Hæstiréttur íslands

Mál nr. 264/2009


Lykilorð

  • Börn
  • Umgengni


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. desember 2009.

Nr. 264/2009.

K

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

gegn

M

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

 

Börn. Umgengni.

M og K deildu um umgengnisrétt M við son aðila. K krafðist þess að kröfu M um umgengnisrétt yrði hafnað og að umgengni M við drenginn yrði ákveðin með nánar tilgreindum hætti til reynslu í 12 mánuði undir eftirliti barnaverndaryfirvalda. K lagði fram nokkur ný gögn fyrir Hæstarétt máli sínu til stuðnings um að M væri óhæfur til að eiga umgengni við barnið. Talið var að gögn þessi fengju ekki hnekkt niðurstöðu héraðsdóms, sem var staðfest með vísan til forsendna hans. Var M heimiluð regluleg umgengni við drenginn.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 8. apríl 2009. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 20. maí 2009 og var áfrýjað öðru sinni 22. sama mánaðar. Hún krefst þess aðallega að kröfu stefnda um ákvörðun umgengnisréttar verði hafnað, en til vara að umgengni stefnda við son aðila, A, verði ákveðin til reynslu í tólf mánuði frá dómsuppsögu undir eftirliti barnaverndaryfirvalda frá kl. 12 til kl. 18 sem hér segir: Einn sunnudag í mánuði, annan dag jóla, nýársdag og annan dag páska svo og „að reynslutíma liðnum verði umgengnin úrskurðuð af sýslumanni í ljósi reynslu af umgengni undir eftirliti.“ Hún krefst einnig málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur lagt fram nokkur ný gögn fyrir Hæstarétt máli sínu til stuðnings um að stefndi sé óhæfur til að eiga umgengni við barnið. Gögn þessi fá ekki hnekkt niðurstöðu héraðsdóms, sem verður  staðfestur með vísan til forsendna hans.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Það athugast, að í dómsorði héraðsdóms var ekki tekið fram hvort áfrýjun frestaði réttaráhrifum hans andstætt fyrirmælum 1. mgr. 44. gr. barnalaga nr. 76/2003, sbr. 5. mgr. 34. gr. laganna.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2009.

                Mál þetta, sem dómtekið var 3. mars 2009, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af K, kt. [...], [...], Reykjavík, gegn M, kt. [...], [...], Reykjavík, með stefnu sem birt var 28. ágúst 2008.

                Dómkröfur stefnanda eru að slitið verði með dómi samningi aðila frá 27. september 2005 um sameiginlega forsjá með syni þeirra, A, kt. [...], og að stefnanda verði einni dæmd forsjá drengsins til 18 ára aldurs hans.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.

                Stefndi fellur frá kröfu sinni í greinargerð um að honum verði einum dæmd forsjá drengsins.  Hann heldur þó fast við kröfu sína um umgengnisrétt.  Krefst þess að kveðið verði á um umgengnisrétt hans við drenginn þannig að regluleg dvöl drengsins hjá honum verði frá fimmtudegi til mánudags aðra hverja viku.  Um jól og áramót verði drengurinn önnur hver jól hjá stefnda og dvelji þá hjá gagnaðila um áramót og öfugt.  Umgengni um páska skiptist til helminga og á sumrin dvelji drengurinn í mánuð hjá stefnda.  Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmd til greiðslu málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

Stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því:  Af hálfu stefnanda er því lýst að málsaðilar hafi kynnst í október 1998.  Sumarið 1999 hafi þau hafið sambúð og gengið síðan í hjúskap hinn 13. október 2000.  Sonur þeirra, A, hafi fæðst hinn [...].

                Samkvæmt gögnum málsins fengu aðilar leyfi til skilnaðar að borði og sæng á grundvelli 33. gr. laga nr. 31/1993.  Leyfisbréfið er dagsett 27. september 2005.  Þar var mælt fyrir um að foreldrar fari sameiginlega með forsjá barnsins, A; barnið eigi lögheimili hjá móður og faðir greiði með því einfalt meðlag frá 1. október 2005 til 18 ára aldurs.  Og þess er getið að samkomulag sé um fjárskipti aðila og vísað til samnings þeirra í því sambandi, dags. 26. september 2005.

Leyfi til lögskilnaðar fengu aðilar hinn 4. apríl 2005.

                Samkvæmt myndriti af lögregluskýrslu, dags. 4. janúar 2006, sbr. dskj. nr. 7, kærði stefnandi stefnda fyrir hótanir. Áminnt um sannsögli hjá lögreglunni kvaðst hún hafa orðið vör við að stefndi væri fallinn í neyslu fíkniefna frá því að þau slitu samvistum í júní 2005 og hafi hún ætlað að takmarka umgengni hans við A nema hann færi í meðferð.  Stefndi hafi þá hótað m.a að koma heim til hennar og rústa heimilið, skemma bifreið hennar, heimsækja hana í jólaboð og berja hana og ættingja hennar.

                Samkvæmt myndritum af lögregluskýrslum, dags. 11. janúar 2006, sbr. dskj. nr. 7, hafði stefnandi samband við lögregluna, hinn 6. janúar 2006, til að spyrjast fyrir hvort búið væri að ræða við stefnda þar sem hegðun hans virtist hafa breyst.  Þegar því var neitað, segir í skýrslunni, að stefnandi hafi óskað eftir því beðið væri með að ræða við hann þar sem stefndi hefði haft samband til þess að ræða um barn þeirra og virtist sem hegðun hans væri til batnaðar.  Í lögregluskýrslunni segir síðan: „Ég ræddi síðan við K nú fyrr í dag [11. janúar 2006].  K sagði sem fyrr að hegðun M virtist vera til batnaðar.  M hefði fengið son þeirra um helgina og allt gengið vel.  Til stæði að hann fengi son þeirra aftur næstu helgi.  Af þessum ástæðum óskaði K eftir því að lögreglan ynni ekkert frekar í þessu máli.  Var K þá kynnt að lögreglan myndi hætta allri rannsókn á þessu máli og yrði það lagt upp sem afturkölluð kæra.  Var K sátt við þá niðurstöðu.“

                Samkvæmt myndritum af bréfum lögreglustjórans í Reykjavík til stefnanda og stefnda, dags. 12. september 2006, sbr. dskj. nr. 7, hafði lögreglustjórinn haft kæru stefnanda á hendur stefnda fyrir líkamsárás fyrir utan [...] í Reykjavík hinn 8. ágúst 2006.  Greint er frá því í þessum bréfum að rannsókn málsins hafi verið hætt með vísun til 1. mgr. 76 gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

                Aðila greinir á um umgengnisrétt stefnda við sonur þeirra, A.

Helstu málsástæður aðila og réttarheimildir sem þeir byggja á:  Stefnandi byggir á því að ástand stefnda sé þannig að hann geti með engu móti sinnt syni þeirri.  Stefndi eigi við vímuefna- og geðræn vandamála að etja.  Hættulegt sé fyrir drenginn að umgangast föður sinn meðan hann ekki leitar sér aðstoðar vegna vandamála sinna.  Forsendur fyrir umgengnisrétti stefnda við son þeirra séu ekki fyrir hendi.  Um réttarheimild vísar stefnandi til ákvæða 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003.

                Stefndi byggir á því að hann sé fær um að umgangast son sinn, A.  Aðstæður hans séu góðar og hann eigi í senn rétt og beri skyldu til að rækja umgengni og samneyti við barn sitt.  Hann mótmælir í heild sinni lýsingu stefnanda á málavöxtum og aðstæðum aðila.  Um réttarheimild vísar stefndi til 1. og 2. mgr. 46. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Niðurstaða:  Eftir skilnað að borði og sæng, hinn 27. september 2005, höfðu aðilar sameiginlega forsjá barnsins, A.  Og eins og áður sagði krefst stefnandi að með dómi verði slitið samkomulagi aðila um sameiginlega forsjá, og henni einni dæmd forsjá drengsins til 18 ára aldurs hans.  Stefndi hefur fallið frá kröfu um að honum verði dæmd forsjá drengsins.  Rétt er því að fallast á kröfu stefnanda um forsjá drengsins.

                Á hinn bóginn krefst stefndi enn að dómur kveði á um umgengnisrétt hans við drenginn, svo sem nánar var rakið.  Stefnandi hafnar umgengnisrétti stefnda og telur að hann hafi ekki sýnt fram á að vera hæfur til umgengni við son þeirra.

Í þessu sambandi ber að líta til þess að barn á rétt á að umgangast það foreldra sinna, sem það býr ekki hjá, með reglubundnum hætti, sbr. ákv. 1. mgr. 46. gr. barnalaga nr. 76/2003.  Jafnframt að árétta að á stefnanda hvíldi að afla haldgóðra gagna til stuðnings staðhæfingu sinni um að stefndi væri vanhæfur til umgengni við son þeirra, en ekki stefnda að sanna hæfni sína.

Ekki verður ráðið af framlögðum gögnum málsins að stefndi sé ófær um að umgangast son sinn né að það sé andstætt hagsmunum drengsins að hann geri það.  Og þar sem hvorugt er sannað verður hann ekki sviptur rétti til umgengni við son sinn.  Umgengninni verður háttað eins og í dómsorði segir.

Með vísun til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 er rétt að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ.

                Stefnandi, K, skal fara með forsjá sonar síns, A, til 18 ára aldurs hans.

                Umgengni stefnda, M, við son sinn skal þannig háttað:  Regluleg umgengni verði frá fimmtudegi til mánudags aðra hverja viku, um jól og áramót verði A önnur hver jól hjá stefnanda og dvelji þá hjá stefnda um áramót og öfugt, umgengni um páska skiptist til helminga milli aðila og að sumri dvelji drengurinn í mánuð hjá stefnda.

                Málskostnaður fellur niður.