Hæstiréttur íslands

Mál nr. 516/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi


Þriðjudaginn 6

 

Miðvikudaginn 7. desember 2005.

Nr. 516/2005.

Sýslumaðurinn á Akureyri

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

X

(Arnar Sigfússon hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi var felldur úr gildi þar sem krafa um gæsluvarðhald var ekki studd fullnægjandi gögnum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og  Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. desember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. desember 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 9. desember 2005 kl. 11. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að úrskurðurinn verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Í héraði krafðist sóknaraðili þess að varnaraðili skyldi sæta gæsluvarðhaldi allt til 13. desember 2005. Hann gerir sömu kröfu fyrir Hæstarétti. Þar sem sóknaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti verður við það miðað að hann krefjist staðfestingar úrskurðarins.

Í kröfugerð sinni fyrir héraðsdómi fullyrðir sóknaraðili að við húsleit á dvalarstað varnaraðila hafi meðal annars fundist um það bil 1 kg af marihuana og töluvert af munum sem lögregla ætli að sé þýfi. Við yfirheyrslur hefur varnaraðili hafnað því að nokkurt þýfi hafi verið að finna á dvalarstað hans. Varnaraðili hefur hins vegar viðurkennt að hann eigi fíkniefni sem fundust þar en mótmælt að um hafi verið að ræða slíkt magn sem sóknaraðili byggir á.

Hvorki verður af haldlagningarskýrslu þeirri sem sóknaraðili hefur lagt fram né af öðrum gögnum málsins ráðið hvert það magn fíkniefna var sem fannst við húsleit á dvalarstað varnaraðila. Þá er heldur engin tilraun gerð af hálfu sóknaraðila til að renna stoðum undir þær fullyrðingar sínar að meðal haldlagðra muna hafi verið þýfi. Sú staðreynd að varnaraðili hafði í vörslum sínum ríflega 50.000 krónur í reiðufé þegar hann var handtekinn nægir ekki ein og sér til að styðja fullyrðingar um að hann stundi sölu fíkniefna en engin gögn hafa verið lögð fram til stuðnings fullyrðingum sóknaraðila um ætlaða veltu á bankareikningi varnaraðila. Sóknaraðili hefur því ekki sýnt fram á að fyrir hendi sé það skilyrði gæsluvarðhalds samkvæmt 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að fyrir liggi rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið brot sem varðað geti fangelsisrefsingu. Verður af þessari ástæðu að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. desember 2005.

Mál þetta barst dóminum 3. desember s.l. með bréfi sýslumannsins á Akureyri, dagsettu s.d. og var þingfest samdægurs, en tekið til úrskurðar í dag.

  Krefst sýslumaðurinn á Akureyri þess, að X, [kt. og heimilisfang], verði úrskurðaður í gæsluvarðhald til þriðjudagsins 13. desember n.k.

 Kveður sýslumaður málsatvik þau, að á síðustu vikum hafi lögreglu borist upplýsingar um að X væri í miklum viðskiptum með fíkniefni hér á Akureyri. 

Í fyrradag hafi lögregla ákveðið að hefja rannsókn á sannleiksgildi þessara upplýsinga og fengið heimild Héraðsdóms Norðurlands eystra til að leita á dvalarstað kærða.  Áður en til þess hafi komið hafi kærði verið handtekinn um kl. 02:50 í fyrrinótt við skemmtistaðinn Sjallann, Geislagötu 14, Akureyri.  Þá hafi hann haft meðferðis 53.500 krónur í peningum.  Grunur lögreglu beinist að því að þetta sé afrakstur hans af sölu fíkniefna þessa nótt.  Í framhaldi af handtöku hans hafi farið fram húsleit á dvalarstað hans.  Sú leit hafi borið þann árangur að þar hafi fundist um 1 kg af marihuana og töluvert magn af munum sem lögreglan ætli að sé þýfi. 

Þá sé lögreglu kunnugt um að velta á bankareikningi X á þessu ári sé um 8 milljónir króna.  Jafnframt sé ljóst að hann sé skráður atvinnulaus hjá Vinnumiðlun Norðurlands.  Rannsókn núna muni beinast að umfangi þessara fíkniefnaviðskipta, hvaðan efni komi og annað slíkt sem kanna þurfi við rannsókn sem þessa.  Rannsóknin sé á frumstigi.  Ætla verði að kærði muni geta torveldað rannsókn ef hann gangi laus meðan á frumrannsókn standi, með því m.a. að hafa áhrif á framburð vitna eða samsekra og skjóta munum undan.

Kveðst sýslumaður byggja kröfu sína á a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991. 

Kærði hefur hér fyrir dóminum að hluta viðurkennt brot á fíkniefnalöggjöfinni en að öðru leyti neitað eða gefið óljós svör um fíkniefni þau og muni er fundust við húsleit á dvalarstað hans.  Þá liggja fyrir lögregluskýrslur sem eru í samræmi við framangreint.  Verður því á það fallist að rökstuddur grunur sé um að kærði hafi framið stórfelld fíkniefnalagabrot og að rannsókn sé eigi það langt á veg komin að hann geti ekki spillt sakargögnum ef hann gengur laus.  Þykja því skilyrði framangreindrar vera fyrir hendi til að verða við kröfu sýslumanns, þó svo að eigi þykir ástæða til að marka gæsluvarðhaldinu lengri tíma en til föstudagsins 9. desember 2005 kl. 11:00. 

Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.

Á l y k t a r o r ð :

Kærði, X [kt.], sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 9. desember 2005 kl. 11:00.