Hæstiréttur íslands
Mál nr. 12/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Föstudaginn 24. janúar 2003. |
|
Nr. 12/2002. |
Jón Jóhannsson Sigríður Sveinsdóttir og Jón Jóhannsson ehf. (Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Holtabúinu ehf. Gunnari Andrési Jóhannssyni og Sigurði Garðari Jóhannssyni (Magnús Thoroddsen hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Málatilbúnaður stefnenda braut svo mjög í bága við meginreglur laga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað, að ekki varð hjá því komist að vísa málinu frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 23. desember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. janúar sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 11. desember 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur, en til vara að honum verði hrundið. Í báðum tilvikum krefjast þau þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka kröfu þeirra til efnismeðferðar. Til ítrustu vara krefjast sóknaraðilar þess að málskostnaður í héraði verði felldur niður, en að því frágengnu verði hann lækkaður og þeim „tildæmdur málskostnaður í héraði”.
Varnaraðilar kærðu úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 27. desember 2002. Þeir krefjast þess að úrskurðurinn verði staðfestur um annað en málskostnað, sem verði hækkaður frá því, sem þar var ákveðið. Þá krefjast varnaraðilar kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað.
Sóknaraðilar verða dæmd til að greiða varnaraðilum málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem er ákveðinn handa hverjum varnaraðila fyrir sig í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Sóknaraðilar, Jón Jóhannsson, Sigríður Sveinsdóttir og Jón Jóhannsson ehf., greiði í sameiningu varnaraðilum, Holtabúinu ehf., Gunnari Andrési Jóhannssyni og Sigurði Garðari Jóhannssyni, hverjum fyrir sig samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 11. desember 2002.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 19. nóvember sl. var höfðað 2. desember 2000.
Stefnendur eru Jón Jóhannsson og Sigríður Sveinsdóttir, persónulega og fyrir hönd Jóns Jóhannssonar ehf., Ásmundarstöðum, Ásahreppi, Rangárvallasýslu.
Stefndu eru Holtabúið ehf., Árbæ, Holta- og Landsveit, Rangárvallasýslu, Gunnar Andrés Jóhannsson, sama stað og Sigurður Garðar Jóhannsson, Hegranesi 22, Garðabæ.
Endanlegar dómkröfur stefnenda eru þær aðallega að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnendum 494.724.153 krónur, ásamt hæstu lögleyfðu dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þingfestingardegi málsins, 17. janúar 2001 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti til greiðsludags, fyrst 17. janúar 2002.
Til vara að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnendum 209.719.002 krónur ásamt hæstu lögleyfðu dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 17. janúar 2001 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti til greiðsludags, fyrst 17. janúar 2002.
Til þrautavara að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnendum 126.700.000 krónur, ásamt hæstu lögleyfðu dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 17. janúar 2001 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti til greiðsludags, fyrst 17. janúar 2002.
Þá krefjast stefnendur þess að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða sér málskostnað að skaðlausu samkvæmt málskostnaðaryfirliti og að teknu tilliti til þess að stefndu hafa fallist á eina kröfu stefnenda og aflétt 50.000.000 króna skuldabréfi af eignarhluta stefnanda Jóns í Ásmundarstöðum, eins og fram komi í greinargerð stefndu.
Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnenda og málskostnaðar in solidum úr þeirra hendi samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Málsatvik.
Tildrög málsins eru þau að stefnandi, Jón, og stefndu, Gunnar og Sigurður Garðar, stofnuðu Hotabúið hf. í ágúst 1978 ásamt eiginkonum sínum. Tilgangur félagsins var eggjaframleiðsla, kjúklingarækt, svínarækt, rekstur fasteigna, lánastarfsemi og annar skyldur atvinnurekstur. Hlutafé félagsins var 3.000.000 króna (gamlar kr.), sem skiptist þannig milli bræðranna að hver þeirra átti 900.000 króna hlut og hver eiginkona 100.000 króna hlut.
Á árinu 1984 keypti Holtabúið hf., Fóðurblönduna hf., og var ráðist í byggingu nýrrar verksmiðju við Sundahöfn í Reykjavík. Á árinu 1986 var ákveðið að selja rekstur Holtabúsins hf. Keypti Reykjagarður hf. kjúklingareksturinn og framleiðslukvóti í eggjum var seldur til Vallárbúsins og til Nesbúsins hf. Með þessum aðgerðum voru Fóðurblöndunni hf. tryggðir viðskiptasamningar og tekjur til náinnar framtíðar. Eftir að rekstur Holtabúsins hf. var seldur Reykjagarði hf. réðust bræðurnir m.a. í uppbyggingu Hveitimyllunnar hf. sem var fyrirtæki í þeirra eigu á sviði innflutnings og framleiðslu á hveiti til brauðgerðarmanna. Stefnanda, Jóni, var falið að sjá um rekstur Hveitimyllunnar hf. Hann falaðist hins vegar eftir skrifstofustjóra- og bókarastarfi Fóðurblöndunnar hf., sem stefndi, Gunnar, veitti þá forstöðu. Við þeirri kröfu hans var ekki orðið og kveður stefnandi að um þetta leyti hafi hann farið að finna fyrir þunglyndi. Fór svo að lokum að hann gekk úr samstarfi við þá bræður. Gerð voru drög að samkomulagi, dags. 10. júlí 1989 um eignaskipti þeirra í milli. Samkvæmt því fékk stefnandi, Jón, greiddar afborganir af tilteknum skuldabréfum miðað við 1. júní 1989. Við samningaviðræður hafði stefnandi, Jón, sett fram þá kröfu að hann fengi greiddar afborganir af skuldabréfum frá Geir Gunnari Geirssyni, Vallá hf. og Nesbúinu hf. frá mars, apríl og maí 1989, sem höfðu verið greiddar Holtabúinu hf. Því höfnuðu stefndu, Gunnar og Sigurður Garðar og var gerningurinn látinn miðast við 1. júní 1989. Samkvæmt samkomulagsdrögunum fékk stefnandi, Jón allar fasteignir Holtabúsins að Ásmundarstöðum, utan íbúðarhúss Garðars. Þar með fékk stefnandi, Jón, hænsnahúsin, sem hann leigði Reykjagarði hf. og fékk af þeim leigutekjur frá 1. júní 1989. Síðar voru hænsnahúsin seld Reykjagarði hf. og fékk stefnandi, Jón, 25.000.000 krónur fyrir þau í formi skuldabréfs.
Farin var sú leið að hækka hlutafé Holtabúsins hf. með útgáfu jöfnunarhlutabréfa og lækka það aftur, en þannig fengust 318.000.000 krónur til skiptanna og nam hlutur stefnanda, Jóns, 106.000.000 króna. Samkomulag um eignaskipti er dags. 5. desember 1990 og er eftirfarandi:
,,Í framhaldi af útgáfu jöfnunarhlutabréfa og lækkun hlutafjár í Holtabúinu hf. er gert ráð fyrir að í hlut Jóns Jóhannssonar komi eftirtaldar eignir:
Einkareikningur m.v. stöðu 31.12.1990
Skuldabréf Vallá
Skuldabréf Nesbú
Útgefið skuldabréf kr. 25.000.000.-
Hesthús og land skv. uppdrætti
Gert er ráð fyrir að hesthús og land sé veðlaust. Takist ekki að losa það undan veðböndum ber Holtabúið ábyrgð á greiðslum vegna þessara veða.
Jón fær Klapparstíg 1 skuldlausan. Á Klapparstíg íbúð 11-01 hvílir skbr. dags. 21. mars 1989 kr. 3.000.000.- Á Laugavegi 45 hvílir samskonar lán. Holtabúið tekur að sér að greiða þessi lán og stefnt skal að því að þessi veð verði losuð svo fljótt sem auðið er.
Stefnt skal að heitt vatn fáist endurgjaldslaust fyrir Jón til nota fyrir íbúðarhús og hesthús”.
Undir þennan vélritaða texta er handskrifað:
,,Reykjavík 5 des 90
Gunnar Jóhannsson
Jón Jóhannsson
Sigurður G. Jóhannsson
P.S. Gert er ráð fyrir að ofangreind greiðsla til Jóns Jóhannssonar sé fullnaðargreiðsla fyrir allt hlutafé Jóns í Holtabúinu, Fóðurblöndunni, Kornax og Ewos”.
Undir þennan handskrifaða texta settu bræðurnir fangamark sitt. Afsal stefnenda, Jóns og Sigríðar á hlutabréfaeign í Holtabúinu hf. að nafnverði 15.000.000 króna til stefndu, Gunnars og Sigurðar Garðars er dags. 1. janúar 1991. Einnig liggja fyrir í málinu afsöl frá stefnanda, Jóni, á hlutabréfaeign í Kornax hf. og Ewos hf. dags. 1. janúar 1991.
Þrátt fyrir að stefnandi, Jón, hefði selt sinn hlut í Holtabúinu hf. hélt hann áfram að vinna á skrifstofu Holtabúsins við færslu bókhalds, innheimtu vanskilareikninga og gerð ýmis konar yfirfærslugerninga vegna yfirtöku Reykjagarðs hf. á rekstri Holtabúsins hf. allt árið 1991, ásamt Fannari Jónassyni, viðskiptafræðingi á Hellu.
Niðurstaða.
Stefnendur höfðuðu mál þetta með stefnu 2. desember 2000. Þar voru dómkröfur tilgreindar þær undir a-lið að afsal dagsett 1. janúar 1991 á 15.000.000 króna hlutabréfaeign stefnenda í Holtabúinu hf. til stefndu, Gunnars Jóhannssonar og Sigurðar Garðars Jóhannssonar, yrði fellt úr gildi með dómi. Þá yrði útgáfa stefnenda á ofangreindu afsali sömuleiðis felld úr gildi með dómi sem og undirskriftir þeirra undir afsalið. Undir b-lið voru dómkröfur stefnenda að hluti samkomulags annars vegar milli stefnanda, Jóns Jóhannssonar og hins vegar stefndu, Gunnars Jóhannssonar og Sigurðar Garðars Jóhannssonar frá 5. desember 1990 á þessa leið: ,,P.s.Gert er ráð fyrir að ofangreind greiðsla til Jóns Jóhannssonar sé fullnaðargreiðsla fyrir allt hlutafé Jóns í Holtabúinu, Fóðurblöndunni, Kornax og Ewos” yrði fellt úr gildi.
Fyrsta varakrafa stefnenda var að stefndu yrðu in solidum dæmdir til að greiða stefnendum 536.506.419 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þingfestingardegi til greiðsludags. Önnur varakrafa stefnenda var að stefndu yrðu in solidum dæmdir til að greiða stefnendum 64.141.603 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 1. janúar 1992 til greiðsludags. Þriðja varakrafa var að stefnendur yrðu til þrautaþrautavara dæmdir in solidum til að greiða stefnendum 7.381.000 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 1. janúar 1992 til greiðsludags. Yrði eingöngu fallist á 2. varakröfu stefnenda eða 3. varakröfu gerði stefnandi, Jón Jóhannsson, þá dómkröfu að stefnendur yrðu in solidum dæmdir til að aflétta af eignarhluta Jóns Jóhannssonar í Ásmundarstöðum veðskuldabréfi að nafnvirði 50.000.000 krónur, sem útgefið er 28. desember 1992 fyrir 1. janúar 2001 að viðlögðum dagsektum sem næmu 5000 krónum á dag, þar til veðinu hefði verið aflétt. Þá var krafist málskostnaðar.
Í stefnu málsins, sem er 22 síður, er forsaga málsins rakin ítarlega, málsatvik eins og þau snúa að stefnendum, útreikningar til stuðnings kröfum og málsástæður varðandi hvern kröfulið. Í greinargerð stefndu eru síðan raktar þær málsástæður stefndu og lagarök sem stefndu hafa talið að ættu við um hvern kröfulið stefnenda.
Eftir þingfestingu málsins fóru stefnendur fram á við dóminn að dómkvaddir yrðu matsmenn til að leggja mat á fjárhagslegt verðmæti Holtabúsins hf. við eignaskiptin o.fl., eins og nánar greindi í matsbeiðni.
Matsmennirnir Birkir Leósson, löggiltur endurskoðandi og Vilhjálmur Bjarnason viðskiptafræðingur voru dómkvaddir og er matsgerð þeirra dagsett 4. maí 2001. Stefnendur fóru þá fram á að dómkvaddir yrðu yfirmatsmenn. Dómkvaddir yfirmatsmenn voru Kristján Jóhannsson lektor, Jafet Ólafsson framkvæmdastjóri og Símon Á. Gunnarsson löggiltur endurskoðandi. Yfirmatsgerð er dagsett 3. júní 2002.
Í kjölfar yfirmatsgerðar settu stefnendur fram ,,endanlegar dómkröfur” sínar á dómþingi 1. nóvember 2002. Í skjali sem lagt var fram sama dag kom fram ,,töluleg útlistun dómkrafna”. Þar segir að með heimild í 2. mgr. 101. gr. og 2. ml. 1. mgr. 103. gr. laga nr. 91/1991 leggi stefnendur fram útreikninga fyrir skaðabótakröfu sinni og talningu málsástæðna. Byggi stefnendur á að nauðsynlegt sé að leggja slíkar samræmdar upplýsingar fram á þennan veg, þar sem þær komi ekki fram með fullnægjandi hætti í öðrum gögnum málsins, hvað varði tjón stefnanda í heild sinni. Þó sé enn nauðsynlegt að koma að ,,talningu málsástæðna” á sér skjali. Með skjali þessu féllu stefnendur frá aðalkröfu sinni ,,að með dómi verði fellt úr gildi afsalið ds. 1. janúar 1991 og ps. undirskriftin á 5. desember plagginu. Stefnendur byggja þó enn á, að afsalið og ps. undirritunin séu ógildanleg og þar af leiðandi á þeim sömu málsástæðum, sem lagðar eru til grundvallar ógildingarkröfunum, þ.e. að stefndu hafi haft fé af stefnendum með blekkingum, brögðum og svikum.” Aðalkrafa stefnenda er útlistuð í stafliðum a-f, varakrafa stefnenda í stafliðum a-j. Þá er einnig gerð grein fyrir þrautavarakröfu stefnenda. Í skjalinu koma auk tölulegrar útlistunar, fram nokkrar málsástæður, þótt stefnendur hafi áskilið sér rétt til að leggja fram talningu málsástæðna á sér skjali. Það skjal, þ.e. ,,talning málsástæðna” var lagt fram í sama þinghaldi og aðalmeðferð málsins var háð, 19. nóvember sl. Þar greindu stefnendur málsástæður sínar samkvæmt heimild í 2. ml. 103. gr. laga nr. 91/1991 undir stafliðum A-G.
Eins og að ofan er rakið tók kröfugerð stefnenda grundvallarbreytingum undir rekstri málsins. Með tilliti til þeirra hagsmuna sem í húfi eru og umfangs málsins bar brýna nauðsyn til að stefnendur gerðu skýra grein fyrir því við hvaða málsástæður hin nýja kröfugerð var studd og að tilgreindar væru málsástæður varðandi aðal- og vara kröfur á sem gleggstan hátt, sem og atvik að baki kröfunum.
Stefndu hafa í greinargerð sinni byggt á þeim málsástæðum sem fram koma í stefnu og þeim forsendum sem þar eru greindar. Þær eru því ekki í samræmi við breytta kröfugerð stefnenda og aðrar málsástæður en þær sem fram koma í stefnu. Þótt gera hefði mátt ráð fyrir að dómkröfur stefnenda breyttust undir rekstri málsins vegna framlagðra matsgerða verður ekki fram hjá því litið að málatilbúnaður stefnenda er í heild sinni með þeim hætti að töluvert hefur skort á að hann sé í samræmi við meginreglu einkamálalaga um skýran og glöggan málatilbúnað. M.a. hafa mörg þeirra gagna sem lögð hafa verið fram af hálfu stefnenda að geyma efni sem litlu ljósi geta varpað á málsgrundvöll stefnenda.
Í skjali því sem ber yfirskriftina ,,talning málsástæðna” og lagt var fram í kjölfar breyttrar kröfugerðar er engin grein gerð fyrir því hvaða málsástæður eigi við um aðalkröfur stefnenda og hvaða málsástæður eigi við um varakröfur og ekki verða séð tengsl við þær málsástæður sem greinir í tölulegri útlistun krafna. Með þessu móti er tilgreining málsástæðna stefnenda og lýsing þeirra á atvikum að baki hverri kröfu afar ruglingsleg og óljós. Þá verður af málatilbúnaði stefnenda ekki ráðið hvort þeir byggja einungis á þeim málsástæðum og atvikum að baki kröfum sem koma fram í skjölum þeim sem stefnendur nefna ,,talning málsástæðna” og ,,töluleg útlistun dómkrafna” eða hvort einnig er byggt á því sem greinir í stefnu. Þessi atriði skýrðust ekki við munnlegan málflutning, en ljóst er þó að stefnendur byggja á þeim sjónarmiðum sem fram koma í stefnu um að afsalið frá 1. janúar 1991 og undirritun í samningi frá 5. desember 1990 séu ógildanleg.
Þótt þannig megi ráða af málatilbúnaði stefnenda að kröfur hans séu byggðar á því að stefndu hafi valdið sér tjóni hefur framlagning ,,tölulegrar útlistunar dómkrafna” í kjölfar breyttrar kröfugerðar og ,,talning málsástæðna” sem lögð var fram sama dag og aðalmeðferð málsins fór fram einungis gert það að verkum að illmögulegt er að átta sig á hvaða atvik búa að baki hverrar kröfu og við hvaða málsástæður stefnendur styðja kröfur sínar.
Þegar framangreint er virt þykir málatilbúnaður stefnenda svo mjög brjóta í bága við meginreglur einkamálalaga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað, að ekki verður komist hjá að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi, sbr. og e- liður 80. gr. laga nr. 91/1991.
Eftir þessum úrslitum greiði stefnendur stefndu 400.000 krónur málskostnað.
Ingveldur Einarsdóttir, héraðsdómari, ásamt meðdómsmönnunum Rúnari B. Jóhannssyni löggiltum endurskoðanda og Stefáni Ingólfssyni verkfræðingi kveða upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur, Jón Jóhannsson, Sigríður Sveinsdóttir og Jón Jóhannsson ehf. greiði in solidum stefndu, Holtabúinu ehf., Gunnari A. Jóhannssyni og Sigurði Garðari Jóhannssyni 400.000 krónur í málskostnað.