Hæstiréttur íslands

Mál nr. 51/2013


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð


                                              

Fimmtudaginn 13. júní 2013.

Nr. 51/2013.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)

gegn

Hlyni Ólafssyni

(Bjarni Hauksson hrl.)

Líkamsárás. Skilorð.

H var sakfelldur fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa slegið A með krepptum hnefa í andlitið með þeim afleiðingum að A hlaut nefbrot. Við ákvörðun refsingar var m.a. litið til þess að árás H var tilefnislaus. Var H gert að sæta fangelsi í fjóra mánuði en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í tvö ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. janúar 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða en að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins.

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi lenti brotaþoli í átökum inni á skemmtistaðnum Manhattan í Keflavík aðfaranótt mánudagsins 30. október 2011. Eftir átökin  fylgdi B dyravörður brotaþola út í anddyri skemmtistaðarins. Samkvæmt vætti C, D og E, sem voru með brotaþola inni á skemmtistaðnum þegar átökin urðu, bar brotaþoli ekki ytri áverka í andliti eftir þau. Fær framburður þessara vitna samrýmst framburði vitnisins F dyravarðar sem bar fyrir dómi að komið hefði til átaka milli manna utan dyra og eftir að þeim lauk hafi brotaþoli haldið „fyrir andlitið á sér ... Þá var búið að kýla hann“. Samkvæmt þessu er fallist á með héraðsdómi að brotaþoli hafi ekki verið nefbrotinn þegar hann kom út af skemmtistaðnum í fylgd dyravarðar heldur hafi hann hlotið þann áverka utan dyra eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi.

Brotaþoli bar fyrir dómi að ákærði væri sá sem nefbraut hann utan dyra og er sú staðhæfing studd framburði vitnanna C og D sem bæði voru sjónarvottar að þeim átökum og báru fyrir dómi að hafa séð ákærða smeygja sér á milli tveggja dyravarða utan við anddyrið og kýla brotaþola í nefið. Eins og greinir í héraðsdómi er ekki deilt um afleiðingar árásarinnar og staðfestir læknisvottorð að nef brotaþola var mölbrotið þegar hann kom á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í beinu framhaldi af árásinni. Er með vísan til þessa fallist á með héraðsdómi að þrátt fyrir staðfasta neitun ákærða sé hafið yfir skynsamlegan vafa að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er réttilega heimfært til refsiákvæða.

Ákærði var 22. febrúar 2012 dæmdur til greiðslu 100.000 króna sektar fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og verður refsing hans ákveðin sem hegningarauki við þann dóm, sbr. 78. gr. laganna. Að því gættu og að teknu tilliti til þess að árás ákærða var tilefnislaus er refsing hans ákveðin fangelsi í fjóra mánuði sem rétt er að skilorðsbinda eins og nánar greinir í dómsorði.

Staðfest er ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað. Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Hlynur Ólafsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði samtals 285.046 krónur í áfrýjunarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti,  251.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 15. janúar.

                Mál þetta er höfðað með útgáfu ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum þann 30. maí 2012 og var það tekið til dóms að loknum málflutningi þann 7. janúar 2013.

                Ákærði Hlynur Ólafsson , kt. [...], [...], Reykjanesbæ er sakaður um líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt mánudagsins 30. október 2011, við anddyri skemmtistaðarins Manhattan, Hafnargötu 30, Reykjanesbæ, slegið A, kt. [...], einu sinni með krepptum hnefa í andlitið með þeim afleiðingum að A hlaut nefbrot.

                Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Einkaréttarkrafa:

                Í málinu gerir A, kt. [...] , bótakröfu á hendur ákærða, samtals að fjárhæð kr. 730.000,- ásamt vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. október 2011 til þess dags er liðinn verður mánuður frá því að krafa þessi var kynnt fyrir ákærða en frá þeim degi kr. 750.300,- með dráttarvöxtum skv. IV. kafla laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. laganna allt til greiðsludags.

             Af hálfu einkaréttarkröfuhafa var þing ekki sótt þegar málið var tekið fyrir þann 12. nóvember sl. og var krafan því felld niður sbr. ákvæði 2. mgr. 174. gr. laga nr. 88/2008.

                Ákærði sem neitaði sök hefur krafist sýknu og til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og komi til fangelsisrefsingar þá verði hún skilorðsbundin. Þá krefst hann þess að sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.

I.

                Upphaf máls þessa bar að með þeim hætti, samkvæmt lýsingu lögreglu, að þann 30. október 2011 var lögreglan á Suðurnesjum kölluð til að skemmtistaðnum Manhattan í Reykjanesbæ vegna slagsmála. Lýsti eitt vitnið því að það hefði séð ákærða kýla brotaþolann A. Þessu neitaði ákærði og sagði að hann hefði verið að stilla til friðar þegar A átti í átökum við annan mann.

II.

                Ákærði kvaðst hafa verið á gangi fyrir utan Manhattan í umrætt sinn og séð slagsmál í anddyrinu og vegna þess að hann hafði unnið þar áður sem dyravörður hafi hann farið að aðstoða við að stöðva lætin. Ákærði kvaðst ekki hafa séð hverjir voru að slást en sjálfur hafi hann endað í höndum F dyravarðar sem er kunningi hans. Sjálfur sagðist hann hafa verið búinn að drekka þrjá til fjóra bjóra um kvöldið. Ekki sagðist ákærði þekkja brotaþolann eða átt við hann nein samskipti, þó vera kynni að hann hafi séð hann áður. Þvertekur ákærði fyrir að hafa slegið brotaþolann. Hann segist ekki geta sagt til um hver hefði slegið brotaþola en hann hafi sínar grunsemdir þó hann hefði ekki séð þegar það átti sér stað enda hefði hann snúið baki í brotaþola þegar hann átti að hafa verið kýldur. Ákærði sagði aðspurður að hann þekkti vitnin C og D ekki neitt. Ákærði giskaði á að það hefðu verið um það bil tíu til tuttugu manns þarna í anddyrinu meðan lætin voru mest.

III.

                Verður nú rakinn framburður brotaþola og annarra vitna eftir því sem þurfa þykir.

                Brotaþoli sagði fyrir dóminum að hann hafi verið að ganga að borði sínu inni á Manhattan þegar hann hitti tvo menn og hefði annar maðurinn ráðist á hann og hent honum í gólfið og farið að lemja hann. Þegar brotaþoli var staðinn á fætur þá hafi dyravörður, sem heitir B, komið til hans og beðið hann að koma með sér út, en þegar þangað var komið hefði komið til þeirra annar dyravörður sem heitir F. Virtist brotaþola sem slagsmál væru í uppsiglingu en dyraverðirnir hefðu staðið fyrir framan hann og snúið í hann baki þegar þeim sem kýldi hann tókst að smeygja sé fram hjá þeim og kýla hann í andlitið. Sagði brotaþoli að hann hefði verið beðinn að fara af vettvangi en hann neitað því og sagt að hann væri búinn að hringja á lögreglu sem kom skömmu síðar. Ekki kvaðst brotaþoli í neinum vafa um það hver sló hann fyrir utan Manhattan, enda hafi hann séð þann sem réðst á hann, og benti á ákærða sem var í dómsalnum og sagði að hann væri árásarmaðurinn sem nefbraut hann með krepptum hnefa. Hann hefði ekki komið neinum vörnum við og allt hringsnúist fyrir augum hans í nokkrar sekúndur eftir höggið. Aðspurður sagði brotaþoli að hann hefði ekki hlotið neina áverka sem hann fyndi fyrir vegna árásarinnar sem hann varð fyrir inni á skemmtistaðnum og útilokað að hann hefði nefbrotnað þá.

                Vitnið C, sem er mágkona brotaþola, sagðist hafa verið að skemmta sér á Manhattan umrætt kvöld þann 30. október 2011. Er hún hafði verið þar nokkra stund hafi eiginmaður hennar sagt henni að brotaþoli hefði lent í átökum við einhvern inni á skemmtistaðnum og að þau þyrftu að fara út af því að lögreglan væri að koma. Þegar vitnið kom út þá sá hún ákærða standa fyrir framan tvo dyraverði en fyrir aftan þá stóð brotaþoli. Lýsti vitnið því að ákærði hefði náð að smeygja sér fram hjá dyravörðunum og slá brotaþola í nefið. Sagði vitið að dyraverðirnir hefðu náð að ýta ákærða frá og svo hefði lögreglan verið komin. Sagðist vitnið muna vel eftir þessum atburði þrátt fyrir að hafa neytt áfengis um kvöldið. Ekki kvaðst vitnið hafa séð blóð eða neina áverka framan í brotaþola áður en hann var kýldur en hann hefði verið blóðugur um nefið eftir höggið. Sagði vitnið nánar aðspurt að það hafi séð ákærða kýla brotaþola á nefið og að hún beri kennsl á hann í dómsalnum. Sagði vitnið að hún hefði sagt lögreglunni strax á vettvangi hver hefði slegið brotaþola því lögreglan hefði spurt hana um það.

                Vitnið D sagðist hafa verið ásamt konu sinni, brotaþola og eiginkonu hans að skemmta sér á Manhattan umrætt kvöld. Sagðist vitnið hafa farið út eftir að honum var sagt að brotaþoli hefði lent í einhverjum átökum og hefði farið út fyrir. Þegar vitnið kom út sá það brotaþola standa vinstra megin við útganginn fyrir aftan tvo dyraverði en í sama mund hafi ákærði náð að stökkva á milli dyravarðana og slá brotaþola þannig að það sá á nefi hans. Sagði vitnið að því hefði virst ákærði vera með eitthvað í hendinni sem hann var að reyna að fela eða koma frá sér. Sagðist vitnið hafa sagt brotaþola að hætta þessari vitleysu og hringja í lögregluna sem kom skömmu síðar. Ekki kvaðst vitnið hafa séð neina áverka á andliti brotaþola áður en hann var kýldur en hann hefði verið með áverka á nefinu eftir höggið. Sagði vitnið aðspurt að það hefði séð ákærða kýla brotaþola og ber aðspurt kennsl á ákærða í dómsalnum. Kvað vitnið ákærða hafa stokkið að brotaþola og kýlt hann í andlitið þegar hann lenti.

                Vitnið E eiginkona brotaþola sagðist ekki hafa séð umræddan atburð gerast en þegar hún kom út í innganginn hafi hún séð brotaþola blóðugan um nefið og hann hefði bent á ákærða og sagt að hann hafi gert þetta. Sagði vitnið að það hefði ekki séð neina áverka á brotaþola á meðan hann var inni á skemmtistaðnum.

                Vitnið G læknir kannast við að hafa gert læknisvottorð það sem liggur fyrir í dóminum og hafa gert aðgerð þann 9. nóvember 2011 á nefi brotaþola sem var brotið og hefði verið það í níu daga.

                Vitnið F kvaðst hafa verið við dyravörslu umrætt kvöld. Eftir að komið hafði til átaka inni á staðnum hefði brotaþoli komið fram í anddyri með öðrum dyraverði. Kvaðst vitnið ekki hafa séð neinn kýla neinn því vitnið hafi snúið baki í þann stað þar sem umrætt atvik átti að hafa gerst. Sagði vitnið að komið hefði til óláta þarna fyrir utan en þegar þau voru afstaðin hefði brotaþoli haldið fyrir nefið og svo hafi virst sem hann hefði verið kýldur. Kvaðst vitið ekki muna þessa atburði glöggt en margt hefði verið um manninn í anddyrinu. Sagði vitnið að hann og ákærði væru vinir og félagar.

Niðurstaða:

                Ákærði hefur frá upphafi neitað sök en hins vegar hefur hann viðurkennt að hafa verið á vettvangi þegar umrætt atvik átti sér stað og tekið þar þátt í átökum sem miðuðu að því að stilla til friðar. Þá hefur ákærði sagt að hann hafi drukkið þrjá til fjóra bjóra fyrr um kvöldið en hann muni þó vel alla atburðarás. Hefur ákærði sagt að hann gruni hver hafi slegið ákærða en hann treysti sér ekki til þess að upplýsa það vegna þess að hann hefði ekki séð það með eigin augum. Af hálfu ákærða hefur verið gefið í skyn að brotaþoli kunni að hafa nefbrotnað í átökum sem hann lenti í inni á skemmtistaðnum skömmu áður en af framburði vitna má ráða að brotaþoli hafi ekki verið nefbrotinn þegar hann kom út af skemmtistaðnum þar sem meint líkamsárás átti sér stað við anddyrið.

                Brotaþoli hefur fullyrt fyrir dóminum að ákærði hafi verið sá sem nefbraut hann enda hefði hann séð hver það var og borið kennsl á hann í dóminum. Vitnið C sem var á vettvangi þegar brotaþoli var sleginn hefur borið á sama veg og sömuleiðis D. Ekkert hefur komið fram í málinu sem er til þess fallið að kasta rýrð á framburð þessara þriggja vitna og af hálfu ákærða kom fram að hann þekki vitnin ekki og hafi ekki átt í neinum útistöðum við þau. Vitnið E eiginkona brotaþola sagði fyrir dóminum að brotaþoli hefði strax á vettvangi bent á ákærða sem árásarmann en hún hefði komið að þegar búið var að kýla eiginmann hennar og hún því ekki orðið vitni að því. Vitnin sem voru á vettvangi og komið hafa fyrir dóminn hafa sagt að þau hafi borið kennsl á ákærða sem fyrrum dyravörð á skemmtistaðnum Manhattan. Ekkert hefur komið fram í málinu hvers vegna ráðist var á brotaþola með þessum hætti en í skýrslu dyravarðarins B sem ekki kom fyrir dóminn, hjá lögreglu, kemur fram að ákærði hafi verið öskrandi og æpandi í anddyrinu og verið með læti en hann hafi ekki séð ákærða kýla brotaþola í andlitið. Sækjandi og verjandi sögðu fyrir dóminum að þeir vefengdu ekki framangreinda frásögn B hjá lögreglu. Af hálfu ákærða var því haldið fram að framburður vitna sem benda á ákærða sem árásarmann hafi lítið gildi vegna þau séu öll venslafólk brotaþola. Vissulega er það til þess fallið minnka vægi framburðanna en á móti kemur að vitnin hafa enga sjáanlega ástæðu til þess að bera sakir á ákærða með ósannindum. Myndsakbending fór fram 21. febrúar 2011 sem undirstrikar að ákærði er sá sem hlut átti að máli að mati vitnanna D og C.

                Um afleiðingar árásarinnar er ekki deilt og læknisvottorð staðfestir að nef brotaþola hafi verið mölbrotið þegar brotaþoli var rannsakaður á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

                Að öllu virtu og þrátt fyrir staðfasta neitun verður að telja það hafið yfir allan skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann er sakaður um í ákæruskjali og er þar réttilega heimfærð til refsiákvæðis.

                Ákærði sem ekki hafði sætt refsingu áður en hann framdi brot sitt er fæddur 1980. Við ákvörðun refsingar er m.a. haft í huga að líkamsárásin nær einungis til eins hnefahöggs og þess að ekki verður séð að það hafi átt sér neinn skipulegan aðdraganda. Samkvæmt sakavottorði hlaut ákærði 100.000 króna sekt þann 22. mars 2012 fyrir brot gegn 1. mgr. 217. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þannig að refsing hans nú verður ákveðin sem hegningarauki við þann dóm sbr. 78. gr. laganna.

                Þykir hegningaraukinn hæfilega ákveðin tveggja mánaða fangelsi. Þykir rétt að skilorðsbinda refsinguna til tveggja ára og ákveða að hún skuli niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Þá verður ákærði í samræmi við ákvæði 218. gr. laga nr. 88/2008 dæmdur til þess að greiða allan sakarkostnað, þ.m.t málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar hdl. sem þykja hæfilega ákveðin 188.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk 23.500 samkvæmt yfirliti sækjanda um útlagðan sakarkostnað.

                Óli Ásgeir Hermannsson fulltrúi lögreglustjórans á Suðurnesjum sótti málið.

                Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Hlynur Ólafsson, sæti fangelsi í 2 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, samtals að fjárhæð 211.750 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 188.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.