Hæstiréttur íslands
Mál nr. 105/2001
Lykilorð
- Ölvunarakstur
- Ítrekun
- Áfrýjunarleyfi
|
|
Fimmtudaginn 31. maí 2001. |
|
Nr. 105/2001. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Finni Magnúsi Gunnlaugssyni (Sigurður Eiríksson hdl.) |
Ölvunarakstur. Ítrekun. Áfrýjunarleyfi.
F var ákærður fyrir ölvunarakstur. Greindi lögreglumenn og F á um atvik og bar F að sambúðarkona hans hefði stýrt bifreiðinni er F var handtekinn. Með framburði lögreglumannanna þótti sannað að F hefði ekið bifreiðinni í umrætt sinn og var hann sviptur ökurétti ævilangt. Með hliðsjón af sakarferli hans var honum gert að sæta fangelsi í 30 daga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. mars 2001 að fengnu áfrýjunarleyfi í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða af sakargiftum, sem hann er borinn í málinu.
Samkvæmt sakavottorði ákærða sætti hann fyrst refsingu og sviptingu ökuréttar fyrir ölvunarakstur með dómsátt 14. nóvember 1990, en síðan aftur með lögreglustjórasátt við sýslumanninn á Húsavík 17. júlí 1996. Loks gekkst hann undir viðurlög fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra 8. maí 1998 fyrir sömu sakir. Með því broti, sem ákærði hefur nú framið, hefur hann í fjórða sinn gerst sekur um ölvunarakstur, þar af þrívegis á undangengnum fimm árum. Að þessu virtu og með vísan til 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ákærði sé sviptur ökurétti ævilangt.
Að virtum sakaferli ákærða þykir refsins hans hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Finnur Magnús Gunnlaugsson, sæti fangelsi í 30 daga.
Ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurðar Eiríkssonar héraðsdómslögmanns, 40.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. desember 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 12. desember s.l. að loknum munnlegum málflutningi, hefur sýslumaðurinn á Akureyri höfðað hér fyrir dómi með ákæru útgefinni 1. nóvember 2000 á hendur Finni M. Gunnlaugssyni, kt. 080158-2039, Stórholti 5, Akureyri;
„ fyrir umferðarlagabrot með því að hafa fimmtudaginn 31. ágúst 2000 ekið bifreiðinni ND-636 undir áhrifum áfengis norður Glerárgötu á Akureyri og Hörgárbraut uns lögreglan stöðvaði aksturinn skammt norðan Undirhlíðar.
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. og 26. gr. laga nr. 44, 1993.“
Af hálfu ákærða er aðallega krafist sýknu en til vara vægustu refsingar er lög leyfa. Þá er krafist málsvarnarlauna.
Hér fyrir dóminum hefur ákærði neitað sök í málinu, kveðst hann ekki hafa ekið bifreiðinni í greint sinn, heldur hafi sambýliskona hans ekið.
Þá hefur ákærði viðurkennt að hafa verið undir áhrifum áfengis og eigi andmælt niðurstöðu blóðrannsóknar, sem sýndi að 2 alkóhóls voru í blóði hans skömmu eftir aksturinn.
Hefur ákærði skýrt svo frá að hann hafi neytt áfengis heima hjá sér, en farið síðan á vinnustað sambýliskonu sinnar og fengið hana til að aka bifreiðinni, svo sem greint er frá í ákæru, en hann kveður bifreiðina hafa verið við vinnustað konu sinnar.
Lögreglumenn, þeir er stóðu að handtöku ákærða í greint sinn, þeir Jóhann Pétur Olsen og Leó Örn Þorleifsson, skýra báðir svo frá að þeir hafi verið á eftirlitsferð í lögreglubifreiðinni er þeir hafi fengið tilkynningu frá lögreglustöð um að kanna ástand ökumanns bifreiðarinnar ND-636, en hann var sagður vera Finnur Gunnlaugsson, ákærði í máli þessu. Segjast þeir hafa verið staddir við Shell bensínstöðina við Hörgárbraut á leið suður. Hafi þeir ekið suður Glerárgötu og skammt norðan við gatnamót Þórunnarstrætis hafi þeir séð umrædda bifreið þar sem henni var ekið norður Glerárgötu. Hafi þeir séð að ákærði var ökumaður. Síðan hafi þeir ekið áfram suður Glerárgötuna þar til þeir gátu snúið við við Grænugötu og ekið aftur til norðurs og hafi þeir fljótlega náð bifreiðinni ND-636 eða nálægt brúnni á Glerá. Hafi þeir síðan veitt henni eftirför þar sem henni var ekið norður Hörgárbrautina og norður fyrir hringtorg, en er þangað kom hafi þeir kveikt blá aðvörunarljós lögreglubifreiðarinnar og reynt að stöðva aksturinn. Hafi bifreiðinni ND-636 þá verið beygt til hægri inn á grasflöt sem sé norðan við hringtorgið austan við Hörgárbrautina. Hafi Leó farið út úr bifreiðinni og gengið að bifreiðinni ND-636 og þá séð ákærða enn undir stýri hennar. Þeir hafi síðan tekið ákærða með sér í lögreglubifreiðana, en farþegi, kona, er var með ákærða hafi tekið við stjórn bifreiðarinnar ND-636 og ekið burtu.
Ítrekað aðspurðir í réttinum skýrðu lögreglumennirnir svo frá að þeir hefðu bæði séð ákærða aka greindri bifreið er þeir mættu henni á Glerárgötu og einnig séð hann undir stýri bifreiðarinnar og koma út úr henni ökumannsmegin eftir að hún hafði verið stöðvuð. Telja lögreglumennirnir engan vafa leika á því að ákærði hafi ekið bifreiðinni í greint sinn.
Sambýliskona ákærða, er var í bifreiðinni, hefur neytt réttar síns til að skorast undan skýrslugjöf í málinu.
Með framburði lögreglumannanna þykir sannað að ákærði hafi ekið bifreiðinni í greint sinn svo sem í ákæru greinir, þrátt fyrir neitun hans þar um. Þá er sannað að ákærði var undir áhrifum áfengis við aksturinn og hefur hann því brotið gegn lagaákvæðum þeim er í ákæru greinir.
Ákærði hefur frá árinu 1990 til 1998 fjórum sinnum gengið undir dómsátt fyrir brot á umferðarlögum og þrívegis verið sviptur ökurétti, síðast þann 8. maí 1998 er hann var sviptur ökurétti í 2 ár vegna ölvunar við akstur.
Þykir refsing ákærða nú hæfilega ákveðin 120.000- króna sekt í ríkissjóð og komi 24 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44, 1993, svo og sakaferils ákærða, ber að svipta hann ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins. Að lokum ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þ.á.m. kr. 40.000- í málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Sigurðar Eiríkssonar hdl.
Freyr Ófeigsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, Finnur M. Gunnlaugsson, greiði krónur 120.000- í sekt til ríkissjóðs og komi 24 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Sigurðar Eiríkssonar hdl. kr. 40.000-.