Hæstiréttur íslands

Mál nr. 31/2016


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði
  • Sjálfræði


                                            

Þriðjudaginn 19. janúar 2016.

Nr. 31/2016.

A

(Elva Ósk Wiium hdl.)

gegn

Velferðarsviði Reykjavíkur

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

Kærumál. Lögræði. Sjálfræði.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í tvö ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. janúar 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2015 þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að hinn kærði úrskurður verði ómerktur en að því frágengnu að sviptingunni verði markaður skemmri tími. Í öllum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Sóknaraðili reisir varakröfu sína um ómerkingu hins kærða úrskurðar á því að meðferð málsins í héraðsdómi hafi farið í bága við ákvæði 1. 2. og 4. mgr. 11. gr. lögræðislaga og 70. gr. stjórnarskrárinnar um réttláta málsmeðferð. Hafi málið ekki verið nægilega upplýst áður en kveðinn var upp úrskurður um sjálfræðissviptingu auk þess sem verjandi hafi hvorki fengið nægilegan tíma til að undirbúa málsvörn né tækifæri til að ræða við sóknaraðila og fá afstöðu hans til kröfunnar áður en ákvörðun var tekin um sjálfræðissviptingu.

Verjandi sóknaraðila sótti þing þegar málið var þingfest og það tekið til úrskurðar. Var bókað í þingbók að verjandinn upplýsti að hún hefði haft samband við sóknaraðila og að hann hefði ekki óskað eftir að koma fyrir dóminn. Gerði verjandinn kröfu um að sjálfræðissviptingu yrði hafnað en til vara að sjálfræðissviptingu yrði markaður skemmri tími en varnaraðili gerði kröfu um. Þá óskaði verjandinn ekki eftir því að málinu yrði frestað svo að henni gæfist rúm til að undirbúa málsvörn og ræða sjálf við sóknaraðila. Verður ekki séð að vörn sóknaraðila hafi verið ábótavant eða að málið hafi ekki verið nægilega upplýst þannig að í bága hafi farið við 11. gr. lögræðislaga og 70. gr. stjórnarskrárinnar. Verður kröfu sóknaraðila um ómerkingu úrskurðarins því hafnað.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda sóknaraðila, Elvu Óskar S. Wiium héraðsdómslögmanns, 148.800 krónur greiðist úr ríkissjóði.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2015.

Með beiðni sem barst dóminum í dag hefur sóknaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14, Reykjavík, krafist þess að varnaraðili, A, kt. [...], [...], [...] Reykjavík, verði með vísan til a-liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, svipur sjálfræði tímabundið í tvö ár. Um aðild sóknaraðila vísast til d-liðar 2. mgr. 7. gr. sömu laga.

Í kröfu um sjálfræðissviptingu kemur m.a. fram að varnaraðili, sé [...] ára gamall, ógiftur og barnlaus og hann hafi átt við hegðunartruflanir að stríða frá barnæsku. Þá hafi varnaraðili hafið neyslu áfengis og misnotkun ýmissa lyfja á 14-15 ára aldri. Varnaraðili hafi orðið fyrir [...] árið 1999. Á árinu 2001 hafi hann farið í meðferð á Vogi og síðan lagst inn á geðdeild Landspítala í mánuð. Frá árinu 2004 hafi varnaraðili ekki stundað samfellt nám og hann hafi ekki verið í vinnu síðastliðin tvö til þrjú ár. Varnaraðili sé nú og hafi verið undanfarin ár heltekinn af geranda í alvarlegri líkamsárás sem átti sér stað [...] þegar ungur maður var stunginn með hnífi og slasaðist alvarlega. Árásarmaðurinn reki í dag veitingastaði og varnaraðili hefur verið upptekinn af því að mikilvægt sé að birta nafn mannsins í fjölmiðlum og að veitingastað hans hans verði lokað og bætur greiddar til starfsmanna, fórnarlambs árásarinnar og varnaraðila.

Varnaraðili leitaði að eigin frumkvæmi til B geðlæknis þann 15. janúar 2015 og mætti í 10 viðtöl. Þar sýndi hann strax einkenni um verulegar tilvísunarranghugmyndir og mikla þráhyggju varðandi framangreindan veitingastað. Á þessum tíma neitaði varnaraðili með öllu að taka lyf. Vegna veikinda sinn og truflandi hegðunar var varnaraðili nauðungarvistaður á geðdeild þann 6. mars sl. í 48 klst., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga. Sama dag stóð sóknaraðili að nauðungarvistun varnaraðili í 21. dag, sbr. 19. gr., sbr. 20. og 21. gr. lögræðislaga, með beiðni sem staðfest var af innanríkisráðuneytinu 7. mars sl. Ákvörðun ráðuneytisins var kærð til héraðsdóms og síðan til Hæstaréttar Íslands sem staðfesti hana með dómi 23. mars sl. Niðurstaða lækna var eftir dvöl varnaraðila á geðdeild að hann væri annað hvort haldinn aðsóknargeðklofa eða hugvilluröskun og stefnt var að því að hann mætti í eftirlit á göngudeild geðdeildar. Þangað hafi hann lítið mætt en sótt tíma hjá B.

Þann 11. maí sl. réðst varnaraðili á starfsmann á veitingastað umrædd aðila og sló hann í andlitið. Sú árás var kærð til lögreglu og við meðferð þess máls gekk varnaraðili undir geðrannsókn. Í niðurstöðum hennar dags. 25. nóvember sl. segir að varnaraðili sé haldinn geðrofssjúkdómi og brýn nauðsyn sé til að varnaraðili verði sviptur sjálfræði og vistaður á geðdeild til þess að hann yrði meðhöndlaður til að koma í veg fyrir hugsanlegan skaða sem veikindi hans gætu orsakað. Í kjölfarið fór B þess á leit við sóknaraðila að varnaraðili yrði sviptur sjálfræði til tveggja ára. Þar kemur fram að varnaraðili geti ekki verið utan sjúkrahúss lengur og að sjálfræðissvipting væri nauðsynleg til þess að mögulegt verði að koma við viðeigandi meðferð.

Þann 3. desember sl. kom varnaraðili í lögreglufylgd á bráðageðdeild 32C þar sem hann hafði verið truflandi við áðurnefndan veitingastað. Hann var í kjölfarið nauðungarvistaður í 48 klst. skv. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga og stóð sóknaraðili að nauðungarvistun varnaraðila í 21 dags, br. 19. gr., sbr. 20. og 21. gr. lögræðislaga með beiðni dags. 4. desember sl., sem staðfest var af innanríkisráðuneytinu 5. desember sl. Þessi ákvörðun ráðuneytisins var staðfest með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 11. desember sl.

Fyrir liggur í málinu læknisvottorð C geðlæknis, sem lá til grundvallar beiðni um nauðungarvistun og þar kemur fram að varnaraðili sé haldinn geðklofasjúkdómi, sé innsæislaus í veikindi sín og að óhjákvæmilegt sé að vista hann á sjúkrahúsi til að unnt sé að koma við nauðsynlegu mati og meðferð.

Við meðferð málsins gáfu skýrslu geðlæknarnir B og D. B staðfesti niðurstöðu geðrannsóknar sinnar dags. 25. nóvember 2015. Læknarnir voru sammála um að varnaraðili væri haldinn mjög alvarlegum geðsjúkdómi eins og fram komi í læknisvottorðu varðandi geðheilsu varnaraðila. Meðferð hafi litlum sem engum árangri skilað til þessa og reynslan sýni að hefðbundin göngudeildarmeðferð skili engum árangri þar sem varnaraðili sé ekki til samvinnu um meðferð og sé algjörlega innsæislaus í veikindi sín. Þá liggi fyrir að meðferð taki langan tíma og tímalengd sjálfræðissviptingar í tvö ár sé hæfileg. Afleiðingar þess ef ekki verði gripið til þessa úrræðis verði óhjákvæmilega þær að varnaraðili héldi áfram að angra og áreita fólk, sem telji sig stafa hættu af honum. Þá sé fyrirsjáanlegt að ekki verði um neinn bata hjá varnaraðila nema haldið verði áfram með þá meðferð sem sé verið að reyna. Miðað við álit geðlækna sem gáfu skýrslu fyrir dómi verður ekki talið að efni séu til að marka sjálfræðissviptingunni skemmri tíma og verður því að hafna kröfu verjanda þar um.

Verjandi mótmælti framkominni kröfu og krefst þess aðallega að henni verði hafnað en til vara  að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími eða  í 6 mánuði.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið er talið uppfyllt séu að skilyrði a-liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Ber því að fallast á kröfu sóknaraðila eins og hún er fram sett.

        Með vísan til 17. gr. lögræðislaga greiðist allur kostnaður málsins úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, eins og nánar greinir í úrskurðarorði og er þóknunin ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.

         Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.        

ÚRSKURÐARORÐ:

          Varnaraðili, A, kt. [...], [...], [...] Reykjavík, er  sviptur sjálfræði tímabundið í 2 ár.

            Allur kostnaður málsins, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Elvu Óskar Wiium hdl., 150.000 kr. greiðist úr ríkissjóði.