Hæstiréttur íslands
Mál nr. 68/2001
Lykilorð
- Félag
- Skuldabréf
- Umboð
- Skaðabætur
- Málsástæða
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 21. júní 2001. |
|
Nr. 68/2001. |
Sigurður Örn Sigurðsson(Einar Gautur Steingrímsson hrl.) gegn Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. (Friðjón Örn Friðjónsson hrl.) |
Félög. Skuldabréf. Umboð. Skaðabætur. Málsástæður. Frávísun máls frá héraðsdómi.
P gaf út skuldabréf til SÍ. Síðar var gerð yfirlýsing um skuldskeytingu þar sem sagði að greiðandi skuldarinnar skyldi eftirleiðis vera Y ehf. Ritaði S undir yfirlýsinguna „pr.pr.” Y. SÍ höfðaði mál á hendur S og krafði hann um greiðslu samkvæmt skuldabréfinu. Reisti SÍ kröfu sína aðallega á þeirri málsástæðu að tilvist Y hefði liðið undir lok áður en S ritaði undir yfirlýsinguna, er Y var afmáð úr fyrirtækjaskrá. Með því hefði S orðið persónulega ábyrgur fyrir greiðslu skuldarinnar. F, sem tók við aðild málsins af SÍ, hélt því hins vegar aðallega fram fyrir Hæstarétti að S hefði ekki haft heimild til að skuldbinda félagið Y eða að það hefði aldrei verið til í þeirri mynd að unnt væri að baka því skuldbindingar að lögum. Byggði hann því ekki nema að óverulegu leyti á þeim málsástæðum sem málsóknin hefði verið reist á samkvæmt héraðsdómsstefnu. Var málatilbúnaður F því talinn vera svo á reiki að ekki varð hjá því komist að vísa málinu frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. febrúar 2001. Hann krefst þess aðallega að kröfu stefnda á hendur sér verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins á það rætur að rekja til þess að Pétur Júlíusson gaf út verðtryggt skuldabréf 28. október 1996 til Samvinnusjóðs Íslands hf. fyrir 3.493.136 krónum, sem skyldu greiðast ásamt nánar tilteknum vöxtum með 60 jöfnum mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 2. desember 1996. Til tryggingar skuldinni var sett að veði bifreiðin ON 078 af gerðinni Dodge árgerð 1994. Með yfirlýsingum Péturs og Samvinnusjóðs Íslands hf. 12. og 13. desember 1996 var veði létt af þessari bifreið, en í hennar stað voru settar að veði tvær bifreiðir, annars vegar ZZ 467 af gerðinni Lexus árgerð 1994 og hins vegar JI 088 af gerðinni Nissan árgerð 1988.
Vanskil munu hafa orðið á afborgunum af framangreindri skuld allt frá fyrsta gjalddaga. Hinn 26. júní 1997 var gerð yfirlýsing um skuldskeytingu og breytingu á skilmálum skuldabréfsins. Samkvæmt henni voru gjaldfallnar afborganir, verðbætur, vextir og dráttarvextir lagðir við ógjaldfallnar eftirstöðvar skuldarinnar. Nam hún þannig reiknuð 3.651.973 krónum. Var samið um að sú fjárhæð skyldi verðtryggð og greiðast Samvinnusjóði Íslands hf. ásamt vöxtum með 60 mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 2. ágúst 1997. Í skjalinu sagði jafnframt eftirfarandi: „Greiðandi skuldarinnar skal eftirleiðis vera Yrkja ehf. kt. 430292-2349 til heimilis að Suðurlandsbraut 46, 108 Reykjavík.“ Ritaði áfrýjandi nafn sitt undir þessa yfirlýsingu „pr.pr. Yrkju“. Hún var jafnframt undirrituð af hálfu Samvinnusjóðs Íslands hf., svo og Pétri Júlíussyni um „samþykki þingl. eiganda“. Ekki var greitt af skuldinni eftir þessar breytingar. Bifreiðirnar, sem stóðu að veði fyrir henni, voru seldar nauðungarsölu 30. janúar og 22. maí 1999. Af söluverði annarrar þeirrar fékk Samvinnusjóður Íslands hf. úthlutað 1.219.659 krónum, en af söluverði hinnar 92.071 krónu. Lét hann þær fjárhæðir samanlagðar ganga til greiðslu bankakostnaðar, dráttarvaxta og innheimukostnaðar af skuldinni.
Samvinnusjóður Íslands hf. höfðaði mál þetta gegn áfrýjanda með stefnu 27. desember 1999 til heimtu höfuðstól skuldarinnar, eins og honum var breytt með áðurnefndri yfirlýsingu 26. júní 1997, ásamt áföllnum verðbótum og umsömdum vöxtum af skuldinni fyrir tímabilið 26. júní til 2. ágúst 1997, en alls nam stefnukrafan þannig 3.699.586 krónum. Ekki er deilt um þá fjárhæð í málinu. Undir rekstri þess fyrir héraðsdómi tók stefndi við réttindum og skyldum Samvinnusjóðs Íslands hf. og þar með aðild að því.
II.
Fyrir liggur í málinu að 16. janúar 1992 var hjá Hagstofu Íslands sótt um að Skógræktarfélagið Yrkja fengi kennitölu. Í umsókninni, sem virðist hafa verið rituð á stöðluðu eyðublaði hagstofunnar, sagði að tilgangur félagsins væri skógrækt, en að því stæði Sala og markaður hf., sem jafnframt væri „ábyrgðarmaður“ þess. Áfrýjandi undirritaði umsóknina í nafni Sölu og markaðar hf. Samkvæmt framkomnum gögnum var hlutafélagaskrá tilkynnt 3. febrúar 1991 að áfrýjandi væri einn stjórnarmaður í því félagi, hinn 7. mars 1992 að á hluthafafundi 15. janúar sama árs hefðu tveir nafngreindir menn aðrir en áfrýjandi verið kjörnir í stjórn þess, en 23. júní 1992 að í síðastnefndri tilkynningu hefðu orðið mistök, þar sem áfrýjandi ásamt öðrum tilgreindum manni sæti í stjórninni. Með bréfi þeirra beggja 26. nóvember 1993 var hlutafélagaskrá tilkynnt að þeir hefðu sagt sig úr stjórn félagsins og látið af öllum trúnaðarstörfum fyrir það. Verður ekki séð af gögnum málsins að tilkynnt hafi verið eftir þetta um aðra stjórnarmenn í þeirra stað. Bú Sölu og markaðar hf. var tekið til gjaldþrotaskipta 8. apríl 1994. Lauk skiptum á þrotabúinu 3. janúar 1997 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur.
Samkvæmt bréfi Hagstofu Íslands 31. október 2000 til stefnda var Skógræktarfélagið Yrkja fellt úr fyrirtækjaskrá 5. maí 1997. Um ástæðuna fyrir því var vísað til þess að 3. janúar 1997 hafi skiptum verið lokið á þrotabúi Sölu og markaðar hf. Sagði síðan eftirfarandi: „Félög sem enginn stendur að eru ekki talin starfandi og þ.a.l. afskráð í fyrirtækjaskrá. Þar sem eini ábyrgðaraðili og aðstandandi Skógræktarfélagsins Yrkju var ekki lengur á skrá var það mat fyrirtækjaskrár að félagið væri ekki lengur starfandi og var það afskráð í fyrirtækjaskrá ... “. Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi hélt áfrýjandi því fram í héraði að Skógræktarfélagið Yrkja hefði ekki hætt starfsemi á þeim tíma, sem hér um ræðir, og væri það enn starfandi. Því til stuðnings lagði hann fram ársreikning fyrir félagið vegna ársins 1999 og yfirlýsingu 2. febrúar 2000, undirritaða af honum og Rúnari G. Sigurðssyni sem stjórnarmönnum í félaginu, en þar var meðal annars tekið fram að áfrýjandi hefði haft umboð til að skuldbinda félagið með áðurgreindri yfirlýsingu 26. júní 1997.
Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt fjölda nýrra gagna varðandi Skógræktarfélagið Yrkju, þar á meðal stofnsamning, stofnfundargerð og samþykktir, allt dagsett 12. júlí 1991, og stuttorðar fundargerðir frá aðalfundum í félaginu árin 1996 til 1999. Þessi gögn eru ýmist undirrituð af áfrýjanda einum eða honum og áðurnefndum Rúnari báðum.
III.
Leggja verður þann skilning í héraðsdómsstefnu að Samvinnusjóður Íslands hf. hafi reist kröfu sína á hendur áfrýjanda aðallega á þeirri málsástæðu að tilvist Skógræktarfélagsins Yrkju hafi liðið undir lok þegar það var afmáð úr fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands 5. maí 1997. Þar með hafi áfrýjandi gefið út áðurgreinda skuldbindingu 26. júní 1997 fyrir félag, sem var ekki lengur til. Um þetta hafi áfrýjanda verið kunnugt og bæri honum af þeim sökum sjálfum að greiða skuldina. Því var og haldið fram í stefnu að áfrýjandi hafi ekki haft umboð til að skuldbinda félagið, það hafi ekki verið „starfrækt í samræmi við uppgefinn tilgang“ þess og um væri að ræða saknæma háttsemi, sem áfrýjandi bæri ábyrgð á, en af öllum þeim ástæðum væri áfrýjandi persónulega ábyrgur fyrir skuldinni. Að því leyti, sem máli skiptir um þetta, var í stefnunni vísað um lagarök til almennra reglna kröfuréttar og samningaréttar um greiðslu fjárskuldbindinga og II. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Í þinghaldi fyrir héraðsdómi 28. apríl 2000 var fært til bókar eftir lögmanni, sem þá hafði tekið við málinu af hálfu Samvinnusjóðs Íslands hf., að hann mótmælti þeirri skoðun áfrýjanda að málatilbúnaður þess fyrrnefnda væri eingöngu reistur á því að áfrýjandi væri skuldari samkvæmt skuldabréfi, heldur væri „ábyrgðin ... ennfremur reist á skaðabótasjónarmiðum sbr. tilvísun í stefnu til saknæmrar háttsemi stefnda.“
Í greinargerð stefnda fyrir Hæstarétti segir um málsástæður að byggt sé á því að áfrýjandi ábyrgist gagnvart stefnda að hafa haft heimild til að skuldbinda Skógræktarfélagið Yrkju með skuldskeytingu, að það félag hafi verið til og um persónu að lögum hafi verið að tefla, sem hafi verið bær til að stofna til skuldbindinga. Að öðrum kosti verði að líta svo á að áfrýjandi „hafi tekið á sig persónulega ábyrgð á skuldskeytingunni og/eða bakað sér bótaábyrgð gagnvart stefnda.“ Vísað var og til þess að í meginmáli skjalsins 26. júní 1997 hafi Yrkja ehf. verið tilgreint sem nýr skuldari. Hafi stefndi mátt treysta að farið hefði verið að lögum við stofnun og skráningu þess einkahlutafélags, en með því að það hafi aldrei verið til beri áfrýjandi persónulega ábyrgð á skuldinni, sbr. 10. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Jafnframt væri vefengt að Skógræktarfélagið Yrkja hafi verið til sem félag þegar áfrýjandi ritaði undir umrætt skjal, en um það væri vísað til forsendna héraðsdóms og röksemda í héraðsdómsstefnu. Verði litið svo á að þetta félag hafi verið til sem skógræktarfélag 26. júní 1997 markist réttarstaða þess af starfsreglum þess og tilgangi, svo og grunnreglum um almenn félög. Af hendi áfrýjanda hafi gögn um fyrrnefndu atriðin ekki komið fram undir rekstri málsins fyrr en í Hæstarétti, en þau vefengi stefndi, sem telji þau ótrúverðug og gerð til málamynda. Hafi verið stofnað til skuldarinnar, sem um ræðir í málinu, í tengslum við kaup dýrrar fólksbifreiðar, sem áfrýjandi hafi staðið að í eigin þágu, en þau geti ekki varðað starfsemi skógræktarfélags, sem nánast sé tekjulaust og eignalaust. Í raun hafi áfrýjandi ekki ritað undir skjalið 26. júní 1997 fyrir lögaðila eða persónu að lögum, sem sé bær um að taka á sig skuldbindingu, en hafi félagið verið til á þeim tíma bendi gögn málsins til að starfsemi þess hafi verið óskipulögð og óformleg. Væri mótmælt að skipulagsbundin eining hafi myndast um málefni og fjármuni félagsins, svo og að formleg stjórn hafi verið kjörin og starfað á grundvelli samþykkta eða stofnsamnings. Þá væri einnig mótmælt að áfrýjandi hafi haft umboð til að skuldbinda félagið, en fyrir því beri hann sönnunarbyrði, sem ekki hafi verið fullnægt með áðurnefndri yfirlýsingu 2. febrúar 2000. Beri áfrýjandi því persónulega ábyrgð á skuldinni vegna ákvæðis 25. gr. laga nr. 7/1936. Loks hélt stefndi fram að áfrýjandi hafi bakað sér tjón með sviksamlegri háttsemi.
Af framangreindu verður ráðið að fyrir Hæstarétti byggir stefndi ekki nema að óverulegu leyti á þeim málsástæðum, sem málsóknin var reist á samkvæmt héraðsdómsstefnu. Verður ekki litið fram hjá því að í upphaflegum málatilbúnaði stefnandans í héraði var gagngert haldið fram að Skógræktarfélagið Yrkja hafi ekki lengur verið til eftir að Hagstofa Íslands máði það af fyrirtækjaskrá 5. maí 1997. Í framangreindum röksemdum stefnda fyrir Hæstarétti virðist á hinn bóginn að meira eða minna leyti hafa verið horfið frá þessari meginröksemd fyrir málsókn á hendur áfrýjanda og þess í stað haldið fram ýmist að hann hafi ekki haft heimild til að skuldbinda félagið 26. júní 1997 eða að félagið hafi aldrei verið til í þeirri mynd að unnt væri að baka því skuldbindingar að lögum. Þá er og á reiki hvort stefndi reisi kröfu sína á því að áfrýjandi beri sjálfkrafa persónulega ábyrgð á skuldinni við stefnda vegna þeirra atvika, sem áður greinir, eða að áfrýjandi hafi með þessu bakað sér skaðabótaskyldu. Eins og málið liggur nú fyrir verður að fallast á með áfrýjanda að stefndi hafi raskað verulega þeim grundvelli, sem málinu var lagður með héraðsdómsstefnu, auk þess sem málsástæður, sem hann byggir nú öðrum fremur á, séu í ýmsum atriðum í mótsögn við þær, sem upphaflega var haldið fram. Að því gættu hefur málatilbúnaður stefnda verið svo á reiki að ekki verður komist hjá að vísa málinu frá héraðsdómi.
Í ljósi atvika málsins er rétt að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af því í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2001.
Mál þetta sem dómtekið var 31. október sl., er höfðað með stefnu þingfestri 13. janúar 2000 af Samvinnusjóði Íslands hf., Sigtúni 42, Reykjavík gegn Sigurði Erni Sigurðssyni, Neðstaleiti 28, Reykjavík.
Dómkröfur
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefnda verði gert að greiða skuld að fjárhæð 3.699.586 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum, frá 4. janúar 1999 til greiðsludags.
Þess er krafist að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta skipti 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxtanna.
Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt mati réttarins, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu.
Málavextir og málsástæður
Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á skuldabréfi útgefnu í Reykjavík hinn 28. október 1996 af Pétri Júlíussyni, kt. 210359-7299, Reyrengi 6, Reykjavík, til Samvinnusjóðs Íslands hf. Skuldabréfið var tryggt með veði í bifreiðinni ON-078, sem er af gerðinni Dodge Stealth r/t turbó 4x4, árgerð 1994, á l. veðrétti. Bréfið var að höfuðstól 3.493.136 krónur og skyldi það greiðast með 60 jöfnum afborgunum, á eins mánaðar fresti, fyrst 2. desember 1996. Vextir skyldu vera meðalvextir Seðlabanka Íslands af höfuðstól skuldarinnar eins og hann væri hverju sinni. Vextir skyldu reiknast frá og með 28. október 1996. Skuldin var bundin vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu 178,4.
Stefnandi lýsir málavöxtum nánar svo að hinn 12. desember 1996 hafi verið gerður veðflutningur og veðbandslausn og hafi veðið verið flutt af bifreiðinni ON-078 yfir á bifreiðina ZZ-467, sem sé af gerðinni Lexus, árgerð 1994, á 1. veðrétt.
Hinn 13. desember 1996 hafi enn verið gerður veðflutningur og veðbandslausn og skyldi veðið flutt af bifreiðinni ON-078 yfir á bifreiðina JI-088, sem sé af gerðinni Nissan Praire, árgerð 1988, á 1. veðrétt. Í raun hafi verið um viðbótarveðtryggingu að ræða en ekki veðbandslausn sem þegar hafi farið fram.
Þann 26. júní 1997 hafi verið gerð skuldskeyting og skilmálabreyting á veðskuldabréfi nr. 801757. Ekkert hafi þá verið greitt af skuldinni frá fyrsta gjalddaga. Uppgreiðsluverð skuldabréfsins hafi þá verið 3.651.973 krónur. Nýr greiðandi skyldi vera Yrkja, kt. 430292-2349, til heimilis að Suðurlandsbraut 46, Reykjavík. Fyrir hönd nýs greiðanda ritaði pr.pr. stefndi, Sigurður Örn Sigurðsson. Lánið skyldi greiðast með 60 mánaðarlegum afborgunum, fyrst 2. ágúst 1997 og vextir skyldu vera óbreyttir og grunnvísitala skyldi vera 179,4.
Vanskil hafi orðið strax við fyrstu greiðslu samkvæmt skilmálabreytingunni, eða þann 2. ágúst 1997. Þann 30. janúar 1999 hafi bifreiðin ZZ-467 verið seld nauðungarsölu. Þann 18. mars 1999 hafi sýslumaðurinn í Reykjavík úthlutað nauðungarsöluverðmætinu sem hafi komið til innborgunar á skuldina þann 23. mars 1999, 1.219.659 krónur. Af því fé fóru 867.353 krónur upp í dráttarvexti frá 2. ágúst 1997 til 12. desember 1998, 279.798 krónur til greiðslu á innheimtukostnaði og 7.597 krónur til greiðslu á dráttarvöxtum á innheimtukostnað, 57.921 krónur til greiðslu á virðisaukaskatti á innheimtukostnað og 6.990 krónur til greiðslu á bankakostnaði.
Þann 22. maí 1999 hafi bifreiðin JI-088 verið seld nauðungarsölu. Sýslumaðurinn í Reykjavík hafi úthlutað nauðungarsöluverðmætinu 8. júní 1999 sem hafi komið til innborgunar á skuldina þann 21. júní 1999, 92.071 króna. Af því hafi 36.835 krónur farið upp í dráttarvexti af 3.699.586 krónum frá 12. desember 1998 til 4. janúar 1999, og 50.723 krónur til greiðslu á innheimtukostnaði og 1.383 krónur til greiðslu á dráttarvöxtum á innheimtukostnað frá 23. mars 1999 til 21. júní 1999 og 3.130 krónur til greiðslu á virðisaukaskatti á innheimtukostnað.
Sótt hafi verið um kennitölu hjá Hagstofu Íslands fyrir félagasamtökin Yrkju, skógræktarfélag, þann 16. janúar 1992. Yrkja hafi verið felld af fyrirtækjaskrá 18. júlí 1994, eða tæpum þremur árum áður en stefndi hafi ritað undir í nafni félagsins til skuldbindingar á fyrrnefndri skuld eða þann 26. júní 1997.
Með forráð félagasamtaka Yrkju fór Sala og markaður ehf., kt. 540289-1159, Garðastræti 6, en Sala og markaður hf. hafi verið stofnað þann 4. febrúar 1989. Þann 14. nóvember 1990 hafi Sala og markaður hf. verið framselt til Fjárskipta hf., kt. 470789-5229.
Þann 16. nóvember 1990 hafi verið send tilkynning til hlutafélagaskrár um framsal hlutabréfa og tilkynning um nýja stjórn. Stjórn félagsins Sölu- og markaðar hf., hafi þá skipað Sigurður H. Garðarsson, kt. 150357-2179, sem formaður, Sigurður Örn Sigurðarson, kt. 110759-3209 og Heimir Davíðsson, kt. 1206-84419, sem meðstjórnendur.
Samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár, dags. 3. febrúar 1991, hafi verið kosin ný stjórn félagsins Sölu- og markaðar hf. þann dag og skyldi Sigurður Örn Sigurðsson vera stjórnarformaður og Sigurður H. Garðarsson varamaður. Aðrir hafi vikið úr stjórn.
Með tilkynningu til hlutafélagaskrár, dags. 6. apríl 1992, hafi Sigurður Örn Sigurðsson og Sigurður H. Garðarsson sagt sig úr stjórn Sölu og markaðar hf., auk þess sem þeir hafi sagt af sér öllum trúnaðarstörfum fyrir félagið. Samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár, dags. 7. mars 1999, hafi ný stjórn verið skipuð 15. janúar 1992 og skyldi Hilmar Garðarsson vera formaður og Ágústína G. Pálmarsdóttir, sem sé eiginkona stefnda, vera varamaður.
Leiðrétting vegna mistaka hafi verið send til hlutafélagaskrár þann 23. júní 1992 frá Sölu og markaði hf. þess efnis að ranglega hefði verið tilkynnt um nýja stjórn frá 15. janúar 1999, þ.e. Ágústína og Hilmar, hafi ekki átt að vera í stjórn. Stjórn félagsins hafi skipað Sigurður Örn Sigurðsson og Sigurður Garðarsson og tveir stjórnarmenn skyldu rita firmað.
Með yfirlýsingu til hlutafélagaskrár, dags. 26. nóvember 1993, hafi Sigurður Örn Sigurðsson og Sigurður Garðarsson lýst sig úr stjórn Sölu og markaðar hf. og hafi sagt af sér öllum trúnaðarstörfum fyrir félagið. Ekki hafi verið tilkynnt um nýja stjórnarmenn félagsins.
Tæpum fjórum árum eftir síðastnefnda yfirlýsingu eða þann 26. júní 1997 hafi verið gerð skuldskeyting og skilmálabreyting á veðskuldabréfi því sem hér um ræði nr. 801757. Nýr skuldari skyldi vera Yrkja, kt. 430292-2349.
Fyrir hönd Yrkju hafi stefndi, Sigurður Örn Sigurðsson, kt. 110759-3209, undirritað án sannanlegs prókúruumboðs og heimildar félagsins Yrkju sem hafi verið fellt af skrá 18. júlí 1994 og afmáð úr fyrirtækjaskrá 5. maí 1997, auk þess sem fyrirsvarsaðili Yrkju, þ.e. Sala og markaður ehf., hafi fyrir löngu verið úrskurðað gjaldþrota og afmáð úr fyrirtækjaskrá eða þann 4. febrúar 1997.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda, Sigurði Erni Sigurðssyni, á því að hann hafi skuldbundið félag, sem ekki var starfandi, tæpum fjórum árum eftir að hann hafi sagt sig úr stjórn félagsins, sbr. áðurnefnda yfirlýsingu. Félagið hafi þegar verið búið að fella af skrá og afmá. Stefndi hafi ritað undir skuldskeytingu vitandi það að fyrirtækið væri ekki lengur starfrækt og því augljóst að engar greiðslur kæmu frá félaginu sjálfu. Stefndi hafi, auk fyrrgreinds, ekki haft umboð til að skuldbinda Yrkju og því beri stefnda að greiða skuldina.
Séu félagasamtök, sem Yrkja hafi verið, ekki starfrækt í samræmi við uppgefinn tilgang félagsins þá verði þeir sem standi að félaginu, og með það fara, persónulega ábyrgir fyrir skuldum þess.
Þar sem búið hafi verið að fella Yrkju, skógræktarfélagið, af skrá og félagið í raun ekki lengur til beri stefndi persónulega ábyrgð á skuldinni þar sem hann undirriti skuldskeytinguna.
Hér sé um saknæma háttsemi að ræða sem stefndi ber ábyrgð á og líti stefnandi svo á að stefndi sé persónulega ábyrgur fyrir greiðslu á skuldinni samkvæmt veðskuldabréfinu.
Eftirstöðvar höfuðstólsins þann 4. janúar 1999 hafi verið 3.651.973 króna verðbætur af höfuðstól frá júní 1997 til ágúst 1997 (180,1/179,4), 14.250 krónur, og samningsvextir frá 26. júní 1997 til 2. ágúst 1997, 33.363 krónur, eða samtals 3.699.586 krónur, sem sé stefnufjárhæðin. Dráttarvaxtakrafan miðist við þann 4. janúar 1999. Innheimtutilraunir hafi ekki borið árangur á hendur stefnda og sé því málsókn þessi óhjákvæmileg.
Stefnandi byggir kröfur sínar á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um greiðslu fjárskuldbindinga og II. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Krafa um virðisaukaskatt er byggð á lögum nr. 50/1988 en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.
Málsástæður stefnda og lagarök
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að málatilbúnaður stefnanda sé reistur á því eingöngu að stefndi sé skuldari samkvæmt skuldabréfi, þ.e. á bréfinu sjálfu. Stefndi hafi ekki tekið persónulega á sig að gerast skuldari bréfsins og stefnandi hafi ekki byggt á neinni þeirri málstæðu sem að lögum geti leitt til þeirrar niðurstöðu. Til þess skorti réttarheimild.
Rangt sé að félagasamtökin Yrkja séu ekki til. Félagsfundur hafi ekki slitið félaginu og félagið sé með fulla starfsemi. Félag þetta hafi heldur ekki verið leyst upp samkvæmt 74. gr. laga nr. 33 frá 17. júní 1944, sbr. lög nr. 97/1995. Gildi þetta þótt fallist væri á allar staðhæfingar stefnanda í stefnu að öðru leyti. Samkvæmt hinu tilgreinda ákvæði sé Hagstofu Íslands bannað að leysa upp félög enda hafi Hagstofan ekki gert slíkt. Stefndi og Rúnar G. Sigurðsson, kt. 140956-4659, hafi á þessum tíma skipað stjórn Yrkju. Því er mótmælt að stefndi hafi ekki haft umboð til að skuldbinda félagið eða að Yrkja samþykki ekki þá skuldbindingu sem framkvæmd hafi verið. Þvert á móti telji félagið sig skuldbundið, sbr. framlagða yfirlýsingu stjórnar Yrkju, dags. 2. febrúar 2000.
Niðurstaða
Upplýst er að nafni Samvinnusjóðs Íslands hf. hefur verið breytt í Frjálsa fjárfestingabankann hf.
Fram er komið að hinn 4. febrúar 1989 var félagið Sala og markaður hf. stofnað og stjórn mynduð. Á næstu árum urðu breytingar á stjórninni, eins og rakið er hér að framan.
Samkvæmt gögnum málsins var stefndi, Sigurður Örn Sigurðsson, skipaður í stjórn Sölu og markaðar 16. nóvember 1990 en hann sagði sig úr stjórninni ásamt Sigurði Garðarsskyni 26. nóvember 1993. Ekki liggur fyrir að að tilkynnt hafi verið um nýja stjórnarmenn.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 8. apríl 1994 var bú Sölu og markaðar hf. tekið til gjaldþrotaskipta. Var skiptum lokið 3. janúar 1997 án þess að greiðsla fengist upp í kröfur sem voru að fjárhæð 16.783.312 krónur auk áfallinna vaxta og kostnaðar. Samkvæmt vottorði þjóðskrár var Sala og markaður hf. fellt af fyrirtækjaskrá 4. febrúar 1997.
Hinn 16. janúar 1992 sótti félagið um kennitölu fyrir Skógræktarfélagið Yrkju og kemur fram í umsókninni að Sala og markaður hf. standi að félaginu. Tilgangur félagsins skyldi vera skógrækt.
Samkvæmt bréfi Hagstofu Íslands, dags. 31. október 2000, var Yrkja skógræktarfélag afskráð í fyrirtækjaskrá 5. maí 1997 þar sem eini ábyrgðaraðili og aðstandandi Yrkju var ekki lengur á skrá og því litið svo á að félagið væri ekki starfandi.
Eftir að eini ábyrgðaraðili Yrkju, Sala og markaður hf., var orðinn gjaldþrota og hafði verið tekinn út af fyrirtækjaskrá skrifaði stefndi, Sigurður Örn Sigurðsson, hinn 26. júní 1997, fyrir hönd Yrkju, undir skuldskeytingu og skilmálabreytingu vegna veðskuldabréfs, sem útgefið var af Pétri Júlíussyni og skyldi greiðandi skuldarinnar eftirleiðis vera Yrkja ehf. Var uppgreiðsluverð þess 3.651.973,10 krónur.
Stefndi heldur því fram, eins og áður greinir, að stefndi hafi með undirritun sinni ekki verið að taka á sig persónulega ábyrgð á skuldinni enda hafi félagið Yrkja ekki verið leyst upp og sé ennþá til.
Til stuðnings þeim fullyrðingum sínum hefur stefndi lagt fram yfirlýsingu tveggja stjórnarmanna Yrkju, dags. 2. febrúar 2000, um að þeir kannist við umboð og heimild stefnda til að skuldbinda félagið á árinu 1997. Þá hefur verið lagður fram óendurskoðaður ársreikningur Yrkju 1999, þar sem að engu er getið þeirrar skuldar er mál þetta snýst um.
Umsókn Sölu og markaðar hf. um kennitölu fyrir Yrkju til Hagstofu Íslands er eina gagnið í máli þessu sem sem varðar stofnun þessa félags. Ekki þykir sýnt fram á að nein starfsemi hafi farið fram á vegum félagsins eða að einhver skipulagsbundin eining hafi verið um starfsemi þess. Þá liggur ekki fyrir að stjórn hafi verið skipuð eða að félagið hafi átt réttindi eða borið skyldur. Óstaðfest yfirlýsing tveggja meintra stjórnarmanna á árinu 2000 um heimild stefnda til að skuldbinda félagið á árinu 1997 og óendurskoðaður ársreikningur 1999 þykja ekki styðja fullyrðingar stefnda í málinu.
Samkvæmt framansögðu hafa engin haldbær gögn verið lögð fram í máli þessu er sýna fram á að Yrkja hafi verið til sem félag 26. júní 1997. Þegar stefndi undirritaði skuldskeytingu og skilmálabreytingu þann dag tókst hann, með undirritun sinni, því persónulega á hendur ábyrgð á greiðslu þeirrar skuldar sem upphaflega var samkvæmt veðskuldabréfi útgefnu af Pétri Júlíussyni og áður er rakið.
Samkvæmt framansögðu verða kröfur stefnanda á hendur stefnda því teknar til greina enda er enginn ágreiningur um fjárhæðir í máli þessu.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 400.000 krónur.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Sigurður Örn Sigurðsson, greiði stefnanda, Frjálsa fjárfestingabankanum hf. 3.699.586 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 4. janúar 1999 til greiðsludags og 400.000 krónur í málskostnað.