Hæstiréttur íslands
Mál nr. 89/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Fimmtudaginn 9. mars 2000. |
|
Nr. 89/2000. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Egill Stephensen saksóknari) gegn Y (Bjarni Þór Óskarsson hrl.) |
Kærumál. Farbann.
Úrskurður héraðsdóms um að Y skyldi sæta farbanni á grundvelli 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur, en tími farbanns styttur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. mars 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni allt til föstudagsins 31. mars nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Í beiðni sóknaraðila um farbann yfir varnaraðila er vísað til þess að hann sé erlendur ríkisborgari, sem sé staddur hér á landi sem ferðamaður, en að honum beinist rannsókn á kynferðisbrotamáli, þar sem hann sé borinn sökum um að hafa neytt stúlku til kynmaka aðfaranótt 26. febrúar sl. Í beiðninni eru að engu leyti færð fyrir því rök að skilyrði væru til að láta varnaraðila sæta gæsluvarðhaldi af þessum sökum. Verður vegna þessa að líta svo á að sóknaraðili reisi kröfu sína á því að efni séu til að beita farbanni óháð skilyrðum 103. gr. laga nr. 19/1991, en fyrir því er heimild í upphafsorðum 110. gr. laganna. Samkvæmt skýrslum, sem gefnar hafa verið fyrir lögreglu og liggja fyrir í málinu, eru sakargiftir á hendur varnaraðila reistar á framburði ætlaðs brotaþola, sem fær nokkra stoð í framburði tveggja vitna. Varnaraðili hefur látið uppi þá fyrirætlan að fara héðan af landi 12. mars nk. Eins og atvikum er hér háttað má fallast á með sóknaraðila að uppfyllt séu skilyrði 110. gr. laga nr. 19/1991 til að tálma þá för varnaraðila úr landi vegna rannsóknar málsins. Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila er rannsóknin langt á veg komin. Að því gættu er ekki tilefni til að marka farbanni lengri tíma en í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðila, Y, er bönnuð för úr landi allt til mánudagsins 20. mars 2000 kl. 16.00.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2000.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að Y, [...], sæti farbanni allt til mánudagsins 17. apríl 2000.
Í greinargerð með kröfu um farbann kemur fram að hjá lögreglunni í Reykjavík sé nú til rannsóknar kyferðisbrotamál þar sem Y, bandarískur ríkisborgari, sé kærður fyrir að hafa neytt stúlku til kynmaka aðfaranótt laugardagsins 26. febrúar sl. Rannsókn málsins sé langt komin, en enn eigi eftir að taka skýrslur af vitnum og kæranda. Bótakrafa frá kæranda sé væntanleg og þá þurfi að kynna kærða bótakröfuna. Að lokinni rannsókn verði málið sent ríkissaksóknara, sem taki ákvörðun um hvort saksótt verði í málinu eða ekki.
Ennfremur kemur þar fram að kærði sé staddur hér á landi sem ferðamaður. Hann sé bandarískur ríkisborgari og hafi hér hvorki atvinnu- né dvalarleyfi. Hann hafi undanfarið [...]. Hann hafi lýst því yfir að hann ætli af landi brott 12. mars nk. Sé því talin veruleg hætta á að hann fari af landi brott og komi sér þannig undan frekari rannsókn og mögulegri saksókn og málsmeðferð í máli þessu. Sé því talið nauðsynlegt að hann sæti farbanni meðan á meðferð málsins stendur.
Fulltrúi lögreglustjóra hélt því fram hér fyrir dómi að kærði hefði lítil tengsl við Ísland og því ólíklegt að hann komi aftur til landsins vegna meðferðar þessa máls, enda hafi hann ekki að neinu hér að hverfa.
Verið sé að rannsaka ætlað brot Y á XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það sakarefni sem hér um ræðir mundi varða fangelsisrefsingu ef sök telst sönnuð.
Með vísan til alls ofanritaðs og með vísan til 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, er þess farið á leit að ofangreind krafa nái fram að ganga.
Verjandi kærða hélt því fram fyrir dómi að ekki væru efni til þess að verða við kröfunni. Sönnunarfærsla í málinu væri af skornum skammti og engin áþreifanleg merki þess að kærði hafi beitt ofbeldi. Aðstæður á meintum brotavettvangi væru þess eðlis að útilokað væri annað en að fólk sem verið hafi í íbúðinni hefði orðið þess vart ef nauðgun hefði átt sér stað. Verjandinn kveður rannsókn málsins nær lokið og ekki sé rétt að kærði eigi að gjalda frekari tafa á rannsókninni. Níu dagar séu liðnir frá því að kæra kom fram og kærði hefði haft næg tækifæri til að koma sér úr landi ef hann hefði ætlað að koma sér undan sakfellingu í málinu. Kærði muni koma hingað til lands aftur ef til ákæru komi.
Verið er að rannsaka ætlað brot kærða gegn 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 á grundvelli kæru sem lögð var fram á hendur honum. Kærði hefur borið að hafa haft samræði við konu þá sem borið hefur fram kæruna en neitar að hafa þvingað hana til samræðis. Rannsókn málsins er nokkuð á veg komin. Nokkurn tíma mun fyrirsjáanlega taka að ljúka rannsókninni og senda málið ríkissaksóknara til ákvörðunar um það hvort ákæra verði gefin út eða ekki. Þar sem kærði er búsettur erlendis er mikilvægt að rannsókn þessa alvarlega kæruefnis sé hraðað. Kærði hefur lýst því yfir að hann ætli af landi brott 12. mars nk. og er óraunhæft að ætla að rannsókn málsins verði lokið fyrir þann tíma.
Fallast má á með fulltrúa lögreglustjórans í Reykjavík að vegna lítilla tengsla kærða við Ísland sé verulegur vafi á því að hægt verði að tryggja nauðsynlega nærveru hans við frekari rannsókn málsins. Með vísan til framangreinds og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, þykir því rétt að fallast á kröfu um farbann þar til fyrir liggur hvort ákæra verði gefin út á hendur kærða eða allt til 31. mars nk. kl. 16:00.
Sigurður T. Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, Y, [...], sæti farbanni allt til föstudagsins 31. mars 2000.