Hæstiréttur íslands
Mál nr. 581/2008
Lykilorð
- Brot gegn valdstjórninni
|
|
Fimmtudaginn 26. mars 2009. |
|
Nr. 581/2008. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari) gegn Haraldi Guðmundssyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Brot gegn valdstjórninni.
H var ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa veist með ofbeldi að lögreglumanni, sem var að sinna skyldustarfi sínu, en H læsti höndum sínum um fótlegg lögreglumannsins sem við það féll í jörðina og hlaut rispur á fingri og marbletti á vinstra hné. Varðaði brot H við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest og H dæmdur í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Í Hæstarétti var gerð athugasemd við rannsókn málsins en ágallarnir þóttu ekki eiga að varða frávísun þess frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 9. október 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða en þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst sýknu.
Ákæruvaldið hefur leiðrétt villu í ákæru. Þar segir að ákærði hafi læst höndum sínum „um fótleggi lögreglumannsins“, en þar á að standa að ákærði hafi læst höndum sínum um fótlegg lögreglumannsins.
Engin lögregluskýrsla var tekin af lögreglumönnunum tveimur sem komu að atviki því sem er tilefni ákæru, þeim Daða Þorkelssyni, brotaþola, og Lindu Björk Ólafsdóttur. Tvö vitni sem aðstoðuðu lögreglu við að hemja ákærða, Heiðar Elís Helgason og Birgir Rafn Reynisson, voru yfirheyrðir af lögreglufulltrúa sem starfar við sama embætti og lögreglumennirnir sem stóðu að handtökunni. Eðli málsins samkvæmt og í ljósi þeirrar meginreglu að hlutlægni skuli gætt við rannsókn sakamála, sbr. nú 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, er það aðfinnsluvert að lögreglurannsókn málsins var ekki falin öðru embætti. Þar sem málsatvik eru einföld og lögreglumennirnir og vitnin gáfu skýrslu fyrir dómi, þykja framangreindir ágallar á rannsókninni þó ekki eiga að varða frávísun málsins frá héraðsdómi.
Áverkavottorð er ónákvæmt um lýsingu á meiðslum brotaþola og í því kemur ekki fram hvenær atvikið átti sér stað. Hitt er ljóst að áverkar voru minniháttar.
Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnaðar málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Haraldur Guðmundsson, greiði allan áfrýjunarkostnaðar málsins samtals 200.329 krónur, þar með eru talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 17. september 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 4. september sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 10. apríl 2008 gegn Haraldi Guðmundssyni, kt. 241055-4509, Víkurbraut 36, Grindavík, ,,fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 9. desember 2007, á bifreiðastæði við Hafnargötu 6, Grindavík, veist með ofbeldi að lögreglumanninum Daða Þorkelssyni, sem var að sinna skyldustarfi sínu, en ákærði læsti höndum sínum um fótleggi lögreglumannsins sem við það féll í jörðina og hlaut rispur á fingri og marbletti á vinstra hné.
Háttsemi ákærða telst varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 101/1976 og 1. gr. laga nr. 25/2007.”
Af hálfu ákærða er krafist sýknu en til vara vægustu refsingar. Málsvarnarlauna er krafist.
I.
Í frumskýrslu lögreglu, sem rituð er af Daða Þorkelssyni lögreglumanni, segir m.a. að hann hafi verið við almennt eftirlit í Grindavík aðfaranótt sunnudagsins 9. desember 2007 ásamt lögreglumanninum Lindu Björk Ólafsdóttur. Þau hafi veitt athygli háreysti við skemmtistaðinn Lukku-Láka að Hafnargötu 4, Grindvík og farið þangað á vettvang. Þegar þau hafi komið á vettvang hafi ákærði og Birgir Rafn Reynisson, verið í handalögmálum á bifreiðastæði á móts við Hafnargötu 6. Lögreglan hafi skilið þá að. Ákærði hafi verið mjög æstur og þegar reynt hafi verið að ræða við hann hafi hann brugðist illa við og reynt að slá til lögreglumannanna og sparka í þá. Daði hafi reynt að beita ákærða lögreglutökum en það ekki tekist. Ákærði hafi fallið við og gripið í vinstri fót Daða. Hafi hann læst báðum höndum í armlás um fótlegginn á Daða og þannig fellt hann niður á vinstra hné og vinstri hönd. Með aðstoð Lindu Bjarkar, Birgis Rafns og Einars Elís Helgasonar, sem einnig hafi verið þarna staddur, hafi tekist að losa Daða. Ákærði hafi síðan verði færður í handjárn og fluttur í lögreglubifreið og á lögreglustöð. Þá segir í frumskýrslu lögreglu að reynt hafi verið að ræða við ákærða, bæði í lögreglubifreiðinni og á lögreglustöðinni, en það hafi ekki borið árangur þar sem ákærði hafi verið æstur og gripið fram í þegar reynt hafi verið að tala við hann.
Daði fór á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og í læknisvottorði, dags. 5. febrúar 2008, segir að hann hafi hlotið rispur á fingri og marbletti á vinstra hné.
Í lögregluskýrslu Lindu Bjarkar Ólafsdóttur lögreglumanns segir m.a. að þegar þau hafi borið að hafi hún séð tvo menn, ákærða og Birgi, takast á. Lögreglumennirnir hafi farið að skilja þá að og hafi ákærði verið mjög æstur og ógnandi við þau. Hún kvaðst hafa, ásamt Daða, reynt að koma á ákærða lögreglutökum en ekki tekist það því ákærði hafi losað sig um leið. Hún hafi séð að ákærði hafi fallið í jörðina er Daði hafi verið að reyna að ná tökum á honum. Ákærði hafi þá gripið með báðum höndum um vinstri fótlegg Daða með þeim afleiðingum að Daði hafi fallið fram fyrir sig. Með aðstoð dyravarðarins, Heiðars Elís Helgasonar, og Birgis hafi þeim tekist að losa Daða frá ákærða. Ákærði hafi síðan verið settur í handjárn og er þau hafi verið að flytja hann í lögreglubifreiðina hafi hann sparkað í dyravörðinn.
Lögregluskýrsla var tekin af ákærða upp úr hádegi sunnudaginn 9. desember 2007. Haft er eftir honum að ráðist hafi verið á hann á veitingastaðnum og að komið hafi til handalögmála innandyra. Svo hafi lögreglan komið askvaðandi og rifið í hann. Hann hafi ekki verið með neitt ofbeldi heldur bara varist. Spurður um hvort hann hafi ekki hlýtt fyrirmælum lögreglunnar fyrir utan veitingastaðinn svaraði hann því til að hann hefði hlýtt ef að hann hefði verið beðinn um það. Ákærði neitaði alfarið að hafa slegið til lögreglunnar eða reynt að sparka í hana. Hann hafi enga sök átt á upphafinu. Spurður um hvort hann hafi gripið um fót lögreglumanns með þeim afleiðingum að lögreglumaðurinn hafi fallið í götuna svaraði ákærði því til að hann vildi ekki tjá sig um það. Aðspurður um hvort hann hafi sparkað í dyravörð þegar reynt hafi verið að færa hann í lögreglubifreiðina svaraði ákærði því til að hann vildi engu svara um það. Aðspurður um hvort hann hafi verið æstur og órólegur í umrætt skipti kvaðst ákærði ekki nenna að svara þessari spurningu. Þá kvaðst ákærði muni kæra lögreglumennina sem hafi handtekið hann.
Fyrir dómi skýrði ákærði svo frá að hann hafi verið ölvaður umrædda nótt á skemmtistaðnum Lukku-Láka í Grindavík. Þarna inni hafi verið gert á hans hlut og hann verið ósáttur við að vera hent út af staðnum. Ólæti sem þar hafi brotist út hafi ekki verið honum að kenna. Þegar út hafi verið komið hafi hann verið að rífast við einhverja menn en ekki að slást. Þegar lögreglan hafi komið á vettvang hafi hún talað við þessa menn og síðan veist að honum. Hann kvaðst hafa hörfað undan og orðið hræddur. Snjór og hálka hafi verið þessa nótt og hafi hann fallið í jörðina ásamt öðrum lögreglumanninum. Ákærði kvaðst hafa slæma reynslu af lögreglunni frá því að hann var unglingur. Hann hafi því færst undan þegar lögreglan hafi reynt að handtaka hann.
Fyrir dómi skýrði lögreglumaðurinn Daði Þorkelsson svo frá að hann og Linda Björk lögreglumaður hafi heyrt mikinn hávaða frá skemmtistaðnum er þau hafi verið að koma út af lögreglustöðinni í Grindavík umrædda nótt. Þau hafi farið á staðinn og séð tvo menn í handalögmálum. Þeir hafi haldið fast hvor í annan en högg ekki gengið á milli þeirra. Þau hafi gengið á milli þeirra og skilið þá að. Ákærði hafi verið mjög ósáttur við það og slegið til Daða. Daði kvaðst hafa staðið við hlið ákærða og ákveðið að reyna að taka hann lögreglutökum til að hemja hendur hans. Áður en til þess hafi komið hafi ákærði hent sér niður á fætur hans og klemmt höndum utan um fæturna með þeim afleiðingum að hann hafi fallið fram á hné og hendur. Hafi ákærði haldið honum uns viðstöddum, þ.e. lögreglumanninum Lindu Björk, dyraverðinum Heiðari og Birgi Rafni, hafi tekist að losa hann. Ákærði hafi síðan verið færður í handjárn og fluttur á lögreglustöð. Daði kvað ákærða hafa verið mjög ölvaðan þessa nótt.
Linda Björk Ólafsdóttir kvaðst hafa heyrt læti frá skemmtistaðnum og er þau hafi komið á vettvang hafi hún séð tvo menn í átökum. Hún kvaðst fyrir dómi muna þetta óglöggt og vísaði til lögregluskýrslu sinnar. Hún taldi að ákærði hafi hrint Daða og síðan kastað sér á fætur hans. Henni hafi tekist að losa ákærða með aðstoð Heiðars og Birgis.
Lögreglan tók símaskýrslu af vitninu Birgi Rafni Reynissyni 12. febrúar 2008 en hann dvaldi erlendis þennan vetur. Í skýrslunni er haft eftir Birgi að hann muni ekki vel eftir atburðinum en hann hafi verið ölvaður í umrætt sinn. Kvaðst hann ekki hafa séð ákærða ráðast á lögreglumanninn eða gera nokkuð á hans hlut. Birgir kom fyrir dóm og sagði hann uppsteyt hafi verið í ákærða inni á veitingastaðnum og hafi hann ásamt öðrum snúið ákærða niður og hringt í lögregluna. Þeir hafi síðan komið ákærða út en handalögmál hafi haldið áfram utandyra. Birgir kvaðst ekki muna eftir að ákærði hafi ráðist gegn öðrum lögreglumanninum.
Lögregluskýrsla var tekin af vitninu Heiðar Guðmundssyni 13. febrúar 2008. Hann kvaðst ekki hafa verið að störfum þetta kvöld sem dyravörður heldur hafi hann verið gestur á staðnum. Hann kvaðst hafa séð ákærða slá í áttina til lögreglumannanna og einnig reyna að sparka í þá. Hann hafi hins vegar ekki séð hvort ákærði hafi hitt lögreglumennina. Ákærði hafi verið mjög æstur og látið öllum illum látum. Haraldur kvaðst hafa séð ákærða falla í jörðina er hann hafi tekist á við lögreglumanninn. Hann kvaðst ekki muna eftir því að lögreglumaðurinn hafi dottið. Sagði Haraldur að ákærði hafi legið í jörðinni og haldið um fótlegg lögreglumannsins og kvaðst hann hafa aðstoðað við að losa fót lögreglumannsins. Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki muna atburðarás en taldi að hann hafi greint rétt frá hjá lögreglu.
II.
Ákærði hefur neitað því að hafa veist að lögreglumanninum Daða Þorkelssyni með þeim hætti er í ákæru greinir. Hann hefur hins vegar viðurkennt að hafa verið í æstu skapi í umrætt sinn er lögreglan hafði afskipti af honum fyrir utan veitingahúsið. Hann hafi verið hafður fyrir rangri rök innandyra og verið hent út af staðnum að ósekju. Samkvæmt framburði vitnanna Heiðars Elís Helgasonar og Birgis Rafns Reynissonar þurfti að fjarlægja ákærða af staðnum vegna ónæðis af hans völdum og því hafi þeir fært hann út úr húsinu og hringt í lögregluna.
Vitnið Birgir kvaðst ekki muna til þess að ákærði hafi lagt hendur á lögreglumanninn en Heiðar sagði aftur á móti í skýrslu sinni hjá lögreglu að hann hafi séð ákærða falla í jörðina og þá hafi hann gripið um fótlegg Daða. Viðstaddir hafi hjálpað Daða að losna úr tökunum. Framburður lögreglumannanna Daða Þorkelssonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur er greinargóður og skýr. Segja þau að ákærði hafi verið æstur og er þau hafi tekið hann tali hafi hann reynt að slá og sparka til þeirra. Hafi því ekki verið um annað að ræða en að handtaka ákærða. Ákærði hafi fallið við, gripið um fætur Daða, fellt hann og haldið honum þannig í tökum uns tekist hafi að losa ákærða frá honum. Við þetta hlaut Daði þá áverka sem í ákæru greinir. Þennan framburð lögreglumannanna tveggja verður að leggja til grundvallar í málinu og er hann í samræmi við framburð vitnisins Heiðars. Telst sök ákærða því sönnuð og er brot hans réttilega fært til refsiákvæðis í ákæru.
Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu og þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði sem rétt þykir að skilorðsbinda eins og í dómsorði greinir.
Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar sem er 10.450 krónur vegna læknisvottorða og 140.000 krónur vegna málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hdl., að meðtöldum virðisaukaskatti, eða samtals 150.450 krónur.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Ákærði, Haraldur Guðmundsson, sæti fangelsi í 3 mánuði. Fresta skal fullnustu refsingar og niður skal hún falla að liðnum 3 árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, 150.450 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, 140.000 krónur.