Hæstiréttur íslands
Mál nr. 283/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Forsjá
- Frávísunarúrskurður staðfestur
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 30. apríl 2015. |
|
Nr. 283/2015. |
M (Sævar Þór Jónsson hdl.) gegn K (Hjalti Steinþórsson hrl.) |
Kærumál. Forsjá. Frávísunarúrskurður staðfestur. Gjafsókn.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli M á hendur K var vísað frá dómi þar sem ekki hafði farið fram sáttameðferð um kröfu M um sameiginlega forsjá málsaðila yfir syni þeirra, sbr. 1. mgr. 33. gr. a. barnalaga nr. 76/2003. Í dómi Hæstaréttar kom fram að héraðsdómsstefna M hefði verið í andstöðu við áskilnað 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um skýran og glöggan málatilbúnað. Að þessu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, var hann staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. apríl 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. apríl 2015 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar, án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Samkvæmt héraðsdómsstefnu eru dómkröfur sóknaraðila þær að kveðið verði á um sameiginlega forsjá málsaðila yfir syni þeirra, A, til 18 ára aldurs hans og inntak umgengnisréttar sóknaraðila við drenginn „að mati dómsins en að lágmarki aðra hverja helgi“. Þá krefst sóknaraðili þess að dómari ,,úrskurði til bráðabirgða um umgengni ... við barnið aðra hvora helgi þar til endanlegur dómur gengur í málinu.“
Í stefnunni skortir mjög á að gerð sé nægileg grein fyrir atvikum málsins og reifað á hverju krafa sóknaraðila um sameiginlega forsjá er reist, enda virðist málið öðru fremur höfðað til að fá úrlausn dóms um umgengni við barnið. Ekki er skilið milli málsástæðna til stuðnings þeirri kröfu og kröfu um forsjá og samhengi málsástæðna því óljóst. Þótt sóknaraðila sé samkvæmt 1. mgr. 41. gr. barnalaga nr. 76/2003 ætlað ákveðið svigrúm til að koma að nýjum málsástæðum fram að dómtöku máls, takmarkast það af áskilnaði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað stefnanda sbr. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 76/2003. Samkvæmt framangreindu er stefnan í andstöðu við þessa meginreglu einkamálaréttarfars.
Að þessu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða kærumálskostnað, svo sem segir í dómsorði. Um gjafsóknarkostnað varnaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, M, greiði 200.000 krónur í kærumálskostnað sem renni í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 200.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. apríl 2015.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 4. mars sl., var höfðað 28. október 2014.
Stefnandi er M, [...], [...]. Stefnda er K, [...], [...].
Dómkröfur stefnanda í málinu eru þær að með dómi verði kveðið á um sameiginlega forsjá málsaðila yfir syni þeirra, A, kt. [...], til átján ára aldurs drengsins. Einnig krefst stefnandi þess að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar hans við drenginn „... að mati dómsins en að lágmarki aðra hverja helgi.“ Stefnandi krefst þess enn fremur að dómari úrskurði til bráðabirgða um umgengni stefnanda við drenginn aðra hvora helgi þar til endanlegur dómur gengur í málinu. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Kröfur stefndu eru aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi. Til vara krefst stefnda þess að kröfu stefnanda um að dómari úrskurði til bráðabirgða um umgengni stefnanda við son málsaðila, aðra hvora helgi þar til dómur gengur í málinu, verði vísað frá dómi. Til þrautavara krefst stefnda sýknu af öllum kröfum stefnanda. Í öllum tilvikum krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Að undangengnum munnlegum málflutningi 4. mars sl. var tekin til úrskurðar krafa stefndu um að máli þessu verði vísað frá dómi. Stefnandi gerir þær kröfur í þessum þætti málsins að frávísunarkröfu stefndu verði hrundið.
I
Stefnda reisir kröfu sína um frávísun í fyrsta lagi á því að málatilbúnaður stefnanda sé svo vanreifaður að skilyrðum d- og e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, barnalaga nr. 76/2003 og meginreglu réttarfars um ákveðna og ljósa kröfugerð sé ekki fullnægt. Málatilbúnaður stefnanda sé svo óljós og misvísandi að hann takmarki verulega eða geri nánast ómögulegt fyrir stefndu að halda uppi vörnum í málinu. Því beri dómara að vísa málinu frá.
Í stefnu sé í einu lagi gerð grein fyrir málavöxtum og málsástæðum og svo virðist sem þeim sé blandað saman varðandi annars vegar kröfu stefnanda um forsjá og hins vegar kröfu stefnanda um umgengni við drenginn. Reifun málsatvika sé heilt yfir með öllu ófullnægjandi og rökstuðningur stefnanda fyrir dómkröfum lítill sem enginn. Þá sé í stefnu í engu vikið að því hvar lögheimili drengsins skuli vera, verði fallist á kröfu stefnanda um sameiginlega forsjá.
Stefnda segir í stefnu hvergi vísað til þeirra lagaákvæða sem hinn óljósi málatilbúnaður stefnanda sé reistur á heldur látið við það sitja að vísa í barnalög nr. 76/2003 í heild sinni. Af þeim sökum sé nánast útilokað fyrir stefndu að taka til varna gegn aðalkröfu stefnanda. Þrátt fyrir þær ríku skyldur sem lagðar séu á dómara máls samkvæmt VI. kafla barnalaga um að upplýsa mál þannig að niðurstaða þess hafi hag barns að leiðarljósi, gildi um meðferð mála samkvæmt lögunum almennar reglur laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 38. gr. barnalaga. Stefnda telji að málatilbúnaður stefnanda sé svo á skjön við grunnreglur barnalaga nr. 76/2003 og grunnreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991, einkum e-lið 1. mgr., að vísa beri málinu frá dómi.
Í öðru lagi kveðst stefnda reisa aðalkröfu sína um frávísun á því að skilyrði 33. gr. a. barnalaga nr. 76/2003, um að sáttameðferð skuli fara fram hjá sýslumanni áður en forsjármál sé höfðað, sé ekki uppfyllt í málinu. Því beri að vísa málinu frá dómi.
Stefnda segir fyrirliggjandi sáttavottorð hafa verið gefið út af sýslumanninum í [...] vegna ágreinings málsaðila varðandi umgengni stefnanda við son aðila. Ljóst sé að sáttameðferð vegna kröfu stefnanda um forsjá barnsins hafi aldrei farið fram hjá sýslumanninum í [...] og sé stefndu ekki kunnugt um að stefnandi hafi nokkurn tímann vakið máls á þeirri kröfu hjá sýslumanni. Það hafi ekki verið fyrr en stefndu var birt stefna máls þessa sem henni hafi verið kynnt sú ætlan stefnanda.
Stefnda kveðst telja ljóst, bæði af ákvæði 1. mgr. 33. gr. a. barnalaga nr. 76/2003 og af ummælum í greinargerð, sem fylgdi frumvarpi til laga nr. 144/2012 til breytinga á barnalögum, að það sé ófrávíkjanlegt skilyrði samkvæmt lögunum að foreldrar undirgangist sáttameðferð áður en mál er höfðað um forsjá barns. Í því tilviki sem hér um ræði liggi fyrir samkvæmt framansögðu að það skilyrði sé ekki uppfyllt. Þá bendi stefnda sérstaklega á að stefnanda hafi verið í lófa lagið að krefjast úrskurðar sýslumanns um umgengni, sbr. ákvæði 47. gr. barnalaga, en hefði sú krafa komið fram hefði báðum aðilum verið gefinn kostur á að koma fram sjónarmiðum varðandi umgengni stefnanda við drenginn. Það hafi stefnandi hins vegar kosið að gera ekki.
Samkvæmt öllu framangreindu segir stefnda að vísa beri málinu frá dómi.
Varakröfu sína um að vísað verði frá dómi þeirri kröfu stefnanda að dómari úrskurði til bráðabirgða um umgengni stefnanda við son málsaðila, aðra hvora helgi þar til dómur gengur í málinu, reisir stefnda á því að engin lagaheimild sé fyrir því að fallast á þá kröfu. Ákvæði 6. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003, sem stefnandi vísi til kröfunni til stuðnings, eigi ekki við. Bendir stefnda á að í 1. mgr. 35. gr. barnalaga sé mælt fyrir um heimild dómara til þess að úrskurða að kröfu aðila til bráðabirgða um forsjá eða lögheimili barns á meðan mál er rekið fyrir dómi. Í sama úrskurði geti dómari kveðið á um umgengni og meðlag til bráðabirgða. Samkvæmt þessu sé það skilyrði fyrir því að dómari úrskurði um umgengni við barn til bráðabirgða að krafa um úrskurð til bráðabirgða um forsjá og lögheimili barns sé lögð fram samhliða. Hvergi sé í barnalögum að finna heimild til þess að kveða megi eingöngu á um umgegni til bráðabirgða í úrskurði dómara. Af þeim sökum beri að vísa umræddri kröfu stefnanda frá dómi.
II
Við munnlegan málflutning um frávísunarkröfu stefnda mótmælti stefnandi kröfunni og þeim röksemdum sem hún byggir á.
Stefnandi segir mál þetta dómtækt í þeim búningi sem það hafi verið þingfest í. Fullyrðingar stefndu um annað séu rangar. Dómkröfur stefnanda séu fyllilega í samræmi við d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá séu málsástæður stefnanda skýrar og nægjanlega tilgreindar í stefnu.
Hvað lýsingu málsatvika varðar segir stefnandi hana vera fullnægjandi. Sérstaklega sé þar vikið að umgengnistálmunum stefndu en á þeim byggi dómkröfur stefnanda meðal annars.
Stefnandi segir sáttavottorð liggja frammi frá embætti sýslumannsins í [...]. Skilyrði 33. gr. a. barnalaga nr. 76/2003 um undanfarandi sáttameðferð sé því uppfyllt í málinu.
Þá tekur stefnandi sérstaklega fram að misritun sé að finna í stefnu hvað varði lagatilvísun. Þar sem vísað sé til 6. mgr. 34. gr. barnalaga eigi að sjálfsögðu að vera tilvísun til 5. mgr. sömu lagagreinar. Um heimild dómara til þess að úrskurða um umgengni til bráðabirgða að kröfu aðila sé af hálfu stefnanda vísað til 1. mgr. 35. gr. barnalaga.
Stefnandi bendir enn fremur á að samkvæmt 1. mgr. 41. gr. barnalaga geti aðilar borið fram nýjar málsástæður og haft uppi ný andmæli allt til þess er mál er dómtekið. Þá sé dómari í málum af þessum toga ekki bundinn af málsástæðum aðila, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.
Samkvæmt framansögðu kveður stefnandi engin efni til að fallast á kröfu stefndu um frávísun málsins.
III
Svo sem áður er rakið lúta dómkröfur stefnanda í málinu, auk kröfu um málskostnað, annars vegar að forsjá sonar málsaðila, A, og hins vegar að umgegni stefnanda við drenginn.
Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. a. barnalaga nr. 76/2003 er foreldrum skylt að leita sátta samkvæmt greininni áður en krafist er úrskurðar eða höfðað mál um forsjá, lögheimili, umgengni, dagsektir eða aðför. Markmið með sáttameðferð er að hjálpa foreldrum að gera samning um þá lausn máls sem er barni fyrir bestu, sbr. 3. mgr. 33. gr. a. barnalaga.
Ákvæði 33. gr. a. kom inn í barnalög með 12. gr. breytingalaga nr. 61/2012. Í athugasemdum í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til laganna sagði meðal annars að í 1. mgr. ákvæðisins væri mælt fyrir um skyldu til að undirgangast sáttameðferð áður en unnt væri að krefjast úrskurðar eða höfða mál um tiltekin ágreiningsefni, þ.e. mál um forsjá, umgengni eða dagsektir. Ljóst væri að foreldrar gætu deilt um öll þessi atriði á mismunandi tímum. Rétt þætti engu að síður að gera þeim almennt að leita sátta í hvert sinn sem krafist væri úrskurðar eða höfðað væri mál, enda mætti ganga út frá því að æskilegt væri að skoða sérstaklega í hverju ágreiningur foreldra væri fólginn í hvert sinn og hvort unnt væri að hjálpa þeim að sætta mál.
Framlagt vottorð sýslumannsins í [...] um sáttameðferð samkvæmt 33. gr. a. barnalaga tekur samkvæmt efni sínu eingöngu til ágreinings málsaðila um umgengni stefnanda við son aðila. Í vottorðinu er hvergi vikið að ágreiningi aðila um forsjá drengsins. Þá er í öðrum gögnum málsins enga vísbendingu að finna um að leitað hafi verið sátta vegna þess ágreinings.
Eins og áður var rakið er í 1. mgr. 33. gr. a. barnalaga kveðið á um að foreldrum sé skylt að leita sátta samkvæmt greininni áður en mál er höfðað um forsjá barns. Samkvæmt framansögðu hefur engin sáttameðferð farið fram vegna ágreinings aðila um forsjá sonar þeirra, en telja verður ljóst af orðum lagaákvæðisins, sem og áður tilvitnuðum athugasemdum við ákvæðið í greinargerð, að framlagt sáttavottorð vegna ágreinings um umgengni stefnanda við drenginn getur ekki talist uppfylla skilyrði ákvæðisins um sáttameðferð fyrir höfðun máls um forsjá hans. Á dómurinn því ekki annan kost en vísa máli þessu frá dómi.
Stefndu var veitt gjafsókn til reksturs máls þessa fyrir héraðsdómi með bréfi innanríkisráðuneytisins 3. mars sl. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Þuríðar Sigurjónsdóttur hdl., greiðist því úr ríkissjóði, en þóknunin þykir að virtu umfangi málsins og að teknu tilliti til tímaskráningar lögmannsins hæfilega ákveðin 695.640 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.
Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. barnalaga eru mál vegna forsjár eða lögheimilis barns rekin eftir almennum reglum um einkamál nema að því leyti sem mælt er fyrir á annan veg í lögunum. Í 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er kveðið á um það að gera skuli stefnanda að greiða stefnda málskostnað ef máli er vísað frá dómi eða það er fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efni þá skyldu sem hann er krafinn um í máli. Í ljósi dómvenju í málum af þessum toga og eins og hér stendur á þykir allt að einu rétt að málskostnaður falli niður.
Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu úrskurðarins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, K, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Þuríðar B. Sigurjónsdóttur hdl., 695.640 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.