Hæstiréttur íslands
Mál nr. 713/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Reynslulausn
- Skilorðsrof
- Fullnusta refsingar
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. október 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. október 2016 þar sem varnaraðila var gert að afplána 110 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar samkvæmt dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. mars 2014, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 11. desember sama ár. Kæruheimild er í 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Engu breytir þótt í kröfu sóknaraðila til héraðsdóms hafi verið vísað til 2. mgr. 65. gr. eldri laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, en það ákvæði var samhljóða 2. mgr. 82. gr. gildandi laga nr. 15/2016 um skilyrði þess að manni verði gert að afplána eftirstöðvar refsingar vegna rofs á skilyrðum reynslulausnar. Er fallist á það með héraðsdómi að þeim skilyrðum sé fullnægt og verður því hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. október 2016.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur farið fram á það við dóminn að X, kt. [...], óstaðsettur í hús en dvalarstað að [...], [...], verði gert að afplána 110 daga eftirstöðvar óafplánaðra fangelsisrefsinga sem kærða var veitt reynslulausn á af Fangelsismálastofnun Ríkisins þann 14. desember 2015.
Í greinargerð með kröfunni segir að samkvæmt frumskýrslu lögreglu hafi borist tilkynning um innbrot frá [...],[...] í [...], kl. 05:50 nú í morgun. Þegar lögregla var á leiðinni á vettvang hafi fengist þær upplýsingar frá vegfaranda að hann væri með augun á bifreið en hann hefði séð fjóra aðila hlaupa úr apótekinu og aka á brott á bifreiðinni. Lögregla hafi strax hafið leit að ætluðum brotamönnum en eftir skoðun á upptökum úr öryggismyndavélum apóteksins var staðfest að um fjóra aðila væri að ræða. Klukkan 06:10 hafi þrír grunaðir aðilar verið handteknir en ásamt kærða hafi þær A og B verið handteknar. Lögreglu sé kunnugt um hver fjórði aðilinn sé og sé hans nú leitað. Við öryggisleit á kærða við handtöku hafi fundist hnífur á honum sem haldlagður var. Í innbrotinu í [...] hafi lyfjum að áætluðu verðmæti um 350.000 krónum verið stolið ásamt peningaskúffu en ekki sé vitað á þessari stundu hversu miklir fjármunir hafi verið í peningaskúffunni. Lyfin hafi ekki fundist en vitni beri um að hafa séð fjórða aðilann sem undan komst hlaupa burtu með tösku á bakinu.
Þá segir að bifreiðin [...] sem aðilarnir hafi verið á sé í eigu [...] og hafi verið með spjaldi frá [...]. Brotist hafi verið inn kl. 00:30 sl. nótt í fyrirtækið [...] og þaðan stolið kveikjuláslykli sem notaður hafi verið til að opna framangreinda bifreið og henni ekið á brott. Teknar hafi verið skýrslur af sakborningum í dag utan eins sem lögregla leiti að. Fram kom í skýrslu af B að hún hefði ásamt kærða og tveimur öðrum brotist inn í [...]. Þá hafi kærði játað sök í skýrslutöku og kveðst hafa brotist inn í apótekið í félagi við þrjá aðila. Kærði hafi áður komið við sögu lögreglu síðan hann fékk reynslulausn þann 14. desember 2015 og sé hann einnig undir sterkum grun vegna neðangreinds máls hjá lögreglu.
Mál nr. 313-2016-16891
Kærði sé undir sterkum grun um að hafa stolið skráningarmerki af bifreið á [...] og sett á aðra bifreið sem hann hafi tekið ófrjálsri hendi eftir að hafa brotist inn á [...] á [...], og tekið kveikjuláslyklana. Mun hann síðan hafa ekið bifreiðinni vestur á Snæfellsnes og m.a. gert tilraun til að stela eldsneyti á [...] til að setja á bifreiðina. Við yfirheyrslur hafi kærði játaði sök.
Að mati lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafir kærði nú rofið gróflega almennt skilyrði reynslulausnar sinnar enda liggi fyrir sterkur grunur um að kærði hafi gerst sekur um brot sem varðað geti allt að 6 ára fangelsi, sbr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún er sett fram.
Skipaður verjandi kærða krefst þess að kröfunni verði hafnað. Í fyrsta lagi vegna þess að brot kærða sé ekki stórfellt, hann sé vímuefnaneytandi og þurfi að komast í meðferð auk þess sem það muni hafa afgerandi áhrif á möguleika kærða að fá samþykkta samfélagsþjónustu verði kærði síðar ákærður og dæmdur fyrir núverandi brot. Þá krafðist verjandi kærða þess í seinni ræðu sinni að málinu yrði vísað frá dómi þar sem ákæruvaldið hafi í kröfugerð sinni vísað til eldri laga um fullnustu refsinga, laga nr. 49/2005 en ekki núgildandi laga nr. 15/2016 sem tóku gildi 23. mars 2016.
Í málinu liggur fyrir að þann 14. desember 2015 var kærða veitt reynslulausn á 110 daga eftirstöðvum fangelsisrefsinga sem hann hlaut með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystri í málinu S253/2013 þann 28. mars 2014 og var tími reynslulausnarinnar ákveðinn í eitt ár.
Fyrir dóminn hafa verið lögð fram rannsóknargögn og játning kærða.
Eins og liggur fyrir vísar sækjandi til 2. mgr. 65. gr. eldri laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga í kröfugerð sinni. Eru skilyrði 2. mgr. 82. gr. laga sem samþykkt voru 23. mars sl. nr. 15/2016 um fullnustu refsinga óbreytt frá eldri lögum. Þrátt fyrir að sækjandi mál þessa hafi vísað til eldri laga í kröfu sinni fyrir dóminum, kom það ekki niður á vörn kærða og veldur því ekki að máli þessu verði vísað frá dómi vegna þess galla. Er þeirri kröfu kærða því hafnað.
Það er almennt skilyrði reynslulausnar, sbr. 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga, að aðili gerist ekki sekur um nýtt brot á reynslutíma. Samkvæmt 2. mgr. 82. gr. sömu laga getur dómstóll úrskurðað að kröfu ákæranda að maður sem hlotið hafi reynslulausn skuli afplána eftirstöðvar refsingar ef hann á reynslutíma rýfur gróflega almennt skilyrði reynslulausnar, enda liggi fyrir sterkur grunur um að hann hafi framið nýtt brot sem varðað geti sex ára fangelsi eða að brotið varði við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja í máli þessu er það mat dómsins að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 og að kærði hafi á reynslutíma rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnarinnar og jafnframt er sýnt að fyrir liggur sterkur grunur um að kærði hafi framið brot sem varðað geta sex ára fangelsi. Framdi kærða brotið í félagi við fleiri aðila sem eykur á grófleika brotsins. Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra í máli þessu eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Samkvæmt næstsíðasta málslið 2. mgr. 82. gr. laganna frestar kæra til Hæstaréttar Íslands ekki framkvæmd úrskurðar.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, skal afplána 110 daga eftirstöðvar fangelsisrefsinga samkvæmt dómi Héraðsdóms Norðurlands Eystra frá 28. mars 2014, sbr. reynslulausn sem Fangelsismálastofnun ríkisins veitti honum 14. desember 2015.
Kæra til Hæstaréttar Íslands frestar ekki framkvæmd úrskurðarins.