Hæstiréttur íslands

Mál nr. 273/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Matsgerð


                                              

Þriðjudaginn 8. maí 2012.

Nr. 273/2012.

 

Eignarhaldsfélagið Eskja ehf.

Eskja hf.

Fjárfestingarfélagið Bleiksá ehf.

Hólmaborg ehf.

Björk Aðalsteinsdóttir og

Þorsteinn Kristjánsson

(Einar Þór Sverrisson hrl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Ólafur Örn Svansson hrl.)

 

Kærumál. Matsgerð.

Fallist var á kröfu L hf. um að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að leggja annars vegar mat á virði hlutafjár í E hf. miðað við tiltekinn dag og hins vegar hvort nauðsyn hafi borið til að hækka hlutafé í félaginu um tiltekna fjárhæð sama dag.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 13. apríl 2012 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 11. apríl 2012, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að dómkvaðning matsmanna skyldi fara fram. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að áðurgreindri kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá er krafist kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Eignarhaldsfélagið Eskja ehf., Eskja hf., Fjárfestingarfélagið Bleiksá ehf., Hólmaborg ehf., Björk Aðalsteinsdóttir og Þorsteinn Kristjánsson, greiði óskipt varnaraðila, Landsbankanum hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 11. apríl 2012.

Mál þetta, sem höfðað var 5. nóvember 2009, var tekið til úrskurðar 1. mars sl. um þá kröfu stefnanda að dómkvaddir verði tveir hæfir og óvilhallir matsmenn í samræmi við beiðni hans sem lögð var fram á dómþingi 7. febrúar sl.
Stefnandi er Landsbankinn hf. (áður NBI hf.), Austurstræti 11, Reykjavík.

Stefndu eru Eignarhaldsfélagið Eskja ehf., Fögruhlíð 3, Eskifirði, Eskja hf., Fjárfestingarfélagið Bleiksá ehf. og Hólmaborg ehf., öll að Strandgötu 39, Eskifirði, Björk Aðalsteinsdóttir og Þorsteinn Kristjánsson, bæði til heimilis að Fögruhlíð 3, Eskifirði.

Stefnandi gerir í fyrsta lagi þær dómkröfur gagnvart stefnda, Eignarhaldsfélaginu Eskju ehf., að lögbann sem sýslumaðurinn á Eskifirði lagði þann 28. október 2008 við því að stefndi hagnýti sér þann rétt, sem fylgi hlutafjáreign hans í stefnda Eskju hf., sem honum var afhent til ráðstöfunar með samþykkt stjórnar stefnda Eskju hf. frá 7. október 2009, samkvæmt tilkynningu um hækkun hlutafjár til Fyrirtækjaskrár RSK frá 9. október 2009, samtals að fjárhæð 500.000.000 krónur, og lögbann við því að stefndi, Eignarhaldsfélagið Eskja ehf., ráðstafi umræddri hlutafjáreign sinni til þriðja aðila, þ.m.t. með veðsetningu, verði staðfest.

Í öðru lagi krefst stefnandi þess gagnvart öllum stefndu að viðurkennt verði með dómi að ákvörðun hluthafafundar stefnda, Eskju hf., frá 7. október 2009, um hlutafjárhækkun að fjárhæð 500.000.000 krónur á genginu 1,0 og skráning stefnda, Eignarhaldsfélagsins Eskju ehf., á þeim hlutum, sé ólögmæt og ógild.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Af hálfu stefnda, Eignarhaldsfélagsins Eskju ehf., er þess krafist að hafnað verði kröfu stefnanda um staðfestingu á lögbannsgerð sýslumannsins á Eskifirði frá 28. október 2008 í málinu nr. 028-2009-461 og þess krafist að lögbannið verði fellt úr gildi. Af hálfu allra stefndu er krafist sýknu af viðurkenningarkröfu stefnanda. Þá krefjast stefndu málskostnaðar.

Í þessum þætti málsins, sem er einvörðungu hér til úrskurðar, krefst stefnandi þess að dómkvaddir verði tveir hæfir og óvilhallir matsmenn, sérfróðir í að meta verðmæti sjávarútvegsfyrirtækja, til að framkvæma mat í samræmi við beiðni stefnanda, sem lögð var fram á dómþingi 7. febrúar sl. Þá er krafist málskostnaðar.

Af hálfu stefndu er þess krafist að beiðni stefnanda um dómkvaðningu matsmanna verði synjað. Þá er krafist málskostnaðar.

I

Atvik máls eru í megindráttum þau að með tveimur handveðsyfirlýsingum, útgefnum 13. maí 2007, settu stefndu Hólmaborg ehf. og Þorsteinn Kristjánsson stefnanda að veði hlutabréf í Eskju hf., samtals að fjárhæð tæplega 113 milljónir króna, til tryggingar skaðlausri greiðslu á skuldum Hólmaborgar ehf. við bankann. Í handveðsyfirlýsingum þessum er að finna ákvæði þess efnis að veðsali skuldbindi sig til að haga meðferð á atkvæðisrétti samkvæmt hinum veðsettu hlutabréfum þannig að hann standi ekki að eða styðji ákvarðanir sem leiði til þess að verðmæti hinna veðsettu hlutabréfa rýrni.

Á hluthafafundi stefnda Eskju hf., 7. október 2009, samþykktu hluthafar að auka hlutafé í félaginu um 500 milljónir króna að nafnverði á genginu 1,0. Við ákvörðun um hlutafjáraukninguna og viðmiðunargengið mun hafa verið stuðst við mat Deloitte FAS ehf. á virði félagsins, sem forsvarsmenn Eskju hf. höfðu þá aflað.

Á stjórnarfundi Eskju hf., sem haldinn var sama dag í beinu framhaldi af hlutahafafundi félagsins, skráði stefndi Þorsteinn sig, fyrir hönd óstofnaðs einkahlutafélags, fyrir öllum hlutunum.

Með framangreindum ráðstöfunum taldi stefnandi rétti sínum samkvæmt fyrrgreindum handveðsyfirlýsingum hallað. Fór hann fram á og fékk hinn 28. október 2009 lagt á lögbann við því að stefndi, Eignarhaldsfélagið Eskja ehf., hagnýtti sér þann rétt sem fylgdi hlutafjáreign félagsins í Eskju hf. og við því að stefndi ráðstafaði umræddri hlutafjáreign sinni til þriðja aðila. Samhliða leysti stefnandi til sín hina veðsettu hluti. Er í máli þessu krafist staðfestingar lögbannsins, sem og viðurkenningar á ólögmæti og ógildi framangreindra ráðstafana.

Mál þetta var þingfest 17. nóvember 2009. Í þinghaldi 15. desember s.á. lögðu stefndu fram greinargerð og jafnframt beiðni um dómkvaðningu eins hæfs og óvilhalls matsmanns. Var tilgangi matsins lýst svo að matsbeiðendur hygðust sanna að eðlilegt hafi verið að miða við gengið 1 við hlutafjáraukningu Eskju hf. hinn 7. október 2009 og að forsendur verðmatsins hafi verið réttar. Í fyrstu af þeim fimm spurningum sem lagðar voru fyrir matsmanninn var farið fram á að matsmaðurinn yfirfæri forsendur fyrirliggjandi útreiknings Deloitte FAS ehf. á verðmæti hlutafjár Eskju hf. sem byggði á sjóðsstreymisaðferð (DCF) og gæfi álit sitt á því hvort verðmatið gæfi raunsanna mynd af verðmæti hlutafjár Eskju hf., m.a. með tilliti til forsendna þess.

Í þinghaldi, 12. janúar 2010, lagði stefnandi fram bókun þar sem gerðar voru athugasemdir við þær matsspurningar sem lagðar væru fyrir hinn dómkvadda matsmann. Var þar m.a. höfð uppi athugasemd við það að í matsbeiðni væri gert ráð fyrir að hinn dómkvaddi matsmaður yfirfæri forsendur fyrirliggjandi útreiknings en framkvæmdi ekki sjálfstæðan útreikning um verðmæti Eskju hf.

Í þinghaldi 14. s.m. var matsmaður dómkvaddur til að framkvæma hið umbeðna mat. Var málinu frestað til 6. apríl s.á. en utan réttar var málinu síðan frestað ótiltekið til framlagningar matsgerðar er hún lægi fyrir.

Að frumkvæði dómara var boðað til þinghalds 7. júní 2011 og var þá upplýst að matsgerð væri ekki tilbúin. Var þá bókað í þingbók um að lagt væri fyrir matsmann að hraða matsvinnu og ljúka henni í síðasta lagi þannig að leggja mætti matsgerð fram í þinghaldi 6. september s.á. Var því beint til lögmanns stefndu að kynna matsmanni bókunina. Matsgerðin lá ekki fyrir er málið var tekið fyrir 6. september 2011 og var málinu eftir það frestað nokkrum sinnum, fyrst til framlagningar matsgerðar en síðan til sáttaumleitana. Þegar ljóst varð að sættir myndu ekki takast var matsgerð matsmannsins, dags. 16. desember 2011, lögð fram á dómþingi 20. s.m.

Í þinghaldi 7. febrúar 2012 lagði stefnandi fram matsbeiðni þá sem hér er til umfjöllunar. Þar er þess óskað, með vísan til IX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að dómkvaddir verði tveir hæfir og óvilhallir matsmenn sérfróðir í að meta verðmæti sjávarútvegsfyrirtækja, til að framkvæma mat samkvæmt tveimur matsspurningum. Með fyrri spurningunni er óskað svars við því hvert hafi verið virði hlutafjár í Eskju hf. (100%) miðað við 7. október 2009 og er lagt fyrir matsmenn að beita a.m.k. tveimur aðferðum við matið, þ.e. sjóðsstreymisgreiningu og mati á eignavirði/upplausnarvirði. Með síðari spurningunni er óskað svars við því hvort nauðsynlegt hafi verið að hækka hlutafé í Eskju hf. um 500 milljónir króna þann 7. október 2009, m.a. að teknu tilliti til nánar tilgreindra atriða samkvæmt fjórum stafliðum.

Í beiðninni kemur fram að tilgangur hins umbeðna mats sé að færa sönnur fyrir þeim staðhæfingum stefnanda meðal annars að hlutafjárhækkunin hafi tekið mið af röngu virði hlutafjár og að hún hafi verið til málamynda og til að viðhalda eignarhaldi stefnda Þorsteins Kristjánssonar og fjölskyldu. Jafnframt sé tilgangur matsins að sýna fram á þá fullyrðingu stefnanda að hlutafjárhækkunin hafi verið óþörf. Um ástæður matsbeiðninnar segir nánar svo í beiðninni að sú matsgerð dómkvadds matsmanns sem fyrir liggi sé að mestu þýðingarlaus í ljósi matsspurninga, enda liggi ekki fyrir niðurstaða um virði hlutafjár í Eskju hf., heldur einvörðungu hugleiðingar matsmanns um einstakar forsendur í fyrirliggjandi mati Deloitte FAS ehf. Matsmaðurinn hafi verið ósammála forsendum fyrirliggjandi mats í veigamiklum atriðum, en engin niðurstaða liggi fyrir um þýðingu þess í fjárhæðum. Þá er í beiðninni vísað til mats KPMG á virði eiginfjár félagsins m.v. 30. júní 2009, sem lagt var fram samhliða beiðninni í þinghaldi 7. febrúar sl., en stefnandi kveður ljóst af því mati að virði Eskju hf. við hlutafjárhækkunina hafi verið verulega vanmetið af Deloitte FAS ehf.

II

Stefnandi byggir mótmæli sín við kröfu sóknaraðila um höfnun framkominnar beiðni um dómkvaðningu matsmanna í fyrsta lagi á því að mótmæli sóknaraðila séu of seint fram komin, sbr. 5. gr. 101. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þar sem þau mótmæli hafi ekki komið fram í sama þinghaldi og beiðni um dómkvaðningu matsmanna hafi verið lögð fram, þann 7. febrúar sl. Ekki verður á það fallist að mótmæli stefndu séu of seint fram komin, enda komu þau fram strax í næsta þinghaldi, 21. s.m.

Stefndu byggja kröfu sína um að hafnað verði beiðni stefnanda um dómkvaðningu tveggja matsmanna á því í fyrsta lagi að um tilgangslausa sönnunarfærslu sé að ræða sem dómara beri að hafna með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Nákvæmt virði Eskju hf. í október 2009 skipti engu máli við úrlausn málsins. Úrlausnarefni málsins séu alfarið lögfræðilegs eðlis, sbr. 2. mgr. 60. gr. sömu laga, og sérfræðilegt mat á þeim atriðum sem farið sé fram á  sé því óþarft.

Af hálfu stefnanda er meðal annars á því byggt í málinu að ákvörðun hluthafafundar Eskju hf. 7. október 2009 um að auka hlutafé félagsins um 500 milljónir króna hafi verið ólögmæt og sé ógildanleg sökum þess að sölugengi hinna nýju hluta hafi verið undir raunvirði, en með því hafi ákveðnum hluthöfum verið aflað ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað félagsins og á kostnað stefnanda sem veðhafa og síðar hluthafa. Þá er á því byggt að hlutafjárhækkunin hafi verið ónauðsynleg og til málamynda. Af hálfu stefndu er aftur á móti byggt á því að hlutafjáraukningin hafi verið nauðsynleg vegna fjárhagsstöðu félagsins og að gengi sem miðað var við hafi verið eðlilegt í ljósi hennar. 

Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur margoft komið fram að aðili hefur, samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, forræði á því hverra gagna hann aflar til stuðnings kröfum sínum fyrir dómi og að ekki séu sérstakar skorður við því reistar að beðið sé um mat á atriðum sem áður hafi verið metin, en ekki verið endanlega til lykta leidd fyrir dómi, eða að aflað sé nýrrar matsgerðar til viðbótar eldri matsgerð. Má hér m.a. vísa til dóma réttarins í málum nr. 311/2007 og 400/2000.

Þær athugasemdir stefndu við beiðni stefnanda að um tilgangslausa sönnunarfærslu sé að ræða lúta að efnisatriðum málsins. Í ljósi þess sem rakið hefur verið um málatilbúnað aðila og málsástæður sem stefnandi byggir á verður ekki fullyrt á þessu stigi málsins að svör við þeim spurningum sem fram koma í matsbeiðni stefnanda séu óþörf eða tilgangslaus til sönnunar í málinu, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Verður því heldur ekki fallist á það með stefndu að sérfræðilegt mat á þeim atriðum sem matsbeiðni lýtur að sé óþarft. Verður stefnanda ekki meinað um umbeðna sönnunarfærslu á þessum grundvelli.

Í öðru lagi byggja stefndu á því að stefnandi hafi sýnt af sér slíkt tómlæti með því að leggja ekki umrædda matsbeiðni fyrr fram, að meina beri honum um sönnunarfærsluna. Vísa stefndu sérstaklega til dóms Hæstaréttar frá 21. október 2011 í máli nr. 558/2011 því til stuðnings, en með þeim dómi var hafnað beiðni málsaðila um dómkvaðningu matsmanns með vísan til þess að þeir hafi látið undir höfuð leggjast að nýta þann langa tíma sem gefist hafði undir rekstri málsins til að afla þess mats sem um var beðið, enda þótt þeir hafi þá þegar haft tilefni til þess.

Í tilvitnuðum dómi Hæstaréttar háttaði svo til að á því 9 mánaða skeiði sem leið frá því að frávísunarkröfu var hrundið óskuðu málsaðilar ítrekað sameiginlega eftir fresti til sáttaumleitana, en þegar útséð þótti um sættir var matsbeiðni þessi lögð fram. Í því máli sem hér er til umfjöllunar liggur fyrir að beðið hefur verið matsgerðar dómkvadds matsmanns samkvæmt matsbeiðni stefndu sem óskað var eftir samhliða framlagningu greinargerðar stefndu. Aðstæður í þessu máli eru því ekki sambærilegar við þær aðstæður sem uppi voru í því máli sem til umfjöllunar var í tilvitnuðum dómi réttarins. Þótt framlagning matsgerðarinnar hafi dregist er það ekki á ábyrgð stefnanda og þótt hann hafi kosið að bíða niðurstöðu matsgerðarinnar þykir það, eins og hér stendur á, ekki eiga að leiða til þess að honum verði meinað um sönnunarfærslu í málinu, sem eins og áður sagði er á forræði hans og ábyrgð.

Að framanrituðu virtu þykja hvorki ákvæði 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 né ákvæði IX. kafla sömu laga standa því í vegi að fallist verði á beiðni stefnanda um dómkvaðningu matsmanna. Verður kröfu stefndu um að synjað verði beiðni stefnanda um dómkvaðningu matsmanna því hafnað og skal dómkvaðning því fara fram samkvæmt beiðni stefnanda.

Ákvörðun um málskostnað verður látin bíða efnisdóms í málinu.

Hildur Briem héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en uppsaga úrskurðar hefur dregist vegna embættisanna dómarans.

Úrskurðarorð:

Umbeðin dómkvaðning matsmanna samkvæmt beiðni stefnanda, Landsbankans hf., sem lögð var fram á dómþingi 7. febrúar sl., skal fara fram.

Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.