Hæstiréttur íslands
Mál nr. 219/1999
Lykilorð
- Handtaka
- Skaðabætur
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 16. desember 1999. |
|
Nr. 219/1999. |
Franklín Kristinn Steiner (Jón Magnússon hrl.) gegn íslenska ríkinu (Jón G. Tómasson hrl.) og gagnsök |
Handtaka. Skaðabætur. Gjafsókn.
F, sem margoft hafði komið við sögu lögreglunnar vegna brota á fíkniefnalöggjöfinni, var handtekinn og tilkynnt um að hann væri grunaður um að hafa fíkniefni í fórum sínum. Var þetta í samræmi við almenn fyrirmæli yfirlögregluþjóns um að stöðva skyldi menn sem þekktir væru fyrir meðferð fíkniefna eða hefðu hlotið dóma fyrir slíkt. Var F handjárnaður og færður á lögreglustöð, þar sem gerð var á honum líkamsleit og leit gerð í bifreið hans. Að því loknu var F látinn laus án þess að fíkniefni fyndust í fórum hans. F taldi handtökuna hafa verið ólögmæta og krafði íslenska ríkið um bætur af þeim sökum. Talið var, að þeir sem ítrekað hefðu komið við sögu fíkniefnamála gætu ekki kvartað undan því að vera stöðvaðir af lögreglu við almennt eftirlit. Væri eðlilegt, að þeir væru látnir gera grein fyrir ferðum sínum og jafnvel væri óskað eftir því að leita í bifreið viðkomandi á staðnum. Hins vegar þótti ekki annað í ljós leitt en að í greint sinn hefði mátt kanna þar á staðnum í hvaða erindagjörðum F var og eftir atvikum fá leyfi hans til að leita í bifreiðinni. Þá hefði verið sérstök ástæða fyrir þá að fara að með gát, þar sem þeir voru ekki að rannsaka ákveðið mál og F var með kornungan son sinn í bifreiðinni. Hafi ákvörðun lögreglumannanna um að handtaka F verið í engu samræmi við tilefnið og hafi almenn fyrirmæli yfirlögregluþjóns ekki veitt heimild til handtöku eins og á stóð. Af gögnum málsins þótti hins vegar ekki ráðið að lögreglumennirnir hefðu beitt F óþarfa harðræði eða að handtakan hefði farið fram með óvenjulegum hætti. Voru F dæmdar nokkrar bætur samkvæmt a. lið 176. gr. laga nr. 19/1991 fyrir miska og öflun læknisvottorðs.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlends-dóttir og Hrafn Bragason.
Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 8. júní 1999. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi greiði 1.009.988 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 9.988 krónum frá 11. nóvember 1997 til greiðsludags og 0.8% ársvöxtum af 1.000.000 krónum frá 3. október 1997 til 31. desember sama ár, með 0.9% ársvöxtum frá þeim degi til 28. febrúar 1998, með 0.8% ársvöxtum frá þeim degi til 30. apríl sama ár, með 0.7% ársvöxtum frá þeim degi til 5. október sama ár, með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá þeim degi til 5. nóvember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Málinu var gagnáfrýjað 11. ágúst 1999. Gagnáfrýjandi krefst aðallega sýknu af kröfum aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á stefnufjárhæð og að málskostnaður verði látinn falla niður.
Aðaláfrýjandi hefur gjafsókn fyrir Hæstarétti svo sem hann hafði í héraði.
I.
Aðaláfrýjandi hefur ítrekað komið við sögu lögreglunnar vegna brota á fíkniefnalöggjöfinni. Að kvöldi föstudagsins 3. október 1997 voru tveir lögreglumenn úr Kópavogslögreglunni við almennt umferðareftirlit á Dalsmára í Kópavogi og veittu þá athygli bifreiðinni ÍS-551 og kenndu aðaláfrýjanda sem ökumann bifreiðarinnar. Veittu þeir bifreiðinni eftirför og handtóku aðaláfrýjanda þegar hann hafði stöðvað bifreiðina fyrir framan hús við Lækjasmára í Kópavogi. Mun honum hafa verið kynnt að hann væri grunaður um að hafa fíkniefni í fórum sínum.
Í húsinu við Lækjasmára bjó fyrrum eiginkona aðaláfrýjanda. Sagðist hann hafa ætlað að heimsækja uppkomna dóttur þeirra, sem um þessar mundir dvaldi hjá móður sinni. Með aðaláfrýjanda í bifreiðinni var þriggja ára sonur hans. Lögreglumennirnir segja að aðaláfrýjandi hafi ekki sýnt neina mótspyrnu en þeir handjárnuðu hann þarna á staðnum. Drengurinn var hins vegar skilinn eftir í umsjá fyrrum eiginkonunnar, en hana þekkti barnið ekkert. Lögreglumennirnir fóru síðan með aðaláfrýjanda á lögreglustöðina þar sem gerð var á honum líkamsleit. Jafnframt var gerð leit í bifreiðinni að aðaláfrýjanda viðstöddum. Mun hann hafa samþykkt þessar aðgerðir en kveðst hafa gert það til þess að hann kæmist sem fyrst aftur til sonar síns. Aðaláfrýjanda var að því búnu afhent bifreiðin og látinn laus án þess að fíkniefni fyndust í fórum hans. Hann hafði verið handtekinn kl. 21.30 og mun hafa verið kominn aftur að Lækjasmára um kl. 23.30.
II.
Aðaláfrýjandi telur áðurgreinda handtöku hafa verið ólögmæta og einnig hafi lögreglan beitt hann óeðlilega miklu harðræði. Sækir hann íslenska ríkið um bætur samkvæmt 176. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Af hálfu gagnáfrýjanda er því haldið fram að handtakan hafi verið lögmæt samkvæmt ákvæðum 97. gr. sömu laga þegar höfð sé hliðsjón af afbrotaferli aðaláfrýjanda og rökstuddum grun lögreglunnar um að hann stundaði áfram fíkniefnasölu. Þá er því sérstaklega mótmælt að aðaláfrýjandi hafi verið beittur harðræði við handtökuna eða hún hafi verið framkvæmd á óþarflega særandi hátt. Verði hins vegar talið að handtakan hafi verið ólögmæt er því haldið fram að aðaláfrýjanda hafi ekki verið valdið neinum miska.
III.
Aðaláfrýjandi kærði þessa atburði til ríkissaksóknara 10. október 1997 og í janúar, júní og júlí 1998 fór fram sérstök lögreglurannsókn hjá ríkislögreglustjóra á handtökunni og tilefni hennar að fyrirlagi ríkissaksóknara. Við þá rannsókn kom fram að þáverandi yfirlögregluþjónn í Kópavogi hafði gefið lögreglumönnum þau almennu fyrirmæli að yrðu þeir við eftirlitsstörf varir við ferðir manna, sem þekktir væru fyrir meðferð fíkniefna eða hefðu hlotið dóma fyrir slíkt, skyldu þeir stöðva þá og eftir atvikum gera leit hjá þeim að fíkniefnum, færa þá á lögreglustöð og kanna hvort þeir væru undir áhrifum fíkniefna. Sérstaklega ætti að gera þetta væru þessir menn einir á ferð á kvöldin og um helgar.
Að lokinni framangreindri rannsókn tók ríkissaksóknari mál þetta til afgreiðslu 10. ágúst 1998. Í ákvörðun hans þann dag segir meðal annars: „Meginskilyrði þess að lögreglunni sé heimilt að handtaka mann samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19, 1991 er að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að hann hafi framið brot sem sætt getur ákæru. Þannig er handtakan liður í rannsókn lögreglunnar á tilteknu broti sem hinn handtekni maður er grunaður um að hafi framið. Því má ljóst vera að almenn fyrirmæli eins og þau sem yfirlögregluþjónninn kveðst hafa gefið undirmönnum sínum hafa ekki stoð í 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19,1991. Í tilviki því sem hér er til athugunar og meðferðar verður ekki séð að fyrir hendi hafi verið rökstuddur grunur um að Franklín Steiner hafi framið brot sem lögreglan var að rannsaka. Hafði lögreglan því ekki heimild til að handtaka hann með vísan til 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19, 1991.“
Um harðræði við framkvæmd handtökunnar segir í ákvörðun ríkissaksóknara að aðstoðarvarðstjórinn, sem handtökuna framkvæmdi, hafi í skýrslu sinni sagt að engin átök hafi orðið og að aðaláfrýjandi hefði verið settur í handjárn samkvæmt starfsvenju. Af læknisvottorði sem frammi liggur í málinu verði ekki ráðið að til átaka hafi komið og að sonur aðaláfrýjanda hefði orðið eftir í vörslu fyrrum eiginkonu hans með vitund og vilja hans.
Miðað við þá málavexti sem fyrir lágu þótti ríkissaksóknara með vísan til 112. gr. laga nr. 19/1991 ekki efni til frekari aðgerða ákæruvaldsins út af ætluðu harðræði lögreglunnar.
IV.
Í ákvörðun ríkissaksóknara, sem rakin er hér að framan, koma fram helstu skilyrði þess að heimilt sé að handtaka mann, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991. Aðrar handtökuheimildir koma hér ekki við sögu. Fyrrverandi yfirlögregluþjónn lögreglunnar í Kópavogi staðfesti fyrir dómi að hann hefði gefið lögreglumönnum sínum þau almennu fyrirmæli sem um getur í lögregluskýrslu.
Þeir sem ítrekað hafa komið við sögu fíkniefnamála geta ekki kvartað undan því að vera stöðvaðir af lögreglu við almennt eftirlit. Eðlilegt er þá að þeir séu látnir gera grein fyrir ferðum sínum og jafnvel sé óskað eftir því að fá að leita í bifreið viðkomandi á staðnum. Það verður hins vegar að vera komið undir mati þeirra lögreglumanna sem framkvæma svo almenn fyrirmæli að taka ákvarðanir um áframhaldandi aðgerðir í samræmi við aðstæður og lagareglur.
Aðaláfrýjandi hafði margsinnis komið við sögu fíkniefnamála og gat því verið eðlilegt að lögreglumennirnir hefðu afskipti af honum þótt grunur hafi ekki beinst að honum í tilteknu máli. Hins vegar er ekki annað í ljós leitt en að í greint sinn, þegar þeir höfðu afskipti af aðaláfrýjanda fyrir utan húsið að Lækjasmára, hefði mátt kanna þar á staðnum í hvaða erindagerðum hann var og eftir atvikum fá leyfi hans til að leita í bifreiðinni. Þá var sérstök ástæða fyrir þá að fara að með gát þar sem þeir voru ekki að rannsaka ákveðið mál og hann var með kornungan son sinn í bifreiðinni. Í stað þessa er ekki annað fram komið en að þeir hafi handtekið hann án þess að gefa honum færi á að gera grein fyrir ferðum sínum. Sjálfir halda lögreglumennirnir því fram að aðaláfrýjandi hafi enga mótspyrnu veitt. Ákvörðun þeirra um að handtaka hann var þannig í engu samræmi við tilefnið og veittu þau almennu fyrirmæli, sem þeir höfðu og yfirlögregluþjónninn hefur staðfest að hafa gefið þeim, ekki heimild til handtöku eins og á stóð. Af gögnum málsins verður hins vegar ekki ráðið að þeir hafi beitt aðaláfrýjanda óþarfa harðræði eða að handtakan hafi farið fram með óvenjulegum hætti.
Með framangreint í huga verður að telja að handtaka aðaláfrýjanda að kvöldi 3. október 1997 hafi verið ólögmæt og beri að dæma honum nokkrar bætur samkvæmt a. lið 176. gr. laga nr. 19/1991. Aðaláfrýjandi krefst miskabóta og bóta vegna greiðslu læknisvottorðs sem hann aflaði. Þykja bætur til aðaláfrýjanda hæfilega metnar með tilliti til málsatvika 40.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þingfestinu málsins í héraði 8. október 1998.
Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður þar með talin málflutningslaun lögmanns aðaláfrýjanda greiðist úr ríkissjóði.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, íslenska ríkið, greiði aðaláfrýjanda, Franklín Kristni Steiner, 40.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. október 1998 til greiðsludags.
Málskostnaðarákvæði héraðsdóms skal vera óraskað.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, 120.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var 7. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Lúðvík Emil Kaaber hdl. fyrir hönd Franklíns Kristins Steiner, kt. 140247-5459, Austurgötu 26 b, Hafnarfirði, á hendur dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, með stefnu, sem birt var 5. október 1998.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði gert að greiða stefnanda 1.009.988 kr. ásamt vöxtum sem hér segir:
1)Af kr. 9.988,00:
a)16,5% á ári frá 11. nóvember 1997 til birtingardags stefnu
þessarar.
b)Dráttarvexti skv. 10. gr. vaxtalaga, nr. 25/1987, frá birtingardegi
stefnu þessarar til greiðsludags.
2)Af kr. 1.000.000,00:
a)0,8% á ári frá 3. október 1997 til 31. desember 1997.
b)0,9% á ári frá 1. janúar 1998 til 28. febrúar 1998.
c)0,8% á ári frá 1. mars 1998 til 30. apríl 1998.
d)0,7% á ári frá 1. maí 1998 til birtingardags stefnu þessarar.
e)Vextir skv. 7. gr. vaxtalaga, nr. 25/1987, í einn mánuð frá
birtingardegi stefnu þessarar.
f)Dráttarvexti skv. 10. gr. vaxtalaga, nr. 25/1987, frá þeim degi
þegar liðinn er einn mánuður frá birtingardegi stefnu þessarar, og
til greiðsludags.
Enn fremur er þess krafist að stefndu verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál og þar verði tillit tekið til skyldu lögmanna að greiða virðisaukaskatt af þóknun sinni.
Dómkröfur stefnda eru aðallega að það verði sýknað af kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins. Til vara er gerð krafa um verulega lækkun stefnufjárhæðarinnar og verði þá málskostnaður látinn niður falla.
Aðdragandi þessa máls er að stefnandi var handtekinn af lögreglunni við Lækjarsmára 86 í Kópavogi að kvöldi föstudagsins 3. október 1997. Í skýrslu lögreglunnar um atburðinn segir m.a. að stefnanda hefði verið gerð grein fyrir því að hann væri handtekinn vegna gruns um að hann hefði fíkniefni undir höndum. Stefnandi hafi verið færður á lögreglustöðina þar sem gerð hafi verið á honum líkamsleit. Jafnframt hafi verið leitað í bifreið stefnanda. Að leit lokinni hafi stefnandi verið frjáls ferða sinna.
Af hálfu stefnanda er haldið fram að handtakan hafi farið fram á grófan og harðneskjulegan hátt enda þótt stefnandi hefði ekki veitt neina andspyrnu og raunar lagt sig fram um að sýna lögreglumönnum þeim, sem handtökuna framkvæmdu, fyllstu kurteisi. Stefnandi hefði verið með þriggja ára son sinn í bifreiðinni. Hefði barnið orðið skelfingu lostið við aðfarir lögreglumanna en lögreglumennirnir hefðu ekki sýnt því neina nærgætni. Hefðu þeir virst ætla að skilja barnið eftir umhirðulaust á götunni. Svo heppilega hefði þó viljað til að Margrét Ágústsdóttir, er stefnanda þekkir, var heima að Lækjarsmára 86. Tók hún barnið að sér þá er stefnanda, handjárnaður fyrir aftan bak, var ýtt með valdi inn í bifreið lögreglunnar og hafður á brott.
Stefnandi kveðst hafa verið færður á lögreglustöðina í Kópavogi og honum tjáð að hann yrði hafður í haldi þar til úrskurður dómara fengist til leitaraðgerða, nema hann gengist sjálfviljugur undir leit. Stefnandi kveðst raunar ekki hafa átt kost á öðru en samþykkja leitina þó honum væri það á móti skapi, þar sem hann hefði haft miklar áhyggur af syni sínum og orðið að komast sem fyrst aftur til hans. Hefði hann verið látinn berhátta sig og leit hafi verið gerð á honum og í klæðum hans. Því næst hefði verið leitað í bifreið hans, en honum síðan sleppt.
Í framhaldi af handtökunni fór stefnandi til læknis. Segir í læknisvottorði af þessu tilefni m.a. að stefnandi kvarti um verki aðallega frá hægri olnboga og sé hann aumur við þreifingu yfir olnboganum utanverðum, en snúið hafi verið upp á hægri handlegg þegar hann var settur í handjárn. "Ekki sjáist þó nein áverkamerki á olnboganum, en röntgenmynd sýnir örlitla vökavasöfnun í liðnum, en engin önnur merki um nýjan áverka. Að öðru leyti eru roðahringir um úlnlið."
Í bréfi ríkissaksóknara til lögmanns stefnanda 10. ágúst 1998 segir m.a.:
Í tilviki því sem hér er til athugunar og meðferðar verður ekki séð að fyrir hendi hafi verið rökstuddur grunur um að Franklín Steiner hafi framið brot sem lögreglan var að rannsaka. Hafði lögreglan því ekki heimild til að handtaka hann með vísan til 1. mgr. 97. gr. laga nr 19, 1991.
Mál þetta kveðst stefnandi höfða til greiðslu skaðabóta vegna ólögmætrar handtöku og ólögmætrar líkamsleitar og leitar í bifreið, svo og vegna ólögmæts og ástæðulauss harðræðis við framkvæmd handtökunnar að kvöldi 3. október 1997. Meginhluti fjárkröfu stefnanda sé til bóta fyrir ófjárhagslegt tjón, þar sem ekki verði sýnt fram á beint fjártjón, en að auki sé gerð krafa til greiðslu á útlögðum kostnaði að upphæð 9.988 kr. fyrir læknisvottorð. Vaxta sé krafist samkvæmt 7., 10. og 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi um margra ára skeið legið undir grun hjá lögreglu að hafa af því framfæri að versla með ólögleg fíkniefni. Vegna þess hefði lögreglan gefið ferðum stefnanda sérstakar gætur eftir því sem tilefni hafi gefist til. Svo hafi verið þegar stefnandi var handtekinn af lögreglu í Kópavogi 13. apríl 1996 við ætluð fíkniefnaviðskipti við Elliðavatnsveg en handtakan þá hafi leitt til útgáfu ákæru ríkissaksóknara og síðar dóms Hæstaréttar fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni.
Í ljósi gruns og ábendinga um meint fíkniefnamisferli stefnanda, sem borist hefðu lögreglu um margra ára skeið, bæði fyrir og eftir handtöku hans 13. apríl 1996, verði að telja að handtakan að kvöldi 3. október 1997 sé byggð á lögmætum ástæðum samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991. Stefnandi hefði á þessum tíma legið undir stöðugum og viðvarandi grun um ólögleg viðskipti með fíkniefni.
Rannsóknargögn málsins bendi ekki til þess að handtakan hafi verið framkvæmd á óþarflega grófan eða harðneskjulegan hátt. Stefnandi hefði ekki sýnt neina mótspyrnu utan þess að andmæla handtökunni munnlega, að öðru leyti hafi hann verið samvinnuþýður. Hugsanleg skýring á ætluðum áverkum á úlnliðum stefnanda kunni að stafa af því að hann óviljandi hafi hert að handjárnunum sem séu þannig búin að herðast sjálfkrafa við átak. Á áverkavottorðinu komi á hinn bóginn ekkert fram um að stefnandi hefði þurft læknismeðferðar við og ekki liggi fyrir upplýsingar um tekjutap hans eða örorku af völdum hinna ætluðu meiðsla.
Staðhæfingum stefnanda um að ekki hefði verið gætt velferðar sonar stefnanda andmælir stefndi. Lögreglumenn hefðu samstundis gert ráðstafanir til að koma barni stefnanda í hendur vandamanna og hefði stefnandi sjálfur óskað eftir því að fyrrverandi eiginkona hans tæki barnið í sína umsjá á meðan á handtökunni stæði sem og hefði gerst.
Umrædd handtaka og eftirfarandi líkamsleit byggðust á lögmætum sjónarmiðum. Ástæðulausu harðræði hefði ekki verið beitt hvorki gagnvart stefnanda sjálfum né syni hans. Því væri ríkissjóður ekki bótaskyldur.
Til vara gerir stefndi kröfu um verulega lækkun stefnufjárhæðar sem hann telur, eins og hún er fram sett, fjarri því að vera raunhæfa eða í samræmi við dómvenju.
Niðurstaða:
Fyrir rétti kvaðst stefnandi vera öryrki. Hann neitaði að svara spurningum lögmanns stefnda um atvinnutekjur sínar eða af hverju hann hefði haft framfæri sitt frá árinu 1997. Stefnandi kvaðst hafa verið beittur gróflegri nauðung og harðneskju við handtökuna og látið sér það lynda þá til að komast sem fyrst aftur til þriggja ára sonar síns, sem hefði verið viðstaddur handtökuna, orðið var við ofbeldið gegn föður sínum og verið skilinn eftir grátandi hjá fólki, sem var barninu ókunnugt.
Margrét Ágústsdóttir, sem búsett er að Lækjarsmára 86 í Kópavogi, kom fyrir réttinn. Hún var gift stefnanda á árum áður og mun stefnandi hafa verið að koma í heimsókn til dóttur þeirra sem búsett er í Danmörku en var stödd hér á landi á þeim tíma hjá móður sinni. Hún segir að dyrasími heimilisins hefði gefið boð umrætt kvöld. Sá sem hringdi hefði tjáð sig vera lögreglumann. Hún kveðst ekki muna glögglega orð hans en hann hafi eitthvað verið að tala um Franklín, stefnanda þessa máls, og eitthvert barn. Hún kvaðst ekki alveg hafa náð því hvað maðurinn sagði. Hún kvaðst hafa tjáð honum að hún hefði verið gift stefnanda fyrir 16 árum og hefði ekkert með mál hans að gera nú. Samtalinu hefði þá lokið. Hefði þá upphafist mikill gauragangur fyrir utan. Hún hafi þá farið út að glugga og séð að lögregla var að handjárna stefnanda með stöðu við bifreið hans. Þetta hafi ekki ætlað neinn enda að taka og stefnandi kallað á hana. Henni hafi því komið til hugar að stoppa þetta á einhvern hátt og gengið út. Drengurinn litli hafi verið inni í bifreiðinni. Stefnandi hafi beðið hana að taka hann að því er hana minnir. Hún kveðst óljóst minnast þess að hafa spurt lögreglumennina hvort þeir ætluðu að skilja barnið eftir. Drengurinn hafi ekki þekkt hana neitt og ekki viljað fúslega koma með henni. Barnið hafi reyndar hágrátið en hún hafi tekið það og farið með það inn. Dóttir hennar hafi komið nokkru síðar heim. Litli drengurinn hafi þekkt hana og eitthvað róast en grátið allan tímann meðan faðir hans var í burtu. Aðspurð kvaðst hún hafa séð og orðið þess vör að meðferð lögreglunnar á stefnanda var hranaleg.
Magnús Einarsson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn, kom fyrir réttinn. Kvaðst hann hafa gefið fyrirmæli til sinna manna um að stöðva menn, sem væru þekktir fíknefnasalar og hlotið dóma fyrir slíkt, og leita að fíkniefnum hjá þeim. Kvaðst hann alloft hafa fengið ábendingar símleiðis frá ónefndum aðilum um að stefnandi stundaði fíkniefnasölu.
Sævar Þór Finnbogason, aðstoðarvarðstjóri hjá lögreglunni í Kópavogi, bar fyrir rétti að syni stefnanda hafi verið komið í hendur á Margréti Ágústsdóttur áður en stefnandi var færður í handjárn. Engin átök hefðu orðið við handtökuna. Stefnandi hafi ekki mótmælt því að gerð yrði leit á honum eða í bifreið hans.
Í framburði Ásgeirs Karlssonar, lögreglufulltrúa í ávana- og fíkniefnadeild, fyrir réttinum kom fram, að ekki liði sú vika án þess að ótilgreint fólk greindi starfsmönnum deildarinnar frá því að stefnandi væri stöðugt við sölu fikniefna. Hann kvað það næsta erfitt ef ekki ógerning vegna eðli fíkniefnabrota að hindra þessa starfsemi nema leitað væri á þekktum fíkniefnasölum án þess fyrir því væri ákveðin ábending um að efnið væri þá stundina í vörslum þeirra.
Ekki hefur komið fram í málinu að lögreglan hafi verið að rannsaka ákveðið brot, sem ætla mætti að stefnandi hefði framið, er hann var handtekinn. Fallast má því á álit ríkissaksóknara, sem kemur fram í bréfi hans frá 10. ágúst 1998, að lögreglunni hafi ekki verið heimilt að handtaka stefnanda í þetta sinn með vísan til 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991. Á hitt ber samt að líta að stefnandi er margdæmdur fíkniefnasali og hefur fyrir rétti ekki viljað upplýsa af hverju hann hefur framfæri sitt.
Mönnum ber ekki saman um aðferð og athafnir lögreglunnar við handtökuna en ljóst er að handtaka er aldrei nein kurteisisathöfn og getur sjálfsagt í augum þeirra, sem sjaldan eða aldrei hafa áður verið vitni að slíku, virst hranaleg án þess að um hrottaskap sé að ræða. Í læknisvottorði, sem lagt var fram í málinu af hálfu stefnanda, segir m.a. að roði um úlnliði stefnanda geti samrýmst minni háttar blæðingu en ekki hafi áverkar þessir þarfnast meðferðar. Þeir lögreglumenn, sem sáu um handtöku stefnanda og leit á honum, segja að stefnandi hafi ekki verið beittur neinum hrottaskap. Af þessu er ályktað að athafnir lögreglunnar hafi ekki verið harðari en gengur og gerist við handtöku fíkniefnasala og nauðsynlegar eru til öryggis.
Handtaka lögreglunnar á stefnanda að þessu sinni hefur engan veginn aukið við þá hneisu og skömm sem stefnandi sjálfur hafði áður vakið á sér með því að miðla fíkniefnum eins og hann hefur margsinnis verið dæmdur fyrir. Sjálfur hefur hann kosið að gefa engar yfirlýsingar um að hafa bætt ráð sitt og hann sé nú horfinn frá dreifingu eiturlyfja. Miski er því óverulegur ef nokkur. Ómælt tjón, er hann hefur valdið þjóð sinni með eiturlyfjasölu, er meira en svo að miskabætur til hans frá íslenska ríkinu séu réttmætar hvað þá sanngjarnar enda þótt í þetta skipti hafi ekki verið sérstakt tilefni til að handtaka stefnanda.
Samkvæmt framangreindu er rétt að stefndi, íslenska ríkið, greiði útlagðan kostnað stefnanda að fjárhæð 9.988 kr. með umkröfðum vöxtum. Rétt er að málskostnaður falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 150.000 kr., greiðist úr ríkissjóði.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Franklín Kristni Steiner, 9.988 kr. með 16,5% vöxtum frá 11. nóvember 1997 til 5. október 1998, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 150.000 kr., greiðist úr ríkissjóði.