Hæstiréttur íslands

Mál nr. 308/2002


Lykilorð

  • Skuldamál


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. janúar 2003.

Nr. 308/2002.

Sigurbjörn Ásgeirsson

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

gegn

Hjálpar- og lánasjóði C-vaktar

(Karl Axelsson hrl.)

 

Skuldamál.

H krafði S um greiðslu á eftirstöðvum skuldar. Tekið var fram að skuld S í árslok 1995 væri óumdeild. Þá hefði S greitt inn á skuldina á árinu 1998. Ekki var fallist á innborgun S með þremur skuldabréfum þar sem þau báru ekki með sér að greiðsla hefði verið innt af hendi til H á grundvelli þeirra. Var því héraðsdómur staðfestur um kröfu H.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. júlí 2002 og krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu stefnda en til vara að hún verði lækkuð. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem skýrlega er rakið í héraðsdómi var skuld áfrýjanda við stefnda í árslok 1995 talin nema 13.426.283 krónum og er það óumdeilt. Í héraðsdómi er síðan rakið hvernig stefndi greiddi inn á skuldina og hvernig eftirstöðvar hennar eru fundnar. Fyrir Hæstarétti ber áfrýjandi fram þá nýju málsástæðu að hann hafi afhent stefnda þrjú skuldabréf, hvert að fjárhæð ein milljón króna, sem innborgun á skuldina. Stefndi hefur lagt bréf þessi fram fyrir Hæstarétti og bera þau ekki með sér að greiðsla hafi verið innt af hendi til stefnda á grundvelli þeirra. Með þessari athugasemd og vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Sigurbjörn Ásgeirsson, greiði stefnda, Hjálpar- og lánasjóði C-vaktar, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 9. apríl 2002.

Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 8. júní 2000 og þingfest 14. sama mánaðar. Greinargerð stefnda var lögð fram 17. október sama ár.

Í stefnu segir m.a.: ,,Stefnendur sendu bréf til Ríkislögreglustjóra dags. 25. júlí 1999 þar sem háttsemi stefnda var kærð og mun rannsókn vegna málsins nú standa yfir.”  Við fyrirtöku málsins á dómþingi 7. nóvember 2000 var bókað: ,,Dómari lýsir yfir að hann telji æskilegt að afgreiðslu á kæru stefnanda á meðferð stefnda á eignum stefnanda til Ríkislögreglustjóra verði lokið áður en aðalmeðferð fer fram í máli þessu eða því verður lokið með öðrum hætti, sbr. dskj. nr. 18. Óskar hann eftir því að lögmaður stefnanda kanni hvar málið er á vegi statt hjá Ríkislögreglustjóra.” Við fyrirtöku málsins 9. janúar 2001 bókaði dómari að honum hefði degi áður, þ.e. 8. janúar, borist símbréf  frá lögmanni stefnanda, þar sem hann segðist hafa fengið þær upplýsingar, að rannsókn lögreglu á meintri refsiverðri háttsemi stefnda væri skammt komin, en aukinn kraftur yrði settur í rannsóknina allra næstu daga. Málinu var að ósk lögmanna aðila frestað. Það var tekið fyrir 2. mars og síðan 2. maí 2001, en þá var bókað í þingbók: ,,Yfirmaður Efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra, Jón H. Snorrason  tjáði dómara málsins í dag að rannsókn málsins væri lokið hjá því embætti.” Við fyrirtöku málsins 7. júní 2001 er bókað í þingbók: ,,Yfirmaður  Efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra hefur tjáð dómara í símtali í gær, að í máli því sem embættið hefur haft til rannsóknar vegna kæru stefnanda á hendur stefnda og rannsókn er nú lokið í, sbr. bókun í síðasta þinghaldi, verði gefin út ákæra fyrir lok þessa mánaðar. Með vísan til bókunar við fyrirtöku þessa máls 7. nóvember 2000 og til 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 ákveður dómari að fresta máli þessu uns fyrir liggja úrslit í ákærumálinu.” Við fyrirtöku 16. október 2001 var enn bókað: ,,Dómari lýsir símbréfi Jóns H. Snorrasonar saksóknara til dómsins, sem barst í morgun, þar sem fram kemur að ákæra á hendur stefnda, Sigurbirni, verði gefin út fyrir 1. nóvember nk. Að ósk lögmanns stefnanda er bréfið lagt fram sem dskj. nr. 20. Dómari frestar málinu til þriðjudagsins 20. nóvember 2001 kl. 11:30.” Hinn 20. nóvember var bókað: ,, Ríkislögreglustjórinn hefur höfðað sakamál á hendur stefnda í þessu máli, nr. S-383/2001, og var það mál þingfest 14. nóvember sl. Gera má ráð fyrir að því máli ljúki snemma á næsta ári. Dómari frestar málinu til þriðjudagsins 19. febrúar 2002 kl. 11:30. Sakamálinu lauk í héraði 9. janúar 2001 með úrskurði.  Var ákærunni vísað frá dómi. Úrskurðinum var skotið til Hæstaréttar sem felldi dóm í málinu 22. janúar og staðfesti úrskurð héraðsdómara. Mál þetta var tekið fyrir 26. febrúar og 11. mars 2002. Aðalmeðferð fór fram 21. mars, og var málið þá tekið til dóms.

Stefnandi málsins er Hjálpar- og lánasjóður C vaktar, kt. 570589-2619, Brautarholti 30 Reykjavík. Stefndi er Sigurbjörn Ásgeirsson, kt. 041052-3769, til heimilis að Borg, Eyja- og Miklaholtshreppi.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum kr. 4.510.189 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum af stefnufjárhæð frá 1. júní 1999 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2201 til greiðsludags. Jafnframt krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu. Til vara er þess krafist að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða honum málskostnað skv. framlögðum málskostnaðarreikningi með inniföldum áhrifum 24,5% virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Um málsatvik og málsástæður segir í stefnu, að stefnandi, Hjálpar- og lánasjóður C-vaktar í Reykjavík (HLC) sé félagsskapur sem lögreglumenn á C-vakt lögreglunnar í Reykjavík stofnuðu með sér þann 26. janúar 1980 í þeim tilgangi að gefa fé úr sjóðnum til almennrar líknarstarfsemi og til hjálpar einstaklingum, en einnig að lána sjóðsfélögum eða lögreglumönnum úr sjóðnum í skamman tíma. Sjóðurinn hafi átt sér fyrirmynd innan lögreglunnar í Reykjavík, því að B-vaktin hafi um nokkurra ára skeið starfrækt slíkan sjóð.

Stefndi, Sigurbjörn Ásgeirsson, hafi verið einn af stofnfélögum og kjörinn í fyrstu stjórn sjóðsins. Af gögnum sjóðsins megi ráða að Sigurbjörn hafi jafnframt starfað sem framkvæmdastjóri hans frá 1. desember 1981 og allt þar til hann hafi formlega verið leystur frá störfum með ákvörðun framhaldsaðalfundar HLC sem haldinn hafi verið 19. febrúar 1998.

Stefnukrafan sé vegna notkunar stefnda Sigurbjörns á fé úr sjóðum stefnanda í eigin þágu á því tímabili sem hann gegndi trúnaðarstörfum fyrir stefnanda.

Í október 1996 hafi stjórn stefnanda borist beiðni frá Rannsóknarlögreglu ríkisins um að veittar yrðu upplýsingar um, aðallega, lánveitingar HLC til sameignarfélags í eigu stefnda og stefnda sjálfs árin 1989-1995 í þágu opinberrar rannsóknar. Í samantekt sem stjórnin hafi látið vinna af þessu tilefni og m.a. stefndi hafi aðstoðað við að taka saman, hafi komið í ljós að heildarskuld stefnda við stefnanda hafi í árslok 1995 numið kr. 13.426.283. Svo virðist sem sú fjárhæð stafi frá lántökum á árunum 1990 til 1993.

Frá því að upp hafi komist um meðferð stefnda á eignum sjóðsins og um hvaða fjárhæð væri að ræða hafi stjórn stefnanda ítrekað reynt innheimtu fjárins. Stefndi hafi alla tíð lofað endurgreiðslu en ekki staðið við fögur fyrirheit nema að hluta. Eftir margítrekaðar áskoranir hafi stefndi einungis greitt kr. 1.133.000 í reiðufé ásamt því að afhenda stefnanda fasteign sína við Reykjaveg 84 í Mosfellsbæ, en áður hafi stefnanda verið afhent tryggingarbréf í eigninni. Ofangreind fjárhæð (kr. 13.426.283) hafi af hálfu HLC einungis verið vaxtareiknuð samkvæmt útlánareglum sjóðsins á hverjum tíma í stað þess að reikna dráttarvexti eins og telja verði heimilt. 

Miðað við framangreindar forsendur og eftir að stefnandi hafi greitt áhvílandi lögveð og vanskil veðskulda og veðskuldir á Reykjavegi 84, þrátt fyrir ákvæði í samningum um annað, nemi skuld stefnanda stefnufjárhæð máls þessa.

Við fyrirtöku þessa máls 26. febrúar 2002 lagði lögmaður stefnanda fram allmörg skjöl og óskaði eftir fresti til að leggja fram fleiri, m.a. ,,sundurliðun stefnukröfu á grundvelli þeirra gagna sem þegar hafa verið lögð fram”. Slík sundurliðun var lögð fram 11. mars sl. ásamt m.a. fjórum hreyfingalistum úr fjárhagsbókhaldi stefnanda. Sundurliðunin er þannig:

A.             A.     Í fyrsta lagi, segir stefnandi, að um sé að ræða skuld stefnda sem fram komi á reikningi (lykli) nr. 123300 í fjárhagsbókhaldi stefnanda. Í ársbyrjun 1998 nemi skuld stefnda við stefnanda kr. 2.513.042. Vextir það árið skv. [hreyfinga]listanum nemi kr. 188.799, eftir að tekið hafi verið tillit til þriggja innborgana með peningum það árið, kr. 50.000 1.2.1998,  kr. 50.000 2.4.1998 og kr. 1.133.000 16.6.1998. Á listanum sé einnig færð í árslok 1998 til frádráttar skuldinni skuld sjóðsins vegna inneigna stefnda við hann að fjárhæð kr. 144.874:

Upphafsstaða 1998

kr.

2.513.042

Vextir

kr.

    188.799

Innborganir-

kr.

1.233.000

Inneign stefnda-

kr.  

    144.874

Staðan við árslok 1998

kr.

1.323.967

B.      Í öðru lagi, segir stefnandi, að fært hafi verið, að frumkvæði stefnda sjálfs, sem skuld hans vegna  H[afsteins]S[igurðssonar] á reikn. 123310 í fjárhagsbókhaldi. Í ársbyrjun 1998 hafi skuldin numið kr. 13.410.947. Vextir það ár hafi numið kr. 1.235.506, eftir að tekið hafi verið tillit til innborgana þetta ár, kr. 18.500 2.4.1998,  kr. 80.000 2.5.1998 með peningum og kr. 13.250.000 vegna afsals á fasteign stefnda við Reykjaveg 84, Mosfellsbæ. Til aukningar á skuldinni komi síðan frádráttur á yfirlitinu vegna yfirtöku á veðskuldum á 1.-3. veðrétti að fjárhæð kr. 313.542 pr. kaupsamningsdag 19.11.1998. Nettóinnborgun skv. yfirlitinu á skuldina vegna afsals fasteignarinnar nemi því kr. 12.936.458, sbr. ákvæði í kaupsamningi og afsali. (13.250.000 - 313.542):

Upphafsstaða 1998

kr.

13.410.947

Vextir

kr. 

  1.235.506

Innborgun v. R-84 -

kr.

12.936.458

Innborganir aðrar   -

kr.      

        98.500

Staðan við árslok 1998

kr.  

1.611.495,-.

C.     Til viðbótar A og B hér að framan komi svo vanskil á veðskuldunum að fjárhæð kr. 107.745,  gjaldfærð 17.12.1998 á nýjan lykil í fjarhagsbókhaldi nr. 123320, undir heitinu “SÁ áfallin gjöld/afb. R-84”. Einnig kr. 231.251 vegna vangoldinna fasteignagjalda. Samtals kr. 338.996.

D.       Þá segir stefnandi að fjórði reikningurinn í fjárhagsbókhaldi stefnanda, sem tengist málinu, sé nr. 123330, “SÁ yfirtekinn yfirdráttur 6878”. Þar sé um að ræða yfirdrátt á reikningi við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis nr. 1150-26-6878 sem stefndi bar ábyrgð á, sbr.framlögð skjöl. Við greiðslu 1.3.1999 hafi skuldin numið alls kr. 1.119.470. Í kröfugerð er einungis miðað við kr. 1.077.634, sbr. framlagða kvittun um greiðslu.

Fjárhæðir liðanna A-D hér að framan dregur stefnandi saman þannig:

A.

Skuld skv. reikn. 123300 pr. 1.1.1999

kr.

1.323.968

B.

Skuld skv. reikn. 123310 pr. 1.1.1999

kr.

1.611.493

C.

Skuld skv. reikn. 123320 pr. 1.1.1999

kr.   

    338.996

D.

Skuld skv. reikn. 123330 pr. 1.1.1999

kr.

1.077.634

Samtals höfuðst. skuldar pr. 1.1.1999kr.4.352.091,-

Vextir frá 1.1.1999 til 1.6.1999, 9.6% ársv. kr.    174.083,-.

Samtals höfuðstóll stefnufjárhæðarkr.4.526.174,-

Krafist er dráttarvaxta á höfuðstól frá 1. júní 1999 til greiðsludags.

Athugasemd dómara: Upphaflegur höfuðstóll stefnukröfu var kr. 4.528.983, en endanleg dómkrafa nemur kr. 4.510.189, sem fyrr er lýst.

Í stefnu segir að stefndi hafi talið sér óskylt að greiða kröfur stefnanda nema að hluta þar sem meginhluti fjárins hafi að hans sögn runnið til annars aðila en hans sjálfs. Hann hafi þó ritað undir yfirlýsingu þann 14. nóvember 1998 þar sem hann skuldbindi sig til að greiða kröfuna að fullu. Þar sem stefndi hafi í engu sinnt ítrekuðum greiðslutilmælum frá því að fasteign hans við Reykjaveg var afhent stefnanda, telur stefnandi nauðsynlegt að höfða einkamál til innheimtu kröfunnar.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái m.a. lagastoð í 5., 6. og 28. gr. laga nr. 39/1922. 

Um dráttarvexti er vísað til III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.  Krafan um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísast til 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Í greinargerð stefnda er málsvöxtum lýst svo að stefndi hafi starfað sem lögreglumaður á C-vakt í Reykjavík.  Sem slíkur hafi hann orðið aðili að stefnanda og greitt til hans.  Mál hafi þróast þannig að á stefnda hafi lent að vera nokkurs konar framkvæmdastjóri stefnanda, þ.e. stefndi hafi tekið að sér að framkvæma það, sem stjórn stefnda hafði ákveðið skv. 5. gr. laga stefnanda.  Stefndi hafi ekki haft með höndum neina ákvarðanatöku um það hverjum var lánað, né hvað mikið.

Stjórn stefnanda hafi ákveðið að lána Hafsteini B. Sigurðssyni, Grundarhúsum 4 Reykjavík, verulegar fjárhæðir, sem stefndi hafi síðar verið krafinn um, vegna þess að þeir Hafsteinn hafi staðið saman að rekstri sameignarfélagsins Snöggs s/f.  Stefndi hafi talið sig bera nokkra ábyrgð á skuldum Hafsteins og  því fallist á að greiða hluta þeirra.   Stefndi hafi að fullu endurgreitt allt það er honum hafi borið að endurgreiða og vel það.  Stefnda sé því ekki ljóst tilefni þessarar málsóknar, enda séu engin gögn lögð fram, hvorki um skuldir stefnda, Hafsteins, endurgreiðslur né neitt annað. [Greinargerð stefnda var lögð fram áður en stefnandi lagði fram sundurliðun stefnukröfu og ýmis gögn sem hún byggir á. Aths. dómara]

Málsástæður og lagarök stefnda

Aðalkröfu sína um sýknu  byggir stefndi á því að skuld hans við stefnanda sé að fullu greidd. Fyrir liggi í stefnu og í yfirlýsingu aðila í tengslum við kaupsamning og útgáfu afsals fyrir fasteigninni Reykjavegi 84, að stefnandi telji skuld stefnda við sig í árslok 1995 nema kr. 13.426.283.  Stefndi telur skuld þessa mun lægri, enda sé upphæðin ekki studd neinum öðrum gögnum en fullyrðingum stefnanda sjálfs. Þá komi fram í stefnu að stefndi hafi greitt kr. 1.133.000 í peningum inn á skuld sína. Eftir standi þá kr. 12.293.282, og skv. fyrrnefndri yfirlýsingu aðila hafi stefndi greitt stefnanda kr. 12.936.458 með afsali á fasteign sinni.  Hann hafi þannig ofgreitt stefnanda kr. 643.176.

Samkvæmt grein 6.3 í lögum stefnanda hafi átt að endurgreiða stefnda það, er hann hafði greitt í sjóðinn, er hann hætti í sjóðnum.  Það hafi stefnandi ekki gert, né heldur hafi hann gert neina grein fyrir því, hver sú fjárhæð var og hvernig því fé hafi verið ráðstafað.  Stefndi fullyrðir að sú fjárhæð nemi mun meiru en meintri skuld hans við stefnanda og sé það því stefnandi sem skuldi stefnda, en ekki öfugt.

Stefndi segir að sér sé hulin ráðgáta hvaðan þær kr. 4.528.983 [Upphafleg stefnukrafa. Aths. dómara] koma, sem krafist er í stefnu, enda hvorki gerð tilraun til þess að skýra þá tölu, né er hún studd nokkrum gögnum, hvað þá að sundurliðun hennar sé að finna í stefnu eða öðrum gögnum málsins. [Ath. ber að við undirbúning aðalmeðferðar í febrúar og mars 2002, lagði stefnandi fram fjölmörg skjöl, þ. á m. sundurliðun stefnukröfu. Aths. dómara]

Varakrafa stefnda um verulega lækkun á stefnukröfum er byggð á sömu atriðum og aðalkrafa, en hann segir að sér sé ómögulegt að reikna kröfuna nákvæmlega vegna þess að allar reikniforsendur stefnanda vanti í málið svo og öll gögn um fjárhæðir, enda sé allt bókhald stefnanda í vörslum hans sjálfs og að því hafi stefndi engan aðgang.

 Um lagarök segir stefndi að málskostnaðarkrafa stefnda byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafan um að tekið verði tillit til 24,5% virðisaukaskatts á málflutningsþóknun við ákvörðun málskostnaðar byggist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt þar sem lögmönnum er gert skylt að innheimta virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.  Stefndi reki ekki neina virðisaukaskattskylda starfsemi og honum því nauðsynlegt að gætt sé þessa við ákvörðun málskostnaðar.

Skýrslur fyrir dómi gáfu vitnin Kristján Kristjánsson, Óskar Bjartmarz, Jónas H. Þorgeirsson og Atli Már Sigurðarson, sem allir eru lögreglumenn tengdir stefnanda, og Hafsteinn Sigurðsson fyrrverandi lögreglumaður og viðskiptafélagi stefnda.

Kristján Kristjánsson, f. 1953, er gjaldkeri stefnanda. Hann kvaðst hafa verið einn stofnenda stefnanda og hafa verið framkvæmdastjóri fyrsta ár sjóðsins. Þá hefði hann hætt störfum í lögreglunni tímabundið og sagt af sér störfum framkvæmdastjóra. Stefndi hefði þá tekið við. Síðan hefði hann, að því hann best myndi, ekki komið að stjórn stefnanda fyrr en árið 1996, þegar menn hefðu verið orðnir uggandi um hag stefnanda og reynt að ,,gera stjórnina virka aftur”. Síðan hefði hann setið í stjórninni, fyrst sem formaður, en síðan sem gjaldkeri frá áramótum 1996/1997. Á árunum 1982 til 1996 hefði hann ekki haft afskipti af stjórn stefnanda, nema hvað hann hefði rætt við stefnda sem starfsfélaga um málefni stefnanda.

Vitnið var beðið að lýsa aðdraganda þess að ný stjórn stefnanda tók til starfa í apríl 1996. Hann sagði að um nokkurra ára bil hefði verið ,,ósköp lítil stjórn yfir sjóðnum, nema bara Sigurbjörn sá um þennan daglega rekstur og ákvarðanatöku um útlán og annað. Við vorum farnir að heyra það utan að okkur að það væru svona ekki allir hlutir í lagi.” Komið hefði í ljós að þetta hefði verið rétt.  Megnið af inneignum sjóðsins, það sem sjóðfélagar og viðskiptamenn hefðu átt inni, hefði verið í útláni og meiri parturinn hjá einum einstaklingi, sem stefnandi hefði sagt vera Hafstein Sigurðsson.   Þeir stefndi og Hafsteinn hefðu verið viðskiptafélagar, hefðu rekið saman efnalaug. Stefndi hefði ávallt sagt að hann tæki fulla ábyrgð á því að þessi skuld yrði greidd. Stefndi hefði skýrt undanbragðalaust frá stöðu mála og fullyrt ,,í okkar eyru að hann bæri ábyrgð á þessu og myndi sjá til þess að þetta yrði greitt.” Þetta hefði hann sagt við stjórnina og á stjórnarfundum og einnig í samtölum utan funda. Hann hefði þó greitt ósköp lítið fyrst í stað, kannski 50 til 60 þúsund krónur á nokkurra mánaða fresti, vitnið kvaðst ekki muna það nákvæmlega.

Vitnið Kristján var spurður um tryggingarbréf (allsherjarveð), sem stefndi gaf út 18. október 1996 til stefnanda, með veði í fasteigninni Reykjavegi 84 Mosfellsbæ. Vitnið kannaðist við bréfið og sagði að stefndi hefði gefið út annað tryggingarbréf til stefnanda með veði í efnalauginni Snöggi, sig minnti að það hefði verið að fjárhæð kr. 3.000.000. Því bréfi hefði verið aflétt 1998, þegar stefndi hefði verið að hætta í lögreglunni og hefja búskap í Eyja- og Miklaholtshreppi. Á þeim tíma hefði hann sagst vera að selja efnalaugina og hefði beðið stefnanda um að aflétta veðinu gegn því að hann greiddi inn á skuldina. Hann hefði talað um að greiða 2.000.000 króna, en hann hefði ekki greitt nema kr. 1.133.000.  Kr. 1.000.000 hefði hann greitt inn á reikning stefnanda, en kr. 133.000 inn á reikning sjóðfélaga, sem aftur hefði greitt sjóðnum. 

Vitnið Kristján sagðist, aðspurður, ekki minnast þess að nokkru sinni hefði verið ágreiningur um fjárhæð skuldar stefnda við stefnanda. Það hefði ekki verið meðan stefndi var framkvæmdastjóri stefnanda og þar á eftir, en ,,við höfum að vísu lítið talað við hann síðan hann hætti.  Þessar tölur eru frá honum komnar.” Stefndi hefði síðast gert ársreikninga fyrir árið 1996, og þegar vitnið Kristján hefði tekið við af honum hefði hann fengið frá honum lista yfir þá sem skulduðu sjóðnum og þá sem áttu inni hjá honum. Nánar var spurt um fjárhæðir og lagt fyrir vitnið bréf stjórnar stefnanda til Rannsóknarlögreglu ríkisins, dags. 17. október 1996, þar sem m.a. er gerð grein fyrir skuldastöðu stefnda við stefnanda árin 1989 til 1995. Þar kemur fram að staða skuldarinnar er í árslok 1989 með áföllnum ógreiddum vöxtum kr. 2.205.937; árið 1990 hefur stefndi fengið lánað hjá stefnanda kr. 3.259.016, árið 1991 kr. 2.228.870, árið 1992 kr. 3.520.530 og árið 1993 kr. 1.243.825; staða skuldar í árslok 1995 er kr. 13.426.283.  Kristján sagði að þessar tölur allar væru frá stefnda og megnið af texta bréfsins. Stjórnarmenn hefðu ekki haft aðgang að ,,reikningum sjóðsins, hann lagði þessar tölur fram.”

Fram hafa verið lagðar í málinu 24 kvittanir sem bornar voru undir vitnið Kristján. Tólf þeirra eru stílaðar á stefnda og aðrar 12 á Hafstein Sigurðsson, tvær og tvær dagsettar 2. dag hvers mánaðar árið 1997, frá 2. janúar 1997 til 2. desember.  Kristján sagði að þær væru ritaðar af stefnda, með hans hendi. Önnur þeirra, sem síðast væri dagsett, sýndi að skuld Hafsteins Sigurðssonar við stefnanda hefði 2. desember 1997 numið með vöxtum kr. 13.410.947. Í sambandi við þessi skjöl sagði vitnið að stefndi hefði áfram gegnt trúnaðarstöðu hjá stefnanda fram á mitt ár 1998, þegar hann hætti í lögreglunni. Hann hefði margsinnis ítrekað við stjórnina að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur af skuldinni, hann ætlaði sér að greiða hana, hann ætti næga tryggingu fyrir henni. Stefndi hefði fært bókhald fyrir stefnanda allt til áramóta 1997/98. Vitnið kvaðst muna að á árinu 1996 hefði hann beðið stefnda um að fá að sjá bókhaldið.  Stefndi hefði þá sýnt sér bunka af kvittunum, sem hann (vitnið) hefði ekkert skilið í. Þá hefði verið tekin sú ákvörðun í stjórn stefnanda að vitnið tæki að sér að færa bókhaldið, svo að það yrði eðlilega fært.

Undir vitnið Kristján voru bornar tvær kvittanir, sams konar þeim sem fyrr var lýst, stílaðar á stefnda með rithönd hans og dagsettar 2. janúar 2. apríl 1998. Vitnið benti á að skuldastaða stefnda 2. janúar 1998, kr. 2.513.042 hefði verið færð inn á fram lagðan hreyfingalista nr. 123300, með nafni stefnda, en fyrsta færslan þar væri einmitt þessi fjárhæð. Hreyfingalistinn sýnir færslur árið 1998.

Kristján var spurður um vexti skv. þeim skjölunum sem nefnd eru hér að framan, á hverju þeir hefðu byggst.   Hann sagði að í upphafi, þegar stefnandi var stofnaður, hefði stjórn hans tekið ákvörðun um vexti, en síðan hefði stefndi reiknað ,,þessa vaxtatölu út frá einhverjum forsendum, sem ég man ekki hvort var eitthvað miðað við vexti hjá Seðlabankanum, ég bara man það ekki.” Vaxtatölur hefðu verið byggðar á forsendum sem hann hefði komið upp á sínum tíma, og stjórn stefnanda hefði ekki breytt. Nánar spurður sagðist vitnið ekki muna nákvæmlega hver vaxtaprósentan var, en hélt að miðað hefði verið við 8% ársvexti, en vextir hefðu samt veri reiknaðir mánaðarlega. Aldrei hefðu verið reiknaðir dráttarvextir skv. ströngustu kröfum á þessar skuldir. Sambærileg skjöl hefðu verið rituð fyrir alla lánþega og sömu vextir reiknaðir.

Undir vitnið Kristján var borin klausa úr málavaxtalýsingu í greinargerð stefnda: ,,. . . stefndi tók að sér að framkvæma það, sem stjórn stefnda hafði ákveðið skv. 5. gr. laga stefnanda. Stefndi hafði ekki með höndum neina ákvarðanatöku um það hverjum var lánað, né hvað mikið.” Vitnið kvaðst ekki geta tekið undir þetta. Hann kvaðst aldrei hafa séð neina stjórnarsamþykkt stefnanda um lánveitingar til stefnda eða til Hafsteins Sigurðssonar.

Undir vitnið Kristján var borin sundurliðun á dómkröfum stefnanda, sbr. hér framar í dóminum, og einnig klausa í kaupsamningi og afsali stefnda til stefnanda á fasteigninni Reykjavegi 84, þar sem segir: ,,Gengur ofangreindur nettóeignarhluti seljenda í fasteigninni í samræmi við ofangreint til lækkunar á umræddum kröfum kaupanda sbr. sérstakt samkomulaga aðila þar um. Seljendur lofa að aflétta af eigninni tryggingarbréfi útgefnu 7.2.1994, til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis að höfuðstól  kr. 1.300.00,- í síðasta lagi fyrir 1. janúar 1999. Með samkomulagi aðila verður og aflýst af eigninni öllum öðrum áhvílandi verðskuldum m.v. veðbókarvottorð dags. 2. nóvember 1998. Seljendur lýsa því yfir að að engin höft eða kvaðir aðrar hvíli á eigninni. Komi til þess að kaupandi þurfi að taka á sig með einum eða öðrum hætti áfallin gjöld, áhvílandi tryggingarbréf, skatta eða kvaðir sem tilheyra seljendum og á eigninni hvíla, lækkar innborgun á kröfur kaupanda þ.e. fjárhæð skv. lið 2 hér að ofan um samsvarandi fjárhæð.”  Kristján var spurður um efndir stefnda samkvæmt þessu. Hann sagði að stefndi hefði ekki aflétt tryggingarbréfinu, og stefnandi hefði þurft að borga kr. 1.077.000 til að aflétta því, sbr. D-lið í sundurliðun stefnukrafna. Að auki hefði stefnandi þurft að greiða vanskil á fasteignagjöldum og veðdeildarlánum upp á tæpar 339.000 krónur, sbr. C-lið í sundurliðun stefnukrafna. B-liður sundurliðunarinnar sagði vitnið að sýndi það sem eftir stæði af ríflega 13 milljón króna skuld stefnda eftir að frá hefði verið dregið það sem stefnandi fékk fyrir fasteignina. A-liður sýndi eftirstöðvar af þeirri skuld sem stefndi hefði skráð sjálfan sig fyrir.

Þá var borið undir vitnið Kristján bréf lögmanns stefnanda til stefnda frá 28. apríl 1999, þar sem því er lýst að eftirstöðvar kröfunnar á hendur stefnda séu kr. 4.528.983. Vitnið staðfesti að bréfið væri byggt á upplýsingum frá sér. Eftirstöðvar kröfunnar hefði 1. janúar 1999 verið kr. 4.352.091. 

Undir vitnið Kristján var borin yfirlýsing undirrituð af stefnda og þremur mönnum úr stjórn stefnanda 14. nóvember 1998. Þar segir m.a.: ,,HLC telur skuldina [þ.e. skuld stefnda við stefnanda] hafa numið samtals í árslok 1995 kr. 13.426.283.- þ.m.t. áfallnir samningvextir þann dag.” Spurt var hvers vegna talan væri miðuð við árslok 1995 í skjali sem gert væri  nóvember 1998. Vitnið kvaðst ekki muna það. Hugsanlega væri þetta vegna þess að tekin væri upp talan úr bréfinu til RLR á sínum tíma, sem stefndi hefði átt þátt í að semja.  

Þá var Kristján spurður um framlagt tryggingarbréf, út gefið af stefnda 7. febrúar 1994 il Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, að fjárhæð kr. 1.300.000, með veði á 5. veðrétti í Reykjavegi 84.  Vitnið sagði að bréfið hefði verið gefið út til að tryggja yfirdrátt sem stefndi hefði tekið á hlaupareikning stefnanda og notað í sína eigin þágu. Þetta hefði stjórn stefnanda ekki haft hugmynd um fyrr en hann, vitnið, hefði farið að færa bókhald stefnanda árið 1997. Hlaupareikningur þessi hefði verið nr. 006878.

Kristján var spurður hvers vegna ekki væru til staðar kvittanir, t.d. fyrir fasteignagjöldum sem stefnandi hefði greitt fyrir stefnda og vegna greiðslu á húsnæðisstjórnarlánum. Hann sagði að bókhaldið hefði verið fært skv. þessum kvittunum og þær hefðu fengið fylgiskjalanúmer. En kvittanirnar væru ekki lengur til staðar í möppu þar sem þær ættu að vera. Sig minnti að þær hefðu verið teknar úr möppunni á einhverju stigi þessa máls eða vegna rannsókn opinbera málsins á hendur stefnda.

Hafsteinn Bergmann Sigurðsson, bifreiðarstjóri, f. 1943, kvaðst aðspurður ekki geta staðfest að megnið af skuld stefnanda við stefnda væri vegna lána til sín. Hann kannaðist við að hafa tekið lán hjá stefnanda. Það hefði verið fljótlega eftir stofnun sjóðsins, þá hefði hann fengið eins og aðrir hámarkslán, sem hann myndi nú ekki fjárhæð á. Þetta hefði líklega verið 1981 eða 1982.  Hann hefði þá verið í lögreglunni. Hámarkslán á þessum tíma hefði numið nokkrum hundruðum þúsunda króna.  Hann kvaðst hafa greitt af þessu láni þangað til stefndi hefði tekið við fjárreiðum hans og hefði séð um að greiða lánið. Hann kannaðist ekki við að hafa fengið lán frá stefnanda, eftir að stefndi tók við stjórn hans, ,,engar 13 milljónir”, sagði vitnið.

Vitnið játaði því að hann og stefndi hefðu verið viðskiptafélagar, en hann kannaðist ekki við að hafa séð lán frá stefnanda í rekstri fyrirtækis þeirra. Hann sagði að fyrirtæki sitt hefði farið á hausinn, meðan stefndi hefði haft fjárreiður þess. Þess peninga hefði hann aldrei séð.

Vitnið Óskar Bjartmarz, f. 1956, er lögreglumaður.  Hann kvaðst ekkert hafa átt í stefnanda, C-vaktar sjóðnum. Hann hefði hins vegar verið formaður Íþróttasambands lögreglumanna, og það hefði átt peninga í stefnanda, hefði lagt inn peninga í sjóðinn til ávöxtunar. Sem slíkur hefði hann komið að málefnum stefnanda eftir að stjórn hans varð virk, þ.e. þegar borist hefði fyrirspurn frá RLR. Það hefði leitt til þess að hann hefði verið beðinn um að taka við af stefnda í upphafi árs 1998 og sjá um að innheimta lán og greiða það sem greiða þurfti og annað slíkt. Hann hefði aldrei setið í stjórn stefnanda.

Vitnið Óskar kvaðst, aðspurður, ekki minnast þess að stefndi hefði nokkru sinni þrætt fyrir skuld sína við stefnanda, þvert á móti: Hann hefði ávallt viðurkennt ,,að skulda þessa peninga og að hann mundi gera þá upp og að menn þyrftu ekki að hafa neinar áhyggjur, því að hann ætti nægjanleg veð fyrir þessari skuld, og hún yrði gerð upp.” Hann kvaðst ekki muna nákvæmlega fjárhæð skuldarinnar, en hún hefði verið á annan tug milljóna. Fjárhæðin hefði verið byggð á gögnum sem komið hefðu frá stefnda sjálfum. Þetta hefði komið fram í viðtölum hans við samstarfsmenn hans, stjórnarmenn stefnanda. Vitnið kvaðst sjálft ekki hafa átt þátt í að taka saman upplýsingar handa RLR. 

Vitnið sagði að upphaflega hefði C-vaktar sjóðurinn, eins og aðrir slíkir, verið söfnunarsjóður, lögreglumenn hefðu lagt í hann ,,smáaura”, en hann hafði breyst í það það verða ávöxtunarsjóður, og þá hefðu menn farið að leggja í hann hærri fjárhæðir. Sjóðurinn hefði boðið upp á ágæta ávöxtun.

Undir Óskar var borið skjalið með kaupsamningi um fasteignina Reykjavegi 84 og afsali fyrir þá eign og spurt hvernig stefndi hefði efnt skuldbindingar sínar skv. þessu skjali. Vitnið sagði að stefndi hefði ekki greitt ,,þennan yfirdrátt”, þ.e. hann hefði ekki létt af tryggingarbréfinu, sem hefði verið til tryggingar yfirdrætti á reikningi stefnanda í Sparisjóði Reykjavíkur. Yfirdráttinn hefði stefnandi orðið að greiða. Óskar kvaðst hafa sem framkvæmdastjóri stefnanda farið ásamt formanni stefnanda, Hálfdáni Daðasyni, til sparisjóðsstjóra, og þeir hefðu samið við hann um uppgjör á þessari skuld. Stefnandi hefði líka greitt Húsnæðismálastjórn og fasteignagjöld, sem hefðu verið greidd á lögmannsstofu í Mosfellsbæ. Vitnið bar að fært hefði verið af tékkareikningi stefnanda nr. 50960 við SPRON til greiðslu á þessum gjöldum. Af framlögðu yfirliti yfir þennan reikning fyrir tímabilið 2. til 31. desember 1998 má m.a. sjá færslur út af reikningnum að fjárhæð kr. 231.251 og kr. 107.745.  Þessar fjárhæðir segði vitnið hefðu verið notaðar til að greiða Húnæðimálastjórn og fasteignagjöldin.

Vitnið Jónas Hannes Þorgeirsson, lögreglumaður, f. 1956, kvaðst hafa verið einn stofnenda stefnanda á sínum tíma, um 1980, og hefði verið viðloðandi hann síðan. Hann hefði þó ekki gegnt trúnaðarstörfum fyrir stefnanda allan þann tíma. Einhvern tíma hefði hann verið ritari. Hann hefði komið inn í stjórn stefnanda 1996 og hefði verið í henni síðan. 

Vitnið sagði að það hefði frést einu til tveimur árum áður en hann kom inn í stjórn 1996, að ekki væri allt með felldu í sjóðnum. Á þessum tíma og allt frá stofnun stefnanda hefði stefndi séð um rekstur hans að mestu leyti. Stefndi hefði mætt á flestalla fundi stjórnar eftir 1996. Hann hefði upplýst greiðlega um stöðu sjóðsins, þ. á m. um það sem hann hefði talið sig vera ábyrgan fyrir. Jónas var þá spurður á hvaða gögnum hefði verið byggt þegar fundin var skuld stefnda við stefnanda. Hann sagði að á fundi í apríl 1996 hefði ekki legið fyrir hver skuldin væri, en um haustið það ár, þegar borist hefði fyrirspurn frá RLR, hefðu verið tekin saman gögn um stöðuna. Þau hefðu öll komið frá stefnda. Sú greinargerð sem þá hefði verið tekin saman hefði verið send RLR.

Vitnið Jónas var spurður um bókhaldsgögn stefnanda frá því fyrir 1996, hvað orðið hefði af þeim. Það kvaðst hann ekki vita. Stjórnarmenn hefðu talið víst að þau væru heima hjá stefnda, hann hefði rekið sjóðinn frá sínu heimili. Hann kannaðist ekki við að stefndi hefði afhent stjórn stefnanda nein gögn. Samskipti stjórnar við stefnda hefðu verið ,,á mjög góðum nótum” meðan hann var í lögreglunni í Reykjavík, en þegar hann hefði hætt og flust út á Snæfellsnes, hefði þetta breyst. Í nóvember 1998 hefði hann, vitnið , farið ásamt öðrum út á Snæfellsnes til að fá stefnda til að skrifa undir afsal fyrir húsi sínu við Reykjaveg.  Þeir hefðu verið hjá stefnda í nokkrar klukkustundir. Þeir hefðu gengið eftir tilteknum gögnum, en stefndi hefði sagt að hann gæti ekki látið þau af hendi að sinni, það væri djúpt á þeim. Það hefði verið sinn skilningur að þessi gögn væru þarna einhvers staðar hjá stefnda.

Undir vitnið Jónas var borin þessi klausa úr greinargerð stefnda: ,, . . . stefndi tók að sér að framkvæma það, sem stjórn stefnda hafði ákveðið skv. 5. gr. laga stefnanda. Stefndi hafði ekki með höndum neina ákvarðanatöku um það hverjum var lánað, né hvað mikið.” Hann kvaðst alls ekki geta tekið undir þetta. Hann kvaðst ekki kannast við að fyrir hefðu legið stjórnarsamþykktir um lánveitingar til stefnda eða til Hafsteins Sigurðssonar.

Jónas sagði að margsinnis hefði komið fram á fundum að stefndi hefði sagt að hann mundi standa við skuld sína við stefnanda að öllu leyti og líka það sem hefði verið eyrnamerkt Hafsteini Sigurðssyni. Stefndi hefði alltaf sagt, að þetta væri alfarið hans, og hann mundi sjá um þetta.

Vitnið staðfesti nafnritun sína undir bréf stefnanda til RLR, dags. 17. október 1996. Hann kvaðst ekki hafa unnið skjalið. Upplýsingar bréfsins hefðu verið komnar frá stefnda.

Vitnið Jónas var spurður út í tryggingarbréf það, útgefið af stefnda til stefnanda 18. október 1996, sem fyrr er getið, sbr. vætti Kristjáns Kristjánssonar. Jónas kannaðist við þetta bréf. Hann var þá spurður hvort stefndi hefði gefið út einhverjar frekari tryggingar á þessum tíma. Hann sagði að stefndi hefði líka gefið út tryggingarbréf með veði í efnalaug sinni, sig minnti að það hefði verið að fjárhæð kr. 5.000.000. Það bréf hefði verið ,,tekið til baka” um það bil sem stefndi fluttist úr Reykjavík í júníbyrjun 1998. Þá hefði því verið létt af efnalauginni, en í staðinn ,,voru þessi þrjú milljón króna bréf tekin inn, sem áttu að fara á Reykjaveginn  [. . . ] Svo átti hann að greiða mismun á milli, sem varð nú reyndar aldrei nema mun lægra en til stóð, eitthvað í kringum 1.100 þúsund. “ Hann hefði ætlað að greiða kr. 2.000.000.

Vitnið Jónas var spurður hvað orðið hefði af veðskuldabréfunum þremur, hverju að fjárhæð kr. 1.000.000, sem hann minntist á.  Vitnið sagði að stefnandi hefði víst fengi þessi bréf afhent, ,,Hafsteinsbréfin”, eins og hann kallaði þau. Þau hefðu verið geymd í bankahólfi. Þau hlytu að hafa verið í ,,okkar vörslu þangað til við náðum að selja húsið”. Hann gat ekki svarað því hvað varð um þau. Stefnandi hefði ekki tekið við þeim sem greiðslu, heldur eingöngu sem veði í fasteigninni. Það hefði aldrei staðið til að innheimta þau. Þau hefðu eflaust ,,dottið niður”, þegar stefnandi seldi húsið.

Vitninu var bent á að skv. kaupsamningi og afsali fyrir Reykjaveg 84, útg.19. nóvember 1998, væru milljón króna bréfin þrjú ekki lengur áhvílandi á eigninni. Vitnið var spurt með hvaða hætti það hefði gerst. Vitnið kvaðst ekki geta upplýst það.

Vitnið Atli Már Sigurðsson lögreglumaður, f. 1957, kvaðst hafa verið í stjórn stefnanda í kringum 1988. Síðan hefði hann ekki starfað fyrir stefnanda fyrr en 1996, en frá þeim tíma hefði hann verið endurskoðandi stefnanda.

Atli Már sagði að 1996 hefði það komið í ljós að stefndi hefði lánað sjálfum sér um helming þess sem var í sjóðnum. Ef hann myndi rétt þá hefði það numið um 12 milljónum króna af 24-25 milljónum sem þá hefðu verið í sjóðnum. Þessi lán hefðu verið skráð á stefnda og vegna Hafsteins Sigurðssonar, en stefndi hefði tekið fram ítrekað að hann bæri fulla ábyrgð á hvorum tveggja lánunum. Stefndi hefði margoft lýst því yfir á fundum með stjórn stefnanda og við önnur tækifæri á árunum 1996 og 1997, að stefnandi þyrfti ekki að hafa nokkrar áhyggjur af þessu, hann mundi greiða þessa upphæð, og hann ætti það miklar eignir að ekkert væri að óttast, hann væri borgunarmaður fyrir þessu.

Atli Már var spurður á hvaða gögnum hefði verið byggt þegar fundin var út skuld stefnda við stefnanda. Hann sagði að stefndi hefði sjálfur lagt þau fram sem framkvæmdastjóri sjóðsins, ,,og þetta eru hans útreikningar, og líka var hann með kvittanir sem hann útbjó sjálfur.”

Vitnið Atli Már kannaðist við svarbréf stefnanda til RLR frá 17. október 1996 og nafnritun sína undir það. Fjárhæðir í því bréfi væru byggðar á gögnum sem stefndi hefði lagt fram. Síðar sagði vitnið, nánar spurður um þetta bréf, að hann myndi ekki betur en að stefndi hefði sjálfur sent þetta bréf út af því að óskað hefði verið eftir upplýsingum um stöðu hans í sjóðnum. Vitnið sagðist ekki hafa verið kosinn gjaldkeri á þessum tíma, þótt hann væri skráður það í bréfinu. Hann hefði verið skoðunarmaður stefnanda síðan fyrir ársreikninga 1996.

Atli Már var spurður hvar gögn sjóðsins frá því fyrir 1996 væru niður komin. Hann kvaðst ekki vita það, stefndi virtist ekki hafa skilað þeim. Hann minntist þess að hafa heimsótt stefnda á Borg í Eyja- og Miklaholtshreppi ásamt Jónasi H. Þorgeirssyni. Sú ferð hefði verið farin til að láta stefnda skrifa undir gögn varðandi sölu á fasteign hans og eins til að fá afhent gögn úr sjóðnum. Þeir Jónas hefðu engin svör fengið við því hvenær þeir fengju gögnin. Þeir hefðu skilið það svo að þeir gætu ekki fengið gögnin á þeirri stundu. Fram að þessum tíma hefðu ráðamenn stefnanda átt mjög góð samskipti við stefnda, og allt hefði staðist sem hann sagði, en á þessum tíma hefði eitthvað verið að gerast sem þeir hefðu verið smeykir við.

Vitnið Atli Már var þessu næst spurður um hvaða vextir hefðu verið greiddir af útlánum úr sjóðnum. Hann sagðist ekki muna betur en á árunum kringum 1988 hefði verið miðað við útlánavexti banka, víxilvexti. Þess vegna hefði verið talið að ávöxtun sjóðsins væri mjög góð. Varðandi skuld stefnda við stefnanda kvaðst vitnið ekki muna til að rætt hefði verið um aðra vexti en útlánsvexti banka.

Atli Már kvaðst aðspurður ekki minnast þess að hafa séð neinar stjórnarsamþykktir fyrir útlánum til stefnda.

Varðandi kaupsamning og afsal fyrir Reykjavegi 84 kvaðst vitnið Atli Már ekki muna betur að ekkert hefði fengist frá stefnda nema bara húsið, stefndi hefði ekki gengið frá þeim hlutum sem hann átti að gera skv. samningnum, sjóðurinn hefði þurft að greiða það sem stefndi átti að greiða.

Forsendur og niðurstöður

Með bréfi til stefnanda, dags. 3. október 1996, óskaði Rannsóknarlögregla ríkisins eftir upplýsingum um lán stefnanda til stefnda og sameignarfélagsins Snöggs. Svarbréf stefnanda er dags. 17. sama mánaðar. Sannað er með vætti vitna að þær upplýsingar sem þar eru gefnar voru frá stefnda komnar. Þar segir að skuld stefnda við stefnanda hafi í árslok 1995 numið kr. 13.426.283 með áföllnum ógreiddum vöxtum. Fyrir hönd stjórnar stefnanda rita undir bréf þetta Kristján Kristjánsson formaður, Jónas H. Þorgeirsson ritari, Atli Már Sigurðsson, sem titlaður er gjaldkeri, og Hálfdán Daðason meðstjórnandi. Allir hafa þeir borið vitni í þessu máli, nema Hálfdán.

Stefndi lét fasteign sína og eiginkonu sinnar Reykjavegi 84 Mosfellsbæ upp í skuldina við stefnanda. Kaupsamningur og afsal eru dagsett 19. nóvember 1998. Kaupverð var kr. 13.250.000, þar af greiddi stefnandi með yfirtöku veðskulda að fjárhæð kr. 313.542. Eftirstöðvar, kr. 12.936.458, voru greiddar með skuldajöfnun. Stefndi átti skv. ákvæðum kaupsamnings að aflétta af eigninni tryggingarbréfi, útg. 7. febrúar 1994 til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, að fjárhæð kr. 1.300.000. Þá segir í kaupsamningi: ,,Komi til þess að kaupandi þurfi að taka á sig með einum eða öðrum hætti áfallin gjöld, áhvílandi tryggingarbréf, skatta eða kvaðir sem tilheyra seljendum og á eigninni hvíla, lækkar innborgun á kröfur kaupanda þ.e. fjárhæð skv. lið 2 hér að ofan um samsvarandi fjárhæð.” Fjárhæðin í 2. lið, sem til er vísað, eru eftirstöðvarnar, kr. 12.936.458.

Í tengslum við kaupsamninginn og afsalið undirrituðu aðilar máls yfirlýsingu, sem dagsett er 14. nóvember 1996. Hún er á þessa leið:

,,Í dag hefur SÁ greitt HLC kr. 12.936.458,- sem innborgun inn á skuld við HLC, með afsali á fasteign sinni og eiginkonu hans við Reykjaveg í Mosfellsbæ til HLC.  Í samræmi við ákvæði í kaupsamningi/afsali lækkar sú fjárhæð ef til þess kemur að HLC þurfi að bera einhver gjöld af eigninni um fram það sem þar er kveðið á um.

Samkomulag er um það milli aðila að ganga sem allra fyrst endanlega frá uppgjöri á meintri skuld SÁ við HLC sem myndaðist þegar SÁ veitt HLC forstöðu.

HLC telur skuldina hafa numið samtals í árslok 1995 kr. 13.426.283,- þ.m.t. áfallnir samningsvextir  þann dag. HLC telur jafnframt ótvírætt að SÁ sé persónulega ábyrgur að lögum til greiðslu allrar fjárhæðinnar ásamt vöxtum.

SÁ telur sér óskylt að greiða nema hluta kröfunnar enda hafi meginhluti fjárins runnið til annars aðila en hans sjálfs. SÁ lýsir því hins vegar yfir og skuldbindur sig til þrátt fyrir það að ábyrgjast persónulega greiðslu kröfunnar að fullu til HLC.”

Samkvæmt þessari yfirlýsingu er skuld stefnda í árslok 1995 kr. 13.426.283, og er þetta sama fjárhæðin og tilgreind er í bréfi stefnanda til RLR 17. október 1996. Fyrir þeirri fjárhæð var stefndi ábyrgur.

Af málskjölum og vætti vitna er sýnt að stefndi aflétti ekki af fasteigninni Reykjavegi 84 þeim veðskuldum sem honum bar. Stefnandi þurfti að greiða kr. 1.077.634 til að aflétta tryggingarbréfi, kr. 107.745 vegna lána Húsnæðismálastjórnar (s.k. veðdeildarlána) og kr. 231.251 vegna áfallinna fasteignagjalda. Sjá um þetta m.a. C- og D-liði í sundurliðun dómkrafna stefnanda og vætti vitnanna Kristjáns Kristjánssonar og Óskars Bjartmarz. Með afsali fasteignarinnar til stefnanda greiddi því stefndi ekki kr. 12.936.458 upp í skuld sína, heldur kr. 11.519.828.

Samkvæmt framanrituðu verður lagt til grundvallar við úrlausn þessa máls, að skuld stefnda við stefnanda hafi verið kr. 13.426.283 í árslok 1995. Á þá fjárhæð ber að reikna samningsvexti. Vætti vitna eru nokkuð á reiki hverjir þeir skyldu vera. Fram hafa verið lagðar í málinu 24 kvittanir, tólf þeirra eru stílaðar á stefnda og aðrar 12 á Hafstein Sigurðsson, tvær og tvær dagsettar 2. dag hvers mánaðar árið 1997, frá 2. janúar 1997 til 2. desember.  Skjal þetta er útfyllt af stefnda. Samkvæmt því hafa samningsvextir lántaka stefnanda verið 9,6% á ári. Er þetta sama vaxtahlutfall og stefnandi krefst fram að upphafsdegi dráttarvaxta. Verður við það miðað hér. Vöxtum verður bætt við höfuðstól um áramót, enda verður að telja það viðtekna venju. Greiðslur stefnda inn á skuldina voru þessar, allar á árinu 1998, sbr. A- og B-liði í sundurliðun dómkrafna stefnanda: 01.02. kr. 50.000, 02.04. kr. 68.500 (50.000+18.500), 02.05. kr. 80.000, 16.06.  kr. 1.133.000,  14.11. kr.11.519.828 og 31.12. kr. 144.874 (inneign stefnda hjá stefnanda).

Í samræmi við það sem nú hefur verið ritað var skuldaði stefndi stefnanda 31. desember 1998, þegar stefndi hafði greitt síðustu innborgun sína, með áföllnum vöxtum kr. 4.329.988. Nánar til tekið er vaxtareikningurinn þannig:

Dagsetning

Höfuðstóll

Innborgað

Vextir

31.12.1995

13.426.283

 

 

31.12.1996

14.715.206

 

1.288.923

31.12.1997

16.004.129

 

1.412.660

01.02.1998

15.954.129

50.000

128.033

02.04.1998

15.885.629

68.500

259.521

02.05.1998

15.805.629

80.000

127.085

16.06.1998

14.672.629

1.133.000

189.668

14.11.1998

3.152.801

11.519.828

579.080

31.12.1998

3.007.927

144.874

38.674

31.12.1998

4.329.988

 

 

Stefnandi krefst dráttarvaxta frá 1. júní 1999 og fellst dómari á þá kröfu. Samningsvextir frá 1. janúar 1999 til þess tíma eru kr. 173.200 og höfuðstóllinn þá orðinn 1. júní 1999 kr. 4.503.188. Verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda þá fjárhæð með þeim vöxtum sem stefnandi krefst.

Um málskostnað

Svo sem rakið er í upphafi þessa dóms var málið látið bíða lengi eftir rannsókn sakamáls á hendur ákærða vegna starfa hans fyrir stefnanda og eftir úrslitum sakamáls sem höfðað var gegn honum. Málið var í upphafi vanreifað af hálfu stefnanda. Úr því var ekki bætt fyrr en málið var búið undir aðalmeðferð í febrúar og mars 2002, en þá lagði lögmaður stefnanda fram fjölda dómskjala, þ. á m. sundurliðun stefnukröfu, sem lögð var fram 11. mars 2002. Þessi dráttur sem varð á fullnægjandi málabúnaði stefnanda kann að hafa gert stefnda erfiðara fyrir en ella um varnir í málinu. Með þetta í huga og með vísan til síðari málsliðar 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir dómara rétt að gera stefnda að greiða stefnanda 100.000 krónur í málskostnað.

Lárentsínus Kristjánsson hdl. sótti málið fyrir stefnanda, en Magnús Guðlaugsson hrl. hélt uppi vörn fyrir stefnda.

Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Sigurbjörn Ásgeirsson, greiði stefnanda, Hjálpar- og lánasjóði C-vaktar, kr. 4.503.188 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum af þeirri fjárhæð frá 1. júní 1999 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2201 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda kr. 100.000 í málskostnað.