Hæstiréttur íslands

Mál nr. 182/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Kröfulýsing
  • Réttindaröð
  • Slit


                                              

Föstudaginn 12. apríl 2013.

Nr. 182/2013.

Cogas B.V.

(Baldvin Björn Haraldsson hrl.)

gegn

LBI hf.

(Halldór H. Backman hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Kröfulýsing. Réttindaröð. Slit.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem krafa C við slit fjármálafyrirtækisins LBI hf. var viðurkennd sem almenn krafa sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í kröfulýsingu C kom fram að krafan væri til komin vegna „innstæðusamnings“ en ekki var tilgreint hverrar stöðu C krefðist að krafan nyti. Var því ekki fallist á með C að krafan skyldi viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. mars 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2013, þar sem krafa sóknaraðila að fjárhæð 1.048.279.383 krónur var viðurkennd við slit varnaraðila sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en hafnað að viðurkenna hana sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. sömu laga. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess að kröfu hans að fjárhæð 6.194.406,33 evrur verði við slit varnaraðila skipað í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Cogas B.V., greiði varnaraðila, LBI hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2013.

Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slit varnaraðila, var beint til dómsins með bréfi slitastjórnar varnaraðila 23. maí 2012, sem móttekið var af héraðsdómi sama dag. Um lagagrundvöll vísaði slitastjórn til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Málið var tekið til úrskurðar miðvikudaginn 30. janúar sl.

Sóknaraðili er Cogas B.V., Rohofstraat 83, Almelo, Hollandi en varnaraðili er LBI hf. (áður Landsbanki Íslands hf. í slitameðferð), Austurstræti 16, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að krafa hans að fjárhæð 6.194.406,33 evrur njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki við slitameðferð varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að framangreindri kröfu verði hafnað og að jafnframt verði staðfest sú afstaða slitastjórnar hans að viðurkenna kröfuna sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 6.194.406,33 evrur sem umreiknist í kröfuskrá sem 1.048.279.383 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar.

Í bréfi varnaraðila til dómsins var getið um mótmæli nánar tilgreindra aðila sem tengdust ágreiningsefninu og talið að þeir yrðu að eiga aðild að málinu. Fyrir þingfestingu málsins lá hins vegar fyrir að umræddir aðilar myndu ekki láta málið til sín taka og kom því ekki til aðildar þeirra að því.

I

Ágreiningur í máli þessu varðar það hvort krafa sú sem sóknaraðili lýsti við slitameðferð varnaraðila skuli njóta stöðu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila. Ekki er ágreiningur um að krafan uppfylli efnisleg skilyrði þess að njóta framangreindrar rétthæðar við slitameðferðina en deilt er um hvort að í kröfulýsingu sóknaraðila hafi falist krafa um forgangsstöðu kröfu hans í skuldaröð eins og áskilið er í 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991.

Ekki verður séð að ágreiningur sé um málavexti. Krafa sóknaraðila, sem er hollenskt hlutafélag, er vegna heildsöluinnláns sem hann lagði til útibús varnaraðila í Hollandi 22. ágúst 2008. Átti fjárhæðin að viðbættum 5,36% vöxtum að vera laus til útborgunar 24. nóvember 2008.

Eins og alkunna er beitti Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 heimild stjórnvalda samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., til að taka yfir starfsemi Landsbanka Íslands hf. Skipaði Fjármálaeftirlitið þá skilanefnd til að taka við stjórn bankans. Bankinn var í samræmi við ákvæði laga nr. 44/2009 tekinn til slita og miðaðist upphaf slitameðferðar við gildistöku laganna 22. apríl 2009. Í kjölfarið var bankanum skipuð slitastjórn 29. apríl sama ár. Samkvæmt ákvæðum XII. kafla laga nr. 161/2002, sbr. lög nr. 44/2009, gilda í meginatriðum reglur laga nr. 21/1991 um slitameðferð fjármálafyrirtækja, þar á meðal um meðferð krafna á hendur slíku fyrirtæki. Þann 30. apríl 2009 gaf slitastjórn varnaraðila út innköllun til kröfuhafa. Frestur til að lýsa kröfum rann út sex mánuðum síðar og lauk því á miðnætti 30. október 2009.

Sóknaraðili lýsti kröfu sinni innan kröfulýsingarfrests og fékk hún númerið 3020 í kröfuskrá varnaraðila. Varnaraðili samþykkti kröfu sóknaraðila að fjárhæð 6.194.406,33 evrur sem umreiknast í kröfuskrá til 1.048.279.383 króna. Ekki er ágreiningur með aðilum um fjárhæð kröfunnar.

Varnaraðili telur að í kröfulýsingu sé ekki sett fram krafa um stöðu í skuldaröð eins og áskilið sé í 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 en aðeins sé tekið fram í kröfulýsingu að krafan varði samning um innstæðu milli útibús varnaraðila í Amsterdam og sóknaraðila. Varnaraðili skipaði kröfunni því í réttindaröð sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að kröfu hans hafi verið lýst sem innstæðukröfu og í verði að teljast felast fullnægjandi kröfugerð skv. nefndu lagaákvæði.

Í upphafi virðist ágreiningur aðila einnig hafa varðað hvort mótmæli sóknaraðila við afstöðu varnaraðila hefðu komið nægilega snemma fram en þeim ágreiningi var ekki haldið til streitu hér fyrir dómi og kemur því ekki frekar til álita. 

II

Sóknaraðili kveður kröfu sína lúta að því að krafa hans verði viðurkennd við slitameðferð varnaraðila eins og henni hafi verið lýst, þ.e. sem innstæðu og þar með forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Sóknaraðili kveðst mótmæla skilningi og túlkun varnaraðila á 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 og kröfulýsingu sóknaraðila. Sóknaraðili kveðst byggja á því að það sé ekki fortakslaus skylda skv. nefndu lagaákvæði að taka fram berum orðum hvaða stöðu í réttindaröð sé krafist. Í greininni segi þvert á móti að kröfur skuli tilteknar svo skýrt sem verða megi, en síðan komi upptalning í dæmaskyni á því hvað skuli tiltekið í kröfulýsingu, svo sem hverrar stöðu sé krafist að krafa njóti í skuldaröð. Upptalningin hefjist á orðunum „svo sem“ og ljúki á orðunum „o.s.frv.“ sem gefi skýrt til kynna að hér sé um upptalningu í dæmaskyni að ræða en ekki fortakslausa skyldu. Hins vegar sé ljóst af orðalagi lagagreinarinnar að það sé fortakslaus skylda að taka fram í hvers þágu krafa sé gerð. Það sama verði ekki sagt um stöðu í réttindaröð. Þar sem hér sé ekki um fortakslausa formkröfu að ræða sé að mati sóknaraðila engin ástæða til að taka form kröfulýsingarinnar fram yfir skýrt efni hennar.

Markmið reglunnar í 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 sé að tryggja að kröfu sé lýst þannig að það sé skýrt og ótvírætt hvert eðli hennar sé sem og þau málsatvik sem hún grundvallist á og að þannig sé hægt að skipa henni stað í réttindaröð í samræmi við þau réttindi sem fylgi  henni. Í þessu samhengi vísi sóknaraðili til skýrslu varnaraðila fyrir kröfuhafafund sem haldinn hafi verið 24. febrúar 2010, þar sem segi að almennt sé nægjanlegt að tilgreina viðeigandi lagaákvæði til þess að lýst krafa fái aðra rétthæð en almenn krafa en einnig geti texti kröfulýsingar gefið til kynna afstöðu kröfuhafa að þessu leyti. Þannig virðist slitastjórn varnaraðila leggja sama skilning í umrætt lagaákvæði.

Sóknaraðili hafi lýst kröfu sinni ótvírætt sem kröfu vegna innstæðu í kröfulýsingu. Þannig segi skýrlega í kröfulýsingu að krafa sóknaraðila sé vegna innstæðu, sbr. orðalagið „the claim concerns a deposit agreement“. Þá komi fram í sundurliðun á fjárhæðinni að 6.000.000 evrur séu innstæða eða „deposit“. Fylgigögn kröfulýsingarinnar sýni svo með enn skýrari og ótvíræðari hætti að um sé að ræða kröfu vegna innstæðu. Með lögum nr. 125/2008, sbr. lög nr. 44/2009, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki hafi innstæðum samkvæmt lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta verið veittur forgangsréttur samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Þannig sé ljóst af orðalagi kröfulýsingar sóknaraðila og fylgigögnum með henni að um sé að ræða innstæðu af sama meiði og fjölmörg hollensk sveitarfélög og aðrir aðilar hafi átt hjá varnaraðila. Þrátt fyrir að ekki hafi verið með berum orðum krafist stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 leiði það af eðli kröfunnar og efnislegri lýsingu á henni í kröfulýsingu að hún skuli njóta rétthæðar samkvæmt síðastnefndu lagaákvæði.

Kröfulýsing sóknaraðila hafi ekki einungis verið skilmerkilega úr garði gerð heldur sé engin ástæða til að ætla annað en að varnaraðila hafi verið það ljóst og fullkunnugt að hér hafi verið um innstæðukröfu að ræða sem njóti forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Í þessu samhengi sé rétt að taka fram að stöðu sóknaraðila verði á engan hátt jafnað við stöðu sóknaraðila í dómi Hæstaréttar frá 6. september 2012 í máli nr. 506/2012 hvar kröfuhafi hafi ranglega óskað eftir stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 þó krafa hans væri innstæðukrafa.

Sóknaraðili byggi að endingu á því að það feli í sér mismunun í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að eigendur innstæðna í erlendum útibúum varnaraðila hafi þurft að endurheimta innstæður sínar í gegnum slitameðferð bankanna, og þar með bera áhættu af vanlýsingaráhrifum, á meðan eigendur innstæðna í innlendum útibúum varnaraðila hafi ekki þurft þess og í raun ekki fundið neitt fyrir falli bankanna. Löggjafinn hafi lágmarkað þá mismunun sem fyrrgreindu innstæðueigendurnir, líkt og sóknaraðili, hafi orðið fyrir með því að veita þeim stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 með setningu hinna svonefndu neyðarlaga nr. 125/2008. Þess vegna beri að beita sérstökum sjónarmiðum í tilvikum eins og því sem hér sé til úrlausnar og leyfa innstæðueigendum að njóta vafans. Annað feli í sér mismunun sem bryti í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar, 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 64/1994 og 26. gr. alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem og 4. og 40. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993.

Þannig sé byggt á því að sóknaraðili og innstæðueigendur í innlendum útibúum bankanna séu samskonar aðilar og verði þess vegna að hljóta samskonar meðferð. Ef kröfu sóknaraðila yrði hafnað myndi sú mismunun sem hann hafi orðið fyrir þegar allar innstæður í útibúum varnaraðila á Íslandi hafi verið fluttar yfir í nýjan banka verða mun alvarlegri en ella þar sem sóknaraðili hafi þurft að bera hallann og áhættuna sem fylgi því að endurheimta innstæðu sína í gegnum slitameðferð varnaraðila.

Að öllu framangreindu virtu telji sóknaraðili að fallast eigi á kröfu hans.

Um lagarök kveðst sóknaraðili vísa til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. einkum 4. þáttar sem og meginreglu þeirra laga um jafnræði kröfuhafa, laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Að auki sé vísað til 65. gr. stjórnarskrárinnar, 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 26. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, 4. og 40. gr. samnings um Evrópska efnahagssvæðið og almennra meginreglna um bann við mismunun. Krafa um málskostnað sé studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

Helstu málsástæður varnaraðila eru þær að hann kveðst byggja á því að í kröfulýsingu sóknaraðila komi hvergi fram að krafa hans eigi að njóta stöðu forgangskröfu í réttindaröð við slitameðferð varnaraðila, hvorki ótilgreint eða almennt né með vísan til 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Slitastjórn hafi því eðli málsins samkvæmt tekið afstöðu til kröfunnar eins og henni hafi verið lýst, þ.e. á grundvelli 113. gr. laga nr. 21/1991. Krafa sóknaraðili um rétthæð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 hafi fyrst komið fram í mótmælabréfi sóknaraðila 17. febrúar 2012 en kröfulýsingarfrestur hafi runnið út 30. október 2009. Hafi krafa sóknaraðila um rétthæð kröfunnar því borist eftir að kröfulýsingarfrestur rann út. Hún sé þar af leiðandi of seint fram komin og komist ekki að við slitameðferðina, sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991. Í 2. mgr. 117. gr. sé meðal annars tiltekið að í kröfulýsingu skuli tiltaka kröfur svo skýrt sem verða megi, svo sem fjárhæð kröfu og vaxta í krónum og hverrar stöðu sé krafist að hún njóti í skuldaröð. Sóknaraðili hafi ekki lýst kröfu sinni sem forgangskröfu innan kröfulýsingarfrests og beri því að hafna henni.

Varnaraðili kveðst mótmæla þeim röksemdum sóknaraðila um túlkun á 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 að ekki sé fortakslaus skylda samkvæmt ákvæðinu að taka fram berum orðum hvaða stöðu sé krafist í réttindaröð.

Varnaraðili byggir og á því að þegar ekki sé krafist tiltekinnar stöðu í skuldaröð beri að skipa kröfu sem almennri kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 en ávallt þurfi að taka fram berum orðum vilji menn að kröfu þeirra verði raðað með öðrum hætti. Þá hafnar varnaraðili því að tilvísun 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 til þess að innstæður samkvæmt lögum nr. 98/1999 skuli njóta stöðu samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð fjármálafyrirtækja geti breytt skyldu sóknaraðila til að lýsa kröfunni réttilega.

Varnaraðili kveðst og mótmæla málsástæðum sóknaraðila í þá veru að það feli í sér mismunun í andstöðu við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 að eigendur innstæðna í erlendum útibúum varnaraðila hafi þurft að endurheimta innstæður sínar í gegnum slitameðferð varnaraðila á meðan eigendur innstæðna í innlendum útibúum hafi ekki þurft þess. Fái varnaraðili ekki séð hvernig framangreindri málsástæðu verði beint að honum og vísar til þess að það hafi verið Fjármálaeftirlitið sem hafi ákveðið 9. október 2008 að flytja innlendar innstæður til Nýja Landsbanka Íslands hf. en varnaraðili hafi ekki komið að þeirri ákvörðun með nokkrum hætti.

Varnaraðili kveðst hafna því að sóknaraðili hafi sætt mismunun við þá ákvarðanatöku sem um sé deilt í málinu. Þvert á móti telji varnaraðili að jafnræðisreglur leiði til þess að engin rök séu til þess að meðhöndla kröfu sóknaraðila með öðrum hætti en gert hafi verið.

Varnaraðili kveðst vísa til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. og laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Þá kveðst varnaraðili vísa til almennra meginreglna gjaldþrotaskiptalaga og skuldaskilaréttar. Þá vísar varnaraðili um málskostnaðarkröfu sína til 129., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.       

IV

Eins og ráða má af því sem rakið er hér að framan ræðst niðurstaða máls þessa af því hvort talið verður að kröfulýsing sóknaraðila sé þess efnis að fallast beri á að hann hafi réttilega krafist þess að krafa hans verði viðurkennd sem forgangskrafa skv. 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.

Í málinu liggur fyrir kröfulýsing sóknaraðila ásamt íslenskri þýðingu en kröfulýsingin er á ensku. Í hinni íslensku þýðingu er kröfulýsingin svohljóðandi: „Krafa þessi varðar innistæðusamning (sic) milli Landsbanka Íslands HF, útibúsins í Amsterdam og Cogas B.V…“ Þá kemur fram í sundurliðun fjárhæðarinnar að vísað er til höfuðstóls sem „innistæðu“. Á ensku hefst setningin á orðunum „This claim concerns a deposit agreement…“ og orðið „deposit“ er það orð sem þýtt hefur verið „innistæða“.

Í 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 þar sem fjallað er um efni kröfulýsingar segir m.a. „…að í henni skuli kröfur tilteknar svo skýrt sem verða [megi], svo sem fjárhæð kröfu og vaxta í krónum og hverrar stöðu sé krafist að hún njóti í skuldaröð, eða um afhendingu tiltekins hlutar, ákvörðun á tilgreindum réttindum á hendur þrotabúinu, lausn undan tiltekinni skyldu við það, skyldu þess til ákveðinnar athafnar eða til að láta af henni, greiðslu kostnaðar af innheimtu kröfunnar eða gæslu hagsmuna af henni o.s.frv.“

Í réttarframkvæmd hefur framangreint ákvæði verið talið fela í sér skyldu þess sem lýsir kröfu í þrotabú til að tilgreina sérstaklega hverrar stöðu hann krefst að krafan njóti, en geri hann það ekki er við það miðað að krafan falli undir 113. gr. laga nr. 21/1991 sem almenn krafa. Að mati dómsins er þessi skylda fortakslaus og fær meðal annars stoð í niðurstöðu dóms Hæstaréttar 6. september 2012 í máli réttarins nr. 506/2012 og dóms Hæstaréttar 23. janúar 2013 í máli réttarins nr. 763/2012. Það er mat dómsins að engin rök séu til þess að telja þá kröfulýsingu sem að framan er rakin fela í sér kröfu um forgang við slitameðferðina og er fallist á með varnaraðila að lýsing á því að krafan „varði innistæðusamning“ geti ekki falið í sér fullnægjandi kröfugerð að þessu leyti. Fá engar þær málsástæður sem sóknaraðili hefur teflt fram og ítarlega eru raktar hér að framan í kafla II haggað þessari niðurstöðu og er þeim öllum hafnað. Þegar af framangreindum ástæðum er kröfum sóknaraðila hafnað.

Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn með þeirri fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði. Hefur þá verið höfð hliðsjón af umfangi málsins, því að varnaraðili greiddi 250.000 krónur í þingfestingargjald vegna þess, sem og skyldu til greiðslu virðisaukaskatts. 

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu sóknaraðila, Cogas B.V., um að fjárkrafa hans að fjárhæð 1.048.279.383 krónur njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. er hafnað og staðfest sú niðurstaða slitastjórnar varnaraðila LBI hf. að krafan njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. sömu laga.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 551.000 krónur í málskostnað.