Hæstiréttur íslands
Mál nr. 395/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta
|
|
Þriðjudaginn 4. nóvember 2003. |
|
Nr. 395/2003. |
Ingólfur Karl Sigurðsson María Svandís Guðnadóttir Þorkell Snorri Sigurðarson og Guðný María Ingólfsdóttir (Jón Einar Jakobsson hdl.) gegn Helga Jóhannssyni (Bjarni Þór Óskarsson hrl.) |
Kærumál. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísunarúrskurður fellur úr gildi að hluta.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli I o.fl. á hendur H vegna vanefnda á kaupsamningi var vísað frá dómi sökum vanreifunar. Krafa I o.fl. var í fjórum liðum. Í Hæstarétti var talið að þótt málatilbúnaði I o.fl. hafi verið áfátt varðandi tvo fyrstu kröfuliðina væri ekki loku fyrir það skotið að þeim tækist að bæta úr því við efnismeðferð málsins. Hins vegar þótti krafan í þriðja kröfuliðnum svo óskýr að ekki varð hjá því komist að vísa henni frá dómi. Var úrskurðurinn því felldur úr gildi varðandi þrjá kröfuliði af fjórum og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 6. október 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar fyrir héraðsdómi og kærumálskostnaðar en til vara að hann verði felldur niður.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði á mál þetta rætur að rekja til þess að varnaraðili seldi með kaupsamningi 1. apríl 1998 sóknaraðilum veitingastaðinn Saga Bar á Benidorm á Spáni. Nánar tiltekið var hið selda umræddur veitingastaður, sem rekinn var í leiguhúsnæði, ásamt öllu sem fylgdi rekstrinum, þar með talið viðskiptavild og tæki og áhöld samkvæmt meðfylgjandi lista, sem taldist hluti af samningnum „ásamt nafninu Saga Bar.” Kaupverðið var 2.100.000 krónur sem við undirritun samningsins skyldi greiðast með 1.200.000 krónum og skuldabréfi að fjárhæð 900.000 krónur með gjalddaga 1. ágúst 1998. Í samningum var tekið fram að varnaraðili ábyrgðist að nýr húsaleigusamningur yrði gerður við sóknaraðila á sömu kjörum og verið hefðu „ásamt forleigurétti.” Þá var þess sérstaklega getið að sóknaraðilar skyldu afla sér tilskilinna leyfa til áframhaldandi reksturs, en varnaraðila bæri að aðstoða þá við það.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hafa áður verið rekin tvö dómsmál milli tveggja sóknaraðilanna og varnaraðila vegna þessara lögskipta. Í báðum málunum reyndi á gildi fjárnáms að kröfu varnaraðila á grundvelli áðurnefnds skuldabréfs, en sóknaraðilar héldu því fram að varnaraðili ætti ekki þann rétt sem bréfið bæri með sér. Lauk þeim með dómum Hæstaréttar, sbr. dómasafn réttarins 2000, bls. 1437 og 1447, en með þeim voru aðfarargerðirnar staðfestar.
Krafa sóknaraðila í máli þessu er í fjórum liðum. Í 1. kröfulið krefjast þau að „staðfest verði riftun og/eða dæmdur ógildur kaupsamningur“ aðilanna, í 2. kröfulið endurgreiðslu á kaupverðinu auk dráttarvaxta, í 3. lið að verði ekki fallist á að staðfesta riftun eða ógildi samningsins sé þess krafist að varnaraðila verði gert að greiða þeim „bætur og/eða afslátt“ af kaupverðinu og í 4. lið er krafist málskostnaðar. Í málatilbúnaði sóknaraðila er því einkum haldið fram að varnaraðila hafi skort réttindi yfir hinu selda, hann hafi ekki verið skráður fyrir rekstri veitingastaðarins, hið selda hafi verið haldið ýmsum nánar tilteknum göllum, sem hafi leitt til þess að rekstrarleyfi fékkst ekki og ekki reynst unnt að framlengja húsaleigusamninginn. Í málinu liggur fyrir kaupsamningur aðila auk kvittunar varnaraðila 1. apríl 1998 fyrir móttöku á greiðslu að fjárhæð 1.200.000 krónur og ljósrit af áðurnefndu skuldabréfi. Þá hafa sóknaraðilar lagt fram bréf lögmanns þeirra til varnaraðila 14. júlí 1999, þar sem staðhæft er að kaupsamningnum hafi verið rift um mánaðamót júlí og ágúst 1998 vegna nánar tiltekinna vanefnda varnaraðila auk fjögurra ljósrita skjala á spænsku. Fyrir Hæstarétt hafa verið lagðar fram skýringar auk lauslegrar þýðingar á tveimur þessara ljósrita.
Þótt málatilbúnaði sóknaraðila á hendur varnaraðila í 1. og 2. kröfulið sé áfátt og á skorti að þau hafi að því leyti gert svo skýra grein sem skyldi fyrir málsástæðum sínum og kröfum, er þó ekki loku fyrir það skotið að þeim takist að bæta úr því við efnismeðferð málsins. Eru ekki næg efni til að vísa þessum kröfuliðum frá dómi vegna vanreifunar. Krafa sóknaraðila um bætur eða afslátt af kaupverðinu í 3. kröfulið er hins vegar hvorki með tiltekinni fjárhæð né hún nánar skýrð í málatilbúnaði þeirra. Er krafa sóknaraðila í þessum lið svo óskýr að ekki verður hjá því komist að vísa henni frá dómi. Verður niðurstaða héraðsdóms því staðfest um 3. kröfulið sóknaraðila. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi varðandi 1., 2. og 4. kröfulið sóknaraðila og lagt fyrir héraðsdómara að taka þessar kröfur til efnismeðferðar.
Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi að því er varðar 1., 2. og 4. kröfulið sóknaraðila, Ingólfs Karls Sigurðssonar, Maríu Svandísar Guðnadóttur, Þorkels Snorra Sigurðarsonar og Guðnýjar Maríu Ingólfsdóttur og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Staðfest er niðurstaða hins kærða úrskurðar um að vísa frá dómi 3. kröfulið sóknaraðila.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september 2003.
Stefnendur málsins eru Ingólfur Karl Sigurðsson, [...] María Svandís Guðnadóttir [...], bæði til heimilis að Kristnibraut 27, Reykjavík, Þorkell Snorri Sigurðarson, [...] og Guðný María Ingólfsdóttir [...], bæði til heimilis að Kóngsbakka 3, Reykjavík. Stefndi er Helgi Jóhannsson [...], Kleifarseli 49, Reykjavík.
Málið er höfðað með stefnu, dagsettri 2. maí sl., sem birt var fyrir stefnda 5. sama mánaðar. Það var þingfest hér í dómi 13. sama mánaðar.
Dómkröfur stefnanda eru sem hér segir:
1. Að staðfest verði riftun og/eða dæmdur ógildur kaupsamningur, dags. 1. apríl 1998 við stefnda um fyrirtækið Veitingastaðinn Saga Bar á Benidorm á Spáni og
2. að stefnda verði gert að endurgreiða þeim kaupverðið kr. 2.100.000, auk dráttarvaxta af þeirri fjárhæð frá 1. apríl 1998 til greiðsludags. Dráttarvextir reiknist samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum til 1. júlí 2001 og lögum nr. 38/2001 með síðari breytingum frá þeim degi til greiðsludags.
3. Verði ekki fallist á, að staðfesta riftun eða ógildi samnings gera stefnendur þær varakröfur, að stefnda verði gert að greiða þeim bætur og/eða afslátt af kaupverðinu.
4. Stefnendur krefjast málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti úr hendi stefnda að skaðlausu að mati dómsins eða eftir reikningi, sem lagður yrði fram á síðari stigum málsins, allt að viðlagðri aðför að lögum.
Stefndi krefst þess aðallega, að kröfum stefnenda verði vísað frá dómi, en til vara, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda. Stefndi krefst þess enn fremur, að stefnendur verði dæmdir in solidum til að greiða honum málskostnað að mati dómsins eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.
Málið var munnlega flutt um frávísunarkröfu stefnda hinn 15. september sl. og tekið til úrskurðar að því búnu.
Málavextir, málsástæður og lagarök málsaðila.
Málavextir eru í meginatriðum þeir, að stefndi seldi stefnendum Veitingastaðinn Saga Bar, sem rekinn var í leiguhúsnæði á Benidorm á Spáni, ásamt öllu því, sem rekstrinum fylgir, þ.m.t. viðskiptavild, tæki og áhöld, samkvæmt meðfylgjandi áhalda og tækjalista, sem telst hluti af samningi þessum ásamt nafninu Saga bar, eins og segir í kaupsamningi málsaðila, sem dagsettur er 1. apríl 1998. Kaupverðið nam 2,1 milljón króna. Stefnendur greiddu hinn 1. apríl 1998 1,2 milljónir króna í peningum og með skuldabréfi að fjárhæð 900 þúsundir króna, útgefnu af stefnandanum, Ingólfi, með sjálfskuldarábyrgð annarra stefnenda. Skuldabréfið er enn ógreitt að sögn stefnda.
Síðan segir svo orðrétt í kaupsamningnum:
Húsaleigusamningur: Seljandi ábyrgist, að nýr húsaleigusamningur verði gerður við kaupendur á sömu kjörum og nú eru í gangi, ásamt forleigurétti. Kaupendur greiði tryggingu til húseigenda að upphæð 500.000 pts. þegar gerður verður nýr húsaleigusamningur.
Afhending: Afhending fyrirtækisins skal fara fram 1. apríl 1998. Seljandi fyrirtækisins skal bera ábyrgð á rekstrinum fram að afhendingu og eru skuldir vegna rekstursins fram að þeim tíma kaupanda óviðkomandi. Seljandi hirðir arð af rekstri fyrirtækisins fram að þeim tíma en kaupendur frá þeim tíma. Hið selda er selt í núverandi ástandi sem kaupendur hafa kynnt sér og sætt sig við að öllu leyti. Skemmdir sem verða á hinu selda fyrir afhendingu en eftir að hið selda er sýnt eða kaupsamningur gerður skal seljandi lagfæra á sinn kostnað.
Ýmislegt: Aðilar skulu tilkynna eigandaskiptin að fyrirtækinu til rafmagnsveitu Benidorm og láta lesa af mælum. Aðilar skulu sjá um að greiða hvor um sig nauðsynlegar tilkynningar til opinberra aðila. Kaupendur yfirtaka enga starfsmannasamninga. Öll rekstrarleyfi eru á nafni seljanda og skulu kaupendur afla sér tilskilinna leyfa til áframhaldandi reksturs. Seljandi skuldbindur sig að viðlagðri ábyrgð til þess að gera engar ráðstafanir eða taka neinar þær ákvarðanir um rekstur veitingastaðarins sem skaðað getur hann fram að afhendingu. Seljandi aðstoði kaupendur við öflun á tilskildum leyfum til áframhaldandi reksturs.
Heimild seljanda til ráðstöfunar: Seljandi ábyrgist að hann hafi eignarrétt yfir hinum selda rétti og því rétt til þess að ráðstafa honum á þann hátt sem gert er í samningi þessum. Seljandi ábyrgist ennfremur að engar veðsetningar séu á tækjum, áhöldum eða nokkru öðru sem teljist til hins selda.
Stefnendur lýsa málavöxtum svo, að þau hafi gert sér ferð til Spánar í marsmánuði 1998 til að skoða staðinn, áður en kaupin voru afráðin. Þeim hafi verið sýnt húsnæði á 1. hæð í nánar tilgreindu húsi á Benidorm en veittur skammur tími til skoðunar. Myrkur hafi verið á staðnum vegna rafmagnsleysis og þau því ekki getað skoðað eldhúsið, þar sem flest tæki hafi átt að vera. Húsgögn hafi verið í veitingasal við skoðun. Fljótlega eftir undirritun kaupsamnings hafi þau farið utan á ný í því skyni að taka við staðnum. Þá hafi komið í ljós, að honum hafði verið lokað og hafi svo verið um alllangt skeið. Húsaleigusamningur hafi ekki legið fyrir og hafi ekki fengist fyrr en 1. maí með hækkaðri húsaleigu. Staðurinn hafi reynst afar óþrifalegur og hafi mikil vinna farið í þrif og lagfæringar. Þá hafi þeim einnig verið tjáð, að allt innbú og tæki, sem áttu að fylgja, væru eign húseigenda eða annarra aðila. Síðar hafi komið í ljós, að hvorki stefndi né fyrirtækið hafi verið skráðir eigendur staðarins eða fyrir nokkrum rekstri. Öll tilskilin leyfi hafi skort. Helstu birgjar hafi verið ófúsir til að hefja viðskipti við staðinn nema gegn staðgreiðslu vegna fyrri skulda og vanskila. Auk þess hafi staðurinn haft slæmt orð á sér vegna neyslu og fíkniefnasölu Guðmundar Inga Þóroddssonar, meðeiganda stefnda að veitingarekstrinum. Guðmundur hafi gert breytingar á staðnum m.a. í eldhúsi, sem fóru í bága við brunavarnareglur. Yfirvöld hafi í júlí eða ágúst s.á. hótað stefnendum málsókn vegna skorts á rekstrarleyfi, sem ekki hafi fengist vegna eldhættu, sem stöfuðu af breytingum Guðmundar Inga. Þetta hafi leitt til þess, að stefnendur hafi tilkynnt stefnda, að þau væru hætt við kaupin og farin til Íslands. Veitingastaðnum og rekstri hans hafi verið skilað til stefnda og Guðmundar Inga, sem tekið hafi við lyklavöldum og rekstri staðarins í félagi við stefnda eða einhvern í umboði þeirra. Leitað hafi verið ítrekað eftir bótum úr hendi stefnda, en hann ekkert viljað gera.
Stefnendur byggja málssókn sína í fyrsta lagi á vanheimild stefnda. Veitingastaðurinn Saga Bar hafi í raun ekki verið til, né annar rekstur í nafni stefnda. Í öðru lagi reisa stefnendur kröfur sínar á verulegum vanefndum stefnda, þar sem þau hafi ekki fengið afhent það, sem þau töldu sig vera að kaupa, eins og áður sé getið. Öll tilskilin leyfi hafi vantað, fyrirtækið óskráð, ekkert bókhald eða skattframtöl verið afhent þeim, húsaleigusamningur ekki fyrir hendi og margvíslegar fleiri vanefndir. Í þriðja lagi hafi tæki verið gölluð á ýmsan hátt og önnur hafi ekki verið fyrir hendi. Þá hafi rekstrarleyfi ekki fengist vegna eldhættu. Í fjórða lagi byggja stefnendur á því, að vanskil og skuldir fyrri eigenda við birgja, ásamt óorði, sem af staðnum fór, hafi gert þeim ókleift að ná nauðsynlegum samningum um rekstrarvörur. Í fimmta og síðasta lagi byggja stefnendur á því, að viðskiptavild hafi breyst í andstæðu sína vegna óorðs um neyslu og sölu fíkniefna í tengslum við veitingastaðinn.
Stefndi hafnar öllum ásökunum stefnenda sem og málavaxtalýsingu hans. Hann neitar því að nefndur Guðmundur Ingi hafi verið í nokkru sambandi við sig eða rekstur staðarins. Þá mótmælir stefndi sérstaklega þeirri málsástæðu stefnenda, sem lýtur að tengslum staðarins við fíkniefnasölu. Því sé haldið fram í því eina skyni að sverta mannorð hans. Staðreyndir málsins séu þær, að málsaðilar hafi undirritað kaupsamning um veitingastaðinn 1. apríl 1998. Stefnendur hafi þá tekið við rekstri staðarins og rekið hann allt sumarið 1998, en stefnda sé ókunnugt um framhald rekstrarins frá þeim tíma. Stefnendur hafi engar athugasemdir gert vegna kaupanna, fyrr en í júlí 1999, í kjölfar þess, að stefndi hóf innheimtuaðgerðir vegna skuldabréfsins, sem stefnendur afhentu við kaupin, sem greiðslu á hluta kaupverðsins.
Ekki verður frekar fjallað um málsástæður málsaðila, sem lúta að efnisúrlausn málsins, en tekin afstaða til frávísunarkröfu stefnda.
Málsástæður og lagarök stefnda:
Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á fjölmörgum atriðum. Stiklað verður á þeim helstu hér á eftir.
Fyrsta málsástæða stefnda snýr að kröfugerð stefnenda. Að mati stefnda er hér um að ræða tvíþætta og um leið valkvæða kröfugerð. Aðalkrafa þeirra lúti að því, að kaupsamningi málsaðila verði rift og/eða dæmdur ógildur. Krafan sé tvíþætt, þar sem stefnendur geri annars vegar kröfu um riftun eða ógildingu, en hins vegar um riftun og ógildingu. Krafan sé því ekki dómtæk og fari í bága við meginreglur réttarfars um skýra og glögga kröfugerð. Ekki sé hægt að krefjast samtímis riftunar og ógildingar, þar sem ólíkar réttarreglur gilda um hvora kröfu um sig. Krafan sé því hvorki dómhæf né dómtæk.
Varakrafa stefnenda sé sama marki brennd. Þar sé krafist bóta og afsláttar annars vegar en bóta eða afsláttar hins vegar. Ólíkar réttarreglur gildi um hvorn þáttinn um sig. Þessu til viðbótar sé kröfugerðin haldin þeim annmörkum, að hvorki sé krafist ákveðinnar fjárhæðar né bóta/afsláttar að álitum. Engin tilraun sé gerð til að afmarka umfang meintra vanefnda eða meta þær til ákveðinnar upphæðar.
Einnig byggir stefndi á því, að mjög skorti á lýsingu stefnenda á viðskiptum málsaðila, s.s. greiðslu kaupverðs. Stefndi hafi allt frá árinu 1998 reynt án árangurs að innheimta skuldabréf það, sem stefnendur afhentu til greiðslu kaupverðsins. Engu að síður geri stefnendur kröfu um greiðslu á nafnverði skuldabréfsins. Kröfugerð stefnenda sé því röng, þar sem ljóst sé að krefjast hefði átt ógildingar skuldabréfsins en ekki greiðslu á andvirði þess, eins og stefnendur geri.
Þá geri stefnendur enga grein fyrir því, hvort um hafi verið að ræða kaup á sjálfstæðri lögpersónu eða rekstri, sem stefndi hafi ábyrgst persónulega. Þetta kunni að varða miklu við mat á því, hvort stefndi sé ábyrgur fyrir meintum skuldum, sem stefnendur telji að hafi verið til staðar 1. apríl 1998 eða hvort Saga Bar beri ábyrgðina. Einnig láti stefnendur óupplýst um réttarreglur á Spáni um mismunandi rekstrarform veitingastaða og eigendaábyrgð. Stefndi telur einnig þversögn felast í þeirri fullyrðingu stefnenda, að stefnda hafi skort heimild til að selja umræddan veitingarekstur en lýsi því samtímis yfir, að þau hafi yfirtekið reksturinn. Þetta tvennt geti ekki farið saman.
Stefndi byggir einnig frávísunarkröfu sína á því, að málið sé vanreifað af hálfu stefnenda, þar sem þeir hafi lagt fram dómskjöl á spænsku til stuðnings kröfum sínum. Hvorki stefndi né lögmaður hans skilji spænsku og geti því ekki tekið til varna um efni þessara dómskjala í greinargerð. Úr þessu verði ekki bætt undir rekstri málsins fyrir dóminum, enda hafi stefndi þegar skilað greinargerð sinni. Málsmeðferð af þessu tagi fari í bága við meginreglur réttarfars og því eigi að vísa málinu frá dómi.
Stefndi styður frávísunarkröfu sína einnig þeim rökum, að stefnendur hafi ekki gert grein fyrir því, hvernig þeir muni skila hinu selda, nái riftun fram að ganga. Stefndi telur stefnendum ómögulegt að skila því, sem þau fengu keypt vegna þess tíma, sem liðinn sé frá því lögskiptin áttu sér stað og eðli hins selda og annarra atvika. Ómöguleiki standi því kröfum stefnenda í vegi.
Loks byggir stefndi frávísunarkröfu sína á þeirri málsástæðu, að dómar Hæstaréttar í málum hans og stefnendanna, Ingólfs og Maríu, frá 31. október 2001 hafi fjallað um riftunarkröfu stefnenda. Hæstiréttur hafi tekið efnislega afstöðu til sömu málsástæðna og stefnendur byggi á í þessu máli og hafnað kröfum þeirra. Stefndi telur því, að þessir tveir stefnendur geti ekki fengið aftur skorið úr sama ágreiningi fyrir dómi vegna res judicata áhrifa fyrri dóms. Sama gildi um stefnendurna, Guðnýju og Þorkel.
Málsástæður og lagarök stefnenda:
Stefnendur byggja í fyrsta lagi á því, að algengt sé, að tvíþættar kröfur séu settar fram og sama eigi við um valkvæða kröfugerð. Þetta tíðkist m.a. í málum, sem varði fasteignakaup. Þar sé oft krafist skaðabóta eða afsláttar. Hæstiréttur hafi margoft dæmt í slíkum málum og jafnvel dæmt kaupendum afslátt, þegar aðeins hafi verið krafist skaðabóta. Frávísunarkrafa stefnda sé því marklaus og tímaeyðsla, sem byggist á hártogunum og útúrsnúningum. Stefnendur hafi fylgt ákvæðum 80. gr. laga nr. 91/1991 (eftirleiðis eml.), þar sem segi, að stefna skuli vera gagnorð, en til þess ætlast að sjónarmið málsaðila séu skýrð frekar undir rekstri málsins. Sama eigi við um kröfugerð. Varakröfu, s.s. um ógildingu skuldabréfins, hafi mátt gera á síðari stigum málarekstursins.
Stefnendur mótmæla því einnig, að ekki sé gerð grein fyrir bótagrundvelli eða afsláttargrundvelli í stefnu. Ljóst sé að hvort tveggja byggist á vanheimild og vanefndum stefnda. Stefnendur hafi ekki fengið það, sem þeir hafi talið sig vera að kaupa og allt hafi verið vanefnt af hálfu stefnda, sem hægt var að vanefna. Bótakrafan eða afsláttarkrafan sé ljós. Hún byggist á þeim fjárhæðum, sem stefndi hafi móttekið við gerð kaupsamningsins 1. apríl 1998, þrátt fyrir það, að vanefndir stefnda hafi valdið þeim mun meira tjóni, s.s. vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu og ferðalaga, svo ekki sé minnst á tjón af því orðspori, sem farið hafi af umræddum veitingastað og stefnendur ekki vitað um fyrr en eftir afhendingu.
Stefnendur mótmæla enn fremur þeirri málsástæðu stefnda, að nauðsynlegt sé að krefjast ákveðinnar fjárhæðar umfram það, sem felist í varakröfu þeirra. Bótakröfu að álitum þurfi ekki að gera sérstaklega, eins og stefndi byggi á. Ljóst sé, að dómari geti ákveðið hverja þá fjárhæð að álitum, sem sé lægri, en nemi kröfugerð stefnenda. Til þess sé ætlast, þegar bóta sé krafist, að dómari meti kröfur málsaðila og færi þær niður, eins og honum sýnist rétt og sanngjarnt.
Stefnendur mótmæla því einnig, að ekki hafi verið gerð grein fyrir því í stefnu hvers konar lögpersóna stefndi sé. Ljóst sé, að stefndi hafi undirritað umræddan kaupsamning og því sé honum stefnt. Þó hafi komið í ljós eftir samningsgerðina, að allt hafi bent til þess, að veitingareksturinn hafi í raun ekki verið til. Engin leyfi hafi verið fyrir rekstri hans og ekkert hafi staðist, sem stefndi hafi haldið fram í kaupsamningum, sem hann hafi sjálfur samið. Þar segi að stefnendur hafi átt að endurnýja öll rekstrarleyfi, sem áttu að vera skráð á nafn stefnda, en ekki fundist, þegar eftir var leitað.
Stefnendur mótmæla því, að það sé frávísunarástæða, að skjöl séu lögð fram á spænsku. Ekki hafi annað legið fyrir við gerð stefnu, en stefndi væri fullfær í spænsku, enda átt viðskipti við spænska aðila um áratugaskeið. Einnig hafi verið óljóst, þegar málinu var stefnt fyrir dóm, hvaða dómari fengi málið til meðferðar, en ýmsir dómarar kynnu nægileg skil á spænskri tungu. Alltaf hafi staðið til að láta þýða þau skjöl, sem væru á spænsku, þegar ljóst yrði, að þess væri þörf.
Stefnendur mótmæla þeirri frávísunarástæðu stefnda, að Hæstiréttur hafi fjallað um sakarefnið. Mál það, sem stefndi vísi til hafi verið allt annars eðlis. Þar hafi verið deilt um réttmæti aðfarargerðar, allt önnur kröfugerð og lagagrunnur verið allt annars eðlis, sbr. 2.mgr. 90. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Hæstiréttur hafi ekki tekið afstöðu til sakarefnis þessa máls í skilningi 116. gr. eml. Stefnendur séu einnig aðrir, en þeir sem aðild áttu að tilgreindu Hæstaréttarmáli.
Loks mótmæla stefnendur þeirri málsástæðu stefnda, að skylt sé að dæma stefnanda til greiðslu málskostnaðar, sé máli vísað frá dómi. Bæði héraðsdómarar og Hæstiréttur hafi ótal sinnum fellt niður málskostnað, þegar máli hafi verið vísað frá dómi þrátt fyrir orðalag 2. tl. 130. gr. eml.
Niðurstaða:
Í 95. gr. eml. segir, að stefnandi skuli leggja fram stefnu og þau skjöl, sem varði málatilbúnað hans eða hann byggir annars kröfur sínar á. Í 99. gr. eml. er fjallað um heimildir stefnda. Þar segir, að hann eigi rétt á hæfilegum fresti til að taka afstöðu til krafna stefnanda og kanna fram komin gögn. Í 1. tl. 102. gr. eml. er mælt fyrir um það, að mál skuli að jafnaði taka fyrir einu sinni til sáttaumleitana og til að gefa aðilum kost á að koma að sýnilegum sönnunargögnum, sem ekki hefur áður verið tilefni eða tækifæri til að leggja fram.
Stefnendur lögðu fram eftirtalin skjöl til stuðnings kröfum sínum, auk stefnu og skjalaskrár. Nr. 3, kaupsamning með tækjalista, dags. 1. apríl 1998, nr. 4, kvittun stefnda, dags. 1. apríl 1998 fyrir móttöku á 1,2 milljónum króna, nr. 5, ljósrit skuldabréfs að fjárhæð 900 þús. Tvö bréf á spænsku, sem lýst er svo í skjalaskrá, að nr. 6 sé símbréf, dags. 13. 1. 2000, en nr. 7, Nota informativa (skárningarvottorð) dags. 11.1. 2000 og nr. 8, bréf lögmanns stefnanda, dags. 14. júlí 1999. Ekkert er annað lagt fram af hálfu stefnenda, sem rennir stoðum undir kröfugerð þeirra á hendur stefnda.
Stefnendur áskilja sér, undir liðnum áskilnaður í stefnu, rétt til að leggja fram frekari gögn og koma að málsástæðum, ef nauðsynlegt reynist svo og að leiða vitni og leggja fram aðilaskýrslu. Engin frekari skýring eða lýsing er gefin á því, hvaða gögn stefnendur hyggjast leggja fram, hvers efnis, né heldur hvað þau eigi að sanna. Slíkur almennur fyrirvari getur vart talist fullnægjandi, sbr. síðari málslið g. liðar 80. gr. eml. í ljósi þess, að stefndi getur á engan hátt varist slíkum málatilbúnaði í greinargerð.
Ráða má af tilvitnuðum lagagreinum einkamálalaga (eml.), að stefnandi skuli leggja grunn að málshöfðun við þingfestingu máls, þannig að stefndi geti í greinargerð tekið afstöðu til allra málsástæðna stefnanda og þeirra gagna, sem málsókn hans byggist á. Málsaðilar geta lagt fram viðbótargögn undir rekstri málsins, skv. 1. tl. 102. gr. eml., sem ekki hefur áður verið tilefni til að leggja fram, eða hafa ekki áður verið tiltæk. Telja verður, að framlagning gagna, eftir að stefndi hefur skilað greinargerð, verði að falla í þann farveg, sem mál hefur verið fellt í við þingfestingu og geti ekki gjörbylt þeim grunni, sem lagður var í stefnu. Grunnregla í íslensku réttarfari byggist á andmælarétti þess, sem málsókn er beint gegn. Þeim rétti er raskað, eigi stefndi þess ekki kost að tjá sig skriflega í greinargerð um öll þau atriði, sem máli skipta og stefnandi byggir á.
Þessum rétti er verulega raskað í tilviki stefnda í þessu máli. Ekkert liggur fyrir í málskjölum, sem stefnendur lögðu fram, sem rennir stoðum undir kröfur þeirra. Málatilbúnaður þeirra byggist á órökstuddum fullyrðingum um vanefndir stefnda.
Dómurinn á þess engan kost að sannreyna og leggja mat á kröfur stefnenda á grundvelli framlagðra gagna. Yfirlýsing lögmanns stefnenda um frekari gagnaframlagningu á síðari stigum málsins fer í bága við fyrrnefnda grunnreglu réttarfars um andmælarétt.
Með vísan til þess, sem að framan er rakið, þykir málið svo vanreifað af hálfu stefnenda, að fallast verði á frávísunarkröfu stefnda.
Málinu er vísað frá dómi.
Rétt þykir með hliðsjón af þessum málalokum, að stefnendur greiði stefnda óskipt 90.000 krónur í málskostnað að meðtöldum lögmæltum virðisaukaskatti.
Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð.
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur, Ingólfur Karl Sigurðsson, María Svandís Guðnadóttir, Þorkell Snorri Sigurðarson og Guðný María Ingólfsdóttir, greiði stefnda, Helga Jóhannssyni óskipt 90.000 krónur í málskostnað.