Hæstiréttur íslands

Mál nr. 244/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara


                                     

Þriðjudaginn 14. apríl 2015

Nr. 244/2015.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Kærumál. Hæfi dómara.

Dómur héraðsdóms í máli Á gegn X var ómerktur vegna verulegra annmarka á samningu dómsins og þess að nafngreint vitni gaf ekki skýrslu fyrir dómi. Þegar málið var aftur tekið fyrir í héraði krafðist X þess að þeir dómarar sem dæmt höfðu í málinu vikju sæti. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem kröfu X var hafnað. Vísað var til þess að samkvæmt meginreglu sakamálaréttarfars væri héraðsdómari ekki bundinn af fyrri úrlausn sinni í málinu. Þá hafði dómurinn ekki verið ómerktur á þeirri forsendu að niðurstaða héraðsdómaranna um sönnunargildi munnlegs framburðar kynni að hafa verið röng, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Loks hefði X ekki bent á önnur atvik eða aðstæður sem gætu verið til þess fallnar að draga óhlutdrægni dómaranna með réttu í efa, sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. mars 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2015, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að héraðsdómararnir Símon Sigvaldason, Halldór Björnsson og Ragnheiður Harðardóttir vikju sæti í máli sóknaraðila gegn varnaraðila. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Það er meginregla sakamálaréttarfars að héraðsdómari getur leyst úr máli þótt dómur, sem hann hefur kveðið upp í því, hafi verið ómerktur af æðra dómi, enda er hann ekki bundinn af fyrri úrlausn sinni í málinu. Samkvæmt því verður ekki talið að ákvæði g. liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 standi almennt í vegi fyrir því að héraðsdómari leysi að nýju úr máli þegar þannig háttar til, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 22. maí 2013 í máli nr. 336/2013, 2. nóvember 2012 í máli nr. 664/2012 og 4. júlí 2012 í máli nr. 466/2012. Undantekning er gerð frá fyrrgreindri meginreglu í niðurlagsákvæði 3. mgr. 208. gr. laganna, en þar er svo fyrir mælt að hafi héraðsdómur verið ómerktur fyrir þá sök, að niðurstaða dómara um sönnunargildi munnlegs framburðar kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls, megi þeir dómarar, sem skipa dóm í málinu við nýja meðferð þess í héraði, ekki vera hinir sömu og áður fóru með það. Hafi héraðsdómur verið ómerktur af öðrum ástæðum er á hinn bóginn ekkert því til fyrirstöðu að sömu dómarar leggi dóm á málið að nýju.

Með dómi Hæstaréttar 5. mars 2015 í máli nr. 488/2014 var dómur héraðsdómaranna frá 5. júní 2014 ómerktur samkvæmt 2. mgr. 207. gr. laga nr. 88/2008 vegna verulegra annmarka á samningu héraðsdóms og þess að nafngreint vitni gaf ekki skýrslu fyrir dómi. Þar sem að dómurinn var ekki ómerktur á þeirri forsendu að niðurstaða héraðsdómaranna um sönnunargildi munnlegs framburðar kynni að hafa verið röng, sem er skilyrði þess að niðurlagsákvæðið í 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 eigi við, er rétt að þeir dómarar, sem kváðu upp héraðsdóminn, skipi dóm við áframhaldandi meðferð málsins í héraði, nema þeir séu vanhæfir til þess af öðrum ástæðum. Varnaraðili hefur ekki bent á önnur atvik eða aðstæður, sem geta verið til þess fallnar að draga óhlutdrægni dómaranna þriggja með réttu í efa, sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 né að regla 2. mgr. 6. gr. sömu greinar eigi við. Með vísan til þess, sem að framan greinir, verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2015.

Með ákæru ríkissaksóknara 4. febrúar 2014 var ákærða gefið að sök  kynferðisbrot. Var brotið talið varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940. Með dómi héraðsdóms 5. júní 2014 var ákærði sakfelldur og dæmdur í 4 ára fangelsi. Ákærði áfrýjaði héraðsdómi til Hæstaréttar, sem með dómi í máli nr. 488/2014 ómerkti héraðsdóm og vísaði málinu heim í hérað á ný til löglegrar meðferðar og dómsálagningar.

Við fyrirtöku málsins á dómþingi 18. mars sl. gerði verjandi ákærða þá kröfu að dómendur í málinu vikju sæti í því. Var þeirri kröfu mótmælt af hálfu sækjanda. Var málið í framhaldi flutt um þá kröfu ákærða. Var málið tekið til úrskurðar að loknum málflutningi. 

Ákærði, sem í þessum þætti er varnaraðili, krefst þess að dómendur í málinu víki sæti.

Ríkissaksóknari, sem í þessum þætti er sóknaraðili málsins, krefst þess að kröfu varnaraðila um að dómendur víki sæti verði hafnað.

   Af hálfu varnaraðila er á því byggt að héraðsdómarar sem dæmdu málið í upphafi hafi nú þegar lagt mat á framburði ákærða og vitna í málinu og um leið sakfellingu ákærða. Þegar af þeirri ástæðu bresti þessa sömu dómara hæfi til þess að fara með málið á nýjan leik í héraði, sbr. grunnrök 3. mgr. 208. gr.  og g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár. Hæstiréttur hafi í dómi í máli nr. 488/2014 ekki vísað sérstaklega til 3. mgr. 208. gr. eða 204. gr. laga nr. 88/2008. Eigi sömu grunnsjónarmið að búa að baki báðum þessum ákvæðum, enda þau í eðli sínu sambærileg.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 429/2012 hafi verið gerð krafa um að fjórir dómarar Hæstaréttar, sem dæmt hafi það mál í fyrri umferð í Hæstarétti og hugðust dæma málið á nýjan leik í Hæstarétti eftir sakfellingu ákærða í héraði, vikju sæti í málinu með vísan til  þess að þeir hefðu þegar tekið afstöðu til sakarefnisins meðal annars framburða ákærða og vitna. Hæstiréttur hafi orðið við þeirri kröfu og fjórir nýir dómarar tekið sæti í réttinum.

Sóknaraðili hefur mótmælt kröfugerð varnaraðila. Ekkert það sé fram komið í málinu sem geri það að verkum að dómendur séu nú vanhæfir til frekari meðferðar málsins. Sérstaklega sé til þess vísað í 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 að dóminn skuli skipa nýir dómendur við endurtekna meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Slíku sé ekki fyrir að fara varðandi 204. gr. sömu laga. Af því verði að draga þá ályktun að sömu dómendur og áður fari með málið.

Niðurstaða:

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 488/2014, sem ómerkti héraðsdóm í því máli sem hér er til meðferðar, sagði að brýna nauðsyn hafi borið til að taka hvorn ákærulið í málinu um sig til sjálfstæðrar úrlausnar og draga saman það sem dómurinn teldi sannað um ætlaða háttsemi ákærða undir hvorum ákærulið fyrir sig. Það hafi ekki verið gert í hinum áfrýjaða dómi, heldur í niðurstöðu hans verið steypt saman röksemdum fyrir sekt ákærða án nokkurrar sundurgreiningar, án þess að rakinn væri framburður ákærða og vitna og gerð grein fyrir öðrum sönnunargögnum varðandi hvorn ákærulið fyrir sig og án þess að brotin hafi hvort fyrir sig verið heimfærð til þeirra hegningarlagaákvæða sem í ákæru greindi. Þannig tvinnuðust röksemdir dómsins fyrir sekt ákærða svo saman að ekki yrði glögglega af þeim ráðið hvað dómurinn teldi sannað varðandi hvorn ákærulið. Jafnframt væri í dóminum engin grein gerð fyrir þeim afleiðingum ætlaðra brota ákærða sem lýst væri í framlögðum vottorðum sálfræðinga. Full ástæða hefði þó verið til að rekja niðurstöður þeirra vottorða í fáum orðum, þar sem afleiðingar brotanna gætu haft áhrif á ákvörðun refsingar, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 og bóta. Þá samrýmdist lýsing dómsins á því hvaða háttsemi hann teldi sannaða ekki heimfærslu til 2. mgr. 194. gr. sömu laga og væri unnt að draga þá ályktun af henni að ákærði hafi verið sýknaður af þeirri háttsemi sem greindi í síðari ákærulið. Samkvæmt þessu var samning dómsins að verulegu leyti í andstöðu við f. og g. liði 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008. Væri dómurinn því ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að leggja dóm á málið að nýju að undangenginni skýrslugjöf vitnis, sem ástæða væri til að taka skýrslu af.

Telja verður að í framangreindri niðurstöðu Hæstaréttar felist tilvísun í 1. mgr. 204. gr. laga nr. 88/2008, sem kveður á um að unnt sé að ómerkja dóm vegna verulegra galla á meðferð máls í héraði. Í engu er vikið að niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi og hvort mat í því efni kunni að vera rangt, svo einhverju skipti, um úrslit máls, þannig að 3. mgr. 208. gr. laganna eigi við. Tilvísun til síðastnefnds ákvæðis leiðir óhjákvæmilega til þess að þrír dómendur komi að málinu sem ekki hafa áður tekið þátt í meðferð þess. Þegar þetta er virt verður ekki hjá því komist að hafna kröfu ákærða um að dómendur í málinu víki sæti í því.  

Héraðsdómararnir Símon Sigvaldason, sem dómsformaður, Halldór Björnsson og Ragnheiður Harðardóttir, kveða upp úrskurð þennan. 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu varnaraðila, X, um að dómendur víki sæti í málinu, er hafnað.