Hæstiréttur íslands
Mál nr. 572/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Fimmtudaginn 4. september 2014. |
|
Nr. 572/2014.
|
A (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) gegn Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í sex mánuði.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. ágúst 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. ágúst 2014 þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í sex mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og er hún ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 125.500 krónur greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. ágúst 2014.
Með beiðni, dagsettri 20. ágúst sl., hefur velferðarsvið Reykjavíkurborgar krafist þess að A, kt. [...], til heimilis að [...], verði sviptur sjálfræði tímabundið í sex mánuði á grundvelli a-liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Um aðild er vísað til d-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga.
Varnaraðili krefst þess að sjálfræðissviptingu verði hafnað. Þá er krafist hæfilegrar þóknunar úr ríkissjóði vegna starfa skipaðs verjanda varnaraðila, sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga.
Í kröfu sóknaraðila kemur fram að varnaraðili hafi verið nauðungarvistaður 30. júlí sl. í 48 klukkustundir á grundvelli 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga eftir að hann hafði verið handtekinn fyrir akstur án ökuréttinda og undir áhrifum áfengis með geðrofseinkenni. Í kjölfarið hafi hann verið nauðungavistaður í 21 dag á grundvelli 19. gr., sbr. 20. og 21. gr. lögræðislaga.
Með beiðni sóknaraðila fylgir læknisvottorð B, sérfræðings í geðlækningum á móttökugeðdeild 32A á Landspítalanum, dags. 19. ágúst sl. Þar kemur fram að varnaraðili hafi ekki áður legið á geðdeild. Tildrög þess að hann var lagður nauðugur inn á geðdeild eru rakin í vottorðinu. Þar kemur einnig fram að í samtali við innlögn hafi varnaraðili verið með mikinn talþrýsting auk þess sem hann hafi greint frá tveimur röddum sem fylgdu honum. Önnur röddin hafi verið rödd látins frænda hans. Þá hafi varnaraðili skýrt frá því að þegar hann hafi verið staddur í bústað í nóvember 2013 hafi hann tekið eftir því að innstungur hafi farið að tengjast í hann en upp frá þessu hafi frændi hans stöðugt talað við sig. Þá hafi hann greint frá því að raddirnar rífist, tali til hans og geri grín að honum. Tali þær um það bil 10 sinnum hærra en eðlilegt sé. Jafnframt hafi raddirnar skipað honum mikið fyrir og hafi hann upplifað sig stjórnlausan.
Í vottorðinu er enn fremur vikið að því að varnaraðili hafi, samkvæmt upplýsingum frá aðstandendum, sest í helgan stein fyrir tæpum áratug er hann hafi selt [...] sína. Í framhaldinu hafi farið að bera á alvarlegri ofnotkun áfengis. Hann muni þó hafa verið edrú í einhvern tíma en byrjað að drekka á ný síðast liðið vor.
Í vottorðinu kemur fram það mat læknisins að við innlögn hafi varnaraðili verið alvarlega veikur og í manísku ástandi með geðrofseinkenni. Meðferð hafi gengið vel að því leyti að varnaraðili hafi tekið þau lyf sem honum hafi verið gefin. Eftir það hafi ekki orðið vart við áberandi talþrýsting og hann sofið vel. Hann hafi þó þörf fyrir að hafa mörg járn í eldinum og mikið verið að reyna að reka erindi í gegnum síma. Tali hann um að hann reki [...] og hafi fólk í vinnu. Samkvæmt upplýsingum frá aðstandendum eigi varnaraðili [...] og hafi einhvern tímann verið með rekstur þar, en núna sé hann hvorki með virkan rekstur né með fólk í vinnu.
Þess er getið í vottorðinu að ekki hafi orðið vart við ofskynjanir hjá varnaraðila í samtölum á móttökugeðdeild. Hann hafi þó virkað reiður og stundum ásakandi, jafnvel hótandi í garð meðferðaraðila. Hann hafi látið í ljós ótta við að nauðungarvistunin væri runnin undan rifjum fjölskyldumeðlima til að hafa af honum eignir. Í samtölum reyni varnaraðila að hafa stjórn á sér en yfirleitt hafi hann kosið að yfirgefa samtölin sjálfur eða beðið viðmælandann um að fara út. Þannig hafi verið afar erfitt að ræða veikindin við varnaraðila. Er þess getið í vottorðinu að hann hafi neitað að fara í segulómskoðun af heila nema að fá að ræða fyrst við lögfræðing. Af þeim sökum hafi þessi nauðsynlega rannsókn ekki farið fram.
Í vottorðinu er geðskoðun lýst, en þar kemur fram að varnaraðili hafi kosið að yfirgefa samtalið. Segir þar að geðhrif hafi verið aukin og grunngeðslag frekar hækkað en lækkað. Ekki hafi þó komið fram augljós manísk einkenni. Er það álit læknisins að varnaraðili sé ekki lengur augljóslega manískur, en að hann hafi enn ranghugmyndir af „grandious og paranoid toga“. Þá segir í vottorðinu að eins og ástandi varnaraðila sé núna háttað hafi hann ekki sjúkdómsinnsæi og að hann myndi útskrifa sig fengi hann tækifæri til þess. Telur læknirinn engan vafa leika á því að varnaraðili sé haldinn alvarlegri geðröskun og er sjúkdómsgreining hans geðhæðarlota með geðrofseinkennum. Að auki sé hann haldinn fíkniheilkenni vegna ofnotkunar áfengis. Er það mat læknisins að varnaraðili myndi stefna heilsu sinni í voða kæmi til útskriftar nú að lokinni nauðungarvistun. Lagt er til í vottorðinu að varnaraðili verði sviptur sjálfræði í sex mánuði.
Við meðferð málsins fyrir dómi gaf geðlæknirinn skýrslu og staðfesti mat sitt samkvæmt framangreindu vottorði. Taldi hann ástand varnaraðila í aðalatriðum óbreytt frá því vottorðið var ritað. Kom fram í máli hans að varnaraðila skorti enn þá nauðsynlegt sjúkdómsinnsæi til þess að hann geti útskrifast af geðdeild þó að honum miði í rétta átt. Óljóst sé hvað hann þurfi langa innlögn en oftast brái af sjúklingum, sem leggist inn í geðrofsástandi, á þremur til átta vikum. Taldi læknirinn að varnaraðili þyrfti eftirfylgni að útskrift lokinni og að sjálfræðissvipting á þeim tíma yki líkur á því að vel tækist til með hana. Fram kom í máli hans að í raun væri varnaraðili í þörf fyrir styttri sjálfræðissviptingu, en sex mánaða svipting sé lágmarkstími samkvæmt lögræðislögum.
Varnaraðili gaf enn fremur skýrslu fyrir dómi. Hjá honum kom fram að hann væri við góða heilsu og í engri þörf fyrir læknishjálp. Kvað hann lýsingu í læknisvottorði vera ranga. Kannaðist hann t.d. ekki við að hafa heyrt raddir þegar hann var nauðungavistaður eða fundist eins og hann tengdist í gegnum innstungur.
Með framangreindu vottorði B geðlæknis og skýrslu hans fyrir dómi er í ljós leitt að varnaraðili er haldinn geðröskun. Sú meðferð sem hann hefur fengið á geðdeild hefur dregið úr einkennum. Hann virðist þó enn þá hafa ýmsar ranghugmyndir og mjög lítið sjúkdómsinnsæi, eins og raunar mátti ráða af skýrslu hans fyrir dómi. Ekki er efni til að vefengja að varnaraðili kunni að stefna heilsu sinni í voða útskrifist hann af geðdeild á þessu stigi meðferðar. Það er því niðurstaða dómsins að varnaraðili sé enn um sinn ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna geðröskunar, sbr. a-lið 4. gr. lögræðislaga, og að þörf sé á því að hann verði sviptur sjálfræði til að veita megi honum viðeigandi læknismeðferð. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga skal tímabundin lögræðissvipting ekki ákveðin skemur en sex mánuði í senn. Séu ástæður lögræðissviptingar ekki lengur fyrir hendi er hins vegar unnt að fara fram á að hún verði felld niður, sbr. 15. gr. lögræðislaga. Að þessu gættu er fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili verði sviptur sjálfræði í sex mánuði.
Með vísan til 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist málskostnaður úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 112.950 krónur, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur sjálfræði í sex mánuði.
Allur málskostnaður, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 112.950 krónur, greiðist úr ríkissjóði.