Hæstiréttur íslands

Mál nr. 413/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


                                     

Miðvikudaginn 30. júlí 2008.

Nr. 413/2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Stefán Eiríksson, lögreglustjóri)

gegn

X

(Jón Höskuldsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júlí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. júlí 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. ágúst 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að hann verði látinn sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds. Að því frágengnu krefst hann þess að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 28. júlí 2008.

Ár 2008, mánudaginn 28. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykja­víkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Ingimundi Einarssyni héraðsdómara, kveðinn upp svofelldur úrskurður.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. [...], til að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. ágúst nk. kl. 16.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að 21. júlí sl. bárust lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynningar um neðangreind innbrot, framin sama dag: 

Í máli 007-2008-52454 er varði innbrot að A í Hafnarfirði hafi vitni skýrt frá því að þau hafi séð um kl. 13:00 til ferða tveggja manna við húsið, annan klæddan í hettupeysu, en hinn sköllóttan, þeir hafi kíkt inn um glugga, hringt dyrabjöllu og farið bakvið húsið.  Því næst hafi sést til mannanna inni í húsinu og svo hafi þeir komið út með tvo poka meðferðis og yfirgefið vettvanginn á bifreiðinni [...], sem er af gerðinni B, rauð á lit.  Bakvið húsið hafi mátt sjá að búið var að spenna upp glugga.  Hafi húsráðendur skýrt frá því að frá þeim hafi verið stolið fartölva, vín, skartgripir og fleira.

Í máli nr. 007-2008-52509 hafi verið brotist inn í einbýlishúsið að C í Garðabæ, á tímabilinu kl. 13:30 til 16:30, með því að spenna upp glugga á vesturhlið hússins og þaðan stolið fartölvu, 200 evrum o.fl.  Í viðræðum lögreglu við nágranna hafi D skýrt frá því að hann hafi séð rauða B við E milli kl. 13:30 og 14:00.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu í máli nr. 007-2008-52514 hafi verið brotist inn í einbýlishúsið að F í Garðabæ á tímabilinu kl. 09:00 til 16:43, með því að spenna upp glugga á austurhlið hússins og þaðan stolið ýmsum munum, m.a. myndavél.  Hafi nágranni einn sagst hafa séð um kl. 13:50 þennan dag rauða eða fjólubláa bifreið kyrrstæða við húsið.

Um kl. 18:30 þennan sama dag hafi lögreglan stöðvað bifreiðina [...] við Aktu-taktu í Garðabæ.  Í bifreiðinni, sem sé rauð B, hafi kærði verið, ásamt þremur öðrum Pólverjum.  Við leit í bifreiðinni hafi myndavél sú, sem stolið var úr innbrotinu að F, fundist, sömuleiðis hafi í bifreiðinni fundist hálsmen sem tekið hafi verið í innbrotinu að A.  Þá hafi einnig í bifreiðinni fundist kúbein, sem lögregla hafi nú borið saman við verksummerki á ofangreindum innbrotsstöðum.  Hafi sá samanburður leitt í ljós að samskonar kúbein, bæði hvað varðar lit og lögun, hafi verið notað við að spenna upp glugga á þeim stöðum sem brotist hafi verið inn í.  Einnig muni kúbeinið hafa verið notað við að spenna upp hurðir inni í viðkomandi húsum. 

Í upphafi hafi kærði neitað allri aðild að málunum, en við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 22. júlí sl. viðurkennt innbrot í tvö ofangreindra húsa og sagst hafa verið einn á ferð.  Hafi kærði í framhaldinu verið úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag kl. 16, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-395/2008.

Við húsleit í bifreið og á dvalarstað kærða að kvöldi 22. júlí sl. hafi lögregla lagt hald á umtalsvert magn muna sem ætla megi að sé þýfi, s.s fartölvur, bílútvarpstæki, skartgripir o.fl., sjá nánar meðfylgjandi munaskrá.

Lögregla hafi kærða nú sterklega grunaðan um eftirfarandi þjófnaðarbrot:

Mál nr. 033-2008-4789, innbrot að G á Selfossi, 30. júní 2008.  Taska, hálsmen og áritaður 10 króna seðill, hafi fundist í veski, í bifreið og á dvalarstað kærða.

Mál nr. 033-2008-4800, innbrot að H á Selfossi, 30. júní 2008.  Fingrafar kærða hafi fundist á innbrotsvettvangi.

Mál nr.  007-2008-48308, innbrot að I í Reykjavík, 2. júlí 2008.  Armbandsúr af gerðinni Rolex, hafi fundist á dvalarstað kærða.

Mál nr. 007-2008-40836, innbrot að J í Reykjavík, 4. júlí 2008.  Armbandsúr af gerðinni Armani og kvennmannsúr, hafi fundist á dvalarstað kærða.

Mál nr. 007-2008-52509, innbrot að C í Garðabæ, 21. júlí 2008.  Fartölva, skartgripir o.fl. hafi fundist á dvalarstað kærða.

Þá hafi lögregla fundið fartölvu á heimili kærða sem stolið hafi verið í K í Kópavogi 18. janúar sl., málið hafi ekki fengið málsnúmer.

Lögregla vinni enn að því að því að tengja haldlagða muni við innbrot.

Með úrskurði héraðsdóms Suðurlands hafi lögreglu verið veitt heimild til að kanna síma kærða.  Sú könnun hafi leitt í ljós að kærði hafi fengið á undanförnum dögum send sms-skilaboð í farsíma sinn, sem lögregla telur að tengist afbrotum kærða, þ.e.a.s. vörslu og sölu þýfis:

Frá: [...]| L | [...]:

19-07-08

23: “X hann vill skoða hana. Hann kemur til mín á morgun, hentu í mig myndavélinni í dag eða á morgun.”

20-07-08

19: “Blessaður X hentu í mig þessari myndavél, ef að þú vilt þá get ég selt hana á morgun í vinnunni.”

Frá: [...]

18-07-08

31: “Veit um fagmenn frá Póllandi er búin að vera þar og sjá allt!!! Hardi. Já og það er hægt á morgun!!! Hugsaðu !!!”

Frá: [...]| M | [...]

17-07-08

40: “Hæ X ef að þú átt ennþá kortin frá símanum þá vil ég kaupa nokkur en settu þetta græna á kostnað fyrirtækisins J

Frá: [...]

16-07-08

48: “X xxx ÞÚ ÁTTIR AÐ KOMA MEÐ FARTÖLVU EN ÉG SÉ ENGA FARTÖLVU OG ENGA PENINGA HELDUR OG ÞÚ SVARAR EKKI SÍMANUM”

Frá: [...] | N | [...]

14-07-08

53: “X það vantar einhvern Ipod, færð peninga strax”

Frá: [...] | O | [...]

11-07-08

77: “Er með 5 bréf stíluð á fólk sem að býr ekki hérna 2 á P, 2 á Q og 1 á R. Öll bréfin eru frá bankanum. Þegar að skilríkið kemur læt ég heyra í mér”

Frá: [...] | S | [...]

09-07-08

101: “Viltu þéna hringdu”

Frá: [...]

09-07-08

104: “X geturu reddað einhverju að reykja bara ekki súkkulaði”

Frá: [...] | T | [...]

08-07-08

122: “Ekki gleyma hleðslutækinu í dag fyrir Ipod-inn”

Fyrir lögreglu liggi nú að hafa uppá ofangreindum aðilum og yfirheyra, en athugun lögreglu hafi leitt í ljós að sumir ofangreindir aðilar hafi komið við sögu lögreglu í þjófnaðar- og/eða fíkniefnamálum.

Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. nr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt, enda sé kærði undir rökstuddum grun um að hafa framið afbrot sem fangelsisrefsing varði við.  Þá sé mikil hætta á, gangi kærði frjáls ferða sinna, að hann muni torvelda rannsókn málsins, s.s. með því að hafa áhrif á vitni og eða aðra sakborninga eða koma sönnunargögnum undan.

Hinn rökstuddi grunur um aðild kærða á ofangreindum afbrotum, grundvallist á því að við leit lögreglu á heimili hans og í bifreið hafi fundist mikið magn þýfis.  Þá liggi fyrir í málinu að kærða hafi borist sms-sendingar sem beri með sér að óskað sé eftir ýmiskonar lausfé gegn greiðslu, en kærði sé án atvinnu.

Rannsókn málsins sé skammt á veg komin, en málið sé nokkuð umfangsmikið, það sé því afar brýnt að lögregla fái svigrúm til að ræða frekar við vitni, aðra samseka og reyna að hafa upp á því þýfi sem stolið var.   Það gefi auga leið að gangi kærði frjáls ferða sinna, kunni hann að torvelda rannsókn málsins.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið, meðfylgjandi rannsóknargagna og a. liðar 1. mgr. 103. nr. laga nr. 19, 1991 sé þess krafist að krafa þessi nái fram að ganga.

Lögreglan hefur til rannsóknar ofangreind þjófnaðarmál og beinist rannsóknin að kærða. Fram er komið að mikið magn þýfis hafi fundist á heimili kærða og í bifreið hans. Jafnframt bera sms- sendingar í síma kærða þess vitni að þar sé verið að óska eftir ýmsum munum gegn greiðslu, en kærði er atvinnulaus.

Við brotum sem að ofan greinir liggur fangelsisrefsing samkvæmt 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærði hefur játað aðild að tveimur innbrotum, en grunur leikur á að hann eigi þátt í fleiri innbrotum. Þar sem málið er á frumstigi rannsóknar og m.a. á eftir að rannsaka frekar þátt kærða í öðrum innbrotum, reyna að hafa upp á þýfi og bera undir vitni þær sms- sendingar, sem áður getur,  er fallist á að kærði geti torveldað rannsókn málsins, svo sem með því að hafa áhrif á vitni eða samseka, eða skjóta undan munum, fari hann frjáls ferða sinna.

Verður kærða því gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 svo sem greinir í úrskurðarorði, en í ljósi þess að rannsókn er svo skammt á veg komin þykir ekki ástæða til að marka gæsluvarðhaldi skemmri tíma.

Á grundvelli a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 1. ágúst 2008, kl. 16.00.