Hæstiréttur íslands

Mál nr. 389/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Mánudaginn 13

 

Mánudaginn 13. júlí 2009.

Nr. 389/2009.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari)

gegn

X

(Ólafur Örn Svansson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi  á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júlí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 6. ágúst 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.   

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júlí 2009.

       Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, hollenskum ríkisborgara, fæddum [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi í 4 vikur eða til 6. ágúst 2009, kl. 16.00.

Í greinargerð Ríkissaksóknara kemur fram að 18. apríl 2009 hafi lögreglu borist upplýsingar um seglskútu sem stefndi í átt að landi á Djúpavogi og hafi þessar  upplýsingar gefið tilefni til frekari athugana af hálfu lögreglu.  Meðal annars hafi þessar upplýsingar leitt til þess að fylgst hafi verið með ferðum þriggja manna á tveimur bifreiðum sem hafi verið staddir á Djúpavogi, en þeir hafi haft meðferðis  slöngubát með utanborðsvél.  Síðar hafi komið í ljós að tveir af mönnunum og báturinn hafi verið horfnir en einn mannanna hafi verið á ferð um Djúpavog. 

Síðar um kvöldið hafi sést til ferða bátsins, þar sem honum hafi verið siglt inn í höfn í Gleðivík, vestan við aðalhöfnina á Djúpavogi.  Sá mannanna sem hafði verið á ferð um Djúpavog hafi sést koma akandi að höfninni þar sem báturinn hafi komið að landi.  Tveir menn sem hafi komið í land á bátnum og sá sem verið hafði á bifreiðinni, hafi tekið töskur úr bátnum og komið þeim fyrir í bifreiðinni. Bifreiðinni hafi í framhaldinu verið ekið á brott.  Bifreiðinni hafi verið fylgt eftir af hálfu lögreglu og við Höfn í Hornafirði hafi bifreiðin verið stöðvuð og hafi ökumaður verið handtekinn.  Í leit í bifreiðinni hafi fundist töskur sem hafi reynst innihalda um 55 kíló af amfetamíni, um 54 kíló af kannabis og 9.432 MDMA töflur. 

Af hálfu lögreglu hafi verið fylgst með mönnunum tveimur sem komið höfðu að landi á bátnum. Hafi þeir sést sigla bátnum úr höfninni í Gleðivík og inn í höfnina á Djúpavogi. Þeir hafi síðar um kvöldið verið handteknir á Djúpavogi á bifreiðinni Y. 

Landhelgisgæslan hafi hafið leit að skútunni skömmu eftir að tilkynningin hafi borist og hafi hún fundist á siglingu á hafinu á milli Íslands og Færeyja, á svæði sem hafi komið heim og saman við fyrri upplýsingar um staðsetningu skútunnar, tímasetningar, veður og fleira. Hafi Landhelgisgæslan gefið skútunni skipun um að stöðva, en ekki hafi verið orðið við því.  Hafi skútunni því verið fylgt eftir og er varðskipið Týr hafi komið að skútunni hafi sérsveitarmenn frá Ríkislögreglustjóra farið um borð í skútuna og handtekið þrjá menn sem hafi verið um borð. Hafi skútan þá verið stödd á alþjóðlegu hafsvæði í efnahagslögsögu Færeyja og hafi færeyskum yfirvöldum verið gert viðvart um aðgerðirnar. 

Kærði hafi alfarið neitað sök vegna málsins. Fram hafi farið myndbending í málinu þar sem bent hafi verið á  kærða sem einn aðila í áhöfn skútunnar. Einnig liggi fyrir framburður A og B um að það hafi verið kærði sem hafi fengið þá til að sigla með honum á skútunni en þeir hafi neitað því að það hafi verið gert í því skyni að flytja fíkniefni til Íslands eða að ferðinni hafi verið heitið til Íslands.

Fyrir liggi framburðir C og D um að þeir hafi móttekið töskur frá áhöfn skútunnar og auk þess liggi fyrir framburðir fleiri vitna sem staðfesta að skútan hafi komið svo nálægt landi að þeir hafi getað mætt bátnum og afhent þeim efnin.

Einnig hafi komið fram fleiri atriði sem tengi bátinn og skútuna og megi þar sem dæmi nefna að símtöl hafi verið á milli áhafna þessara sjófara þennan dag, olía sem keypt hafi verið á Djúpavogi reyndist vera um borð í skútunni, og upplýsingar um leiðbeiningar um uppsetningu á GPS búnaði, á hollensku, hafi fundist í bifreiðinni og sömu upplýsingar á íslensku í bifreið C. Einnig hafi kassi undan talstöðvum um  borð í skútunni en engar talstöðvar hafi hins vegar fundist. Í bifreið sem D var á hafi fundist talstöð sömu tegundar og sú sem hafði verið í kassanum og eins talstöð fannst einnig í bifreið sem C og E voru á.

Gögn málsins renni stoðum undir ætlaðan þátt kærða í hinu stórfellda fíkniefnabroti.  Það sé því mat ákæruvalds að sterkur grunur sé um að kærði hafi átt þátt í að flytja til landsins mikið magn fíkniefna ætluðum til söludreifingar hér á landi og hafi hann m.a. skipulagt innflutninginn.

Málið hafi borist ríkissaksóknara miðvikudaginn 8. júlí sl. Meðfylgjandi ákæra hafi verið gefin út í dag, 9. júlí 2009 og send héraðsdómi. Þar sé kærði ákærður fyrir að hafa flutt til landsins í félagi við fimm aðra einstaklinga, fíkniefni ætluð til söludreifingar í ágóðaskyni. Þáttur kærða sé talin vera sá að skipuleggja innflutninginn og  sigla með efnin áleiðis til Íslands og afhenda þau áfram í því skyni að þeim yrði komið áfram til landsins.

Ætlað brot kærða teljist varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga en brot gegn ákvæðinu varði fangelsi allt að 12 árum.

Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 21. apríl sl. en með úrskurði héraðsdóms Austurlands frá 21. apríl, nr. R-8/2009, hafi kærði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, til 12. maí sl. Sá úrskurður hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar nr. 193/2009. Með úrskurði héraðsdóms nr. R-192/2009 þann 12. maí sl. hafi kærði verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald, einnig á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, til 29. maí. Sá úrskurður hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar nr. 239/2009. Með úrskurði héraðsdóms nr. R-229/2009, þann 29. maí hafi kærði verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald, einnig á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, til 9. júní. Sá úrskurður hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar nr. 295/2009. Þann 9. júní hafi kærða verið gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til 23. júní, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. úrskurður héraðsdóms Reykjavíkur, nr. R-255/2009. Hæstiréttur hafi staðfest niðurstöðu héraðsdóms um að kærði skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi, en féllst þó ekki á þá kröfu lögreglu að kærði skyldi áfram sæta einangrun, sbr. dómur Hæstaréttar nr. 317/2009.

Þann 23. júní sl. hafi kærða verið gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til 14. júlí, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. úrskurður héraðsdóms Reykjavíkur, nr. R-290/2009. Hæstiréttur hafi staðfest niðurstöðu héraðsdóms, sbr. dómur Hæstaréttar nr. 352/2009.

Almannahagsmunir krefjist þess að kærði verði í gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans og sé vísað til dómvenju í þeim efnum.

Þar sé kærði ákærður fyrir að hafa í félagi við fimm aðra einstaklinga flutt fíkniefni til landsins ætluð til söludreifingar í ágóðaskyni. Þáttur kærða sé talin vera sá að sigla með efnin áleiðis til Íslands og afhenda þau áfram í því skyni að þeim yrði komið áfram til landsins. 

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, og tilvitnaðra lagaákvæða sé þess krafist að framangreind krafa nái fram að ganga.

Með vísan til þess sem að framan var rakið er fallist á með Ríkissaksóknara að kærði sé undir sterkum grun um að eiga aðild að smygli á miklu magni fíkniefna til landsins. Slíkt brot getur varðað allt að 12 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Enn fremur er fallist á að brotið sem kærði er grunaður um að hafa framið sé þess eðlis að gæsluvarðhald teljist nauðsynlegt með tilliti til  almanna­hagsmuna. Af hálfu kærða hefur verið vísað til þess að kærði hafi ekki komið inn fyrir íslenska landhelgi og hafi því ekki gerst brotlegur við íslensk lög. Ekki verður tekin afstaða til þess hvort svo hafi verið við úrlausn á gæsluvarðhaldskröfunni. Ákæra á hendur kærða var gefin út í dag og stendur því 4. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála ekki í vegi fyrir því að gæsluvarðhaldi verði beitt.

Samkvæmt framangreindu eru uppfyllt skilyrði 2. mgr. 95. gr. sömu laga. Ekki þykir ástæða til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma. Með vísan til þessa er fallist á kröfu Ríkissaksóknara eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, hollenskur ríkisborgari, fæddur [...], skal sæta áfram gæslu­varð­haldi, allt til fimmtudagsins 6. ágúst 2009, kl. 16.00.