Hæstiréttur íslands
Mál nr. 95/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 12. febrúar 2013. |
|
Nr. 95/2013.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. febrúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. febrúar 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 21. febrúar 2013 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. febrúar 2013.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 21. febrúar 2013 kl. 16:00. Þá er þess krafist að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Kærði hefur mótmælt gæsluvarðahaldskröfunni og til vara krafist þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími
Í greinargerð lögreglustjóra segir að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar póstsendingar hingað til lands frá Kaupmannahöfn í Danmörku. Í póstsendingunum hafi verið mikið magn sterkra fíkniefna að finna, sjá nánar meðfylgjandi efnaskýrslur.
Lögregla hafi undir höndum myndbandsupptökur þar sem sjá megi kærða, ásamt öðrum mönnum póstleggja umræddar sendingar.
Kærði hafi verið handtekinn 24. janúar sl. grunaður um aðild að fíkniefnainnflutningnum og úrskurðaður í gæsluvarðhald 25. janúar, sem staðfest hafi verið með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 60/2013.
Kærði hafi að nokkru leyti viðurkennt aðild sína að málinu. Hann kveðst hafa verið fenginn til verksins af manni sem hann hafi ekki viljað nafngreina. Hann kvaðst ekki hafa tekið þátt í að koma efnunum fyrir í póstsendingarnar, heldur hafi hann þá verið beðinn um að yfirgefa hótelherbergið þegar kom að pökkun efnanna.
Það sé grunur lögreglu að kærði hafi ásamt fleiri aðilum staðið að innflutningi mikils magns sterkra fíkniefna hingað til lands. Rannsókn lögreglu sé hvergi nærri lokið og sé nauðsynlegt að yfirheyra kærða frekar og að hafa upp á og taka skýrslur af fleiri einstaklingum, þ. á m. þeim aðila sem hafi fengið kærða til starfans, og aðra sem kunni að tengjast málinu. Þá sé einnig beðið frekari gagna frá Danmörku. Mikilvægt sé í þágu rannsóknarinnar að unnt sé að bera upplýsingar undir kærða sjálfstætt á meðan hann sæti gæsluvarðhaldi og að hann sæti einangrun á þessu stigi rannsóknarinnar. Gangi kærði laus ferða sinna þá geti hann torveldað rannsóknina, s.s. með því að koma undan munum sem hafa sönnunargildi í málinu eða haft áhrif á aðra samverkamenn.
Kærði sé undir rökstuddum grun um aðild að afbroti sem allt að 12 ára fangelsisrefsing er lögð við. Um sé að ræða stórfelldan innflutning fíkniefna, sem víst þykir að hafi átt að fara í sölu- og dreifingu hér á landi. Þykir þannig brýnt að vernda rannsóknarhagmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus.
Með vísan til framangreinds sé það mat lögreglustjóra að lagaskilyrðum rannsóknargæslu sé fullnægt. Með skírskotun til þess, framlagðra gagna og a.liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a. liðar 1. mgr. 95. gr. og b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Þess er krafist gæsluvarðhaldinu verði settar sérstakar takmarkanir samkvæmt b-, c-, d-, e- og f-liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Með vísan til rannsóknargagna og þess sem nú hefur verið rakið, a. liðar 1. mgr. 95. gr. og b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála, er fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, kt. [...] skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 21. febrúar nk. kl. 16:00.
Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.