Hæstiréttur íslands
Mál nr. 159/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Mánudaginn 15. mars 2010. |
|
Nr. 159/2010. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Óli Ásgeir Hermannsson fulltrúi) gegn X (Ásbjörn Jónsson hdl.) |
Kærumál. Farbann.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X yrði bönnuð för frá Íslandi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 1. mgr. 100 gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. mars 2010, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi allt til þriðjudagsins 6. apríl 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. mars 2010.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur með kröfu dagsettri 8. mars sl. krafist þess fyrir dóminum að X, kt. [...], pólskum ríkisborgara, með dvalarstað að [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta farbanni allt til þriðjudagsins 6. apríl kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan á Suðurnesjum hafi til rannsóknar kæru barnaverndaryfirvalda í [...] vegna höfuðáverka á barni sem heiti A, kennitala [...]. Kærða sé móðir barnsins og sakborningur við rannsókn málsins en sá, sem grunaður sé um að hafa valdið höfuðáverkum barnsins, sé sambýlismaður kærðu.
Barnaverndarnefnd [...] hafi þann 25. ágúst 2009 borist tilkynning frá Pétri Lúðvígssyni, sérfræðingi á Landsspítala-háskólasjúkrahúsi, þar sem fram komi að barnið hafi verið lagt inn á spítalann nokkrum dögum áður vegna hratt vaxandi höfuðmáls. Jafnframt að við rannsóknir á barninu hafi vaknað sterkur grunur um að barnið hafi orðið fyrir áverka, líklega hristingsáverka (Shaken Infant Syndrome). Fram komi í kærunni að áverkar á barninu séu alvarlegir og kunni að hafa í för með sér varanlegar heilsufarslegar afleiðingar.
Lögreglustjórinn kveður rannsókn málsins komna nokkuð á veg og hafi verið teknar skýrslur af móður og fósturföður barnsins sem liggi undir grun um að hafa valdið barninu skaðanum auk þess sem teknar hafi verið skýrslur af nágrönnum og vinum þeirra og hjúkrunarfræðingi sem hafi séð barnið í ungbarnaeftirliti. Ríkissaksóknari hafi lagt fyrir lögreglustjórann á Suðurnesjum að halda rannsókn málsins áfram og óski eftir dómkvaðningu matsmanna til rannsóknar á því af hverju hinir ætluðu áverkar kunni að stafa og hvaða skaða þeir hafi valdið.
Kærða hafi fengið barnið A aftur í sínar hendur. Þar sem mikilvægar rannsóknir vegna málsins séu í undirbúningi, sé nauðsynlegt að kærða og barnið séu á landinu svo hægt sé að rannsaka afleiðingar ætlaðs brots og af hverju hinir ætluðu áverkar kunni að stafa. Kærða sé erlend kona og þyki mega ætla að hún muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málssókn og refsingu verði henni ekki gert að sæta farbanni. Kærða sé grunuð um brot sem varðað geti fangelsisrefsingu. Lögregla telji, í ljósi alls sem að ofan er rakið og framlagðra gagna, brýna hagsmuni að kærðu verði, með vísan til ofanritaðs, gert að sæta farbanni allt til mánudagsins 5. apríl kl. 16.00.
Lögreglustjóri vísar kröfu sinni til stuðnings til b-liðar 1. mgr. 95. gr. og 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 98. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Kærða hefur mótmælt farbannskröfu lögreglustjóra.
Kærða sætir rannsókn á ætluðu broti sem að lögum getur varðað fangelsisrefsingu. Ætlað brot lýtur að áverkum á ungu barni kærðu. Í gögnum málsins kemur fram að samkvæmt frásögn kærðu hefur barnið ávallt verið í umsjá hennar og sambýlismanns hennar. Kærða er erlend og þykir mega ætla að hún muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málssókn og refsingu verði henni ekki bönnuð för af landinu. Þá dvelur barnið A hjá henni en til stendur að fram fari rannsókn á áverkum hans. Með vísan til framanskráðs og raka lögreglustjóra þykja því skilyrði vera fyrir hendi til að verða við kröfu lögreglustjóra og samkvæmt því er kærðu bönnuð för frá Íslandi allt til þriðjudagsins 6. apríl 2010 kl. 16.00.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður úrskurðinn upp.
ÚRSKURÐARORÐ
Kærðu, X, er bönnuð för frá Íslandi allt til þriðjudagsins 6. apríl 2010 kl. 16.00.