vísan til forsendna hans að þessu leyti verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Hraðfrystihúsið Gunnvör hf., greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2014.

                Mál þetta, sem dómtekið var hinn 13. maí sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf., Hnífsdalsbryggju, Hnífsdal, á hendur Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 14. júní 2013.

                Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði með dómi að lánasamningur, dagsettur 15. nóvember 2004, að fjárhæð 1.400.000.000 krónur, upphaflega milli stefnanda og Íslandsbanka hf., kt. 550500-3530, en nú milli stefnanda og stefnda, sé bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Þá krefst stefnandi þess að stefndi greiði sér málskostnað að skaðlausu samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

                Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda, að skaðlausu.

II

                Málavextir eru þeir, að stefnandi gerði lánssamning við Íslandsbanka hf., 15. nóvember 2004.  Á forsíðu samningsins var tilgreint að hann væri um lán í erlendum gjaldmiðlum. Í aðfararorðum samningsins sagði að hann væri til 15 ára að „fjárhæð jafnvirði ISK 1.400.000.000 – eittþúsundogfjögurhundruðmilljónir 00/100 íslenskar krónur – í erlendum myntum“ með þeim skilmálum sem greindi í samningnum.

Í 1. gr. samningsins, sem bar yfirskriftina „lánsfjárhæð og útborgun“, sagði að lántaki lofaði að taka að láni og lánveitandi að lána „umsamda lánsfjárhæð“.  Lántaki skyldi senda lánveitanda beiðni um útborgun með a.m.k. tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tiltekið væri hvernig ráðstafa skyldi láninu.  Form að útborgunarbeiðni væri fest við samninginn sem viðauki 1.  Í henni skyldi lántaki tilkynna lánveitanda í hvaða erlenda gjaldmiðla hann myndi „umbreyta lánsfjárhæðinni og í hvaða hlutföllum, þó að lágmarki 10% fyrir einstakan gjaldmiðil“.  Fjárhæð hvers gjaldmiðils fyrir sig ákvarðaðist þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgun lánsins.  Á því tímamarki yrðu fjárhæðirnar endanlegar og myndu ekki breytast innbyrðist þaðan í frá, þótt upphafleg hlutföll þeirra kynnu að breytast á lánstímanum.  Lánið yrði þá eftirleiðis tilgreint með fjárhæð þeirra erlendu mynta, eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum, eða íslenskum krónum, samkvæmt heimildum 3. og 4. gr. samningsins.

Í 2. gr. samningsins er kveðið á að lánið skyldi endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstæði af.  Hefði lánveitandi heimild, en ekki skyldu, til þess að skuldfæra gjaldeyrisreikninga lántaka hjá lánveitanda fyrir greiðslum samkvæmt samningnum. Lánið skyldi endurgreiða með 45 jöfnum afborgunum á fjögurra mánaða fresti, í fyrsta sinn 5. mars 2005, í þeim gjaldmiðlum sem það samanstæði af.

Í 3. gr. samningsins er kveðið á um að lánshlutar í erlendum myntum öðrum en evrum skuli bera LIBOR-vexti, en lánshluti í evrum EURIBOR-vexti.  Einnig er kveðið á um að ef lántaki vanefni skuld samkvæmt lánssamningnum beri honum að greiða dráttarvexti, sem skuli vera vaxtagrunnur að viðbættu álagi og að lánveitanda sé þá heimilt að umreikna lánið í íslenskar krónur miðað við skráð sölugengi lánveitanda í lok gjaldfellingardags, á þeim myntum sem lánið samanstandi af.  Beri þá að greiða dráttarvexti í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.

Í 4. grein er að finna myntbreytingarheimild, en þar er kveðið á um að lántaki geti óskað eftir myntbreytingu lánsins, þannig að eftirstöðvar lánsins miðuðust við aðra erlenda mynt eða reikningseiningu, eina eða fleiri, frá og með upphafi næst vaxtatímabils. Valréttur lántaka takmarkaðist hverju sinni við USD, EUR, GBP, JPY og CHF. Þá sagði að við myntbreytingu skyldi við umreikning nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt væri að miða við og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skyldi miða við, samkvæmt síðustu gengisskráningu lánveitanda á íslensku krónunni, tveimur virkum bankadögum fyrir myntbreytinguna nema um annað væri sérstaklega samið.

Ráðstafa skyldi láninu til endurfjármögnunar á öllum skuldum lántakanda við lánveitanda, samkvæmt sérstöku yfirliti sem fest yrði við samninginn sem viðauki 3, auk umframfjármögnunar til greiðslu á öðrum skuldum lántaka.  Í viðauka 3 við lánasamninginn var síðan að finna yfirlit yfir lán sem greidd voru upp með samningnum.  Þar voru fjárhæðir lánanna sem greiða átti upp einungis tilgreindar í íslenskum krónum í ákveðnum myntum. Stefnandi kveður að stærsti hluti þessara lána hafi verið lán í íslenskum krónum sem hafi verið bundin við reikningseiningu Fiskveiðasjóðs Íslands (RFÍ), sbr. 6. gr. reglugerðar um Fiskaveiðisjóð Íslands nr. 277/1991. 

Í samræmi við 1. gr. samningsins sendi stefnandi útborgunarbeiðni til Íslandsbanka hf. 24. nóvember 2004, þar sem hinar erlendu myntir voru tilgreindar í hlutföll þeirra af lánsfjárhæð, þ.e. 20% bandaríkjadalir, 40% í evrum, 20% í japönskum jenum og 20% í svissneskum frönkum.  Jafnframt var þess óskað að lánsfjárhæðirnar yrðu greiddar inn á nánar tilgreinda gjaldeyrisreikninga í þessum gjaldmiðlum.  Íslandsbanki hf. gaf út kaupnótu 26. nóvember 2004 vegna lánsins. Þar kom fram að heildarlánsfjárhæð væri 1.400.000.000 krónur  þar af lántökugjald 2.100.000 krónur og væru 1.397.900.000 krónur stefnanda til ráðstöfunar.  Þá liggur fyrir gjaldeyrispöntun til útborgunar 26. nóvember 2004, þar sem grunnmynt lánsins var tilgreind íslenskar krónur og heildarfjárhæð þess tilgreind 1.400.000.000 íslenskar krónur.

Útborgun lánsins fór þannig fram að jafnvirði krónur 1.397.900.000 í nánar tilgreindum gjaldmiðlum voru lagðar inn á gjaldeyrisreikninga stefnanda. 

Greiðsla stefnanda á afborgunum og vöxtum fór síðan þannig fram að sömu gjaldeyrisreikningar voru skuldfærðir fyrir greiðslunum. 

Nafni Íslandsbanka hf. var breytt í Glitni banka hf. í mars 2006.  Með ákvörðun 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar Glitnis banka hf. og skipaði bankanum skilanefnd í samræmi við 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eins og þeim var breytt með lögum nr. 125/2008.  Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 var öllum eignum Glitnis banka hf. ráðstafað til Nýja Glitnis banka hf. sem er stefndi þessa máls.  Meðal þeirra eigna sem ráðstafað var til stefnda var lán stefnanda.  Í febrúar 2009 var nafni stefnda breytt úr Nýja Glitni banka hf. í Íslandsbanka hf.

Stefnandi sendi stefnda bréf 11. nóvember 2011 og óskaði eftir viðræðum við stefnda um leiðréttingu á höfuðstól lánsins vegna ólögmætrar gengistryggingar.  Í bréfi stefnanda kom fram að í lánssamningnum mætti finna ákvæði sem gæfu til kynna að um væri að ræða íslenskt lán með ólögmætri tengingu höfuðstóls við gengi erlendra gjaldmiðla.  Þannig væri lánsfjárhæðin í lánssamningnum einungis tilgreind í íslenskum krónum með jafnvirðisorðalagi.  Þá væri hvergi minnst á fjárhæð lánsins í erlendum myntum. Benti það sterklega til þess að þær myntir, sem lánið samanstæði af, væru til viðmiðunar höfuðstóls í íslenskum krónum.  Að lokum væri í samningnum kveðið á um myntbreytingarheimild.

Stefndi svaraði með bréfi, dagsettu 28. nóvember 2011, þar sem stefndi lýsti sig ósammála framangreindum sjónarmiðum stefnanda.  Að mati stefnda léki ekki vafi á því að hér væri um lán í erlendum myntum að ræða enda væri efni lánssamningsins sem og öll framkvæmd við veitingu lánsins til þess fallin að undirstrika þá staðreynd.  Þá vísaði stefndi til þess að stefnandi hefði, samkvæmt beiðni um útborgun lánsins, fengið erlendar myntir greiddar inn á gjaldeyrisreikninga sína.  Því væri vandséð hvernig hér gæti verið um að ræða lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Að lokum benti stefndi á dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1682/2010, þar sem til umfjöllunar hefði verið lán þar sem lánsfjárhæðin væri tiltekin að jafnvirði í íslenskum krónum.  Í niðurstöðum dómsins segði að þar sem fjárhæð hvers gjaldmiðils hefði verið lögð inn á gjaldeyrisreikninga lántaka yrði ekki annað séð en að lánið hefði verið veitt í tilgreindum erlendum myntum.

Lögmaður stefnanda svaraði stefnda með bréfi, dagsettu 25. janúar 2012. Þar kom fram að stefnandi féllist ekki á rökstuðning stefnda og vísaði í því sambandi til nánar tilgreindra dóma Hæstaréttar Íslands.  Ljóst væri að skuldbinding stefnanda samkvæmt lánssamningnum væri tilgreind í íslenskum krónum og hvergi væri í samningnum að finna lánsfjárhæð tilgreinda í erlendum gjaldmiðlum.  Var farið fram á það við stefnda að lánssamningurinn yrði endurreiknaður með tilliti til þess að skuld samkvæmt honum hefði með ólögmætum hætti verið tengd við gengi erlendra gjaldmiðla.

Stefndi hafnaði beiðninni með bréfi, dagsettu 7. mars 2012.  Vísaði stefndi til þess að það væri ekki rétt hjá lögmanni stefnanda að lánsfjárhæð lánsins væri hvergi til greind í lánasamningnum.  Stefnandi hefði óskað eftir því í beiðni um útborgun lánsins, sem væri hluti lánasamningsins, að fá erlendar myntir greiddar inn á gjaldeyrisreikninga sína.

Hinn 17. janúar 2013 felldi Hæstiréttur dóm í máli stefnda og Umbúðamiðlunar ehf. mál nr. 386/2012, en málsaðilar deildu um það hvort lán Umbúðamiðlunar ehf. hefði að geyma ólögmæta gengistryggingu.  Í niðurstöðum sínum hafi Hæstiréttur Íslands tiltekið að í lánasamningi hafi fjárhæð lánsins verið tilgreind með því einu að hún væri að „jafnvirði allt að ISK 120.000.000,00“.  Þótt komið hefði fram í fyrirsögn samningsins að hann væri um „lán í erlendum gjaldmiðlum og ísl. krónum, verðtryggt“ væri hvergi í honum sagt til um hvort það kæmi til með að verða í einhverjum erlendum gjaldmiðlum fremur en íslenskum krónum, hverjir þeir gjaldmiðlar þá yrðu og með hvaða fjárhæð í þeim eða hlutfalli af fjárhæðinni í íslenskum krónum.  Með því að eina fjárhæðin, sem beint eða óbeint væri tilgreind í lánssamningnum, var í íslenskum krónum gæti engum vafa verið háð að hann hafi eingöngu tekið til skuldbindingar í þeim gjaldmiðli, sem óheimilt væri, samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001, að binda við gengi erlendra gjaldmiðla.

Í kjölfar þessa dóms Hæstaréttar Íslands sendi lögmaður stefnandi bréf til stefnda 30. janúar 2013.  Kom fram að stefnandi teldi ljóst af áðurgreindum dómi Hæstaréttar Íslands 17. janúar 2013 að útborgunarbeiðnin, sem stefndi vísaði til í bréfi sínu frá 7. mars 2012, gæti ekki haft þýðingu við mat á því hvort lán stefnanda væri í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum.  Ljóst væri að eina fjárhæðin, sem beint eða óbeint hafi verið tilgreind í lánasamningnum, hafi verið í íslenskum krónum og með vísan til áðurgreinds hæstaréttardóms væri engum vafa háð að lánasamningurinn hefði einungis tekið til skuldbindingar í þeim gjaldmiðli.  Var beiðni stefnanda um endurútreikning lánsins ítrekuð.

Stefndi svaraði með bréfi 15. mars 2013, þar sem fram kom að stefndi teldi lán stefnanda lögmætt og teldi því ekki efni til þess að endurreikna lánið.  Vísaði stefndi til þess að í dómi Hæstaréttar Íslands 11. júní 2012 í máli 332/2012 hefði reynt á sambærilegan lánasamning og í tilfelli stefnanda.  Þar hefði lánsfjárhæð eingöngu verið tilgreind sem jafnvirði íslenskra króna en lánsfjárhæð hins vegar greidd út í erlendum myntum.  Það hefði hins vegar verið vísað til kaupnótu og gjaldeyrispöntunar um tilgreiningu lánsfjárhæða.

III

Byggir stefnandi kröfu sína á því að skuld hans samkvæmt áðurnefndum lánssamningi, dagsettum 15. nóvember 2004, hafi verið vegna láns í íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti.  Lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla.  Samkvæmt 2. gr. laga nr. 38/2001 sé ákvæði 14. gr. laganna ófrávíkjanleg og verði því ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki sé stoð fyrir í lögum.  Stefnandi byggir á því að ákvæði samnings hans og stefnda um gengistryggingu hafi verið í andstöðu við þessi fyrirmæli laga nr. 38/2001 og séu því óskuldbindandi fyrir stefnanda.  Með dómum Hæstaréttar Íslands 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 var komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt væri að lögum að tengja höfuðstól láns í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, þar sem slíkt stríddi gegn ófrávíkjanlegum ákvæðum 13. gr. og 14. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 2. gr. þeirra.

Með vísan til heimildar 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 krefjist stefnandi þess að að framangreint verði viðurkennt með dómi.

Samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands ráðist það, hvort skuldbinding sé í gengistryggðum íslenskum krónum og þannig andstæð ákvæðum VI. kafla laga nr. 38/2001 eða erlendum myntum, öðru fremur af skýringu á texta viðkomandi samnings, þar sem lýst sé þeirri skuldbindingu, sem lántaki takist á hendur.  Hafi þar skipt mestu sú fjárhæð sem beint eða óbeint sé tilgreind í viðkomandi samningi.  Dugi orðalag í samningi um skuldbindingu ekki eitt og sér til að komast að niðurstöðu um gjaldmiðil hennar hafi Hæstiréttur talið að gæta verði að því hvernig ákvæðum samningsins um efndir aðilanna hafi verið háttað og hvernig að þeim hafi verið staðið í raun.

Stefnandi telur að tilgreining á skuldbindingum aðila í lánssamningnum 15. nóvember 2004 og tengdum gögnum beri með sér að lánið hafi verið í íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla og því hafi verið um að ræða lán með ólögmætri gengistryggingu sem gangi gegn 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.

Í fyrsta lagi sé lánsfjárhæðin í lánssamningnum tilgreind með því einu að hún sé „að jafnvirði ISK 1.400.000.000“, þ.e. í íslenskum krónum.  Í 1. gr. samningsins, sem beri yfirskriftina „lánsfjárhæð og útborgun“, segi síðan að lántaki lofi að taka að láni og lánveitandi að lána „umsamda lánsfjáræð“. Í  samningnum hafi hvergi verið sagt til um í hvaða gjaldmiðlum lánið yrði og með hvaða fjárhæð í þeim eða hlutfalli af fjárhæðinni í íslenskum krónum. Eina „umsamda lánsfjárhæðin“, sem lántaki hafi átt að taka að láni og lánveitandi að lána, hafi því verið í íslenskum krónum.  Stefnandi telur framangreinda aðstöðu varðandi lánið vera sambærilega þeirri sem til umfjöllunar hafi verið í dómum Hæstaréttar í málum nr. 386/2012 og 189/2013 og  og eindregið benda til þess að lán stefnanda hafi verið í íslenskum krónum.

Í öðru lagi hafi sagt í umfjöllun lánasamningsins um útborgunarbeiðni lánsins að í henni skyldi stefnandi tilkynna stefnda í hvaða erlenda gjaldmiðla hann myndi „umbreyta lánsfjárhæðinni“.  Hefði lánið verið í hinum erlendu myntum hefði að mati stefnanda verið þarflaust að taka fram að umbreyta þyrfti lánsfjárhæðinni í myntirnar.  Telur stefnandi þetta benda eindregið til þess að lánsfjárhæðin hafi verið ákveðin í íslenskum krónum.

Í þriðja lagi segi í 4. gr. samningsins, um myntbreytingarheimild, að við myntbreytingu skyldi við umreikning nota sölugengi þess gjaldmiðils sem hætt væri að „miða við“ og kaupgengi þess gjaldmiðils sem framvegis skyldi „miða við“ samkvæmt síðustu gengisskráningu stefnda á íslensku krónunni.  Stefnandi telur að af þessu megi ráða að höfuðstóll lánsins hafi verið ákveðinn í íslenskum krónum en bundinn við gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni, enda bendir orðalagið um að lánið væri „miðað við“ gengi erlendra gjaldmiðla til þess að það hafi ekki verið í þeim gjaldmiðlum, heldur íslenskum krónum.

Í fjórða lagi segi í beiðni um útborgun lánsins, dagsettri 24. nóvember 2004, að með vísan til 1. gr. lánasamnings aðila um lán „að fjárhæð jafnvirði 1.400.000.000,- ISK“ væri þess óskað að „lánið“ yrði greitt út með nánar tilgreindum hætti.  Í beiðninni hafi hvergi verið að finna tilgreiningu á fjárhæð lánsins í erlendum myntum, heldur hafi einungis verið tekið fram að lánið skyldi greitt út með því að nánar tilgreindar myntir í ákveðnum hlutföllum af fjárhæð lánsins í íslenskum krónum yrðu lagðar inn á gjaldeyrisreikninga stefnanda.  Með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands frá 23. apríl 2013 í máli nr. 189/2013 bendi framangreint eindregið til þess að lánsfjárhæðin hafi verið ákveðin í íslenskum krónum.

Í fimmta lagi segi í kaupnótu lánasamningsins, dagsettri 26. nóvember 2004, að „heildarlánsfjárhæð“ væri „ISK 1.400.000.000,00“.  Þar af væri lántökugjald 2.100.000 íslenskar krónur og væru 1.397.900.000 íslenskar krónur stefnanda til ráðstöfunar.  Í kaupnótunni hafi síðan verið tilgreint með skýrum hætti hvernig fjárhæðir þeirra mynta, sem lagðar hafi verið inn á gjaldeyrisreikninga stefnanda, verið ákvarðaðar, en það eigi sér stað með því að lánsfjárhæðin sé nýtt til kaupa á erlendum gjaldeyri í þeim hlutföllum sem stefnandi hafi óskað eftir.  Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 332/2012 hafi tilgreining á heildarlánsfjárhæð í evrum í kaupnótu, sem sé öldungis sambærileg kaupnótunni frá 26. nóvember 2004, hafa verið talin benda til þess að lánið væri í þeim gjaldmiðli.  Með vísan til þessa hæstaréttardóms bendi kaupnótan frá 26. nóvember 2004 til þess að stefnandi og stefndi hafi samið um lán í íslenskum krónum, öfugt við það sem stefndi hafi haldið fram í bréfi sínu 15. mars 2013.

Í sjötta lagi kom fram í gjaldeyrispöntun, dagsettri 26. nóvember 2004, að grunnmynt lánsins væri „ISK“ og heildarfjárhæð þess „1.400.000.000“.  Líkt og með kaupnótuna hafi í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 332/2012 slík tilgreining á heildarfjárhæð í evrum í gjaldeyrispöntun verið talin benda til þess að lánið væri í þeim gjaldmiðli.  Gjaldeyrispöntunin frá 26. nóvember 2004 renni því stoðum undir að lán stefnanda hafi verið í íslenskum krónum.

Þegar litið sé til ákvæða samningsins um efndir aðilanna og hvernig að þeim hafi verið staðið sé fyrst til þess að líta að ráðstafa skyldi láninu til endurfjármögnunar á öllum skuldum lántaka við lánveitanda samkvæmt yfirlitinu í viðauka 3 við samninginn, auk umframfjármögnunar til greiðslu á öðrum skuldum lántaka.  Þegar yfirlitið í viðauka 3 sé skoðað sé ljóst að einu fjárhæðirnar sem þar séu tilgreindar séu í íslenskum krónum og sé samtala þeirra lána sem greiða skyldi upp tilgreind sem 988.744.305 krónur.  Sum lánanna séu sögð í ákveðinni mynt án þess að fjárhæð lánanna í viðkomandi mynt sé tilgreind.  Stærstur hluti lánanna, sé tekið mið af fjárhæðum, sé hins vegar sagður vera í reikningseiningum Fiskaveiðisjóðs Íslands (RFÍ).  Um sé að ræða reikningseiningu sem breytist í samræmi við breytingar á vegnu meðaltali erlendra gjaldmiðla, erlendra reikningseininga og vísitölu, allt eftir samsetningu höfuðstóls langtímaskulda og útlána Fiskveiðasjóðs Íslands, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 277/1991.  Það sé því óumdeilt að lán í þessum reikningseiningum hafi verið í íslenskum krónum.  Með vísan til alls þessa telur stefnandi að ákvæði samningsins um efndir lánveitanda beri með sér að skuldbindingin hafi verið í íslenskum krónum.

Samkvæmt lánasamningnum hafi lántaka borið að endurgreiða lánið í þeim gjaldmiðlum sem það samanstæði af.  Gjaldeyrisreikningar stefnanda hafi verið skuldfærðir fyrir greiðslum afborgana og vaxta.  Stefnandi telur það eitt þó ekki geta ráðið því hvort lánið teljist vera í erlendri mynt eða íslenskum krónum, enda hafi sagt í samningnum að lánveitandi hefði heimild, en ekki skyldu, til þess að skuldfæra gjaldeyrisreikninga lántaka hjá lánveitanda fyrir greiðslum samkvæmt samningnum.  Enn fremur hafi verið gert ráð fyrir því í samningnum að lántaki gæti óskað eftir breytingum á þessu fyrirkomulagi.  Að mati stefnanda beri ákvæði samningsins það augljóslega með sér að lántaki hefði getað efnt skuldbindingu sína samkvæmt samningnum í íslenskum krónum.

Með vísan til alls framangreinds telur stefnandi ljóst að lán hans hafi verið í íslenskum krónum bundið við gengi erlenda gjaldmiðla sem óheimilt hafi verið að gera samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001.  Eina fjárhæðin, sem beint eða óbeint hafi verið tilgreind í lánssamningnum, hafi verið í íslenskum krónum. Því geti engum vafa verið háð að lánasamningurinn hafi eingöngu tekið til skuldbindingar í þeim gjaldmiðli.  Önnur ákvæði samningsins renni einnig stoðum undir þessa túlkun.      

Um lagarök vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, ásamt meginreglum samninga- og kröfuréttar og þeim dómum Hæstaréttar sem gengið hafa um það hvort lán sé haldið ólögmætri gengistryggingu.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að leggja beri til grundvallar að lán þar sem hér um ræði sé að sönnu í erlendum gjaldmiðlum þegar virt séu helstu ákvæði lánssamningsins svo og önnur gögn tengd lánveitingunni.   Beiðni stefnanda um útborgun lánsins, sem dagsett sé 24. nóvember 2004, en meginmál samningsins kveði á um að hún skyldi ráða því í hvaða erlendu gjaldmiðla og í hvaða hlutföllum lánsfjárhæðinni skyldi umbreytt, og skuldbindingin um leið standa í, sé að finna skýra tilvísun til hinna erlendu gjaldmiðla og hlutfalls þeirra. Svari atvik því til þess, og að teknu tilliti til hinnar útfylltu útborgunarbeiðni, sbr. og 1. gr. lánssamningsins, að lánið hafi orðið jafnvirði 1.400.000.000 króna í tilgreindum erlendum gjaldmiðlum og samkvæmt nánar tilgreindum hlutföllum, sbr. einnig hér til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í máli nr. 66/2012 og í máli nr. 3/2012.  Þess hafi verið óskað að hinir erlendu gjaldmiðlar yrðu greiddir inn á nánar tilgreinda gjaldeyrisreikninga í þessum gjaldmiðlum og sé það ágreiningslaust með aðilum málsins að svo hafi orðið.  Þá liggi fyrir að stefnandi hafi ætíð greitt af láninu í þeim erlendu gjaldmiðlum sem það hafi samanstaðið af eftir téða umbreytingu og sé það ágreiningslaust.  Hafi báðir aðilar því efnt aðalskyldur sínar í hinum erlendu gjaldmiðlum. 

Í málinu liggi einnig fyrir skjal sem beri yfirskriftina „Kaupnóta lánssamnings“, þar sem fram komi að fjárhæðinni í hinum íslensku krónum hafi verið umbreytt í tilgreindar erlendar myntir, til samræmis við beiðni um útborgun lánsins á viðauka 1 við samninginn, samkvæmt því sem þar greini nánar.  Þá liggi einnig fyrir gjaldeyrispöntun, þar sem heildarfjárhæð lánsins sé tilgreind í íslenskum krónum og jafnframt þeir gjaldmiðlar sem lánsfjárhæðinni hafi síðan verið umbreytt í, og  skuldbindingin hafi eftirleiðis staðið í, öllu ofangreindu til samræmis.

Telur stefndi, að teknu tilliti til þess sem að framan greini, sé það verulega langsótt að telja fyrrgreindan lánssamning fela í sér skuldbindingu í íslenskum krónum.  Stefnanda virðist í reynd yfirsjást þá grundvallar staðreynd að lánsfjárhæðinni hafi að sönnu verið umbreytt yfir í tilgreindar myntir, svo sem skjöl málsins, þ.á m. framkvæmdin, beri augljóslega með sér.  Öll framkvæmd málsins sé því til samræmis við „strúktúr“ / inntak lánssamningsins, þ.e. upphafleg lánsfjárhæð sé að jafnvirði tilgreindrar fjárhæðar í íslenskum krónum sem síðan skuli umbreytt yfir í nánar tilgreindar erlendar myntir, samkvæmt óskum lántaka, og svo hafi farið í raun.  Eftirleiðis hafi lánið verið í þeim myntum og hafi ávallt verið tilgreint í þeim til samræmis við efni lánssamningsins.  Sé lánið í íslenskum krónum, líkt og stefnandi telji, væri í reynd verið að klæða lán sem sýnilega sé í erlendum gjaldmiðlum í annan búning.

Einnig beri að horfa til þess að samningur sá, sem hér um ræði, er um ýmislegt líkur þeim sem til umfjöllunar hafi verið í dómi Hæstaréttar Íslands 11. júní 2012 í máli nr. 332/2012.  Í málinu var talið samkvæmt ákvæðum samningsins, þ.á m. útborgunarbeiðni, og að virtri „kaupnótu lánssamnings“, „gjaldeyrispöntunar“ og þeirrar staðreyndar að fjárhæð láns hefði verið lögð inn á gjaldeyrisreikning, að um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum væri að ræða, þó svo að skuldbindingin væri tilgreind jafnvirði tilgreindrar fjárhæðar í íslenskum krónum og/eða erlendum myntum, án nánari tilgreiningar í meginmáli, líkt og hér hátti einnig til.   Málavextir í þeim dómum sem stefnandi vísi til í stefnu, svo sem í hæstaréttarmálinu nr. 386/2012 séu að sama skapi ekki sambærilegir málavöxtum í þessu máli. 

Aðilar hafi haft samningsfrelsi, samkvæmt meginreglu íslensks réttar svo fremi að samningurinn fari ekki í bága við ófrávíkjanlegar reglur í settum lögum.  Byggir stefndi jafnframt á því að stefnandi hafi, hvað sem öðru líði, viðurkennt með eftirfarandi háttsemi sinni, þ.á m. efndum á aðalskyldum sínum, að skuldbinding sú sem hér um ræði skuli teljast gilt lán í erlendum gjaldmiðlum.

Einnig sé til þess að líta að stefnandi, sem sé eitt stærsta útgerðarfyrirtæki landsins, hafi tekjur í erlendum gjaldmiðlum, og hafi því ljóslega haft hagsmuni af því að fá lán í erlendum gjaldmiðlum.  Bendi það og skýrlega til þess að lánið hafi átt að vera í erlendum gjaldmiðlum.  Byggir stefndi á því, verði talið að lánið hafi verið í íslenskum krónum bundin ólögmætri gengistryggingu, að samkvæmt lokamálslið 2. gr. laga nr. 38/2001 hafi verið heimilt að binda lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, enda hafi það verið til hagsbóta fyrir skuldara, en svo hafi verið ástatt um stefnanda, þ.á m. að teknu tilliti til þeirrar staðreyndar að hann hafi og hafi haft tekjur í erlendum gjaldmiðlum. 

Um lagarök vísar stefndi m.a. til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, svo og meginreglna fjármunaréttar um réttar efndir fjárskuldbindinga og frelsi manna til að bindast skuldbindingum með samningum, sem telja verði gilda nema sýnt sé fram á að þeir fari í bága við ófrávíkjanlegar reglur í settum lögum.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991. um meðferð einkamála.

V

Lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, heimila ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla, en lán í erlendri mynt fara ekki gegn ákvæðum laganna, sbr. og dóma Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010.

Mál þetta varðar ágreining um hvort lánssamningur sem stefnandi gerði við Íslandsbanka hf., hinn 15. nóvember 2004, varði lánsfé í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum. 

Ákvæðum umdeilds samnings er lýst hér að framan.  Í samræmi við dóma Hæstaréttar Íslands, meðal annars í máli nr. 750/2013, gefa ákvæði sambærilegra samninga ekki skýrt til kynna hvort skuldbinding aðila sé í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum og þarf þá að meta heildstætt, m.a. eftir efndum aðila, hvort samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.  Samkvæmt því ber því fyrst að líta til þess að umdeildur samningur er á forsíðu sinni sagður vera um lán í erlendum gjaldmiðlum.  Í samningnum sjálfum er hann sagður vera í erlendum myntum að jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum og kveðið á um heimild lántaka til að skuldfæra gjaldeyrisreikning lántaka.  Þá er gert ráð fyrir því í samningnum að stefnandi leggi fram sérstaka útborgunarbeiðni þar sem hann tilgreini þá mynt eða hlutföll myntar sem hann óski eftir að lánið verði greitt út í og er þar jafnframt kveðið á um að lánið verði eftirleiðis tilgreint í þeirri mynt.  Í samræmi við það og samkvæmt viðauka samningsins óskaði stefnandi eftir því að lánið yrði greitt út í nánar tilgreindum erlendum gjaldmiðlum.  Samkvæmt framlagðri kaupnótu vegna samningsins kemur fram að fjárhæð samningsins í íslenskum krónum hafi verið umreiknuð í þær erlendu myntir í samræmi við beiðni stefnanda.  Lánið var greitt inn á gjaldeyrisreikning stefnanda og er óumdeilt að útborgunarfjárhæð þess var að hluta ráðstafað til greiðslu á eldri lánum stefnanda, sem ýmist voru í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum í samræmi við óskir stefnanda sjálfs.  Að framangreindu virtu verður að leggja til grundvallar að útborgun lánsins hafi að mestu leyti verið í erlendum gjaldmiðlum.  Þá er óumdeilt í málinu að gjaldeyrisreikningar stefnanda hjá bankanum voru skuldfærðir fyrir afborgunum og vöxtum af láninu í samræmi við heimild í samningnum sjálfum.  Samkvæmt þessu verður að líta svo á að báðir samningsaðilar hafi í meginatriðum efnt skyldur sínar samkvæmt samningnum með því að fjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum skiptu um hendur.

Þá samræmast ákvæði samninganna um vexti sem og heimild lánveitanda til að umreikna lánið í íslenskar krónur við gjaldfellingu þess og reikna á þá dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 því að um hafi verið að ræða lán í erlendum myntum.

Samkvæmt framansögðu þykir hvorki orðalag umdeilds lánssamnings, athafnir samningsaðila við gerð og efndir á aðalskyldum þeirra, né önnur atvik málsins benda til þess að lánssamningurinn hafi í reynd falið í sér lán í íslenskum krónum.  Þá ber og til þess að líta að Hæstiréttur Íslands hefur í dómum sínum, m.a. í málinu nr. 750/2013, tekið afstöðu til þess að lánssamningar, sem höfðu að geyma sömu skilmála og fram koma í lánssamningi í þessu máli, hafi verið skuldbindingar í erlendum myntum. 

Loks verður, með hliðsjón af niðurstöðu dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 602/2013, ekki litið fram hjá því að stefnandi hafði tekjur sínar að mestu í erlendum gjaldmiðlum, átti gjaldeyrisreikninga og færði hið umdeilda lán sem skuld í erlendum gjaldmiðlum í ársreikningi sínum, sem allt gefur vísbendingu um að samningsvilji stefnanda hafi staðið til þess að umdeilt lán væri í erlendum gjaldmiðlum. 

Þegar allt framangreint er virt verður að leggja til grundvallar að samið hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum og ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Eftir þessari niðurstöðu þykir rétt, samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
                                                                                                                D Ó M S O R Ð:

                Stefndi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Hraðfrystihússins Gunnvarar hf.

                Stefnandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.