Hæstiréttur íslands

Mál nr. 260/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Víxill


Miðvikudaginn 30

 

Miðvikudaginn 30. ágúst 2000.

Nr. 260/2000.

Sigurbjörg Pétursdóttir

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

Haraldi Sveini Gunnarssyni

(Guðmundur Ágústsson hdl.)

                                              

Kærumál. Fjárnám. Víxill.

S krafðist ógildingar á fjárnámi, sem H gerði hjá henni á grundvelli víxils, þar sem hún taldi að gerð hefði verið breyting á gjalddaga víxileyðublaðsins, úr 1. ágúst í 1. október 1999, eftir að hún gekkst í ábyrgð fyrir skuldinni án samþykkis hennar og því væri breytingin óskuldbindandi fyrir hana, sbr. 69. gr. víxillaga nr. 93/1933. Hefði H  borið að sýna víxilinn til greiðslu 1. – 3. ágúst 1999, sbr. 38. gr. víxillaga, en með því að gera það ekki hafi hann glatað víxilrétti sínum gagnvart S. Talið var að H hefði ekki sannað nægilega að gjalddagi víxilsins hefði verið tilgreindur 1. október 1999 þegar S ritaði nafn sitt á hann. Með vísan til meginreglu síðari málsliðar 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 var fjárnám H ógilt.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júní 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. júlí sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2000, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá sóknaraðila 2. mars 2000 fyrir kröfu varnaraðila að fjárhæð samtals 1.245.311 krónur. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fjárnámið verði fellt úr gildi og varnaraðila gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaðar.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði var áðurnefnt fjárnám varnaraðila gert hjá sóknaraðila á grundvelli víxils að fjárhæð 1.000.000 krónur. Óumdeilt er að gjalddaganum 1. ágúst 1999, sem upphaflega var á víxileyðublaðinu, hafi verið breytt í 1. október 1999. Ágreiningur er hins vegar milli aðilanna um hvort þessi breyting hafi verið gerð áður en sóknaraðili gekkst í ábyrgð fyrir skuldinni með því að rita nafn sitt á bakhlið víxilsins, en í málinu liggur fyrir að hinn 1. ágúst 1999 var hann ekki vistaður í þeim banka, sem tilgreindur var sem greiðslustaður skuldarinnar.

Á víxlinn, sem um ræðir í málinu, eru ritaðir bókstafirnir „Þ.B.“ við gjalddagann, sem hann ber með sér að gerðum fyrrnefndum breytingum. Áritun þessi stafar ekki frá neinum þeim, sem borið getur greiðsluskyldu samkvæmt víxlinum, en í gögnum málsins hefur getum verið leitt að því að hún hafi verið gerð af nafngreindum sölumanni við fasteignasölu, sem hafi annast útfyllingu víxileyðublaða í tengslum við kaup samþykkjanda og útgefanda víxilsins á atvinnufyrirtæki. Þótt fallast megi á með héraðsdómara að atriði varðandi þau kaup geti stutt að með réttu hafi gjalddagi víxilsins átt að verða 1. október 1999, verður ekki litið fram hjá því að varnaraðili hefur kosið að leita fullnustu á kröfu sinni samkvæmt víxlinum með fjárnámi án undangenginnar dómsúrlausnar eða sáttar. Með því hefur varnaraðili girt fyrir að leiða megi í málinu fyrir dóm vitni til að bera um hvert efni víxilsins hafi verið þegar sóknaraðili ritaði nafn sitt á hann, sbr. 1. mgr. 90. gr. og 94. gr. laga nr. 90/1989. Þótt héraðsdómari hafi við aðalmeðferð málsins látið viðgangast að eitt vitni kæmi fyrir dóm til skýrslugjafar um þetta efni fær framburður þess ásamt öðrum gögnum málsins því ekki breytt að varhugavert er að telja varnaraðila hafa nægilega sannað að gjalddagi víxilsins hafi verið tilgreindur 1. október 1999 þegar sóknaraðili ritaði nafn sitt á hann. Með vísan til meginreglu síðari málsliðar 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 verður samkvæmt þessu að taka til greina kröfu sóknaraðila um ógildingu fjárnáms varnaraðila.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Fellt er úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði 2. mars 2000 hjá sóknaraðila, Sigurbjörgu Pétursdóttur, fyrir kröfu varnaraðila, Haraldar Sveins Gunnarssonar, að fjárhæð samtals 1.245.311 krónur.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 200.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2000.

Málsaðilar eru:

Sóknaraðili er Sigurbjörg Pétursdóttir, kt. 260755-7149, Úthlíð 9, Reykjavík.

Varnaraðili er Haraldur Sveinn Gunnarsson, kt. 140459-4379, Melabraut 33, Seltjarnarnesi.

Málið barst Héraðsdómi Reykjavíkur 26. apríl sl. með bréfi lögmanns sóknaraðila, sem dagsett er 26. mars sl.   Það var tekið til úrskurðar 24. maí sl. að afloknum skýrslutökum og munnlegum málflutningi.

Dómkröfur gerðarbeiðanda eru þær, að krafist er á grundvelli 15. kafla aðfararlaga nr. 90/1989 (aðfl.), að felld verði út gildi aðfarargerð nr. 011-2000-01127, þar sem fjárnám var gert í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni Úthlíð 9, Reykjavík, þann 2. mars sl. Þá er þess krafist, að varnaraðila verði gert að greiða sóknaraðila málskostnað að mati dómsins, auk virðisaukaskatts, þar sem sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattskyld.

Dómkröfur varnaraðila eru þær, að staðfest verði aðfarargerð Sýslumannsins í Reykjavík, í málinu nr. 011-2000-01127, sem fram fór hinn 2. mars 2000 í eignarhluta sóknaraðila í húsinu Úthlíð 9, Reykjavík. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að mati dómsins úr hendi sóknaraðila, að viðbættum virðisaukaskatti, þar sem varnaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur. 

 

Málavextir, málsástæður og lagarök:

Forsaga þessa máls er sú, að Eggert Arason, kt. 110266-4809, seldi Áslaugu Sigurbjargardóttir, kt. 080973-4629, Torfufelli 27, Reykjavík, dóttur sóknaraðila málsins,  og Áka Péturssyni, kt. 280873-4899, sama stað, sólbaðsstofuna Punktinn, Hraunbergi 4 í Reykjavík, ásamt tilgreindum tækjabúnaði með kaupsamningi dags. 20. mars 1998 (sic). Afhending sólbaðsstofunnar til kaupenda skyldi eiga sér stað 1. apríl 1999 en afsal útgefið 20. mars s.á.

Umsamið verð nam 4.7 milljónum króna og skyldi greitt þannig:

Yfirtekin skuld við Glitni skv. yfirliti

kr.   474.716

Við undirritun kaupsamnings

kr. 1.000.000

Með víxli pr. 1. júní 1999

kr. 500.000

Með víxli pr. 1. ágúst 1999

kr. 600.000

Með víxli pr. 1. október 1999

kr. 1.000.000

Með víxli pr. 5. desember 1999

kr. 1.125.284

 

Mál það sem hér er til úrlausnar varðar víxil með gjalddaga 1. október 1999 að fjárhæð ein milljón króna. Víxillinn er gefin út af Áka Péturssyni 20. mars 1999, samþykktur af Áslaugu Sigurbjargardóttur til greiðslu í Íslandsbanka hf. og ábektur af útgefanda, sóknaraðila, Áslaugu Árnadóttur, kt. 200128-4199, og varnaraðila, H. Gunnarssyni, kt. 140459-4379.   Varnaraðili kveðst hafa fengið víxilinn í viðskiptum, án þess að það sé nánar skýrt af hans hálfu. Fram kemur í gögnum málsins, að varnaraðili fól Íslandsbanka hf. innheimtu víxilsins 30. ágúst 1999 en tók hann úr innheimtu vegna greiðslufalls hans hinn 10. nóvember s.á. Lögmaður varnaraðila ritaði samþykkjanda víxilsins bréf dags. 26. október s.á. og krafði hana um greiðslu víxilsins og tilkynnti henni, að varnaraðili myndi fela honum innheimtu víxilsins að liðnum 10 dögum frá dagsetningu bréfsins væri hann þá ógreiddur. Samhljóða bréf var sent öðrum, sem skuldbundið höfðu sig með áritun á víxilinn. Í bréfi lögmannsins segir svo: ,,Umbj.m. hefur tjáð mér að þér hafið gert athugasemdir við víxilinn á þeim forsendum að afmáð hefur verið rétt dagsetning og ný sett í staðinn. Samkvæmt upplýsingum umbj.m. á þessi mótbára ekki við rök að styðjast og vísar í því sambandi til  Björgvins Björgvinssonar lögg. fasteignasala sem útbjó víxilinn og merkti upphafsstafi sína við breytinguna.  Bjarni þessi (þannig) kveður að víxillinn hafi verið með gjalddaga 1. okt. 1999 þegar þér ásamt öðrum sem eruð á víxlinum rituðu nöfn ykkar undir hann enda gjalddagi þessi sérstaklega tilgreindur í kaupsamningi um kaup yðar á Sólbaðsstofunni Punkturinn, Hraunbergi 4, Reykjavík.  Umbj. m. tekur jafnframt fram að hann fékk þennan víxil í viðskiptum og er kaupum yðar á sólbaðsstofunni algjörlega óviðkomandi ...”.  Svarbréf lögmanns sóknaraðila er dags. 9. nóvember s. á.  Í bréfinu segir m.a. svo: ,,Undirritaður hefur ekki skjal það sem um ræðir undir höndum en skv. þeim upplýsingum sem liggja fyrir verður ekki séð að skjalið sé víxill í skilningi víxilréttar og breyta yfirlýsingar Björgvins Björgvinssonar þar engu um. Með vísan til þessa verða hafðar uppi sömu mótbárur gegn handhafa skjalsins og gegn upphaflegum viðtakanda, en hann hefur í veiga­miklum efnum vanefnt kaupsamning þann sem skjalið var notað í. ...”.  Fjárnám var síðan gert í eignarhluta sóknaraðila í húseigninni Úthlíð 9 í Reykjavík hinn 2. mars sl. Lögmaður gerðarþola mætti við aðfarargerðina og mótmælti framgangi hennar. Í gerðarbók Sýslumannsins í Reykjavík er fært til bókar: ,,Telur hann  [lögmaður gerðarþola] að átt hafi verið við gjalddaga víxilsins og víxilréttur hafi þar með fallið niður. Víxillinn hafi átt að vera með gjalddaga 1. ágúst 1999 en honum breytt til 1. október 1999. Þá telur hann að víxillinn hafi ekki verið vistaður í banka á gjalddaga og því hafi víxilréttur fallið niður fyrir vangeymslu. Lögmaður gerðarbeiðanda krefst þess að gerðin nái fram að ganga og mótmælir ummælum lögmanns gerðarþola.  Leggur hann fram ljósrit kaupsamnings dags. 20. mars 1998 máli sínu til stuðnings og innheimtubeiðni til Íslandsbanka hf. dags. 30. ágúst 1999. Lögmaður gerðarþola mótmælir því að kaupsamningurinn hafi þýðingu í þessu máli þar sem gerðarþoli er ekki aðili að kaupsamningnum.  Deildarstjóri sýslumanns ákveður að mótmæli lögmanns gerðarþola stöðvi ekki framgang gerðarinnar. ...”.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila:

Sóknaraðili heldur því fram, að gjalddaga víxilsins hafi verið breytt í 1. október 1999 eftir undirritun hans. Við breytinguna hafi Björgvin Björgvinsson lögg. fasteignasali sett upphafsstafi sína en engir víxilskuldaranna.

Sóknaraðili byggir kröfur sínar á því að breytingin hafi verið gerð, eftir að hún ritaði nafn sitt á víxilinn og að hún hafi verið gerð án samþykkis hennar. Breytingin sé því óskuldbindandi fyrir hana, sbr. 69. gr. víxillaga nr. 93/1933 og sé sóknaraðili því bundin í samræmi við upphaflegan texta víxilsins. Samkvæmt þessu hafi borið að sýna víxilinn til greiðslu í Íslandsbanka hf. Reykjavík á gjalddaga eða næstu tveimur dögum þar á eftir, sbr. 38. gr. víxillaga, þ.e. á tímabilinu 1.-3. ágúst 1999.  Sannað sé með framlögðum gögnum, að varnaraðili hafi ekki afhent Íslandsbanka hf. víxilinn fyrr en 30. ágúst s.á. Varnaraðili hafi því glatað víxilrétti sínum gagnvart sóknaraðila, skv. 1. mgr. 53. gr. víxillaga.  Þar sem víxilréttur hafi glatast gagnvart sóknaraðila þá sé skilyrðum 8. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfl. ekki fullnægt, auk þess sem varnaraðili eigi enga kröfu á hendur sóknaraðila. Á grundvelli þessa beri að fella fjárnám það úr gildi, sem gert hafi verið hjá sóknaraðila með aðfarargerð nr. 011-2000-01127.

Málsástæður og lagarök varnaraðila:

Varnaraðili lýsir málavöxtum svo, að hann hafi á engan hátt breytt umræddum víxli eða grunað að honum hafi verið breytt frá því hann eignaðist hann og ritaði nafn sitt á hann. Hann kveðst vita það eitt um viðskiptin á bak við útgáfu víxilsins, að Eggert Arason hafi selt samþykkjanda hans og útgefanda sólbaðsstofuna Punktinn, Hraunbergi 4, Reykjavík, og kaupverðið hafi m.a. verið greitt með þessum víxli. Þessu til staðfestu vísar varnaraðili til kaupsamnings þessara aðila, sem hafi verið  undirritaður 20. mars 1999, sama dag og víxilinn sé gefinn út, en fram komi í samningnum, að kaupendur hafi átt að afhenda m.a. víxil að fjárhæð kr. 1.000.000 með gjalddaga 1. október 1999.  Sóknaraðili hafi fyrst eftir að greiðslufall hafi orðið á víxlinum komið með mótbárur þess efnis að breytingar hafi verið gerðar á honum og á hann settur annar gjalddagi, eftir að sóknaraðili ritaði nafn sitt á hann.  Varnaraðili kveðst hafa leitað skýringa hjá Björgvini Björgvinssyni fasteignasala, sem hafi upplýst, að mótbárur sóknaraðila ættu ekki við rök að styðjast.  Fasteignasalinn hafi upplýst, að önnur dagsetning hafi upphaflega verið sett á víxilinn, en gjalddaganum síðan verið breytt í 1. október 1999 og hann sett stafi sína við þá breytingu. Þannig hafi hann afhent kaupendum sólbaðsstofunnar víxilinn til undirritunar. Víxillinn hafi því verið óundirritaður, þegar breytingin var gerð.

Varnaraðili byggir á því, að sóknaraðili beri sönnunarbyrðina fyrir því, að víxlinum hafi verið breytt, eftir að hún áritaði hann. Jafnframt beri hún sönnunar­byrðina fyrir því, takist henni að færa líkur fyrir því að breyting hafi verið gerð á víxlinum, að breytingin hafi verið gerð án hennar vitneskju.  Engar sannanir hafi komið fram af hálfu sóknaraðila um breytingu á gjalddaga víxilsins, eftir að hún áritaði hann.  Ekki sé nægilegt að sýna fram á að önnur dagsetning hafi áður verið rituð á víxilinn.  Gera verði þá kröfu til þess, sem haldi fram staðhæfingu af þessu tagi, að sá sýni fram á með óyggjandi hætti að um fölsun hafi verið að ræða og breytingin hafi verið gerð eftir áritun víxilskuldara og án vitneskju hans. 

Varnaraðili telur auk þess, að fyrirliggjandi kaupsamningur og staðhæfingar fasteignasalans veiti líkur fyrir því, að víxillinn hafi verið með gjalddaganum 1. október 1999, þegar sóknaraðili ritaði nafn sitt á hann. Það sé enginn annar víxill sömu fjárhæðar nefndur í kaupsamningnum.

Varnaraðili vísar til 17. kafla laga um meðferð einkamála og til þess að sóknaraðila beri að sýna fram á, að víxlinum hafi verið breytt eða hann falsaður. Auk þess vísar sóknaraðili til 1. gr. víxillaga nr. 93/1933 um það, hvað teljist víxill í skilningi laganna og ennfremur til 1. gr. aðfararlaga um heimild varnaraðila til að gera fjárnám hjá sóknaraðila.

 

Forsendur og niðurstaða.

Við aðalmeðferð málsins mætti sóknaraðili til skýrslugjafar, ásamt Björgvini Björvinssyni, fasteignasala, hjá fasteignasölunni Ársölum, sem hafði milligöngu um sölu sólbaðsstofunnar Punktsins. Verður framburður þeirra rakinn, eins og ástæða þykir.

Ágreiningur málsaðila snýr að því, hvort gjalddaga víxils að fjárhæð 1.000.000 krónur hafi verið breytt, eftir að sóknaraðili ritaði nafn sitt á víxilinn, eins og áður er lýst.

Málsaðilar eru sammála um það, að gjalddaga víxilsins hafi verið breytt, en greinir á um það, hvenær það hafi verið gert.

Í skýrslu sinni hér fyrir dómi kvaðst sóknaraðili ekki muna, hvort hún ritaði nafn sitt á einn eða fleiri víxla í tengslum við kaup dóttur hennar á sólbaðsstofunni Punktinum. Hún kvaðst muna það eitt, að engir upphafsstafir hafi verið við gjalddaga umrædds víxils, þegar hún áritaði hann og þá hafi ekki verið verið sýnilegt að gjalddaga hans hafi verið breytt, eins og nú sé greinilegt. Ekki mundi sóknaraðili, hvaða gjalddagi hafði verið á umræddum víxli, þegar hún áritaði hann. Dóttir hennar hafi tjáð henni eftir að hafist var handa um innheimtu víxilsins, að gjalddaga hans hafi verið breytt.

Fasteignasalinn Björgvin Björgvinsson bar það fyrir dóminum, að hann hafi annast gerð kaupsamnings um sólbaðsstofuna Punktinn. Víxill sá, sem hér kemur við sögu, hafi verið hlutagreiðsla á umsömdu verði sólbaðsstofunnar. Hann taldi, að allir fjórir víxlarnir, sem afhentir voru samkvæmt ákvæðum kaupsamningsins hafi verið áritaðir af sömu aðilum. Víxlarnir hafi verið útbúnir í samræmi við samþykkt kauptilboð. Mistök hafi átt sér stað við vélritun á umræddan víxil og hafi þau mistök verið leiðrétt, áður en allir víxilskuldarar árituðu hann. Hann kvaðst geta fullyrt þetta, enda komi þetta heim og saman við efni samþykkts kauptilboðs og kaupsamnings. Hann upplýsti, að upphafstafir þeir, sem skráðir séu á víxilinn séu Þ.B. og séu það upphafsstafir starfsmanns síns, Þórhalls Björnssonar. Þórhallur hafi sennilega vélritað víxlana og breytt síðan gjalddaga víxilsins í samræmi við umsamin greiðslukjör og sett stafi sína við þá breytingu. Hann taldi ekki óeðlilega að þessu máli staðið, þar sem breytingin hafi átt sér stað, áður en víxillinn var áritaður af útgefanda og ábekingum og þeir því áritað víxilinn þannig breyttan. Hann kvaðst hafa verið vitni að umræddri breytingu á víxlinum og hafi þeir þannig verið afhentir seljanda sólbaðsstofunnar.

Álit dómsins:

Varnaraðili eignaðist umræddan víxil í viðskiptum og ekki er komið fram, að hann tengist á nokkurn hátt viðskiptum þeim, sem varða kaup dóttur sóknaraðila á umræddri sólbaðsstofu. Samkvæmt 91. gr. aðfl. skal beita reglum um meðferð einkamála við úrlausn mála af því tagi, sem hér er til meðferðar.

Varnir þær, sem sóknaraðili hefur uppi gagnvart kröfu varnaraðila falla undir ákvæði c. liðar 1. tl. 118. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 (eml.) að mati réttarins.

Sóknaraðili ber aftur á móti sönnun þess, að víxli þeim, sem um er deilt, hafi verið breytt eftir að hún áritaði hann.

Að mati dómsins ber að líta til eftirtalinna atriða við mat á fullyrðingu sóknaraðila um breytingu á gjalddaga umrædds víxils.

Gjalddagi víxilsins er í samræmi við efni kaupsamnings um kaup Áslaugar Sigurbjargardóttur og Áka Péturssonar á sólbaðsstofunni Punktinum. Fyrir liggur, að sóknaraðili áritaði víxilinn í tengslum við þau kaup. Björgvin Björgvinsson fasteignasali fullyrti að víxlinum hafi verið breytt, áður en sóknaraðili og aðrir víxilskuldarar árituðu hann. 

Aftur á móti mundi sóknaraðili það eitt, að upphafsstafir höfðu ekki verið skráðir við gjalddaga víxilins, þegar hún áritaði hann. Ekki gat hún upplýst hvaða gjalddagi var þá á víxlinum, né heldur hvort hún ritaði nafn sitt á einn eða fleiri víxla í tengslum við umrædd kaup.

Með vísan til þess, sem að framan er rakið, þykir sóknaraðili ekki hafa fært fullnægjandi sönnur fyrir þeirri staðhæfingu sinni að gjalddaga víxilsins hafi verið breytt eftir að hún áritaði hann.

Því ber að hafna kröfu sóknaraðila um að aðfarargerð nr. 011-2000-01127 verði felld úr gildi, þar sem fjárnám var gert í eignarhluta sóknaraðila í Úthlíð 9 í Reykjavík þann 2. mars sl.

Rétt þykir með vísan til 1. tl. 130. gr. eml. að sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað, sem ákveðst 40.000 krónur að teknu tilliti til lögmælts virðisaukaskatts.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Sigurbjargar Pétursdóttur, um að aðfarargerð nr. 011-2000-01127 verði felld úr gildi, þar sem fjárnám var gert í eignarhluta gerðarþola í fasteigninni Úthlíð 9, Reykjavík þann 2. mars. sl.

Sóknaraðili greiði varnaraðila, Haraldi Sveini Gunnarssyni, 40.000 krónur í málskostnað.